INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – IV.

Heimsókn til Taybeh, sem áður hét Efraim

 

Bærinn Taybeh, sem í Biblíunni heitir Efraim, er skammt frá Jerúsalem. Hann var einn síðasti áfangastaður Krists á leið hans til Jerúsalem og Golata. Bærinn hefur verið kristinn allt frá þeim tíma og sumir segja að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði íbúana. Eftir að Kristur hafði vakið Lasarus frá dauðum staðnæmdist hann í Efraim með lærisveinum sínum (Jóh. 11.54). Leiðsögumaður minn um Palestínu var Kólumbíumaður, en átti ættir að rekja til bæjarins. Við vorum í sömu erindagjörðum og nutum gistivináttu frændfólks hans í þessum kristna bæ.Í þessum pistli segir frá löngu samtali sem ég átti við kaþólska sóknarprestinn í bænum, föður Johnny Sansoor, áður en ég kvaddi Palestínu og hélt aftur til Amman í Jórdaníu.

„Eitt máttu vita: þegar þú kemur heim þá verður þú spurð um ástandið hérna. í þeim efnum get ég aðeins ráðlagt þér eitt: forðastu allar umræður um slíkt. Þær verða engum til gagns. Hefur þú annars orðið vör við nokkuð alvarlegt?“

„Nei.“

„Ekki ég heldur.“ „Ég get bara talað um hvað Ísrael sé yndislega fallegt land, hvað loftslagið sé gott og hvað mannlífið sé fagurt…“

„Já, einmitt…“

Þetta er brot úr samtali sem ég varð vitni að eitt kvöldið í Jerúsalem. Ég hafði verið í Ramallah um daginn og horft á hermennina skjóta á börnin. Ég varkominn til Jerúsalem eftir erfiðan dag, og hafði sest niður við útiveitingahús handan Zíon-hliðsins í hinum hebreska hluta borgarinnar. Því engar veitingar er að fá í hinum arabíska hluta hennar vegna verkfalla. Við næsta borð sátu maður og kona. Konan var breskur gyðingur í pílagrímsferð, maðurinn trúlega búsettur í Jerúsalem. Ég hafði heyrt með öðru eyranu að þau voru að ræða trúarleg málefni gyðingdómsins. Vandamál dagsins í dag afgreiddu þau með ofangreindum setningum.

Þótt ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að ferðast mikið um Ísrael á þessu ferðalagi mínu, eða  kynna mér afstöðu gyðinga þar til þeirra gífurlegu vandamála sem ég varð vitni að á herteknu svæðunum, þá ímynda ég mér að afstaða margra íbúa Ísraels mótist á þessa leið: Vandamálinu er markvisst og kerfisbundið skotið undan, eins og það sé ekki til. Þessi afstaða kemur einnig fram í ísraelskum fjölmiðlum. Þannig sagði dagblaðið Jerúsalem Post nýverið frá því að stjórnvöld hefðu tekið upp þá „mannúðlegu“ stefnu gagnvart íbúum Gaza-svæðisins að nú yrði á ný opnað fyrir þann möguleika að íbúar þess gætu sótt vinnu í Ísrael. Þess var hins vegar að engu getið að fiskimennirnir í Gaza liðu hungur af því að stjórnvöld höfðu bannað þeim að sækja sjóinn. Að jafnvel hungrið var liðtækt meðal fyrir stjórnvöld til  að kúga þetta fólk til hlýðni og undirgefni. Og að með því að kippa grundvellinum undan sjálfstæðum efnahag arabanna mátti ná sér í ódýrt vinnuafl.

Hjá kaþólskum presti í Taybeh

„Hingað til mín hefur komið fjöldi fólks, bæði kristnir menn, gyðingar og múslimar, til þess að ræða ástandið á herteknu svæðunum. Ég hef alltaf byrjað á því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafi komið til Gaza. Hafi þeir ekki komið þangað, þá byrja ég á því að fara með fólkið þangað. Palestínuvandinn verður ekki skilinn nema menn komi þangað, og séu menn ánægðir með það sem þar fer fram, þá er kominn grundvöllur til að ræða málin. Ég frétti að þú hafir þegar verið í Gaza, og þess vegna var ég fús að ræða við þig.“

Faðir John Sansoor, sóknarprestur í Taybeh. Hann var enginn venjulegur prestur, heldur starfaði sem raunverulegur "hirðir" safnaðarins og stóð fyrir skólastarfi, sálgæslu, félagsmálum, heilugæslu og virtist með hugann við allt er varðaði bæjarfélagið. Hámenntaður maður í fornmálum, grísku, hebresku og latínu auk þess sem hann talaði bæði ensku og frönsku reiprennandi. Hann var svo bráðlifandi og fordómalaus að hann hefði kannski verið greindur með ADH-ofvirkni ef ef ekki hefðu verið tilvistarlegar aðstæður sem knúðu hann áfram. Ógleymanlegur maður. Því miður eyðilagðist myndin sem ég tók af honum, en þessa fann ég á vef kaþólsku kirkjunnar í Landinu helga.

Þetta sagði faðir John J. Sansoor, sóknarprestur í bænum Taybeh, sem hét áður Efraím, en ég átti langt samtal við hann í safnaðarheimili bæjarins kvöldið áður en ég hélt til baka frá Vesturbakkanum yfir til Amman í Jórdaníu. Bærinn Taybeh / Efraím er kristinn bær, eini hreinkristni bærinn á Vesturbakkanum að sögn, og hefur trúlega verið það allt frá dögum Krists. Bæjarbúar segja jafnvel að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði Efraím, en frá því er sagt í Jóhannesarguðspjalli (11,54) að Kristur hafi dvalið ásamt lærisveinum sínum í Efraím nokkrum dögum fyrir krossfestinguna. Í bænum eru rústir frá þessum tíma. Bærinn er um 20 km austan Jerúsalem, en þar fyrir austan tekur við eyðimörkin, Jórdandalur og norðurendi Dauðahafsins. Í bænum búa nú um 1200 kristnir arabar og um 100 múslimar. Fyrir 6 daga stríðið voru íbúarnir 3000, yfir helmingur þeirra hefur flúið vegna hernámsins.

Mikilvægi upplýsinganna

„Við höfum mikla trú á blaðamönnum. Þeir eru eins konar trúboðar okkar tíma. Þeir eiga að geta hjálpað heiminum að finna lausn á vanda okkar. Blaðamenn eiga ekki að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum, heldur eiga þeir að hjálpa báðum aðilum til að finna lausn vandans. Og þeir eiga að hjálpa til með að leiðrétta þá brengluðu mynd, sem heimurinn hefur fengið af vandamálum okkar,“ segir faðir Sansoor.

– Að hvaða leyti hefur heimurinn fengið brenglaða mynd?

„Jú, allir halda að arabar vilji reka alla gyðinga burt úr Palestínu. En það er ekki rétt. Palestínumenn eru gestrisin þjóð. Þeir buðu gyðinga velkomna á sínum tíma, og frá upphafi lifðu gyðingar og arabar í sátt og samlyndi. Það voru zíonistar sem notfærðu sér gestrisni Palestínumanna og ráku þá úr landi sínu. Í öðru lagi þá hafa þeir sem leita lausnar á Palestínuvandanum alltaf rætt við þá Palestínumenn sem aldrei misstu neitt. En það dugar ekki til. Gyðingarnir verða að byrja á því að ræða við flóttamennina. Þá sem búa í flóttamannabúðunum. Því það er á þeim sem vandinn brennur heitast. Eins og þú veist, þá er það slík reynsla að koma til Gaza, að maður fyrirverður sig. Mér líður jafnan illa í marga daga eftir að hafa farið þangað. Palestínumennirnir í flóttamannabúðunum þar hafa verið sviptir allri sjálfsvirðingu, öllum eignum sínum, öllu. Heimurinn þarf að færa þeim sjálfsvirðingu sína aftur“.

Uppreisn barnanna

Götumynd úr flóttamannabúðum á Vesturbakkanum. Ljósm. olg

– Hvaða þýðingu hefur Intifadan, – uppreisnin -, í þessu samhengi? Markar hún ekki leið þessa fólks til endurheimtrar sjálfsvirðingar?

„Það er athyglisvert með þessa uppreisn, að allir reyna að eigna sér hana eftir á. En þetta er sjálfsprottin uppreisn, sjálfsprottin uppreisn barnanna. Börnin hafa í 20 ár horft á foreldra sína niðurlægða. Ég hef spurt börnin hér hvers vegna þau kasti grjóti. Svörin sem ég hef fengið hafa verið á sömu lund. Börnin eru í fyrsta lagi að segja gyðingunum að þeim falli ekki við þá, að þau vilji ekki þola návist þeirra.

Í öðru lagi markar grjótkastið andstöðu barnanna við foreldra sína. Foreldrana sem hafa í 20 ár lifað í hræðslu við gyðinga. Þau eru að segja við foreldra sína að þeir séu huglausir og fullir af uppgjöf, þau eru að segja þeim að það sé betra að deyja en að lifa undir hernámi.

í þriðja lagi þá er grjótkastinu beint til útlendinganna. Við þá vilja börnin nú segja: Þið hjálpuðuð gyðingum til þess að verða hamingjusamir í okkar landi- og gerðuð okkur þar með að óhamingjusamri þjóð. Nú ætlum við að leggja þetta land í rúst til þess að allir megi vera óhamingjusamir.“

Börnin stjórna okkur

-Átt þú við að foreldrarnir standi ekki að baki þessari uppreisn með sama hætti og börnin?

„Nei, foreldrarnir eru ekki á sama máli og börnin. En við höfum ekki lengur neina stjórn á börnunum. Það eru þau sem stjórna okkur – og það er hættulegt. Börn eru alltaf börn og hafa ekki þroska hinna fullorðnu. Við sjáum að þau grípa til heimskulegra örþrifaráða. Við sjáum þau brenna akra og plantekrur fyrir gyðingum. Slík örþrifaráð eru í augum barnanna eðlileg, því þau eru í samræmi við þá ætlun þeirra að leggja landið í rúst. Gyðingar, sem dags daglega eru viti bornir menn, hafa hagað sér eins og fávitar frammi fyrir þessum vanda. Hugsaðu þér bara: ef barn grýtir fullorðinn mann, þá er eðlilegt að hinn fullorðni brosi og reyni að skilja, hvers vegna barnið framdi þennan verknað. Hann drepur ekki barnið eða limlestir. Slík viðbrögð eru bæði fávísleg og koma heldur ekki að haldi. Ég get sagt þér að ég rek skóla hér í sókninni, og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarna mánuði að börnin hafa grýtt skólahúsið og brotið rúður. Ég hef þá reynt að komast að því hvaða börn hafa verið að verki, og ég hef spurt þau, hvers vegna þau hafa gert þetta. Svörin eru jafnan á þá lund að þau hafi verið beitt einhverju misrétti í skólanum eða ekki fengið réttláta einkunn eða umsögn. Ég hef ekki refsað þessum börnum, heldur rætt við þau og reynt að skilja þau, og ég get sagt þér að í 70% tilfella hafa þau síðan komið sjálfviljug og bætt skaðann sem þau hafa valdið.

Það hjálpar hins vegar ekki að loka skólanum, berja börnin eða brenna. Það mun ekki stoppa þau af. Börnin eru viss í sínum rétti, og þau munu halda áfram á sinni braut þar til hinir fullorðnu viðurkenna rétt þeirra. Ég get sagt þér að börn hafa ekki hatur í hjarta sínu. Ég þekki börn sem kasta grjóti í hermenn á morgnana en selja þeim síðan kökur um eftirmiðdaginn. En nú, þegar stjórnvöld í Ísrael eru farin að berja börnin, limlesta og fangelsa, þá eru þau að sá hatri í hjarta þeirra. Og það gerir ástandið þúsund sinnum hættulegra en það hefur verið.“

Persónubundið hatur

– Átt þú við að uppreisnin sé ekki knúin fram af hatri?

„Sjáðu til, fram að þessu hefur hatrið verið óhlutbundið og ópersónulegt hatur á milli þjóða. Eins og á milli þjóða sem eiga í stríði. Hættan er sú að hatrið verði persónubundið. Ég get nefnt þér dæmi: Í síðustu viku umkringdu ísraelskir hermenn hús einnar fjölskyldu í sókn minni. Þeir fóru inn í húsið og tóku yngri soninn. Áður höfðu þeir tekið eldri soninn úr fjölskyldunni með sama hætti, og þá hafði móðir hans misst fóstur af geðshræringu og hræðslu. Þegar hermennirnir komu í annað sinn sagði faðirinn við forsvarsmann þeirra:

„Ef kona mín missir fóstur í annað sinn mun ég drepa þig…“

Í stríði þekkja menn ekki andstæðing sinn, hann er óhlutbundinn, ef svo mætti segja. En hér er þetta að þróast yfir á annað og hættulegra stig. Og þið blaðamenn verðið að koma gyðingum í skilning um að ekki megi breyta þessari deilu á milli þjóða yfir í persónubundið hatur.“

Tvískinnungur arabaríkjanna

– En standa ekki aðrar arabaþjóðir að baki uppreisninni?

„Arabaheimurinn er nú stöðugt að biðja Palestínumenn um að halda uppreisninni áfram, en þeir veita henni ekki raunverulegan stuðning, eða gera það að minnsta kosti illa. Staðreyndin er sú að við vorum ekki búnir undir uppreisnina. Hún hefur komið illa við okkur á margan hátt, sérstaklega alla félagslega þjónustu og uppbyggingu. Þar ríkir nú upplausn. Sjúkrahús, skólar, gistihús og fyrirtæki, sem rekin eru af einkaaðilum hér á herteknu svæðunum, geta ekki lengur greitt laun. Ef uppreisnin heldur áfram munu mörg þessi fyrirtæki þurfa að loka.

Tökum sem dæmi skólann, sem ég stjórna hér í bænum. Í þessum skóla eru 374 börn og þar vinna 20 kennarar. Þetta er kristinn skóli, rekinn fyrir skólagjöld barnanna. Ég greiði kennurunum laun fyrir skólagjöldin. Foreldrar hafa ekki lengur efni á að greiða skólagjöldin og eru líka ófús að gera það, þar sem skólinn hefur lengi verið lokaður vegna skipunar hernámsyfirvaldanna. Ég hef greitt kennurunum laun þótt skólinn hafi verið lokaður frá því í desember fram í maí. Ég hef ekki efni á að greiða kennurunum laun mikið lengur við óbreyttar aðstæður, og ég mun því neyðast til að loka skólanum okkar. Hér er líka rekið lítið hótel fyrir kristna pílagríma. En frá því uppreisnin hófst hafa margir pílagrímahópar afpantað gistingu. Ég get því ekki lengur greitt starfsfólki hótelsins laun. Þetta eru bara dæmi sem sýna okkur hvað er að gerast. Ástandið er í rauninni mjög alvarlegt. Við getum líkt ástandinu við særðan mann í bardaga sem finnur ekki fyrir sárum sínum af því að hann er upptekinn af orrustunni. En þegar hann slakar á, finnur hann fyrir sárum sínum. Við munum finna illa fyrir sárum uppreisnarinnar í nóvember og desember næstkomandi.“

– Fyrirgefðu að ég spyr, en hvernig stendur á því að þú hefur 374 nemendur í barnaskóla í 1100 manna söfnuði? Eru fjölskyldur svona barnmargar?

„Nei, í skóla mínum eru líka börn úr öðrum bæjum. Börn sem eru uppvís að því að hafa kastað grjóti að ísraelskum hermönnum eru svipt öllum rétti til skólagöngu í skólum sem reknir eru af Ísraelsríki það sem eftir er ævinnar. Við höfum allmörg þessara barna í okkar skóla, og það eru líka börn múslíma.“

Uppreisnin þarf stuðning

– Hvernig bregðist þið við þessum vanda?

„Það er mikilvægt að allir stuðningsmenn Palestínumanna geri sér grein fyrir því, að hér blasir við hrein upplausn. Og hún getur leitt til annarrar bylgju atgervisflótta. Til dæmis er læknirinn okkar hér nú að íhuga að flytjast til Ástralíu. Hættan eykst stöðugt á því að fólk fyllist örvæntingu og yfirgefi landið. Frá því uppreisnin byrjaði hafa 50 ungir menn yfirgefið Efraím og farið til annarra landa. Ef þessu heldur áfram án utanaðkomandi stuðnings erum við glötuð. Og það sorglega er, að mikið af því fé, sem sent er til herteknu svæðanna til stuðnings Palestínumönnum, lendir í höndum stjórnvalda í Ísrael eða Jórdaníu. Vegna þessa hef ég gripið til nokkuð sérstaks ráðs meðal vina minna í Frakklandi. Þeir koma hingað mikið í pílagrímsferðir, og með þeim hef ég gert samning um kílógramm pílagrímsins. Þeir sem hingað koma taka með sér kílógramm af einhverju, sem kemur okkur til góða, í einu eða öðru formi. Þá er það staðreynd að það hjálparfé sem berst í gegn[1]um kirkjuna kemst til skila. Ég hef líka stofnað bankareikning í Frakklandi fyrir starf okkar hér við skólann, heilsugæslustöðina og fleira. En enn sem komið er dugar þetta ekki.“

– Hvað er stór hluti Palestínuaraba kristinnar trúar?

„Þeir kristnu eru um 4,5 – 5% af Palestínumönnum, en áhrif þeirra eru meiri en fjöldinn segir til um, því þeir áttu yfirleitt landeignir og höfðu betri afkomu og menntun.“

Á milli vonar og ótta

– Hvað telur þú að muni gerast í náinni framtíð?

„Hér lifa allir á milli vonar og ótta. Við vitum að gyðingar (ekki Ísraelsmenn) vilja byggja gyðingaríki sem er bara fyrir gyðinga, og þeir eru reiðubúnir að leggja á sig allar hugsanlegar þjáningar til að ná þessu marki. Uppreisnin veldur því að margir Palestínumenn yfirgefa landið. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Uppreisnin gerir arabana stöðugt fátækari. Endanlega munu þeir neyðast til að hverfa aftur að því að vinna fyrir gyðingana. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Því ef gyðingar leyfa aröbum að vera í ríki sínu, þá eiga þeir aðeins að fá að vera þar sem þrælar. Og fjórar miljónir gyðinga þurfa eina miljón arabaþræla til þess að vinna skítverkin fyrir sig.

Í upphafi vakti uppreisnin athygli umheimsins. Nú virðist heimurinn hins vegar vera búinn að fá nóg af þessari uppreisn, sem engum árangri skilar. Fréttirnar verða hluti hversdagsins, eins og gerðist í Víetnamstríðinu og hungursneyðinni í Eþíópíu. En þrátt fyrir þetta er eitt atriði mikilvægt: uppreisnin kann að valda því að samviska sumra réttsýnna Ísraelsmanna vakni, og það væri jákvætt fyrir Palestínumenn. Því að mínu mati getur lausn Palestínuvandans einungis komið frá Ísraelsmönnum sjálfum. Allt fram á þennan dag hafa þeir verið blindir á það óréttlæti sem þeir hafa framið gagnvart Palestínumönnum. Þegar sá dagur rennur upp að Ísraelsmenn gera sér ljóst hvað þeir hafa gert Palestínumönnum, þá munu þeir leita lausnar á vandanum. Uppreisnin er nú að opna augu réttlátra manna í Ísrael. Þetta fólk mun bregðast við á sinn hátt, og kannski semja frið. Og fyrir mér er þetta hið eina jákvæða við uppreisnina.“

Að gera illt verra

-En uppreisnin kemur sér líka illa fyrir stjórnvöld. Ísrael virðist þegar vera orðið lögregluríki og ekki sjáanlegt að því linni…

„Já, það er mikilvægt að allir þeir, sem telja sig vera raunverulega vini gyðinga, segi þeim sannleikann um það óréttlæti sem þeir fremja nú. Því annars munu þeir einungis halda áfram að gera illt verra. Hvað ætla Ísraelsmenn að gera við tvær miljónir Palestínumanna? Ætla þeir að drepa þá, reka þá úr landi, eða gerast nýir nasistar? Eða ætla þeir að láta fólksfjölgun araba kæfa sig?

Nú hafa þeir gert Vesturbakkann að stóru fangelsi. Ef þeir sjá ekki að sér nú, á meðan þeir eru sterkir, þá munu þeir sökkva út í fenið. Þeir munu haga sér eins og krossfararnir á miðöldum. Þeir munu leggja Transjórdaníu undir sig, og svo Sýrland og Egyptaland og seilast eftir norðurströnd Afríku, og á endanum munu þeir glata öllu saman. Rétt eins og krossfararnir.“

Ríkjabandalag í Landinu helga?

– Hvaða ráð vilt þú gefa Ísraelsmönnum? Eiga þeir að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna?

„Þeir eiga fyrst og fremst að leita sátta. Þeir verða að viðurkenna sjálfa sig sem semíta, og Ísrael og Ísmael verða að bindast bræðraböndum á ný.

Ég ann Landinu helga, og ég vildi ekki sjá því skipt í tvo hluta. Ég vil sjá það sem eitt land byggt tveim þjóðum. Kannski tvö ríki í ríkjabandalagi. Ég held að þegar Palestínumenn eru að krefjast sjálfstæðs ríkis, þá séu þeir að krefjast hins meira til þess að fá það minna: grundvallaratriði eins og réttinn til vegabréfs. Hugsaðu þér hvernig þessum málum er háttað núna: ég var eitt sinn spurður af landamæraverði, hverrar þjóðar ég væri. Mér vafðist tunga um tönn. Og eftir að hafa skoðað skilríki mín kvað vörðurinn upp dóm sinn: „Þér eruð Palestínumaður af jórdönsku þjóðerni með ísraelska ferðaheimild… “ Hvernig er þetta hægt?“

Hænan og gulleggin

– Þú sagðir áðan að hjálpin sem send væri til Palestínumanna á herteknu svæðunum kæmist ekki til skila. Hvernig má það vera?

„Þú verður að skilja, að gyðingar utan Ísraels fundu til sektarkenndar gagnvart Palestínumönnum þegar Ísraelsríki var stofnað. Það voru ekki síst þeir sem áttu frumkvæði að stofnun flóttamannahjálparinnar, UNWRA, sem hefur fætt Palestínumenn síðastliðin fjörutíu ár. Þetta ástand minnir á hænuna sem verpir gullegginu. Ekki síst fyrir arabaríkin. Arabaríkin taka við fjárstuðningi víðsvegar að vegna vanda Palestínumanna. Þeir veita litlum hluta þessa fjár til Palestínumanna, en stinga bróðurpartinum í eigin vasa. Fyrir þeim er það mikilvægt að halda hænunni lifandi – í flóttamannabúðunum. Í fyrsta lagi til þess að fá meira fé, og í öðru lagi til þess að viðhalda styrjaldarástandi við Ísrael. Í reynd vilja þeir ekki sjá lausn á vandanum, heldur óbreytt ástand. Nákvæmlega sama gildir um gyðinga. Þeir vilja viðhalda styrjaldarástandi við arabaríkin, því fyrir þá sök hafa þeir uppskorið samúð og ómældan fjárstuðning víðs vegar að. Friður í Palestínu mun ganga af hænunni sem verpir gulleggjunum dauðri.“

Arafat er sonur okkar fólks

– Þetta er harður dómur um arabaríkin. En hvernig lítur þú á PLO? Eru þau samtök seld undir sömu sök?

„Nei, Arafat og hans menn eru synir fólksins hérna. Þeir skilja vandann vegna þess að hann brennur líka á þeim. Ég veit að það er betra að semja við hann og hans menn en við Jórdani eða Sýrlendinga. Annars eru stjórnmál ekki minn vettvangur. En sem kristinn maður get ég ekki annað en látið mig mannréttindi varða, og það eru mannréttindi sem málið snýst um.“

– Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?“

„Ég höfða til réttsýni, mannúðar og örlætis lesenda þinna. Að þeir megi skilja þennan vanda, að þeir megi segja gyðingum sannleikann um það sem þeir eru að gera og að þeir veiti okkur þá aðstoð sem okkur er nauðsynleg til þess að lifa af þær þrengingar sem þjóð okkar má nú líða.“

 

 

 

 

%d