Nýlega barst mér í hendur þessi pistill um Birgi Andrésson, sem ég mun hafa skrifað í tilefni sýningar hans í Gallerí i8 í kringum aldamótin 2000. Ég hafði ekki séð textann síðan hann var skrifaður. Á sýningunni voru "skápar" Birgis með með lokuðum hólfum málaðir í "íslenskum litum" og litografíur hans af íslenskum frímerkjum frá þjóðhátíðarafmælinu 1930. Sýningin varð mér tilefni til að vitna í hina snjöllu ritgerð Ronald Barthes "Goðsagan á okkar tímum" sem hann birti í ritgerðasafninu "Mythologies" frá 1957.
Skápar íslensku goðsögunnar
Besta vopnið gegn goðsögunni er trúlega að goðgera hana og skapa gervigoðsögn: þessi enurgerða goðsögn mun taka á sig mynd raunverulegrar goðafræði. Þar sem goðsögnin lifir og nærist á tungumálinu, því þá ekki að mergsjúga goðsögnina sjálfa?
Roland Barthes
Eitt mikilvægasta viðfangsefni myndlistar nýliðinnar aldar var markviss rannsókn á eiginleikum og virkni sjálfs myndmálsins: í stað þess að sýna okkur mynd af heiminum eins og hann lítur út hafa myndlistarmennirnir hneigst til þess að sýna okkur mynd af því myndmáli sem við notum í samskiptum okkar við heiminn. Þeir hafa krufið áleitnar spurningar um hvernig þetta mál getur öðlast merkingu og jafnframt hvernig það glatar merkingu sinni eða öðlast nýja.
Birgir Andrésson hefur frá upphafi unnið í þessum anda. Rannsóknir hans hafa beinst að sambandi myndmáls og talmáls og tengslum sjónskyns og hugsunar. Jafnframt hafa rannsóknir hans beinst að hinni félagslegu og samfélagslegu hlið myndmálsins; hvernig til verður myndmál og form, sem af einhverjum ástæðum verða einkennandi fyrir tiltekið samfélag eða tiltekinn samfélagshóp. Viðfangsefni sín hefur Birgir fundið í sínu nánasta umhverfi og unnið úr þeim út frá þeirri persónulegu reynslu að vera þátttakandi í íslensku samfélagi á ofanverðri 20. öldinni og vera alinn upp af foreldrum sem bæði voru blind. Birgir þurfti því frá barnæsku að glíma við hin flóknu tengsl sjónskyns, hugsunar og talaðs máls. Hann skynjaði fljótt að sjónskyn okkar er ekki bundið við augun ein, heldur umbreytum við öllu því sem við sjáum, – hvort sem það er með augunum eða fyrir hugskotssjónum okkar – í tákn og merkingar sem túlkaðar eru af hugsuninni og fá á endanum form í hinu talaða máli. Skilgreining okkar á merkingu myndmálsins er að stórum hluta samkomulagsatriði er ræðst af ytra samhengi á hverjum tíma, sem er ekki síst samfélagslegt.
Þau verk sem Birgir sýnir nú í Gallerí I8 eru byggð á frímerkjum sem gefin voru út af íslensku póstþjónustunni á 5. áratugnum og sýna styttu Einars Jónssonar af Þorfinni Karlsefni, Heklugosið, Geysi og Eiríksjökul. Það er þó ekki myndefnið sjálft sem við sjáum í verkum Birgis, heldur formið eða rammann, sem myndirnar eru felldar inn í. Úr þessu formi hefur Birgir smíðað skápa með lokuðum hólfum sem síðan eru málaðir í þeim litum, sem Birgir kallar „íslenska liti“, væntanlega til aðgreiningar frá „erlendum“ litum. Skápar þessir eiga sér hliðstæðu í annarri skáparöð, sem Birgir vann út frá formgerð frímerkja sem voru gefin út í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.
Það sem þessi frímerki eiga sameiginlegt er goðsöguleg upphafning þeirra fyrirbæra, sem myndirnar sýna, í anda þeirrar þjóðernishyggju sem ríkti á Íslandi áratugina fyrir lýðveldisstofnunina. Stytta Einars Jónssonar af Þorfinni Karlsefni mun hafa verið á heimssýningunni í New York 1939, og mun enn standa í Philadelphiu í Bandaríkjunum sem minnisvarði um landafundi norrænna víkinga í Vesturheimi. Stytta þessi stendur keik á frímerkinu, rétt eins og gosstrókurinn úr Geysi, og Heklugosið lýsir upp næturmyrkrið eins og kraftbirting með sama hætti og birtan af heiðum skalla Eiríksjökuls. Þessar myndir sýna ekki bara þau fyrirbæri, sem hér um ræðir, heldur túlka þær fyrirbærin með upphöfnum hætti til þess að gefa Íslandi og íslensku þjóðinni yfirbragð hetjulundar og töfraljóma. Þau eru liður í þeirri goðsögn sem Íslendingar gerðu um land sitt og sögu á síðustu áratugunum fyrir lýðveldisstofnunina.
Sú goðsaga um Ísland, sem mótuð var af þeirri kappsmiklu kynslóð, sem stundum er kennd við aldamótin 1900, var kannski ekki í miklum tengslum við raunveruleikann, en hún þjónaði mikilvægum pólitískum tilgangi. Hún fékk þjóðina til að trúa á tilbúna ímynd, og í krafti þeirrar trúar voru ýmis kraftaverk unnin á hinum pólitíska vettvangi um leið og aðrar draumsýnir þessarar kynslóðar reyndust andvana fæddar. Meðal annars draumurinn um ævarandi meydóm fjallkonunnar.
Birgir Andrésson beitir þeirri aðferð við gerð mynda sinna að afhjúpa þessa goðsögn síðustu aldamótakynslóðar með því að tæma hana að innihaldi sínu, en notfæra sér formbyggingu hennar. Myndin á frímerkinu af goshvernum Geysi sýnir okkur að vísu raunverulegt form goshversins í öllu hans veldi, en tilgangur hennar er ekki fyrst og fremst að sýna þetta náttúrufyrirbæri, heldur að yfirfæra þessa orkusprengju yfir á ímynd Íslands og íslensku þjóðarinnar. Myndin segir okkur að á Íslandi búi orka, sem finnist ekki bara í náttúrunni, heldur líka í þjóðinni, og sé af yfirnáttúrulegum toga.
Eins og Roland Barthes hefur bent á, þá er það eðli goðsögunnar að tæma tungumálið að merkingu sinni en notfæra sér form þess sem ílát fyrir nýja og yfirfærða merkingu, sem síðan er boðuð sem óumbreytanlegt náttúrulögmál.
Birgir Andrésson nýtir sér form þessarar goðsagnar með því að taka form frímerkisins bókstaflega eins og arkitektúr gamallar goðsögu, og tæma það af merkingu sinni í bókstaflegum skilningi með því að gera formin að lokuðum hólfum í skáp. Þannig skapar hann nýja goðsögn í öðru veldi, eins konar gervigoðsögn um hin leyndu hólf í íslenskri þjóðarsál og íslenskri myndhugsun.
Liturinn á verkunum undirstrikar merkingu þessarar nýju goðsagnar. „Íslensku“ litirnir eru fyrst og fremst skilgreiningaratriði, en hafa lítið með raunveruleikann að gera frekar en goðsagan. Þeir eru að vísu byggðir á því sem Birgir telur hafa verið litasmekk aldamótakynslóðarinnar, en sá smekkur er jafn óáþreifanlegur og eterinn og merkimiðinn „íslenskur“ jafn óviss og óáreiðanlegur og sá sem jafnt blindir og sjáandi gefa því sem fyrir augu þeirra ber. Skápar Birgis Andréssonar sýna okkur íslensku goðsöguna í öðru veldi um leið og þeir afvopna hana fyrir augunum á okkur.
Ólafur Gíslason