STJÓRNARKREPPA Á ÍTALÍU

Stjórnarkreppa á Ítalíu

Mario Draghi kveður ítalska þingið 20. júlí s.l.

SKIPSTJÓRI STEKKUR FRÁ SÖKKVANDI SKIPI SÍNU

 

„Á ítalska þinginu hafa gerst atburðir sem eiga sér ekki hliðstæðu í 100 ára sögu lýðræðis í Evrópu“.

Þannig komst heimspekingurinn Massimo Cacciari að orði í viðtali við ítalska fréttastofu í kjölfar afsagnar Mario Draghi forsætisráðherra nýverið. Hið einstaka við þessa stjórnarkreppu er að mati Cacciari sú staðreynd að „einingarstjórnin“, eins og Draghi kallaði hana, hafði starfað í 18 mánuði og „unnið stórvirki“ að mati forsætisráðherrans, stjórnin hafði vænan meirihluta á þingi og hafði ekki fengið vantrauststillögu, hvað þá vantraust. Engu að síður tók Mattarella forseti afsögn Draghi gilda og leysti upp þingið, að því er virðist í andstöðu við vilja þess: enginn stjórnarflokkanna fjögurra sem mynduðu þessa ríkisstjórn vill kannast við að hafa lýst vantrausti á stjórn sína og í kjölfarið hófst mikið hnútukast á milli þingmanna og flokka um hver bæri ábyrgð á stjórnarslitum við aðstæður sem kalla einmitt á festu, samstöðu og traust viðbrögð við pestinni, verðbólgunni, viðskiptastríðinu og hernaðinum í Evrópu þar sem Ítalía hefur þá sérstöðu að vera skuldugasta ríki álfunnar á eftir Grikklandi miðað við þjóðarframleiðslu og æpandi vandamál blasa við á öllum vígstöðum: stríðsástand í álfunni, heilbrigðiskerfi í lamasessi, skólakerfi í uppnámi eftir lokun í heilt skólaár, óðaverðbólga, atvinnuleysi 25% meðal ungs fólks, methalli á rekstri ríkissjóðs, stighækkandi vaxtakröfur á ríkisskuldum og vaxandi flóttamannastraumur svo nokkur vandamál séu talin upp. Ofan á þetta er þjóðinni nú boðið upp á kosningaslag um hásumar og þingkosningar 25. september næstkomandi.

Enginn virðist skilja þá stöðu sem upp er komin á Ítalíu, og jafnvel stjórnmálaskýrendurnir standa eftir með opinn munninn án þess að geta gefið lesendum fjölmiðla nokkra heildstæða og vitræna skýringu á því sem þarna er að gerast. Hér skal reynt að skýra myndina af veikum mætti, en undirritaður hefur fylgst með mörgum ævintýralegum kollsteypum ítalskra stjórnmála í hálfa öld og man þó ekki eftir neinu sambærilegu við það sem nú blasir við.

Ríkisstjórn Mario Draghi var mynduð 13. Febrúar 2021 að frumkvæði Sergio Mattarella forseta, sem veitti þessum fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu umboð til myndunar þriðju ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili í miðju stríði við Covid19-pestina, sem hafði valdið meiri skaða á Ítalíu en í öðrum Evrópuríkjum. Hinar ríkisstjórnirnar tvær voru samsteypustjórnir tveggja flokka, 5*-hreyfingarinnar og Lega Salvini (LS) annars vegar og 5*-hreyfingarinnar og Demókrataflokksins (PD) hins vegar. Forsætisráðherra þessara tveggja stjórna var einnig utan flokka: lögfræðingurinn Giuseppe Conte. Mario Draghi myndaði samsteypustjórn þessara þriggja flokka og flokks Silvio Berlusconi (FI), og var stjórnin kölluð „stjórn þjóðareiningar“ og hafði meginmarkmið að berjast við veirupestina og mæta þeim félagslega og efnahagslega vanda sem hún hafði valdið.

Erfitt er fyrir Íslendinga að skilja ítölsk stjórnmál vegna þess að flokkakerfið er framandlegt og tók stakkaskiptum í kjölfar réttarhalda yfir gömlu flokkunum 1991, herferð sem kennd var við hreinar hendur. Þessi réttarhöld leiddu til þess að stærstu flokkarnir voru lagðir niður eða skiptu um nöfn og nýir flokkar fylltu í skörðin. Meðal annars Forza Italia, flokkur Silvio Berlusconi, sem kalla má „miðjuflokk“ og tók við stórum hluta hefðbundinna kjósenda Kristilega Demókrataflokksins, á meðan hinn helmingurinn fluttist yfir á Demókrataflokkinn, sem í raun er arftaki gamla kommúnistaflokksins. Lega-Salvini (LS) og 5*-hreyfingin (5*) eru einnig afsprengi þessara umbrota og hafa báðir verið kenndir við „popúlisma“ af andstæðingum sínum: LS (kennd við foringjann, Matteo Salvini) byggir á fylgi millistéttar og minni atvinnurekenda, hefur alið á tortryggni í garð útlendinga og ESB og haft „fullveldi“ sem leiðarstef. 5*-hreyfingin hefur skilgreint sig sem grasrótarhreyfingu án „flokksformanns“ en skipulögð undir verndarvæng uppistandarans og grínleikarans Beppe Grillo. Hún hefur lagt áherslu á umhverfismál, jafnréttismál og baráttu gegn spillingu. Það voru þessi ólíku öfl sem stóðu að stjórn Mario Draghi, en stjórnarandstaðan var nánast eingöngu í höndum „Fratelli d‘Italia“, þjóðernissinnaðs hægriflokks sem á rætur í gamla fasistaflokknum og nýtur nú forystu kvenskörungsins Giorgiu Meloni.

Áður en við stiklum á ferli ríkisstjórnar Mario Draghi er rétt að draga fram nokkur atriði um feril hans á undan þessari stuttu innkomu hans í ítölsk stjórnmál. Hann er hagfræðingur að mennt, fæddur 1944, og stundaði háskólakennslu og fræðistörf áður en hann réðst til Alþjóðabankans á 9. áratugnum og gerðist síðan ráðuneytisstjóri í ítalska fjármálaráðuneytinu 1991. Það var á hinum örlagaríku tímum Maastricht-samkomulagsins og myntsamstarfs ESB-ríkjanna. Á þessum tíma átti Draghi m.a. ríkan þátt í framkvæmd einkavæðingar á ítölskum ríkisfyrirtækjum í samræmi við reglur ESB. Draghi tók við stjórnunarstöðu í Goldman Sachs bankanum í BNA í kringum aldamótin, um svipað leyti og Ítalía innleiddi evruna og afnam þannig sjálfstæða peningastefnu Ítalska Seðlabankans, sem nú var færð í umsjá Evrópska Seðlabankans. Draghi var bankastjóri Ítalíubankans 2006 til 2011, en þá skipaði Evrópuráðið hann í stöðu yfirmanns Seðlabanka Evrópu. Á þeim tíma glímdu ríki og fjármálastofnanir Vesturlanda við afleiðingarnar af gjaldþroti Leaman-brothers bankans í BNA. Draghi vakti mikla athygli þegar hann tók þá afdrifaríku ákvörðun að bankinn myndi hefja ótakmörkuð innkaup á ítölskum ríkisskuldabréfum, „whatever it takes“,  en þessi aðgerð var talin hafa bjargað Ítalíu frá gjaldþrotaskiptum sambærilegum við þau er urðu á Grikklandi. Aðgerðin var um leið talin hafa bjargað fjármálastofnunum Evrópu frá gjaldþrotahrynu og þar með evrunni sem gjaldmiðli. Önnur verkefni Draghi á þessum tíma fólust m.a. í skuldauppgjöri bankans og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins við Grikkland 2015, þar sem gripið var fyrir hendur þarlendra lýðræðislega kjörinna stjórnvalda til að verja evrópska lánardrottna fyrir gjaldþroti vegna greiðsluþrots Grikkja. Draghi lauk störfum hjá ESB 2019, og hafði þá hlotið mikla alþjóðlega viðurkenningu fyrir starfsframa sinn, þar sem, hann var m.a. talinn í röð valdamestu manna heims af tímaritunum Times, Fortune og Politico Europe.

Það var því söguleg ákvörðun þegar Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, kallaði Draghi til Rómar að mynda nýja kreppustjórn til að takast á við veirufaraldurinn. Hann virtist njóta takmarkalítils trausts, og þessir fjóru ólíku flokkar sem höfðu alið á fjandskap sín á milli skutust nú óðfúsir undir verndarvæng mannsins sem var kallaður „Super Mario“ og allir töldu að væri rétti maðurinn til að stýra ítölsku þjóðarskútunni í gegnum veirufaraldurinn. Segja má að Draghi hafi tekið þessa baráttu með trompi, hann réð háttsettan herforingja til að stjórna baráttunni við Covid19 og náði fljótt undraverðum árangri í bólusetningarherferðinni, þar sem 85% þjóðarinnar var fljótlega bólusett. Segja má að Draghi hafi tekist á við þetta verkefni með offorsi, þar sem hræðsla við veiruna varð skæðasta vopn stjórnvalda eins og lesa má úr eftirfarandi orðum, sem Draghi lét falla á blaðamannafundi 22. Júlí 2021:

„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.

Þessum hræðsluáróðri var síðan fylgt eftir með útgáfu veiruvegabréfs eða „græna passans“ þann 1. ágúst 2021, sem síðan var uppfærður í „super green pass“ frá 6. desember. Þessi veiruvegabréf voru bólusetningarvottorð og urðu skilyrði fyrir aðgengi að opinberum stöðum, samgöngum, þjónustu og vinnustöðum jafnt sem skólum og sjúkrahúsum og fylgdu þeim flóknar reglugerðir sem stöðugt voru í endurskoðun. Með hinu eflda veiruvegabréfi var enn hert á ákvæðum, m.a. var öllum starfsmönnum heilsugæslu og skóla og öllum yfir 50 ára aldri gert að hafa og sýna slíkt bréf, einnig á vinnustöðum, og þeir sem ekki höfðu slík vegabréf voru sviptir vinnu og launum. Þannig var í raun komið á þvingaðri bólusetningu m.a. fyrir heilbrigðisstarfsfólk, kennara og alla yfir 50 ára aldri. Reglugerðir um þessi vegabréf voru í stöðugri endurskoðun, og eru enn að einhverju leyti, en meginregla var sú að þau giltu fyrst í 9 og svo í 6 mánuði, þegar í ljós kom að bóluefni komu hvorki í veg fyrir smitun né smitburð. Samfara þessu voru gefnar út tilskipanir um grímunotkun, m.a. í grunnskólum eftir að þeir voru opnaðir aftur 2022, og má segja að allar þessar reglur og tilskipanir hafi lagst á þjóðina og breytt andrúmsloftinu í landinu öllu. Stjórnvöld töldu auðvelt að finna rök fyrir þessum aðgerðum sem eðlilega voru umdeildar, en við blasti að veirusmit ollu miklum dauðsföllum, einkum í Lombardíu-héraði, í upphafi ferilsins, og efnahagslegar afleiðingar lokana í skólum og á vinnustöðum höfðu m.a. í för með sér að verg þjóðarframleiðsla dróst saman um 7% á árinu 2021, sem var hærra hlutfall en í flestum Evrópulöndum.

Ekki er tilefni umræðu um gagnsemi eða árangur þessara aðgerða hér á þessum vettvangi, en segja má að þjóðin hafi sýnt mikla samstöðu og þolgæði í upphafi og fram eftir ári 2021, en sú samstaða hafi dvínað eftir að ljóst varð að bóluefni komu ekki í veg fyrir smit, höfðu óvæntar aukaverkanir og ekki varð marktækur munur á árangri milli ólíkra aðferða við beitingu veiruvarna er á faraldurinn leið. Hins vegar er óhætt að segja að þær hörðu reglur og sú stífa eftirfylgni sem ríkisstjórn Draghi sýndi hafi skilað tölfræðilegum árangri í fjölda bólusetninga, um leið og aðferðafræðin við sóttvarnirnar varð jafnframt lýsandi fyrir stjórnarhætti hans á öðrum sviðum stjórnmálanna. Þá er ástæða til að benda á að skoðanaskipti eða gagnrýni á ýmsa þætti veiruvarnanna voru nánast bannaðar í fjölmiðlum og þeir stimplaðir sem „afneitunarsinnar“ er höfðu aðrar skoðanir en stjórnvöld á þessum málum. Veirufaraldurinn varð þannig valdur að nánast trúarlegu ofstæki, sem oft reynist grunnt á þegar maðurinn stendur frammi fyrir vanda eða hættu sem hann hefur ekki fullan skilning og vald á. Slík afstaða var í raun grunnurinn að ofangreindri yfirlýsingu Draghi á blaðamannafundinum í júlí 2021. Þannig máttu þeir sem höfðu meira eða minna rökstuddar efasemdir um ólíka þætti veiruvarnanna þola að vera stimplaðir sem „utangarðsmenn“ er væru hættulegir „smitberar“ og ættu ekki rétt til málfrelsis eða jafnvel vinnu eins og aðrir. Í tiltölulega þröngum hópi andstæðinga bólusetninga var þessari reynslu líkt við harðstjórn er fæli í sér brot á mannréttindum og lýðræðislegum rétti. Því er ekki að leyna að svörnustu andstæðingar Draghi bera hann þessum þungu sökum.

Samhliða heilsuvörnunum greip stjórn Draghi til fjölþættra efnahagslegra ráðstafana til að jafna þá efnahagslegu byrði sem veirufaraldurinn olli. Þar var 5* hreyfingin virk og stóð fast við fyrri löggjöf um borgaralaun og um afsláttarbónusa er áttu að létta byrði hinna verst settu. Allar slíkar aðgerðir voru augljóslega umdeilanlegar þegar kom að útfærslu þeirra og var það einmitt eitt af þeim deiluefnum sem komu upp á endaspretti stjórnarinnar. Slíkar ráðstafanir tengdust líka framkvæmd umbóta í stjórnsýslulögum sem ESB gerði kröfu um í tengslum við endurreisnarráðstafanirnar sem efnt var til vegna veirufaraldursins. Um var að ræða endurreisnarsjóð upp á 750 milljarða evra sem áttu að vera lán til langs tíma og að hluta til styrkir. Af þessum sjóði átti Ítalía að fá nærri 200 milljarða  vegna þess að faraldurinn var talinn hafa valdið mestum skaða þar. Mario Draghi átti virkan þátt í ákvörðunum ESB um endurreisnarsjóðinn.

Annað atriði sem skipti máli á stjórnarferli Draghi voru kosningar til forseta Ítalíu sem fóru fram í lok janúar 2022, mánuði fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Sjö ára kjörtímabili Sergio Mattarella (f. 1941) var lokið og hann hafði lýst því yfir að samkvæmt hefð og reglum myndi hann vilja hætta. Miklar deilur spunnust um eftirmanninn, en forsetinn er kosinn af þinginu. Engin sátt náðist um eftirmanninn, en sú hugmynd lá í loftinu að enginn væri betur hæfur til þessa embættis en Mario Draghi. Sú laumufrétt var líka á kreiki að hann hefði áhuga á starfinu. Niðurstaðan í þessu valdatafli varð hins vegar sú að Mattarella gaf kost á sér til endurkjörs, og var það túlkað af fréttaskýrendum sem svik við Draghi, sem hafði einmitt þegið stjórnarmyndunarleyfið úr hendi forsetans. Segja má að óþol hafi gert vart við sig í starfsháttum forsætisráðherrans eftir þessar niðurstöður.

Slagurinn um forsetaembættið var þó eins og lognið á undan þeim stormi sem skall á mánuði síðar með innrás Rússa í Úkraínu, sem þarlend stjórnvöld kalla „sérstakar aðgerðir“.  Viðbrögð Bandaríkjanna, NATO og ESB við þessum atburðum eru alkunn, en kannski ekki þáttur Mario Draghi í útfærslu tæknilegra atriða á viðskiptabanninu, einkum gagnvart Seðlabanka Rússlands og öðrum rússneskum fjármálastofnunum. Nýlega lýsti Joe Biden því yfir, að Draghi hefði verið nánasti og tryggasti samstarfsmaður Bandaríkjanna í Evrópu við framkvæmd viðskiptabannsins og virkjun ESB og NATO í aðstoð við Úkraínu. Það framlag ítalska forsætisráðherrans hefur hins vegar ekki verið gert opinbert að öðru leyti. En ljóst er að Mario Draghi beitti sér fyrir nánu samstarfi Evrópu við Bandaríkin í þessari deilu, og taldi Biden ástæðu til að nefna framlag hans til þessara mála sérstaklega í tilefni stjórnarslitanna. Sem kunnugt er lýstu bandarísk stjórnvöld, NATO og ESB, því yfir í upphafi stríðsins að viðskiptabannið myndi á skömmum tíma rústa rússnesku efnahagslífi, gera rúbluna verðlausa og gera eftirleik Úkraínumanna auðveldan: að sigra Rússa hernaðarlega. Nú, fimm mánuðum síðar, blasir annar veruleiki við: viðskiptabannið er orðin versta ógn gegn efnahag Evrópu frá stríðslokum, rússneski gjaldmiðillinn hefur aldrei verið hærri og landhernaður Rússa er í stöðugri framrás. Jafnframt glímir Ítalía -eins og aðrar Evrópuþjóðir – við orkuskort, stórhækkað verð á olíu, gasi og matvælum og ófyrirsjáanlegar þrengingar þegar eldsneytisskortur gerir vart við sig í vetur. ESB hefur þegar sett fram reglur um 15% niðurskurð á gasneyslu ESB landa í vetur, en Portúgal, Spánn og Ítalía hafa þegar mótmælt þessum tilmælum. Ofan á þetta bætast kröfur um aukinn stuðning við úkraínsk stjórnvöld með vopnum og fjármunum.

Hvernig tengjast þessi vandamál stjórnarslitunum á Ítalíu?

Ljóst er að rétt eins og almenningur tók tiltölulega fljótt við sér og sýndi samstöðu í bólusetningaherferðinni gegn veirunni, þá voru Ítalir eins og flestir Evrópubúar tilbúnir að sýna Úkraínu stuðning gegn grimmilegri innrás. Ítalía hefur þegar tekið á móti yfir 100.000 flóttamönnum frá Úkraínu og ríkisstjórn Mario Draghi hefur lagt áherslu á skilyrðislausan stuðning Ítalíu við stefnu NATO í þessari deilu, bæði hvað varðar fjármuni og hergögn. Andspænis þessum vanda eru hins vegar ýmis álitamál sem ekki hafa fengist rædd á þinginu, ekki frekar en álitamál um veiruvandann, og er það mikilvægur þáttur í þeim ágreiningi sem upp hefur komið í stjórnmálaumræðunni og Giuseppe Conte, leiðtogi 5* hreyfingarinnar, hefur lagt áherslu á að þurfi þinglega meðferð og umræður.

Segja má að stjórnarflokkarnir hafi að mestu leyti þagað um ágreiningsmál sín lengst af, en 5*-hreyfingin hafi átt frumkvæði að því að gera þau opinber. Sá ágreiningur komst þó ekki í hámæli fyrr en sá óvænti atburður átti sér stað að Luigi di Maio, einn af stofnendum 5*, sem hreppti utanríkisráðuneytið í stjórn Draghi, sagði sig úr hreyfingunni og með honum um 60 þingmenn hennar þann 21. Júní síðastliðinn. Di Maio lýsti því yfir að hreyfingin ynni gegn stjórninni og að hinar gömlu hugsjónir hreyfingarinnar um grasrótarlýðræði og andstöðu við ESB og Atlantshafssamstarfið, umhverfismál og friðarboðskap væru úrelt. Sagðist di Maio hyggja á stofnun nýs stjórnmálaafls „fyrir framtíðina“. Samfara þessu komst sá orðrómur á kreik að Draghi hefði farið þess á leit við Beppe Grillo, „verndara“ og stofnanda hreyfingarinnar, að hún losaði sig við lögfræðinginn Giuseppe Conte. Þessir atburðir gerðu hið nána samstarf di Maio og Draghi opinbert og sameiginlega óvild þeirra gagnvart Giuseppe Conte.

Þessi atburðarás bregður ljósi á það sem eftir fylgdi. Draghi fylgdi áfram þeim starfsháttum sínum gagnvart þinginu að bera þingmál undir atkvæðagreiðslu án málefnalegra umræðna, og virti að vettugi m.a. kröfu Conte um að vopnasendingar Ítalíu til Úkraínu yrðu teknar til umræðu. Innan hreyfingarinnar voru þær skoðanir áberandi að vopnasendingar bæru olíu á eldana í Úkraínu og væru ekki vænlegar til vopnahlés- eða friðarsamninga. Conte setti ekki fram aðrar kröfur en umræður um þessi álitamál og ýmis önnur. Þegar umleitunum hans var hafnað og stjórnin setti fram málefni sín í formi traustsyfirlýsingar á stjórnina ákváðu stuðningsmenn Conte í efri deild þingsins að sniðganga atkvæðagreiðsluna. Draghi brást við með því að fara á fund forseta og biðjast lausnar. Stjórn um „þjóðareiningu“ væri ekki starfhæf án virkrar þátttöku 5*. Mattarella forseti sagði lausn ekki í boði nema stjórnin hefði tapað meirihluta á þingi. Draghi yrði að fá traustyfirlýsingu þingsins. Þar með var sviðið sett fyrir þann fáheyrða atburð sem átti sér stað 20. júlí s.l., viku eftir fyrri afsagnarbeiðni Draghi.

 

Þingfundur var settur í efri deild þingsins, þar sem afgreiða átti traust á ríkisstjórnina. Enginn af flokkunum 4 hafði lýst vantrausti á stjórnina, þingmenn 5* höfðu aðeins sniðgengið eina atkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Mario Draghi talaði í um 30 mínútur og byrjaði á að þakka samstarfsmönnum sínum í stjórnarflokkunum fyrir drengilegt samstarf við úrlausn margra erfiðra þjóðþrifamála, stjórnarsamstarfi sem hann væri stoltur af. Lýsti hann síðan einstökum málefnum sem stjórnin hefði hrint í framkvæmd. Ræða hans fékk glimrandi undirtektir þingmanna, jafnvel svo að Draghi komst við og sagði að jafnvel bankastjórahjörtu kynnu að hrærast. En síðan breytti hann skyndilega um tón og fór að tala um „óleyfilegar“ athugasemdir sem ótilgreindir aðilar hefðu haft í frammi við afgreiðslu einstakra mála, og nefndi þar bæði málefni er snerti 5* og LS flokkinn sérstaklega. Á endanum varð ræðan að reiðilestri sem greinilega fór fyrir brjóstið á mörgum stjórnarliðum. Ráðherrann lauk máli sínu með því að segja að hann myndi fara á fund forseta næsta morgun til að tilkynna honum ákvörðun sína.

Síðan urðu líflegar umræður, sem óþarfi er að rekja hér, nema hvað LS setti fram kröfu um myndun nýrrar „sáttastjórnar“ þar sem 5* hreyfingin yrði útilokuð, en LS fengi fleiri ráðherrastóla. Síðan kom ein tillaga til atkvæðagreiðslu. Hún var eins og sniðin fyrir Mattarella forseta og hljóðaði svona:

„Efri deild þingsins,

Eftir að hafa hlustað á orð forsætisráðherrans

Veitir þeim samþykki sitt.“

Undirskrift: Ferdinando Casini

Óútfyllt ávísun Mario Draghi til ítalskra þingmanna

Ljóst var að hér var um hreina ögrun að ræða frá forsætisráðherra til samstarfsflokka sinna: hér er auð ávísun sem þið eigið að skrifa undir, það sem ég segi eru lög.

Skyndilega höfðu veður skipast í lofti. Í upphafi þessa þingfundar bjuggust allir við sáttum og áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Skyndilega var það ekki bara 5* hreyfingin sem hundsaði þessa atkvæðagreiðslu, heldur líka LS og FI, flokkur Silvio Berlusconi. Tveir ráðherrar úr flokki Berlusconi sögðu sig úr flokknum eftir atkvæðagreiðsluna. Ljóst var að Draghi myndi ítreka afsögn sína við forsetann daginn eftir. Það gekk eftir og Draghi fékk því framgengt að þingið var leyst upp, þingmenn voru sviptir rétti sínum til þingsetu og boðað var til kosninga 25. september. Hér hafði það gerst í fyrsta skipti í sögu evrópsks þingræðis að efnt var til stjórnarslita án vantrausts, forsætisráðherra veitt lausn að eigin kröfu og þingmenn sviptir þinghelgi gegn eigin vilja.

Hér hefur þessari atburðarás verið lýst í nokkrum smáatriðum  vegna þess að hún er, eins og heimspekingurinn Cacciari sagði, einstök í sögu evrópsks þingræðis. Hann bætti því reyndar við að þessi atburðarás væri „óskiljanleg rökleysa“. En þegar betur er að gáð má kannski sjá í þessum vef forboða og endurtekningu þess sem er að gerast bæði vestan og austan Atlantshafsins: Stjórnmálin eru orðin innihaldslaus, lýðræðið er orðið að leiksýningu, leiðtogarnir sem hafa spunnið vefinn í kringum Hrunadansinn í Úkraínu hafa misst tökin á veruleikanum og dansa í lausu lofti. Um svipað leyti og þingkosningar verða á Ítalíu verða svokallaðar „Midterm“-kosningar í Bandaríkjunum þar sem Joe Biden á von á miklum hrakförum. Bresk stjórnmál eru í uppnámi í kjölfar Brexit- og Úkraínuævintyra Johnsons, götubardagar eru háðir í Amsterdam vegna hækkana á orku, áburði og matvælum, Macron Frakklandsforseti hefur misst meirihluta á þingi og þar með ímyndað forystuhlutverk sitt í Evrópu, Þjóðverjar búa sig undir frostavetur, Spánverjar og Portúgalar mótmæla orkustefnu ESB, og síðast en ekki síst: Mario Draghi, „Super Mario“, skilur þjóð sína eftir ráðalausa andspænis óyfirstíganlegu skuldafjalli, orkuskorti, atvinnuleysi og verðbólgu. Það er skiljanlegt að hann vilji stökkva frá borði áður en skipið sekkur, rétt eins og kapteinn Schettino gerði, skipstjórinn á skemmtiferðaskipinu Costa Concordia sem sigldi skipi sínu í strand við Isola del Giglio fyrir réttum 10 árum síðan.

 

Forsíðumyndin er af skemmtiferðaskipinu Costa Concordia, sem strandaði við Isola del Giglio 2012

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Átakavettvangur kosninganna á Ítalíu

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Ég hef reynt að fylgjast með stjórnmálum á Ítalíu frá því ég kom þangað fyrst fyrir 52 árum síðan.
Oft hefur verið erfitt fyrir utanaðkomandi gesti að skilja þann flókna hagsmunavef sem hefur mótað þessa ævintýralegu sögu sem oft hefur nálgast átakavettvang glæpareifarans með hinu flókna hugmyndafræðilega samspili kaþólsku og kommúnisma, miðstýringar og stjórnleysis sem hefur einkennt þessa sögu. Og enn í dag ganga Ítalir að kjörborðinu í sögulegum kosningum til þingsins, og satt að segja virðist átakavettvangurinn flóknari nú en nokkru sinni og niðurstöðurnar ófyrirsjáanlegri.
Málið er flóknara en svo að það komist fyrir á einni blog-síðu, og forsagan flóknari en hægt er að skýra í stuttu máli.
Margir flokkar og „flokkabandalög“ eru í framboði og kosningalögin eru nánast óskiljanleg fyrir allan almenning, að hluta til eiga úrslitn að verðlauna stærstu flokkana, að hluta til eiga allir flokkar að búa við sömu hlutfallaregluna.
Þessi óskapnaður var málamiðlun Demókrataflokksins og FI-flokksins (flokks Silvio Berlusconi) og átti að tryggja tveggja flokka kerfi. Það þveröfuga gerðist og síðasta áratuginn hafa amk. þrír flokkar verið á jöfnu róli, og nú enn fleiri, en það sem ruglar dæmið er einkum 5 stjörnu hreyfingin sem kennd er við grínistann Beppe Grillo, sem síustu skoðanakannanir segja stærsta flokkinn með um 30% fylgi. Þessi flokkur eða hreyfing hefur ekki staðfesta stefnu í öðru en að „vera á móti kerfinu“ og hefur því ekki verið tekinn alvarlega af hinum flokkunum.
Hinir pólarnir eru Demókrataflokkurinn (PD) sem er sögulegir arftaki gamla Kommúnistaflokksins og telst meðal sósíaldemókrata á evrópskan mælikvarða (og skoðanakannanir hafa sagt hafa um eða undir 20% atkvæða) og Kosningabandalag Mið-hægri flokkanna (hagsmunabandalag vegna kosningalaganna) sem skoðanakannanir hafa sagt sigurstranglegast með allt að 40%. Þetta er bandalag FI, Lega og Fratelli d’Italia, þar sem FI og Lega eru taldir berjast um yfirráð með rúm 15% hvor flokkur og Fratelli-flokkurinn 5-10%. Skoðanakannanir eru 2 vikna gamlar og því ónákvæmar.

Fyrir utanaðkomandi er þetta síðasttalda bandalag mesta ráðgátan,en FI flokkurinn (og mið-hægri bandalagið) eru gjarnan kennd við Silvio Berlusconi, margdæmdann fjársvikamann sem hefur verið sviptur kjörgengi og er því ekki í framboði. Flokkur hans er því höfuðlaus her, og tilnefndi sinn kandidat í forsætisráðuneytið örfáum dögum fyrir kosningar, lítt þekktan þingmann Evrópuþingsins sem ekki tekur þátt í kosningabaráttunni.

Það er ekki síst bandalagsflokkur Berlusconi, Lega-flokkurinn, sem hefur sett svip á kosningabaráttuna og valdið umróti og ótta, ekki síst vegna stefnu sinnar í Evrópumálum og gagnvart innflytjendum. Þessi flokkur á sér sögu sem flokkur aðskilnaðarsinna N-Ítalíu frá Róm, en átti engu að síður lengi samstarf við flokk SB á stjórnartíma hans. Lega flokkurinn hefur nú kúvent, tekið „norður“-hugtakið úr nafni sínu og hafið kosningabaráttu af miklum krafti á landsvísu. Þessi umskipti hafa staðið yfir síðustu 2 árin, en urðu afgerandi þegar flokksleiðtoginn Salvini leiddi tvo virta hagfræðinga til áhrifa innan flokksins sem hafa frá áramótum hleypt nýju blóði í hina pólitísku umræðu, þó málflutningur þeirra hafi átt erfitt uppdráttar í meginfjölmiðlum. Margir spá því nú að Lega-flokkurinn verði stærri en FI innan „Mið-hægri bandalagsins“ og fái því rétt til að tilnefna forsætisráðherraefni bandalagsins. Það vald er þó formlega í höndum Mattarella forseta lýðveldisins.

Hver eru þá deiluefnin sem kosningarnar snúast um?
Það sem fyrst blasir við hjá hinum almenna kjósanda er atvinnuleysið sem hefur verið 12% og 25-30% hjá ungu fólki. Þetta hefur verið viðvarandi ástand undanfarinn áratug og tengist efnahagslegri stöðnun sem lýsir sér í samdrætti í þjóðarframleiðslu og samdrætti í félagslegri þjónustu. Upphaflega var þessi slæma útkoma gjarnan tengd stjórnarferli Silvio Berlusconi, en þar sem PD hefur ekki fundið lausnir á þessum vanda á valdatíma sínum hefur almenningur glatað trausti sínu á flokkakerfinu, hinni hefðbundnu pólitík, og þannig skýrist hið mikla fylgi 5 stjörnu hreyfingarinnar. Fáir trúa því þó að sú hreyfing hafi lausnir á þessum vanda, og því leita menn skýringa annars staðar.

Þessi umræða hefur tengst innflytjendavandanum og tregðu Evrópusambandsins að deila þeim vanda með Ítölum, sem hafa borið þyngstu byrðina eftir innrás NATO-ríkja í Líbýu og hernað BNA og bandalagsríkjanna í Mið-Austurlöndum með tilheyrandi flóttamannastraumi.

Það eru þessi tengsl ESB við hinn pólitíska vanda á Ítalíu sem nú veldur titringi í valdamiðstöðum sambandsins í Brussel, Berlín og Frankfurt. Það er ekki síst málflutningur Lega-flokksins sem veldur þessum skjálfta, en einnig tortryggni í garð sambandsins meðal kjósenda 5 stjörnu hreyfingarinnar og flokks Berlusconi. En Berlusconi lýsti því nýverið yfir að hann myndi senda 600.000 „ólöglega“ innflytjendur til heimahúsanna ef hann kæmist til valda.

Hin almenna pólitíska umræða í Evrópu hefur búið til orðið „popúlisma“ um þau stjórnmálaöfl sem hafa haft uppi efasemdir um myntsamstarfið og og þá skerðingu á lýðræði sem Evrópusamstarfið hefur haft í för með sér. Þetta neikvæða slagorð er til þess fallið að breiða yfir þann raunverulega vanda sem blasir við öllum almenningi og gefur nú til kynna að öll stærstu stjórnmálaöflin á Ítalíu að Demókrataflokknum undanskildum séu „popúlísk“ og sem slík óalandi og óferjandi. Demókrataflokkurinn gengur til móts við sögulegan ósigur í kosnngunum í dag undir kjörorðum um „stöðugleika“ og „ábyrgð“ er felast í óbreyttum grundvallarreglum í samstarfinu innan ESB. Öll hin öflin beina spjótum sínum gegn ESB.

Þar eru áherslur þó mismunandi. Fimm stjörnu-hreyfingin er hætt að berjast fyrir úrsögn úr myntsamstarfinu, án þess að benda á valkosti. Silvio Berlusconi segist líka styðja myntsamstarfið en hefur óskýra stefnu gagnvart sambandinu að öðru leyti. Hagfræðingarnir sem hafa gengið til liðs við Lega-flokkinn hafa hins vegar beitt sinni fræðilegu þekkingu til þess að greina þann vanda sem myntsamstarfið hefur skapað, og reynt að móta mótvægisstefnu gegn þeim.

Hagfræðingurinn Alberto Bagnai, sem er helsti efnahagsráðgjafi Lega flokksins, á sér sögu sem fræðimaður og gagnrýnandi myntsamstarfsins allt frá því Maastricht samkomulagið var gert 1992, en það var undanfari Evrunnar sem tekin var í notkun 2002. Bagnai hefur með sannfærandi fræðilegum málflutningi rakið meginorsök þeirrar stöðnunar sem verið hefur viðvarandi á Ítalíu undanfarinn áratug til þess ójöfnuðar sem óhjákvæmilega verður fylgifiskur þess að ólík hagkerfi eiga að starfa í innbyrðis samkeppni undir sama gjaldmiðli án þess að hann sé tengdur sameiginlegri stjórnsýslu hvað varðar vexti, viðskiptajöfnuð skuldaábyrgð og aðra meginþætti stjórnmálanna. Það merkilega er að þessi hagfræðingur skrifaði sínar fræðigreinar upphaflega í málgögn sem voru talin yst á vinstri-vængnum (il manifesto og síðar Il Fatto Quitidiano) en er nú helsti málsvari Lega-flokksins sem telst „til hægri“ við flokk Berlusconi og hefur uppi slagorð um „þjóðleg gildi“ og „Ítalía fyrst“ í anda Trump forseta BNA. Enginn fræðimaður hefur svarað greiningu Bagnai með fræðilegum rökum, enda eru hagfræðiskýringar hans byggðar á alþekktum rökum sem nóbelsverðlaunahafinn Stieglitz hefur verið hvað ötulastur að setja fram um strúktúrgalla evrópska myntsamstarfsins. Hér stöndum við þannig frammi fyrir þeirri þversögn að hið málefnalega frumkvæði í kosningabaráttunni hefur komið fram frá gömlum róttæklingi sem nú er í framboði fyrir flokk sem er ekki bara kenndur við popúlisma, heldur jafnvel rasisma og kynþáttastefnu.

Þetta skýrir að einhverju leyti glundroðann í ítölsku kosningabaráttunni, en segir þó alls ekki alla söguna. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að Evran hefur gert Þýskaland með sinn jákvæða viðskiptajöfnuð að fjárhagslegu yfirvaldi yfir þeim „jaðarríkjum“ innan sambandsins sem búa við neikvæðan viðskiptajöfnuð en sama gjaldmiðil og að þau eru dæmd til viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar með „niðurskurðarstefnu“ ESB. Þó búið sé að greina efnahagslegu forsendurnar, þá skortir á hina pólitísku, tilfinningalegu og sálfræðilegu greiningu sem tengist þessum leikreglum óbeint, en einnig heimspólitíkinni í víðara samhengi.

ESB var sambandið sem átti að efla jaðarríkin til jafnræðis við höfuðbólin í Þýslkalandi og Frakklandi. Nú hefur hið þveröfuga sýnt sig að vera niðurstaðan eftir 10 ára stöðnunartímabil. Þá kemur í ljós að þessi vandi virðist ekki komast á dagskrá stjórnmálanna, þar sem hann er ofar því sem kallað hefur verið „sjálfsákvörðunarréttur þjóða“, og er orðið úrelt slagorð í alþjóðastjórnmálum eins og Grikkir hafa t.d. sannreynt. Þjóðríkið sem slíkt hefur fúnar og feysknar undirstöður á tímum hins fjölþjóðlega fjármálavalds, og almenningur skynjar vel að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið eða ekkert að segja um vandamál dagsins: réttinn til vinnu, menntunar, heilsugæslu, lífeyris o.s.frv.

Þetta skapar ekki bara efnahagslega neyð eða skort, þetta framkallar tilfinningalegt og sálrænt öryggisleysi sem birtist í vantrausti á stjórnmálunum og uppvaxandi „popúlisma“. Hverjar eru sálrænar og tilfinningalegar afleiðingar þess að upplifa upplausn slíkrar undirstöðu tilverunnar sem hugtakið „sjálfsákvörðnarréttur þjóða“ hefur verið allt frá tilkomu upplýsingar í Evrópu á 17. og 18. öldinni?

Þetta eru spurningar sem ekki komast upp á yfirborðið í kosningabaráttunni á Ítalíu, en kalla engu að síður á umhugsun ef við viljum í reynd reyna að skilja hvernig stjórnmálaumhverfið getur breyst með jafn afgerandi hætti á svo stuttum tíma. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eins og er þá hafa hugtökin hægri og vinstri ekki skýra merkingu í ítölsku kosningabaráttunni. Þetta ástand á sér hliðstæður í Austurríki, Frakklandi, Póllandi, Ungverjalandi, Króatíu, Grikklandi og þó víðar væri leitað, svo ekki sé minnst á Bretland.

Einhver kynni að halda að ég væri með þessum pistli að lýsa yfir stuðningi mínum við „hægri-flokkinn“ Lega Salvini, sem hefur verið orðaður við rasisma og flest illt. Það er ekki svo. Mér sýnist margt undarlegt við einstakar hugmyndir þessa flokks, en umfram allt þá er eitt sem skortir í málflutning allra flokkanna sem nú gefa kost á sér til þingsins á Ítalíu: spurningin um framtíðarmarkmið ESB og hlutverk þess í heiminum. ESB hafði í upphafi stórbrotin markmið um að skapa frið í álfunni. Nú er Sambandið orðið uppspretta nýrrar þjóðernisstefnu, sem getur allt eins orðið stórhættuleg ef hún miðar að afturhvarfi til hins gamla þjóðríkis. Mikilvægasta vandamálið í Evrópskum stórnmálum á okkar tímum er að marka ESB framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem íbúar Evrópu geta fundið sig í sem fullgildir þegnar. Afturhvarf til hins gamla þjóðríkis mun fela í sér upplausn og átök. Því miður var mikilvægasta pólitíska vandamálið í Evrópu ekki á dagskrá í ítölsku þingkosningunum  2018.

%d bloggers like this: