Maðurinn án innihalds
SJÖUNDI KAFLI
Getusviptirinn er eins og andlit
La privazione é come un volto
Ef dauði listarinnar felur í sér getuleysi hennar til að höndla hina hlutlægu vídd verksins, þá er kreppa listarinnar á okkar tímum í raun og veru kreppa skáldskaparins, sem á grísku nefnist ποίησις (poiesis). Gríska orðið poiesis eða poesia gerir ekki upp á milli listgreina, heldur er það nafn á virkni mannsins, þeiri framleiðslu hans þar sem hin listræna framleiðsla er ekki annað en sláandi dæmi er virðist á okkar dögum endurspegla hnattrænna vídd valds mannsins til að tileinka sér og virkja iðnaðarframleiðslu sína. Spurningin um örlög listarinnar snertir hér svæði sem tekur yfir öll svið mannlegrar ποίησις (poiesis í merkingunni fram-leiðsla). Öll virkni mannsins til fram-leiðslu er hér til umræðu með nýjum hætti. Þessi virkni mannsins til fram-leiðslu (á sviði vinnunnar) er á okkar dögum ákvarðandi um stöðu mannsins hvarvetna á jörðinni, allt frá þeirri hreinu virkni (praxis) sem beinist að hinni efnislegu fram-leiðslu lífsins.
Ástæða þess að spurningin um örlög listarinnar er orðin aðkallandi á okkar dögum er einmitt sú, að hún er í kjarna sínum sprottin af þeirri gengisfellingu vinnunnar sem fólgin er í uppskiptingu hennar í handverk og hugverk eins og Karl Marx skildi hana sem grundvöll og frumforsendu mannlegra aðstæðna. Hvað merkir þá þetta orð ποίησις (poiesis)? Hvað merkir það að maðurinn byggi jörðina með skáldlegum hætti, það er að segja í hlutverki fram-leiðandans?
Á einum stað í Samdrykkunni skýrir Platon fyrir okkur hvað felist upprunalega í hljóðmynd orðsins ποίησις: „sérhver orsök sem er þess megnug að leiða hlut frá ekki-veru til verunnar er ποίησις (poiesis)“.[i] Alltaf þegar eitthvað er fram-leitt, það er að segja leitt úr myrkvun og ekki-veru í birtingu nærverunnar, þá er um skáldskap að ræða í merkingunni poiesis, fram-leiðsla, poesia.[ii]
Í þessari víðu og upprunalegu merkingu orðsins er sérhver listgrein – ekki bara sú sem varðar list orðsins- skáldskapur (poesia), fram-leiðsla til nærveru, rétt eins og við sjáum ποίησις í starfi handverksmannsins sem fram-leiðir hluti. Með sama hætti sjáum við eðlisþætti poiesis eða fram-leiðslu að verki í náttúrunni (φύσις /fysis) þegar hún birtir okkur hlutina með sálfsprottnum hætti.
Í seinna bindi verks síns um náttúrufræðin (Fysika) gerir Aristóteles hins vegar greinarmun á því sem í náttúrunni (ϕύσει /phúsis, sbr. fysik) búi yfir sínu eigin ἀρχή (=arkhe, sbr ísl. forsetn. erki-), það er að segja sinni upprunalegu lögmálsbundnu forsendu til að verða nærverandi, og hins vegar því sem verður til af öðrum ástæðum[iii] og hefur því ekki sitt innbyggða lögmál, heldur finnur það í virkri fram-leiðni mannsins.[iv]
Grikkir voru vanir að segja að þessi seinni tegund hluta væri, eða öllu heldur birtist í nærveru sinni, á grundvelli tækninnar[v], en tæknin (τέχνη/tekhne) var það hugtak sem náði jafnt til starfsviðs handverksmannsins sem mótar vasa eða verkfæri og listamannsins sem mótar myndastyttu eða skrifar ljóð. Öll form þessara athafnasviða áttu þann frumlæga eðlisþátt sameiginlegan að vera ein tegund af ποίησις (poiesis), það er að segja ein tegund af fram-leiðslu inn í nær-veru. Það var þetta fram-leiðandi (poietíska) einkenni sem gerði hvort tveggja í senn að tengja og greina fram-leiðsluna frá náttúrunni (ϕύσις /physis), sem þannig var skilin sem það er hefði í sér fyrirfram innbyggt lögmál nærverunnar. Aristóteles lagði hins vegar þann skilning í poiesis að í því fælist ávalt innsetning í form[vi], sem felur í sér að ferlið frá ekki-veru til verunnar merki að taka á sig mynd, öðlast form, því það er einmitt á forsendu formsins sem tiltekin afurð eða fram-leiðsla öðlast nærveru.
Ef við hverfum nú frá Grikklandi til okkar tíma, þá áttum við okkur á að þessi sameiginlega forsenda náttúrlegra hluta[vii] og tæknilegra hluta[viii] hefur rofnað.
Allt frá fyrstu iðnbyltingunni á seinni hluta 18. aldar hefur þróun tækninnar leitt af sér stöðugt víðtækari uppskiptingu vinnunnar samfara aukinni framandgervingu hennar. Þannig hefur nærvera þeirra hluta sem maðurinn framleiðir orðið tvenns konar: annars vegar eru hlutir sem birtast í nærveru á forsendum fagurfræðinnar, það er að segja listaverkin, hins vegar þeir hlutir sem verða til á forsendum tækninnar, það er að sega afurðir framleiðslunnar í þrengstu merkingu. Allt frá tilkomu fagurfræðinnar hefur sérstaða listaverksins meðal þeirra hluta sem ekki búa yfir sínu eigin upprunalögmáli (ἀρχή /arkhé) verið skilgreind á forsendu frumleikans (eða upprunavottunarinnar).
Hvað merkir frumleikinn? Þegar sagt er um listaverk að það hafi til að bera frumleika (eða upprunavottun /autenticità) er ekki átt við að það sé í einu og öllu einstakt, það er að segja ólíkt öllu öðru. Frumleiki merkir: nálægð við upprunann. Listaverkið er frumlegt vegna þess að það hefur sérstök tengsl við uppruna sinn, sitt formlega ἀρχή (arkhé), ekki aðeins í þeim skilningi að það sé þaðan komið og sé honum samkvæmt, heldur að það sé í varanlegri og eilífri návist þessa uppruna.
Að því marki sem verkið hefur eiginleika poeisis, þá felst frumleiki þess í að það sé fram-leitt til nær-veru í tilteknu formi og að hin formlega regla verksins varðveiti nærveru sem er þess eðlis að hún útilokar hvers konar endurtekningu eða endurgerð á inngöngu verksins inn í nærveruna. Rétt eins og formið fram-leiddi sjálft sig til nærveru í gegnum fagurfræðilega sköpun sem ekki verður endurtekin.
Þetta nálægðarsamband við εἰδος (eidos /mynd-formið) sem ákvarðar og stýrir inngöngunni í nærveruna er ekki til staðar í birtingu þess sem verður til á forsendum tækninnar. Hið formlega lögmál (εἰδος /eidos) tækninnar er einfaldlega hin ytri forskrift, mótið (τύπος /tupos) sem afurðin þarf að laga sig að til þess að verða til, á meðan hægt er að endurtaka hinn fram-leiðandi verknað í það óendanlega (að minnsta kosti á meðan efnislegar forsendur eru til staðar).
Möguleiki endurgerðarinnar (skilin í þessu samhengi sem forskriftarsamband og ekki-nálægð við upprunann) er því frumforsenda hinnar tæknilegu afurðar rétt eins og frumleikinn (eða upprunavottunin) er frumforsenda listaverksins.
Þegar við hugsum út frá verkaskiptingu vinnunnar verður hið tvöfalda eðli fram-leiðni mannsins skilgreint með eftirfarandi hætti: forréttindastaða listanna á hinu fagurfræðilega sviði er með tilbúnum hætti túlkuð sem framhaldslíf vinnuaðstæðna frá því fyrir tilkomu aðskilnaðarins á milli handverks og hugverks. Þannig viðhaldi framleiðslan ódeilanleika sínum og einstöku eðli sínu. Hin tæknilega framleiðsla, sem byggir á forsendum hinnar ýtrustu uppskiptingar vinnunnar, er hins vegar endurgeranleg í allri virkni sinni.
Okkur er orðið svo tamt að líta á þessar tvöföldu forsendur hins skáldlega/verklega starfsvettvangs mannsins sem fullkomlega eðlilegar, að við gleymum því ósjálfrátt að tilkoma hinnar fagurfræðilegu víddar listaverksins er tiltölulega ungt fyrirbæri, og að tilkoma hennar hafði á sínum tíma í för með sér róttækan holskurð í sálarlífi listamannsins. Í kjölfarið hefur ásýnd hinnar menningarlegu fram-leiðslu mannkynsins tekið efnislegum grundvallarbreytingum. Ein af fyrstu afleiðingum þessarar tvískiptingar varð hin skjóti sólmyrkvi fræðigreina á borð við Mælskulistina (la Retorica) og Forskriftarfræðin (la Precettistica) og samfélagsstofnana eins og lista- og vinnustofuskólanna og þeirra stofnanabundu skóla er kenndu byggingu listaverka sem endurtekningu stílanna, samfellu táknmálsfræðanna og hins lögmálsbundna líkingamáls bókmenntanna, en öll þessi fyrirbæri byggðu einmitt á gefnum grunni hins ódeilanlega á vettvangi mannlegs skáldskapar (ποίησις).
Kennisetningin um frumleikann splundraði í raun og veru bæði lífi og þóðfélagslegri stöðu listamannsins. Allt sem með einum eða öðrum hætti hafði virkað eins og sá sameiginlegi vettvangur er veitti annars ólíkum persónugerðum listamannanna sitt lifandi einingarsamband, og þess vegna sína ótvíræðu félagslegu ásýnd, varð að opinberum vettvangi í versta skilningi þess orðs, óþolandi kraðaki sem sérhver sá listamaður er hafði tileinkað sér gagnrýna nútímahugsun þurfti að frelsa sig frá, eða farast ella.
Í þeirri byltingarsinnuðu hrifningarvímu sem fylgdi í kölfar þessarar þróunar voru fáir sem gerðu sér grein fyrir þeim neikvæðu afleiðingum og þeirri hættu sem af þessari vímu gat stafað fyrir lífskjör listamannanna sjálfra, sem hlutu óhjákvæmilega að glata öllum möguleikum á að öðlast haldfasta þjóðfélagsstöðu.
Skáldið Hölderlin sá fyrir sér þessa hættu í Athugasemdum um Ödipus, þar sem hann sagði listina brátt þurfa að endurheimta það faglega handverk sem hún hefði búið yfir í fornöld. Hann skrifar:
„Það væri til góðs, til þess að tryggja skáldunum, einnig hér og nú, samfélagslega stöðu með tilliti til ólíkra tíma og aðstæðna, að skáldskaparlistin væri hafin til vegs, einnig meðal okkar, á það stig handverks (μηχανή / mechane) sem hún naut í fornöld. Einnig aðrar listgreinar standa á ótryggum grunni í samanburði við Grikkland. Hingað til hafa þessar listgreinar að minnsta kosti verið metnar frekar eftir hughrifunum sem þær valda en samfélagsstöðunni og öðrum aðferðarfræðilegum reglum sem framkalla fegurðina. Sérstaklega á það við um nútíma ljóðlist, að hana vantar skólann og eðli fagsins, það vantar semsagt að framvinda ljóðlistarinnar verði gerð útreiknanleg og að hún verði kennd, og hægt verði að endurtaka hana sífellt og af öryggi í verki .“
Ef við horfum til samtímalistarinnar á okkar tímum, þá verður okkur ljóst að þörfin fyrir sameiginlegar grundvallarreglur innan hennar er orðin svo brýn, að jafnvel í sínum gagnmerkustu myndum virðist hún einmitt byggjast á meðvitaðri óreiðu og fordjörfun þessara tveggja heima poiesis (ποίησις). Þörfin fyrir upprunavottun (autenticità) hinnar tæknilegu framleiðslu og þörfin fyrir möguleikann á endurgerð hinnar listrænu sköpunar hafa getið af sér tvo kynblendinga, svokallað ready-made og Popp-listina, sem báðir afhjúpa þann holskurð sem er að verki í skáldskapariðju mannsins.
Sem kunnugt er valdi Duchamp sér hluti af þeirri gerð sem hver og einn gat orðið sér úti um í hvaða stóru vöruhúsi sem var, en með því að taka hlutinn úr sínu eðlilega umhverfi var honum áreynsluaust, að því er virðist, þvingað inn á yfirráðasvæði listarinnar. Með því að leika þannig á hið tvöfalda regluverk mannlegs sköpunarstarfs flutti Duchamp hlutinn úr stöðu mögulegrar tæknilegrar endurgerðar og notagildis yfir í stöðu upprunaleikavottunar (autencitità) og fagurfræðilegs ódeilanleika.
Popp-listin grundvallast, rétt eins og svokallað ready-made, á útúrsnúningi þessarar tvöföldu stöðu í fram-leiðslu mannsins, en þar birtist fyrirbærið að einhverju leyti með öfugum hætti og líkist frekar því reciprocal ready-made sem Duchamp var að hugsa um, þegar hann stakk upp á því að nota Rembrandt-málverk sem straubretti.
Á meðan hinn tilbúni ready-made hlutur færist úr því að vera tæknileg afurð yfir í að vera listaverk þá færist popp-listin hins vegar frá hinu fagurfræðilega sviði yfir í það að verða iðnaðarafurð.
Á meðan áhorfandinn stóð frammi fyrir hinum tilbúna hlut (ready made) á forsendum tækninnar sem kynnti sig með óskiljanlegum hætti sem mögulegt fagurfræðilega upprunavottað verk, þá finnur áhorfandi popp-verksins sig standa anspænis listaverki sem hefur svipt sjálft sig sínum fagurfræðilega mætti til þess að öðlast með þversagnarfullum hætti stöðu iðnaðarvörunnar.
Í báðum tilfellum gerist það – nema á örstuttu augnabliki framandgervingarinnar – að yfirfærslan frá einu sviði til annars reynist ógerleg. Það sem er endurgeranlegt getur aldrei orðið upprunalegt (frumlegt) og það sem ekki er hægt að endurgera verður aldrei endurtekið. Hluturinn getur aldrei náð til nærverunnar, hann verður ávalt umvafinn skugganum, svífandi í eins konar ógnvekjandi limbói á milli veru og ekki-veru, en það er einmitt þessi ómöguleiki sem færir ready-made verkinu eða popp-listinni sína dularfullu merkingu.
Bæði tilfellin ganga að ystu mörkum holskurðarins, og vísa þannig út fyrir fagurfræðina í átt að sviði (sem enn er umlukið skugga) þar sem fram-leiðandi virkni mannsins kynni að geta náð sáttum við sálfa sig. En það sem ratar í bráða kreppu í báðum tilfellum er þessi sami skáldskaparþátturi í manninum, sem Platon skýrði með orðunum: „sérhver sú ástæða sem er þess megnug að leiða hlut frá ekki-veru til verunnar er ποίησις (poiesis)“.
Í ready-made verkinu og popp-listinni er ekkert leitt til nærverunnar annað en sviptir þeirrar getu sem nær með engu móti að finna eigin veruleika stað. Ready-made og popp-list fela því í sér firrtasta (og þar með hið ítrasta) form poiesis (ποίησις), formið þar sem sjálft getuleysið öðlast nærveru. Það er í rökkurbirtu þessarar nærveru-fjarveru sem spurningin um örlög listarinnar tekur á sig þessa mynd: hvernig er mögulegt að ná með frumlegum hætti tökum á nýrri poiesis (ποίησις)?
Ef við reynum nú að nálgast mekingu þessara ystu marka poiesis, þar sem skáldskaparlistin sýnir mátt sinn einungis sem getuskerðingu (enda þótt þessi getusviptir sé í raun og veru stærsta göf skáldskaparins, sú fullmótaðasta og merkingarfyllsta, því með henni er sálft tómið (il nulla) kallað til návistar) þá þurfum við að leggja spurningu okkar fyrir verkið sálft, því það er í verkinu sem skáldskaparlistin (ποίησις) raungerir mátt sinn. Hver eru þá einkenni þess verks þar sem hin mannlega virkni fram-leiðslunnar hlutgerir sálfa sig?
Forsíðumyndin sýnir „ready-made“ verkið „Fountain“ eftir Marcel Duchamp frá 1917 og popp-listaverkið „Brillobox“ eftir Andy Warhol frá 1963
[i] „Raunar er sköpun ævinlega ástæða þess að eitthvað sem ekki er til umhverfist í veru, svo að framleiðsla allra lista er sköpun og allir höfundar eru skapendur“ Platon, Samdrykkjan, 205 B, í þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar, HÍB 1999.
[ii] Héðan í frá skrifum við fram-leiðsla (bæði sem virkni og sem afurð hennar) til þess að legga áherslu á grundvallarmerkingu orðsins ποίησις (poiesis), þ.e.a.s. fram-leiðsla úr ekki-veru til nær-veru. Framleiðsla í merkingu hinnar tæknilegu virkni og afurða hennar er hins vegar skrifuð án bandstriks (-).
[iii] (δἰἄλλας αἰτίας /diallas aitias),
[iv] Aristoteles, Fisica, 192 b. Upplýsandi túlkun á þessu seinna bindi Eðlisfræðinnar eftir Aristóteles er að finna í ritgerð Martins Heideggers: Vom Wesen und Begriff des φύσις. Aristotele‘s Physik, nú birt í Wegmarken (1967) bls. 309-71)
[v] (ἀπὸ τέχνης)
[vi] (μορϕὴ καὶ εἰδος /morphé kai eidos)
[vii] (μὴ ϕύσει ὄντα)
[viii] (τέχνη)