Ferðalagið til Landsins helga
Ferðasaga í fjórum þáttum frá flóttamannabúðum Palestínumanna í Jórdaníu, um Vesturbakkann, Jerúsalem og Gaza-svæðið í júní 1988
Þessi ferðasaga birtist í fjórum hlutum í Þjóðviljanum í júlí 1988. Hún var uppskera erfiðustu ferðar lífs míns, sem ég tókst á hendur á eigin kostnað í júnímánuði 1988 frá Rómaborg til Amman í Jórdaníu, og þaðan áfram til Jerúsalem og um Vesturbakkann og Gaza-svæðið og aftur til baka. Ég hafði starfað við erlend fréttaskrif á Þjóðviljanum um árabil, og ritað margar greinar um Palestínuvandann. Á þessum tíma var ekkert internet og eina beina samband fréttamanns við umheiminn var símriti Reuters-fréttastofunnar. Ég var alltaf vantrúaður á þessa upplýsingaeinokun og stóðst því ekki tækifærið að fljúga beint frá Róm, þar sem ég var staddur, til Amman. Í þessari ferð upplifði ég veruleika sem var í engu líkur heimsmynd Reuters-fréttastofunnar, og ferðin breytti heimsmynd minni fyrir lífstíð. Greinarnar eru nú endurbirtar hér á hugrunir.com í tilefni atburða undanfarinna vikna á Gaza-svæðinu. Ferðasagan hefur að mínu mati enn sitt gildi til aukins skilnings á því sem nú er að gerast í Palestínu. Ferðasagan er með ljósmyndum sem ég tók sjálfur. Endurvinnsla greinanna úr Þjóðviljanum hefur vakið til nýs lífs endurminningar sem héldu mér andvaka vikum saman eftir að ég kom heim.
Intifadan, uppreisnin á hinum herteknu svæðum Ísraelsríkis á Vesturbakka Jórdanár og Gaza-svæðinu hafði staðið í hálft ár þegar ég lenti á flugvellinum í Amman í Jórdaníu. Erindið var að sjá með eigin augum þann veruleika sem sjónvarpið og aðrir fjölmiðlar hafa leitast við að miðla til okkar þessa mánuði með þeim árangri að flestir eru nú hættir að taka eftir því þótt barn sé limlest eða skotið til bana, heimili lögð undir jarðýtur eða hermenn grýttir af börnum. Í flugvélinni á leiðinni las ég í erlendum blöðum að uppreisnin væri að fjara út, að allt væri nú að færast í eðlilegt horf og skólarnir væru nú loksins opnaðir aftur eftir hálfs árs lokun.
Tíu dagar í Palestínu
Ég dvaldi 10 daga í Palestínu, þar af 5 daga á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu, og 5 daga í Jórdaníu. Þar skoðaði ég meðal annars stærstu flóttamannabúðir Palestínumanna í Miðaustur löndum, þar sem búa nærri 100.000 flóttamenn. Á herteknu svæðunum skoðaði ég flóttamannabúðir, heimsótti sjúkrahús, skóla og aðila sem láta sig mannréttindi varða, og ég hitti fólk, sem hvarvetna tók mér af stakri gestrisni og reyndist óðfúst að veita mér upplýsingar og leiðsögn, jafnvel þótt það tæki þar með mikla áhættu.
Ég sá börn og unglinga hlaða vegatálma og kasta grjóti að hernámsliðinu. Ég hitti limlest börn, ekkjur og sveltandi flóttamenn. Ég sá hermenn beita skotvopnum gegn börnum og unglingum og ég sá táragasskýin leggjast yfir flóttamannabúðirnar og göturnar í Gaza. Ég upplifði mannlausa bæi og þögn sem var hlaðin ofbeldi og spennu, sem er ekki rofin af öðru en vélarhljóði herjeppanna sem hringsóluðu um mannlausar göturnar undir brennheitri hádegissólinni meðan á allsherjarverkfallinu á herteknu svæðunum stóð. Ég sá heimili sem höfðu verið lögð undir jarðýtur, ég hitti menn sem höfðu sætt misþyrmingum í fangabúðum herstjórnarinnar og ég heyrði óteljandi sögur af óhæfuverkum ísraelska hersins. Ég talaði við kristna araba og múslima, óbreytt alþýðufólk og menntamenn, lækna, lögfræðing og prest. Ég kynntist palestínsku konunum sem hafa yfir sér sérstakan þokka og reisn, þar sem þær ganga teinréttar í sínum síðu kuflum með nauðþurftir heimilisins á höfðinu. Ég naut ótrúlegrar gestrisni þessa fólks og var boðinn besti viðgjörningur hvar sem ég kom. Ég sá dýpri niðurlægingu og örbirgð en ég gat ímyndað mér, örvæntingu, ótta og vonleysi, og ég upplifði einnig óbilandi kjark og baráttuvilja fólks sem virtist ekkert óttast og storkaði hernámsliðinu af fullkomnu æðruleysi. En fyrst og síðast sá ég börnin sem þekkja ekki annan veruleika en þennan: berfættu börnin sem léku sér í kringum opin skolpræsin í moldargötum flóttamannabúðanna eða æfðu sig í að hlaða vegatálma úr smásteinum, börnin sem sýndu mér stolt teygjubyssurnar og slöngurnar sem þau beita gegn ísraelska hernámsliðinu, börnin sem voru óðamála að tjá sig um það sem þau höfðu upplifað og börnin sem stóðu á verði til þess að vara mig við hermannajeppunum sem hringsóluðu um flóttamannabúðirnar. Börn sem höfðu misst föður sinn, börn með skotsár, limlest börn, skítug börn með glampa í augum sem gaf til kynna undarlegt sambland af heift og sakleysi. Börn sem eru öðruvísi en öll önnur börn sem ég hef áður séð, því þau hafa andlit sem eru rúnum rist af ábyrgð og reynslu af daglegu ofbeldi, en í gegnum þessa g reynslunnar glittir engu að síður í hyldýpissakleysi barnssálarinnar sem getur illa greint á milli leiks og alvöru.
Palestínskir drengir í afslöppun á Vesturbakkanum. Ljósm. olg.
Reynsla mín þessa daga á herteknu svæðunum var bæði erfið og yfirþyrmandi, en hún sann færði mig um tvennt:
Uppreisnin, eða intifadan eins og Palestínuarabarnir kalla hana, var ekki að fjara út. Hún hefur trúlega þvert á móti aldrei verið víðtækari en nú. En hún mun sennilega breyta um farveg.
Samstaðan um friðsamlega andspyrnu gegn yfirvöldum á hernámssvæðunum er víðtækari en áður, en jafnframt eru einnig teikn á lofti um stigmögnun ofbeldis. „Þegar barn á fjórða ári er farið að spyrja hina fullorðnu að því hvernig eigi að búa til mólótofkokteila, þá getum við reiknað með að það muni grípa til sinna ráða fyrr en varir að óbreyttum aðstæðum,“ sagði læknir á Vesturbakkanum við mig, og bætti því við að foreldrar hefðu ekki lengur neina stjórn á börnum sínum.
Sú mynd sem við höfum fengið í gegnum fjölmiðla af á standinu á herteknu svæðunum í Palestínu er blekkjandi. Fjölmiðlarnir ná einfaldlega ekki að bregða upp mynd af því viðvarandi ógnarástandi sem þarna ríkir, heldur færa þeir okkur veruleikann í brotakenndu formi sem bundið er við einstakar myndir eða atburði. Ástandið á herteknu svæðunum og í flóttamannabúðum Palestínumanna þar er ein faldlega mun alvarlegra en okkur hefur verið sagt. Ég hef fylgst með þessu máli í gegnum fjölmiðla um árabil og skrifað um það fjölmarga fréttapistla og greinar hér í blaðið okkar í gegnum árin. Veruleikinn kom hins vegar yfir mig eins og köld vatnsgusa: hvernig var þetta mögulegt?
Hér á eftir og í næstu blöðum munu birtast frásagnir af því sem ég reyndi og sá í Palestínu þessa 10 daga. Frásögnin verður í fjórum hlutum. í fyrsta hlutanum er sagt frá heimsókn í Baqaá-flótta mannabúðirnar skammt fyrir utan Amman í Jórdaníu. í næsta hluta verður sagt frá ferð minni yfir á Vesturbakkann, til Jerúsalem, Ramallah og fleiri bæja og þorpa. Þriðja frásögnin verður af ferð minni á Gazasvæðið og fjórði og síðasti þátturinn verður að mestu viðtal við kaþólskan prest frá kristna bænum Efraím á Vesturbakkanum.
Kyrr kjör í Baqaà
Þegar komið er að Baqaá-flóttamannabúðunum fyrir utan Amman í Jórdaníu líta þær fljótt á litið út eins og fátæklegur bær úr þriðja heiminum. Húsin með fram þjóðveginum eru lágreist og hrörleg, en sum þeirra hafa verið máluð og þarna má sjá hvers kyns starfsemi í gangi, bílaverkstæði og aðra þjónustu við vegfarendur, handverksmenn að störfum o.s.frv.
Þegar inn í búðirnar er komið eru húsin hrörlegri, göturnar þrengri og þrengslin augljósari. Fólkið býr í kofum sem eru flestir hlaðnir úr múrsteini. Bárujárnið á þakinu er fergt niður með grjóti, og sumir kofarnir eru ein faldlega gerðir úr blikki. Víðast eru moldargötur, en sum staðar eru göturnar steyptar eða malbikaðar með opinni skólprennu eftir miðri götunni.
Börnin í flóttamannabúðunum í Baqaà í Jórdaníu, þar sem búa um 100 þúsund flóttamenn. Gatan er steypt, en opið skolpræsi eftir miðri götunni. Húskofarnir hlaðnir úr steini með blikkþaki. Ljósm. olg.
Í Jórdaníu rignir ekki 6 mánuði ársins, en á regntímanum sem varir frá nóvember fram í apríl verða moldargöturnar í flóttamannabúðunum að forarvilpu sem nær að minnsta kosti í ökla. Markaður var í gangi þegar ég kom inn í búðirnar, og þar var fjölbreytt úrval varnings og mannlíf allt hið framandlegasta í norrænum augum. Mannmergðin var mikil og þarna mátti auk hvers konar lífsnauðsynja fá ýmiskonar þjónustu, svo sem eins og rakstur og klippingu og veitingar voru seldar á götum úti, einkum djúpsteikt brauð og mjölbollur. Þarna mátti einnig sjá flestan þann varning, sem finna má á venjulegum arabískum markaði, fatnað, skó, búsáhöld, fiðurfé á fæti, egg, ávexti, grænmeti, baunir og mjöl, en kjöt er af skornum skammti, enda munaðarvara fyrir alþýðu manna í Jórdaníu. Gjafafatnaður frá Evrópu var þarna á boðstólnum í stórum stíl gegn vægu verði, og er hann seldur til ágóða fyrir flóttamannahjálpina. Þá kom á óvart að sjá þarna verslað með gull og skartgripi, en gullið gegnir mikilvægu hlutverki í hefðbundnum samskiptum fólks í arabaheiminum. Einnig kom á óvart að sjá þarna starfræktan banka, en allt þetta fjölbreytilega líf og þjónusta jók á þá tilfinningu að hér væri mannlíf með tiltölulega eðli legum hætti miðað við það sem gerist í fátækrahverfum Amman og annarra borga í Jórdaníu.
Palestínskar konur á útimarkaðnum í Baqaà flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Ljósm. olg.
Seinna átti ég eftir að kynnast því að aðstæðurnar þarna voru hátíð miðað við það sem finna má á Vesturbakkanum, og síðan er farið er úr öskunni í eldinn þegar komið er á Gaza-svæðið, sem liggur á mörkum Ísraels og Egyptalands, en þar ríkir nú styrjaldarástand.
Lykt af mannlífi
Gönguferð í gegnum markað inn í Baqaá er ekki síður upplifun fyrir lyktarskynið en sjónina. Þarna blandast saman ilmur af kryddjurtum eins og basil og myntu, fnykur af fiðurfé og óþefur úr opnum skólpræsum, kaffi- ilmur og kardimommu, þefur af rotnandi grænmeti og úrgangi, stækja af olíusteikarpottum sem eru úti á götunum, ilmur af smyrslum og steinkvötnum kvennanna og sæt lykt af appelsínum, fíkjum og öðrum ávöxtum, sem fylla hlaðna bekki og borð og blandast einnig góðum ilminum frá ofni bakarans.
Eftir tilvísun lá leið mín í gegn um endilangan markaðinn um hálftíma hægan gang að miðsvæði flóttamannabúðanna þar sem var að finna miðstöð UNWRA, (United Nations Relief and Works Agency), en það er sérstök flótta mannahjálp Sameinuðu þjóð anna fyrir Palestínuaraba, sem starfað hefur frá 1949 í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi, á Vesturbakkanum og á Gaza-svæðinu. Hjá UNWRA fengum við flestar þær upplýsingar, sem hér koma fram, og var mér meðal annars sýnt sjúkraskýli og skóli sem stofnunin rekur auk þess sem mér var boðið að skoða venjulegt heimili í búðunum. Eldhús fjölskyldunnar var í sérstöku afdrepi inni á lóðinni. Þar er bæði ísskápur og gaseldavél.
25 sent á dag
Baqaá-búðirnar eru fjölmennustu flóttamannabúðir Palestínuaraba í Miðausturlöndum. Skráðir flóttamenn þar eru tæp 70.000, en mér var tjáð að raun verulegur fjöldi í búðunum nálgaðist 100.000. Af þessum fjölda eru tæplega 60.000 skráðir flótta menn frá 1948, þegar Ísraelsríki var stofnað, hinir komu eftir 6 daga stríðið 1967. Skráðir kofar í búðunum eru 7650, sem þýðir að í hverjum kofa búa að meðaltali yfir 10 manns. Palestínskir flóttamenn í Jórdaníu búa að því leyti við aðrar aðstæður en á herteknu svæðunum að þeir hafa allir rétt á fullgildu jórdönsku vegabréfi og þeir hafa fullan aðgang að jórdönskum vinnumarkaði. Alls eru tæplega 850.000 palestínskir flóttamenn skráðir í Jórdaníu, þar af voru um 210.000 skráðir búsettir í flóttamannabúðum fyrir ári. Jórdanía er jafnframt það land sem hýsir flesta palestínska flóttamenn, eða 38% allra skráðra flóttamanna sem eru taldir vera meira en 2,2 miljónir. Til aðstoðar þessu fólki hefur UNWRA haft um 200 miljónir dollara á ári, eða rúmlega 25 cent á mann á degi hverjum. Ef tekið er tillit til þessa þrönga fjárhags verður skiljanlegra hvað hjálpin virðist í mörgum tilfellum fátækleg og ófullnægjandi. Auk þess sem ytri aðstæður gera aðstoð oft á tíðum illframkvæmanlega, bæði á herteknu svæðunum og í Líbanon. Alls eru 10 palestínskar flóttamannabúðir í Jórdaníu. Fjórar þeirra hafa verið starfræktar frá 1948, hinar voru settar upp eftir 6 daga stríðið 1967.
Þéttbýli hættulegt heilsunni
Ég skoðaði heilsugæslustöð UNWRA í Baqaá undir leiðsögn forstöðumanns hennar. Þar eru starfandi 7 læknar, þar af einn tannlæknir. Hjúkrunarkonur og -menn eru 19 og ljósmæður eru 6. Þetta starfslið þjónar mannfjölda sem er álíka mikill og íbúar Reykjavíkur. Vinnuálagið á læknana er gífurlegt, eða 100 – 160 sjúklingar á dag, og sögðust þeir sinna að minnsta kosti fjórum sinnum fleiri sjúklingum á dag en læknar utan búðanna. Húsakynnin eru frumstæð skýli, byggð fyrir gjafafé frá ríkisstjórn Kanada, og voru skýli þessi tekin í notkun fyrir tæpu ári. Sérstakt sjúkraskýli fyrir börn er frá sama tíma, reist fyrir norskt gjafafé. Mér var tjáð að heilbrigðisvandamál þau sem við væri að etja væru mörg af félagslegum rótum og stöfuðu af of miklu þéttbýli, þekkingarskorti, óhollri fæðu og ófullnægjandi barnaumhirðu. Algengustu sjúkdómarnir eru öndunarfærasjúkdómar, meltingartruflanir svo sem niðurgangur, háls-, nef- og eyrnasjúkdómar, sníklafaraldrar, húðsjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar og sykursýki. Mér var tjáð að bólusetningarherferð hefði skilað góðum árangri og að faraldssjúkdómum eins og malaríu, berklum og lömunarveiki hefði verið útrýmt. Barnadauði í búðunum er 47 börn af hverjum 1000, sem er lægri tala en fyrir Jórdaníu í heild. Helsta hættan fyrir börnin stafar af þrengslum (sem auka á smithættu), opnum skolpræsum (neðanjarðarræsi voru sögð í smíðum), og ófullnægjandi umhirðu vegna barnmergðar. Meðalfjölskyldustærðin er 7,2 börn, og í búðunum fæðast að meðaltali 2200 börn á ári eða 6 börn á dag.
Börn í ómegð
Í barnasjúkraskýlinu var okkur tjáð að komið væri með nýfædd börn í ungbarnaeftirlit einu sinni í mánuði á fyrsta aldursári. Haldin er sjúkraskrá yfir öll nýfædd börn, og ef það sýnir sig að þau þroskast ekki eðlilega, þá eru þau tekin í daglega meðhöndlun og sett á sérstakt fæði, auk þess sem foreldrum er kennd barnaumhirða. Áhersla er lögð á nýtingu móðurmjólkur, þar sem vatnsblandað mjólkurduft eykur mjög á smithættu. Barnalæknirinn tjáði okkur að vanhirða á börnum stafaði ekki bara af vankunnáttu, heldur líka af því að fjölskyldur væru svo stórar að foreldrar önnuðu ekki að sinna öllum börnum sínum nægilega vel. Okkur var tjáð að enginn liði fæðuskort í búðunum, en um 1700 manns þiggja daglegar matargjafir. Þetta þýðir að fólkið í búðunum er að stórum hluta efnahagslega sjálfbjarga og karlmenn sækja mikið vinnu utan búðanna. Það vakti furðu mína að sykursýki skyldi vera meðal algengari sjúkdóma, þar sem hún er yfirleitt rakin til ofneyslu. Sérfræðingurinn í meðhöndlun þessa sjúkdóms tjáði mér að í búðunum væru skráð 500 tilfelli, og væri orsökin annars vegar rakin til rangrar fæðusamsetningar (of mikil kolvetni), hins vegar til innbyrðis skyldleika íbúanna og til áhrifa af þeirri streitu sem þéttbýlið og aðrar aðstæður í búðunum hafa í för með sér. Aðspurðir um það hvernig læknarnir meðhöndluðu niðurgang, sem er einn skæðasti barnasjúkdómurinn í mörgum fátækum löndum, sögðu læknarnir að við honum væri gefin saltupplausn í því skyni að koma í veg fyrir vatnstap sem væri hættulegasta afleiðing niðurgangs. Auk þess að tala við lækna sjúkraskýlisins kom ég einnig á rannsóknastofuna, þar sem unnið var að greiningu sýna. Það er óhætt að segja að aðstaða þar hafi verið engin. Ein lítil smásjá og kannski eitt eða tvö lítil tæki í viðbót, og mér var tjáð að allar mikilvægari greiningar væru sendar á sjúkrahús í Amman.
Fimmtíu nemendur í skólabekk
Eftir heimsóknina á sjúkraskýlið kom ég í stúlknaskóla þar sem prófum var að Ijúka og síðustu nemendurnir rétt að fara heim. Skólastýran sagði mér að þarna væru um 1500 nemendur á gagnfræðaskólastigi. Stórt port myndaði skólalóðina og voru byggingar skólans allt í kringum portið. Þetta eru bárujárnsskúrar með kennslustofum þar sem ekkert er innandyra nema bekkir og svört tafla á vegg. Nemendur eru 50 í hverjum bekk og svo þétt setinn bekkurinn að ekki komast fleiri í hverja „stofu“. Skrifstofa skólastýrunnar var líka í bárujárnskofa, og þótt þar væri snyrtilegt innan dyra var engin kennslugögn eða bækur þar að sjá, eða afdrep fyrir kennara. Veggir er sneru inn að skólalóðinni voru skreyttir myndum eftir nemendur sem sýndu palestínskar konur að störfum innan sem utan heimilis.
Kennslukonan í skólastofu 50 nemenda í flóttamannabúðunum í Baqaà. Ljósm. olg.
Átta í flatsæng á 9 ferm.
Að Iokum var mér boðið að sjá dæmigert heimili í þessum flóttamannabúðum. Þetta var heimili 9 manna fjölskyldu, sem bjó í tveim kofum og hafði litla lóð innan veggja að auki. Þarna sem annars staðar þar sem ég kom inn á heimili palestínskra flóttamanna var gætt fyllsta þrifnaðar. Gólfin voru steypt og hvítskúruð. Fjölskyldan var ættuð frá Hebron, og varð landflótta þegar Ísraelsher lagði undir sig Vesturbakkann árið 1967. Eftir 21 ár í útlegð var ættmóðirin orðin ekkja, og naut hún þeirra forréttinda að búa ein í öðrum kofan um, sem var gerður úr ómáluðum blikkplötum negldum á grind. Þetta var öldruð kona, og kofinn hennar var kannski 3×3 m. að flatarmáli.
Ættmóðir níu manna fjölskyldu í kofa sínum í Baqaà. Ljósm. olg
Húsmóðirin var kornung að sjá, en átti þó 6 börn, og sváfu þau með foreldrum sínum í flatsæng á gólfinu í hinum kofanum. Var vandséð hvernig átta manns gátu komist þar fyrir. Eldhús var í sérstöku afdrepi, þar sem var bæði gashella og vaskur með rennandi vatni. Garðurinn á milli kofanna var kannski 3x4m, og þar voru snúrur fyrir þvotta. Húsgögn voru þarna nær engin, eða þægindi, að frátöldum dýnunum, og engar voru hirslurnar til að varðveita jarðneskar eigur þessara öreiga. Þegar ég ljósmyndaði móðurina með nokkrum barna sinna inni í svefnskála hennar mátti sjá að henni var brugðið og tár komu fram í óttaslegnu andliti hennar.
Sex barna móðir í flóttamannabúðum í Baqaà ásamt tveim sonum sínum. Svefndýnur fjölskyldunnar eru í stafla undir laki í baksýn. Ljósm. olg
Það var eins og hún væri að spyrja sjálfa sig og umheiminn þeirrar áleitnu spurningar, hver yrði framtíð þeirra barna, sem hún hefði alið í þennan heim. Daginn eftir hélt ég yfir á Vesturbakkann og þar uppgötvaði ég nýja veröld, og um leið að flóttamannabúðirnar í Jórdaníu voru konunglegar miðað við ástandið sem þar ríkti. En meira um það í blaðinu næsta föstudag. -ólg