INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – IV.

Heimsókn til Taybeh, sem áður hét Efraim

 

Bærinn Taybeh, sem í Biblíunni heitir Efraim, er skammt frá Jerúsalem. Hann var einn síðasti áfangastaður Krists á leið hans til Jerúsalem og Golata. Bærinn hefur verið kristinn allt frá þeim tíma og sumir segja að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði íbúana. Eftir að Kristur hafði vakið Lasarus frá dauðum staðnæmdist hann í Efraim með lærisveinum sínum (Jóh. 11.54). Leiðsögumaður minn um Palestínu var Kólumbíumaður, en átti ættir að rekja til bæjarins. Við vorum í sömu erindagjörðum og nutum gistivináttu frændfólks hans í þessum kristna bæ.Í þessum pistli segir frá löngu samtali sem ég átti við kaþólska sóknarprestinn í bænum, föður Johnny Sansoor, áður en ég kvaddi Palestínu og hélt aftur til Amman í Jórdaníu.

„Eitt máttu vita: þegar þú kemur heim þá verður þú spurð um ástandið hérna. í þeim efnum get ég aðeins ráðlagt þér eitt: forðastu allar umræður um slíkt. Þær verða engum til gagns. Hefur þú annars orðið vör við nokkuð alvarlegt?“

„Nei.“

„Ekki ég heldur.“ „Ég get bara talað um hvað Ísrael sé yndislega fallegt land, hvað loftslagið sé gott og hvað mannlífið sé fagurt…“

„Já, einmitt…“

Þetta er brot úr samtali sem ég varð vitni að eitt kvöldið í Jerúsalem. Ég hafði verið í Ramallah um daginn og horft á hermennina skjóta á börnin. Ég varkominn til Jerúsalem eftir erfiðan dag, og hafði sest niður við útiveitingahús handan Zíon-hliðsins í hinum hebreska hluta borgarinnar. Því engar veitingar er að fá í hinum arabíska hluta hennar vegna verkfalla. Við næsta borð sátu maður og kona. Konan var breskur gyðingur í pílagrímsferð, maðurinn trúlega búsettur í Jerúsalem. Ég hafði heyrt með öðru eyranu að þau voru að ræða trúarleg málefni gyðingdómsins. Vandamál dagsins í dag afgreiddu þau með ofangreindum setningum.

Þótt ég hafi ekki haft tíma eða aðstöðu til að ferðast mikið um Ísrael á þessu ferðalagi mínu, eða  kynna mér afstöðu gyðinga þar til þeirra gífurlegu vandamála sem ég varð vitni að á herteknu svæðunum, þá ímynda ég mér að afstaða margra íbúa Ísraels mótist á þessa leið: Vandamálinu er markvisst og kerfisbundið skotið undan, eins og það sé ekki til. Þessi afstaða kemur einnig fram í ísraelskum fjölmiðlum. Þannig sagði dagblaðið Jerúsalem Post nýverið frá því að stjórnvöld hefðu tekið upp þá „mannúðlegu“ stefnu gagnvart íbúum Gaza-svæðisins að nú yrði á ný opnað fyrir þann möguleika að íbúar þess gætu sótt vinnu í Ísrael. Þess var hins vegar að engu getið að fiskimennirnir í Gaza liðu hungur af því að stjórnvöld höfðu bannað þeim að sækja sjóinn. Að jafnvel hungrið var liðtækt meðal fyrir stjórnvöld til  að kúga þetta fólk til hlýðni og undirgefni. Og að með því að kippa grundvellinum undan sjálfstæðum efnahag arabanna mátti ná sér í ódýrt vinnuafl.

Hjá kaþólskum presti í Taybeh

„Hingað til mín hefur komið fjöldi fólks, bæði kristnir menn, gyðingar og múslimar, til þess að ræða ástandið á herteknu svæðunum. Ég hef alltaf byrjað á því að spyrja viðkomandi hvort þeir hafi komið til Gaza. Hafi þeir ekki komið þangað, þá byrja ég á því að fara með fólkið þangað. Palestínuvandinn verður ekki skilinn nema menn komi þangað, og séu menn ánægðir með það sem þar fer fram, þá er kominn grundvöllur til að ræða málin. Ég frétti að þú hafir þegar verið í Gaza, og þess vegna var ég fús að ræða við þig.“

Faðir John Sansoor, sóknarprestur í Taybeh. Hann var enginn venjulegur prestur, heldur starfaði sem raunverulegur "hirðir" safnaðarins og stóð fyrir skólastarfi, sálgæslu, félagsmálum, heilugæslu og virtist með hugann við allt er varðaði bæjarfélagið. Hámenntaður maður í fornmálum, grísku, hebresku og latínu auk þess sem hann talaði bæði ensku og frönsku reiprennandi. Hann var svo bráðlifandi og fordómalaus að hann hefði kannski verið greindur með ADH-ofvirkni ef ef ekki hefðu verið tilvistarlegar aðstæður sem knúðu hann áfram. Ógleymanlegur maður. Því miður eyðilagðist myndin sem ég tók af honum, en þessa fann ég á vef kaþólsku kirkjunnar í Landinu helga.

Þetta sagði faðir John J. Sansoor, sóknarprestur í bænum Taybeh, sem hét áður Efraím, en ég átti langt samtal við hann í safnaðarheimili bæjarins kvöldið áður en ég hélt til baka frá Vesturbakkanum yfir til Amman í Jórdaníu. Bærinn Taybeh / Efraím er kristinn bær, eini hreinkristni bærinn á Vesturbakkanum að sögn, og hefur trúlega verið það allt frá dögum Krists. Bæjarbúar segja jafnvel að það hafi verið Kristur sjálfur sem kristnaði Efraím, en frá því er sagt í Jóhannesarguðspjalli (11,54) að Kristur hafi dvalið ásamt lærisveinum sínum í Efraím nokkrum dögum fyrir krossfestinguna. Í bænum eru rústir frá þessum tíma. Bærinn er um 20 km austan Jerúsalem, en þar fyrir austan tekur við eyðimörkin, Jórdandalur og norðurendi Dauðahafsins. Í bænum búa nú um 1200 kristnir arabar og um 100 múslimar. Fyrir 6 daga stríðið voru íbúarnir 3000, yfir helmingur þeirra hefur flúið vegna hernámsins.

Mikilvægi upplýsinganna

„Við höfum mikla trú á blaðamönnum. Þeir eru eins konar trúboðar okkar tíma. Þeir eiga að geta hjálpað heiminum að finna lausn á vanda okkar. Blaðamenn eiga ekki að taka afstöðu með eða á móti deiluaðilum, heldur eiga þeir að hjálpa báðum aðilum til að finna lausn vandans. Og þeir eiga að hjálpa til með að leiðrétta þá brengluðu mynd, sem heimurinn hefur fengið af vandamálum okkar,“ segir faðir Sansoor.

– Að hvaða leyti hefur heimurinn fengið brenglaða mynd?

„Jú, allir halda að arabar vilji reka alla gyðinga burt úr Palestínu. En það er ekki rétt. Palestínumenn eru gestrisin þjóð. Þeir buðu gyðinga velkomna á sínum tíma, og frá upphafi lifðu gyðingar og arabar í sátt og samlyndi. Það voru zíonistar sem notfærðu sér gestrisni Palestínumanna og ráku þá úr landi sínu. Í öðru lagi þá hafa þeir sem leita lausnar á Palestínuvandanum alltaf rætt við þá Palestínumenn sem aldrei misstu neitt. En það dugar ekki til. Gyðingarnir verða að byrja á því að ræða við flóttamennina. Þá sem búa í flóttamannabúðunum. Því það er á þeim sem vandinn brennur heitast. Eins og þú veist, þá er það slík reynsla að koma til Gaza, að maður fyrirverður sig. Mér líður jafnan illa í marga daga eftir að hafa farið þangað. Palestínumennirnir í flóttamannabúðunum þar hafa verið sviptir allri sjálfsvirðingu, öllum eignum sínum, öllu. Heimurinn þarf að færa þeim sjálfsvirðingu sína aftur“.

Uppreisn barnanna

Götumynd úr flóttamannabúðum á Vesturbakkanum. Ljósm. olg

– Hvaða þýðingu hefur Intifadan, – uppreisnin -, í þessu samhengi? Markar hún ekki leið þessa fólks til endurheimtrar sjálfsvirðingar?

„Það er athyglisvert með þessa uppreisn, að allir reyna að eigna sér hana eftir á. En þetta er sjálfsprottin uppreisn, sjálfsprottin uppreisn barnanna. Börnin hafa í 20 ár horft á foreldra sína niðurlægða. Ég hef spurt börnin hér hvers vegna þau kasti grjóti. Svörin sem ég hef fengið hafa verið á sömu lund. Börnin eru í fyrsta lagi að segja gyðingunum að þeim falli ekki við þá, að þau vilji ekki þola návist þeirra.

Í öðru lagi markar grjótkastið andstöðu barnanna við foreldra sína. Foreldrana sem hafa í 20 ár lifað í hræðslu við gyðinga. Þau eru að segja við foreldra sína að þeir séu huglausir og fullir af uppgjöf, þau eru að segja þeim að það sé betra að deyja en að lifa undir hernámi.

í þriðja lagi þá er grjótkastinu beint til útlendinganna. Við þá vilja börnin nú segja: Þið hjálpuðuð gyðingum til þess að verða hamingjusamir í okkar landi- og gerðuð okkur þar með að óhamingjusamri þjóð. Nú ætlum við að leggja þetta land í rúst til þess að allir megi vera óhamingjusamir.“

Börnin stjórna okkur

-Átt þú við að foreldrarnir standi ekki að baki þessari uppreisn með sama hætti og börnin?

„Nei, foreldrarnir eru ekki á sama máli og börnin. En við höfum ekki lengur neina stjórn á börnunum. Það eru þau sem stjórna okkur – og það er hættulegt. Börn eru alltaf börn og hafa ekki þroska hinna fullorðnu. Við sjáum að þau grípa til heimskulegra örþrifaráða. Við sjáum þau brenna akra og plantekrur fyrir gyðingum. Slík örþrifaráð eru í augum barnanna eðlileg, því þau eru í samræmi við þá ætlun þeirra að leggja landið í rúst. Gyðingar, sem dags daglega eru viti bornir menn, hafa hagað sér eins og fávitar frammi fyrir þessum vanda. Hugsaðu þér bara: ef barn grýtir fullorðinn mann, þá er eðlilegt að hinn fullorðni brosi og reyni að skilja, hvers vegna barnið framdi þennan verknað. Hann drepur ekki barnið eða limlestir. Slík viðbrögð eru bæði fávísleg og koma heldur ekki að haldi. Ég get sagt þér að ég rek skóla hér í sókninni, og það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarna mánuði að börnin hafa grýtt skólahúsið og brotið rúður. Ég hef þá reynt að komast að því hvaða börn hafa verið að verki, og ég hef spurt þau, hvers vegna þau hafa gert þetta. Svörin eru jafnan á þá lund að þau hafi verið beitt einhverju misrétti í skólanum eða ekki fengið réttláta einkunn eða umsögn. Ég hef ekki refsað þessum börnum, heldur rætt við þau og reynt að skilja þau, og ég get sagt þér að í 70% tilfella hafa þau síðan komið sjálfviljug og bætt skaðann sem þau hafa valdið.

Það hjálpar hins vegar ekki að loka skólanum, berja börnin eða brenna. Það mun ekki stoppa þau af. Börnin eru viss í sínum rétti, og þau munu halda áfram á sinni braut þar til hinir fullorðnu viðurkenna rétt þeirra. Ég get sagt þér að börn hafa ekki hatur í hjarta sínu. Ég þekki börn sem kasta grjóti í hermenn á morgnana en selja þeim síðan kökur um eftirmiðdaginn. En nú, þegar stjórnvöld í Ísrael eru farin að berja börnin, limlesta og fangelsa, þá eru þau að sá hatri í hjarta þeirra. Og það gerir ástandið þúsund sinnum hættulegra en það hefur verið.“

Persónubundið hatur

– Átt þú við að uppreisnin sé ekki knúin fram af hatri?

„Sjáðu til, fram að þessu hefur hatrið verið óhlutbundið og ópersónulegt hatur á milli þjóða. Eins og á milli þjóða sem eiga í stríði. Hættan er sú að hatrið verði persónubundið. Ég get nefnt þér dæmi: Í síðustu viku umkringdu ísraelskir hermenn hús einnar fjölskyldu í sókn minni. Þeir fóru inn í húsið og tóku yngri soninn. Áður höfðu þeir tekið eldri soninn úr fjölskyldunni með sama hætti, og þá hafði móðir hans misst fóstur af geðshræringu og hræðslu. Þegar hermennirnir komu í annað sinn sagði faðirinn við forsvarsmann þeirra:

„Ef kona mín missir fóstur í annað sinn mun ég drepa þig…“

Í stríði þekkja menn ekki andstæðing sinn, hann er óhlutbundinn, ef svo mætti segja. En hér er þetta að þróast yfir á annað og hættulegra stig. Og þið blaðamenn verðið að koma gyðingum í skilning um að ekki megi breyta þessari deilu á milli þjóða yfir í persónubundið hatur.“

Tvískinnungur arabaríkjanna

– En standa ekki aðrar arabaþjóðir að baki uppreisninni?

„Arabaheimurinn er nú stöðugt að biðja Palestínumenn um að halda uppreisninni áfram, en þeir veita henni ekki raunverulegan stuðning, eða gera það að minnsta kosti illa. Staðreyndin er sú að við vorum ekki búnir undir uppreisnina. Hún hefur komið illa við okkur á margan hátt, sérstaklega alla félagslega þjónustu og uppbyggingu. Þar ríkir nú upplausn. Sjúkrahús, skólar, gistihús og fyrirtæki, sem rekin eru af einkaaðilum hér á herteknu svæðunum, geta ekki lengur greitt laun. Ef uppreisnin heldur áfram munu mörg þessi fyrirtæki þurfa að loka.

Tökum sem dæmi skólann, sem ég stjórna hér í bænum. Í þessum skóla eru 374 börn og þar vinna 20 kennarar. Þetta er kristinn skóli, rekinn fyrir skólagjöld barnanna. Ég greiði kennurunum laun fyrir skólagjöldin. Foreldrar hafa ekki lengur efni á að greiða skólagjöldin og eru líka ófús að gera það, þar sem skólinn hefur lengi verið lokaður vegna skipunar hernámsyfirvaldanna. Ég hef greitt kennurunum laun þótt skólinn hafi verið lokaður frá því í desember fram í maí. Ég hef ekki efni á að greiða kennurunum laun mikið lengur við óbreyttar aðstæður, og ég mun því neyðast til að loka skólanum okkar. Hér er líka rekið lítið hótel fyrir kristna pílagríma. En frá því uppreisnin hófst hafa margir pílagrímahópar afpantað gistingu. Ég get því ekki lengur greitt starfsfólki hótelsins laun. Þetta eru bara dæmi sem sýna okkur hvað er að gerast. Ástandið er í rauninni mjög alvarlegt. Við getum líkt ástandinu við særðan mann í bardaga sem finnur ekki fyrir sárum sínum af því að hann er upptekinn af orrustunni. En þegar hann slakar á, finnur hann fyrir sárum sínum. Við munum finna illa fyrir sárum uppreisnarinnar í nóvember og desember næstkomandi.“

– Fyrirgefðu að ég spyr, en hvernig stendur á því að þú hefur 374 nemendur í barnaskóla í 1100 manna söfnuði? Eru fjölskyldur svona barnmargar?

„Nei, í skóla mínum eru líka börn úr öðrum bæjum. Börn sem eru uppvís að því að hafa kastað grjóti að ísraelskum hermönnum eru svipt öllum rétti til skólagöngu í skólum sem reknir eru af Ísraelsríki það sem eftir er ævinnar. Við höfum allmörg þessara barna í okkar skóla, og það eru líka börn múslíma.“

Uppreisnin þarf stuðning

– Hvernig bregðist þið við þessum vanda?

„Það er mikilvægt að allir stuðningsmenn Palestínumanna geri sér grein fyrir því, að hér blasir við hrein upplausn. Og hún getur leitt til annarrar bylgju atgervisflótta. Til dæmis er læknirinn okkar hér nú að íhuga að flytjast til Ástralíu. Hættan eykst stöðugt á því að fólk fyllist örvæntingu og yfirgefi landið. Frá því uppreisnin byrjaði hafa 50 ungir menn yfirgefið Efraím og farið til annarra landa. Ef þessu heldur áfram án utanaðkomandi stuðnings erum við glötuð. Og það sorglega er, að mikið af því fé, sem sent er til herteknu svæðanna til stuðnings Palestínumönnum, lendir í höndum stjórnvalda í Ísrael eða Jórdaníu. Vegna þessa hef ég gripið til nokkuð sérstaks ráðs meðal vina minna í Frakklandi. Þeir koma hingað mikið í pílagrímsferðir, og með þeim hef ég gert samning um kílógramm pílagrímsins. Þeir sem hingað koma taka með sér kílógramm af einhverju, sem kemur okkur til góða, í einu eða öðru formi. Þá er það staðreynd að það hjálparfé sem berst í gegn[1]um kirkjuna kemst til skila. Ég hef líka stofnað bankareikning í Frakklandi fyrir starf okkar hér við skólann, heilsugæslustöðina og fleira. En enn sem komið er dugar þetta ekki.“

– Hvað er stór hluti Palestínuaraba kristinnar trúar?

„Þeir kristnu eru um 4,5 – 5% af Palestínumönnum, en áhrif þeirra eru meiri en fjöldinn segir til um, því þeir áttu yfirleitt landeignir og höfðu betri afkomu og menntun.“

Á milli vonar og ótta

– Hvað telur þú að muni gerast í náinni framtíð?

„Hér lifa allir á milli vonar og ótta. Við vitum að gyðingar (ekki Ísraelsmenn) vilja byggja gyðingaríki sem er bara fyrir gyðinga, og þeir eru reiðubúnir að leggja á sig allar hugsanlegar þjáningar til að ná þessu marki. Uppreisnin veldur því að margir Palestínumenn yfirgefa landið. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Uppreisnin gerir arabana stöðugt fátækari. Endanlega munu þeir neyðast til að hverfa aftur að því að vinna fyrir gyðingana. Það þjónar hagsmunum gyðinganna. Því ef gyðingar leyfa aröbum að vera í ríki sínu, þá eiga þeir aðeins að fá að vera þar sem þrælar. Og fjórar miljónir gyðinga þurfa eina miljón arabaþræla til þess að vinna skítverkin fyrir sig.

Í upphafi vakti uppreisnin athygli umheimsins. Nú virðist heimurinn hins vegar vera búinn að fá nóg af þessari uppreisn, sem engum árangri skilar. Fréttirnar verða hluti hversdagsins, eins og gerðist í Víetnamstríðinu og hungursneyðinni í Eþíópíu. En þrátt fyrir þetta er eitt atriði mikilvægt: uppreisnin kann að valda því að samviska sumra réttsýnna Ísraelsmanna vakni, og það væri jákvætt fyrir Palestínumenn. Því að mínu mati getur lausn Palestínuvandans einungis komið frá Ísraelsmönnum sjálfum. Allt fram á þennan dag hafa þeir verið blindir á það óréttlæti sem þeir hafa framið gagnvart Palestínumönnum. Þegar sá dagur rennur upp að Ísraelsmenn gera sér ljóst hvað þeir hafa gert Palestínumönnum, þá munu þeir leita lausnar á vandanum. Uppreisnin er nú að opna augu réttlátra manna í Ísrael. Þetta fólk mun bregðast við á sinn hátt, og kannski semja frið. Og fyrir mér er þetta hið eina jákvæða við uppreisnina.“

Að gera illt verra

-En uppreisnin kemur sér líka illa fyrir stjórnvöld. Ísrael virðist þegar vera orðið lögregluríki og ekki sjáanlegt að því linni…

„Já, það er mikilvægt að allir þeir, sem telja sig vera raunverulega vini gyðinga, segi þeim sannleikann um það óréttlæti sem þeir fremja nú. Því annars munu þeir einungis halda áfram að gera illt verra. Hvað ætla Ísraelsmenn að gera við tvær miljónir Palestínumanna? Ætla þeir að drepa þá, reka þá úr landi, eða gerast nýir nasistar? Eða ætla þeir að láta fólksfjölgun araba kæfa sig?

Nú hafa þeir gert Vesturbakkann að stóru fangelsi. Ef þeir sjá ekki að sér nú, á meðan þeir eru sterkir, þá munu þeir sökkva út í fenið. Þeir munu haga sér eins og krossfararnir á miðöldum. Þeir munu leggja Transjórdaníu undir sig, og svo Sýrland og Egyptaland og seilast eftir norðurströnd Afríku, og á endanum munu þeir glata öllu saman. Rétt eins og krossfararnir.“

Ríkjabandalag í Landinu helga?

– Hvaða ráð vilt þú gefa Ísraelsmönnum? Eiga þeir að samþykkja sjálfstætt ríki Palestínumanna?

„Þeir eiga fyrst og fremst að leita sátta. Þeir verða að viðurkenna sjálfa sig sem semíta, og Ísrael og Ísmael verða að bindast bræðraböndum á ný.

Ég ann Landinu helga, og ég vildi ekki sjá því skipt í tvo hluta. Ég vil sjá það sem eitt land byggt tveim þjóðum. Kannski tvö ríki í ríkjabandalagi. Ég held að þegar Palestínumenn eru að krefjast sjálfstæðs ríkis, þá séu þeir að krefjast hins meira til þess að fá það minna: grundvallaratriði eins og réttinn til vegabréfs. Hugsaðu þér hvernig þessum málum er háttað núna: ég var eitt sinn spurður af landamæraverði, hverrar þjóðar ég væri. Mér vafðist tunga um tönn. Og eftir að hafa skoðað skilríki mín kvað vörðurinn upp dóm sinn: „Þér eruð Palestínumaður af jórdönsku þjóðerni með ísraelska ferðaheimild… “ Hvernig er þetta hægt?“

Hænan og gulleggin

– Þú sagðir áðan að hjálpin sem send væri til Palestínumanna á herteknu svæðunum kæmist ekki til skila. Hvernig má það vera?

„Þú verður að skilja, að gyðingar utan Ísraels fundu til sektarkenndar gagnvart Palestínumönnum þegar Ísraelsríki var stofnað. Það voru ekki síst þeir sem áttu frumkvæði að stofnun flóttamannahjálparinnar, UNWRA, sem hefur fætt Palestínumenn síðastliðin fjörutíu ár. Þetta ástand minnir á hænuna sem verpir gullegginu. Ekki síst fyrir arabaríkin. Arabaríkin taka við fjárstuðningi víðsvegar að vegna vanda Palestínumanna. Þeir veita litlum hluta þessa fjár til Palestínumanna, en stinga bróðurpartinum í eigin vasa. Fyrir þeim er það mikilvægt að halda hænunni lifandi – í flóttamannabúðunum. Í fyrsta lagi til þess að fá meira fé, og í öðru lagi til þess að viðhalda styrjaldarástandi við Ísrael. Í reynd vilja þeir ekki sjá lausn á vandanum, heldur óbreytt ástand. Nákvæmlega sama gildir um gyðinga. Þeir vilja viðhalda styrjaldarástandi við arabaríkin, því fyrir þá sök hafa þeir uppskorið samúð og ómældan fjárstuðning víðs vegar að. Friður í Palestínu mun ganga af hænunni sem verpir gulleggjunum dauðri.“

Arafat er sonur okkar fólks

– Þetta er harður dómur um arabaríkin. En hvernig lítur þú á PLO? Eru þau samtök seld undir sömu sök?

„Nei, Arafat og hans menn eru synir fólksins hérna. Þeir skilja vandann vegna þess að hann brennur líka á þeim. Ég veit að það er betra að semja við hann og hans menn en við Jórdani eða Sýrlendinga. Annars eru stjórnmál ekki minn vettvangur. En sem kristinn maður get ég ekki annað en látið mig mannréttindi varða, og það eru mannréttindi sem málið snýst um.“

– Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?“

„Ég höfða til réttsýni, mannúðar og örlætis lesenda þinna. Að þeir megi skilja þennan vanda, að þeir megi segja gyðingum sannleikann um það sem þeir eru að gera og að þeir veiti okkur þá aðstoð sem okkur er nauðsynleg til þess að lifa af þær þrengingar sem þjóð okkar má nú líða.“

 

 

 

 

INTIFADA – UPPREISN Í LANDINU HELGA – II.

Á VESTURBAKKANUM

Ég hafði fengið sérstakt leyfi hjá innanríkisráðuneytinu í Amman til þess að fara yfir á Vesturbakkann um brúna við norðurenda Dauðahafsins. Á landamærunum var margfaldur vörður jórdanskra yfirvalda annars vegar og ísraelskra hernámsyfirvalda hins vegar. Svæðið utan vegar á milli landamærastöðvanna var lagt jarðsprengjum. Ferðaheimild jórdanska innanríkisráðuneytisins dugði mér til að fá ísraelska ferðaheimild inn á hernámssvæðið og þar með inn í Ísrael líka. Rútubíll ók okkur að landamærunum, og þegar öll toll- og vegabréfsskoðun var afstaðin var tekinn leigubíll til Jerúsalem. Ungur maður með arabískt nafn en suðuramerískt vegabréf var mér samferða til Jerúsalem. Þegar okkur gafst tækifæri til þess að tala saman opinskátt komumst við að því að við vorum nokkurn veginn í sömu erindagerðum, og ákváðum því að taka saman gistingu í hinum arabíska hluta Jerúsalem. Ég komst síðan að því að þessi félagi minn var af palestínskum uppruna og átti ættir að rekja til bæjarins Taybeh sem er eini kristni bærinn í Palestínu,  og leiðsögn hans og aðstoð áttu eftir að verða mér ómetanleg.

Á fréttastofunni

Við byrjuðum á því að leita uppi fréttastofu Palestínumanna í Jerúsalem, Palestinian Press Service. Þetta er sjálfstæð og óháð fréttastofa sem gegndi mikilvægu hlutverki við miðlun frétta frá hernumdu svæðunum fyrstu mánuði uppreisnarinnar. Fréttastofan miðlaði fréttum til stóru alþjóðlegu fréttastofanna og var meira til hennar vitnað þar en til ísraelskra heimilda þar til fyrir fáeinum vikum að henni var lokað af ísraelskum yfirvöldum. Við vissum af lokuninni, en fórum engu að síður á staðinn og hittum þar fyrir einn af þeim sem unnið höfðu við fréttastofuna frá upphafi.

„Því miður getum við litla aðstoð veitt,“ sagði maðurinn. „Þótt við vildum gjarnan veita ykkur Ieiðsögn og aðstoð, þá er það ekki hægt, því flestir fréttamennirnir okkar sitja nú í fangelsi. Eins og þið sjáið er hér búið að loka fyrir alla starfsemi og við sitjum hér nánast með bundið fyrir munninn.“

– Getur þú ekki ráðlagt okkur til hvaða staða við eigum að fara og við hverja við eigum að tala?

– Þið verðið að fara til Gaza, þar er ástandið alvarlegast. Annars get ég bara sagt þér að allir Palestínumenn eru jafngóðir til þess að tala við. Þeir munu allir segja þér sömu söguna. Hvar sem þú kemur á herteknu svæðin og í flóttamannabúðirnar finnur þú fólk sem tjáir sig daglega með því að hætta lífi sínu og limum. Heldur þú að þetta fólk sé ekki þess umkomið að segja þér hvað því býr í brjósti og hvað hér er að gerast?

Á fundi í Ramallah

Þegar við komum til Ramallah, borgar sem liggur í tæplega klukkustundar akstur norður frá Jerúsalem, var eins og bærinn væri líflaus. Klukkan var rúmlega 12, og allar götur voru mannlausar, verslanir og veitingahús lokuð, ekkert að sjá nema járnhlera fyrir gluggum verslana og stöku herjeppa á ferli um mannlausan bæinn undir steikjandi hádegissól. Við heimsóttum ungt fólk sem sat á fundi í húsagarði og ræddi ástandið. Þetta voru nemendur og kennarar við háskólann í Ramallah, Palestínuarabar sem búið höfðu í hersetnu landi bróðurpart ævi sinnar, en voru ekki flóttamenn. Það er stúlka um tvítugt sem verður fyrir svörum:

„Hér eins og annars staðar á Vesturbakkanum og Gaza-svæðinu hafa verið stöðug verkföll allt frá því að intifadan (uppreisnin) byrjaði fyrir hálfu ári. Verslanir og þjónusta er ekki opin nema þrjár klukkustundir á dag eða fram undir hádegið, þá er öllu lokað. Og í hverri viku eru einhverjir dagar sem lokað er allan daginn. í síðustu viku var bara opið tvo morgna, í þessari viku verður allsherjarverkfall í einn dag og annan í þeirri næstu. Þetta er liður í þeirri friðsamlegu andspyrnu sem við beitum gegn hernáminu. Auk verkfallsbaráttunnar þá neitar fólk hér á hersetnu svæðunum að borga skatta til yfirvalda. Hér borgar enginn skatt nema stærri iðnfyrirtæki, sem þurfa að sækja aðföng og fyrirgreiðslu til Ísraelsstjórnar. Þau neyðast til að borga skatta. Svo leitumst við eftir megni við að sniðganga ísraelskar vörur í verslunum. Það er liður í að gera okkur efnahagslega sjálfstæðari. Við höfum til dæmis komið upp hér í bænum palestínsku mjólkurbúi og framleiðum þar okkar eigin jógúrt. Yfirvöld gerðu allt sem þau gátu til þess að stöðva það, en þeim tókst það ekki. Nú kaupir enginn hér ísraelska jógúrt, og það hefur komið hart niður á mjólkuriðnaði þeirra, því jógúrt er mikilvægur þáttur í mataræði okkar. Við leitumst einnig við að verða sem mest sjálfbjarga um allar smærri lífsnauðsynjar, og höfum meðal annars lagt áherslu á að rækta grænmeti fyrir fólkið, hvar sem því verður við komið, svo  við þurfum ekki að vera upp á ísraelskt grænmeti komin. Þetta er liður í okkar þjóðfrelsisbaráttu, og Ísraelsmenn hafa þegar fundið fyrir þessu. Við höfum heimildir um 14 ísraelsk fyrirtæki sem hafa orðið að loka eftir að uppreisnin hófst, vegna þess að vörur þeirra seljast ekki lengur. Skattatapið er tilfinnanlegt fyrir hernámsyfirvöldin, og þeir eru nú farnir að stöðva bíla á leiðinni á milli Ramallah og Jerúsalem og kanna hvort viðkomandi hafi greitt skatt. Hafi hann ekki gert það er bíllinn tekinn í pant. En yfirvöldin hafa í svo mörgu að snúast að þau geta aldrei sinnt þessu.

-En kemur þetta ekki verst niður á Palestínumönnunum sjálfum? Kemur ekki að því að þeir neyðist af efnahagslegum ástæðum til þess að þýðast hernámsyfirvöldin?

„Auðvitað kostar þetta fórnir fyrir fólkið. Menn verða að skera niður neyslu sína og útgjöld. Margir, t.d. kennarar, hafa verið án launa mánuðum saman. Smærri atvinnufyrirtæki eiga í erfiðleikum með að greiða laun og öll efnahagsumsvif hafa dregist saman. En verkfallið hefur líka aukið á samstöðu fólksins. Nú gerist það iðulega að fólkið tekur sig saman um að verja hús sem hermenn ætla að ráðast inn í til þess að taka fanga. Það gerðist ekki áður. Við stefnum að því að stofna hér skipulagsnefndir á hverfagrundvelli sem eiga að skipuleggja einstaka þætti uppreisnarinnar. Til dæmis að skipuleggja varnir gegn hernum. Skipuleggja ræktun á sjálfsnægtargrundvelli o.s.frv. Í rauninni kemur uppreisnin verst niður á börnunum, og það voru líka börnin sem hrundu henni af stað. Og þá einkum í flóttamannabúðunum.

Börn í flóttamannabúðum við Ramallah. Ljósm. olg

Börnin gátu ekki lengur horft upp á foreldra sína niðurlægða. Lokun skólanna varð til þess að auka mjög á spennuna þeirra á meðal. Ofbeldishneigðin meðal barnanna veldur okkur áhyggjum og er á vissan hátt ógnvænleg. En um leið trúum við því að meðal þessara barna sé að vaxa upp nýtt forystuafl fyrir palestínsku byltinguna, og það teljum við jákvætt. Nei, þeir geta ekki svelt okkur til hlýðni. Við erum reiðubúin að halda áfram í verkfalli í ár í við[1]bót, og við vitum að það er samstaða um það meðal fólksins. Intifadan er ekki að fjara út. Hún er hins vegar að breyta um stefnu: Friðsamlegt andóf almennings verður almennara og um leið víðtækara. Við lítum það jákvæðum augum, og það kemur sér illa fyrir stjórnvöld.“

Skotið á börnin við Amari-flóttamannabúðirnar

Þegar við nálguðumst Amari flóttamannabúðirnar í útjaðri Ramallah sáum við hvar krakkar á aldrinum 8-10 ára voru að leggja steina á veginn eins og til þess að loka inngangshliðinu að búðunum, sem annars staðar eru lokaðar með steyptum blikktnnum. Skyndilega birtist herjeppi á fleygiferð. Einn hermannanna stóð upp og skaut táragasskotum að börnunum á meðan bíllinn var á ferð. Táragas fyllti húsagarðinn þar sem þau höfðu flúið í felur. Börnin hurfu samstundis, en hermennirnir stukku undir næsta vegg með hríðskotabyssur á lofti. Krakkarnir komust undan og jeppinn hélt áfram för sinni umhverfis búðirnar.

Ísraelskir hermenn með alvæpni skjóta táragasi að 8-10 ára gömlum skólabörnum í útjaðri flóttamannabúðanna í Ramallah. Ljósm. olg.

í kjölfarið komu örvæntingafullar mæður í leit að börnum sínum. Skotvopnin sem hermennirnir nota gegn börnunum í flóttamannabúðunum eru þrenns konar: í fyrsta lagi táragashylki, framleidd í Bandaríkjunum á þessu ári. Á hylkjunum stendur að þau geti verið banvæn, og megi aðeins notast af atvinnumönnum. Svo eru gúmmíkúlur með stálsívalning innan í. Kúlur þessar eru þumlungs-sverar og 1,5 sm. á lengd. Síðan nota þeir einnig föst skot og eru patrónurnar álíka stórar og notaðar eru til hreindýraveiða hér á landi. Táragashylkin hafa orðið mörgum Palestínumönnum að bana á undanförnum mánuðum og valdið fósturláti hjá þunguðum konum. Gúmmíkúlurnar eru hins vegar til þess fallnar að skapa mikla áverka, og sem dæmi má nefna að auga var skotið úr 9 mánaða stúlkubarni með gúmmíkúlu á Vesturbakkanum á meðan ég dvaldi þar. Föst skot eru líka notuð, þegar hin vopnin þykja ekki duga nægilega vel. Þau eru yfirleitt banvæn.

Þegar herjeppinn var horfinn komu mæðurnar skelfingu lostnar og kölluðu á börn sín, en fundu ekki. Þetta var dagleg reynsla flestra mæðra um öll hernumdu svæðin. Flóttamannabúðunum í Amari hafði verið lokað með því að steypa eða hlaða upp á milli húsasunda alls staðar nema á þrem stöðum. Tveir staðir voru minna áberandi, en þaðan gat herinn komist inn í búðirnar með herjeppa sína og brynvagna. Aðalinnganginum var hins vegar lokað með tvöföldum steyptum tunnuvegg og aðeins skilið eftir metersbreitt haft til þess að ekki kæmust fleiri en einn í einu út. Þannig voru allar flóttamannabúðir sem ég sá á Vesturbakkanum umgirtar, og þetta gerir yfirvöldum mögulegt að setja útgöngubann á búðirnar og loka fólkið þannig inni. Slíkum refsiaðgerðum er mikið beitt, einkum á Gaza-svæðinu.

Ekkja og limlest börn

Þegar við gengum inn um aðalinngang Amari-búðanna var hermaður með hríðskotabyssu uppi á næsta húsi og fylgdist með okkur. Við gengum að miðstöð UNWRA (Flóttamannahjálpar SÞ) í búðunum til þess að biðja um leiðsögn. Þeir sem þar voru sögðust allt vilja fyrir okkur gera annað en að leiða okkur um búðirnar, því herinn bannaði þeim það. Þessi UNWRA-miðstöð var sýnu fátæklegri en sú sem ég hafði séð í Jórdaníu. Þarna voru 2 menn en engar upplýsingar að fá annað en að þarna byggju um 6000 manns. Sjúkraskýlið virtist lokað. Við fórum á eigin ábyrgð inn í búðirnar og brátt safnaðist um okkur hópur óðamála barna.

Óðamála stúlkur í Amari-flóttamannabúðunum veitast að ljósmyndara með grjótkasti. Ljósm. olg

Ég hefði ekki komist óhultur úr þessari atlögu nema vegna þess að ég hafði þarna fylgd arabískumælandi Palestínumanns sem gat kynnt erindi okkar. Börnin í flóttamannabúðunum eru tortryggin gagnvart ókunnugum og grýta þá sem liggja undir grun um að vera á bandi hernámsliðsins. En þau vildu allt fyrir okkur gera þegar þau vissu um erindi okkar. Þau sögðu að hermennirnir myndu eyðileggja myndavélar okkar ef þeir sæju okkur taka myndir. Þau sýndu okkur táragashylkin og gúmmíkúlurnar og skothylkin. Og þau vísuðu okkur um göturnar. Þetta voru ýmist moldargötur eða steyptar götur með opnu skolpræsi eftir miðri götunni. Húsin voru eins og í Jórdaníu, kofar hlaðnir úr múrsteini með lausum bárujárnsplötum ofan á, sem voru festar niður með grjótfargi.

Í fyrsta kofanum sem við komum í var kona sem hafði orðið ekkja þann 27. janúar síðastliðinn.  Þessi kona missti mann sinn frá mörgum börnum þegar hann kafnaði af völdum táragass þann 27. Janúar síðastliðinn. Sonur hennar, um það bil 9 ára, var með skotsár á upphandlegg eftir fast skot. Hún hafði sent hann út fyrir búðirnar að kaupa jógúrt og hann kom til baka með sundur skotinn handlegg. Hús hennar var fullt af börnum, ég veit ekki hvað hún átti mörg þeirra. Hún sýndi okkur brotna spegla og brotinn skáp og brotinn vegg: hermennirnir höfðu ráðist inn í kofann hennar.

Ekkja með 10 ára gamlan son sem kom heim með sundurskotinn handlegg eftir að hafa farið út að kaupa jógúrt. Hún sýnir okkur soninn og táragashylki sem Ísraelsher notar gegn palestínskum börnum. Ljósm. olg,

Móðir í Amari-búðunum  sýnir okkur síðusár 10 ára sonar sem var sleginn af hermönnum þannig að nýrað sprakk. Ljósm. olg.

Við fórum í næsta kofa við hliðina. Þar sýndi móðir 10 ára gamals pilts okkur ör á síðu hans. Hann hafði verið sleginn svo á mjóhrygginn að annað nýrað sprakk. Fleiri börn sáum við sem höfðu fengið sár og krakka[1]skarinn sem safnaðist í kringum okkur var svo óðamála að erfitt var að athafna sig. Strákarnir vildu ólmir láta ljósmynda sig og tróðust hver fram fyrir annan upp að vélinni. Þeir gerðu sigurmark[1]ið og héldu steinum á lofti. Það var áberandi að andrúmsloftið í þessum búðum var allt annað en í Jórdaníu.

Ójafn leikur

Taugaspennan var gífurleg og ofbeldið lá í loftinu. Enda leið ekki á löngu þar til ungir menn um tvítugt komu til okkar og sögðu að innan skamms myndu hermennirnir gera innrás í búðirnar og það yrði barist. Þeir ráðlögðu okkur að fara út. Tíu ára piltur fylgdi mér út úr búðunum en félagi minn varð eftir fyrir innan. Ég fór í kringum búðirnar að aðal innganginum, þar sem ég komst inn í húsasund á bak við þvottasnúrur. Þaðan hafði ég yfirsýn yfir aðalgötuna í búðunum. Fjórir herjeppar og einn trukkur tóku þátt í árásinni á búðirnar. Einn eða tveir bílar biðu við aðalinnganginn á meðan hinir keyrðu inn í búðirnar og skutu táragasi og gúmmíkúlum að íbúunum. Táragasský lagðist yfir búðirnar. Ég sá börn og unglinga á hlaupum í táragassvækjunni kastandi grjóti að herjeppunum. Þessi börn kunna ekki að hræðast lengur.

Aðal-inngangurinn að Amari-búðunum, lokaður með steyptum blikktunnum. Utan inngangsins voru herjeppar með alvæpni. Unglingar þyrptust að og köstuðu grjóti yfir tunnurnar í átt að hermönnunum. Ljósm. olg.

Herjeppar koma aðvífandi inn í búðirnar og skjóta táragasi að unglingunum. Gatan og nánasta umhverfi fyllist af táragasi. Ljósm. olg.

Herjeppi með alvæpni á götunni, en sjúkrabíll frá UNWRA og ísraelskir herjeppar fyrir utan hliðið. Enginn slasaðist alvarlega í þetta skiptið. Ljósm. olg.

Áhlaupið stóð með stuttum hléum í tæpa klukkustund. Sjúkrabíll kom að aðal innganginum, en enginn var tekinn í hann. Þegar herbílarnir voru farnir gekk ég inn í búðirnar. Á fólkinu var að sjá að þetta væri eins og daglegur viðburður. Enginn hafði hlotið alvarleg sár í þetta skipti og mér var vísað til félaga míns sem var í góðum félagsskap inni í búðunum. Þegar við kvöddum Amari-búðirnar voru herjeppar á sveimi allt um kring.

Umsátur í Kafir Malik

Ofangreindir atburðir gerðust á öðrum degi mínum á Vesturbakkanum. Sama dagf ór ég einnig til bæjarins Kafir Malik. Þetta er um 2000 manna þorp sem liggur á milli Ramallah og Jeríkó. Inni á torginu í bænum voru allir veggir útmálaðir í slagorðum og ábúðarmiklir menn sátu hljóðir í skugganum undir þakskeggjum. Það ríkti hatursþrungið andrúmsloft þarna á torginu og grjótslöngur og tætlur af fána PLO héngu í símastrengjum. Þessir menn virtust reiðubúnir í stríð. Brátt fengum við að heyra sögu þeirra:

Í þrjá mánuði höfðu ísraelsku hermennirnir gert allmargar tilraunir til að komast inn í þetta þorp, bæði til að heimta skatt af fólkinu, og einnig til að leita eftirlýstra manna. Átta sinnum höfðu þeir orðið frá að hverfa vegna vegatálma og grjótkasts þorpsbúa. í þessum átökum höfðu yfir 30 herjeppar verið skemmdir. Þá greip herinn til þess ráðs að loka bænum. Í 30 daga var skrúfað fyrir vatn og rafmagn og engum hleypt inn í bæinn eða út úr honum. Þrjátíu  dagar án aðfanga, 30 dagar án sjúkraþjónustu. Síðan var bærinn umkringdur með yfir 2000 manna herliði og ráðist var inn í þorpið með brynvörðum bílum og þyrlum. Einn maður var skotinn á færi, trúlega úr þyrlu, í þessari innrás. Hermennirnir settust að í skólanum. sem umluktu skólalóðina. Þeir eyðilögðu bækur í skólanum og ég sá hvar þeir höfðu notað eitt hornið á skólalóðinni til þess að gera þarfir sínar. Víðar sáum við verkummerki eftir jarðýtur í bænum, sem höfðu meðal annars valdið skemmdum á fallegum mörghundruð ára gömlum olívulundi.

Vitni á torginu

Maður á torginu:

„Bróðursonur minn var á gangi með vini sínum hér fyrir utan bæinn. Þeir gengu samhliða, en skyndilega fær vinur hans skot í höfuðið og liggur dáinn í götunni. Hinn hljóp inn í næsta hús, en hermennirnir hlupu á eftir honum, drógu hann út, börðu með kylfu í höfuðið. Börðu hann síðan á skrokkinn með stórum plánka, handjárnuðu síðan og settu í fangelsi í tvo daga. Meðan á umsátrinu stóð vorum við í 30 daga ljóslausir alls lausir. Við fundum að við gátum vel haldið út eitt ár í viðbót ef því er að skipta. Við höfum engu að tapa.“

Annar maður:

„Hér í nágrenninu var 45 ára maður, 4 barna faðir, drepinn með skoti í höfuðið, þar sem hann stóð álengdar og var að horfa á óeirðir. Í fréttum var sagt að þetta hefði verið tvítugur maður og að hann hefði verið að kasta bensínsprengju.“

Læknir úr bænum Taibeh sem þarna var staddur:

„Þeir grófu tvo bræður í jörð hér skammt frá þannig að aðeins andlitin stóðu upp úr og spörkuðu í þá. Síðan drógu þeir þá upp og tvíbrutu á þeim handleggina. Ég hef líka fengið staðfest að hermennirnir hafi brennt ungan mann í ofni hér skammt frá og kastað síðan líkinu í kalt vatn. Ég veit ekki hvort sagan af barninu sem kastað var úr þyrlu er sönn, en hún er ekki ótrúlegri en margt annað sem ég hef séð… Eitt get ég líka sagt þér, að sjúklingar mínir hér, þeir hafa ekki efni á að borga læknisþjónustu ef eitthvað alvarlegt kemur fyrir færð þú enga þjónustu á sjúkrahúsunum hér nema þú greiðir fyrir fram….“

Bóndi á torginu:

„Og sért þú arabi er þér bannað samkvæmt lögum að bora eftir vatni. Vatnið skiptir öllu máli við landbúnaðinn hér. Sérðu þorpið þarna uppi á hæðinni? Þetta er nýlenda gyðingalandnema. Þeir taka landið okkar og þeir taka vatnið frá okkur. Gyðingur sem býr í New York hefur meiri rétt á vatninu okkar og landinu okkar heldur en við…“

Landslagið sem fæddi Krist

Biblíumynd sem á að lýsa þeim slóðum Krists sem umlykja landslagið sem hér er lýst.

Á leiðinni frá Kafir Malik mættum við mörgum herjeppum sem voru á eftirlitsferðum um sveitirnar. Landslagið þarna kom kunnuglega fyrir sjónir. Það var sama landslagið og ég hafði séð á biblíumyndunum sem mér voru gefnar þegar ég gekk til prests sem barn. Fjárhirðarnir litu meira að segja eins og hirðingjarnir á Betlehemsvöllum. Enda eru þetta heimahagar Krists og biblíulegir sögustaðir í hverju þorpi. En eitthvað hafði breyst. Það var uppreisnarástand í Landinu helga. Daginn eftir fórum við á Gaza-svæðið. Ég átti erfitt með að ímynda mér á þessari stundu, að næsti dagur yrði ennþá erfiðari. En sú varð raunin. Meira um það á miðvikudaginn kemur. -ólg

 

%d