LÍF-VALDIÐ Í KÓFINU SAMKVÆMT FOUCAULT

Sú skelfilega smitsótt sem nú gengur yfir heiminn hefur komið veröldinni í opna skjöldu og við stöndum ráðþrota andspænis óþekktum vágesti. Við Vesturlandabúar, og þá sérstaklega þeir sem fæddir eru eftir miðja síðustu öld,  virðast hafa það sterklega á tilfinningunni að þeir séu ekki fæddir í þennan heim til að kljást við alheimsplágur af þessu tagi. Voru vísindin og tæknin ekki búin að tryggja okkur gegn óværu í líkingu við þessa?

Í allri umræðu um smitpestina er eitt hugtak sem skiptir máli. Það er hugtakið „líf-vald“ sem franski heimspekingurinn Michel Foucault setti á oddinn í sögulegri greiningu sinni á ættfærslu valdsins í menningarsögu Vesturlanda, sem hann setti m.a. fram í bókum sínum um „Sögu kynferðisins“, bókinni um „Eftirlit og refsingu – sögu fangelsanna“ frá 1975, og „Sögu geðveikinnar á klassískum tíma“ frá 1972. Hugtakið verður í raun til í greiningu Foucaults á formgerðum valdsins í sögunnar rás á því tímaskeiði sem hann kallar „klassík“ en í hans skilningi nær þetta hugtak í raun yfir tímabilið frá tilkomu Upplýsingarinnar á 17. öld fram  til tilkomu nútímans. Út frá greiningu sinni á formgerðum valdsins kemst Foucault að því að „líf-vald“ sé það pólitíska vald sem verður til með tilkomu nútíma vísinda- og tæknihyggju, þar sem „lífið mætir sögunni“ eins og hann segir í eftirfarandi kaflabroti sem hér er birt úr fyrsta bindi „Sögu kynferðisins“ frá 1976.

Hugtakið „líf-vald“ snýst í raun um það þegar valdið hætti að beita sér gegn hugsun okkar í formi óttans, en gerði í staðinn líkama okkar að viðfangi sínu með því að tileinka sér reiknihugsunina og gera líkamann að viðfangi útreikninga er hafa hagstjórnina meðal annars að markmiði sínu.

Þetta hugtak Foucaults hefur haft víðtæk áhrif á heimspekiumræðu í samtímanum, meðal annars á ítalska heimspekinginn Giorgio Agamben, sem hefur haft mikil áhrif á alla umræðu um heimspeki stjórnmálanna í samtímanum með ritsafninu sem hefur nú verið gefið út undir heildarheitinu „Homo Sacer“. Agamben hefur að mörgu leyti beitt aðferðarfræði Foucaults, en niðurstöður hans hafa verið afar umdeildar, ekki síst vegna viðbragða hans við aðgerðum stjórnvalda gegn Covid19 pestinni (sbr. Blogfærslu hans frá 23. Nóvember s.l. birt hérá síðunni: https://wp.me/p7Ursx-152). Gagnrýni Agambens er umdeild, og ekki af ástæðulausu.

Segja má að heimurinn hafi ekki enn gert sér grein fyrir eðli þessarar plágu eða afleiðingum hennar. En ástæða þess að ég birti færslu Agambens er ekki síst sú að ef eitthvað er verra en vafasöm gagnrýni á yfirvöld, þá er það þöggun á gagnrýniröddum. Við höfum mikla þörf fyrir gagnrýna umræðu um það sem gengur yfir heiminn þessi misserin, og því birti ég blogfærslu Agambens hér á síðunni. Hún er tilefni til umræðu. Sú umræða snýst ekki síst um hugtakið „líf-vald“, eðli þess og virkni. Líf-vald er það sem nú er til umræðu á Alþingi Íslendinga um að veita heilbrigðisráðherra heimild til „útgöngubanns“ á alla Íslendinga við tilteknar aðstæður. Að setja eina þjóð í stofufangelsi. Lífvald eru líka allar tilskipanirnar um samkomubönn og nálgunarbönn sem stjórnvöld hafa gefið út og lífvald er einnig hugsanleg þegnskylda til bólusetningar, svo dæmi séu tekin. En hugtakið nær til margra annarra þátta í lífi okkar. Þessi umræða varð til þess að ég fór að rifja upp skrif Michel Foucaults um þessi mál fyrir 40 árum síðan, þegar hann var sjálfur að glíma við veirusjúkdóm sem dró hann til dauða 1984. Ég datt niður á kaflabrot í fyrsta bindi bókarinnar um Sögu kynferðisins frá 1976. Mér fannst þessi kafli eiga erindi inn í umræðuna um Covid19 og sneri broti úr honum því á íslensku í dag. Þetta er fljótfærnisleg þýðing úr enskri þýðingu Roberts Hurley frá 1978, og því viðbúið að eitthvað hafi misfarist. Kaflinn heitir á ensku „Right of Death and Power of Life“, bókin „The History of Sexuality, Volume I“, bls 139-143.

 

Líf-valdið og réttur dauðans

Kaflabrot úr bókinni „The History of Sexuality, Volume I Introduction“, Penguin books 1990 eftir enskri þýðingu Roberts Hurley.

 

… Á sautjándu öldinni tók  líf-valdið á sig tvö meginform. Þessi form voru reyndar ekki gagnstæð, þau fólu öllu heldur í sér tvo póla í þróun sem tengdi þá saman með flóknum tengslamyndunum. Annar þessara póla, sá sem virðist hafa myndast fyrst, einblíndi á líkamann sem vél: hvernig hann skyldi agaður, hvernig geta hans væri hámörkuð, hvernig nýta mætti krafta hans samhliða aukningu á nýtingarmöguleikum hans og tamningu, aðlögun hans að árangursríkum og ábatasömum eftirlitskerfum. Allt þetta var tryggt með því framkvæmdavaldi sem einkenndi agastýringuna: Líffærastýring mannslíkamans.

Hinn póllinn, sem myndaðist nokkuð seinna, einblíndi á tegundar-líkamann, þann líkama sem var knúinn af vélgengu lífi og gegndi grundvallarhlutverki í líffræðilegu þróunarferli þess: æxlun, fæðingu og dauða, heilsu, lífslíkum og langlífi og öllum þeim breytum er geta haft áhrif á þessa þætti. Eftirlit og umsjón Þessara þátta fór fram með margvíslegum inngripum og eftirlitsaðgerðum sem kalla má lýðheilsustýringu  eða líf-stýringu (bio-politics) þegnanna. Agastýring líkamans og stýring þegnanna mynduðu þessa tvo póla sem skipulagning valdsins yfir lífinu snerist um.

Á þróunarskeiði hins klassíska tíma  [17-19. öldin samkvæmt tímatali Foucaults. innsk. olg] verður þessi mikla tveggja póla tæknivél til: hún er bæði líffræðileg og lífærafræðileg , einstaklingsmiðuð og skilgreinandi, og hún beinist að afkastagetu líkamans með tilliti til hins líffræðilega þróunarferlis. Hún einkenndi það vald sem hafði kannski ekki lengur sitt fremsta markmið að drepa, heldur að gegnsýra lífið í einu og öllu.

Hið gamla vald dauðans sem einkenndi hið konunglega alræðisvald var nú látið víkja fyrir stýringu líkamanna og útreiknaðri hagstýringu lífsins. Margvíslegar stofnanir spruttu upp á klassíska tímanum – háskólar, framhaldsskólar, skýli, vinnustaðir – einnig neyðarviðbúnaður á sviði stjórnsýslunnar og hagsýslunnar, atriði sem vörðuðu fæðingartíðni, langlífi, lýðheilsu, húsakost og fólksflutninga. Þannig varð sprenging í þróun aðskiljanlegra tæknimeðala er miðuðu að undirokun líkamanna og eftirliti með þegnunum er mörkuðu upphaf tímaskeið „líf-valdsins“.

Þær tvær höfuðáttir sem mörkuðu þessa þróun í upphafi  virtust á 17. öldinni vera greinilega aðskildar. Hvað varðaði agavaldið, þá birtist þessi þróun í tilkomu stofnana eins og hersins og skólanna, í birtingarmyndum stjórnlistar, verkþjálfunar, menntunar og í samfélagsgerðum er náðu allt frá hinni hreinu hernaðarlegu greiningu Marshal de Saxe til pólitískra draumsýna Guiberts eða Servans. Hvað varðar eftirlit með þegnunum, þá sjáum við tilkomu íbúaskráningar, matsgerða á tengslum auðlinda og íbúa og töflugerð er greinir auðlegð og dreifingu hennar. Þetta sjáum við í verkum Quesnay, Moheau og Süssmilch. „Hugmyndafræðin“ varð kennisetning fagmennskunnar, heimspeki „hugmyndafræðinganna“ í mynd kenninganna um hugmyndir, merki og tilkomu skyngetunnar, en einnig í kenningu um gerð hagsmunatengsla, um samfélagssáttmála og stýrða mótun samfélagslíkamans. Þessi „hugmyndafræði“ fól augljóslega í sér sértæka (abstrakt) orðræðu, þar sem reynt var að samræma þessar tvær tæknilegu nálgunaraðferðir valdsins til þess að móta hina almennu kennisetningu um samfélagsgerðina. Í reyndinni var þeim hins vegar ekki ætlað að samtengjast í fræðilegri orðræðu, heldur í formi raunverulegra aðgerða sem áttu að leiða til hinnar miklu tæknivæðingar valdsins á nítjándu öldinni. Hlutskipti kynjanna og skipulagning kynlífsins gegndu þar mikilvægu hlutverki.

Þetta líf-vald var án alls vafa ómissandi þáttur í þróun kapítalisma. Sú þróun hefði aldrei orðið gerleg án eftirlitsbundinnar innsetningar líkamanna í framleiðsluvélina og lýðfræðilegrar aðlögunar þegnanna að hagstjórn framleiðslunnar.

En þetta dugði þó ekki eitt og sér, efling beggja þáttanna þurfti að koma til sögunnar, styrking þeirra, aðgengi og stýrileiki. Nýjar aðferðir við stýringu valdsins voru nauðsynlegar til að hámarka afköstin, verkkunnáttuna og lífið almennt án þess að skapa stjórnunarvanda.

tækniþróun valdsins sem átti sér stað á átjándu öldinni tók til allra þátta samfélagslíkamans. Þróun hinna miklu verkfæra ríkisins í stjórnsýslunni sem valdastofnana tryggði viðvarandi samband framleiðsluaflanna og undirstöðu stýrivalds lífsins og líffæranna. Framkvæmd þessa stýrivalds var í höndum aðskildra samfélagsstofnana (fjölskyldunnar og hersins, skólans og lögreglunnar, einstaklingsmiðaðrar heilsugæslu og umsýslu samfélagslegra hluta). Þetta samhæfða vald var virkt á hinu efnahagslega sviði, tryggði framvindu þess og framleiðsluöflin er stóðu að baki þess. Þetta samhæfða vald virkaði einnig sem aðskilnaðarvald með samfélagslegri valdaskiptingu þar sem valdið beindist að félagslegum öflum beggja póla og tryggði þannig yfirdrottnun og valdamismun. Með framkvæmd líf-valdsins í sínum fjölbreytilegu myndum varð gerlegt að aðlaga uppsöfnun mannaflans að uppsöfnun auðmagnsins, að tengja vöxt tiltekinna hópa við útþenslu framleiðsluaflanna og aðskilja dreifingu arðsins frá framleiðslunni. Á þessum tíma varð verðskráning líkamans, fjárfesting í honum og skipulögð dreifing á getu hans forsenda alls hins.

Við vitum öll mætavel hversu oft spurt hefur verið um hlutverk siðferðilegs meinlætis í upprunalegri mótun kapítalismans. En það sem gerðist á átjándu öld í sumum ríkjum Vesturlanda, og var bundið tilkomu kapítalismans, var annað fyrirbæri sem hafði kannski víðtækari áhrif en þessi nýja siðvendni. Þetta var ekkert minna en innganga lífsins í söguna, það er að segja innganga fyrirbæra sem tengjast lífi mannsins sem tegundar í ríki þekkingar og valds, inn á tæknisvið stjórnmálanna.

Þetta þýðir ekki að hér sé um að ræða fyrsta skiptið sem lífið og sagan tengjast. Þvert á móti þá hefur sá þrýstingur sem hið líffræðilega hefur beitt hina sögulegu framvindu verið afar mikill um þúsundir ára. Farsóttir og hungur voru hin áhrifamiklu form þessa sambands, sem ávallt lifði undir ógn dauðans. En með tiltekinni hringrás, einkum þeirri efnahagslegu sem varð á átjándu öldinni -sérstaklega á sviði landbúnaðarframleiðslunnar – hringrásar sem leiddi til aukningar á framleiðslugetu umfram þann vöxt í fólksfjölda sem hún olli, skapaðist möguleikinn til að aflétta þessari ógn dauðans. Þrátt fyrir einstaka endurtekningu ógnarinnar þá höfðu tímaskeið stórfelldrar hungursneyðar og drepsótta verið yfirstigin fyrir tíma Frönsku Stjórnarbyltingarinnar. Dauðinn var ekki sama stöðuga ógnin og áður hafði verið. Á sama tíma urðu þróun á ýmsum sviðum þekkingar um lífið almennt, tækniumbætur í landbúnaði og athuganir og mælingar varðandi líf mannsins almennt og möguleika hans til þess að draga úr örvæntingunni: takmörkuð stjórn á lífsskilyrðum afstýrði oft yfirvofandi lífshættu. Það athafnasvið sem þannig skapaðist, og sú útvíkkun þess sem varð möguleg, gerði það að verkum að aðferðir í stýringu á valdi og þekkingu gengu í ábyrgð fyrir lífsferlunum og yfirtóku eftirlit og stýringu þeirra. Vesturlandabúinn var smám saman farinn að læra hvað fólst í því að vera lifandi tegund í lifandi heimi, að búa yfir líkama, tilvistaraðstæðum, lífsmöguleikum, samfélagslegri og einstaklingsbundinni velferð, öflum sem hægt var að breyta og rými sem hægt var að deila með hagkvæmustum hætti.

Það leikur enginn vafi á því að hér gerðist það í fyrsta skipti í sögunni að líffræðileg tilvera endurspeglaðist í hinni pólitísku tilveru. Staðreynd lífsins var ekki lengur óaðgengilegt undirlag sem einungis lét sjá sig í hléum milli tilfallandi dauða og hamfara. Staðreynd lífsins fór nú að hluta til undir eftirlitssvið þekkingarinnar og athafnasvið valdsins.

Valdið snerist ekki lengur einungis um þá löggildu þegna sem áttu ekki annað yfir sér en dauðadóminn, heldur snerist það um lifandi verur og sú valdsmeðferð sem því stóð til boða þurfti að mæta skilmálum lífsins sjálfs. Það var þetta sem veitti valdinu jafnvel aðgang að líkamanum, því það átti að annast lífið frekar en ógn dauðans.

Ef hægt væri að kalla þann þrýsting sem skapast hefur þar sem hreyfingar lífsins og framvinda sögunnar mætast líf-sögu (bio-history) þá þyrftum við að nota hugtakið líf-vald til að merkja það sem færði lífið og virkni þess undir yfirráðasvæði hreinna útreikninga og gerði þekkingarvaldið að virkum geranda í lífi mannsins.

Þetta felur ekki í sér að lífið hafi verið algjörlega innlimað í þá tæknivél sem stjórnar og ráðskast með það. Lífið er stöðugt að ganga þessari tæknivél úr greipum. Utan hins vestræna heims ríkir hungursneyðin í ríkari mæli en nokkru sinni. Sú líffræðilega hætta sem ógnar tegundunum er kannski meiri og örugglega alvarlegri en hún var fyrir tíma öreindalíffræðinnar. En þau mörk sem við gætum kallað hinn samfélagslega „þröskuld nútímans“ eru yfirstigin þegar líf tegundanna hefur verið lagt í veðlófa eigin herstjórnarlistar. Árþúsundum saman var maðurinn það sem Aristóteles kallaði lifandi dýr með umframgetu til pólitískrar veru. Nútímamaðurinn er dýr sem hefur sett spurningu við eigin tilveru sem lífvera í gegnum pólitíska virkni sína.

NIETZSCHE UM GAGN OG SKAÐSEMI SÖGUNNAR

Þessi textabrot úr gagnmerku riti Friedrich Nietzsche frá 1875 um nytsemd og skaðsemi sögunnar er hér birt sem gagnlegt og mikilvægt innlegg í alla umræðu um sagnfræði, og þá ekki síður listasögu. Um leið er upphafskafli þessarar bókar nánast eins og tilvísun í ljóð Giacomo Leopardi um Hirðingjann frá Asíu, sem ég var að birta hér á síðunni, og fróðlegt að bera saman túlkun þeirra. Hér er fjallað um mikilvægi sögunnar og minnisins fyrir manninn til þess að lifa. Ólíkt dýrunum getur maðurinn ekki lifað af án söguvitundar. Um leið getur sagan orðið manninum lamandi byrði sem drepur niður frumkvæði hans. Þessi umfjöllun Nietzshe á ekki síst erindi til allra listamanna, og varðar skilning þeirra og tengsl við söguna og hið liðna. Þessi texti á því erindi í kennslu mína í Listaháskólanum næstu misserin.
Þýðingin er unnin upp út ítalskri útgáfu Giorgio Colli á heildarverkum Niezscche: Sull'utilitá e il danno della storia per la vita, Adelphi edizioni, Milano 1974, bls. 6-30. (Unzeitmaesse Betrachtungen, Zweites Stuck: Vom Nutzen und Nachteil der Historie fur das Leben).

Um nytsemd og skaða sögunnar gagnvart lífinu.

Eftir Friedrich Nietzsche

 

Kaflabrot úr ritinu Unzeitgemässe Betrachtungen, Zweites Stück: Vom Nuzen und Nachteil der Historie für das Leben, skrifað 1874-76

 

Horfðu á sauðahjörðina sem bítur grasið á enginu þínu. Hún veit ekki hvað gærdagurinn merkir, ekki frekar en dagurinn í dag. Hún vappar um, etur, hvílist og liggur á meltunni, stekkur upp á ný, allt frá sólarupprás til sólseturs, dag eftir dag, lauslega bundin við nautn sína og sársauka eins og við tilfallandi haldreipi og því hvorki döpur né þjáð. Það tekur manninn sárt að horfa upp á þetta sinnuleysi, því í samanburðinum við dýrin stærir hann sig af mennsku sinni um leið og hann horfir með öfund upp á þetta, – því það er einmitt þetta sem hann vill, að lifa eins og dýrin laus við leiðann og sársaukann, en þetta er borin von því hann vill þetta ekki með sama hætti og dýrin.

Jan Breugel: Jarðnesk Paradís manna og dýra, 16. öld

Eitt sinn spurði maðurinn dýrið: hvers vegna segir þú mér ekki frá hamingju þinni í stað þess að glápa stöðugt á mig? Dýrið vildi gjarnan svara þessari spurningu og segja: það stafar af því að ég gleymi umsvifalaust því sem ég vildi segja – en dýrið var strax búið að gleyma þessu svari líka og þagði. Þetta dró ekki úr undrun mannsins.

En hann undraðist líka á sjálfum  sér, að hann gæti ekki lært að gleyma og að hann væri stöðugt bundinn við fortíðina: sama hversu langt hann fer og hversu hratt hann hleypur, þá hleypur keðjan með.

Þetta er kraftaverk: augnablikið, hér er það í andránni, og hér er það samstundis horfið, fyrst ekkert, svo ekkert – en engu að síður kemur það aftur eins og afturganga og raskar friði undangengins augnabliks. Linnulaust falla laufin af hjóli tímans,  falla burt og snúa umsvifalaust til baka í skaut mannsins.

Þess vegna segir maðurinn „ég man“ og öfundar dýrið sem gleymir um leið og það sér í raun og veru sérhvert augnablik deyja, hverfa inn í þokuna og nóttina um leið og myrkrið gleypir það.

Þetta er ástæða þess að dýrin lifa í sögulausum tíma, tíma sem birtist eins og númer augnabliksins án þess að vera brot af nokkurri heild. Dýrið getur ekki verið með látalæti, það felur ekkert og birtist okkur í sérhverju augnabliki í einu og öllu sem það sem það er, það hefur engan annan valkost en heiðarleikann sjálfan.

Maðurinn stendur hins vegar stöðugt undir sívaxandi byrði fortíðarinnar. Þessi byrði sligar hann og bugar. Í sífellu þyngir hún spor hans eins og ósýnilegur baggi sem hann getur auðveldlega látið sem ekki sé til staðar, nokkuð sem hann lætur mjög gjarnan í ljós við samferðarmenn sína til þess að kalla fram öfund þeirra.

Þetta er ástæða þess að maðurinn verður snortinn af því að sjá sauðahjörðina á beit sinni, eins og hann væri minntur á glataða Paradís, eða þegar hann í skauti fjölskyldunnar horfir á barnið sem enn á sér enga fortíð til að afneita og leikur sér í blessunarlegri blindni á milli skjólgarða fortíðarinnar og framtíðarinnar. Engu að síður þarf að trufla leik þess: það er ekki seinna vænna að vekja það af gleymsku sinni. Þá lærir það að skilja setninguna „það var…“, þennan lagabókstaf sem tengir líf mannsins við baráttuna, þjáninguna og leiðann eins og áminning til hans um hvað líf mannsins snúist um í reynd: eitthvað ófullgert sem aldrei verður fullkomnað.

Þegar loks kemur að því að dauðinn færir okkur hina langþráðu gleymsku þá kæfir hann um leið andrána og tilveruna og setur þannig lokainnsigli sitt á þá vitneskju að tilveran sjálf er ekkert annað en órofa „hafandi verið“, eitthvað sem lifir og nærist í fullkominni mótsögn, í eigin afneitun og neyslu í senn.

Ef það er rétt að hamingjan, leitin að nýrri hamingju, sé  það sem heldur lífinu í hinum lifandi og rekur þá áfram til  dáða, þá hefur trúlega enginn heimspekingur nálgast sannleikann betur en kínikerinn[i], því hamingja dýrsins sem hinn fullkomni kíniker, er lifandi sönnun á málstað hans.

Hin smæsta hamingja sem veitir varanlegan samfelldan unað er óumdeilanlega meiri en sú stærri sem hellist yfir okkur eins og regnskúr eða eins og gáleysislegir duttlungar í miðjum leiða, þjáningu og ófullnægðum þrám daglegs lífs.

Hin smæsta og stærsta hamingja eiga sér eina sameiginlega forsendu og skilyrði: hvorug verður raungerð án getunnar til að gleyma. Þetta má einnig orða skýrar: hamingjan kallar á getuna til að finna til með sögulausum hætti á meðan hún varir.

Sá sem ekki kann að setjast niður á þröskuld augnabliksins og gleyma öllu hinu liðna , sá sem ekki getur staðið uppréttur á einum punkti eins og sigurgyðjan án þess að finna til svima eða ótta, hann mun aldrei komast að því hvað felst í hamingjunni, og það sem verra er, hann mun aldrei verða fær um að gera neitt er auki á hamingju annarra.

Ímyndum okkur öfgafullt dæmi: mann sem hefur glatað getunni til að gleyma og er tilneyddur að horfast stöðugt í augu við tiltekna verðandi: slíkur maður gæti ekki lengur trúað á eigin veru, hann myndi glata trúnni á sjálfan sig, hann myndi horfast í augu við verðandi atburðanna eins og punkta á hreyfingu í samfelldri runu og hann myndi umsvifalaust glata sjálfum sér í þessari framvindu hlutanna. Sem sannur nemandi Heraklítusar myndi hann varla þora lengur að rétta upp fingur.

Sérhver athöfn kallar á gleymsku: rétt eins og í lífi sérhverrar lífveru, þá dugar ljósið ekki eitt og sér, myrkrið er líka lífsnauðsyn. Sá maður sem vildi lifa ávallt og eingöngu sögulega væri staddur í sömu sporum og sá sem væri tilneyddur að svipta sig svefninum, eða dýrið sem væri tilneytt að lifa við stöðugt jórtur, í stöðugu og viðvarandi jórturástandi. Þannig er mögulegt að lifa nánast án minninga, reyndar hamingjusamlega, eins og dýrin sýna okkur. En það er fullkomlega ómögulegt að lifa án gleymskunnar. Eða svo ég skýri mál mitt með einfaldari hætti: til er svefnleysstig, jórturstig og stig sögulegrar vitundar sem verða skaðvaldar lífveranna og valda endanlega tortímingu þeirra, hvort sem um er að ræða einn mann, eina þjóð eða eina siðmenningu.

Til að greina þessi stig (sögulegrar ánauðar innsk. Þýð) þyrftum við að þekkja með nokkurri nákvæmni styrk þess efnislega viðnáms sem býr í tilteknum manni, tiltekinni þjóð eða siðmenningu. Á grundvelli slíkrar greiningar þyrftum við að setja þau takmörk sem æskilegt væri að setja á minningu fortíðarinnar. Með efnislegu viðnámi á ég við þann innbyggða vaxtarmátt sem er þess megnugur að umbreyta og innbyrða liðna hluti, lækna sár og endurheimta það sem er glatað: að endurmóta brotin form á eigin forsendum.

Til eru þeir sem hafa svo veikan viðnámsþrótt að þessu leyti, að þeim blæðir út við minnsta mótlæti, vegna minnsta sársauka og einkum og sér í lagi vegna minnstu eigin mistaka eða minnstu líkamlegrar skráveifu. Hins vegar eru þeir sem eru svo brynjaðir gagnvart  skelfilegustu áföllum lífsins og jafnvel gagnvart eigin misgjörðum að þeir ná að endurheimta í reynslunni sjálfri eða skömmu síðar þolanlega vellíðan og eins konar hugarró. Því sterkari sem innri tilfinningarætur viðkomandi eru, þeim mun hæfari verður hann til að takast á við fortíðina. Ef við ættum að ímynda okkur öflugasta viðnámsþróttinn, þá myndu auðkenni hans felast í því að hann ætti sér engin takmörk hvað söguna snertir þar sem hún birtist sem kæfandi skaðræðisvaldur. Hann myndi innbyrða sérhvern liðinn atburð, hvort sem hann er utanaðkomandi eða úr eigin ranni, taka hann inn í eigin blóð ef svo mætti segja. Manngerð með slíkan viðnámsþrótt kann að gleyma þeim áföllum sem hún nær ekki að sigrast á. Áföllin eru ekki lengur til staðar, sjóndeildarhringnum hefur verið lokað og ekkert getur lengur minnt viðkomandi á að handan þessa sjóndeildarhrings kunni ennþá að leynast menn, ástríður, kennisetningar og markmið.

Þetta eru almenn lögmál, sérhver einstaklingur getur einungis orðið heill, sterkur og frjór innan tiltekins sjóndeildarhrings. Ef hann reynist ófær um að mynda sér sinn eiginn sjóndeildarhring og jafnframt of eigingjarn til að fella eigin áhorf að sjónarmiði útlendingsins (í óeiginlegri merkingu), þá mun hann upplifa hægfara lömun og ótímabæran dauða. Heiðríkja hugans, hin góða samviska, hin glaða virkni og trúin á framtíðina, – allt þetta byggir á því að viðkomandi einstaklingur eða þjóð hafi viðmiðunarlínu er skilji á milli þess sem hægt er að greina innan marka hins sýnilega og þess sem er ógreinanlegt og hulið þoku. Allt byggir á því að vera jafn hæfur til þess að gleyma á réttum tíma og að muna á réttum tíma, á þeirri nauðsyn að búa yfir sterku innsæi til að skynja hvenær nauðsynin kallar á sögulega hugsun og hvenær hún kallar á ekki-sögulega hugsun. Lesandanum er hér með boðið að íhuga vel þessa tillögu: það sem er ekki-sögulegt og það sem er sögulegt eru jafn nauðsynlegir þættir fyrir heilbrigði sérhvers einstaklings, þjóðar eða siðmenningar.

…..

Það er ekki síður áríðandi að skilja þá fullyrðingu að lífið kalli á þjónustu sögunnar en að of mikil saga virki sem skaðvaldur á lifandi verur…Lifendur hafa þörf fyrir söguna í þrennum skilningi: þeir þarfnast hennar að því marki sem þeir eru virkir og búa yfir metnaði, að því marki sem þeir vilja varðveita og halda í heiðri, og að því marki sem þeir þjást og hafa þörf fyrir frelsun. Þessar þrjár ólíku þarfir kalla á þrenns konar tegundir af sögu að því marki sem leyfilegt er að greina á milli þriggja greina sögunnar: þeirrar sögu sem er mónumental (og reisir sögulega minnisvarða -innsk. Þýð.), þeirrar sögu sem er fornminjavæn (varðveitir fornminjar aldursins vegna innsk. Þýð.) og þeirrar sögu  sem byggir á gagnrýnni greiningu[ii]

…. (hér er sleppt kafla um mónumental og fornminjavæna söguhugsun til að staðnæmast við þá gagnrýnu, sem er höfundi greinilega hugstæð að vissu marki)

Að ofansögðu má ljóst vera hversu oft maðurinn hafi bráða þörf fyrir þriðja sjónarhornið á söguna – auk hinnar mónmentölu[iii] og fornminjavænu[iv], en það felst í að horfa á söguna af gagnrýni: einnig þetta sjónarhorn er í þjónustu lífsins. Hinn gagnrýni skoðandi sögunnar verður að hafa getu (þekkngu)  og tíma til að skekja og splundra tiltekinni fortíð[v] í þeim tilgangi einum að geta lifað af. Hann getur hrint þessu í framkvæmd með því að draga fortíðina fyrir dómstól, yfirheyra hana allt niður í minnstu smáatriði og fella að lokum yfir henni sektardóm. Sérhver fortíð verðskuldar reyndar sinn sektardóm – þannig er málefnum mannanna einfaldlega háttað. Ofbeldi og mannlegur veikleiki hafa alltaf fylgt valdinu. Það er ekki réttlætið sem hér sest í dómarasætið. Ennþá síður er það miskunnsemin sem hér kveður upp dóm sinn. Það er einfaldlega lífið, þetta myrka og ákafa afl sem býr yfir óseðjandi þrá eftir sjálfu sér. Dómur þess er alltaf miskunnarlaus, alltaf óréttlátur, því það er ekki sprottið af hreinum þekkingarbrunni. Það myndi hins vegar í flestum tilfellum ekki breyta dómsúrskurðinum þó dómsorðið kæmi frá Dómsmálaráðuneytinu. „Því allt sem fæðist verðskuldar að tortímast“[vi]. Það þarf mikinn kraft til að geta lifað og geta gleymt, þar sem það að lifa og ver óréttlátur er einn og sami hluturinn.

Sjálfur Lúther sagði einu sinni að heimurinn hefði orðið til fyrir gleymsku Guðs: ef Guð hefði munað að hafa í huga „þungar brynjur“[vii] þá hefði hann ekki skapað heiminn. En jafnvel lífið sjálft, sem þarf á gleymskunni að halda, kallar einnig á tímabundið afnám þessarar gleymsku. Á þeim punkti þarf einmitt að liggja í augum uppi hversu óréttlátur tiltekinn hlutur sé, tiltekin forréttindi, tiltekin forréttindastétt eða konungsætt svo dæmi séu tekin. Hvernig þessi fyrirbæri verðskuldi eigin endalok. Þannig er fortíð þessara fyrirbæra litin gagnrýnum augum, þannig er ráðist að rótum þeirra með eggvopnum og þar með  eru öll áköll um miskunnsemi fótum troðin. Þetta verður ávallt hættulegt ferli, einkum hættulegt fyrir lífið sjálft. Menn og tímar sem þjóna lífinu með þessum hætti, dæma fortíðina og tortíma henni, eru og verða ávallt hættulegir tímar og menn. Að því gefnu að við erum afsprengi liðinna kynslóða er ljóst að við erum líka afsprengi villuráfs þeirra, ástríðna og mistaka, eða öllu heldur afkvæmi afbrota þeirra. Það er ekki hægt að slíta sig endanlega frá þessari keðju. Ef við fordæmum þessar misgjörðir og teljum okkur skuldlaus gagnvart undangengnum kynslóðum, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að við erum afkomendur þeirra. Í besta falli lendum við í árekstri á milli okkar arfbundna eðlis og þekkingar okkar, eða jafnvel í átökum nýrrar og strangari fræðikenningar gegn því sem er fyrir löngu meðfætt og áunnið. Við gróðursetjum nýjan sið, nýtt innsæi og nýtt eðli til þess að hið gamla mannseðli fái að visna. Það væri tilraun til að gefa sér a posteriori (eftir á) fortíð sem við vildum kenna okkur við, í andstöðu við þá sem við höfum erft – ávallt hættuleg tilraun því það verður alltaf erfitt að draga mörkin í uppgjörinu við fortíðina, ekki síst vegna þess að seinni klynslóðin er yfirleitt veikari en sú fyrri. Það gerist allt of oft að við nemum staðar  við þekkinguna á hinu góða án þess að hrinda því í framkvæmd, því hið betra er þekkt án þess að vera framkvæmanlegt. Engu að síður gerist það stöku sinnum að sigurinn brosi við okkur, og bæði fyrir þá sem standa í baráttunni og þá sem notfæra sér hina gagnrýnu söguskoðun fyrir lífið getur það verið umtalsverð huggun: vitundin um að slíkt fyrra eðli hafi einu sinni verið til sem seinna eðli, hvenær sem það annars gerðist, og að sérhvert sigursælt seinna eðli eigi eftir að verða fyrra eðli. –

[i] Kínikerinn (hinn kaldryfjaði) sem hér er vísað til er trúlega gríski heimspekingurinn Diogenes sem lifði í Aþenu á 4. öld f.Kr. og boðaði fánýti hefðbundinna siðvenja og eftirsóknar eftir efnislegum lífsgæðum. Diogenes var fyrstur til að fá viðurnefnið „kíniker“ en bókstafleg merking orðstofnsins myndi vera „hundingsháttur“ á íslensku. Hugtakið varð viðurnefni á heimspekiskóla sem þreifst í Grikklandi fram á 4. – 5. öld e.Kr.

[ii] Gagnrýnin söguskoðun er nauðsynleg fyrir þá sem þjást við ríkjandi ástæður og leita sér afls til að bæta lífskjör sín með því að horfa gagnrýnum augum á fortíðina og fyrri túlkun hennar (innsk. Þýð)

[iii] Sú sagnaritun sem höfundur kennir við minnisvarða felst í upphafningu þjóðhetjunnar (t.d. Jóns Sigurðssonar, Jónasar Hallgrímssonar eða Jóhannesar Kjarvals) í því skyni að efla þjóðina eða einstaklingana  til dáða (innsk. Þýð.)

[iv] Sú sagnaritun sem er fornminjavæn heldur til haga öllu sem er gamalt aldursins vegna (t.d. annálasaga) í því skyni að viðhalda fyrri lífsháttum (innsk. Þýð.)

[v] Hér á höfundur væntanlega við að splundra myndinni af fortíðinni, því ekki er hægt að splundra því sem er liðið. Á bak við hugsun Nietzsche liggur sá skilningur að öll söguritun sé í sjálfu sér skáldskapur eða „mynd“ sem hafi takmarkað með raunveruleika hins liðna að gera. Hið liðna verður aldrei endurskapað með sagnfræði, og verður því alltaf í vissum skilningi sú mynd sem hentar þeim samtíma og þeim hagsmunum sem sagnaritunin byggir á.

[vi] Sbr. Goethe: Faust I, 1339-1341

[vii] Hér er trúlega um beina tilvísun að ræða í líkingamál sem merkir „öflugar sjálfsvarnir“.

%d bloggers like this: