OVERDOSE AF SILVIO

Overdose af Silvio

Hugleiðing í tilefni af fráfalli leiðtogans

Þar sem ég er nú staddur á Ítalíu komst ég ekki hjá að upplifa þá holskeflu persónudýrkunar og sjálfsskoðunar sem fylgdi í kjölfar andláts Silvio Berlusconi 12. Júní s.l. Það voru fjölmiðlarnir sem fundu í þessu andláti uppgjör við þjóðarsálina og fortíðina með linnulausum fréttaflutningi, lofgjörðum og vitnaleiðslum sem stóðu yfir nánast samfleytt síðastliðna þrjá sólarhringa og sér vart fyrir endann á enn. Hámarkið var bein útsending frá útför á vegum ríkisins í dómkirkju Milano að viðstöddum nokkrum tugum þúsunda gesta á dómkirkjutorginu og fyrirmönnum og hefðarfólki sem sýndi sig í kirkjunni sjálfri.  Hvaða skoðun sem menn hafa á persónu Silvio Berlusconi, þá fór ekki fram hjá neinum aðkomugesti að hér var um atburð að ræða sem snerti ítalska þjóðarsál með afar sérstæðum hætti.

Þar sem ég hef dvalið árlega hér á Ítalíu lengri eða skemmri tíma síðustu 4 áratugina, og þar með átt samleið með valdatíma SB allan tímann, þótti mér viðeigandi að leggja örfá orð í allan orðaflauminn í tilefni þessa andláts, þó ekki væri nema til að gera upp eigin hug gagnvart þessum stjórnmálamanni sem sett hefur svo afgerandi mark ekki bara á ævintýralega stjórnmálasögu þessa tímabils, heldur líka á þjóðarsálina sjálfa.

Stór þáttur í persónuleika Silvio var bráð þörf hans fyrir að vera elskaður, einkum af konum.

Þegar ég hóf sumarstörf hér á Ítalíu sumarið 1980 var SB ekki byrjaður á virku stjórnmálastarfi, en hann var hins vegar þegar orðin sögupersónan sem umbylti fjölmiðlaheiminum og innleiddi einkareknar sjónvarpsstöðvar á landsvísu sem mörkuðu ekki bara nýja tæknibyltingu í fjölmiðlun, heldur líka byltingu í efnistökum og tungumáli sjónvarpsins. Þetta var á lokaspretti „Fyrsta Lýðveldisins“ eins og það var kallað, lýðveldisins sem stofnað var til af andspyrnuhreyfingunni gegn fasismanum í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari og leið undir lok með upplausn flokkakerfisins á Ítalíu í kjölfar herferðarinnar „Hreinar hendur“ 1992, í kjölfar réttarfara sem setti þorra ítölsku stjórnmálastéttarinnar á sakabekk og undirbjó þann popúlíska jarðveg sem SB kunni að nýta sér umfram aðra með stofnun stjórnmálaflokksins „Forza Italia“ rétt fyrir kosningar árið 1994. Aðdragandi þessara atburða og niðurstaða er of flókin saga til að hægt sé að rekja hana hér, en hún fól í sér að allir stjórnmálaflokkarnir nema einn (popúlistaflokkurinn Lega nord) voru lagðir niður, þar á meðal burðarstoðirnar sem mynduðu kjarna „Fyrsta lýðveldisins“, Kristilegir demókratar og Ítalski kommúnistaflokkurinn (sem var sá langstærsti í V-Evrópu) sem áttu í raun höfundarréttinn að hinni andfasísku og framsæknu stjórnarskrá Ítalíu umfram aðra. Segja má að dauðateygjur „fimm-flokka-kerfisins“ hafi staðið yfir allan 9. áratuginn og það var í þessu andrúmslofti sem SB stóð fyrir fjölmiðlabyltingu sinni sem undirbjó um leið jarðveginn fyrir stjórnmálaferil hans.

Kannski var stærsta "afrek" SB á hinu pólitíska sviði að sameina 3 flokka á hægri vængnum í eina "hægri blokk" er  var mótvægi við "mið-vinstriflokkana". Hér er SB með Giorgiu Meloni forsætisráðherra og Salvini vara-forsætisráðherra Ítalíu í dag.

Eftir á að hyggja þá tengist þessi atburðarás dýpri samfélagsbreytingum sem áttu sér stað með tilkomu Evrópubandalagsin og síðan ESB og djúpstæðum efnahagslegum og lýðræðislegum breytingum sem því fylgdu. Það var undiraldan sem SB kunni að nýta sér. Hann hafði hafið feril sinn fyrst sem uppistandari á skemmtiferðaskipum og síðan sem iðnrekandi, þar sem hann stóð fyrir uppbyggingu heils íbúðahverfis í útjaðri Milano, meðal annars með pólitískum stuðningi hins atkvæðamikla leiðtoga Sósíalistaflokksins, Bettino Craxi. Þó ferillinn hafi þannig hafist í hlutverki iðnrekandans var SB aldrei eiginlegur hluti þeirrar stéttar iðnrekenda sem hafði lagt grundvöllinn að „ítalska efnahagsundrinu“ á seinni hluta 20. aldarinnar (Fiat, Olivetti, Pirelli osfrv.) samfara umtalsverðum ríkisrekstri sem tengdist ekki síst orku- og efnaiðnaði. SB féll ekki inn í þennan hóp, hann boðaði minni skatta, minni ríkisumsvif og breytt samskipti launavinnu og auðmagns, umbreytingar sem á Vesturlöndum voru gjarnan kenndar við Reagan og Thatcher, en höfðu í stefnumótun SB ákveðinn popúlískan undirtón sem hann ræktaði í raun í gegnum hið nýja tungumál einkarekinna sjónvarpsstöðva sem töluðu til almennings með beinum hraðskeyttum og linnulausum hætti, þar sem skemmtiefni og auglýsingar runnu saman í eitt. Sjónvarpið varð leiksvið hins nýja hagkerfis sem byggði á auglýsingum og neyslustýringu frekar en beinum átakavettvangi launavinnu og auðmagns. Mér er það minnistætt þegar ég áttaði mig á þessu eftir að hafa séð það haft eftir SB að hann stefndi með fjárfestingum sínum í fjölmiðlum að því að ná 80% af auglýsingamarkaðnum á Ítalíu, ekki bara með einkareknum sjónvarpsstöðvum á landsvísu, heldur líka með kaupum á Mondadori útgáfufélaginu (því stærsta á Ítalíu) og dagblöðum og tímaritum sem því fylgdu. Kjörorð fjölmiðlaveldis SB var frelsi og fögnuður með endalausum skemmtiþáttum, sem meðal annars urðu frægir fyrir ríkt hlutverk léttklæddra kvenna í nánast öllu sjónvarpsefni, nokkuð sem ekki þekktist fyrir þessa byltingu. Ríkisstöðvarnar þrjár urðu tilneyddar að taka upp frásagnarhátt einkastöðva SB í samkeppninni um auglýsingamarkaðinn. Almenn má segja að þessi fjölmiðlaheimur hafi falið í sér minni og yfirborðskenndari umræðu um alvörumál, hvort sem um var að ræða stjórnmál, menningu eða íþróttir, en SB hafði keypt knattspyrnufélagið Milan og rak það eins og hluta af veldi sínu allt til ársins 2017 sem mikilvægan þátt í samtali hans við þjóðina. SB náði sambandi við fjöldann, m.a. í gegnum þáttastjórnendur eins og mann að nafni Mike Bongiorno, sem leitaðist við að flytja bandaríska sjónvarpsmenningu til Ítalíu. Fjölmiðlareksturinn smitaði síðan út frá sér í skemmtanaiðnaði, kvikmyndagerð og dægurtónlist og blaðaútgáfu, allt þættir sem SB kunni að nýta sér í samskiptum og nýjum talsmáta við almenning á tungumáli sem gömlu iðnjöfrarnir úr framleiðsluiðnaðinum fulltrúar gamla flokkakerfisins kunnu ekki að tala.

Þetta varð grundvöllurinn að stjórnmálaferlinum sem SB hóf með dramatískum hætti með stofnun flokksins Forza Italia 1994, rétt fyrir kosningar til þings, og byggði í raun á neti aðdáendaklúbba Milan-knattspyrnufélagsins sem var þá á hátindi frægðar sinnar eftir fjármagnsinnspýtingu og auglýsingaherferð SB. Þessi flokkur SB hafði einföld skilaboð um minni skatta, minni ríkisumsvif og aukið einstaklingsfrelsi í atvinnurekstri og neyslu. SB naut aðstoðar ráðagóðra manna við stofnun flokksins, einkum Sikileyingsins Marcello dell‘Urti, sem var helsti skipulagsráðunautur FI-flokksins frá upphafi. Hann var seinna dæmdur fyrir fjármálamisferli með sikileysku mafíunni þar sem hann var milligöngumaður SB og mafíuforingja í Palermo. Það samband tengdist leyndu samkomulagi sem átti að tryggja SB og flokki hans frið eftir blóðugt stríð mafíunnar og ríkisvaldsins er náði hámarki með morðum á tveim dómurum sumarið 1992. Flokkur SB sigraði í fyrstu kosningum sínum 1994 og SB myndaði fyrstu stjórn sína undir kjörorðunum meira frelsi, minni skattar og minni ríkisumsvif. Um leið hófst útsala á sölu ríkiseigna, einkum í orku og stóriðjufyrirtækjum, sem tengdust Maastricht samkomulaginu og boðaðri stefnu ESB. SB taldi sig geta bætt hag allra með auknu frelsi, en sannleikurinn er sá að kaupmáttur launa hefur staðið í stað síðustu þrjá áratugina (eftir samfellt hagvaxtarskeið eftirstríðsáranna), og í stað þess að minnka ríkisskuldirnar þá uxu þær stöðugt þar til að því kom árið 2011, eftir að SB hafði stýrt 4 ríkisstjórnum í 10 ár (með millistjórn sósíalistans Romano Prodi 2006-2008) að vaxtamunur á ítölsku ríkisskuldunum og þeim Þýsku varð svo mikill að stefndi í ríkisgjaldþrot. Þá var hagfræðingurinn Mario Monti fenginn frá Goldman Sachs bankanum í New York til að mynda „tæknilega“ ríkisstjórn (án kosninga) sem skar niður ríkisútgjöld (m.a. lífeyrisframlög) til að bjarga þjóðarskútunni. Eftir á hafa margir sagt þetta hafa verið skipulega aðför að ítalska hagkerfinu sem stýrt var utanfrá af fjármálakerfi Evrópubankans og bandaríska fjármálastofnana.

Þetta leiðir í ljós atburðarás sem hefur leitt til endurmats margra andstæðinga SB á pólitískum áhrifum hans og þýðingu. Í þeim leik er ekki alt sem sýnist. Stærsta pólitíska „afrek“ SB var trúlega að mynda samsteypustjórnir á hægri vængnum, er náðu að sameina tvo flokka sem töldust til hægri en á öfugum forsendum þó: annars vegar MSI-flokkinn, sem var í raun arftaki gamla fasistaflokksins og kenndi sig við þjóðernissinnaða hægristefnu með sterku miðstýringarvaldi ríkisins. Hins vegar Lega-nord- flokkurinn sem höfðaði til millistéttar í auðugustu iðnhéruðum Norður-Ítalíu og höfðu sjálfstæði norður-héraðanna á stefnuskrá sinni. MSI-flokkurinn (sem síðar fékk nafnið Fratelli d‘Italia, ítalska bræðralagið sem þjóðsöngurinn lofsyngur) hafði í raun verið talin óstjórntækur af þeim flokkum sem kenndu sig við lýðræði og arfleifð andspyrnuhreyfingarinnar gegn fasismanum. SB dró MSI-flokkinn inn í stjórnarsamstarf, þvoði hann af fortíðinni og síðan hafa þessir þrír flokkar myndað grunnin að hægri-samsteypustjórnum á Ítalíu. Nú er forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni, formaður Fratelli-d‘Italia flokksins, staða sem hefði verið óhugsandi á tímum „Fyrsta lýðveldisins“. Flokkur hennar er í raun eins konar bræðra- eða systraflokkur þýska AFD-flokksins og Þjóðfylkingar Mariu Le Pen í Frakklandi, báðir taldir óhæfir flokkar til stjórnarsamstarfs af svokölluðum lýðræðisflokkum í þessum löndum. Þessi staða segir okkur að SB sé í raun höfundurinn að samstarfi miðhægriflokka er mynda pól gegn mið-vinstri öflum inna ítalska flokkakerfisins. Á hinu pólitíska sviði mun þetta trúlega teljast helsta „afrek“ SB.

SB átti marga valdamikla vini og elskaði að sýna þeim stórbýli sitt á Costa Smeralda á eyjunni Sardiníu. Hér með vini sínum Vladimir Pútin.

SB fékk Pútín og Georg Bush til að takast í hendur með táknrænum hætti á NATO fundi í Róm 2002

Þetta segir þó ekki alla söguna. Báðir samstarfsflokkar SB á hægri-vængnum hafa verið kenndir við „popúlisma“ (sem í raun er hugtak sem notað er til mótvægis við „glóbalisma“ hins yfirþjóðlega fjármálavalds í heiminum). Sjálfur er SB í raun ekki heldur laus við þennan stimpil. Hann hefur birst í svokölluðum „pragmatisma“ hans, sem horfir framhjá hugmyndafræðunum og til meints þjóðarhags, nokkuð sem hefur gefið mönnum tilefni til að benda á vissan skyldleika SB við vestræna leiðtoga á borð við Donald Trump, Vladimir Pútin og jafnvel Brexit-sinnann Boris Johnson. Meintur  „pragmatismi“ SB á að hafa falið í sér fráhvarf frá hugmyndafræðilegum kreddum með hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, en í reynd beindist hann fyrst og fremst að því að vernda hagsmuni fjölmiðlarisans Fininvest og styrkja stöðu hans á auglýsingamarkaðnum. En „pragnatisminn“ birtist líka í fordómalausu samneyti SB við valdsmenn af ólíkum toga. Hann átti vingott ekki bara við Georg Bush yngri, heldur líka við valdamenn eins og Vladimir Pútin og Muhammed Gaddafi í Libýu, Mubarak í Egyptalandi, Ben Ali í Túnis og Tony Blair í Bretlandi. Hann naut þess að bjóða fyrirmönnum á sveitasetur sitt á Sikiley og halda þar veislur, og árið 2002 stóð hann fyrir því að Pútin Rússlandsforseta væri boðið á leiðtogafund NATO í Róm, þar sem forsetar Rússlands og Bandaríkjanna tókust í hendur undir yfirskyni endaloka Kalda stríðsins. Þau vináttubönd sem SB skapaði með gestrisni sinni og vinarhjali entust þó misvel: nokkrum mánuðum eftir að SB hafði gert sérstakan vináttusamning á milli Ítalíu og Líbýu í kjölfar opinberrar heimsóknar Gaddafis til Rómar 2011 var SB tilneyddur að styðja innrás NATO-ríkja í Libýu er leiddi til morðs á leiðtoganum og gjöreyðleggingar allra innviða samfélagsins í Libýu. Vináttusamningur SB og Gaddafi fól í sér tryggingu á olíuviðskiptum og ítölskum fjárfestingum í Libýu til hagsbóta fyrir bæði ríkin. Afleiðing innrásarinnar var ekki bara morðið á Gaddafi, heldur lömun líbýska stjórnkerfisins sem leiddi til flóðgáttar afrískra flóttamanna til Ítalíu, sem staðið hefur alla tíð síðan. Það voru Sarkosy Frakklandsforseti, Tony Blair og Georg Bush,  „vinir“ Berlusconi, sem settu honum stólinn fyrir dyrnar og neyddu hann undir agavald NATO til þessarar glæpsamlegu innrásar í Líbýu, sem enginn hefur þó tekið ábyrgð á. Vinátta Berlusconi og Vladimirs Pútíns reyndist þó traustari. Þeir áttu sameiginlega vinafundi í gegnum árin, skiptust á gjöfum, og þegar kom að deilunni um Úkraínu 2021 – eftir að SB hafði látið af öðrum embættum en forseta FI-flokksins – þá lýsti SB yfir vantrausti sínu á Zelensky vegna framkomu hans gagnvart rússneskumælandi Úkraínumönnum og lýsti skilningi á viðbrögðum Pútíns, er hefðu ekki verið „tilefnislaus“. Þessi síðasta yfirlýsing SB var vandlega falin í öllum líkræðunum, enda er Georgia Meloni meðal herskáustu stuðningsmanna Zelensky í herferðinni gegn Rússneskri innrás.

Meðal vina SB var Muammar Gaddafi forseti Libýu sem heimsótti Róm og undirritaði samstarfssamning Ítalíu og Libýu 2011. Fáeinum mánuðum síðan neyddist SB til að lýsa stuðningi við innrás NATO í Libýu.

Þegar litið er yfir pólitískan valdatíma SB í heild sinni, þá blasir í raun við að hann gaf Ítalíu fátt annað en falska drauma, drauma sem vissulega reyndust engu að síður góð söluvara. Hann átti í samfelldu stríði við dómarastétt landsins og réttarkerfið í heild sinni og mætti á starfsferli sínum yfir 30 dómsmálum er snerust flest um fjármálamisferli og mútugreiðslur. Þessir fölsku draumar sem SB seldi ítölsku þjóðinni snerust flestir um hann sjálfan, uppistandarann á skemmtiferðaskipinu sem varð „af sjálfsdáðum“ að auðugasta manni Ítalíu. Frægðarsól hans reis hæst eftir að síðari hjónabandi hans lauk með miklum skelli, þar sem eiginkona hans og móðir þriggja barna sagðist ekki lengur geta búið með manni sem væri haldinn ólæknandi girnd til stúlkna undir lögaldri. Þá og í kjölfarið flugu fréttir um veislur SB í lúxusvillum sínum á Sardiníu og í Lombardíu, þar sem léttklæddar ungar konur veittu miðaldra karlmönnum ómælda gleði með nærveru sinni um leið og þær nutu ómælds örlætis gestgjafans á lífeyri. Sjálfur kenndi SB veislur sínar við „Bunga-Bunga“ og sagði þær byggja á hefðbundnum og menningarlegum skemmtanaiðnaði. Mörg sakamál sköpuðust þó af þessari gleðifíkn „forsetans“, en ekkert leiddi til sakfellingar. Aðeins í einu af dómsmálunum 30 var SB sakfelldur, þar sem sakarefnið var víðtæk skattsvik í kringum fjölmiðlafyrirtækið Fininvest. Dómurinn frá 2013 fól í sér að SB missti kjörgengi til þings í 5 ár og drógu umtalsvert úr pólitísku vægi hans.

Nú við dauða hans er eins og ítalska þjóðin hafi loks vaknað af þessum stóra draumi um frelsarann SB sem skilur eftir sig  heljarstórt tómarúm. Líkamsleifar foringjans voru brenndar í gær, og framtíðarstaður öskunnar verður í hinu mystíska grafhýsi sem hann hafði reyst sér á sveitasetrinu á Sardiníu: grafhýsi sem hann hafði lofað ekki bara fjölskyldu sinni til afnota í framtíðinni, heldur líka öllum nánustu vinum sínum og fylgdarmönnum í gegnum langan feril. FI-flokkurinn, sem nú á aðild að Mið-hægri-stjórn Meloni stendur eftir sem skip án skipstjóra. Flokkurinn var byggður í kring um nafn SB og vörumerki. Ítalskir stjórnmálamenn á hægri væng og langt yfir miðjuna til vinstri safnast nú saman í harmasöngnum um mikilmennið SB, mesta áhrifavaldinn í ítölskum stjórnmálum síðustu áratuga. Draumurinn hvarf með hundruðum blárra gúmmíblaðra sem sleppt var í loftið á dómkirkjutorginu við lok útfararinnar.

Kannski er arfleifð SB einmitt þessi: hann skilur eftir sig stjórnmálasvið án innihalds. Stjórnmálaþátttaka almennings hefur farið hraðminnkanndi, og samkvæmt ítölsku hagstofunni fór kosningaþátttaka úr 87% árið 1992 í 64% árið 2022. Þetta þýðir að almenningur lítur ekki til stjórnmálaflokkana sem breytiafls í samfélaginu með sama hætti og fyrir 30 árum. Hrun ítalska flokkakerfisins 1992 hafði vissulega sín áhrif, en kosningaþáttaka fer nú stigminnkandi með hverju árinu. Það er ekki bara FI flokkurinn sem tæmist af innihaldi með fráfalli foringjans. Hinir flokkarnir fylgja í kjölfarið. SB uppgötvaði tómarúmið 1994 og kunni að fylla það, en tómarúmið sem nú myndast er annars eðlis. Sjónvarpið er að vísu áhrifamikill miðill, en fjölmiðlun flyst nú æ meir yfir á netmiðla. Sá auglýsingamarkaður sem SB lagði undir sig undir lok 9. áratugarins flyst nú í vaxandi mæli yfir á netið og verður alþjóðlegur. Það eru Google, Youtube, Facebook, Instagram og TikTok sem leggja undir sig þennan markað, sem í æ ríkari mæli stjórnast af reiknilíkönum gervigreindarinnar þar sem valdið er falið í upplýsingabönkum internetsins. Skemmtanaefnið sem SB höndlaði með í samtali sínu við þjóðina er nú horfið til Netflix og annarra netmiðla og hinir hefðbundnu stóru fjölmiðlarisar draga saman seglin rúnir öllu trúnaðartrausti. Brotthvarf SB markar líka brotthvarf þeirrar undiröldu sem hann náði að beisla sér til hagsbóta í tækniþróun samtímans. Nú er sá tími að líða undir lok. Kannski er ítalski harmagráturinn um brotthvarf SB líka merki um eftirsjá okkar kynslóðar eftir því sem hún veit að kemur aldrei aftur. Grafhýsið á sveitasetri fjölskylduföðursins í Arcore verður nú að kalkaðri gröf kynslóðarinnar sem trúði á einstaklingsfrelsið við hlaðborð neyslusamfélagsins. Unga kynslóðin horfir annað í örvæntingarfullri leit að vegvísi til framtíðar sem aldrei hefur verið óvissari.

Forsíðumyndin er fengin af fréttasíðu Reuters
%d bloggers like this: