EXPRESSÍONISMINN – LISTIN SEM TJÁNING OG GJÖRNINGUR

Þegar ég ákvað fyrir um 10 árum síðan að halda námskeið í Listaháskólanum um expressíónismann þá vildi ég ekki binda mig við hefðbundinn skilning á þessu hugtaki, heldur velta upp spurningum um tjáningu tilfinninga í myndlist í mun víðara samhengi, tjáningu sem við getum fundið í verkum frá forsögulegum tíma steinaldarmenningar í Evrópu, í allri “frumstæðri” myndlist og ekki síst í síðrómverskri klassík, í evrópskum mannesrisma, barokklist og rómantík. En expressíónisminn er venjulega skilgreindur út frá tímabilinu 1895 til 1939 eða þar um bil sem sérstök hreyfing í myndlist hins evrópska módernisma. Hann hlaut því að vera þungamiðja þessa námskeiðs, en um leið illskiljanlegur án þess að litið væri víðar yfir sjóndeildarhringinn og horft út fyrir þá línulegu söguskoðun framfaranna sem einmitt expressíónistarnir höfðu lagt áherslu á að leggja bæri á hilluna.  

Ég þekkti engan texta um expressíonismann sem gat þjónað þessum markmiðum mínum betur en kaflann um þetta tímabil í evrópskri listasögu sem er að finna í þrekvirki ítalska listfræðingsins Giulio Carlo Argan: “L’Arte Moderna 1770/1970”, sem kom út hjá Sansoni útgáfunni í Flórens 1970 og hefur komið út í mörgum útgáfum síðan. Í raun fannst mér ég ekki geta haldið þetta námskeið án þessa texta, og því réðst ég í að þýða þennan kafla um expressíonisma 20. aldar fyrir nemendur mína í Listaháskólanum.  

Giulio Carlo Argan (1909-1992) var í rauninni sá sem opnaði fyrir mér skilning á myndlistinni sem ungur maður þegar ég fór að lesa bækur hans og ritgerðir um myndlist, oft í glímu við tungumálaþröskuldinn. Það var í raun áður en ég áttaði mig á þeim heimspekilega bakgrunni sem hann byggir á sem fræðimaður, áður en ég hafði lesið Maurice Merleau-Ponty, Gaston Bachelard og aðra frumkvöðla fyrirbærafræðinnar í heimspeki, svo ekki sé minnst á Nietzsche, Martin Heidegger eða Hans Georg Gadamer. Ég fann hins vegar strax í þessum skrifum Argans að þau voru sett fram ekki bara af djúpri þekkingu, heldur líka af tilfinningaþrunginni ástríðu, ástríðu sem er eins og undiralda í öllum texta hans og og lýsir ríkri viðleitni til að samtvinna  “augað og andann” eins og Merleau-Ponty orðaði það, og leggja tilvistarlega merkingu í fyrirbæri listarinnar eins og þau komu honum persónulea fyrir sjónir.  

Nýlega lauk ég enn einni umferð í kennslu náskeiðs um Eros í listasögunni, sem ég hef haft á dagská minni um það bil 5 sinnum með hléum undanfarin ár og lyktaði með tilraun tll þess að skapa skilning á samtímanum út frá fornöldinni og goðsagnaheimi hennar. Það var fyrirlestur um “átakavettvang forms og formleysu í myndlistinni” sem ég birti einnig hér á vefnum. Við þá yfirferð varð mér hugsað til námskeiðsins um “Tjáningu og tilvist”í listinni og textans efitr Argan, sem ég notaði þá. Fór að rifja hann upp og sá að hann ætti eðlilega heima hér á safnsíðu minni. Það er skoðun mín að þessi texti Argans gagnist ekki bara til skilnings á því tímabili í menningarsöu Evrópu sem hér er til ufmfjöllunar, heldur geti hann líka hjálpað okkur til að setja íslenska listasögu í víðara samhengi: sögu listamanna á borð við Ásgrím Jónsson,  Finn Jónsson, Jón Stefnásson, Jón Engilblerts, Jóann Briem og Snorra Arinbjanar svo aðeins nokkrir séu nefndir sem koma við þessa sögu. Hér birti ég því þýðingu mína á texta Argans öllu áhugafólki til skemmtunar og fróðleiks. 
Giulio Carlo Argan:

EXPRESSÍÓNISMINN – LISTIN SEM TJÁNING

Þýðing úr bókinni L’arte moderna 1770-1970, útg. af Sansoni, Flórens 1970.

Bls. 278 – 296

Expressíónisminn verður ekki til í andstöðu við ríkjandi strauma nútímahyggju (módernisma) í myndlist, heldur verður hann til innan þessara strauma með viðleitni til að yfirstíga upphafna formfestu (eclettismo) þar sem greinarmunur er gerður á raunverulegri framþróun og þeirri innantómu orðræðu framfaratrúarinnar sem var ríkjandi. Rannsóknin beindist að hinu sérstaka vandamáli tilvistarinnar og hlutverki
listarinnar í því samhengi. Menn vildu víkja af vegi heimsborgarahyggju
módernismans og hefja til vegs hlutstæðari alþjóðahyggju er byggði ekki lengur á útópíu hinna óheftu framfaratrúar (sem hinn “vísindalegi” sósíalismi hafði þegar hafnað). Þess í stað vildu menn yfirstíga þær sögulegu þversagnir sem heimurinn stóð frammi fyrir á díalektískan hátt þar sem eðlilegan upphafspunkt var að finna í hinni þjóðlegu hefð.

Þarna horfðu menn ekki síst til fordæmis Cezanne, en á þessum
tíma var fyrst að renna upp fyrir mönnum hin mikla sögulega þýðing framlags hans til málaralistarinnar. Ef sjónarsvið listarinnar á að falla saman við vitund okkar er ekki lengur hægt að tala um samhljóma sögulega sýn. Þá skipti framlag Van Gogh ekki minna máli í þessari umræðu, en fyrir honum voru listin og veran í heild sinni óaðskiljanleg, þar sem ekki var lengur hægt að gera greinarmun á skynjun og skilningi, efni og anda.

Edvard Munch: Ópið, 1895

Bergson, Nietzsche og expressíonisminn

Tveir helstu hugsuðir þessa tímabils, Bergson og Nietzsche, höfðu í ritum sínum lagt höfuðáherslu á veruna og höfðu með skrifum sínum grundvallarþýðingu bæði fyrir frönsku hreyfinguna sem kennd var við Fauves (Villidýrin) og þá þýsku sem kennd var við Die Brücke (Brúin). Fyrir Bergson er vitundin í sinni ýtrustu merkingu það sama og lífið, ekki einhver óhreyfanleg myndgerving hins raunverulega, heldur samfelld og upptendruð samskipti milli hlutveru og hugveru. Um var að ræða
skapandi lífsvaka (elan vital) sem ákvarðar framvindu fyrirbæranna og hugsunarinnar í einni heild. Hugsunin var vissulega vera fyrir Nietzsche, en þá skilin sem viljinn til að vera í andspyrnu við þann þrönga stakk sem rammi rökhyggjunnar setti manninum, og NIetzsche skildi sem andóf gegn lamandi fargi fortíðarinnar er liggur á verðandi líðandi stundar.
Veran var í þeim skilningi hrein andstæða við söguna.

Þó ekki sé hægt að neita því að hreyfingarnar sem voru kenndar við Les Fauves og Die Brücke hafi tengst þjóðlegum myndlistarhefðum landa sinna, þar sem önnur hreyfingin var greinilega frönsk og hin áberandi þýsk, þá má engu að síður afskrifa þá hugmynd að hér hafi verið um þjóðernislegar hreyfingar að ræða. Litið er til þessara þjóðlegu forsendna með þeim staðfasta ásetningi að yfirstíga þær og skapa nýja myndlistarhreyfingu sem sögulega séð var fyrst og fremst evrópsk. Fauvistahreyfingin hefði aldrei orðið til ef undir lok 19. aldar hefði ekki komið til áhrif úr norðri er byggðu á rómantískum grunni og röskuðu þeirri klassísku þekkingarleit er lá til grundvallar impressíónismanum. Um var að ræða trúarangistina (ekki þá kaþólsku, heldur lúthersku) hjá Van Gogh og þá bölsýnu forlagatrú í anda Kierkegaards sem Edvard Munch stóð fyrir.

Vincent Van Gogh: Kona í víngarðinum 1889

Brücke-hreyfingin hefði aldrei orðið til nema vegna þess að á 19. öldinni í Þýskalandi varð til kenning um listina sem skilgreindi Impressíónismann út frá því sem hann í raun og veru var: ekki einfeldnislegt raunsæi heldur kryfjandi rannsókn á gildum sjónskynsins sem grundvallarforsendu sambandsins á milli hugveru og hlutveru og því sem áþreifanleg en ekki frumspekileg grunnforsenda vitundarinnar.
Frumforsenda expressíónismans, hvort sem hann var undir merkjum Les Fauves eða Die Brücke er díalektísk og endanleg lausn mótsagnarinnar sem felst í klassíkinni annars vegar og rómantíkinni hins vegar. Þar eru þessar stefnur skildar sem grunnforsendur latneskrar Miðjarðarhafsmenningar annars vegar og germanskrar-norrænnar menningar hins vegar.

Henri Matisse, sem var helsti frumkvöðull Fauvistanna, fann lausn á þessum vanda í myndlist sem var í senn upprunaleg, klassísk, goðsöguleg og alþjóðleg um leið. Einmitt þess vegna var hún um leið laus
við allar klassískar sögulegar vísanir. Áhangendur Die Brücke fundu lausnina í rómantík sem þeir skildu sem djúpstæða grunnforsendu mannlegrar tilvistar: angistarfull ákefðin í að höndla raunveruleikann,
angistin gagnvart því að verða leiksoppar þess veruleika sem þeir stóðu andspænis.
Báðar hreyfingarnar reyndu að skilja og leysa á sinn hátt þann vanda sem þær stóðu frammi fyrir. En það að ná að yfirstíga sögulegar mótsagnir merkir ekki það sama og að hefja sig upp yfir söguna, heldur þvert á móti að skynja að saga nútímans er ekki og getur ekki lengur orðið saga einstakra þjóða. Með því að útiloka alla vísun í arfleifð fortíðarinnar nema í þeim skilningi að yfirstíga hana verður hið sameiginlega viðfangsefni þessara hliðstæðu hreyfinga að horfast í augu við samtímann af mikilli
festu og þær sögulegu aðstæður sem hann felur í sér.

Það er einmitt hér sem áreksturinn verður við samfélag sem ekki vildi samruna, heldur aðskilnað þeirra ólíku sjónarmiða sem fólust í latneskri menningu annars vegar og þeirri germönsku hins vegar. Samfélag sem á grundvelli hugsjónaarfs vildi réttlæta átök, sem áttu fljótlega eftir að leiða til stríðs um efnahagsleg og pólitísk yfirráð í Evrópu.

Villidýrin – Les Fauves – og franskur expressíonismi

Fauves-hópurinn er ekki einsleitur og á sér ekki sameiginlegt ávarp eða yfirlýsingu að öðru leyti en því að þeir voru allir á móti þeirri hedonísku og munúðarkenndu skreytilist sem kennd var við Art Nouveau og því formlega ístöðuleysi sem finna mátti í flóttaleiðum symbolismans er beindust að handanveruleikanum. Í kringum Henry Matisse (1869-1954) finnum við málara eins og A. Marquet (1875-1947), K. van Dongen (1877-1968), R. Dufy (1877-1953), A. Derain (1880-1954), O. Friesz (1879-1949), G.Braque (1882-1963), M. Vlaminck (1876-1958). Þó myndhöggvarinn A. Maillol (1861-1944) tilheyri hópnum ekki beinlínis, þá stendur hann honum nærri. Hann
skildi betur en aðrir að rannsókn Matisse á litum felur líka í sér þrívíddarlega formrannsókn er felst í myndbyggingarlegum forsendum litarins sem slíks. Þótt Fauvistarnir hafi hvorki óttast óvinsældir né það að valda hneykslun, þá áttu þeir sér ekki pólitískan hugsjónafána. Félagsleg afstaða þeirra fólst í skáldskaparæð þeirra. Það var kannski af þessari ástæðu sem tveir málarar urðu utan hópsins þótt þeir máluðu í anda expressíónisma. Annars vegar er það G. Rouault (1871-1958) sem hóf feril sinn út frá því fagnaðarerindi fátæktarinnar sem Léon Bloy hafði boðað með því að ásaka samtímann sem taldi sig kristinn fyrir tvískinnungshátt faríseanna. Hins vegar er það Pablo Picasso (1881-1973), en siðferðileg afstaða hans til hinnar samfélagslegu tvöfeldni má lesa út úr þeim tímabilum hans sem kennd eru við blátt og bleikt. Í stað þess sjónræna ofsa sem einkenndi fauvistana kusu þeir heldur hið bithvassa tungutak Toulouse Lautrec og eitraða ádeilu Daumiers. Og það varð einmitt hlutskipti Picasso að vekja upp kreppu fauvistahreyfingarinnar og opna með kúbismanum hina endanlegu byltingu módernismans í myndlistinni.

Paul Cezanne: Baðfólk undir bláum himni 1881

Henri Matisse: Dansinn, 1910. Hermitage-safnið.

Þótt fauvistarnir hafi litið á myndlistina sem lífsvaka (elan vital) þá stóðu þeir fljótlega frammi fyrir vandamálum er snéru að myndmáli málverksins sérstaklega. Handan við þá niðurstöðu sem Cezanne hafði sett fram (að yfirstíga andstæður klassíkur og rómantíkur –innsk. þýð.) var aðeins einn möguleiki: að leysa átökin á milli skynjunar (litarins) og myndbyggingar (rúmtak, form og rými) með því að efla þann byggingarlega kraft sem fólginn var í litnum sem slíkum. Meginviðfangsefni þeirra fólst því í rannsókn á byggingarlegu-rýmislegu hlutverki litarins sem þannig er
skilinn sem grundvallandi þáttur sjónskynsins.
Til hliðar við þann víða sjóndeildarhring sem Cezanne hafði opnað var einnig að finna hið þrönga sjónarhorn neo-impressionistanna sem smættuðu hugmynd sína um sjónskynið niður í litfræðileg vísindi og hunsuðu þannig stórt svið sjónskynsins sem ekki snerti hreina ljósfræði (hið draumkennda og táknfræðilega t.d.). Van Gogh hafði snúist gegn þessari þröngu hugsun á forsendum sem snerust ekki um þekkingarfræði heldur siðfræði. Það sem þeir Cezanne, Signac og Van Gogh áttu
sameiginlegt var upplausn hinnar eðlislægu líkingar á milli myndar og fyrirmyndar um leið og þeir lögðu áherslu á byggingu og samsetningu málverksins sem slíks. Þeir máluðu með aðgreinanlegum pensilstrokum sem voru lagðar á léreftið samkvæmt ákveðinni hrynjandi er gefur sjálfum litnum og efni málverksins merkingu í efnislegri byggingu þess.
Rannsókn fauvistanna snýst einmitt um eðli þessarar hrynjandi og byggingar, sem fyrir Cezanne var hin vitsmunalega bygging vitundarinnar, fyrir Signac ljósfræðileg lögmál birtunnar en fyrir Van Gogh hin djúpa hrynjandi verunnar yfirfærð á verknað snertingarinnar við léreftið.
Það sem vakti fyrir fauvistunum var að undirstrika sjálfstætt gildi
myndbyggingarinnar sem slíkrar og fullnægjandi réttlætingu þess fyrir málverkið sem sjálfstæðan raunveruleika. Ekkert öðruvísi en hjá André Gide (hin bókmenntalega hliðstæða við Matisse) sem leit á skáldsöguna sem sjálfstætt og lokað kerfi er hafi byggingu sem byggir ekki á líkingu við frásögnina eða sálfræði sögupersónanna, heldur lýtur eigin lögmálum.

Ef það var markmið fauvistanna að reyna að samræma sundurgreinandi upplausn líkingarinnar hjá Signac og þá upplausn Van Goghs sem byggði á tilvistarlegri hrynjandi, þá bendir það til þess að þeir hafi stefnt að samruna og einingu í byggingu hlutarins og hugverunnar, það er að segja að koma á samræmi og samfellu milli hins innri og ytri heims og koma þannig á þeirri eilífu hringrás sem Bergson kallaði lífskraftinn (elan vital) eða “hin skapandi þróun”. Sú staðreynd að þessu markmiði verður hvergi náð nema á sviði listarinnar, þar sem listin er einmitt sá veruleiki sem er skapaður við stefnumót mannsins og umheimsins, sýnir algjöra nauðsyn listarinnar við hvaða félagslegar aðstæður sem er, án tillits til tímaskeiðs eða landfræðilegra marka. Siðmenning án listar yrði þá án vitundar um samfelluna sem verður til í sambandi hlutarins og hugverunnar, þessari grundvallareiningu raunveruleikans.

Gaugin og gildi hins frumstæða og upprunalega

Paul Gaugin: Frá Tahiti 1880-90 -trérista um 1895

Það er við þessar aðstæður sem við sjáum vandamál Gaugins. Hann var nýlátinn (1903) á Tahiti þar sem hann hafði sest að í leit að siðmenningu þar sem listræn sköpun væri hvorki úr samhengi við tímann né umhverfið. Hann taldi hins vegar að evrópsk siðmenning væri orðin ófær um að skapa eða hlú að listsköpun. Það var harður dómur en ekki ástæðulaus. Þar sem öll framtíð samfélagsins er hugsuð út frá framförunum getur engin sköpun átt sér stað því sköpun verður ekki að veruleika nema byrjað sé á upphafspunkti eða út frá engu. Þess vegna setti hann sig í aðstæður hins frumstæða.
Það var engum vafa undirorpið að samfélag samtímans var samfélag framfaranna. Því var aðeins um tvo valkosti að ræða: að fylgja fordæmi Gaugins eða þröngva hinni listrænu sköpun upp á framfarasamfélagið með ofbeldisfullum gjörningi. Samfélagið myndi bregðast við með neikvæðum eða jákvæðum hætti ef það stæði andspænis algildu sjálfstæði hinnar listrænu sköpunar, en það kæmist alla vega ekki hjá því að viðurkenna tilvist hennar. En með slíkri viðurkenningu sem einnig fæli í sér
viðurkenningu hins frumstæða og hins skapandi var jafnframt búið að sýna fram á að lögmál framfaranna væru ekki algild. Að færa Gaugin á heimaslóðir, færa hann aftur inn í þann heim sem hann hafði af frjálsum vilja yfirgefið, þar sem honum yrði nú aftur tekið sem frelsara eða spámanni; einnig þetta var inntakið í myndhugsun fauvistanna.

Matisse og Lífsgleðin

Það er ljóst að málverkið La joie de vivre (Lífsgleðin 1905-06) eftir Matisse er hugsuð sem goðsöguleg mynd af heiminum eins og við vildum að hann væri. Gullöld þar sem engan mun er að finna á mannfólkinu og náttúrinni, allt tengist og talast við, persónurnar hreyfast um myndflötinn eins og þær væru gerðar úr lofti, eina lögmálið er allsherjar samræmi í hrynjandinni, hin hreina ást.

Puvis de Chavannes: Á millilistarog náttúru, um 1890

Cezanne: Baðfólkið

Með verknaði sem verðskuldar aðdáun endurheimtir Matisse hina miklu klassísku veggmynd Puvis de Chavannes um leið og hann frelsar hana undan hinni sögulegu klassísku og húmanísku hefð en færir hana jafnframt yfir í altæka klassík. Skreytilist? Vissulega er listin gerð til að
skreyta. Ekki hofið eða konungshöllina eða villu yfirstéttarfólksins, heldur líf fólksins.
Matisse nálgast þessa hreinu skáldskaparæð hins vegar í gegnum sögulega gagnrýni. Hann tekur upp sígilt þema úr menningu Miðjarðarhafslandanna sem við getum fundið í Baðfólkinu eftir Cezanne og tengir það þeirri frumstæðu goðsögn suðurhafanna sem Gaugin hafði málað. Hann hreinsar burt allt sem hægt er enn að finna af dýpt og efnisfestu líkamanna í verki Cezanne og forðast jafnvel samfellu í yfirborðinu, því flöturinn er enn ein afmörkun rýmisins. Þannig finnur hann handan við sjálfan Cezanne þriðja litinn sem er hinn tæri og gagnsæi litur impressionismans.
En liturinn er ekki lengur skilyrtur af bliki sjónskynsins. Þar sem myndin er ekki lengur “endurskin” hlutarins hefur hún til að bera jafn mikinn raunveruleika og  hluturinn sjálfur. Heimur myndanna er ekki lengur vettvangur fyrir launsagnir (allegorie), myndlíkingar, tákn. Þar sem ekkert hefur lengur ótvíræða merkingu getur myndlistin ekki lengur verið boðberi merkingar. Hún getur heldur ekki kveðið á um muninn á hinu fagra og hinu ljóta sem einungis tengjast hlutunum út frá þeirri unun eða þeim sársauka sem þeir veita manninum en ekki myndunum sem standa utan allra mögulegra gildisdóma. Rétt eins og André  Gide kann Matisse að meta allar les nourritures terrestes (öll jarðnesk næringarefni), að gera upp á milli einstakra gæða fæli í sér höfnun.

Henri Matisse: Rauða vinnustofan, 1911

Það kann að virðast erfitt að fella klassík og hinn altæka impressíónisma Matisse að forsendum expressíónismans. En tjáning gleðinnar felur ekki í sér minni tjáningu en tjáning ánauðar lífsins og þjáningar. Það er hægt að tjá lífsgleðina án þess að sýna eða endursýna (rappresentare) lífið. Matisse setur ekki inn í mynd sína jafnvægi og samhverfu náttúrunnar. Vinnuferli hans er allt í skömmtum (additivo): sérhver litur styður, bælir eða undirstrikar hina í óendanlegu crescendo (tækniorð úr tónlist um
vaxandi styrk). Sérhver litur í sínu samhengi er miklu meira en hann væri einn og sér eins og hver annar farði. Og myndinni er ekki lokið fyrr en sérhver litur hefur náð endamörkunum og tengst öllum hinum og þannig hlaðinn hámarksgildi sínu. Þetta eru flatir fletir, fullir af ljósi og útgeislun. Mörk flatanna eru ekki landamæri heldur endurvarp, því sérhver litur litar allt rýmið um leið og hann samlagast hinum. Línurnar eru ekki útlínur heldur litaðar fléttur (arabeskur) sem tryggja hringrásina og
litaflóðið í öllum myndvefnaðinum. Þetta er orðræða án sagnorða og nafnorða, eintóm lýsingarorð. Hún er þó ekki af retorískum toga mælskulistarinnar, því litirnir fela ekki í sér lofsöng hlutanna (sem eru ekki til staðar) heldur útgeislun skaphafnarinnar. Ef til er tónlist án orða, hvers vegna skyldi þá ekki vera til myndlist án hluta? Þess vegna verður ljóst að myndlist Matisse er ekki klassísk. Það eina sem er klassískt við hana er
að hún yfirstígur hinn rómantíska grunntón, veltir meðvitað um koll hinni rómantísku depurð (malinconia). Handan við Cézanne, sem Matisse finnur mestan skyldleika við, finnum við ekki Ingres, heldur Delacroix. Það á eftir að koma í hlut Picasso, hins stóra keppinautar Matisse, að setja spurningar Ingres á dagskrá. En við erum þegar búin að átta okkur á að Picasso er siðferðilegur listamaður (moralista) og getur ekki látið hjá líða að fella dóma: honum er lífsnauðsyn að velja á milli hins fagra og ljóta, hins góða
og illa.

Picasso og bylting kúbismans

Picasso: Ungmeyjarnar frá Avignon, 1907

Innrás Picasso á svið myndlistarinnar var skyndileg, óvænt, óvægin og nákvæmlega úthugsuð, þegar hann árið 1907 framkallaði kreppu meðal fauvistanna. Fram að þeim tíma hafði hann verið jaðarpersóna í listheiminum. hann hafði takmarkað sig við að afhjúpa með hárfínni dráttlist sinni framandlega tvíræðni fegurðarinnar í fyrirbærum
er sýndu allt frá framandlegum guðamyndum til ýmissa jaðarhópa sem ekki áttu heima innan hins siðmenntaða samfélags (fimleikamenn, trúðar, harlekínar og flækingar) vegna þess að samfélagið skildi þá ekki eða óttaðist göfugan uppruna þeirra. En nú hóf hann upp andófsrödd sína með Les demoiselles d’Avignon (Ungmeyjarnar frá Avignon) sem beinlínis var teflt fram gegn hinu metnaðarfulla verki Matisse La joie de vivre. Með þessu verki sýndi hann hvernig málverk getur, rétt eins og hvaða atburður eða verknaður sem er, breytt merkingu sinni í sjálfri útfærslu verksins. Ef málverkið er tilveran sjálf (esistenza) þá er hún undirorpin sérhverri áhættu
og sérhverri tilviljun sem mætir okkur í lífinu.

Þetta gat hugsanlega virst vera síðkomin inntökubeiðni í fauvistahópinn, en reyndist hins vegar upphafið að byltingunni, þar sem Picasso sjálfur var fánaberi, bylting kúbismans. Andspænis þessum nýja og byltingarkennda gjörningi voru fauvistarnir nauðbeygðir að taka afgerandi afstöðu sem leiddi til upplausnar hópsins. Eins og sigraður herforingi dró Matisse sig í hlé frá forystuhlutverkinu. Allt til dauðadags gegndi hann hlutverki sínu
sem hinn mikli meistari málverksins, ávallt næmur fyrir því sem var að gerast, en jafn staðráðinn í að láta ekki blanda sér í átök hópanna í framvarðarsveitinni. Eins og til áréttingar teflir hann fram óumdeildum gæðum málverks síns, sem voru þegar hafin yfir öll söguleg átök gegn hinum síkviku og örgeðja stílbreytingum Picasso, sem gerir tilkall til að vera framvörður og dómari í senn, alltaf tilbúinn að taka afstöðu og taka
fyrirvaralausar skyndiákvarðanir við erfiðustu aðstæður.

Dufy fylgir með hófsemd í kjölfar Matisse, sker sig úr hópnum og helgar sig “bel canto” með því að eyða snilligáfu sinni í endalaus hárfín og glæsileg tilbrigði við hina litaglöðu arabesku (fléttumynd). Einnig Maillol, sem hóf feril sinn í anda Renoirs og hafði fundið formlega hliðstæðu í höggmyndum sínum við litanotkun Matisse, hann lætur sér nægja að hafa fundið samsvörun í fyllingu formsins og hinnar sólríku rýmiskenndar í “náttúru Miðjarðarhafsins”. Honum hafði vissulega tekist að frelsa
klassík höggmyndalistarinnar úr viðjum hinnar þröngu akademísku hugsunar en honum tókst ekki að frelsa höggmyndalistina úr klassíkinni sem slíkri til þess að skapa nútímalega list. Eftir að markaðurinn og almenningur voru farin að kalla eftir “nútímalist” hættu Vlaminck og Friesz að leggja út í áhættusamar tilraunir og nutu áunninnar frægðar. Van Dongen reynir að ná sér á strik undir áhrifum frá þýsku expressíónistunum og tekur sér stöðu með þeim eftir að broddurinn er farinn úr fauvistunum, en einungis til þess að setja örlítinn beiskan brodd í portrettmyndir sínar
af hinni glöðu góðborgarastétt Parísar á öðrum áratugnum. Braque, sem hafði verið hinn tryggasti áhangandi Cézanne meðal fauvistanna, skilur strax hvaðan vindurinn blæs. Hann tekur umsvifalaust málstað Picasso og tekur ásamt með honum stöðu í framvarðarsveit hinnar nýju byltingar kúbismans.

Die Brücke og þýskur expressionismi

Ernst Kirchner: Götumynd frá Dresden 1907

Félagsskapurinn Die Brücke var fastmótaðri en fauvistarnir frönsku, hann var raunverulegt samfélag listamanna sem áttu sér mótaða stefnuskrá, ekki ólíka þeirri sem var í Werkbund (stéttarfélag myndlistarmanna og hönnuða í Þýskalandi stofnað 1907). Helstu nöfnin í þessum félagsskap voru E. L. Kirchner (1880-1938), E. Heckel (1883-1970), E. Nolde (1867-1956), K. Schmidt-Rottluff (1884-1976), M. Pechstein (1881-1955), O. Müller
(1874-1930) og myndhöggvarinn E.Barlach (1870-1938).

Ástandið í Þýskalandi var flókið. Þar mátti finna endurskin hins franska
impressionisma í bland við flatan akademískan natúraslisma sem borinn var uppi af íhaldsöflum Þýskalands á tíma Wilhelms keisara (ríkti 1888-1918) ásamt með symbolskum tilhneigingum og for-expressíoniskum tilburðum Secessionistanna í München. Die Brücke kallar saman  “byltingarsinnuð og skapandi öfl” til þess að mynda breiðfylkingu gegn “impressionismanum”. Þar var frekar vísað til hins daufa þýska
endurskins en til frumherjanna frönsku, og meðal þeirra var Cézanne hafður sér á parti þar sem menn báru mikla virðingu fyrir sterkri myndbyggingu hans og allt að því heimspekilegri staðfestu. Engu að síður var um djúpa andhverfu við impressionismann að ræða. Menn tefldu raunsæi sem skapar veruleikann gegn því raunsæi sem líkir eftir honum. Til þess að verða sköpun veruleikans þarf listin að sneiða hjá öllu sem var til fyrir sköpunarverknað listamannsinns. Því þarf að byrja á núllpunktinum, úr engu. Sú reynsla sem listamaðurinn hefur haft af heiminum er í
upphafi í engu frábrugðin reynslu hvers og eins. Það er efnið sem listamaðurinn vinnur úr. Viðfangsefnin sem bregða fyrir í verkum þýsku expressíónistanna tengjast yfirleitt daglegu hversdagslífi (gatan, fólkið á kaffihúsinu o.s.frv.) Engu að síður má finna í verkum þeirra eins konar hindrun sem felst í lítt dulbúnum grófleika, rétt eins og listamaðurinn hefði aldrei snert á pensli eða blýant fyrr en í þessu verki. Þar sem öllu fyrirfram gefnu myndmáli er hafnað verður tjáningin með vilja höktandi, hömlulaus og án fínni útfærslu. Á bak við þetta tungumál búa engin orð sem hafa
fyrirfram gefna merkingu, heldur orð sem taka á sig merkingu. Þýski
expressíónisminn einsetti sér að kanna rætur og uppruna hins listræna verknaðar. Uppruna hans í listamanninum sem framkvæmir gjörninginn og þar af leiðandi í samfélaginu sem listamaðurinn talar til.

Orðið og gjörðin

Ef orðið (myndgervingin, la rappresentazione, það sem sýnir veruleikann. þýð.) markar ekki lífið, heldur gjörningurinn, þá verður fyrsta vandamálið verknaðurinn sjálfur, tæknin. Fyrir impressionistunum rétt eins og fyrir hinum klassísku listamönnum var tæknin meðalið sem gerði þeim kleift að laða fram mynd einhvers (sýna það). En ef verknaðurinn á að vera skapandi þá getur ekki einu sinni myndin verið til staðar (hvort sem hún er huglæg eða sýnileg) áður en gjörningurinn er framinn. Myndin er ekki, hún er framkvæmd og verknaðurinn sem gerir myndina felur í sér tiltekna aðferð eða tækni. Þetta er grundvallaratriði sem skýrir hugmyndafræðilega sýn Brücke-hreyfingarinnar sem alþýðlegt fordæmi. Tæknin er ekkert úthugsað eða persónulegt, hún er vinna. Þar sem listin er fyrst og fremst vinna, þá tengist hún ekki hinni útspekúleruðu menningu eða menntakerfi ráðandi stéttar, heldur praktískri menningu verkalýðsstéttarinnar. Ef listin framkvæmir síðan skapandi væntingar mannlegrar vinnu, þá greinir hún sig enn frekar frá hinni vélrænu vinnu er byggir á rökhyggju eða rökfræði hámenningarinnar. Með öðrum orðum, ef iðnaðarvinnan lýtur lögmálum rökhyggjunnar þá er vinna listamannsins sem æðsta form menningar alþýðunnar óhjákvæmilega órökræn. Hún verður til af langri reynslu sem hefur umbreyst í siðferðisvitund og siðferðilega breytni.

Tréristan og grafíkin

Ernst Ludvig Kirchner: Auglýsing fyrir Die Brucke

Þetta skýrir aftur þá þungu áherslu sem lögð var á mikilvægi grafíklistarinnar og þá sérstaklega tréristunnar samanborið við málara- og höggmyndalistina. Menn munu ekki skilja myndmál þýsku expressíonistanna í málverki og höggmyndalist ef þeir leita ekki upprunans sem er í tréristunni og tréþrykkinu. Tækni tréristunnar er ævafornt handverk, alþýðlegt og á sér sérstaklega djúpar rætur í þýskri myndmálshefð. Í raun er hún frekar hinn hefðbundni og eðlilegi tjáningarmáti myndmálsins en tækni í nútímaskilningi þess orðs. Einmitt þetta einkenni tjáningar og samskipta er mikilvægt: tjáningin er ekki ævaforn skilaboð sem listamaðurinn dregur  spámannlega upp fyrir heiminn, heldur eðlileg samskipti frá manni til manns. Í tréristunni er myndin unnin með því að rista í tiltölulega mjúkt efni sem veitir
höndinni og járninu viðnám. Síðan eru hinir upphleyptu fletir myndarinnar þaktir bleki og svo er pappírnum þrýst á flötinn með grafíkpressunni. Þessi handavinna skilur eftir sig í myndinni spor eftir pressukeflið, stífni og klofin horn línanna og dauft endurskin æðanna í viðnum. Þetta er ekki mynd sem losnar úr viðjum efnisins heldur verður hún gegnsýrð efninu með afli. Myndin heldur þessum einkennum sínum einnig í málverkinu þar sem hún samlagast þykkum og skorpnum olíulitamassanum eða breiðist út í fljótandi litaflekkjum vatnslitamyndarinnar. Eða í höggmyndalistinni þar
sem myndin verður eitt með hinum tilhöggna trjábol eða steini sem er hogginn með meitli. Þannig endurgerir verkið ekki myndina heldur efnisgerir hana beint. Málarinn er ekki kallaður til að velja sér liti samkvæmt reglu eftirlíkingarinnar. Hann getur málað fígúrur sínar rauðar eða bláar eða gular, rétt eins og myndhöggvarinn getur valið sínar
eigin leiðir í snertingunni við viðinn eða steininn. Þetta er ferli þar sem merkingin er lögð í verkið jafn óðum í gegnum litinn hliðstætt því sem gerist í alþýðlegu myndmáli þar sem djöfullinn er ýmist rauður eða grænn og engillinn ýmist hvítur eða himinblár. Þessi innlögn í verkið felur í sér dóm, siðferðislega eða tilfinningalega afstöðu sem færist yfir á viðfangið sem litað er. Og þar sem dóminn ber að skynja um leið og viðfangið er skynjað kemur þetta fram sem afskræming eða afmyndun viðfangsins.
Þessi expressíóníska afmyndun sem verður grimm og árásargjörn hjá sumum listamönnum (til dæmis hjá Nolde) felur ekki í sér sjóntæknilega afmyndun. Hún ákvarðast af huglægum forsendum (þeim ásetningi sem mætir veruleika dagsins) og hlutlægum forsendum (samsömun myndarinnar og efnisins sem veitir handverkinu viðnám).

Upphafin huglæg fegurð umbreytt í efnislegan ljótleika

Rétt eins og Les Fauves ganga þýsku expressionistarnir út frá hinni frumstæðu list. Í totemmyndum og grímum Afríkubúa sjá þeir hins vegar ekki táknmál fjarlægra menningarheima, sköpunarverk upprunalegrar menningar. Þeir sjá fyrst og fremst í þessum verkum mannlega vinnu í sinni tærustu og mest skapandi mynd. Myndhöggvarinn hefur tekið trjábol og með því að rista í hann hefur hann gefið honum merkingu, gert úr honum guð. Ekki eins og okkur væri kannski tamt að segja, mynd af guði, heldur guð í eigin persónu. Hann hefur ekki gert hið ósýnilega sýnilegt
með myndgervingu né heldur leitt fram merkingu sem var falin í bolnum. Með galdramætti tækni sinnar hefur hann þvingað hinn algilda helgidóm til að taka sér bólfestu í broti veruleikans. Þetta er ferli sem verður fyrirmynd en er um leið tvíbent. Allur skáldskapur þýsku expressíonistanna er reyndar tvíbentur og menn eiga ekki að forðast tvíræðnina því tvíræðnin er einmitt helsta einkenni mannlegrar tilvistar.

Emil Nolde: Kristur tekinn af krossinum 1911-12

Afmyndunin í myndlist expressionistanna er ekki skrípamynd af raunveruleikanum: hún er fegurðin sem hefur stigið niður af sviði hins upphafna og huglæga niður á svið efnisveruleikans og þar með umsnúið merkingu sinni og umbreyst í ljótleika. Hinn expressíóníski skáldskapur er fyrsti skáldskapur ljótleikans í sögunni. Samt er hann ennþá ídealískur því hið ljóta er einungis fallin og úrkynjuð fegurð. Hún varðveitir hið upphafna (ídeala) eðli sitt rétt eins og uppreisnarenglarnir varðveita sitt yfirnáttúrlega eðli, en nú í demónískri mynd. Og mannlegu örlög eru einmitt í augum expressionistanna örlög hins fallna engils. Hér er því um tvöfalda hreyfingu að ræða. Fall og úrkynjun hins andlega lögmáls sem í gegnum fyrirbærafræðilega umbreytingu samlagast lögmáli efnisheimsins. Upprisa og göfgun lögmáls efnisheimsins sem sameinast hinu andlega. Þessi virka tvíræðni ákvarðar kraftalögmál og kjarna hins díonýsiska, vímunnar og harmleiksins í senn. Kjarna myndmálsins sem felur í sér tvöfalda merkingu hins heilaga og hins demoníska.

Félagslegar og pólitískar hliðar expressionismans

Samfélagslegur umræðuvettvangur þýsku expressionistanna takmarkast ekki við það val listamannsins að afneita stöðu sinni sem borgaralegur menntamaður til þess að vera handverksmaður úr röðum alþýðunnar. Borgarastéttin er dregin til ábyrgðar fyrir hinu félagslega tómarúmi og þeirri félagslegu eymd sem því fylgir. Fyrir uppgjöfina gagnvart því
mannlega verkefni sem fyrir Nietzsche var hið algjöra neikvæði sögunnar. Ef skilyrði þess að vera er viljinn til að vera, lífsbaráttan, þá er það til vitnis um að það séu neikvæð öfl að verki í heiminum er séu tilvistinni andhverf. Tilvistin felst í því verkefni að skapa sjálfan sig. En ef vélvæðing iðnaðarvinnunnar gengur gegn sköpunarkrafti mannsins þá er hún af þessari ástæðu einni tortímandi. Hún tortímir samfélaginu með
því að kljúfa það upp í stétt stjórnenda og þegna, hún eyðileggur merkingu
mannlegrar vinnu með því að skilja á milli hugsunar og framkvæmdar. Hún endar með að tortíma öllu mannkyni í stríði. Að byrja allt upp á nýtt felur í sér að skapa samfélag ex novo. Þetta skýrir hvers vegna þýsku expressionistarnir eru svo þauluppteknir af kynferðismálum.

Max Beckmann: Kærustupar, 1919

Það eru samskipti manns og konu sem liggja til grundvallar mannlegu samfélagi og það eru einmitt þessi samskipti sem samfélag nútímans hefur afmyndað og gert sjúkleg, neikvæð og firrt. Iðnaðarsamfélagið sveiflast án  undankomuleiða á milli örvæntingarinnar og viljans til valds. Ný
siðmenning myndi einungis ná að blómstra með algjörri höfnun allar vinnu sem ekki væri skapandi. Aðeins listin, sem er eina vinnan sem felur í sér hreina sköpun, getur unnið kraftaverkið: að endurheimta hið fagra sem samfélagið hafði umbreytt í hið ljóta. Í þessu liggur hin siðferðilega grundvallarregla expressionismans. Listin er ekki aðeins andóf gegn ríkjandi samfélagskerfi, heldur felur hún í sér vilja og köllun til
umbreytingar. Í henni felst því samfélagsleg skylda, þjónusta sem menn ganga til liðs við.

Austurríski skólinn og Egon Schiele

Austurríki kemur aftur inn á þýskt menningarsvæði, en þar líður hinn sögulegi tími hægar. Hið langa sólsetur keisaravedis Habsborgaranna leiðir til þess að yfirstétt þess leysist upp án þess að nýtt samfélag bíði handan við hornið. Egon Schiele (1890-1918) vinnur út frá bölsýnisanda Gustavs Klimt (1862-1918) myndlist sem er í expressionískum anda og felur í sér djúpa angist. Myndlist hans er ferðalag inn í dýpstu kima sálarinnar eins og könnunarleiðangur um dauðann sem kjarna verunnar.
Það er væntanlega engin tilviljun að mikilhæfur teiknari og myndskreytir, A. Kubin (1877-1959) leggi í könnunarleiðangur um hinar óljósu og endalausu lendur dtraumanna um svipað leyti og Sigmund Freud hóf rannsóknir sínar á merkingu draumanna í sjálfri Vínarborg.

Egon Schiele: Elskendur 1915

Oskar Kokoschka: Óveðursbrúðurin 1912

Oskar Kokoschka (1886-1980) byggði einnig á fordæmi Klimts en myndaði fljótt tengsl við þýsku expressionistana. En rannsókn hans var gagnrýnin og
sundurgreinandi og öll á dýptina án þess að setja hinn “skapandi verknað” á oddinn.
Til þess að ná valdi á sviði “lífsins” þarf að brjótast í gegnum og tæra upp öll þau margskiptu setlög sem í daglegu tali eru kölluð “lífið” og komast á þann stað þar sem hin einstaklingsbundna tilvist leysist upp í “allt”.
Einnig hjá Kokoschka liggur hinn samfélagslegi vandi endanlega í sambandi karls og konu. En ástin og dauðinn eru nátengd og einnig af þessari ástæðu hverfur einstaklingurinn aftur til hins algilda sem er “allt” (listin sem afturhvarf í skaut verunnar er einnig meginþema í skáldskap hins mikla skálds Austurríkismanna, Rilke). Kokoschka var róttækur og í raun stjórnleysingi sem hafði hvorki trú á samtímanum né samfélagsskipan framtíðarinnar. Heimurinn er margræð blanda einstaklinga, hrærigrautur frumeinda. Ekkert verður skapað, engu eytt. Ekkert af því sem hefur verið getur ekki annað en verið. Raunveruleikinn er glundroði, en einmitt vegna þess að ekki er um neina heildarbyggingu að ræða, er komi skipulagi á frumeindirnar, verða þær meira lifandi. Málverk felur í sér stjörnuþokur af lituðum merkjum sem eru svo lifandi að þau virðast á fleygiferð um léreftið. Sérhvert þeirra felur í sér lifað augnablik sem birtist okkur ekki sem óljós minning, heldur sem raunveruleg skynjun í núinu. Portrettmyndir hans frá þessum tíma eru einstakar og landslagsmyndirnar eru eins og portrett af stöðum sem hafa sterkan svip. En punkturinn þar sem við skynjum raunveruleika þessarar tilteknu persónu eða staðar er einnig punkturinn þar sem allt leysist upp og brotnar niður í heildarmynd “alls”.
Þannig tengist málverk Kokoschka öðrum þræði þeirri upplausn sem finna má annars vegar í hinni austurrísku rokokkolist og hins vegar í impressionismanum. Munurinn er hins vegar sá að hér er ekki gerður greinarmunur á hugveru og hlutveru, heimurinn sem við sjáum er heimurinn sem við erum og sem snýst í kringum okkur, heimurinn
sem við hrærumst í. Hér er ekki lengur um vandamál formsins eða myndarinnar að ræða, fremsta vandamál sem Kokoschka glímir við er vandamál merkisins sem umritar jafnóðum skynheim okkar og tilfinningalíf.

Oskar Kokoschka: Par með kött, 1919

Málaralist Kokoschka leggur þannig brú á milli Expressionismans og impressionismans og hafði sem slík gífurleg áhrif í Evrópu, einkum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Menn sáu í list hans möguleikann á að túlka hana sem nýjan vettfang fyrir evrópska málaralist. Sögulega séð var hún tengd síðbarokk-listinni þegar hún var á barmi upplausnar alls formlegs tungumáls en lagði um leið grunn að nýrri einingu eða heildarsýn, opnaði nýja möguleika fyrir nýrri samræðu innan evrópskrar myndlistarhefðar. Það var einmitt þannig sem C. Soutine (1894-1943) túlkaði list Kokoschka, en hann var einn helsti fulltrúi École de Paris (Parísarskólans) sem sameinaði málara frá mörgum Evrópulöndum (m.a. marga gyðinga) í þennan skóla sem talinn var miðstöð hinnar alþjóðlegu hreyfingar módernismans.

Der Blaue Reiter og Neue Sachlichkeit

Félagsskapurinn Die Brücke var leystur upp 1913, þegar sá nýi hópur sem kallaði sig Der Blaue Reiter (Blái riddarinn) hafði hafið rannsóknir sínar á möguleikum óhlutbundinnar listar. Þessum nýja hópi var ekki jafn umhugað um samfélagsmál sem ósigur Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni hafði þó gert enn meira aðkallandi. Því var myndaður nýr hópur listamanna sem aðhylltist dæmigerðan expressionisma og kenndi sig við Neue Sachlichkeit (Nýja hlutlægni). Helstu fulltrúar þessarar hreyfingar voru M. Beckmann (1884-1950), O. Dix (1891-1968), G. Grosz (1893-1959).

Max Beckmann: Fjölskyldumynd, 1920

Beckmann er málari sem byggir á klassískum grunni og er hrifinn af stórum allegórískum myndum sem eru hlaðnar boðskap. Hann er eins og nýr Hodler (Ferdinand Hodler 1853-1918), þrjátíu árum síðar, sem syngur ekki lengur um upprisu heldur um fall og dómsdag mannkyns. Hann umbyltir sýn Holders: hinir föllnu guðir (viðfangsefni Nietzsche í Götterdämmerung) verða að ófreskjum, en ljótleiki þeirra varðveitir í sér stórbrotinn glæsileik hinnar glötuðu fegurðar.

Otto Dix: Heimsstyrjöldin mikla, 1929-32
Otto Dix stendur í myndlistinni fyrir það sem Remarque stóð fyrir í bókmenntunum með skáldsögu sinni Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum. Hann er hinn heiðskýri, miskunnarlausi og raunsæi lýsandi eymdarinnar, grimmdarinnar og yfirgengilegrar heimsku stríðsins.

Afhjúpun og afhelgun yfirstéttarinnar þýsku var hins vegar sérgrein eins helsta talsmanns hópsins, málarans og skopmynda/ádeilu-teiknarans George Grosz. Allt frá 1916 til 1932, þegar ofsóknir nasista þvinguðu hann til að leita hælis í
Bandaríkjunum, átti hann í linnulausu pólitísku stríð þar sem hin pólitíska og hernaðarlega yfirstétt ásamt auðmannastéttinni, sem voru ábyrg fyrir stríðinu, voru stöðug skotmörk miskunnarlausrar satíru hans. Hann þurfti ekki að beita neinum öfgafullum bölbænum: köld greining hans á aðstæðum nægði honum til að afhjúpa hvað bjó undir hefðarfeldi virðingarinnar sem borgarastéttin bar á herðum sínum, sjúklegar hvatir hennar og nakin sókn hennar í ofbeldi og völd. Hann nýtti sér nýjustu tækni í sjónrænni fjölmiðlun (einnig meðul kúbismans) til þess að festa í sömu persónunni allar þversagnir þeirrar yfirborðsmyndar samfélagsgerðarinnar sem undir
yfirborðinu var andfélagsleg í grunneðli sínu. Hann varð fyrstur manna til að sjá fyrir sér í valdboðshyggju stjórnmálamannanna, valdagræðgi þeirra og gróðafíkn, taugaveiklunareinkenni er leitt gætu til banvænnar sturlunar.

George Grosz: Ástsjúki maðurinn, 1916

……………………………………….
(Hér er sleppt stuttu ágripi um byggingarlist á tíma expressíonismans)
…………………………………………….

Byggingarlistin og Einsteinsturninn (bls. 299-301)

Frumskissa Erichs Mendelsohns að Einstein-turninum, 1917

Einstein-turninn (1919-23) eftir E. Mendelsohn (1887-1953) er lykillinn að hinni expressíonísku byggingarlist. Arkitektinn hefur skýra hugmynd um hlutverk byggingarinnar (stjörnuathugunarstöð og vísindaleg rannsóknarstofa) og hann hefur mótað ytri umgjörð byggingarinnar rétt eins og myndhöggvari mótar í höndum sínum myndastyttu úr leir. Byggingin er ekki lengur hugsuð sem samsetning hæða og eininga heldur sem heildstæð blokk sem búið er að forma og hola að innan.
“Byggingin …fól í sér samþættingu vélbúnaðar og nýtanlegs rýmis, eins konar hylki úr múrsteini og sementi.” (F. Borsi). Í öðrum verkum sínum við mótun borgarrýmis grípur Menfelsohn til formlausna sem svara ekki bara hlutverki rýmisins eða byggingarinnar heldur tjá það um leið sem lifandi hreyfingu sem er í virku sambandi við sinn samfélagslega raunveruleika. Eftir að hafa greint hin fjölbreytilegu hlutverk verkefnisins (byggingarinnar) leitar hann að hlutverkalegri niðurstöðu (syntesu), hugsar
heildarsamhengi hins samfélagslega markmiðs byggingarinnar er síðan verður ráðandi í úrlausn einstakra smáatriða. Hann vinnur því út frá hlutverkagreiningu að því að skilgreina form byggingarinnar sem gefur henni hlutverk og tengsl í borgarumhvarfinu sem er um leið rými hins samfélagslega lífs, líf borgarinnar.

Einstein-turninn eftir Erich Mendelsohn, Potsdam, 1921

Það er kannski hægt að ásaka Mendelsohn fyrir að hreykja sér um of og setja þannig persónulegan svip arkitektsins um of í kastljósið, en það sýnir bara skyldleika hans við Beckmann. Það er ekki réttlátt að ásaka hann fyrir að hafa einbeitt sér um of að félagslegu og hlutlægu hlutverki einstakra bygginga á kostnað heildarmyndar borgarlandslagsins. Það sem Mendelsohn gerir í raun og veru er að leitast við að gera bygginguna og hlutverk hennar leiðandi og mótandi fyrir borgarumhverfið og leggja þannig áherslu á hið hreyfanlega félagslega hlutverk mannvirkjanna í stað þess að horfa á monumental-hlutverk þeirra sem “minnisvarða”.

Þótt ekki sé hægt að tala um heildstæða stefnu expressionískrar byggingarlistar verður ekki fram hjá því litið að hjá sumum fremstu arkitektum nútímans á fyrstu árunum eftir þýska stríðið koma fram verk sem hafa haft mótandi áhrif á áframhaldandi þróun byggingarlistarinnar. Þessi verk hafa flutt umræðuna um funksjón (hlutverk) byggingarinnar frá því að snúast einvörðungu um byggingartæknileg atriði er gætu
mætt hinum praktísku kröfum yfir í að fjalla um sjónrænt og samskiptalegt hlutverk byggingarinnar. Gegn hugmyndinni um byggingarlist sem túlkar hinn náttúrlega eða félagslega veruleika tefldu þeir fram byggingarlist sem breytir, það er að segja mótar nýjan veruleika. Þessi byggingarlist hefur fest uppgötvunina sem raunverulegt gildi inn í verkferli arkitektsins sem er þannig ekki bara tóm áætlanagerð (progettazione) er byggir á fyrirfram gefnum upplýsingum. Þessi byggingarlist gaf evrópskum arkitektúr tækifæri á að nálgast og tengjast hinni bandarísku byggingarlist Franks Loyd Wright.

Edvard Munch og upphaf expressíonismans

(þetta stutta innskot er tekið úr inngangi Argans um expressionismann og hefur að geyma mikilvæga greiningu á Munch). bls. 306-309.

Edvard Munch er ekki hin kaldhæðna og bitra manngerð, heldur hinn uppljómaði sjáandi sem sér fyrir sér harmsöguleg örlög samfélagsins og óhjákvæmilegt hrun þess. Þegar hann kom fyrst til Parísar (1885) gleypti hann allt í sig með óseðjandi ástríðu, allt frá Gaugin til Seurat, frá Van Gogh til Toulouse Lautrec. Hann ber með sér þá harmsögulegu tilfinningu fyrir lífinu sem finna má í norrænum bókmenntum frá Ibsen en einkum þó frá Strindberg (hin beinu áhrif hans á málarann eru þekkt).

Edvard Munch: Melankolia, 1896

Edvard Munch hefur ekki trú á því frekar en hinn belgíski James Ensor að hægt sé að byggja áfram á impressionismanum, frá hinum ytri veruleika til hins innri. Andleg hneigð hans leiðir hann í átt til symbolisma (táknhyggju) en hann umbyltir líka symbolismanum. Hann á ekki að vísa til handanverunnar, frá hinu lága til hins háa, heldur frá hinu háa til hins lága, frá handanverunni til verunnar sjálfrar. Táknið er ekki handan veruleikans heldur býr það í honum og snertir sjálfan kjarna verunnar, tilvistina og ástina, ástina sem umbreytist í kynlífsánauð, lífið og dauðann.

Mydgervingin (la rappresentazione) sjálf þarf í vissum skilningi að tortíma sjálfri sér: Orðið þarf að hverfa aftur til upphafs síns sem er ópið. Liturinn þarf að brenna sjálfan sig með eigin ofbeldi; hann á ekki að merkja heldur að tjá. Þannig lærði Munch frá Gaugin að notfæra sér tréristuna sem hann meðhöndlar eins og málverk sem hefur verið svipt merkingu sinni með því að svipta það litnum. Og þegar liturinn ratar aftur inn í þrykkið þá er það ekki lengur litur sem tengist hinni sjónrænu skynjun og tilfinningu, heldur litur sem kemur eftirá sem fylling og tjáir ekkert annað en sálarástand og andrúmsloft myndarinnar sem slíkrar. Skáldaæðin sem býr í Munch er í beinu eða óbeinu samhengi við hugsun Kierkegaards, sem varð ekki þekktur í Þýskalandi fyrr en í upphafi tuttugustu aldar. Því má þakka Munch fyrir þá vakningu til “tilvistarhyggju” er leiddi til uppkomu expressionismans sem á í raun rætur sínar í málverki Munch. Engu að síður er rétt að árétta, að rétt eins og vakningin sem fylgdi Ensor í Belgíu missti flugið eftir fyrsta áratug 20. aldarinnar, þá gerðist hið sama með Munch: hinn strindbergski
uppreisnarmaður varð hinn opinberi málari Noregs eða öllu heldur sá málari sem ríkjandi stétt heldur að fólkinu til þess að það geti fundið í honum rödd sína.

Ástin og dauðinn á rúmstokknum

Edvard Munch: Kynþroskinn, 1894-95

Munch á milli symbolisma og expressionisma

Þá staðreynd að expressionisminn átti rætur sínat frekar í hinni raunsæju táknhyggju Munchs en í hinni ofstopafullu og ástríðumiklu pensilskrift Van Gogh, getum við séð með því að bera saman myndina Kynþroskinn (Pubertà) eftir Munch og myndina Marzella eftir Kirchner.
Þessi raunsæislega og táknræna mynd Munchs verður til í París eftir 1885 í þeirri óljósu viðleitni að yfirstíga ofuráherslu impressionismans á hið sjónræna eingöngu.  Hér sjáum við hins vegar ekki symbolisma Redons, sem reyndar hafði einnig vakið áhuga þessa unga norska málara. Í þessari mynd sjáum við komna frá Gaugin stúlkuna sem verður “afhjúpun lífsins”, og horfir skelfdum augum á móti framtíðinni og örlögum sínum sem kona, nakin í nöktu umhverfi. Sú fínlega og næma dráttlist sem finna má í verkinu á hins vegar rætur sínar í Toulouse Lautrec, línuteikning sem lýsir
ekki fyrst og fremst hreyfingunni heldur hrollinum og skelfingunni, hinni leyndu umbreytingu líkamans. Stúlkumyndin er dregin upp með raunsæislegum hætti með stórar hendur og fætur og svolítið rauðþrútnar eins og oft má sjá hjá unglingum á gelgjuskeiði. Brjóstið og handleggirnir eru fínleg eins og hjá barni en fylling mjaðmanna gefur til kynna að hún er þegar orðin kona. Andlit stúlkunnar geislar af ótta og óvissu vegna þeirra umbreytinga sem hún skynjar í líkama sínum og tilveru.
Skugginn er raunsæislega málaður út frá birtunni sem fellur framan á líkamann örlítið frá vinstri. Engu að síður tekur þessi stóri skuggi sem fellur af líkama stúlkunnar á sig mynd vofu eða ógnar, og hefur þannig augljósa táknræna merkingu, hann verður  myndgerving lífs stúlkunnar til framtíðar. Einnig rúmið er málað með raunsæislegum hætti, við sjáum það svigna og taka í sig ylinn frá líkama stúlkunnar, en engu að síður vísar það einnig, eins og í svo mörgum verkum Munchs, til þeirra tveggja meginskauta lífsins sem eru ástin og dauðinn. Þroskaferlið frá tilverustigi stúlku til konu, sem á fyrir sér þau örlög að elska, geta börn og deyja, er fyrir Munch ekki eitthvert sálfræðilegt-líkamlegt ferli, heldur samfélagslegt vandamál. Í norrænum bókmenntum allt frá Ibsen til Strindbergs er meginviðfangsefnið einmitt félagsleg staða konunnar, hin sterku tengsl sem binda hana við náttúruna og tegundina, en hefta eða útiloka hana um leið frá hinni vitsmunalegu og virku þátttöku í samfélagi nútímans. Í þessu ljósi gæti þetta málverk Munchs verið eins og myndskreyting við skáldsögu eða leikrit. Og angistin sem skín úr andliti stúlkunnar gæti verið fyrsta merkið sem við sjáum í listasögunni um áhrif Sörens Kierkegaards á myndlistina. Það sem skiptir mestu máli er þó ekki lýsingin á tilteknu sálarástandi, þó það blasi við. Það merkilegasta við þessa mynd er hið nýja gildisviðmið sem hún boðar, virkni táknsins í myndmálinu. Táknið er ávallt merki um tiltekið bann, um tiltekna samfélagslega bannhelgi. Það er aðferð til að segja eitthvað sem ekki má eða ekki á að segja með berum orðum. Þessi evrópska eða öllu heldur norræna systir hinna frumstæðu eða villtu stúlkna í myndum Gaugins er að því leyti frábrugðin systrum sínum frá Tahiti að hún óttast þau örlög sín að þurfa að þræða einstigi takmarkana og banna er muni standa í vegi fyrir náttúrlegum frumhvötum hennar og eru bundin við hennar samfélagslegu (evrópsku) tilveru. Táknið er ekki eitthvað sem kemur að handan, utan veruleikans, það felur í sér dauða sem blandar sér inn í lífið og líkamann.

Edward Munch: Ibsen á Grand Café 1908

Ibsen sagði að samfélagið væri eins og skip með lík í lestinni. Líkið er tákn
bannhelginnar. Hinum ýmsu tilbrigðum symbolisma sem voru í gangi á þessum tíma, allt frá andahyggju Redons til launsagna Böcklins er hér svarað af Munch með því að segja að menn geti ekki umflúið veruleikann með því að grípa til táknsins. Ástin og kynlífið, Dauðinn og líkið í lestinni, það er samfélagið sem er sturlað, Orðið er ómótað hljóð, ópið sjálft. Í rauninni er ekkert það til sem hefur til að bera þann stöðugleika, þá heiðríkju og þá tryggu merkingu formsins sem kallað er á. Allt er
bundið fallvaltleikanum, óstöðugleikanum, hinum óvæntu atburðum. Við skulum taka eftir einstöku flæði línanna í þessari mynd, flæði merkjanna, hvergi eru sterkar andstæður ljóss og skugga eða sterkra lita. Allt, líka hinir fínlegustu og smæstu drættir og litbrigði verksins vísa til framrásar tímans, til lífsreynslunnar í átt að óhjákvæmilegum örlögum. Það er einmitt vegna þess að myndin er full af ósögðum táknum sem hún verður hrollvekjandi, ágeng og hættuleg. Rétt eins og þessi stóri skuggi í myndinni er ógnvekjandi, skuggi sem einungis er mynd af mynd. Þessi mynd
á ekki að verka á augað eða sjónskynið heldur að smjúga inn í dýpstu rætur
sálarlífsins. Það er kannski þess vegna sem sá raunsæislegi skilningur sem finna má í verkum Munchs hefur haft meiri áhrif  nútímalegustu tækni myndrænnar framsetningar, kvikmyndagerðina, en nokkurn tíman þýski expressionisminn (þetta á einkum við um kvikmyndahöfunda expressionismans á borð við Dreyer og Bergman).

Andre Derain og Ernst Ludwig Kirchner (bls. 310-313)

Skyldleika og andstæður hinnar frönsku hreyfingar Fauvistanna annars vegar og þýsku Brücke-hreyfingarinnar hins vegar koma í ljós þegar við berum saman annars vegar verkið Kona í pilsi eftir André Derain (1880-1954) og hins vegar málverkið Marzella eftir Ernst Ludwig Kirchner (1880-1938).

André Derain: Sitjandi stúlka, 1906

Ernst Ludwig Kirchner: Marzella, 1909

Viðfangsefnin eru hliðstæð og sá sálfræðilegi áhugi sem liggur þeim til grundvallar. Báðar stúlkurnar eru sitjandi og horfa framan í
málarann/áhorfandann. Líkamar þeirra eru dregnir mjög grófum dráttum til þess að andlitið verði í fyrirrúmi. Báðar myndirnar eru einfaldaðar í framsetningu með sambærilegum hætti. Við sjáum stóra einslitaða fleti sem þekja myndflötinn, bæði í stúlkumyndunum og í bakgrunninum og grófmálaðar skematískar útlínur málaðar með bláum lit. Þrátt fyrir þessar augljósu hliðstæður er uppbygging myndanna ólík.
Við sjáum enn leifar impressionismans í mynd Derains, en hreinan expressionisma hjá Kirchner. Derain leitast við að ná fram sjónrænni skynjun sterkrar sálrænnar nándar. Skynjunin á að virka sem skynræn örvun. Hann grípur til ofstopafullra pensildrátta að hætti van
Gogh og lýsingarmáta sem er í ætt við Toulousse Lautrec. Bygging myndarinnar byggir hins vegar á hinni impressionistísku reglu um gagnkvæmar litaandstæður. Það eru fáir grunnlitir í ólíkum tóntegundum. grænir og bláir (kaldir tónar) og rauðir (heitir). Tónbrigðin skipta höfuðmáli og ná hámarki í hinum hvíta lit pilsisins.
Bleiki liturinn sem þekur vegginn ýtir undir skærrauðari litinn í hárinu. Sambærilegt gerist í hinum kaldari tónum myndarinnar þar sem  blágrænn litur bakgrunnsins ýtir undir túrkisbláan litinn á sokkunum. Þetta eru litir sem miðla ekki sjónrænni skynjun heldur umhyggju listamannsins. Derain vill sýna að það er sálfræðilegur áhugi á stúlkunni sem kallar fram tónskalann í litunum langt umfram það sem teldist sjónrænt trúverðugt. Heiti rauði liturinn í hárinu og sá túrkisblái í sokkunum eru
lykiltónarnir í þessum litaskala eins og sést af því að þeir mynda miðás myndarinnar, þar sem handleggurinn tengir saman fótlegg og höfuð.
Derain hefur stjórn á dreifingu heitra og kaldra flata til að koma í veg fyrir að annar hvor tónninn nái yfirhöndinni. Hann ýkir hina sálfræðilegu túlkun svo að jaðrar við karekatúr-teikningu, en kemst ekki hjá að nota hvít tónbrigði til að dempa hana niður. Hann þarf að hemja útgeislun litatónanna því litirnir eru líka teikning. Það er augljóst að breiðar útlínur handleggjanna og á barminum gegna formrænu hlutverki og
móta jaðar rúmflatanna. Sá kontrapunktur tónanna sem myndin byggir á nær hámarki í sterku svipmóti andlitsins sem er allt ein augu og einn munnur. En augun eru túrkisblá eins og sokkarnir og varirnar leirrauðar eins og hárið. Hendurnar eru stórar og sú sem liggur yfir himinbláum skugga pilsisins er í yfirstærð. Þessi stóri rauðbleiki flötur handarinnar var nauðsynlegur til mótvægis við kaldan fölbláan litinn þa pilsinu. En Derain notfærir sér þetta einnig til að gefa mjósleginni stúlkunni groddalegt lágstéttaryfirbragð (enn skyldleiki við Toulouse). Hér er bæði um sjónrænar og sálfræðilegar andstæður að ræða. Fyrir Derain er expressionismi fauvistanna einungis útvíkkun eða efling impressionismans.

Kirchner gerir úr sambærilegum efnivið mynd sem er hlaðin biturð, allt að því fráhrindandi. En myndbyggingin, sem er mun minna úthugsuð en hjá Derain, felur í sér nýlundu. Einnig hér byggir myndin á örfáum grunntónum: rauðum og gulum, grænum og bláum. Og einnig hér ná þeir hámarki í hvítum tóni sem myndar slaufuna í hárinu. En tónarnir sem studdu hver annan í mynd Derains í lýsandi stigvaxandi hrynjandi, virðast hér draga sig til hlés og afneita ljósinu. Líkaminn, sem í mynd Derains var illkvittnislega afmyndaður og gefin til kynna á bak við yfirbreiðslu hvíta klæðisins, er hér nánast gerður að engu, hann er ekkert nema einhver nekt, eitthvað brothætt og í sársaukafullum samdrætti undir kinnfiskasognu andlitinu, eins og uppétinn af yfirstærð augnanna og munnsins og af þykkum hárfellingunum yfir axlirnar. Derain nýtti sér gagnkvæmar andstæður litatónanna til að halda stúlkumyndinni í jafnvægi, Kirchner leitast við að koma henni úr jafnvægi og skapa þannig ónotatilfinningu hjá áhorfandanum, næstum angistartilfinningu. Útlínurnar mynda ekki lengur sambandið á milli stúlkunnar og bakgrunnsins, þær skera inn í lifandi vefinn eins og skæri. Rauðbrúni og guli liturinn í bakgrunni eru ágengir og éta næstum upp fölbleikan húðlit líkamans. Skuggabletturinn í hárinu og umhverfis hálsinn er dimmgrænn eins og tómarými eða gat. Engu er líkara en þessi skuggasvæði og útlínur handleggjanna séu rist með offorsi í þéttan litaflöt léreftsins. Það liggur í augum uppi að þessi ummerki, sjálfar útlínur stúlkumyndarinnar, hafa borist inn í málverkið frá tréristunni. Í þessum útlínum finnum við hörku skurðjárnsins sem grefur sig inn í trefjamikinn viðarflötinn. Uppruni eða rætur myndarinnar koma í ljós þegar við sjáum hvernig myndin er útflött og einfölduð eins og neikvæð eftirmynd sem gerð er sýnileg í gegnum afþrykkið, þrýstinginn frá grafíkpressunni. Það er rétt að Kirchner hefur fengið hugmyndina um myndbyggingu í stórum flötum með útflöttum lit frá Matisse, en krafturinn í þessum beinu línunum og hvössu hornum í stað bogalínanna hafa þveröfug áhrif samdráttar og aðþrengingar – miðað við útgeislandi áhrif litaflatanna hjá Matisse. Kirchner nálgaðist reyndar Matisse eftir öðrum leiðum en gegnum impressionismann. Rætur þessarar döpru og  kvíðafullu stúlkumyndar liggja annars staðar: hjá Munch og í tilvistarangist hans, í  harmsögulegum kynferðislegum sálarflækjum hans og sektarkennd. Við meðtökum stúlkumynd Derains eins og hún væri felld á skjá og síðan merkt athugasemdum með undirstrikunum þar sem vegast á kaldhæðni og  kvenlegur þokki. Stúlkumynd Kirchners er mynd sem málarinn tjáir eða dregur út úr sjálfum sér með sársaukafullum hætti, lifandi brot úr hans eigin tilvist. Myndin er sem sagt til þess fallin að vekja ónotatilfinningu, næstum því einhver lifandi skelfing sem málarinn hefur látið fæðast inn í þennan heim og tala til hans. Það er ekkert annað en þessi ásetningsbundna spennuútrás sem einkennir þessa expressíonisku myndbyggingu samanborið við þá myndbyggingu sem enn er bundin við það að sýna og myndgera eins og við sjáum hjá impressionistunum, fauvistunum, og reyndar einnig hjá kúbistunum.

THORVALDSEN, CANOVA OG ENDALOK LISTASÖGUNNAR

Á næsta ári eru liðin 150 ár frá fæðingu Bertels Thorvaldsen. Í tilefni af því vildi ég rifja upp gamla grein sem ég skrifaði í 4. hefti Tímarits Máls og Menningar árið 1992 eða fyrir tæpum 30 árum síðan. Greinin ber merki síns tíma en heldur þó gildi sínu að mínu mati. Hún er tilraun til að skilja þau tímamót sem við upplifðum á síðustu áratugum 20. aldarinnar og heimfæra þau upp á hliðstæð tímamót um aldamótin 1800. Um leið er hún tilraun til að horfa á verk Thorvaldsen í nýju ljósi og heimfæra þau upp á samtímann. En það er meginverkefni allrar sagnaritunar að bregða ljósi á samtímann út frá reynslu hins liðna. Án minningar um hið liðna og skilnings á því erum við ekkert, og með staðlaðri mynd af fortíðinni erum við með sama hætti búin að glata sjálfsmynd okkar. Sú sagnfræði sem hér er að finna kallar því líka á endurskoðun.
Ólafur Gíslason:

Með Canova og Thorvaldsen á tímamótum í listasögunni

 

Sýningar sem nýlega hafa verið haldnar á Italíu á verkum eftir tvo af fremstu myndhöggvurum nýklassísku stefnunnar, Antonio Canova og Bertel Thorvaldsen, hafa gefið tilefni til endurmats á eðli þessarar stefnu og á þýðingu Thorvaldsens fyrir fagurfræðilega umræðu í samtímanum, svo sem umræðu um endalok listarinnar og listasögunnar.

Art ends with the advent of its own philosophy.“

Arthur C. Danto

 

Þegar ég hafði kynni af listaháskólum á meginlandi Evrópu fyrir tæpum þrjátíu árum, voru þess dæmi, að nemendur gengju í skrokk á fortíðinni og hinni klassísku listhefð í bókstaflegri merkingu orðsins, og fremdu skemmdarverk á gipsafsteypum klassískrar grískrar og rómverskrar höggmyndalistar. Þetta gerðist meðal annars í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn og víðar, og var andsvar nemenda við þeirri kennsluaðferð, sem enn var víða við lýði, að láta nemendur teikna myndir af slíkum gifsafsteypum. Þannig var Glyptotekið í Kaupmannahöfn ekki síst notað til þess að láta nemendur listaskólanna teikna forngríska gifshausa. Um leið var verið að kynna nemendum hina klassísku fegurðarímynd sem fyrirmynd og viðmiðun allrar listrænnar sköpunar. Þessi akademíska listhefð, sem átti rætur sínar að rekja til upplýsingarstefnunnar á 18. öld og nýklassísku stefnunnar sem fylgdi í kjölfarið, var hötuð af nemendum þar sem hún þótti bera vott um valdboðslega afstöðu, íhaldssemi og kreddufestu, er væri í algjörri andstöðu við abstrakt-expressjónismann, formleysumálverkið, og þá trú á „frelsi ímyndunaraflsins og tjáningarinnar“, sem var mest áberandi í listheiminum á þessum tíma.

Bertel Thorvaldsen: Dísirnar þrjár, 1817-19; / Antonio Canova: sama, 1812-16 

Bertel Thorvaldsen var í engu uppáhaldi meðal nemenda Listaakademíunnar í Kaupmannahöfn á 7. áratugnum, og myndir hans þóttu bæði líflausar og gersneyddar allri tilfinningu, áræði og átökum. Á þeim þrjátíu árum sem liðin eru hefur margt breyst. Meðal annars hafa menn séð ástæðu tíl þess að taka nýklassísku stefnuna til endurmats út frá nýjum forsendum. Þetta endurmat birtist í tengslum við tvær yfirlitssýningar, sem haldnar hafa verið á ítalíu með stuttu millibili á verkum tveggja áhrifamestu myndhöggvara nýklassísku stefnunnar: sýning á verkum Bertels Thorvaldsens var haldin í Nútímalistasafninu í Róm veturinn 1989-1990, og á liðnu sumri var haldin yfirlitssýning á verkum feneyska myndhöggvarans Antonio Canova í Correr-safninu við Markúsartorgið í Feneyjum. Að baki þessara sýninga lá umtalsverð rannsóknarvinna og þeim fylgdu þykkar og miklar sýningarskrár, þar sem verk listamannanna, nýklassíska stefnan og sá menningarjarðvegur sem hún er sprottin úr, voru tekin til umfjöllunar og endurmats ásamt þeim umbrotatímum sem fylgdu aldamótunum 1800. Inngangurinn að báðum sýningarskránum er ritaður af ítalska listfræðingnum Giulio Carlo Argan, og stýrði hann jafnframt rannsóknarhópnum er vann að undirbúningi á sýningu Canova.

Sýningar þessar og umræðan í kjölfar þeirra eru tilefni þessara skrifa. Þá verður þessi umræða tengd vangaveltum bandaríska heimspekingsins Arthurs C. Danto um eðli listarinnar, listasögunnar og um endalok listarinnar.

Antonio Canova : Amor og Psyke, 1802 / Bertel Thorvalsen: sama, 1807

Canova-sýningin

Antonio Canova (1757-1822) er talinn einn merkasti fulltrúi nýklassísku stefnunnar í evrópskri höggmyndalist, en höggmyndir hans í marmara þóttu hafa til að bera þann „göfuga einfaldleika og hljóðláta mikilleik“, sem þýski listfræðingurinn J.J. Winkelmann (1717-1768) boðaði samkvæmt hinni fullkomnu fegurðarímynd klassískrar grískrar höggmyndalistar. Hugmyndir Winkelmanns voru angi af upplýsingarstefnunni og þeim menningarstraumum er fylgdu vaxandi borgarastétt í Evrópu. Þær voru jafnframt andsvar skynseminnar við flúruðu ofhlæði og tilfmningasemi barokk- og rókokkólistarinnar er endurspegluðu dauðateygjur hinna gömlu evrópsku aðalsstétta.

Canova var ættaður frá Feneyjum. Hann var í upphafi ferils síns undir áhrifum frá Gianlorenzo Bernini (1598-1680), meistara barokklistarinnar í Róm, sem hvað dyggilegast hafði þjónað páfastóli og kaþólsku gagnsiðbótinni. Canova hreinsaði hins vegar myndir sínar fljótlega af þeirri dramatík og því hömlulausa ímyndunarafli og sefjunargaldri sem einkennir verk Berninis; verk hans urðu einfaldari og hreinni í forminu, þar sem píramídaformið varð gjarnan ríkjandi og viss symmetría gerði vart við sig í myndbyggingunni. Þessi hreinsun og leit eftir fullkomnu og endanlegu formi höggmyndalistarinnar fól jafnframt í sér andsvar við kirkjuvaldið í Róm,og þótt Canova hafi ekki talið sig róttækling í pólitískum skilningi, þá voru hugmyndaleg tengsl á milli verka hans og þeirra frelsishugmynda sem fylgdu frönsku byltingunni.

Ég sá sýningu Canova í Feneyjum í september síðastliðnum, og því verður ekki neitað að það var mikil upplifun. Sem myndhöggvari hefur Canova meira að gefa en Thorvaldsen, að minnsta kosti við fyrstu kynni: sú endanlega fullkomnun sem marmaramyndir hans nálgast svo mjög í formi og útfærslu vekur einhvern sælukenndan hroll, því það er eins og á bak við hið fullkomna form búi ákveðin tvíræðni gagnvart náttúrunni og hinum ytri veruleika. Um leið og Canova nálgast hina fullkomnu fegurðarímynd í verkum sínum gegnum náttúruna verður manni ljóst að innihald þeirra er handan náttúrunnar: abstrakt hugmynd um algilda fegurð.

Það var ævintýri líkast að upplifa á einni sýningu verk á borð við Amor og Psyche í faðmlögum, Venus og Adónis, Vængjaðan Amor, Amor og Psyche með fiðrildið, Venus Italica eða Dísirnar þrjár, allar á einum stað. Að viðbættum fjölda annarra höggmynda, stórra og smárra, lágmynda, leirmynda, teikninga og málverka, alls um 152 verk. Uppsetning sýningarinnar og frágangur allur var einnig til hreinnar fyrirmyndar. Ekki var síst fengur í að sjá það merka safn höggmynda, sem fengið var að láni frá Hermitage-safninu í Pétursborg.

Antonio Canova: Amor og Psyke sameinast, 1793. Hermitage-safnið Pétursborg

Argan bendir á í formála sínum að sýningarskránni að Carl L. Fernow, ævisöguritari Canova, hafi gagnrýnt hann fyrir tilfinningasemi og fyrir að hafa ekki gengið nægilega   langt   í   að hreinsa og einfalda myndformið í klassískum anda. Gagnrýni Fernows var í raun byggð á hugmyndum og forsendum Thorvaldsens, sem lagði enn meira upp úr því en Canova að hreinsa myndformið af dramatískri sefjun. Síðari tíma gagnrýnendur Canova hafa hins vegar gjarnan gagnrýnt hann frá þveröfugum sjónarhóli, og bent á að leirskissur hans taki marmaramyndunum fram, því þar sé að finna listræn átök og tilfinningalega tjáningu sem hinar fullgerðu marmaramyndir hans hafi ekki til að bera. Argan bendir hins vegar á að marmarinn sem efni hafi í sér fólgna ákveðna merkingu fyrir höggmyndalistina, og að Canova hafi litið á það sem „göfgandi útfærslu“ (í samræmi við hugmyndir Kants) að útfæra hráa leirskissu yfir í fullkomna og endanlega marmaramynd. Því Canova leit á marmaramyndina sem endanlegt og fullkomið form, gagnstætt Michelangelo, sem leit á listina sem ferli eða glímu við efnið er aldrei tæki enda. Myndir Michelangelos voru því meðvitað ófullgerðar, gagnstætt verkum Canova. Fyrir Canova var endanleg útfærsla fólgin í yfirfærslu frá hinu sérstaka yfir í hið algilda, en hið algilda var ekki lengur guðdómurinn og sú frelsun sem kirkjan veitti með aðgangi að himnaríki, heldur hið mannlega í kjarna sínum. Listin hafði ekki lengur frelsandi tilgang í trúarlegum/frumspekilegum skilningi, heldur í mannlegum og félagslegum skilningi. Fagurfræðin átti að vera uppeldi til frelsis. Sú tilfinning fyrir náttúrunni og fegurð hennar, sem finna má í verkum Canova, var tvíræð að því leyti að hann gerði sér grein fyrir því að listin hafði ekki lengur með þekkingu á náttúrunni að gera, heldur var viðfangsefni hennar tilvistarlegs eðlis. Viðfangsefni hans voru Eros og Þanatos.

Argan segir að hjá Thorvaldsen hafi þessir fulltrúar ástarinnar og dauðans opinberað einingu andstæðanna, en fyrir Canova hafi þeir verið sjálf  lífsreynslan. Argan segir jafnframt, að með verkum sínum hafi Canova sett endapunkt á þá miklu hefð sem hófst með endurreisninni á Italíu.

Thorvaldsen sem listheimspekingur

Misskilin gagnrýni síðari tíma á marmaramyndir Canova hefur gengið út á  að telja leirskissur hans standa hinni endanlegu marmaraútfærslu framar, og gagnrýnin á Bertel Thorvaldsen hefur beinst í sömu átt í enn ríkari mæli. Því verður ekki neitað að verk Thorvaldsens eru bæði köld og lítt aðlaðandi við fyrstu kynni. Fyrir ungum listamönnum í Kaupmannahöfn á 7. áratugnum var hann ímynd hinnar gaddfreðnu og forstokkuðu íhaldssemi og hins hataða „akademisma“.  Sem myndhöggvari stendur Thorvaldsen Canova engan veginn á sporði, en eins og Argan bendir á, þá var hann sjálfum sér samkvæmari í endanlegri útfærslu á hinni upphöfnu fegurðarímynd fornaldarinnar og gekk því enn lengra en Canova í því að forma heimspeki nýklassíkurinnar í marmara. Argan telur því að Thorvaldsen hafi í raun verið meiri heimspekingur en myndhöggvari, og þó hann standist ekki fullkomlega samanburð við Canova sem listamaður, þá standi hann honum framar sem heimspekilegur hugsuður og hafi í raun haft mótandi áhrif á þróun heimspekilegrar fagurfræði á 19. öldinni.

Það er einmitt þessi óvænta fullyrðing Argans sem setur skriðuna af stað: hver var heimspeki Thorvaldsens og hvað boðaði hún?

Þegar Bertel Thorvaldsen (1770-1844) kom til Rómar árið 1797 var hann þegar mótaður af hugmyndum nýklassíkurinnar og kennara sínum við dönsku listaakademíuna, listmálaranum Abildgaard. Dvöl Thorvaldsens í Róm og virk þátttaka hans í blómlegu listalífí borgarinnar á fyrri hluta 19. aldar hafði þó mótandi áhrif á hann umfram annað, og þá ekki síst Canova, sem starfaði í Róm og hafði þegar öðlast frægð langt út fyrir landsteinana er Thorvaldsen kom til borgarinnar.

B. Thorvalsdsen: A Genio Lumen, 1808. Upplýsing snilligáfunnar.

Í formála sínum að sýningarskrá Thorvaldsen-sýningarinnar gerir Argan grein fyrir meðvitaðri aðferð Thorvaldsens við að hreinsa listina í anda nýklassískrar heimspeki. Argan hefur áður manna best skilgreint inntak og aðferð barokklistarinnar sem retorík og sefjun.(Sjá: Immagine e persuasione, ritgerðir um barokktímann frá 1986.)  Nú bendir hann á að Thorvaldsen hafi leitað eftir hinu gagnstæða: hann vildi ekki sefja, heldur sýna. Hann hreinsaði listina gagngert og meðvitað af allri tilfinningasemi vegna þess að list hans var í kjarna sínum hugmyndalegs eðlis og stefndi að fullkominni einingu forms og hugmyndar. Og það er einmitt þetta hugmyndalega inntak í verkum hans sem Argan telur að hafi haft mótandi áhrif meðal annars á hugmyndir þýska heimspekingsins Hegels um eðli og þýðingu listarinnar: um þann grundvallar eðlismun er væri á náttúrulegri og listrænni fegurð og um möguleg endalok listarinnar í því borgaralega samfélagi sem var að mótast á hans tíma. Argan segir:

Höggmyndalist Thorvaldsens, sem var í kjarna sínum heimspekileg, hafði áreiðanlega meiri áhrif á sögu fagurfræðinnar en sögu höggmyndalistarinnar: höggmyndalist Thorvaldsens var vel þekkt í Þýskalandi á þeim árum þegar Hegel setti fram hugmyndir sýnar um fagurfræði í Berlín, og þar sem prófessorinn var vel vakandi yfír því sem gerðist í samtímanum er enginn vafi á að hann hafði Thorvaldsen í huga þegar hann hélt fram hinni algjöru einingu forms og innihalds og skildi endanlega á milli þeirrar fegurðar sem felst í náttúrunni annars vegar og listinni hins vegar“.

Argan bendir jafnframt á að misskilin gagnrýni samtíma okkar á verk Canova og Thorvaldsens stafi meðal annars af skilningsleysi á því líkingamáli sem fólgið er í sjálfum efniseiginleika marmarans. Hins vegar hafi Hegel skilið þetta mætavel, og þá ekki síst vegna kynna sinna af verkum Thorvaldsens. Þannig hefur Argan eftirfarandi tilvitnun eftir Hegel:

Í hárfínum og skjannahvítum hreinleika sínum jafnt og í litleysi sínu og glæsilegum léttleika fellur marmarinn fullkomlega að markmiðum höggmyndalistarinnar, ekki síst vegna þess hversu fínkornóttur hann er og hversu mjúklega hann endurvarpar birtunni, þar sem hann sýnir hreina yfírburði yfir krítarhvítt gipsið sem er of bjart og gleypir í sig fínni blæbrigði“.

Með greiningu sinni á verkum Thorvaldsens og Canova hefur Argan sett verk þessara manna í samhengi við listasöguna og samtímann með nýjum hætti og ekki síst í samhengi við þá miklu umræðu, sem átt hefur sér stað á síðustu árum um hugmyndalist, póstmódernisma og „póst-sögulega“ list og endalok listarinnar og listasögunnar í hefðbundinni merkingu.

Spurningin sem Argan varpar fram er í rauninni sú, hvort upphaf nútímalistarinnar sé einmitt að finna í verkum Bertels Thorvaldsens, og hvort hann hafi jafnframt séð fyrir sér endalok listasögunnar og litið á list sína sem slikan endapunkt á sama hátt og heimspekingurinn Hegel leit á hið frumspekilega heimspekikerfi sitt sem fullkomnun og endalega lausn á viðfangsefnum heimspekinnar:

Það sem var fullkomið, endanlegt og óumbreytanlegt var jamframt dautt. Thorvaldsen gerði sér grein fyrir því að í vitund nútímans var fornaldarlistin dauð, að hún hafði stigið frá sögunni yfír á svið hugmyndarinnar. (…) Hið plastíska form átti að hafa sama gagnsæi og nafnið og vera staðgengill þess. Það stefndi því ekki að eftirlíkingu á fegurð hinnar fornu fyrirmyndar eða framlengingu hennar yfir í nútímann, heldur átti það að festa hana óumbreytanlega í kjarna sínum, sem var eining forms og hugmyndar. Þannig var listin hreinsuð af öllum þeim mælikvörðum hlutlægninnar, sem fyrr eða síðar hefðu leitt til þeirrar ýkjukenndu hermilistar sem einkenndi sefjunarbrögð (retórík) barokklistarinnar. Hin úthöggna persóna eða dýr var ekki mynd af fyrirmyndinni, heldur líking sem gerði hvort tveggja í senn, að koma í staðinn fyrir veruleikann og eyða honum“.

Grein sína endar Argan síðan með þessum orðum:

Og var það ekki einmitt nýklassíkin sem skar í eitt skipti fyrir öll á öll hugsanleg hefðartengsl á milli siðmenningar fornaldar og nútíma? Ef Thorvaldsen hefur skilið að hugmyndalegt eðli listarinnar var jafnframt markmið hennar, getur þá ekki verið að Hegel og fyrstu boðberar rómantísku stefnunnar, sem fyrstir settu fram kenninguna um mögulegan dauða listarinnar í borgaralegu samfélagi, hafí einmitt öðlast slíkan skilning við  að sjá tímaleysið í myndum hans?“

Hegel og endalok listarinnar

Hvað svo sem sagt verður um heimspekikerfi Hegels í heild, þá hefur söguspeki hans orðið mönnum umhugsunarefni þegar litið er til þróunar myndlistarinnar á síðustu áratugum. Þannig hefur bandaríski heimspekingurinn Arthur C. Danto lagt út af söguspeki Hegels í nýlegri og athyglisverðri ritgerð sinni um endalok listarinnar. í ritgerðasafninu The Philosophical Disenfranchisement of Art, bendir Danto á að skilningur á listinni krefjist ákveðins skilnings á listasögunni. Röksemdafærsla hans er sú, að listin verði aldrei skilin nema út frá sínu sögulega samhengi. En það kallar aftur á sérstakan skilning á sjálfri listasögunni. (Sjá:„The End of Art„, birt í ritgerðasafninu The Philosophical Disenfranchisement of Art. Columbía University Press 1986.)

Í framhaldi þessa dregur Danto upp þrjár mögulegar forskriftir að skilningi á listasögunni: í fyrsta lagi er það listasagan sem framþróun í þeim anda sem Giorgio Vasari setti fram í tímamótaverki sínu „Le vite dei piu eccelenti scultori, pittori e architetti“ (Ævir hinna bestu myndhöggvara, málara og byggingarmeistara), er gefið var út í Flórens 1568. Þar er gengið út frá því að listin eigi sér línulegt ferli eða þróun frá frumstæðri list til stöðugt nákvæmari eftirlíkingar náttúrunnar. Listasagan er því, ef marka má Vasari, saga stöðugra framfara.

Danto bendir á að sú saga sé löngu runnin á enda, og langt sé síðan listin hafi haft þetta markmið. Hann bendir jafnframt á, að á sama hátt og menn töldu á 19. öldinni að búið væri að leysa allar gátur rökfræðinnar, og að algjör og endanleg þekking á lögmálum náttúrunnar væri innan seilingar, þá hafi menn getað séð fyrir tæknilega möguleika á endalokum listarinnar sem eftirlíkingu náttúrunnar. Danto segir að þessi tímamót hafi runnið upp með tilkomu ljósmynda- og kvikmyndatækninnar upp úr aldamótunum 1900 síðustu, en ef við lítum til greiningar Argans, þá verða þessi tímamót um hundrað árum fyrr, þar sem þeir Canova og Thorvaldsen standa nálægt hvor öðrum en sinn hvorum megin við vatnaskilin. Á þeim tímamótum gátu menn spurt: Hvað kemur á eftir framfaralistinni? Á sama hátt og menn spyrja nú: Hvað kemur á eftir módernismanum?

Önnur möguleg forskrift að skilningi á listasögunni er sú sem Danto vill meðal annars kenna við ítalska heimspekinginn Benedetto Croce og verk hans Estetica come scienza dell’espressione (Fagurfræðin sem vísindi tjáningarinnar) frá 1902: að líta á listasöguna sem tjáningu tilfinninga.

Expressjónisminn miðar á engan hátt að eftirlíkingu náttúrunnar. Frá hans sjónarmiði er listin tjáning á tilfinningu, og sú tjáning getur orðið bæði í hlutlægu og óhlutlægu formi. Frá sjónarhóli expressjónismans er ekki um neina framþróun að ræða í listinni, því að baki listaverksins stendur óhlutlæg tilfinning sem hefur verið gefið áþreifanlegt form. Listasagan er því ekki ferli í sjálfu sér, heldur safn einstakra athafna er hafa ekkert innbyrðis samhengi að öðru leyti en því að ákveðnar tilfinningar eru meira áberandi eða meira í tísku á einum tíma en öðrum.

Út frá þessari söguskoðun eru fyrirbæri eins og hið forngríska hof, rómverska basilíkan með hvelfingu sinni og gotneska dómkirkjan þrjár tjáningaraðferðir í byggingarlist sem endurspegla þrjá heima og eiga í rauninni ekkert sameiginlegt annað en það að vera tjáning á samtíma sínum. Á milli þeirra liggur enginn sögulegur, línulegur þráður.

Þessi skilningur á listasögunni felur í sér augljósan galla. Hann býður upp á fullkomna afstæðishyggju, þar sem skorið er á alla sögulega viðmiðun og mælikvarða.

Afstæðishyggjan leiðir jafnframt til þessað ekki verður lengur hægt að horfa fram á sögulega mikilvæg verk eða tímamót í listasögunni, hún endar í raun í hreinni lágkúru.

Afstæðishyggjan gerir spurninguna um framtíð listarinnar óþarfa.

Vilji menn sögulega viðmiðun kallar það á nýjan skilning á sögunni, og þar getur söguspeki Hegels komið að liði, segir Danto. Söguspeki Hegels gengur út frá samfelldri sögulegri framvindu er stefni til stöðugt aukinnar þekkingar. Á vissu þroskaskeiði mannsins gegnir listin mikilvægu hlutverki í þessari þekkingaröflun, segir Hegel. Þegar þessari þekkingu hefur verið náð verður listin hins vegar óþörf. „Spurningin er þá, um hvaða þekkingu sé að ræða, og svarið er: þekking á því hvað sé list, hversu fátækgt sem það svar kann að virðast,“ segir Danto. Þannig er um beint samband að ræða á milli eðlis og sögu listarinnar. „Sögunni lýkur með tilkomu sjálfsvitundarinnar eða sjálfsþekkingarinnar, listinni lýkur með tilkomu eigin heimspeki.“

Danto bendir á að hver listastefnan hafi tekið við af annarri á 20. öldinni, og allar hafi þær ætlað sér að gefa endanlegt svar við sömu spurningunni um  hvað listin væri í raun og veru. Meginviðfangsefni listar 20. aldarinnar hefur verið að skilgreina eigin sjálfsímynd um leið og öllum fyrri skilgreiningum hefur verið varpað fyrir róða. Danto segir að út frá þessu sé hægt að líta á listasöguna sem eins konar þroskasögu, mótunarsögu manns sem endar með því að hann öðlast skilning á sjálfum sér eða fulla sjálfsvitund. En þroskasagan er í raun líka grundvöllurinn að hinu mikla heimspekiverki Hegels, Fyrirbœrafrœði andans, þar sem söguhetjan er svokallaður alheimsandi, er gengur í gegnum ólík þroskastig til sjálfsþekkingar. Endanlegt markmið heimsandans er samkvæmt söguspeki Hegels að öðlast vald á heimspekinni, og á sama hátt sér hann sögu heimspekinnar sem sögu er stefni í átt til sjálfsvitundar. Sem í þessu tilfelli er vitundin um heimspekikerfi Hegels sjálfs. Og ef við lítum á listasöguna sem þyrnum stráða og þjáningarfulla þroskasögu í átt til sjálfsvitundar, þá verður það sögulegt hlutverk listarinnar að skapa hreina listheimspeki. Auðvelt er að finna því stað, að þróun myndlistar á síðustu áratugum hafi einmitt snúist um þetta. Hitt kemur hins vegar meira á óvart, að sjá Giulio Carlo Argan túlka verk Bertels Thorvaldsens í þessum anda: með því að upphefja fegurðarímynd fornaldarinnar, slíta hana úr sögulegu samhengi og setja hana á stall sem óumbreytanlega og endanlega fyrirmynd var Thorvaldsen meðvitað (eða ómeðvitað?) að setja endapunkt á listasöguna. Það sem á eftir kom voru bara dauðateygjurnar, sem síðan hafa varað í tæp 200 ár.

Endanleg lausn nýklassíkurinnar og endalok módernismans

Nú hafa menn uppgötvað að enn ein tímamótin eru runnin upp í listasögunni: módernisminn hefur öðlast endanlegan skilning á sjálfum sér og listasagan í skilningi Hegels hefur þar með runnið ákveðið skeið á enda. Eða með orðum Hegels sjálfs:

Fyrir okkur heyrir listin fortíðinni til. (…) Hvað varðar mikilvægustu möguleika sína þá hefur listin glatað sannleiksgildi sínu og lífi, hún hefur frekar flutt sig um set yfir á svið hugmyndanna og megnar ekki að halda sinni fyrri stöðu sem lífsnauðsyn í hásæti raunveruleikans. (…) Listin boðar okkur að íhuga hana innra með okkur . . . til þess að sannreyna eðli hennar með vísindalegum hætti“.

Svo mörg voru orð Hegels.

Ef við tengjum þessa orðræðu síðan við þá fullyrðingu Argans, að marmaramyndir Thorvaldsens séu framar öðru úthoggin heimspeki, þá verður okkur ljósara í hverju þessi heimspeki er fólgin. Myndir Thorvaldsens voru „endanleg“ lausn á höggmyndalistinni með sambærilegum hætti og heimspeki Hegels var „endanleg“ lausn á heimspekinni.

Við þetta mætti síðan bæta lokaorðum Arthurs Danto um það frelsistímabil sem runnið er upp í kjölfar hins sögulega skeiðs myndlistarinnar, sem nú er afstaðið (sjá: The Philosophical Disenfranchisement of Art. New York 1986. Bls. 114):

Eins og Marx sagði, þá getum við verið abstraktmálarar á morgnana, fótórealistar um eftirmiðdaginn og naumir naumhyggjumenn á kvöldin. Eða við getum klippt út dúkkulísur eða gert hvern fjandann sem okkur lystir. Öld fjölhyggjunnar er yfir okkur. Það skiptir ekki lengur máli hvað þú gerir, þetta er kjarni fjölhyggjunnar. Þegar allar stefnur eru jafn góðar er ekki lengur um neina hugmynd að stefnumótun að ræða. Skreytilist, sjálfstjáning og skemmtun eru auðvitað mannlegar þarfir sem þarf að uppfylla. Það verður ávallt til eitthvert hlutverk fyrir listina að uppfylla, ef listamenn gera sér það að góðu. Uppfylling frelsisins felur í sér endalok þess. Þjónandi list hefur alltaf fylgt okkur. Stofnanir listaheimsins, listasöfnin, safnararnir, sýningarnar og greinaskrifin, sem sniðin eru að þörfum sögunnar og skrásetningu hins nýja, munu smám saman hverfa. Það er erfitt að segja fyrir um hversu hamingjusama hamingjan mun gera okkur, en ímyndið ykkur bara hvað nýja matreiðsluæðið hefur gert fyrir lífið í Ameríku. Hins vegar eru það forréttindi að hafa fengið að upplifa söguna.“

Forsíðumyndin er hluti af minnisvarða Thorvaldsen um Andrea Appiani frá 1826, sem ég rakst á í Brera-safninu í Milano nýverið. Á minnisvarðanum eru Dísirnar þrjár, alþekkt klassískt myndefni sem túlkað hefur verið sem allegóría um ástina: að gefa, þyggja og endurgjalda. Ég tók bara mynd af þessum hluta verksins.

 

 

 

Slóðir, stígar og farvegir listarinnar – Ragnheiður Jónsdóttir

Þessi ritgerð um teikningar Ragnheiðar Jónsdóttur var samin um það leyti sem ég var uppnuminn að lesa ritgerðasafn Jean-Luc Nancy, „Le Muse“ og ekki síst ritgerðina um „Vegsummerki listarinnar“ sem er birt í íslenskri þýðingu hér á vefsíðu minni. Ritgerðin var birt í bókinni „Slóð“ sem gefin var út í tilefni samnefndrar sýningar Ragnheiðar á teikningum sínum í Listasafni Alþýðusambands Íslands 2012.

Ragnheiður Jónsdóttir: Slóð 6, kolateikning 150×150 cm, 2008

Slóðir, stígar og farvegir listarinnar

Ritgerð um kolateikningar Ragnheiðar Jónsdóttur í tilefni sýningarinnar „Slóð“ sem hún hélt í Listasafni Alþýðusambands Íslands 2012

„Slóð“ er nafnið sem Ragnheiður Jónsdóttir hefur gefið síðustu myndaröð sinni af kolateikningum: óhlutbundnum teikningum sem réttilega marka slóð einhvers sem hefur sett mark sitt á myndflötinn um leið og það lætur sig hverfa. Þetta eru teikningar sem enduróma einhvers konar skrift eða kalligrafíu náttúrunnar, hvor sem um er að ræða endurtekin mynstur er rekja má með góðum vilja til  dýra-, jurta- eða steinaríkisins. Ekki þó þannig að um beina eftirlíkingu sé að ræða, heldur eru þetta eins konar vísanir í rætur þessar skriftar, sem vottar um lifandi samband listakonunnar við ríki náttúrunnar, ekki í gegnum hlutstæða eftirlíkingu hennar heldur í gegnum „slóðir“ sem skriftin rekur með lifandi snertingu handarinnar við myndflötinn í samtali sem er jafn hverfult og líðandi stund. Þær spurningar sem þessar teikningar kunna að vekja gætu hljóðað eitthvað á þessa leið: Hver er það sem hér hefur gengið um garð og skilið eftir sig slóð, hver er þessi garður og hvaðan kemur slóðin og hvert liggur hún?

Þetta eru ekki auðveldar spurningar, en það er einmitt galdur áhugaverðrar listar að leggja fyrir okkur snúnar gátur.

Hugum að fyrsta þætti spurningarinnar:  Hver hefur gengið hér um garð og skilið eftir sig slóð? Einfaldasta svarið er kannski að segja að það sé listakonan sjálf, að myndirnar sýni fingraför hennar sjálfrar og ekkert annað. Það má til sanns vegar færa að því leyti, að teikningarnar bera allar vott um líkamlega snertingu handarinnar við myndflötinn. Það er viss líkamleg nálægð/fjarvera í þessum myndum, sem við finnum glöggt til. En hvers vegna lætur listakonan sér þá ekki nægja að skilja eftir spor lófa sinna eða ilja á myndfletinum? Hvaða erindi á þessi „kalligrafía“ eða skrautskrift inn í verkin, þessi síendurteknu merki sem fá okkur kannski til að leiða hugann að einhverjum óljóst skilgreindum fyrirbærum í náttúrunni? Hér er eitthvað málum blandið sem kallar á frekari svör.

Þegar lögreglan vill bera kennsl á sakborning, þá er það hefðbundin leið rannsóknarinnar að taka fingraför hans og bera saman við sambærileg merki, sem finnast á vettvangi afbrotsins. Sakborningurinn dýfir fingrinum í blek, þrýstir honum á pappírsörk, og eftir stendur ótvíræð mynd hans, ótvíræð sönnun um að hann hafi farið þessa slóð, gengið um þennan garð. Munurinn á fingurafþrykki lögreglunnar og „skrautskrift“ Ragnheiðar (sem ég kýs heldur að kalla kalligrafíu, því hún hefur lítið með „skraut“ að gera) er sá, að fingurafþrykkið er ekki listaverk samkvæmt hefðbundnum skilningi, og því leiðir þessi spurning okkur að enn erfiðari spurningu: hvað er það sem greinir listaverk frá fingrafari, ef hvort tveggja eru vitnisburðir um slóðir „höfundarins“?

„Listaverkið er hin skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar“ sagði þýski heimspekingurinn Hegel, og hafa fáir véfengt gildi þessarar skörpu greiningar: listaverkið hefur með hugmyndir að gera, nokkuð sem varla er hægt að segja um fingrafarið. Þó við sjáum fingrafar einhvers, fáum við litla hugmynd um persónu viðkomandi, hugsanir eða hugmyndir; sönnunargan fingrafarsins er hin vélræni samanburður við hliðstæðuna.

Hér gegnir öðru máli um listaverkið, eða hvað? Við þurfum ekki að sjá nema lítið brot af listaverki eftir Van Gogh til að sjá „spor“ hans og fingraför í pensilskriftinni, spor sem verða hluti af heildarmynd, sem við þekkjum af endalausum ferðalögum okkar um höfundarverk hans. Þetta gildir þó ekki um alla list í sambærilegum mæli. Frumkvöðlar abstrakt-listarinnar, menn á borð við Malevich, Mondrian og Kandinsky, vildu afmá spor hins persónulega fingrafars úr list sinni, til þess að hún gæti sýnt sig sjálfa og ekkert annað. Það sama á við um höfunda býsanskra helgimynda, svo dæmi sé tekið (sbr. andlitsmynd Krists „ósnert af mannlegri hönd“ og andlitsmyndina á Verónikuklæðinu). Sama á einnig við um marga popplistamenn, minimalista og konseptlistamenn úr samtímanum (Andy Warhol, Donald Judd, Lawrence Weiner), dæmin verða endalaus. Þessi skilgreining á listaverkinu sem merki eða fingrafar persónuleikans og sjálfsveru höfundarins er því vægt til tekið ekki einhlít. Í stærra sögulegu samhengi verður hún í raun fánýt, eða hverjum dettur í hug að leita að persónuleika eða sjálfsvitund höfundarins í hellamyndunum frá Lascaux, í höggmyndinni af Venusi frá Milo, Valþjófsstaðahurðinni eða jafnvel Monu Lisu? Eða hver hefur skilið eftir spor sín í verki Malevich „Svartur súprematískur ferningur“ frá árunum 1914-15? Hvaða „slóð“ var mörkuð í því verki? Ef hér er um slóð hugmyndar að ræða, þá sýnir hún ekki persónu eða sjálfsveru listamannsins, heldur eitthvað annað.

Hvað þá um Delacroix, Van Gogh og alla expressjónistana frá Munch til Jacksons Pollock, er hin tjáningarríka „skrift“ þeirra ekki „fingraför sálarinnar“ svo notast sé við þekkt líkingamál? Því er til að svara, að rétt eins og nafnið er hlutgerving þess fyrirbæris sem er nefnt, þá er „skriftin“ líka hlutgerving og sú sjálfsvera sem framkvæmir hlutgervinguna sem mynd sína er alltaf annars staðar, utan myndarinnar. Ef sjálfsveran vill sýna sjálfa sig í skriftinni, þá er hún alltaf „annar“ eins og skáldið Rimbaud sagði um sjálfan sig. Samsemd sjálfsverunnar og skriftarinnar er óframkvæmanleg, jafnvel í hinni ósjálfráðu skrift súrrealistanna, sem settu sér alltaf reglu til að framkvæma óreiðuna. Rétt eins og tungumálið „talar okkur“, eins og Lacan komst að orði, þá er skriftin „regla“ sem formgerir viðfang sitt, hvort sem um er að ræða ósýnileika „sjálfsverunnar“ eða hinar platónsku hugmyndir handanverunnar. Sjálfsveran hverfur jafnóðum úr myndgervingu sinni, er annars staðar.

En hver var þá þessi „Hugmynd“, sem Hegel fjallaði um, og hvernig tengist hún persónu listamannsins? Er „Hugmyndin“ eitthvað sem á sér djúpar persónulegar og huglægar rætur, eða er hún eitthvað sem tengist tungumálinu og lögmálum þess, eða er hún kannski hin algilda og óbreytanlega hugmynd þess guðdómlega sem býr handan hins persónulega, eins konar platónsk hugmynd um algildan sannleika? Um þessa spurningu segir franski heimspekingurinn Jean-Luc Nancy:

„Hugmyndin (hjá Hegel) er birting verunnar eða hlutarins gagnvart sjálfinu, samsvörun innri sýnileika hennar. Hún er innri samsvörun og sýnileiki eða hluturinn sjálfur sem sýn og hið séða í senn (hinn séði hlutur fangaður í formi sínu út frá sjálfum sér eða kjarna sínum).

Í þessum skilningi verður listin hinn skynjanlegi sýnileiki þess skiljanlega sýnileika sem er ósýnilegur. Hið ósýnilega form eða eidos Platons hverfur til sjálfs síns og gerir sig sýnilegt. Þannig dregur listin fram í dagsljósið og sýnir veru sína sem Form og form sitt sem Veru. Allar miklar hugsanir um „eftirlíkingar“ hafa aldrei snúist um annað en eftirlíkingar (eða myndir) Hugmyndarinnar (sem sjálf er, vel að merkja, ekkert annað en sjálfspeglun verunnar, eftirherma sjálfspeglandi handanveru), og allar hugsanir um Hugmyndina eru hugsanir um mynd hennar eða eftirlíkingu. Þetta á sérstaklega við, þegar þær sneiða hjá eftirlíkingu ytri forma eða eftirlíkingu forma náttúrunnar. Allar þessar hugsanir eru því guðfræðilegs eðlis, því þær snúast í kjarna sínum um hið mikla myndefni hinnar sýnilegu myndar hins ósýnilega Guðs, sem er hin upprunalega skilgreining Krists.“[1]

Þetta er ekki auðskilin greining á „Hugmynd“ Hegels, því Nancy er hér að leiða okkur út úr skilgreiningarhefðinni um „hlutina“ yfir í hugleiðingu um veruna sem tímatengdan atburð, og þversagnakennda birtingu hennar sem atburð og mynd í senn. Sú leiðsögn virðist leiða okkur inn á óvæntan stað, inn á svið hreinnar guðfræði.

Upprunalega spurningin var: hver hefur gengið hér um garð og markað slóð sína. Er þá svarið að það hafi verið Kristur? Nei, auðvitað ekki, en goðsagan um þverstæðufulla birtingu og brotthvarf guðdómsins sem skilyrði fyrir tilvist hans, getur kannski skýrt fyrir okkur eðli þessarar ráðgátu um skynjanlega birtingu hins ósýnilega: rétt eins og Guð, sem mynd hins ósýnilega, þarf á skynjanlegri og sýnilegri mynd Krists að halda til að vera hann sjálfur, þá þarf Hugmyndin í skilningi Hegels (hugmyndin um hið algilda eða hina algildu samsemd sýnarinnar og hins séða) að koma út úr hinu ósýnilega hýði sínu og verða skynjanleg til þess að vera hún sjálf.

Á okkar tímum hafa hugmyndir um algilda verðleika (og algilda samsemd nafnsins og hins nefnda) hins vegar gengið í gegnum margar gengisfellingar, og þó hægt sé að skynja leit algildra hugmynda í svörtum, súprematískum ferningi Malevich frá árinu 1914, (eins og um býsanska helgimynd væri að ræða), þá er sú mynd ekki síður eða kannski umfram allt vitnisburður um brotthvarf slíkrar hugmyndar. Svarti ferningurinn sýnir ekki síður brotthvarf og tóm en fyllingu Hugmyndarinnar. Trúlega skynjaði Hegel líka þessa gengisfellingu „Hugmyndarinnar“ þegar hann boðaði endalok listarinnar sem birtingarvettvang algildra hugmynda. Þar átti hann ekki síst við trúarlega myndlist og brotthvarf hins trúarlega kjarna úr henni. Boðun Hegels um endalok listarinnar var þannig skyld forsendum helgimyndbrjótanna sem vildu banna myndir til þess að viðhalda aðskilnaði hugmyndarinnar um ósýnilegan Guð og hinnar skynjanlegu birtingarmyndar hans.

Hvað stendur þá eftir? Enn er það Jean-Luc Nancy sem leiðir okkur á sporið, þegar hann segir þá „sýn“ sem er frumvaki allar skapandi listar, vera sýnina inn í tómið, eins konar neikvæða mynd hinna algildu hugmynda. Allar myndir eru sprottnar af angistinni andspænis tóminu, segir hann, en þessi neikvæða mynd hinnar hegelsku „Hugmyndar“ ber jafnframt í sér vitundina um andstæðu sína, og felur því í sér það sem Nancy kallar næstum því tóm, sem hann vill gefa nafnið vestige, orð sem er ættað úr latínu og  notað um spor, slóð, stíg eða tóman farveg[2].

Hér komum við aftur að „Slóðum“ Ragnheiðar. Nancy segir að til þess að skilja þessa slóð, þennan far-veg,  þurfum við að yfirgefa hugsun Hegels um „skynjanlega birtingarmynd Hugmyndarinnar“ og jafnframt þann guðfræðilega vettvang sem hún tilheyrir, þó hann geti verið glöggvandi til hliðsjónar. Birting hinnar algildu hugmyndar guðdómsins hefur aldrei verið raunverulegt viðfangsefni listarinnar, segir Nancy, það voru bara hinir guðfræðilegu helgimyndbrjótar sem héldu því fram í misskilningi sínum. Listin hefur vissulega tengst trúarbrögðunum og sögu þeirra, en listin er ekki trúariðkun, felur ekki í sér átrúnað. Niðurstaða Nancy er sú, að listin sé sinn eigin farvegur og ekkert annað, sín eiginn slóð eða stígur (ve-stigium) og hrynjandi hennar er hrynjandi þess göngulags sem á sér enga fasta mynd, en sjálf fótsporin eru vitnisburður um horfnar iljar, líkama og hendur, og skrefin eru tímatengdur atburður, verknaðurinn sjálfur án þess að vera verkið, far-vegurinn sem fylgir verunni á meðan hún varir. Slóðin eða far-vegurinn verða þá birtingarmynd brotthvarfsins, þess sem er farið, hefur gengið um garð. Það sem eftir stendur þegar einhver eða eitthvað hefur farið hjá.[3]

Hver hefur þá farið þessa slóð? Þetta er ekki slóð guðanna, segir Nancy, frekar er þetta slóð brotthvarfs þeirra. Skrefin í þessari yfirferð eru atburðir líðandi stundar, sem eiga sér enga mynd eftir að þau hafa verið stigin, þau eru farvegurinn sem fylgir verunni meðan hún varir. Það er ekki hið algilda spor, heldur tómið sem eftir situr. Farvegurinn eða slóðin er heldur ekki mynd áþreifanlegs hlutar, fingrafars eða fótspors, heldur vitnisburður um sjálfa ferðina sem er sífelld og án afláts, hreyfing en ekki staða, mynd þess sem hverfur en ekki þess sem er, vettvangur verunnar sem er óstöðvandi í rás tímans, eins og slóð förumannsins sem við þekkjum ekki, vegna þess að hann getur verið hver sem er, einn og allir. Nafn þessa förumanns er áfram nafn, og „Hugmyndin“ er mynd, en Nancy afneitar frumspekilegri merkingu þeirra. Þessi afneitun, sem Nancy boðar, er kannski ekki til einskis: hún felur jafnframt í sér höfnun hinnar örvæntingarfullu andstöðu helgimyndbrjótanna við myndirnar, sem átti rætur sínar í „Hugmyndinni“ um myndina af manninum og Guði (og þá skil-greiningu sem í henni var fólgin).

Það er nafngift Ragnheiðar á teiknimyndaröðinni „Slóðir“ sem leiddi okkur inn í þessar flóknu vangaveltur Jean-Luc Nancy um listina sem sinn eigin farveg. Þær segja okkur að „slóðin“ sé gengin af listinni sjálfri og garðurinn sé hún sjálf. Vegferð hennar eigi sér ekkert upphaf og engan áfangastað sem er „utangarðs“, utan vegar og úr augsýn, hún sæki markmið sitt og merkingu í eigin virkni, og ef um eftirlíkingu eða „mimesis“ sé að ræða, þá væri tilgangur hennar ekki að kenna okkur hvernig hlutir, sem við þekkjum fyrir, líta út, heldur að láta það sem er sýna sig í öllu sínu veldi. Þannig sýna „Slóðir“ Ragnheiðar sjálfa sig, farveginn sem er farvegur Listarinnar og Verunnar, þeirrar veru sem hefur með tímann og atburðinn að gera, en ekki hlutinn og skilgreiningu hans. Styrkur þessara mynda er því ekki fólginn í eftirlíkingu fyrirbæra náttúrunnar eða tjáningu tiltekinnar persónulegrar sjálfsveru, heldur í þeim leik, sem helgast af sjálfum sér og sínum eigin reglum. Í þessu samhengi getum við líkt þessum teikningum við leikinn eins og við sjáum hann hjá börnunum. Hvort sem það er „Snú, snú“, „Þrautakóngur“ eða „Eitt strik og stoð“, þá helgast allar reglur og hreyfingar barnaleiksins af honum sjálfum. Leikurinn sýnir sjálfan sig og ekkert annað, hann sækir merkingu sína eða markmið í sjálfan leikinn, en ekkert utan hans. Þegar barnið sippar eða hoppar í parís, þá sýnir það hreyfingar sínar og ekkert annað, hreyfingar sem lúta eigin leikreglum og kalla á að við fylgjumst með, lærum reglurnar og svörum með beinni eða óbeinni þátttöku.

Það er því borin von að leita að líkingum í þessum myndum Ragnheiðar, líkingum við fyrirbæri náttúrunnar eða líkingum við hennar eigin persónuleika eða skapgerð. Merking þessara teikninga hvílir í þeim sjálfum og verknaðinum að gera þær, en engu öðru. Það sem gerist þegar við upplifum þessar teikningar er upplifun samkenndar sem er náskyld þeirri samkennd sem vaknar, þegar við sjáum börn að leik. Það er fátt mannlegra en slík samkennd, og þegar listakonunni hefur tekist að vekja hana er markmiði listarinnar náð, því listin kallar ekki á utanaðkomandi réttlætingu. Hún er réttlæting hins mannlega í sjálfu sér.

Ólafur Gíslason

___________________________________________

Forsíðumynd: Slóð 2, kolateikning eftir Ragnheiði Jónsdóttur, 150×150 cm, 2006

[1] Jean-Luc Nancy: Le Muse, 1994

[2] Orðsifjabókin segir latneska orðið vestigium vera samstofna íslensku orðunum stígur og sögninni að stíga og bæjarnafninu Steig, en merking þess er alltaf fótspor, slóð eða í yfirfærðri merkingu endurminning um eitthvað sem er horfið, farið.

[3] Hér verður mér hugsað til altarismyndarinnar í Quo vadis kapellunni á Via Appia í Róm. Hún sýnir afsteypu af fótsporum Péturs postula sem mynduðust í steinlagðan veginn þegar hann mætti Kristi á þessum stað, á flótta sínum úr fangelsinu í Róm. Myndin sýnir neikvætt far ilja postulans í yfirstærð, en sjálfur er hann löngu horfinn. Samkvæmt guðfræðinni er myndin engu að síður sönnunargagn um tilvist postulans og þá opinberun sem framkallaði sporin í steininn. Samkvæmt Nancy eru þessi spor ekki „vestigium“ listarinnar, því hún hefur ekki, og hefur aldrei haft, þörf fyrir slík sönnunargögn og slíka samsemd myndar og fyrirmyndar/hugmyndar. Nancy vill leiða okkur út úr þessari guðfræðilegu umræðu og segir slóðina vera „reyk án elds“, farveg án fljóts og fótspor án postula. Það kallar á nýja hugsun, sem hér er til umræðu.

Sigurður Guðmundsson

Tungumálið, náttúran, líkaminn og undirheimarnir

 Um leiðarþræði og samhengi í myndlist Sigurðar Guðmundssonar

Þessi umfjöllun um myndlist Sigurðar Guðmundssonar birtist upphaflega í hausthefti tímaritsins Skírnis árið 2004 undir yfirskriftinni „Myndlistarmaður Skírnis“. Hún er barn síns tíma. Greinin er tilraun til að rekja samhengi og þræði i hinum fjölskrúðuga myndlistarferli Sigurðar fram til þess tíma er greinin er skrifuð. Um leið endurspeglar þessi texti þá hugmyndalegu leiðbeinendur sem höfundur greinarinnar hafði fundið sér á þessum tíma í forsvarsmönnum formgerðarstefnunnar (Ferdinand Saussure), fyrirbærafræðanna (Heidegger og Merleau-Ponty), djúpsálfræðinnar (Freud, Jung, Bachelard og Hillman), allt höfundar sem eftir á að hyggja verðskulda trúlega dýpri skilning, ekki síður en hinn margbrotni og fjölbreytilegi listferill Sigurðar Guðmundssonar, sem eftir á að hyggja kallar á dýpri útfærslu þeirra hugmynda sem hér eru viðraðar.

 

Í ÞESSARI ritgerð verður leitast við að greina nokkur meginþemu á ferli Sigurðar Guðmundssonar sem myndlistarmanns og tengja þau við heimspekilegar hugmyndir úr samtímanum um tungumálið, líkamann, náttúruna og dulvitund mannsins. Rétt er að taka fram að hér er aðeins fjallað um myndverk Sigurðar en ekki ritverk hans, gjörninga eða kvikmyndir. Þá er rétt að taka fram að sú tilraun sem hér er gerð til að tengja verk Sigurðar við hina heimspekilegu umræðu, er alfarið á ábyrgð höfundar og byggir á samræðu hans við myndverk Sigurðar en ekki við listamanninn sjálfan.

Drengur og Landslag með pönnuköku

Frá fyrstu sýningu Sigurðar Guðmundssonar í Galleríi Súm 1969 eru tvö verk mér minnisstæðust: Landslag með pönnukökum og Drengur. Bæði verkin vitna um þá óþreyju sem blundaði í tíðarandanum á þessum tíma og dró í efa allar þær viðteknu og sjálfgefnu forsendur myndlistarinnar sem þá voru ríkjandi hvað varðaði fagurfræðilegt gildismat og hugmyndir um eftirlíkingu og tjáningu náttúrunnar í myndlistinni. Án þessa sögulega og tímalega samhengis verða þessi verk trúlega illskiljanleg, en um leið og þau bera með sér ungæðishátt listamanns sem var með þessari fyrstu sýningu sinni að skapa sér svigrúm á vettvangi hins íslenska listheims,  þá hefur það sem á eftir kom einnig orðið til þess að skýra og dýpka merkingu þessara verka, þar sem það hefur sýnt sig að þau marka upphaf annars og meira sem fylgdi í kjölfarið.

sigurdur-gudmundsson-ponnukokulandslag

Sigurður Guðmundsson: Landslag með pönnuköku 1969

Söguleg viðmið

Því má halda fram að Landslag með pönnuköku feli í sér tilvísun í málverk Ásgríms Jónssonar af Heklu og af Tindafjallajökli frá upphafsárum endurfæðingarinnar í íslenskri málaralist um aldamótin 1900, og með sama hætti má  finna í verkinu Drengur tilvísun í málverkið Kynþroskinn eftir norska málarann Edvard Munch frá árinu 1895. Þeir Ásgrímur Jónsson og Þórarinn B. Þorláksson innleiddu hugmyndaheim rómantíkurinnar hér á landi í upphafningu fjallahringsins og fagurblámans og Edvard Munch innleiddi expressíónisma og táknsæi í norræna myndlist með því að nota myndlistina til að tjá og túlka með beinum og allt að því líkamlegum hætti þá náttúru sem bjó innra með manninum og var í augum Munchs tilvistarleg og harmsöguleg þversögn.

Það væri að mínu mati mikill misskilningur að líta svo á að í þessu verkum Sigurðar væri fólgin gagnrýni á þessa mikilhæfu forvera hans í myndlistinni, þvert á móti held ég að hann hafi viljað undirstrika sögulegt mikilvægi þeirra um leið og hann vildi ráðast gegn þeirri viðteknu reglu að líta á fordæmi þeirra sem sjálfgefinn mælikvarða á allt annan samtíma, samtíma sem kallaði á nýja og gjörbreytta myndhugsun, nýtt myndmál.

Ásgrímur og Tindafjöllin

asgrimur-jonsson-tindafjallajokull

Ásgrímur Jónsson: Tindafjallajökull

Verkið Landslag með pönnuköku sýnir okkur eftirlíkingu fjallahringsins sem eins konar steypuhrúgöld með þrem toppum og votti af hvítum lit jöklanna og hinum sanna Íslandsbláma þeirra Ásgríms og Þórarins, en hæsti keilutindurinn hefur uppþornaða pönnuköku í stað jökuls. Fjallgarður þessi er innrammaður í gamlan og veðraðan gluggapóst með gleri, sem aframmar þannig landslagið eins og við værum að horfa út í gegnum gamlan glugga. Merking verksins verður ekki skilin nema í gegnum hina sterku landslagshefð íslenskrar málaralistar, sem einkennist af því að afmarka það svið náttúrunnar sem þótti sjónrænt tilþrifamikið innan ramma málverksins og endursýna það með lýsandi hætti á tvívíðum fleti léreftsins í því skyni að vekja tilfinningaleg viðbrögð áhorfandans, og nota þannig náttúruna til að koma á framfæri ákveðnum tilfinningalegum, fagurfræðilegum og siðferðilegum boðskap. Þessi aðferð kallar jafnframt á  að horft sé til náttúrunnar úr ákveðinni fjarlægð sem utanaðkomandi og fyrirfram gefins veruleika, er listamaðurinn/áhorfandinn mælir sig við eða speglar sig í. Hugveran og hlutveran eru hér aðskildir heimar, og framsetning rýmisins byggir í raun á hnitakerfi sem stundum er kennt við Evklíð eða Descartes og gengur út frá fyrirfram gefnu óendanlegu rými. Þetta er undirstrikað í hinni íslensku landslagshefð með þeirri athyglisverðu staðreynd að maðurinn er nánast undantekningalaust fjarverandi eða staðsettur í ímynduðu rými utan ramma myndarinnar. Hugvera mannsins og líkamleg návist hans eru nær alltaf utan við eða handan ramma og yfirborðs hins íslenska landslagsmálverks.

Í Landslagi með pönnuköku Sigurðar eru allar forsendur þessa rómantíska landslagsmálverks dregnar í efa og allur sá skilningur á sambandi manns og náttúru, sem liggur því til grundvallar. Þó er ekki boðið upp á annan valkost, heldur er hinni viðteknu aðferð og hinu hefðbundna gildismati misboðið. Þau hroðvirknislegu vinnubrögð sem virðast ríkja í þessu verki gegna hér ákveðnu hlutverki. Aðrir valkostir eða möguleikar á annarri nálgun náttúrunnar áttu eftir að koma fram í síðari verkum Sigurðar, sem þannig hafa undirstrikað og aukið gildi og þýðingu þessa verks.

Munch og Kynþroskinn

s-gudmundsson-drengur-1969

Sigurður Guðmundsson: Drengur, 1969

Hliðstæðar forsendur getum við fundið í verkinu Drengur, sem er eins og Landslag með pönnuköku hroðvirknislega unnið við fyrstu sýn. Illa frágenginn kassi úr notuðu mótatimbri er fylltur með tuskum og steypu, og myndar búk drengsins þar sem hann liggur á gólfinu. Fjalir, sem klambrað hefur verið saman, mynda fótleggi, en í stað höfuðs er myndarammi á uppsperrtum hálsi með hvítmáluðu gleri og á það dregnar línur sem gefa til kynna lýsandi sól yfir fjallstoppi. Handleggir eru engir, en á milli fótleggjanna er lóðrétt spýta með áfastri logandi ljósaperu, sem glöggur áhorfandi getur ímyndað sér að vísi til rísandi getnaðarlims drengsins. Segja má að logandi ljósaperan á spýtunni kallist á við sólina í myndinni, og með hóflegu hugmyndaflugi má þannig láta sér til hugar koma að verkið vísi til þeirrar ögurstundar, þegar ungir sveinar uppgötva kynhvöt sýna; en það er sú sama ögurstund og dregin er upp í hinu snjalla málverki Edvards Munch, Kynþroskinn frá árinu 1895, sem sýnir unglingsstúlku er situr nakin og skelfingin uppmáluð á rúmstokki sínum og horfir spurulum augum út í tómið eða í augu áhorfandans. Hún krossleggur hendurnar yfir samanpressuð lærin, eins og til að fela sköp sín, og hálfþroskaður líkami hennar varpar stórum skugga á bakgrunn myndarinnar. Þótt myndin sé í mörgum atriðum raunsæislega máluð þá vísar skugginn í allt annað en hin raunverulegu birtuskilyrði þessarar sviðsmyndar, hann verður uppblásið tákn um ógnvekjandi framtíð sem felur í sér ást, losta, sektarkennd og dauða. Hjá Munch er náttúran ekki upphafin, fjarlæg og draumkennd sviðsmynd, heldur býr hún innra með manninum sjálfum, í sál hans og líkama, sem dulið og ógnvekjandi afl. Fyrirbæri náttúrunnar verða honum tákn um tilvistarlega þversögn og fyrirsjáanlegan harmleik mannlegrar tilvistar.

munch-kynthroskinn-1895

Edvard Munch: Kynþroskinn, 1895

Þessi magnaða táknhyggja verður Sigurði skotspónn í verkinu Drengur, ekki vegna þess að hin tilvistarlega þversögn sé endilega horfin úr samtímanum, heldur vegna þess að táknin megna ekki lengur að koma henni til skila með þeim meðulum sem Munch hafði úr að spila. Líkingamálið og táknin hafa orðið viðskila við merkingarmið sín í veruleika samtímans og megna ekki lengur að höndla þau myrku og óræðu öfl náttúrunnar sem Munch fann í líkama og sál mannsins. Táknhyggja Munchs er orðin sjálfvísandi í samtíma okkar, því táknin vísa aftur í sjálf sig og önnur tákn. Einungis viðmiðunarreglan getur staðfest innbyrðis gildi táknanna og gagnkvæmt skiptagildi þeirra. Tilvistarlegur eða harmsögulegur veruleiki mannsins er kominn út úr myndinni, hans verður að leita einhvers staðar annars staðar.

Tungumálið, náttúran og líkaminn

Þannig má segja að þessi verk Sigurðar fjalli bæði um möguleika eða öllu heldur vanmátt tungumáls myndlistarinnar til þess að vísa til og höndla frumspekileg grundvallargildi er varða samband manns og náttúru. Jafnframt vísa þau til tveggja um margt ólíkra sjónarhorna á þetta samband: annars vegar sjáum við náttúruna sem hlutlægt og opið svið sem er formlega aðskilið frá hinu huglæga sviði, og myndlistin reynir að lýsa utan frá séð, hins vegar höfum við náttúruna sem ógnvekjandi afl er býr innra með manninum sjálfum, jafnt í líkama hans og sál. Hjá Munch blasir það við að maðurinn er óhjákvæmilega sjálfur hluti náttúrunnar, og að sjálfsskynjun líkamans er forsenda fyrir allri skynjun náttúrunnar og hins ytra rýmis hennar. Unglingsstúlkan á rúmstokknum er lömuð af skelfingu andspænis þessari uppgötvun. Að náttúran búi í líkama hennar sjálfrar, en ekki í blámóðu fjallanna. Í verki Sigurðar birtist þessi skelfing varla nema sem skrumskældur og fjarlægur endurómur frá verki Munchs. Táknmál myndlistarinnar er orðið afstætt: á sama hátt og birtingarmynd náttúrunnar sem innrammað landslag er orðin klisja sem byggir á gömlum og vanabundnum viðmiðunarramma, þá verður sú birtingarmynd hennar sem felst í lýsingu og tákngervingu unglingsstúlkunnar á rúmstokknum að klisju í þeim samtíma þar sem táknmál myndlistarinnar hefur glatað hinu fortakslausa sambandi sínu við táknmið sitt og gildismunur táknanna hefur færst frá táknmiðinu eða veruleikanum til formgerðar tungumálsins.

Tungumálið og formgerðarstefnan

s-gudmundsson-ljod-lestur-hestur-1972

Sigurður Guðmundsson: Ljóð. Hestur og lestur, 1972

Sigurður fjallar um þennan vanda í öðrum verkum frá svipuðum tíma, þar sem spurningar um samband orða, táknmynda og veruleika eða táknmiðs koma við sögu. Rétt eins og tákn myndlistarinnar voru orðin sjálfstæður og sjálfvísandi veruleiki, þá gilti hið sama um orðin, sem þannig urðu eins og hin sjónrænu tákn myndlistarinnar gjaldgeng skiptimynt í eins konar innbyrðis formgerðarleik. Í þessum leik geta orðin orðið að skúlptúr ef því er að skipta (sbr. skúlptúrinn Þeir taka í nefið, þeir taka í nefið frá 1972) og hlutirnir myndað ljóð (sbr. verkið Átta ljóð frá 1971, en það birtist okkur sem innsetning á átta hlutum: inniskóm, lyklakippu, brauði, hamri, tóbakssdós, ryksugu, spilastokk og þríhjóli, sem stillt er upp í eina röð). Hér er hver hlutur skilgreindur sem sjálfstætt ljóð, og hefur þannig verið frelsaður úr fjötrum táknhyggjunnar. Merking hans felst í því að vera ljóð. Rím og formhefð ritlistarinnar fær einnig sína meðferð, til dæmis þar sem blesóttur hestur er látinn ríma við mann sem situr niðursokkinn í bóklestur í „ljóðinu“ Hestur og lestur frá 1972. Þetta ljóð er reyndar ljósmynd, en gæti eins verið heimild um gjörning, þar sem þessir formeiginleikar ljóðsins eru sviðsettir með lifandi blesóttum hesti, sem stendur fyrir orðið hestur og rímar þannig við lesandi mann sem stendur fyrir orðið lestur. Í stað þess að fella veruleikann undir formreglur tungumálsins (ljóðlistarinnar) er veruleikinn tekinn bókstaflega sem formgerð tungumálsins (ljóðlistarinnar). Niðurstaðan verður þversagnarkennd afhjúpun viðtekinna hugmynda um samband táknmálskerfa og þess veruleika sem þeim er ætlað að vísa til. Með þessum verkum var Sigurður í raun að enduróma og túlka hugmyndir sem voru áberandi í allri umræðu um merkingarfræði og formgerðarstefnu eða strúktúralisma á þessum tíma, og eru gjarnan raktar til svissneska málvísindamannsins Ferdinands de Saussure. Mikilvægt atriði í þeim hugmyndum var sambandið á milli táknmyndar og táknmiðs og hvernig táknmyndir virka innan tiltekins táknmálskerfis. Þessar hugmyndir gegndu mikilvægu hlutverki í þróun allrar hugmyndalistar á síðari hluta 20. aldarinnar, og má segja að Sigurðar hafi orðið virkur þátttakandi í þeirri hreyfingu á þessum tíma á sinn sérstæða og persónulega hátt.

Tungumálið og ljósmyndin

Margt bendir til þess að það hafi einmitt verið þessar vangaveltur sem leiddu Sigurð inn á svið ljósmyndarinnar, þar sem hann átti eftir að opna nýja sjóndeildarhringi og yfirstíga ýmis þau vandamál, sem hann var að glíma við á sviði hugmyndalistarinnar. Fyrstu ljósmyndir Sigurðar eru einmitt eins konar heimildir um sviðsetningu aðstæðna er byggja á formgerðarstefnunni. Ljósmyndin Horizontal thoughts frá árinu 1970-71 er dæmi um þetta, en hún sýnir bakmynd Sigurðar og bróður hans Kristjáns, þar sem þeir sitja í flæðarmálinu og horfa til hafs. Annar þeirra, Kristján, situr hærra á kassa, en hinn á berum sandinum. Báðir hafa þeir eins konar hugsanabólur festar á höfuðið, sem innihalda þverrákóttar öldulínur er merkja hafflötinn og tómarúm sem táknar himininn. Þær eru eins að öðru leyti en því að sjóndeildarhringurinn í hugsanabólunni fellur í báðum tilfellum að hinum raunverulega sjóndeildarhring hafsins, og þar sem Kristján situr hærra, þá hefur hann meira loft í sinni bólu, en Sigurður meira vatn. Kannski var þetta ómeðvitað á þessum tíma, en verkið fjallar ekki bara um samband tákns og táknmiðs í þessu tilviki, heldur má líka lesa úr því forspá um hvernig verk þessara snjöllu myndlistarmanna áttu eftir að þróast í ólíkar áttir frá þessum tímapunkti: annar byggði á heiðskírri rökhugsun dagsbirtunnar á meðan hinn laðaðist að vatninu og þeim dulmögnuðu og óræðu kenndum sem finna má í djúpi þess.

ARN

Sigurður Guðmundsson: Horizontal Thoughts, 1971

Líkaminn og ljósmyndin

Á árunum 1971-82 vann Sigurður fyrst og fremst að gerð ljósmyndaverka. Ekki þó þannig að hann hafi litið á ljósmyndina sem sjálfstæðan listmiðil í hefðbundnum skilningi, heldur þjónaði hún miklu fremur því hlutverki að skrásetja og túlka tilteknar aðstæður eða gjörninga, sem Sigurður skapaði með líkamlegri nærveru sinni. Svo virðist sem Sigurður hafi á þessum tíma fundið í ljósmyndagjörningnum leið til að yfirstíga þá þversögn sem hann hafði afhjúpað í verkunum Drengur og Landslag með pönnuköku frá 1969. Þau verk snerust um vanmátt táknmálskerfa myndlistarinnar gagnvart því viðfangsefni að túlka samband manns og náttúru á trúverðugan hátt. Í ljósmyndaverkunum tekst Sigurður á við þennan vanda með nýjum hætti, þar sem líkamleg nærvera hans sjálfs sem geranda í verkinu verður grundvallaratriði. Áherslan í þessum ljósmyndaverkum færist smám saman frá ofangreindum þversögnum tungumálsins, sem rekja má til formgerðarstefnunnar, að þeirri verufræðilegu eða tilvistarlegu ráðgátu sem opnast þegar við hættum að líta á tungumálið sem frumforsendu fyrir skilgreiningu rýmisins, en lítum þess í stað til líkamans og hinnar líkamlegu skynjunar. Spurningin snýst þá ekki lengur um það tungumál sem við notum til að skilgreina hið fyrirfram gefna eða hlutlæga rými annars vegar og hið huglæga rými ímyndunaraflsins hins vegar (þar sem í báðum tilfellum er gengið út frá tvíhyggju efnis og vitundar, sálar og líkama) heldur um þá ráðgátu sem opnast fyrir okkur þegar veran í líkamanum og hin líkamlega skynjun umhverfisins verða í sameiningu frumforsenda allra mynda okkar af rýminu og náttúrunni.

Fjöllin og myndir þeirra

s-gudmundsson-fjallatoppar-1967

Sigurður Guðmundsson: Fjallatoppar, 1967

Finna má dæmi um þessa þróun á ferli Sigurðar frá glímunni við merkingarfræði og táknmálskerfi tungumálsins yfir í verufræðilegar ráðgátur hinnar líkamlegu nærveru og skynjunar með því að bera saman tvö verk hans um fjöll: málverkið Fjallatoppar frá 1969 og ljósmyndaverkið Mountain frá 1980-82. Fyrra verkið er skematísk útfærsla á bláum fjallatoppum og regnboga, málað með þekjulit í hinum sígildu regnbogalitum. Öll fyrirbærin í myndinni eru síðan skýrð og merkt með orðunum sem þau vísa til, og eru þau rituð með barnslegri blýantsskrift inn í myndina eins og til að undirstrika að þessi myndræna útfærsla náttúrunnar vísi í raun í tungumálið en ekki náttúruna sjálfa. Tungumálið er hér frumforsendan en ekki náttúran eða líkaminn.

Ljósmyndaverkið Mountain sýnir okkur hins vegar fjallið sem upphlaðinn lagskiptan skúlptúr þar sem neðst eru tilhöggnir steinar úr grágrýti, síðan lag af tilsniðnu torfi, þá listamaðurinn sjálfur þar sem hann liggur láréttur eins og jarðlag og ofan á honum þrískiptur fjallstoppur: skópör yfir fótleggjunum, brauð yfir lærum og kviði og bækur yfir bringu og höfði. Þetta fjall er ekki bara tilbúningur tungumálsins með sama hætti og Fjallatoppar, það vísar dýpra. Það virðist um leið segja okkur að náttúran sé tilbúin hugmynd mannsins. Ef ekki væri maðurinn með lóðréttri líkamsstöðu sinni og sínum efnislegu og andlegu þörfum og væntingum, þá væri ekkert fjall. Jafnvel undirstöður þessa fjalls, berggrunnurinn og tilsniðið torfið eru tilbúin náttúra. Án veru mannsins í náttúrunni/heiminum er náttúran ekki til, og mynd okkar af náttúrunni er tilbúin á forsendum líkamlegrar skynjunar mannsins. Náttúran er í þessum skilningi afurð menningarinnar og allar hugmyndir okkar um ásetning og orsakalögmál í náttúrunni má rekja til líkamlegrar návistar og skynjunar mannsins.

tumblr_lrvxbbnx3j1qhqfw3o1_r1_1280

Sigurður Guðmundsson: Mountain, 1980 – 82

Tungumálið sem viðhengi náttúrunnar

Það margræða samband náttúrunnar, tungumálsins og líkamans sem hér hefur verið gert að umtalsefni er einnig viðfangsefni ljósmyndaverksins Attributes frá 1978 með athyglisverðum hætti (sjá forsíðumynd). Verkið sýnir Sigurð krjúpa á grasflöt og halda á jafnhyrndum þríhyrningi sem ber við gráan himin. Andlit hans og hluti af hári hans eru ötuð gulri málningu, en vinstri framhandleggur málaður rauður og blá óreglulega löguð klessa  er máluð á grasflötina, auk þess sem þar eru sár eftir torfristu sem mynda ferning og hring. Það sem við sjáum hér eru svokölluð geometrísk frumform og frumlitir litrófsins sem leitast hér við að tengja saman jörðina, líkama mannsins og himininn og gefa þeim merkingu. Það er fróðlegt að bera þetta verk saman við skýringarmyndina sem Leonardo gerði við hlutfallafræði Vitruviusar, þar sem hann teiknar manninn inn í hring og ferning. Mynd Leonardos á að sýna upphafna mynd hins fullkomna líkama, sem með hlutföllum sínum fyllir upp í fullkomnustu form geometríunnar og sköpunarverksins, ferning og hring sem eru merki himins og jarðar. Mynd Leonardos á þannig að skýra tengslin á milli míkrokosmos og makrokosmos, smáheimsins og alheimsins. Í anda húmanismans verður maðurinn þannig mælikvarði hinnar fullkomnu byggingar alheimsins innan ramma tungumáls flatarmálsfræðinnar.

Í verki Sigurðar hafa frumformin glatað sínum algildu táknmiðum, þau vísa í táknhefðina en ekki í hinar algildu forsendur sem eitt sinn lágu henni til grundvallar. Jörðin með sinni formlausu grasbreiðu, grár himininn og líkami Sigurðar eru áþreifanlega snortin af merkingu þessara grundvallargilda en hugmyndalega eru þessi tengsl rofin. Táknmálið sem eitt sinn lá til grundvallar miðlægri sýn mannsins á sjálfan sig í anda húmanismans sem kórónu og mælikvarða sköpunarverksins og herra jarðarinnar fellur nú inn í óreiðu heimsins sem hvert annað skynáreiti.

„Maðurinn hefur ekki líkama…“

Þrátt fyrir skilgreiningu hins kartesíska hnitakerfis á rýminu eigum við erfitt með að hugsa okkur rýmið og tímann án líkamans. Það er vegna skynreynslu okkar í gegnum líkamann sem við skiljum höfuðáttirnar og hugtökin upp og niður, hægri og vinstri, fram og aftur, svo dæmi séu tekin. Og gangverk sólkerfisins verður því aðeins mælikvarði á tímann að líkami okkar skynji taktinn í gangi himintunglanna í sjálfum sér og samhengið þar á milli. Spurningin snýst þá meðal annars um hvernig maðurinn fyllir tímann og rýmið með vitund sinni og líkama. Um þetta fjallar Martin Heidegger í athyglisverðum fyrirlestri, sem hann hélt í Kunstgalleri im Erker í St Gallen 1964 og kallaði Bemerkungen zu Kunst-Plastik-Raum. Heidegger reynir þar að yfirstíga tvíhyggju vitundar og líkama (eða efnis og anda) með því að skilgreina veruna í rýminu ekki sem hlutlæga staðreynd, heldur sem tímatengdan atburð. Heidegger telur það vera séreinkenni mannsins að hann fylli rýmið með öðrum hætti en til dæmis stóll í herbergi eða vatn í vatnsglasi. „Maðurinn takmarkast ekki við yfirborð líkama síns“ segir Heidegger. „Ef ég er hér, þá er ég hér sem manneskja einungis að því tilskyldu að ég sé samtímis þarna við gluggann, en það þýðir líka þarna úti á götunni og úti í þessari borg, í stuttu máli að ég sé til í tilteknum heimi. Og ef ég geng að dyrunum, þá flyt ég ekki líkama minn að dyrunum, heldur breyti ég dvöl minni, hinni viðvarandi nánd minni og fjarlægð frá hlutunum, víðáttunni og nándinni sem þeir birtast í.“

Hvað felur þessi athugasemd í sér? Heidegger vill hvorki líta á rýmið sem hlutlæga ytri staðreynd, né heldur sem huglæga sýn. Ekki frekar en líkama mannsins. „Maðurinn hefur ekki líkama og er ekki líkami, heldur lifir hann líkama sínum[2], segir hann, og sem slíkur fyllir hann rýmið og tímann með mótaðri afstöðu til hlutanna og náungans. Það er einungis vanahugsun tungumálsins sem hefur leitt okkur inn á þá braut að greina á milli líkama okkar, vitundar og þess rýmis sem líkaminn og vitundin fylla eins og um aðskild fyrirbæri væri að ræða. Rýmið þarfnast líkama mannsins til þess að raungerast í tímanum með sama hætti og líkaminn þarfnast vitundar okkar og viðveru til þess að vera í rýminu sem annað og meira en dauður hlutur eða lík.

Rendez-vous

s-gudmundsson-rendez-vous-1976

Sigurður Guðmundsson: Rendez-vous, 1976

Vart er hægt að finna hentugri og ljósari mynd til að skýra þessa torræðu hugmynd Heideggers um samband vitundar, líkama, tíma og rýmis en ljósmyndaverk Sigurðar, Rendez-vous frá 1976. Þar sjáum við Sigurð standa í holu, sem hann hefur grafið niður í grasi vaxna sléttu, sem teygir sig út að jafnsléttum sjóndeildarhring. Sigurður stendur með skóflu í hönd fulla af mold, hálfur ofan í holunni þannig að höfuð hans ber við himin rétt ofan sjóndeildarhringsins. Hann horfir á moldarhauginn sem hann hefur mokað upp, og á milli höfuðsins og hrúgunnar er lögð mælistika sem sýnir lárétta stöðu og jafna hæð höfuðsins og haugsins miðað við sjóndeildarhringinn.

Líkaminn staðfærir sig hér í rýminu með viljabundnum verknaði þar sem skóflan verður mynd tækninnar sem eins konar framlenging á líkama og ásetningi mannsins. Maðurinn skilgreinir hér rými sitt og umhverfi með líkamanum, tækninni og ásetningi sínum og hefur að þessu leyti sérstöðu miðað við dýrin (sem laga sig að náttúrunni en skilgreina hana ekki) eða miðað við dauða hluti, sem eru án ásetnings og því án viðmiðs. Í myndinni er mælistikan viðmiðið sem tengir líkamann, ásetninginn, verknaðinn og rýmið saman með táknrænum hætti. Ásetningurinn verður til í gagnvirku sambandi líkamans og umhverfisins. Hann kemur ekki frá einhverri sál sem á sér tímabundna viðdvöl í hylki líkamans og stýrir honum eins og vél, eins og okkur hefur verið kennt allt frá dögum Platons, heldur verður hann til í því gagnvirka og spennuþrungna sambandi líkamans og umhverfisins sem við getum kallað vitund og ásetning. Sú staðreynd að dýpt holunnar í myndinni og hæð haugsins mætast í beltisstað Sigurðar undirstrikar einungis hlutverk verunnar í líkamanum sem mælikvarða þess rýmis sem hann fyllir með verund sinni.

Sjóndeildarhringurinn

s-gudmundsson-study-for-horizont1977

Sigurður Guðmundsson: Study for Horizon, 1975

Sjóndeildarhringurinn er greinilega áleitið viðfangsefni í ljósmyndaverkum Sigurðar. Á þessum árum bjó hann í Hollandi þar sem landslag er flatt, enda láréttur sjóndeildarhringur sléttunnar og hafflatarins sígilt þema í hinni miklu hefð hollenskrar landslagslistar. Sú hefð byggir fyrst og fremst á eftirlíkingu í nafni lýsandi raunsæis er lítur á hið ytra rými sem fyrirfram gefna staðreynd óháða verunni.[3] Ekki er fráleitt að ímynda sér að þessi tengsl Sigurðar við hollenska náttúru og listhefð hafi sett mark sitt á verk hans, en hitt er jafn ljóst að sá sjóndeildarhringur sem hann styðst við gegnir ekki lýsandi hlutverki samkvæmt hinni lýsandi raunsæishefð, heldur gegnir hann því hlutverki að túlka þá gagnvirku spennu sem líkamleg vera mannsins og ásetningur framkalla í rýminu. Myndin Study for horizon frá 1975 er dæmigerð fyrir þetta, en þar hefur Sigurður stungið um 2 m löngum teinréttum bjálka niður í sandinn í flæðarmálinu þannig að hann myndar um 65° horn við fjöruborðið og sjóndeildarhring hafsins. Síðan tekur hann sér stöðu andspænis bjálkanum teinréttur með hendur að síðum og hallar sér að bjálkanum í nákvæmlega sama gráðuhalla, og storkar þar með þyngdaraflinu. Þótt myndin gefi til kynna kyrrstöðu vitum við að fallið er ekki bara óumflýjanlegt heldur í rauninni hafið. Myndin sýnir okkur hvernig hugtökin lárétt og lóðrétt verða afstæð gagnvart líkamanum og ásetningi hans sem mælikvarða rýmisins og þyngdaraflsins.

Að opna það sem er hulið og hylja það sem er opið

Í framhaldi fyrrnefndra orða Heideggers um tengsl líkamans, verunnar, tímans og rýmisins er fróðlegt að skoða ljósmyndaverk eins og Rendez-vous og Study for horizon út frá þeim hugmyndum sem Heidegger setur fram í ritgerð sinni um uppruna listaverksins. Í viðleitni sinni við að brjóta upp hina frumspekilegu tvíhyggju, sem gjarnan er rakin til Descartes, reynir hann að hugsa forsendur og tilurð listaverksins í nýjum hugtökum. Í stað þess að líta svo á að listaverkið leiði okkur inn í einhvern tiltekinn heim, eins og gjarnan er sagt, þá orðar hann það þannig að listaverkið opni nýjan heim og nýja möguleika er feli í sér nýja heildarsýn á veruna. Með sínu torskilda orðafari segir Heidegger að listaverkið geri sannleikann virkan, en hugtakið sannleikur er hjá honum tímatengt fyrirbæri er tengist verunni sem atburður, en ekki sem skýrt afmörkuð og áþreifanleg staðreynd. Sannleikurinn birtist í verkinu, segir hann, eins og togstreita á milli afhjúpunar og yfirbreiðslu, eða eins og barátta á milli Heims og Jarðar. Þessi barátta felur jafnframt í sér einingu þessara andstæðna, þar sem ljósið verður ekki til án myrkurs, opinberun ekki til án þess að eitthvað sé hulið.[5] Trúlega er öll heimspeki Heideggers um listina og uppruna hennar eins konar myndlíking og leikur að orðum, og hefur þannig til að bera ýmsa eiginleika skáldskaparins, en því er ekki að leyna að það er einhvern skyldleika að finna með þessari myndlíkingu og þeim sviðsettu atburðum sem finna má í ljósmyndum Sigurðar, þar sem kjarni málsins birtist í einingu þess sem við sjáum og þess sem er hulið: með gjörningum sínum opnar Sigurður heim sem birtist í spennu sem myndast á milli líkamans og þess rýmis sem hann skapar með veru sinni. Listamaðurinn birtist okkur jafnframt sem gerandi í verkinu í tvennum skilningi: sá sem er sýndur í myndinni og sá sem stendur ósýnilegur á bak við linsuna og sviðsetur myndverkið innan ramma myndarinnar. Myndavélin er á milli ljósmyndarans og viðfangsins og „tekur í báðar áttir“ eins og Wim Wenders orðaði það. Um leið og hún myndar viðfang sitt myndar hún sýn ljósmyndarans á það, og sú sýn stýrir jafnframt áhorfi okkar eða leiðir það. Um leið og við sjáum gjörning listamannsins á myndinni sjáum við sýn hans og túlkun á sama gjörningi í gegnum ljósmyndalinsuna. Þannig eru þessar myndir tvöfaldar í roðinu, ef svo mætti að orði komast. Hvar er það sem við sjáum í þessum ljósmyndum? Er það staðsett í yfirborði ljósmyndarinnar? Á það sér hlutbundinn stað í náttúrunni? Er það fólgið í hinum spennuþrungnu átökum listamannsins í myndinni við umhverfi sitt og sjóndeildarhring? Eða er það staðsett í hugsun þess ósýnilega auga sem stýrir linsunni? Samkvæmt skilningi Heideggers er það á engum þessara staða, myndin opnar nýjan heim sem felst í möguleika nýrrar skynjunar á rýminu. Við horfum ekki á myndina sem hlut, heldur verður myndin eins konar leiðarvísir fyrir sjónskyn okkar og áhorf í þeim tilgangi að opna fyrir okkur nýja sýn á heiminn.Við horfum með myndinni.

Að sjá, sýnast og sjást

Spurningin um staðsetningu þess sem við sjáum í myndinni vekur upp eina af ráðgátum sjónskynsins, sem Maurice Merleau-Ponty hefur bent á að felist í því að líkami okkar er hvort tveggja í senn sjáandi og sýnilegur líkami. Augað og líkaminn eru efnislegir hlutir, rétt eins og það sem við sjáum í umhverfinu, og verða því ekki aðgreind frá því með einföldum hætti. Líkaminn sér sjálfan sig um leið og hann sér umhverfið og hann sýnir sig líka um leið og hann sér. Líkaminn er því í gagnvirku sambandi við umhverfi sitt, hann sér sig horfandi, hann snertir sig snertandi og skynjar sjálfan sig um leið og hann skynjar umhverfið. Þetta kallar Merleau-Ponty hina ódeilanlegu samlögun (communion) skynjandans og hins skynjaða.[7] Fyrir Ponty er hin líkamlega skynjun frumforsendan, ekki tungumálið. Þess vegna segir hann meðal annars að deilan á milli þeirra sem aðhyllast lýsandi raunsæi og þeirra sem aðhyllast abstrakt tjáningu sé byggð á misskilningi. Ponty segir það sannleikanum samkvæmt og án mótsagnar að halda því fram að ekkert vínber hafi nokkurn tímann verið það sem það er í málverki, hversu raunsæislega sem málarinn hafi staðið að verki. Rétt eins og það sé réttmætt að halda því fram að hversu abstrakt sem myndverkið er, þá verði það aldrei undanskilið veru listamannsins, og því sé vínber Caravaggios sjálft vínberið. Þessar fullyrðingar eru án mótsagnar, segir Ponty, og rökstyður það mál sitt með þeirri staðhæfingu að forgangsröðun þess sem er fram yfir það sem er sýnt, eða forgangsröðun þess sem er sýnt fram yfir það sem er, „er sjónin sjálf“. Sjónin „er það meðal sem mér er gefið til þess að vera utan við sjálfan mig, til þess að geta aukið á staðfestu verunnar innan frá, svo að ég geti á endanum horfið inn í sjálfan mig.“ Um leið og við opnum augun gagnvart umhverfinu opnum við sjálf okkur. Augun eru ekki bara móttökutæki (eins og t.d. eyrun), þau eru gluggi sálarinnar eins og Leonardo orðaði það, og þegar við horfum erum við bæði utan og innan líkamans í sama augnablikinu.

Þessar heimspekilegu vangaveltur Maurice Merleau-Ponty um fyrirbærafræði sjónskynsins hljóma eins og endurómur þeirra tilrauna sem Sigurður Guðmundsson gerði með ljósmyndaverkum sínum, og svo virðist sem uppgötvun hans á þessum tvíræða leik ljósmyndagjörningsins hafi á endanum orðið honum að of augljósri niðurstöðu. Hann hætti að gera ljósmyndir og leitaði annað og dýpra, frá hinum tvíræðu og þversagnakenndu spurningum um líkamann og sjónskynið inn á þau mæri þar sem efnisheimurinn og draumheimarnir mætast í ímyndunaraflinu. Á því ferðalagi urðu til skúlptúrar, umhverfisverk og gjörningar sem bera vott um ríkt ímyndunarafl og óvenju næma innsýn í efnisheiminn og undirheimana sem fylla dulvitund mannsins og draumheima hans.

Lárétt sýn og lóðrétt

Ef við segjum um skúlptúra, umhverfisverk og málverk Sigurðar frá níunda og tíunda áratugnum, sem fylgdu í kjölfar ljósmyndaverkanna, að með þeim hafi hann horfið frá hinni heiðskíru rökræðu um tungumálið, líkamann og rýmið, þar sem hinn dagsbjarti sjóndeildarhringur er stöðugt nálægt viðmið, inn í hin myrku djúp næturinnar og hinna óræðu drauma, þá er ekki átt við þann skilning sem finna má hjá upphafsmönnum djúpsálarfræðinnar um aldamótin 1900, að draumarnir birti okkur táknmál bældra hvata er þurfi að draga fram í dagsljósið í nafni nýrrar og æðri rökhyggju og túlkunarfræða. Það draumkennda og órökvísa í þessum verkum stendur ekki fyrir bældar langanir og hvatir í þeim skilningi sem Sigmund Freud hélt fram í grundvallarriti sínu um túlkun drauma frá árinu 1899. Öllu heldur er hér um að ræða ferðalag inn í efnislausan veruleika draumaheims myndanna þar sem sýnirnar birtast okkur á sínum eigin forsendum sem sjálfstæður veruleiki af ætt draumsins.

sgudmundsson-het-grote-gedicht

Sigurður Guðmundsson: Het Grote Gedicht 1980-81

Þetta tímabil á ferli Sigurðar er venjulega talið hefjast með Het Grote Gedicht (eða Hinu Mikla Ljóði) frá árunum 1980-81. Þar sjáum við þrjá hvíta píramíða á gólfi með áfasta uppstoppaða svanahálsa, og er raðað upp eins og í oddaflugi, þótt hálsarnir séu frekar reistir en á láréttu flugi. Þetta er draumkennd mynd sem vekur sterk viðbrögð án þess að við getum í raun túlkað hana í orðum á forsendum hefðbundinnar rökvísi. Öll útskýring verður til þess að vængstýfa flug verksins, sem engu að síður kallar fram andstæður náttúru og menningar, reglu geometríunnar og uppreisnargjarna óreiðu náttúrunnar. Augljós tengsl þessa verks við ljósmyndaverkið Mathematics frá 1979, þar sem Sigurður situr á hvítri sandströnd með fangið fullt af flóknum ullarreifum andspænis píramíða hlöðnum úr hvítum sandi og sjóndeildarhringinn í bakgrunni, bendir þó frekar til þess að þetta verk marki brú á milli þess sem á undan fór og þess sem í vændum var. Fyrir utan þá hliðstæðu sem finna má þar sem píramíðanum er teflt andspænis óreiðu náttúrunnar, þá eiga þessi verk það líka sammerkt að þau eru í björtum lit og byggja á láréttri myndhugsun; en í Hinu Mikla Ljóði er Sigurður horfinn úr myndinni sem hluti verksins í eigin persónu, og í stað hins tvívíða flatar ljósmyndarinnar er okkur nú stillt upp andspænis raunverulegu þrívíðu rými. Þetta rými er í ætt við draumsýn, eins konar leikmynd sem setur saman þekkt efnisatriði úr vökuheiminum, en tengir þau saman með aðferð sem torvelt er að heimfæra upp á rökhugsun dagsbirtunnar. Ef við kjósum að líta á þetta verk sem brúna er tengir heim dags og nætur á ferli Sigurðar, þá getum við litið á blýantsteikninguna Mirror frá 1983 sem fyrsta áfangann í ferð Sigurðar til undirheima.

s-gudmundsson-mirror-1983

Sigurður Guðmundsson: Mirror, blýantsteikning, 1983

Þessi stóra blýantsteikning sýnir okkur baksvip á manni sem er að hverfa inn í björg, en það er algengt þema í íslenskum álfasögum og þjóðtrú. Teikningin markar upphaf þess að Sigurður hverfur frá efnislausri og staðlausri veru ljósmyndarinnar og snýr sér í æ ríkari mæli að hinum þungu, myrku og hörðu jarðefnum, sem hann virðist hafa séð sem sérstaka ögrun með sínu þétta viðnámi og efnismassa. Hún markar líka þau umskipti, sem eru kannski ekki eins augljós, en varða breytinguna frá hinni láréttu línu sjóndeildarhringsins til hinnar lóðréttu línu húsanna og mannsmyndanna sem eru unnar í bik, basalt, diabas eða önnur hörð, þung, biksvört og ógagnsæ efni. Umskiptin frá láréttri til lóðréttrar myndhugsunar eru vitnisburður um að myndlist Sigurðar var að beinast inn á nýjar brautir, inn á við, niður í djúpið og aftur til hulinnar fortíðar. Umskiptin marka einnig þá stefnubreytingu er vísar til meðvitaðrar táknhyggju, myndhugsunar sem ekki fylgdi meginstraumi myndlistarinnar á þessum tíma.

Glöggt dæmi um þetta er lykilverkið Domecile frá 1983-5, sem markar um margt þáttaskil. Við stöndum frammi fyrir húsi sem hefur sígilt form bustarinnar. Efni þess og form eru þó um margt óvenjuleg. Hliðarveggirnir eru hlaðnir úr tilsniðnu moldarbrúnu torfi, en stafnar og þak mynda lokaða heild úr torkennilegu efni sem líkist þykku og hrjúfu biki. Stafnarnir falla yfir hliðarveggina efst og fá þannig form örvar sem vísar upp á við. Húsið er án dyra eða glugga, en framan á því er silfurlitað, inngreipt og ógreinilegt málmkennt form sem minnir á kyndil eða sverð og á afturgaflinum er hliðstætt tákn sem hefur óljósa vísun í útbreidda vængi eða ský eða jafnvel hjöltu á sverði. Þetta hús er okkur lokað eins og grafhýsi eða undirheimar Hadesar og minnir okkur á dauðann. Með þessu verki og þeim sem fylgdu í kjölfarið hefur Sigurður skapað persónulegt táknmál sem vísar til goðsögulegra frummynda, sem eiga rætur sínar í draumheimum og dulvitund mannsins. Orðið frummynd er í þessu samhengi notað sem íslensk þýðing á hugtakinu Archetyp í skilningi Carls Gustavs Jungs.

s-gudmundsson-domecile-1983-5

Sigurður Guðmundsson: Domecile, 1983-85

Frá merkjamáli til táknmáls

Eitt megineinkenni tæknihyggju og vísindatrúar samtímans hefur verið vantrú á gildi alls táknmáls. Þetta hefur ekki bara einkennt vísindi samtímans, heldur líka listirnar. Öll rökræða formgerðarstefnunnar og merkingarfræðinnar og þar með einnig konseptlistarinnar og naumhyggjunnar á 20. öldinni, beindist að því að hreinsa tungumálið af öllum táknrænum vísunum, sem ekki höfðu áþreifanleg og ótvíræð hlutlæg viðmið. Rétt eins og vísindin höfðu smættað heiminn niður í frumparta sína og gefið upp á bátinn alla viðleitni til að draga upp heildstæða mynd af heiminum, þá hafði myndlistin á síðari hluta 20. aldarinnar leitast við að hreinsa myndmálið af allri tvíræðni táknhyggjunnar, hvort sem það birtist í minimalisma eða þeirri konseptlist, þar sem myndlistin var í raun orðin að sjálfvísandi skilgreiningu eða klifun: „Það eina sem sagt verður um list er að hún er einn hlutur. List er list-sem-list og allt annað er allt annað. List-sem-list er ekkert nema list. List er ekki það sem ekki er list.“[9] Þessi yfirlýsing Ads Reinhardt frá 1962 miðar að því að draga skýr mörk á milli listarinnar og lífsins, á milli listarinnar og alls annars veruleika. Það var ekki lengur hlutverk myndlistarinnar að sýna mynd af heiminum, heldur að sýna sjálfa sig. Ljóst er að Sigurður fylgdi þessari stefnu aldrei heilshugar, en í kringum 1980 verða þau umskipti í list hans að hann tók afgerandi aðra stefnu og hóf að gera verk sem hafa meðvitað táknrænar vísanir.

Gríska orðið symbolon, sem er notað í flestum tungumálum fyrir íslenska orðið tákn, er samsett úr forskeytinu syn og sögninni ballo (ég steypi) og merkir þá bókstaflega „það sem steypt er saman“. Í Grikklandi og Róm til forna var orðið symbol meðal annars notað um það sem Rómverjar nefndu tessera hospitalitatis eða einkennismerki (jarteikn) gestsins sem bar á sér brot úr hring eða keri sem merki þess að hann tilheyrði tiltekinni heild. Þannig er symbol hugsað sem vísun til stærri heildar. Í frumkristnum sið var talað um postulleg symbol er vísuðu til þess að sá sem bar það tiheyrði hinum kristna söfnuði. Þannig vísar táknið út fyrir sjálft sig til annars og stærri veruleika. Í þessum skilningi vísar táknið með öðrum hætti til veruleikans en til dæmis merkið. Kross sem merki í stærðfræði hefur nákvæmlega skilgreinda merkingu, en kross sem trúartákn hefur margræða merkingu sem ekki er hægt að skilgreina með vísun í skýrt afmarkaða heild. Um leið og táknið vísar út fyrir sjálft sig, þá getur ekkert komið í staðinn fyrir það, því það á sér margræða merkingu. Endanlega vísar táknið því aftur í sjálft sig sem einstakt fyrirbæri.

Þegar Sigmund Freud setti fram hina byltingarkenndu kenningu sína um dulvitundina í riti sínu Die Traumdeutung árið 1899 túlkaði hann myndir þær sem birtast í draumum manna sem táknmyndir er gætu skýrt bældar hvatir í sálarlífi mannsins. Freud skýrði þessi tákn út frá persónulegri sögu einstaklingsins og þeirri tilfinningaspennu sem hann átti í gagnvart foreldrum sínum og umhverfi. Í riti sínu Wandlungen und Symbole der Libido frá 1912 tekur Carl Gustav Jung afstöðu gegn lærimeistara sínum og segir táknmyndir draumanna ekki vísa til persónulegrar reynslusögu einstaklingsins, heldur séu þær fyrst og fremst eins konar opinberanir er vísi til frummynda er búi í hinni arfbornu og sammannlegu dulvitund allra einstaklinga. Í stað þess að varpa ljósi á persónubundna reynslusögu einstaklingsins vísi þær til þeirra þátta í tilveru mannsins sem ekki verði skilgreindir með vopnum hinnar dagsbjörtu rökhyggju. Táknmyndirnar verða þannig í hugsun Jungs eins konar miðill milli þess sem er hulið og þess sem er sýnilegt í tilveru mannsins, á milli dulvitundar og vökuvitundar hans. Það er í þessum skilningi sem við getum litið á verk Sigurðar frá síðustu tveim áratugum sem táknmyndir.

Ferðin á vit Hadesar

Bandaríski sálfræðingurinn James Hillman, sem er einn af lærisveinum Jungs, byrjar bók sína The Dream and the Underworld á þessari tilvitnun í Jung: „Sá ótti og viðnám sem sérhverjum manni eru eðlislæg, þegar hann kafar of djúpt inn í sjálfan sig, er þegar allt kemur til alls óttinn við ferðalagið til Hadesar„.[10]  Ferðalagið til Hadesar er í skilningi Jungs og Hillmans ferðin inn í ríki dauðans og dulvitundarinnar, þar sem veröldin birtist okkur í óræðum og líflausum táknmyndum. Þrátt fyrir ágreining Jungs og Freuds um hina sammannlegu og einstaklingsbundnu dulvitund, þá segir Hillman þessa guðfeður djúpsálarfræðinnar hafa átt það sameiginlegt að vilja skýra draummyndirnar í of ríkum mæli í ljósi hinnar dagsljósu rökhyggju, og nota þær í þeim skilningi til sállækninga. Hillman dregur í efa þá túlkunaráráttu sem þessir lærimeistarar hans ástunduðu, um leið og hann leggur áherslu á mikilvægi draumanna og ferðalagsins á vit Hadesar til sjálfskilnings og skilnings okkar á manninum. Hann heldur því fram að draummyndirnar eigi að tala sínu eigin máli án langsóttra útskýringa á máli vökuvitundarinnar. Það sem er heillandi við þessar hugmyndir Hillmans eru hinar djúpvitru vísanir hans í forna goðafræði sem hann sér líkt og Jung sem lykilinn að sálarlífi mannsins. Í raun var öll djúpsálarfræðin til staðar þegar í Grikklandi til forna, hún var eingöngu sett fram á máli goðafræðinnar. Það var ekki síst í goðafræðinni sem Jung fann frummyndir sínar og táknheima, og það er í goðafræðinni sem Hillman finnur lausnir sínar á ýmsum vandamálum sálgreiningar og sállækninga samtímans. Eitt þessara vandamála er ótti samtímans og útilokunarárátta gagnvart dauðanum. En Hillman túlkar goðsögnina um baráttu Herkúlesar við Hades og varðhund hans[11] sem lýsingu á varnarviðbúnaði vökuvitundarinnar gagnvart ríki Hadesar[13].

Goðsagan um ferð Herkúlesar til undirheima verður fyrir Hillman myndlíking um ferð vökuvitundarinnar á vit dulvitundarinnar, undirheimanna og dauðans. Hillmann lítur ekki á dauðann og ríki hans sem eitthvað er taki við að lífinu loknu, heldur eitthvað sem maðurinn ber með sér frá fæðingu til dauða. Lífið er þroskaleiðin til Hadesar, og Hades fylgir okkur alla leið sem vitur leiðsögumaður og vinur. Herkúles var óvinur Hadesar, ólíkt öðrum hetjum úr goðaheimi, og er í líkingunni sá sem ekki skilur dauðann vegna þess að hann kann ekki að lesa líkingamál draumsins og goðsögunnar. Hillman lítur á Herkúlesar-hetjuna og allar þær smáhetjur vökuvitundar okkar, sem taka sér hann til fyrirmyndar, sem alvarlegt geðheilbrigðisvandamál í samtímanum. Það rennur morðæði á Herkúles þegar hann stendur andspænis blóðlausum myndum hinna framliðnu í undirheimum. Myndirnar gera hann morðóðan, „því sá veruleiki sem geðheilsa hetjunnar hvílir á er brothættur gagnvart skoti örvarinnar og höggi kylfunnar. Fyrir honum er veruleikinn einungis líkamlegur. Þess vegna ræðst hetjan gegn myndunum og fælir Dauðann burt úr hásæti sínu, rétt eins og það að meðtaka myndina jafngilti fyrir honum líkamlegan dauða. Hin hetjulega vökuvitund tekur myndirnar bókstaflega. Þar sem hún hefur ekki til að bera þá skilningsgáfu myndlíkingarinnar sem menn ávinna sér með því að vinna með myndirnar, þá skjátlast henni og viðbrögð hennar verða ofbeldisfull…hin hetjufulla villa er að taka myndirnar bókstaflega, með sama raunsæi og sjálfið notar í vökuvitund sinni. Þetta eru mistök af stærðargráðu Herkúlesar, sem hafa hlotið gyðinglega-kristilega blessun í trúarherferðinni gegn djöflunum, draumunum, helgimyndunum og öllum ímyndunum sálarinnar.“[14]

Hillman minnir í þessu samhengi á annað boðorðið í Mósebók þar sem Drottinn segir: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því sem er á jörðu niðri, eður því sem er í vötnunum undir jörðunni; þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær; því að eg Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata„.

Ef við lítum einungis á veröldina eins og hún „er“ og afsölum okkur allri margræðni og allri menningu myndlíkingarinnar, þá tökum við veruleikanum bókstaflega að hætti Herkúlesar og beitum kylfunni tafarlaust. Við þær aðstæður verður hið hetjufulla sjálf að sjálfsupphafningu og heimurinn að villta vestrinu, segir Hillman. Í samtímanum er ekkert sem skilur á milli hins hráa veruleika og hinnar hráu ímyndunar. Án þess að skynja muninn á mynd sjónvarpsins og veruleikans ræðst hið hetjufulla sjálf í gervi Herkúlesar inn á vígvöll ímyndananna með Biblíuna undir annarri hendinni og byssuna í hinni, og hefur þannig glatað þeirri mennsku sem fylgir þekkingunni á þeirri margræðni sem í myndunum er falin. Draumar okkar eru myndir, og þeir sem sköpuðu hina grísku goðafræði þekktu gildi myndanna og kunnu að gera greinarmun á mynd og veruleika. Það sem samtíminn þarfnast mest í dag er að endurheimta þekkingu fornmanna á gildi og helgidómi myndanna, segir Hillman. Þess vegna er leiðin til Hadesar þroskabraut mannsins og með sérhverjum draumi okkar erum við á hverri nóttu innvígð í heim myndanna og dauðans. Það er þangað sem Sigurður Guðmundsson vill leiða okkur með verkum á borð við Domecile, Abend in Berlin, Journey of the Days og Diabas frá 9. áratugnum.

s-gudmundsson-journey-of-the-days-1988

Sigurður Guðmundsson:  Journey of the Days, 1988

Vaggan og gröfin

Þegar kemur að því að lesa tákn eru margar leiðir sem koma til greina og engin þeirra endanleg eða endanlega rétt. Ef við leyfum okkur til dæmis að líkja verkinu Domecile við grafhýsi, þá er grafhýsið líka órjúfanlega tengt annarri vistarveru, sem er móðurlífið. „Af jörðu ertu kominn og að jörðu skaltu aftur verða“ er sagt yfir kistu látinna í kristnum sið, og dauðinn er í þeim skilningi afturhvarf til upprunans. Verkið Domicile fær þannig þá kvenlegu merkingu sem kennd er við skaut móðurinnar, sjálft móðurlífið, og í því ljósi getum við skilið kyndilinn á stafni þess sem karllegt reðurtákn og hina tvíræðu mynd vængja og lofts á bakstafninum sem upprisu eða endurfæðingu. Í þessu samhengi tekur þetta grafhýsi einnig á sig merkingu Anatorsins eða eldofnsins í hinu alkemíska táknmáli, en í þeim fræðum er eldofninum einmitt ýmist líkt við gröf og/eða móðurlíf efnisins. Í þessu samhengi verður kyndillinn á stafninum hliðstæða við töfrastaf Hermesar og skýið eða vængirnir á bakstafninum líking við fuglinn Fönix sem er líking viskusteinsins eða hins göfgaða og endurfædda efnis. Það var hin mikla uppgötvun Jungs að sjá í líkingamáli alkemíunnar fjársjóð hinna sammannlegu frummynda sálarlífsins, en slíkar myndir blasa við í verkum Sigurðar frá þessum tíma. Fjölmargar hliðstæður við Domecile Sigurðar má finna í hinu alkemíska myndmáli, og nægir hér að vísa til myndar Theophiliusar Schweighart úr Speculum sophicum Rhodostauroticum frá árinu 1604.

schweighardt-speculum-sophicum-stauroticum-1618

Teophilius Schweighart: Speculum sophicum Rhodostauroticum, 1604

Myndin sýnir okkur hinn alkemíska verknað sem gerist að hluta til í undirheimum vatns og jarðar, sem eru líkingamál dulvitundarinnar. Þar sameinast listin og náttúran og þaðan kemur þekkingin (hinc sapientia), og sameinast í kosmísku móðurlífi jarðarinnar en þar fyrir ofan sjáum við alkemistann fullkomna verk náttúrunnar í samvinnu við Guð (cum Deo). Alkemistarnir litu á verk sitt sem hliðstæðu við og eftirlíkingu á sköpunarverki Guðs.

Skipið, húsið, og höfuð forfeðranna

Í kjölfar verkins Domecile eru það einkum þrjár táknmyndir sem verða Sigurði áleitin viðfangsefni: húsið, skipið og hið steingerða höfuð nafnlausrar persónu sem við getum kallað forföðurinn. Þessar frummyndir tengjast allar innbyrðis. Það sjáum við meðal annars í verki Sigurðar, Nocturne, frá 1986, þar sem þessir þrír þættir eru sameinaðir í einni mynd úr svörtum diabas-steini og gleri. Þetta er skematísk mynd af skipi sem ber hús og mannshöfuð.

sigurdur-gudmundsson-nocturne

Sigurður Guðmundsson: Nocturne, 1986

Í sögu goðafræði og trúarbragða höfum við fjölmörg dæmi um bátinn eða skipið sem hvort tveggja í senn, farartæki og vistarveru. Siglingin er nátengd ferðinni á vit dauðans: að fara er að deyja svolítið, segir í frönsku máltæki, og ferðalagið á vit forfeðranna er oftar en ekki tengt siglingu, jafnt í goðsögum og trúarbrögðum sem í listum. Alþekkt er mynd Arnolds Böcklin sem sýnir siglinguna að eyju hinna dauðu. Í málverki Delacroix sjáum við skáldin Dante og Virgil á siglingu meðal fordæmdra í Víti. Í dómsdagsmynd Michelangelos í Sixtínsku kapellunni sjáum við ferjumanninn Karon ferja hina látnu yfir ána Styx niður til Heljar, og í verki Jóns Gunnars Árnasonar, Sólfar frá 1981-2, sem stendur við Sæbraut í Reykjavík, sjáum við skipið sem stefnir til upphafsins á vit sólarinnar. Verk á borð við Nocturne frá 1986 og málverkið Journey of the Days frá 1988 sverja sig í ætt við þessa hefð.

En hvað með húsið og hið steingerða höfuð, sem Sigurður tengir beint og óbeint við mynd sína af skipinu? Húsið sem frumlæg táknmynd er miðlægur lokaður heimur og skjól sálarinnar, segir Gaston Bachelard.[15] Húsið er fyrsta mynd okkar af heiminum, og í draumum okkar er það vagga sálarinnar og verustaður dulvitundarinnar og minninganna. Sem slíkt tengist það jörðinni og móðurgyðjunni. Í Búddatrú er líkama mannsins líkt við hús. Húsið í myndum Sigurðar er kolsvart, gluggalaust og úr hörðum massífum steini. Það er okkur lokaður heimur. Svarti liturinn vísar til næturinnar, undirheimanna og dauðans. En um leið og undirheimarnir eru ríki dauðans og jarðarinnar, þá eru þeir líka heimur endurfæðingar og frjósemi, því svarti liturinn tilheyrir líka jarðargyðjunni Demeter. Svarti liturinn tilheyrir líka frumefninu sem á máli alkemíunnar var upphaf alls vaxtar og frumforsenda Hins mikla verknaðar gullgerðarlistarinnar. Svarti steinninn var tákn hinnar miklu móðurgyðju Cibele, sem í grískum trúarbrögðum var kona Satúrnusar og móðir Seifs og Heru. Svarti steinninn í Mekka er eitt helsta átrúnaðarefni allra íslamskra pílagríma og mun bera þeim sem hafa snert hann vottorð á hinsta degi.

Svarti steinninn er líka það efni sem Sigurður hefur mest notað fyrir hinar dularfullu myndir sínar af mannshöfðum, þar sem formið er eins og kúpt súla, sem er stundum eingöngu dregið inn til að móta fyrir hökunni, en stundum mótar líka fyrir hnakkagrófinni. Að öðru leyti er þetta andlit án ásjónu. Á sama hátt og húsið er kvenlegt tákn, þá er höfuðið karllegt. Jafnvel jaðrar við að sum súluhöfuð Sigurðar séu reðurtákn. Höfuðið hefur forræðisvald og stjórnvald og er íverustaður viskunnar. Sem slíkt tákn minna þessar myndir Sigurðar um sumt á þær undurfurðulegu og tröllauknu höfðamyndir sem frumbyggjar Páskaeyju á Kyrrahafi reistu meðfram ströndum eyjar sinnar á 15. og 16. öld að talið er. Merking þeirra mynda er mönnum ráðgáta, en ein tilgátan er sú að þær sýni forfeðurna, séu liður í valdabaráttu fjölskyldna á eyjunum og að myndirnar hafi átt að bægja burt óæskilegum öflum. Það sem gerir höfuðmyndir Sigurðar dularfullar og áleitnar er einmitt sú staðreynd að þær eru ásjónulausar og við getum með engu móti nálgast þær. Þær koma djúpt úr undirheimum Hadesar og langt aftur úr myrkri fortíðarinnar og horfa til okkar blindum augum eins og horfin minning.

Grafíkmyndin Genetic Poem frá 1985 hefur hugmyndaleg tengsl við steinhöfuð Sigurðar, þótt útfærslan sé önnur. Hún sýnir okkur dökkbrúnan og hrjúfan móbergsstein. Á bak við steininn sér móta fyrir sköllóttu karlmannsandliti, sem mun vera afi Sigurðar. Þessi daufa andlitsmynd varpar rauðbrúnum skugga frá steininum fram í forgrunn myndarinnar. Nafn myndarinnar, Ættfræðiljóðið, vísar til forfeðranna í bókstaflegum skilningi. Jafnframt sýnir myndin tengsl forfeðranna við steininn og jörðina, og gefur þessum tengslum þá frumgerðarmerkingu, sem líka má finna í steinhöfðunum.

Pathos og Pönnukökulandslag

Í upphafi þessarar samantektar beindist athygli okkar að verkinu Landslag með pönnuköku frá fyrstu sýningu Sigurðar árið 1969, verki sem fjallar um náttúruna sem landslag í myndlistinni. Það er við hæfi að ljúka þessari samantekt með því að minnast aðeins á verk frá árinu 1987, sem segja má að fjalli um sama viðfangsefni en út frá allt öðrum forsendum. Verkið Pathos er gríðarstór útiskúlptúr, sem hægt er að líta á sem landslagsmynd í vissum skilningi. Við sjáum háan og mikinn dranga úr hörðu grábrúnu djúpbergi sem stendur á víðavangi. Upp úr dálítilli kverk sem hoggin er efst í steininn stendur skarpt mótað form sem minnir í senn á hús, ör og hvassa tönn. Þetta form er slípað í harðan steininn og vex út úr honum eins og viðhengi sem mótað er í anda og stíl módernismans. Utan úr hlið klettsins opnast síðan æð og þar fellur fram eins konar foss sem er steyptur í brons með grænni slikju. Ef tönnin er í anda módernismans, þá er þessi bronsfoss í anda rómantísku stefnunnar. Það má segja um þessa mynd að hún tilheyri flokki landslagsmynda, rétt eins og Landslag með pönnuköku. En í stað þess að gera mynd af klettinum notar Sigurður klettinn eins og hann kemur úr grjótnámunni. Fossinn og „tönnin“ eru hins vegar tilbúnir þættir í verkinu sem setja klettinn í nýtt samhengi við listasöguna. Nelson Goodman sagði á sínum tíma að útlitsleg líking myndar og náttúru fælist í flestum tilfellum fyrst og fremst í því að myndin líktist því hvernig menn væru vanir að sjá náttúruna málaða. Að menn líktu frekar eftir hefðinni en náttúrunni eins og hún er í raun og veru. Það má segja að Sigurður snúi nokkuð upp á hefðina í þessu verki, rétt eins og í Landslagi með pönnuköku, en forsendurnar eru þó allt aðrar. Hann er hér búinn að losa sig út úr þeim vandamálum sem hann var að berjast við 1969.

s-gudmundsson-pathos-1987s-gudmundsson-pathos2-1987

Sigurður Guðmundsson: Pathos, 1987

Myndmálið er ekki bundið við hefðina, en það er ekki heldur hrætt við hana. Sú eftirlíking sem fólgin er í bronsfossinum líkir eftir hinni rómantísku hefð frekar en náttúrunni sjálfri. Sama má segja um tönnina, sem vísar frekar í hina módernísku myndlistarhefð en náttúruna sjálfa. En hér hafa hefðirnar verið felldar að hrárri náttúrunni með nýjum hætti og þannig búið til nýtt samtal á milli listamannsins og náttúrunnar sem er án allrar tilgerðar. Í gegnum ferðalag sitt á vit Hadesar hefur Sigurði tekist að frelsa tungumál myndlistarinnar úr spennitreyju hinnar dagsbjörtu rökhyggju og gera það að eðlilegum hluta náttúrunnar. Sannkallaður náttúruóður.

Klappaðir steinar

Eitt best heppnaða útilistaverk Sigurðar hér á Íslandi eru granítsteinarnir við Sæbrautina í Reykjavík frá árinu 2000. Slípaðir granítsteinar sem hafa verið felldir inn í stórgrýtta grjótuppfyllingu úr íslensku grágrýti á um 10 metra parti, rétt eins og þeir væru eðlilegur hluti þessa tilbúna landslags. Granítsteinarnir eru útlenskrar ættar, bleikir og brúnir og komnir frá Svíþjóð. Þeir hafa haldið óreglulegri lögun sinni eins og þeir komu úr grjótnámunni. Það eina sem hefur verið gert við þá er að þeir hafa verið gljáfægðir þannig að það glampar á þá af birtunni frá sólinni og hafinu. Þeir eru harðir eins og gler en hafa mjúka áferð sem kallar á að þeim sé strokið. Það bregst varla að þeir sem eiga leið þarna framhjá staldri við og hoppi jafnvel yfir vegkantinn til þess að klappa steinunum og setjast á þá. Á bak við þetta verk er ofureinföld hugsun en djúp. Hún kemur úr undirheimum og iðrum jarðar eins og djúpbergið. Í stað þess að líta á ómennskan og blindan vilja náttúruaflanna sem ógnun og uppsprettu bölsýni, eins og Schopenhauer gerði, þá býður Sigurður okkur að sættast við náttúruna og umgangast hana af nærfærni á hennar eigin forsendum eins og um ástaratlot væri að ræða.

sigurdur-gudmundsson-fjorugrjot

 

Forsíðumyndin er ljósmyndaverkið „Attributes“ frá 1978

  

 

[2] „„Mensch hat keinen Körper und ist kein Körper, sondern er lebt seinem Leib““, sjá Corpo e spazio, bls. 5.

[3] Í þessu samhengi má vitna í þá niðurstöðu Nelsons Goodman að lýsandi raunsæi sé fyrst og fremst spurning um hefð og innrætingu: „Realism is a matter not of any constant or absolute relationship between a picture and its object but of a relationship between the system of representation employed in the picture and the standard system. Most of the time, of course, the traditional standard system is taken as standard; and the literal or realistic or naturalistic system of representation is simply a customary one …That a picture looks like nature often means only that it looks the way nature is usually painted.“  Sjá N. Goodman: Languages of Art, Cambridge 1984, bls. 38 og 39.

[5] Sbr. ritgerð Heideggers, Der Ursprung des Kunstwerkes frá 1935.

[7] Maurice Merleau-Ponty: L’occhio e lo spirito, Milano 1989, bls. 22-23.

[9] „The one thing to say about art is it is one thing. Art is art-as-art and everything else is everything else. Art-as-art is nothing but art. Art is not what is not art.“ Ad Reinhardt: Art as Art, birt í tímaritinu Art International í desember 1962.

[10] James Hillman: The Dream and the Underworld, 1979, tilvitnun í grundvallarrit Jungs, Psychologie und Alchemie frá 1944. Hér stuðst við ítalska útgáfu Il sogno e il mondo infero, Milano 2003.

[11] Sjá t.d. Evrípídes: Alkestis 846-54; Hómer: Ilíonskviða, V, 397-400 og Odysseifskviða, XI, 601-26.

[13] Sjá Il sogno e il mondo infero, bls. 138-150. Þar segir Hillman m.a.: „Við skulum ekki vanmeta ofbeldishneigð Herkúlesar. Þegar hann kemur til Hadesar vill hann gefa vofunum það blóð sem þær biðja um: hann vill færa þeim aftur lífsandann, thymos, losa þær undan valdi sálarinnar til að færa þeim virknina sem birtist í dáðum hans sjálfs (að rífa skepnur á hol).“

[14] Í þessu samhengi vitnar Hillman í Mattheusarguðspjall, V, 28: „Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór; en ég segi yður, að hver sem lítur á konu með girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt hneykslar þig, þá ríf það út og kasta því frá þér, því betra er þér að einn lima þinna tortímist, en að öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.“ Fyrir Hillman er þetta skynvilla Herkúlesar sem kann ekki að greina á milli myndarinnar og hins líkamlega veruleika. Sjá Il sogno e il mondo infero, bls. 138-147.

[15] Sjá Gaston Bachelard: La poetica dello spazio, Bari 1975, bls. 31–63.

 

 

%d bloggers like this: