Við höfum verið að fjalla um „mikilvægi hins fagra“ á námskeiði sem nú stendur yfir í fjarkennslu, samvinnuverkefni á vegum Listaháskólans og Háskóla Íslands. „Mikilvægi hins fagra“ er titillinn á frægri ritgerð eftir þýska heimspekinginn Hans Georg Gadamer (1900-2003) sem við erum að lesa. Undirtitill ritgerðarinnar er „Listin sem leikur, tákn og hátíð“. (þessa ritgerð má sjá hér á vefnum í íslenskri þýðingu: https://wp.me/p7Ursx-bx) Þessi undirtitill er til kominn vegna þess að Gadamer finnur ekki fótfestu í fagurfræðinni þegar hann er að rökstyðja mikilvægi hins fagra, og grípur því til mannfræðilegra skýringa á þeim eðlisþáttum „hins fagra“ sem einkenna alla list frá upphafi vega til okkar samtíma og frá bernskunni til ellinnar. Þar er skilgreining hans á „hátíðinni“ athyglisverð, þessum upphafna tíma sem á sér enga tilfallandi og tilviljunarkennda orsök, heldur „gengur í garð“ og stöðvar hina hefðbundnu framrás tíma hversdagsins. Tími innvígslu í mannlegt samfélag, tími hjónabands og barnsfæðingar, skírnar eða nafngiftar, tími kveðjustundar og jarðafarar. Stundir sem marka hrynjandi og takt í lífi mannsins, rétt eins og gangur sólar og himintunglanna. Gadamer segir listreynsluna vera skylda „hátíðinni“, hún leysir upp hina hefðbundnu rás tómstunda og vinnustunda, þessa mælanlega tíma sem allir virðast skuldbundnir, alla leið fram á grafarbakkkann. Þegar við upplifum tónlistarflutning í raun erum við flutt inn í nýja hrynjandi og hin mælanlega rás tómstundanna og vinnustundanna gufar upp, segir Gadamer. Þetta á ekki bara við um tónlistina, heldur allar listgreinar: þær eru andóf gegn mælanlegri framrás tímans, þær færa okkur „fullan tíma“ í líkingu við hátíðina og frelsa okkur undan óstöðvandi færibandi tómstundanna. Þar liggur frelsandi máttur listanna, segir Gadamer. Í framhaldi umfjöllunar okkar um þessar hugleiðingar Gadamers fór ég að lesa aftur bók eftir Giorgio Agamben sem kom út snemma á rithöfundarferli hans, 1978, og fjallar um þessi sömu mál. Bókin heitir „Infanzia e storia“ með undirtitilinn „Distruzione dell‘esperienza e origini della storia“ (Bernska og saga – Eyðilegging reynslunnar og uppruni sögunnar). Þetta er fyrsta bókin sem ég las eftir Agamben, fyrir um það bil 15 árum, og varð til þess að ég reyndi að lesa allt sem ég náði í eftir hann. Upprifjun þessarar bókar var nauðsynleg eftir yfirferðina á Gadamer. Agamben fjallar þarna um bernskuna, leikinn og tímann með sinni alkunnu vísun í söguleg augnablik úr fjarlægri og nálægri fortíð. Agamben er greinilega undir áhrifum Walters Benjamins, og það varð reyndar til þess að ég fór um tíma að lesa þessa höfunda samtímis. Hér á vefsíðunni eru allmargir textar sem ég hef þýtt eftir Agamben og notað við kennslu í listfræðum við Listaháskólann. Einkum úr rilgerðarsöfnunum „L‘uomo senza contenuto“ frá 1994 og „Stanze“ frá 1977. Ritgerðasafnið um bernskuna verðskuldar að vera þýtt á íslensku, en það verður að bíða betri tíma. En ég gat ekki staðist þá freistingu að snúa stuttu en bráðsnjöllu kaflabroti úr þessari mögnuðu bók, en það er lokasennan í ritgerðinni um „Tímann og söguna“. Þessi kafli ber með sér áhrifin frá Benjamin eins og þau birtast m.a. í „Heimspekilegum hugleiðingum um söguna“, sem ég sneri á sínum tíma á íslensku og birti hér á þessari vefsíðu (sjá: https://wp.me/p7Ursx-FN). Þessi texti var eitt af því síðasta sem Walter Benjamin skrifaði áður en hann tók eigið líf þar sem hann var gyðingur á vonlausum flótta undan nasistum í Spánarhlíðum Pírenneafjallanna undir lok stríðsins. Agamben er hér óbeinn þátttakandi í því drama sem var bæði persónulegt og heimspekilegt, en hann skerpir allar áherslur og er mikið niðri fyrir í þessu samtali sínu við uppreisnarmanninn og flóttamanninn um tímann, söguna, frelsið og lífsnautnina.
Til er bein reynsla sem er tiltæk hverjum og einum þar sem nýr skilningur á tímanum gæti opnast. Þessi reynsla á sér svo djúpar rætur í hinu mannlega að forn vesturlensk goðsögn segir hana beinlínis vera fósturjörð mannsins. Hér erum við að ræða um unaðsstund nautnarinnar (piacere). Aristóteles hafði þegar gert sér grein fyrir því að þessi reynsla hefur til að bera nokkuð sem er algjörlega frábrugðið reynslunni af þeim samfellda tíma sem hefur verið mældur og skilgreindur. Í Siðfræði Nikomakkosar skrifar hann: „Form (eidos) nautnarinnar er fullkomið (teleion) í sérhverju augnabliki sínu“, og hann bætir við að ólíkt hreyfingunni þá eigi nautnin sér ekki stað í tíma eða rúmi, heldur sé hún „í sérhverju augnabliki nokkuð sem er heilt og fullmótað.“ Við virðumst hafa gleymt þessum ómælanleika unaðsstundinnar gagnvart hinum mælanlega tíma. Engu að síður var hann svo auðskilinn á miðöldum að heilagur Tómas frá Aquino taldi sig geta andmælt spakmælinu „utrum delectatio sit in tempore“ (sérhver nautn á sinn tíma). Þetta var sami skilningurinn og lá á bak við hina edenlíku draumsýn söngvaskáldanna frá Provence um hina fullkomnu unaðssemd (fin‘amors, joi – njóttu fram í dauðann), því hún var undanskilin hinni mælanlegu stund tímans.
Þetta merkir ekki að nautnin eigi sinn stað í eilífðinni. Reynsla Vesturlandabúa af tímanum er klofin: hún skiptist á milli eilífðarinnar og samfellu hins línulega tíma framvindunnar. Punkturinn þar sem skilin verða og þessi tvö reynslusvið mætast er augnablikið, punktur sem er bæði ómælanlegur og óhöndlanlegur í umfangi sínu. Þetta er skilningur sem gerir að engu sérhverja viðleitni til að ná tímanum á sitt vald. Við þurfum að andmæla þessum skilningi í nafni nautnarinnar sem hinnar upprunalegu víddar mannsins. Hana er hvorki að finna í eilífðinni né í hinu stundlega augnabliki á línulegri framrás tímans, heldur í sögunni.
Þveröfugt við það sem Hegel hélt fram, þá getur sagan einungis haft merkingu fyrir manninn sem hinn upprunalegi staður hamingjunnar. Sjö stundir Adams í Paradís eru í þessum skilningi hinn upprunalegi kjarni sérhverrar sögulegrar reynslu. Þvert ofan í ríkjandi hugmyndafræði þá er sagan alls ekki fólgin í þjónustu mannsins við hinn samfellda línulega tíma, heldur í frelsun mannsins undan honum. Tími sögnnar er kairos (ögurstundin), þar sem frumkvæði mannsins grípur tækifærið og ákvarðar augnablik frelsis síns. Gegn þessum tóma, samfellda og linnulausa tíma hinnar óhefluðu söguhyggju þurfum við að tefla hinum fulla, ósamfellda og endanlega tíma nautnarinnar, rétt eins og við teflum ögurstundum hinnar sönnu sögu gegn tímasamfellu gervisagnfræðinnar.
Hinn sanni sögulegi efnishyggjumaður er ekki sá sem fylgir hinni óendanlegu tímarás samfellunnar í leit að innantómum hillingum framfaranna, heldur sá sem er þess megnugur að stöðva tímann hvenær sem er, því hann ber með sér minninguna um að upprunaleg fósturjörð mannsins er unaðurinn. Það er þessi tími sem menn upplifa í hinum sönnu byltingum, tíminn sem menn hafa ávallt upplifað sem stöðvun tímans eins og Walter Benjamin hefur minnt okkur á, eins og aftenging tímamælisins. Ekki bylting sem kallar fram nýja tímamælingu, heldur eðlisbreytingu tímans (nýja cairologia [nýja mælitækni ögurstundanna]). Það væri örlagaríkasta byltingin og sú eina sem ekki yrði gleypt af endurreisninni. Sá sem á ögurstund unaðsins geymir söguna í minningunni sem sem sína upprunalegu fósturjörð mun innleiða þessa endurminningu í sérhvern hlut, og uppfylla á sérhverju augnabliki þessa minningu: hann er hinn sanni byltingarmaður og hinn sanni sjáandi, frelsaður af tímanum, ekki í árþúsundinu, heldur í núinu.
Giorgio Agamben: Infanzia e storia -Distruzione dell’esperienza e origini della storia. Lokakafli ritgerðarinnar „Tempo e storia – Critica dell’instante e del continuo“, bls 110-111. Útg. Einaudi, Torino 2001.
Forsíðumyndin er rómversk gólfmósaík frá Marche-héraði á Ítalíu frá um 200 e.Kr. Hún sýnir Aion, annan af tveim guðum Grikkja sem stjórnuðu tímanum. Hann stendur inni í dýrahringnum sem sýnir gang himintunglanna. Aion var guð hins "lóðrétta tíma", þess sem Gadamer og Agamben kalla "ómælanlegan og fullan tíma". Það er tími hátíðarinnar sem veitir manninum frelsi frá skyldum hversdagsins. Hnn er líka tími listreynslunnar segir Gadamer. Hanng veitir manninum frelsi frá hinum línulega og "lárétta" tíma hversdagsins. Guð hins "lárétta" tíma sem við mælum í stundum vinnu og tómstunda er hins vegar Cronos. Agamben segir tíma Aions ekki bara tíma hátíðarinnar, heldur sé hann tími lífsnautnarinnar og byltingarinnar. Konan á þessari mynd er Gaia, jarðargyðjan sem markar upphafið, "fósturjörðin", upphaf mannsins sem er stund nautnarinnar, segir Agamben.