Fyrirlestur um hið ófullgerða höfuðverk Nietzsche Wille zur Macht
Þýðing út Martin Heidegger: Nietzsche, nuova edizione ampliata, a cura di Franco Volpi. Útg. Gli Adelphi, Milano 1994. Bls. 33-39
Þetta er 3. kaflinn í þessu mikla ritverki, sem gefur ágrip af viðfangsefninu, heildarmynd þess og þeirri miklu áskorun sem í því er fólgin.
Eining viljans til valds, hinnar eilífu endurkomu og endurmats grunngildanna
Kenningin um eilífa endurkomu hins sama er nátengd kenningunni um viljann til valds. Í heild sinnin skilgreinir þessi kenning sjálfa sig sögulega séð sem grundvallar endurmat á öllum þeim gildum sem við höfum miðað við til þessa.
En hvað er það sem tengir saman þessar kenningar um endurkomu hins sama og viljann til valds í raun og veru? Við þurfum að kryfja þessa spurningu til mergjar, einmitt vegna þess að hún er lykilspurning. Til að byrja með verðum við hins vegar að láta okkur nægja svar í formi vísbendingar.
Orðin „vilji til valds“ nefna grundvallar einkenni verunnar. Hvaða vera sem er, er -að því marki sem hún er – er vilji til valds. Staðhæfingin segir okkur um eðli verunnar sem slíkrar. Þetta er hins vegar ekki tæmandi svar við fyrstu sönnu spurningu heimspekinnar, heldur einungis við síðustu bráðabirgðaspurningunni. Fyrir þeim sem við endalok vestrænnar heimspeki vill og getur enn orðað spurningar með heimspekilegum hætti snýst grundvallar spurningin ekki einvörðungu um hvert sé grundvallar eðli verunnar, hvað einkenni verund verunnar, heldur er það spurningin sem spyr: hvað er þessi vera í sjálfri sér? Það er spurningin um „vitið í verunni“ (senso dell‘esere) en ekki bara um verund verunnar. Hugtakið „vit“ (senso) er hér nákvæmlega skilgreint eins og, út frá hverju og á hvaða grundvelli, verundin geti sýnt sig og stigið inn í sannleikann sem slík. Það sem hér er kynnt sem verufræði (ontologia) hefur ekkert með hina sönnu spurningu verunnar að gera, hún snýst um afbyggingu hinna hefðbundnu hugtaka, að stefna þeim hvert gegn öðru og gera þau óvirk.
Hvað og hvernig er sjálfur viljinn til valds? Svar: hin eilífa endurkoma hins sama.
Er það kannski einskær tilviljun að þessi kenning gerir stöðugt og endurtekið vart við sig á ögurstundum í því sem átti að verða mikilvægasta heimspekiverk Nietzsche? [Ófullgerða bókin um „Viljann til valds“ innsk. Þýð.] Hvað skyldi hafa ráðið því að í drögum að þessu verki, sem bera yfirskriftina „Hin eilífa endurkoma“, skuli Nietzsche hafa byrjað upphafskaflann með þessum titli: „Þyngsta hugsunin“?
Vissulega er spurningin um veruna mikilvægasta spurningin innan heimspekinnar því hún varðar í senn nákomnustu hugsanir hennar og þær úthverfustu, það er hugsunin sem hún stendur og fellur með.
Við höfum heyrt að grundvallar eiginleiki verunnar sé viljinn til valds. Það er vilji sem felur einnig í sér verðandi. En Nietzsche nemur ekki staðar hér, eins og yfirleitt er haldið fram þegar honum er líkt við Heraklítos. Í kaflabroti [handritsinnlegg í „Viljann til valds“] er þetta að finna: Samantekt: að festa eðli verðandinnar í einkenni verunnar -Þar er hinn æðsta vilja til valds að finna.
Þetta felur í sér að verðandin er, en einungis ef hún er byggð á verunni sem veru: „Að allt komi aftur er sterkasta nálgun heims verðandinnar við heim verunnar: hátindur hugleiðslunnar“. Með kenningu sinni um hina eilífu endurkomu gerir Nietzsche ekki annað en að hugsa með sínum hætti þá hugsun sem er ráðandi í allri sögu vestrænnar heimspeki. Hann gerir það hins vegar með duldum hætti sem raunverulega ráðandi hugsun. Nietzsche hugsar þessa hugsun með því að hverfa með frumspeki sína aftur til upphafs vestrænnar heimspekihefðar – sem einnig mætti orða svona: til upphafsins eins og hin vestræna heimspeki hafði vanið sig á að hugsa það í sögunnar rás, hefð eða vani sem Nietzsche fylgdi líka, þrátt fyrir hinn frumlega skilning sinn á heimspekinni fyrir tíma Sókratesari.
Samkvæmt ríkjandi almenningsáliti þá er Nietzsche byltingarmaðurinn sem afneitar, eyðileggur og hefur uppi forspár – allt tilheyrir þetta vissulega ímynd hans, og varla er það hlutverk sem hann vék sér undan að leika, enda til þess kallaður af samtíma sínum. En grundvallaratriðið fyrir byltingarmann er ekki umturnunin sem slík, heldur að með umturnuninni dregur hann fram í ljósið það sem er afgerandi og mestu máli skiptir. Í heimspekinni finnum þetta gerast í hinum fáu stóru spurningum, alltaf þegar þær koma fram. Þegar Nietzsche „á hátindi hugleiðslunnar“ hugsar „þyngstu hugsunina“, þá er hann að hugsa og hugleiða veruna, það er að segja viljann til valds, sem eilífa endurkomu. Hvað merkir þetta – skilið í grundvallaratriðum sínum? Það merkir eilífðina, ekki sem „stund“ er stendur kyrr, og heldur ekki sem framvindu er heldur áfram í það óendanlega, heldur sem stundina er endurspeglast í sjálfri sér. En hvað getur þetta verið annað en hinn duldi kjarni tímans? Að hugsa veruna, viljann til valds, sem eilífa endurkomu, að hugsa þyngstu hugsun heimspekinnar felur í sér að hugsa veruna sem tíma. Nietzsche hugsaði þessa hugsun, en hann hafði ekki enn náð þeim áfanga að hugsa hana sem spurninguna um veruna og tímann. Platon og Aristóteles hugsuðu einnig þessa hugsun þegar þeir hugsuðu veruna sem ουσια (ousia) [i], en rétt eins og Nietzsche hugsuðu þeir hana ekki sem spurningu.
Ef við leggjum nú fram þessa spurningu, þá er það ekki vegna þess að við teljum okkur gáfaðri en Nietzsche eða hin vestræna heimspeki, sem Nietzsche hugsar „einungis“ til botns. Við vitum að þyngstu hugsanir heimspekinnar eru orðnar enn þyngri, að hátindi hugleiðsluþrepanna hefur enn ekki verið náð og hann kannski enn óuppgötvaður.
Ef við hugleiðum viljann til valds hjá Nietzsche, það er að segja spurninguna um veru verunnar, út frá sjónarhóli spurningarinnar um „veru og tíma“, þá felur það ekki í sér að verk Nietzsche verði sett í samhengi við bók sem hefur titilinn Vera og tími og að það sé túlkað og metið út frá því sem þar stendur skrifað. Þessa bók er einungis hægt að meta út frá því hvort hún standi undir þeim spurningum sem hún setur fram. Það er enginn annar mælikvarði en spurningin sjálf. Einungis þessi spurning nær kjarnanum, ekki bókin, sem þar að auki kemst ekki lengra en að þröskuldi spurningarinnar, ekki að innrými hennar.
Sá sem ekki hugsar hugsunina um eilífa endurkomu ásamt með viljanum til valds sem það sem heimspekinni er eðlislægtað hugsa, mun ekki skilja til fulls og í allri sinni vídd, ekki einu sinni hið frumspekilega innihald kenningarinnar um viljann til valds. Vissulega eru tengslin á milli hinnar eilífu endurkomu sem æðsta skilgreining verunnar og viljans til valds sem grundvallar eiginleika allrar veru ekki augljós. Það er ástæða þess að Nietzsche talar um „þyngstu hugsunina“ og „hátind hugleiðslunnar“. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að viðtekin túlkun á Nietzsche svipti kenninguna um eilífa endurkomu sinni sönnu heimspekilegu merkingu og útiloki sig þannig sjálfkrafa og endanlega frá öllum frjóum skilningi á frumspeki Nietzsche. Við skulum taka tvö dæmi til vitnis, sem eru að öðru leyti ótengd, þar sem fjallað er um kenninguna um eilífa endurkomu hins sama í heimspeki Nietzsche: Alfred Baeumler, Nietzsche . Der Philosoph und Politiker, Reclam Leipzig 1931, og Karl Jaspers, Nietzsche. Einfűrung in das Verständnis seines Philosophierens, de Gruyter, Berlin-Leipzig, 1936. Afneitun þessara tveggja höfunda á kenningunni um eilífa endurkomu hins sama er að okkar mati byggð á misskilningi sem er af tvennum toga og byggir á ólíkum forsendum.
Baeumler túlkar það sem Nietzsche kallar þyngstu hugsunina og hátind hugleiðslunnar sem persónulega „trúarsannfæringu“ hans og segir: „Einungis annað af tvennu fær staðist: annað hvort kenningin um eilífa endurkomu eða þá kenningin um viljann til valds“ (bls. 80). Ætla mætti að þessi niðurstaða byggi é eftirfarandi röksemdafærslu: viljinn til valds tilheyrir verðandinni, veran er skilin sem verðandi. Þetta er hin gamla kenning Heraklítosar um flæði hlutanna, sem einnig er raunverulega til staðar í kenningu Nietzsche. Hugsun hans um eilífa endurkomu hins sama getur ekki afneitað ótakmörkuðu flæði verðandinnar. Þessi hugsun kallar fram mótsögn í frumspeki Nietzsche. Þar af leiðir er það einungis viljinn til valds eða kenningin um eilífa endurkomu hins sama sem geta staðið undir heimspeki Nietzsche. Baeumler segir (á bls. 80): „Út frá kerfi Nietzsche skiptir þessi hugsun hans ekki máli“. Og á bls. 82 heldur hann því fram að sem stofnandi trúarbragða hafi Nietzsche framkvæmt „egyptavæðingu“ hinnar heraklitísku heimsmyndar. Þar af leiðandi feli kenningin um eilífa endurkomu í sér kyrrstöðu verðandinnar. Með þessari niðurstöðu sinni gengur Baeumler út frá því að Heraklítos haldi því fram með kenningu sinni að hlutirnir búi við eilíft flæði í þeim skilningi að þeir „streymi sífellt áfram“. Nokkuð er umliðið síðan við komumst að því að þessi túlkun á kenningu Heraklítosar er ekki grísk. Það er ekki síður vafasamt að þessi túlkun á Heraklítosi sé notuð til að túlka viljann til valds hjá Nietzsche sem verðandi í þeim skilningi að hann líði hjá. Endanlega verður ljóst að þetta hugtak verðandinnar er svo yfirborðslegt að ekki verður hægt að heimfæra það upp á Nietzsche. Það leiðir fyrst og fremst til þess að mótsögnin á milli kenningarinnar „verðandin er vera“ og kenningarinnar „veran er verðandi“ er ekki óhjákvæmileg. Þetta er einmitt kenning Heraklítosar. En jafnvel þó við göngum út frá því að þessar tvær kennisetningar feli í sér mótsögn, kennisetningarnar um viljann til valds og um eilífa endurkomu hins sama, þá vitum við allt frá Hegel, að mótsögn þurfi ekki endilega að fela í sér sönnun gagnvart sannleika tiltekinnar frumspekilegrar kennisetningar, heldur þvert á móti sönnun um gildi hennar. Ef við komumst að því að eilíf endurkoma hins sama og viljinn til valds feli í sér mótsögn, þá kann það einmitt að fela í sér hvatningu til að hugsa þessa hugsun til botns í stað þess að flýja á náðir hins „trúarlega“. En jafnvel þó við göngum út frá því að um ófrávíkjanlega mótsögn sé að ræða, mótsögn er þvingi okkur til að gangast annað hvort inn á viljann til valds eða hina eilífu endurkomu, þá vaknar sú spurning hvers vegna Baeumler kjósi að taka afstöðu gegn þyngstu hugsuninni, gegn hátindi hugleiðslunnar hjá Nietzsche en veðja á kenninguna um viljann til valds? Svarið er einfalt: vangaveltur Baeumlers um tengsl kennisetninganna tveggja ná aldrei með neinu móti að nálgast kjarna hinnar eiginlegu spurningar; það er hins vegar kenningin um eilífa endurkomu sem hann hefur afgreitt sem „egyptavæðingu“ er gangi gegn túlkun hans á viljanum til valds – en þó hann tali þar um frumspeki þá skilur hann ekki frumspekina heldur beitir pólitískri túlkun. Kenning Nietzsche um hina eilífu endurkomu stangast á við pólitískan skilning Beaumlers. Þess vegna skiptir kenningin „engu máli“ innan kerfis Nietzsche. Þessi túlkun á Nietzsche er þeim mun athyglisverðari þar sem Beaumler er einn af fáum sem hafa gengið gegn hinni sálfræðilegu-líffræðilegu túlkun Klages á Nietzsche.
Seinni túlkunina á kenningu Nietzsche um hina eilífu endurkomu finnum við hjá Karli Jaspers. Jaspers fjallar reyndar víða um þessa kenningu og áttar sig á að hér stöndum við frammi fyrir afgerandi hugsun í heimspeki Nietzsche. En þótt hann geri hugsunina að umtalsefni færir hann hana ekki inn á svið grundvallar spurningarinnar í vestrænni heimspeki og nær því ekki að höndla hana í sínu virka sambandi við kenninguna um viljann til valds. Baeumler telur kenninguna um eilífa endurkomu ósamræmanlega pólitískri túlkun á Nietzsche, en Jaspers telur ógerlegt að taka kenninguna alvarlega sem raunverulega spurningu, því samkvæmt hans skilningi hefur hugtakið ekki sannleiksgildi í heimspekinni né heldur hugtakslega þekkingu.
Ef því væri hins vegar þannig farið, að kenningin um eilífa endurkomu hjá Nietzsche fæli í sér innsta kjarnann í hinni frumspekilegu hugsun, væri þá ekki villandi, eða að minnsta kosti einhliða dómur, að heimfæra hann upp á alla reglu undirbúningsvinnunnar að heimspekilegu höfuðverki Nietzsche er hefði sem megintitil Viljann til valds?
Ritstjórar [útgáfunnar á Viljanum til valds] hafa sýnt mikla hugvitssemi í að draga út meginatriðin þrjú innan heildarverksins [viljinn til valds, eilíf endurkoma og grundvallar endurmat gildanna]. Það var reyndar einnig meginatriði fyrir Nietzsche sjálfan að heildarmynd hans af verunni sýndi um leið viljann til valds sem grundvallar eiginleika hennar. Þetta var hins vegar aldrei lokamarkmið hans. Ef Nietzsche var hins vegar sá hugsuður sem raun ber vitni, þá átti útlistun á viljanum til valds ávallt og stöðugt að snúast um verðandi verunnar, sem fyrir honum fólst í eilífri endurkomu hins sama.
Ef við gefum okkur að útgáfa undirbúningsskrifanna að þessu höfuðverki út frá forskriftinni um viljann til valds sé besta mögulega útgáfan, þá stöndum við engu að síður frammi fyrir þeirri staðreynd að um er að ræða útgáfu á eftirlátnum textabrotum látins höfundar. Enginn getur sagt fyrir um hvað hefði orðið úr þessum undirbúningsskrifum ef Nietzsche sjálfur hefði átt kost á að breyta þeim í það höfuðrit sitt, sem hann hafði í huga. Engu að síður er það sem hann hefur skilið eftir sig svo auðugt og mikilvægt og einnig svo afgerandi frá sjónarhóli Nietzsche sjálfs, að það kallar okkur til þess eina sem skiptir máli: að hugsa í raun og veru hina sönnu heimspekihugsun Nietzsche.
Við værum þeim mun nær því að ná þessu markmiði því minna sem við fylgdum uppröðum einstakra textabrota eins og hún hefur verið sett fram í heildarútgáfu eftirlátinna textabrota. Reyndar er þessi uppröðun einstakra textabrota og orðskviða samkvæmt uppröðun er Nietzsche sjálfur hafði hugsað handahófskennd og skiptir ekki meginmáli. Mikilvægast er að hugsa til botns einstök textabrot út frá heildarmótun spurninga, þar sem hinar sönnu spurningar eru settar á oddinn. Við munum þannig hoppa á milli textabrota á víxl miðað við fyrirliggjandi uppröðun textans. Í þessu tilfelli verður sjálfdæmið óhjákvæmilegt innan vissra marka. Það skiptir hins vegar meginmáli að hlusta á Nietzsche sjálfan, að móta spurningar í anda hans, í gegnum hann og þannig um leið gegn honum, en með þann eina sameiginlega mælikvarða er liggur í vestrænni heimspeki. Slík vinna verður einungis unnin innan vissra takmarka. Vandinn liggur í því hvar á að setja mörkin. Slík skilgreining markanna útilokar ekki, heldur þvert á móti kallar á, að þið í tímans rás vinnið verkið frá grunni með bókina Viljinn til valds í hönd út frá því verklagi sem hér hefur verið lagt upp með og ekki verður endanlega afgreitt hér.
[i] Úr Wikipedia: Much later, Martin Heidegger said that the original meaning of the word ousia was lost in its translation to the Latin, and, subsequently, in its translation to modern languages. For him, ousia means Being, not substance, that is, not some thing or some being that „stood“ (-stance) „under“ (sub-). Moreover, he also used the binomial parousia–apousia, denoting presence–absence,[clarification needed] and hypostasis denoting existence.[
Þessi grein eftir ítalska heimspekinginn Gianni Vattimo var skrifuð sérstaklega fyrir Listasafn Íslands og Mazzotta útgáfufyrirtækið, sem stóðu að útgáfu veglegrar bókar um ítalska listamanninn Claudi Parmiggiani í tilefni yfirlitssýningar á verkum hans í Listasafni Íslands í janúar árið 2000. Sýningin var opnuð í ársbyrjun á sama tíma og verk hans „Viti“ var vígt á Sandskeiði í tilefni þess að Reykjavík var ein af „menningarborgum Evrópu“ árið 2000. Sýningin, uppsetning verksins og útgáfa bókarinnar voru tilkomin vegna kynna minna við Claudio og Vattimo, en þeir höfðu meðal annars komið að eftirminnilegu alþjóðlegu vinnunámskeiði um samtímamyndlist hér á landi, Seminar on Art, sem við Helgi Þorgils Friðjónsson og Hannes Lárusson áttum frumkvæði að.
Þessi snjalla grein er ekki bara úthugsuð greining á verki Parmiggiani í heild sinni, heldur gefur þessi víðkunni heimspekingur hér jafnframt skýra grein fyrir viðhorfi sínu til hlutverks og stöðu listanna í samtímanum í stærra og sögulegu samhengi.
Það er ekki eins auðvelt á okkar dögum að skilgreina samband listamanns við vitund, menningu eða anda síns tíma, eins og það var fyrir Hegel, fyrir hina félagsfræðilegu raunhyggju, eða jafnvel að vissu marki fyrir verufræði Heideggers. Hins vegar verður því ekki neitað að við sem tökum það alvarlega að grundvallarhyggja og eðlishyggja tilheyri liðinni tíð (sannast sagna er hugtakið “við” er ekki síður umdeilanlegt í þessu samhengi), getum ekki lagt gagnrýnið mat á merkingu og gildi listaverks án þess altæka mælikvarða, sem ekki verður sýndur með öðrum hætti en í því hugtaki, sem á rætur sínar hjá Hegel – án þess þó að fela í sér kerfishugsun hans – og við getum kennt við tíðaranda. Í þeim heimi og því menningarumhverfi sem bjó við meiri fullvissu en við gerum um hvað kalla má mannlegt, fagurt, satt eða gott, snérust gildisdómar um list (umfram tæknilega fágun) einmitt um getu verksins til að kalla fram, sýna eða vekja með einhverjum hætti upp þessi grundvallargildi (t.d. í gegnum katarsis eða hreinsun ástríðnanna). Á okkar dögum, þegar trúin á möguleikana á að vísa til slíkra altækra gilda er nær horfin, kemst sá sem finnur sig hrifinn af listaverki varla hjá því að vísa til þess óljósa hugtaks sem við köllum tíðaranda – að því tilskildu að hrifningin sé ekki einskorðuð við tæknilega fágun verksins (sem reyndar er fullgildur verðleiki) eða tilkomin fyrir sérvisku áhorfandans. Tíðarandinn er þá þær sérstöku tilvistaraðstæður sem verkið talar til okkar í, þegar það talar til okkar, og hefur þannig áhrif – ef það er velheppnað verk – á upplifun okkar og stöðu við þessar kringumstæður. Það er í þessum skilningi sem Hans Georg Gadamer hefur lagt áherslu á listupplifunina sem upplifun sannleikans. Ekki í þeim skilningi að verkið leiði í ljós borðleggjandi staðreynd, hugsaða eða hlutlæga, sem væri okkur lokuð með öðrum hætti, að það sýni okkur hlutina eins og þeir séu. Hér er miklu frekar um upplifun hins sanna að ræða í skilningi “sannrar reynslu” er breyti með einhverjum hætti þeim er verður fyrir henni. Ef sannleikur listarinnar er fólginn í lýsandi afhjúpun, þá er það vegna þess að þegar verkið talar til okkar við (og um) þær tilvistarlegu aðstæður, sem við finnum okkur í, þá getur það ekki vikist undan því að endurspegla þær með einhverjum hætti. Þannig krefst sú harmræna útrás eða hreinsun (katarsis), sem Aristóteles talar um (og margir fagurfræðingar í kjölfar hans), að atburðarás verksins verði samkvæmt líkindum og nauðsyn – hvort tveggja skilið frá sjónarhóli áhorfandans en ekki út frá einhverri tiltekinni frumspekilegri forskrift. Til þess að harmleikurinn virki “hreinsandi” og veiti fagurfræðilega útrás eða nautn verður hann að sýna atburðarás sem “meðaltals”-áhorfandinn skynjar að sé í samræmi við það sem talist getur eðlilegt. Að sama skapi verður atburðarásin líka að leysast í samræmi við það sem almennt er álitið maklegt (samkvæmt siðferðilegri nauðsyn). Er mögulegt að nálgast fígúratívan listamann – í þessu tilfelli Claudio Parmiggiani – út frá þessum heimspekilegu forsendum? Út frá hinum almenna skilningi á spurningunni mætti auðveldlega svara henni játandi.
Öll listasöfn heimsins eru full af trúarlegum eða veraldlegum listaverkum og hlutum er tengjast helgisiðum og ritúölum úr okkar menningarheimi eða annarra. Þessi verk snúast oft öndverð gegn þeirri einangrun sem þau búa við innan safnveggjanna, það er að segja innan hinnar “fagurfræðilegu aðgreiningar” (Gadamer): allt eru þetta verk sem kalla ótvírætt á tengslin sem þau höfðu og hafa við þær tilvistaraðstæður sem þau eru fædd í, um leið og þau kalla á þann heim sem þau hafa hafnað í, þann heim sem staðsetur þau í safninu. (Þetta mætti segja til varnar safninu, sem er ekki bara tilbúið umhverfi, þar sem verkin eru dregin út úr sögunni, heldur líka sögulegt og hlutlægt umhverfi eins og upprunastaðurinn…) Að vísu rofnuðu hin virku tengsl listarinnar við samtíma sinn og samfélag þegar á tíma rómantísku stefnunnar. Kenningin um snillinginn féll of vel að þeirri stökkbreytingu sem hafði orðið á félagslegri stöðu listamannsins, er var í æ ríkari mæli skilgreind út frá forsendum hins “almenna” listáhorfanda, sem eru gjörólíkar forsendum hins hefðbundnu verndara listanna[1] (en hann var aftur í allt annari stöðu en listaverkasalinn, útgefandinn o.s.frv.). Með tilkomu framúrstefnulistar á 20. öldinni virðist þessi gamli skilningur á myndbirtingu veruleikans endanlega af lagður: framúrstefnumennirnir sögðu ekki bara skilið við birtingu hins sýnilega í sinni hversdagslegu mynd (það verkefni fólu þeir ljósmyndinni eða hinni akademísku, hefðbundnu og íhaldsömu list…) heldur höfðu þeir einnig sagt skilið við hið félagslega/siðferðilega hlutverk listarinnar, að minnsta kosti að því marki sem sú bylting á tungumáli listarinnar, sem framúrstefnumennirnir hrundu af stað, gerði listina (og gerir enn í dag í mörgum tilfellum) óaðgengilega fyrir hinn stóra áhorfendadahóp. Á þessu félagslega/siðferðilega sviði heldur listin í mesta lagi fram málstað útópíunnar eða neikvæðninnar, sem fræðimaður á borð við Adorno taldi reyndar grundvallaratriði.
Það á einnig við um þá list sem stendur okkur næst í tímanum, hún hefur ekki gengið miklu lengra en að gegna þessari boðun katastrófunnar eða díalektíkurinnar, boðun sannleiksgilda sem listin finnur nú að hún hefur verið svipt aðgangi að með afdrifaríkum hætti. Þetta á kannski ekki við um þá list sem gefur sig út fyrir að vera nýexpressíónísk baráttulist (og er þar af leiðandi kannski dæmd til þess að vera predikun eða einfeldningsleg mælskulist í takt við almennt félagslegt andóf). Mikið af þeirri list sem kennd hefur verið við transavanguardia (síðframúrstefnu) hefur þróast beint frá þeirri sjálfhverfu og sjálfgreinandi aðferð, sem birtist gjarnan í leik með sjónrænar formgerðir, yfir í hreina og klára skreytilist (oft með aðstoð nýjustu margmiðlunartækni). Rétt eins og málið snérist einungis um að endurheimta hina “raunsæju” mynd eftir ástæðulaust “black out”, sem hvort sem er mætti auðveldlega gleyma eða strika yfir, vegna þess að sú list hafi verið yfirfull af hugmyndafræði og uppeldisfræðilegum hugsjónum.
Þessi afstaða á sér hiðstæðu í enduruppgötvun goðsögunnar, sem víða sér stað í hugsun þess samtíma okkar, sem telur sig hafa framkvæmt hina róttækustu afhjúpun goðsögunnar (þ.e.a.s. afhelgun hugmyndarinnar um afhjúpun, sem nú er skilin sem óréttmætt yfirskyn rökhyggjunnar). Þannig hafa menn einfaldlega afnumið muninn á goðsögulegri og vísindalegri þekkingu, á skáldskap og heimspeki, á myndlíkingu og raunveruleika.
Það sem gerist með afhelgun afhjúpunar á goðsögunni getur ekki frekar en í heimspekinni leitt til þess að við réttlætum fyrir okkur einfalt afturhvarf til ruglings á goðsögn og rökvísi, heldur hlýtur hún að leiða til róttækrar breytingar á merkingu veruleikahugtaksins, þannig að við skiljum það og túlkum sem mögulega sannleiksreynslu (með þeim umbreytingum sem hún leggur á okkur, bendir okkur á eða opnar fyrir okkur). Þótt menn vilji segja skilið við hinn óhlutbundna formheim framúrstefnunnar getur það ekki falið í sér að ánægjan af myndinni, litnum eða hinu sýnilega formi sé einfaldlega endurheimt (slíka afstöðu mætti gagnrýna með þeim rökum sem Fredric Jameson hefur sett fram gegn anda póstmódernismans).
Claudio Parmiggiani: Fjarvera, 1970.
Þegar Claudio Parmiggiani slítur sig frá hinni óhlutbundnu myndhugsun framúrstefnunnar gerist það ekki með því að endurheimta einfaldlega hið fígúratífa myndmál, heldur bregður hann beinlínis fyrir sig skáldskap fjarverunnar, eins og sjá má í stefnumarkandi verki á borð við Delocazione / Fjarvera,[2] hinu mikla verki frá 1970, sem unnið var með eldi, sóti og reyk. Stefnumarkandi var líka verkið Iconostasi[3]frá 1988-1989; það er engin tilviljun að hugtak þetta er einnig titillinn á heilsteyptustu skrá yfir verk Parmiggiani til þessa. Upphafleg merking verksins Delocazione / Fjarvera, kemur glögglega í ljós í nýlegum textum eftir Parmiggiani: “Tæki við framkvæmd verksins: eldur, reykur og dagsetning, fyrsta verk: Delocazione/Fjarvera, Modena, 14. nóvember 1970. Tíu herbergi fyllt og sótmyrkvuð af reyk. Borð, vasar, bókahillur, tuskur (…) Sérhver hlutur hefur verið fjarlægður. (…) Myndir, ekki sem skuggar af efnislegu formi, heldur sem efnislegt form skuggans…” (1997). Í verkinu Iconostasi eru stytturnar huldar dúk eins og málverkin andspænis þeim. Við getum hugsað okkur – einnig án þess að gera ráð fyrir að það hafi verið hugmynd listamannsins – að þau síðarnefndu standi fyrir hina veraldlegu mynd heimsins andspænis hinni helgu mynd hans (höggmyndirnar bera allar svip helgimynda í kirkju). Skyldi þetta vera verknaður í anda framúrstefnunnar, vanhelgandi gletta, rétt eins og að setja yfirskegg á La Gioconda[4]? (að því gefnu að í því tilfelli hafi verið um verknað í anda framúrstefnu að ræða, sem þó virðist ekki með öllu ljóst). Eða er þetta aðeins harmrænt ákall vegna helgimyndaleysis samtíma okkar, sem gæti kallað fram hina frægu fullyrðingu Adornos um að ekki sé hægt að yrkja ljóð eftir Auschwitz?
Claudio Parmiggiani: Una scultura, á eyju í Nílarfljóti 1975
Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka Parmiggiani í fyllstu alvöru þegar hann segir (sb. Iconostasi, bls. 184) að eitt af elstu og áleitnustu verkefnum hans (sem reyndar hófst með verkinu Clavis / Lykill frá 1975) hafi verið að setja upp fjórar “andhöggmyndir”, raunveruleg virkisverk hlaðin úr múrsteini í ólíkum heimshlutum, á stöðum er tækju mið af höfuðáttunum fjórum. Það átti að vera erfitt að nálgast verkin vegna þess hversu fjarlæg þau voru (á eyju í ánni Níl, úti í sveit í Lombardíu, í kastalagarði í Frakklandi og í almenningsgarði í Tékkóslóvakíu). Verkin áttu að vera hlaðin eins og virki eða byrgi, lítil völundarhús með tómri miðju. Verk sem afneituðu öllu gildi sem “sýningargripir”, ekki í krafti einhvers menningarlegs sérgildis verksins, sem þvert á móti er reynt að draga sem mest úr (“þar sem handverkið er unnið á staðnum og þar sem höndin virðist vilja láta gleyma sér…” Iconostasi, bls. 184). Er þessi skáldskapur fjarverunnar settur fram sem einföld stíleinkenni til að marka listamanninum skýra sérstöðu innan ramma samtímalistarinnar? Enn eitt “tæknilega samhengið” í víðustu merkingu þess hugtaks? Með hvaða hætti gæti slíkur skáldskapur og slík list fjarverunnar fjallað um eða talað til tíðarandans út fyrir takmörk handverksins, frumleikans (og listaverkamarkaðsins)? Og svo eru það höfuðáttirnar fjórar. Það er ekki bara Iconostasían sem sem kallar fram helgi þess staðar, þar sem eingöngu er hægt að upplifa fjarveru myndarinnar. En þó fyrst og fremst þetta: “virkisverkin”, sem byrgja tómarúmið og fjarveru verksins, eru sjálf falin á afmörkuðu svæði í fjórskiptu rými heimsins (er hér kannski hægt að finna einhverja líkingu við “fernu” /Geviert Heideggers, sem samanstendur af himni og jörð, hinum dauðlegu og hinum guðdómlegu?). Það náttúrulega umhverfi sem þessum verkum er búið – nema kannski eyjan í Níl sem geymir verkið Pietra / Steinn frá 1983 – hefur ekkert sérstakt gildi í sjálfu sér. Nærri lætur að þetta sé venjulegt náttúrulegt umhverfi er standi sem landfræðilegur staður, sem tákn fyrir höfuðáttirnar fjórar. (Öðru máli gegnir hins vegar um verkið Il bosco guarda e ascolta / Skógurinn horfir og hlustar[5]sem sett var upp í Strasbourg 1990).
Claudio Parmiggiani: Skógurinn horfir og hlustar, Strassbourg 1990
Í öllu verki Parmiggianis er augljósustu og beinustu tilvísunina að finna í landabréfunum og hnattlíkönunum, sem koma fram með ólíkum hætti aftur og aftur á höfundarferli hans. Þar er kannski gleggsta dæmið verkið Pellemondo / Skinnheimur frá 1968 þar sem heimsálfurnar eru eins og dökku blettirnir á skjöldóttu kálfskinni er klæðir hnattlíkan. Þeir sjónrænu leikir sem hann leyfir sér í þessum verkum enda allir með að vísa til hinna samankrumpuðu stjörnukorta og þess sem kemur upp úr brotinni höfuðskel þeirrar klassísku gipsmyndar sem kallast Verso Bisanzio / Í áttina til Býsans (1985)[6]. Með upplifun okkar á ótvíræðri fjarveru myndarinnar skynjum við jafnframt hversu huglæg sýn okkar á heiminn er, um leið og okkur er ljós sú staðreynd að þessi skynjun hefur átt sér stað í heiminum. Rétt eins og heimurinn vildi leiða okkur á afhjúpandi og “raunsæjan” hátt til náttúrunnar, og þannig trúlega á villubraut. Því samanvöðluð stjörnukortin eru þrátt fyrir allt óhlutdrægasta, hlutlægasta og raunsæjasta myndin sem við höfum af heiminum: ekki byggð á staðbundinni reynslu, sem ávallt er tilviljunum háð, heldur “allur” heimurinn. Verkið Pellemondo / Skinnheimur frá 1968 er ekki afturfærsla (riduzione) heimsins til jarðneskrar víddar þessarar skinnklæddu kúlu, né heldur afturfærsla jarðarinnar og hins jarðneska og tilviljunarkennda innan þess heims sem er markaður af höfuðáttunum fjórum, af mannlegri nærveru. Hér er miklu frekar um yfirvarp að ræða sem felur jafnframt í sér umsnúning á gildi myndarinnar. Við gætum orðað það þannig að myndirnar hætti að sýna og byrji að merkja eitthvað, ekki síst með því að dyljast þegar reynsla okkar verður “alheimsreynsla” landafræðinnar, reynslan af tengslunum við alla staði jarðarinnar, jafnvel þótt það kosti okkur þá uppgötvun, að jörðin er okkar eigin uppdráttur á pappír.
Claudio Parmiggiani: Verso Bisanzio, 1985
Hér gerist það kannski í fyrsta skipti með afgerandi hætti að afhelgun á inntaki framúrstefnulistar 20. aldarinnar fær á sig tímamótavídd um leið og hún er yfirstigin. Við gerum okkur þá fyrst grein fyrir hvernig hefðin hefur skapað mynd okkar af heiminum, og hvernig slík mynd er ekki annað en hluti af heiminum, þegar við upplifum hvernig rýmið sem við lifum í tekur á sig óhlutstæða mynd í hraða samskiptanna og ómælanlegri fjölbreytni menningarheimanna (það sem við sáum sem ógnvekjandi á sýningum Der Blaue Reiter og í “afrískum” grímumyndum Picassos í upphafi aldarinnar…). Hugveran eignar sér raunveruleikann – í hugmynd sinni um hann – en er um leið svipt stalli sínum: heimurinn er ekki annað en landabréf og hugveran er ekki annað en snifsi af þessu bréfi. Hugvera heimsins í tvöföldum skilningi: hún gerir sér mynd af heiminum og er um leið sjálf hluti af þessari mynd, ekkert annað. Við erum því komin langt út fyrir það verksvið framúrstefnulistarinnar að leitast við að finna ný tungumál, sem ekki væri þegar búið að nýta til fulls og útvatna, eins og tungumál hefðarinnar. Við erum líka komin út fyrir kaldhæðnislega vitund framúrstefnunnar um handanveru “hins sanna” sem gæti eða ætti að leiða til höfnunar þess að myndgera veruleikann öðruvísi en með róttækri ummyndun hans. Ekki er lengur um neinn raunveruleika að ræða sem bíður þess að vera myndaður með betra eða fullkomnara tungumáli. Ekki heldur neinn sannan sannleika er opinberist með því að skyggnast í djúpið eins og hið kaldhæðna innsæi nútímahyggjunnar átti loksins að geta gert. Raunveruleikinn er bréf (landabréf, en ekki bara það). Hugveran býr ekki í þeim sem hefur bréfið fullkomlega á valdi sínu, heldur er hún sjálf hluti af því eins og krumpa eða snifsi.
Verkið Sogno del tempo / Draumur tímans frá 1981, þar sem hvorki er að finna landabréf né hnattlíkön, sýnir mætavel þessa tilfinningu sem er einkennandi fyrir Parmiggiani. Sú staðsetning hugverunnar í kosmísku rými, sem lesa má út úr landabréfaverkunum, er hér birt með eins konar afsali á fullveldi hugverunnar, með valdaafsali.
Hliðstætt dæmi má finna í öðru verki frá sama tíma (Delphi, 1980), þar sem jafnframt er vísað til þeirrar sjálfspeglunnar, sem er svo algeng í framúrstefnulistinni: í stóru teikningunni L’observateur prisonnier de sa compréhension / Áhorfandinn sem fangi eigin skilnings frá 1979 vísar Parmiggiani til þeirrar þráhyggju svo margra framúrstefnulistamanna að sækjast eftir almennum formum myndbirtingar. Tilvísun þessa má með réttu kenna við síðframúrstefnu (transavanguardia). Hún felur í sér merkingu sem einn hinna stóru guðfeðra postmódernismans, Friedrich Nietzsche, hafði þegar boðað í verki sínu Alzo sprach Zarathustra, þar sem hann setur fram spádóminn um eilífa endurkomu hins sama: sú ögurstund þegar maðurinn áttar sig loks á því að allt sem gerist eigi sér stað í hringrás eilífðarinnar, að allt sem gerist hafi þegar átt sér stað miljón sinnum. Einnig þessi ögurstund, sem breytir sögu okkar, hefur fyrir Zarathustra ávallt átt sér stað.
Framúrstefnulist tuttugustu aldarinnar, sem öll list samtímans á rætur sínar í, hefur aðeins í örfáum tilvikum tekist að koma fram með nýja merkingu. Hún markar tímabundið (en engu að síður þrautseigt) óvissuástand í viðleitni andans til að eigna sér heiminn, í viðleitni hugverunnar til að setjast í hásætið. Jafnvel þótt hún væri mörkuð af kaldhæðnislegri vitund um máttleysi orðsins og tungumálanna (eins og finna má hjá Chandos lávarði í skáldsögu Hoffmannsthals[7]), þá hélt hún sig geta sest til frambúðar á þennan valdastól. Sú varð þó ekki raunin. Á því augnabliki sem hugveran eignar sér heiminn sem “húsbóndi” hinna sjálfskipuðu, sögulegu og hefðbundnu forma myndbirtingarinnar, verður hún sjálf jafn léttvæg og sá heimur sem hún birtir í mynd sinni.
Það er hægt að lesa hið listræna ævintýri Claudio Parmiggiani eins og ferli sem er ekki bara “tæknilegs eðlis” -með sífellt nýjum stílbrögðum, óþrjótandi nýjum viðfangsefnum o.s.frv.- heldur ferli og atburðarás sjálfs tíðarandans, vegna þess að frá upphafi virðist hann hafa haft getu til að staðsetja sig í þessari vídd reynslunnar sem við getum kennt við það að höndla og afsala um leið.
Claudio Parmiggiani: Jörð, 1988, Lyon í Frakklandi
Afsala hverju? – fyrir hvað? Verkið Terra / Jörð[8]frá 1988 virðist geta gefið svar við þessum spurningum í þeim skilningi að allt verði fært aftur til frumgerðar sinnar sem náttúra. Í texta sem Parmiggiani lét fylgja þessu verki sagði m.a.: “Skúlptúr úr leir, falinn innan í líkama jarðarinnar, lagður í iður jarðar eins og fræ sem ber með sér lófaför þess sem hefur mótað hann…” Leirkúla sem er 75 cm í þvermál með áþrykktum lófaförum, gerð til þess að vera grafin ofan í jörðina og ekki framar litin augum af neinum (hún er í reynd grafin í klausturgarði Nútímalistasafnsins í Lyon). Ljósmyndirnar af atburðinum eru hins vegar glöggur vitnisburður þess, að afturfærsla verksins til náttúrunnar er einnig viljaverk, sem hefur ákveðið að þurrka sjálft sig út, sjálfviljugt. Önnur verk Parmiggiani, fyrir og eftir þessa stefnumótandi “jarðarför”, eru öll með einum eða öðrum hætti rannsókn á hvernig hægt sé að jarðsetja, hvernig hægt sé að afmá, þurrka út. Verkið L’invito a viaggio / Boðið til ferðalags frá 1981, þar sem hönd ber svartan ferning fyrir lýsandi skærgulan flöt og þekur hann að hluta til, sýnir þetta glöggt. Ferðalagið, sem okkur er boðið í, er könnunarleiðangur um það hvernig megi afmá, grafa og þannig bjarga mikilfengleik og návist veruleikans með fjarveru sem er sannari en nærveran.
Fjarveran er einnig og einkum það sem “myndast” eftir því sem tíminn líður. Tímavíddin er þannig ein aðferð til þess að uppgötva veru, sem er sannari vegna þess að hún er ábúðarminni en sú sem gefin er í fullri návist. Þessi vídd tímans er eitt leiðarhnoðað í öllu verki Parmiggiani. Fiðrildin í verkum hans, sem fest eru á títuprjón, eru kannski gleggsta merkið um þessa sýn á tímann sem umbreytir fyrirbærinu í spor eða leifar og einmitt þess vegna í hvort tveggja í senn, fjarveru/frumveru (assenza/essenza). Ef rétt er skilið, þá er ekki neitt memento mori / mundu að þú átt að deyja í þessum “helgu dómum” liðinna lífsforma.
Við getum ekki heldur fundið merkingu katastrófunnar eða hins neikvæða í völundarhúsi hinna brotnu glerja (Án titils, 1970)[9]. Menningu okkar samtíma hefur reyndar oft verið lýst sem brotakenndri, en ekki nauðsynlega sem menningu hlutans sem hefur misst tengslin við heildina. Brotin hafa menn hins vegar oft endurheimt innan ramma táknsæisins: þar sem allt helst í horfinu, þá getur miðjan verið hvar sem er, augngota listamannsins ein nægir til þess að endurheimta sannleikann allan, jafnvel í hinum hversdagslegasta og barnalegasta atburði. Þessi almættisfreisting listamannsins er hins vegar ekki í anda Parmiggiani. Glerbrotin í völundarhúsinu eru leifar návistar sem finnur einungis á augnabliki afturfærslunnar hinn sérstaka sannleika sinn.
Hér koma óhjákvæmilega upp á yfirborðið hugtök sem eiga illa skilgreind viðmið í menningu okkar aldar, og þá sérstaklega í menningu samtíma okkar. Það á við um hugtakið “afturfærsla” (riduzione / Reduktion) sem Husserl notar til að leiða í ljós eðlið – ekki eðli einstakra fyrirbæra, heldur eðli birtingarháttar fyrirbæranna, veruhátt þeirra. Ef Husserl kennir okkur að grípa til afturfærslu (og þá um leið að hverfa með eins konar meinlæti frá kröfum lífsþorstans, frá viljanum til virkrar þátttöku í lífinu á jörðinni) í því skyni að öðlast beina sýn á eðlið, og vera þannig áfram, ef svo mætti segja, fangar hinnar frumspekilegu goðsagnar um veruna sem fullgilda návist, fangar hins upplýsta vitnisburðar hinna platónsku frummynda, þá getum við sagt að Heidegger stígi talsvert lengra skref á rannsóknarbraut hinnar sönnu veru með afturfærslu nærverunnar sem slíkrar. Vera sem gefur sig fram sem fulla nærveru, jafnvel þótt hún hafi þurft að þræða hinn þrönga veg sjálfsafneitunar, afneitunar eiginhagsmuna og þátttöku, verður aldrei sú sanna vera, sem við erum á höttunum eftir. Ef hún leyfir ennþá spurningar, þá þýðir það að sannleikann sem við erum að leita að er annars staðar að finna. Ef hún leyfir ekki spurningar, en fer einungis fram á lotningarfulla íhugun okkar um sinn eigin fullkomleik, þá getur hún hugsanlega fullnægt rökfræðilegum kröfum okkar um endanlegan grundvöll, en einungis á kostnað frelsis okkar. Hin harða gagnrýni Kierkegaards á Hegel snérist einmitt um þetta, en hann sá í kerfi hans “tilræði við siðfræðina”: ef leiðin í átt til sannleikans stöðvast á ákveðnum punkti vegna þess að hún hefur náð (eða telur sig hafa náð) hinum endanlega grunni, þá verður sá tilvistarvandi sem við stöndum frammi fyrir í daglegu lífi okkar að engu gerður, ekki er lengur um neinn eros að ræða, bara thanatos.
Afturfærsla þýðir því eitthvað mun róttækara en hin platónska göfgun, sem stefnir “héðan og þangað”, frá heimi hinna skynjanlegu og hverfulu fyrirbæra í heim hinna eilífu frummynda. Heimur hinnar sönnu veru, ef hann er á annað borð til, er einmitt heimur sem gefur sig ekki út fyrir að vera full og friðþægjandi reynsla, heldur heimur sem við upplifum eingöngu og alltaf í reynslunni af sporunum, leifunum og hinu hverfula. Segja má að til þess að nálgast eðlið þurfi maðurinn að draga sjálfan sig saman í frumveru sína og innsta eðli, í nærri óskynjanlegan andardrátt; eða líka í leifar, minningabrot, jafnvel rústir, eins og við sjáum í völundarhúsi hinna brotnu glerja.
Verkið L’Annunciazione / Boðunin[10]frá 1975 vísar bæði til atburðarins sem sagt er frá í Guðspjöllunum og til þeirra fjölmörgu myndrænu frásagna af þessum atburði sem finna má í klassískri málarlist fortíðarinnar. Þetta verður þó ekki tilefni Parmiggiani til að endurframkalla viss heillandi strangflatarmynstur, sem tilheyra þessari myndlistarhefð, eða endurskapa þann ljóma sem tilheyrir vissum innisenum í anda Vermeers. Verkið er margbrotinn leikur með lagskiptar tímalegar víddir, sem sýnir vel sannleika tiltekinna ögurstunda í sögu okkar í fullu samræmi við hugmyndir Nietzsche um hina eilífu endurkomu. Boðun mikilla umbreytinga í sögunni jafnt og í vitund okkar sjálfra, birtist alltaf sem leifar einhvers annars, í andrúmi bráðs fortíðartrega sem opinberast hér sem sjálft eðli hins andlega.
Claudio Parmiggiani: Physiognomie Coelestis – per Adalgisa 1975
Við getum einungis nálgast það sem Ernst Bloch hefði kallað hið “leynda fangamark okkar innri manns” með því að sjá það í óljósri og fjarlægri mynd líkt og stjörnukortin veita okkur og við getum séð í verki eins og Phisiognomie Coelestis – Per Adalgisa / Svipmyndir himnanna – handa Adalgisu[11]frá 1975. Við getum líka skilið þessa stjarnfræðilegu samsvörun sem vitnisburð um þá tilvísun í dulfræðileg efni, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum öll verk Parmiggiani. Tilvísun sem verður augljós í verki eins og Alchimia / Gullgerðarlist[12]frá 1982 – þótt það sem hér ráði ríkjum virðist frekar vera hinn náttúrulegi vöxtur sem leggst á verk mannsins (þótt trjágreinin sé reyndar visin, sem gæti einnig bent til þess að náttúran sé í þessu tilfelli ekki hin lifandi náttúra sem teflt er gegn fallvaltleik listarinnar…). Tilvísunin í hermetíska dulspeki verður þó hvergi augljósari en í kosmíska egginu sem kemur svo víða fram í verkum Parmiggiani og miðlar þar einnig sterkum sjónrænum áhrifum. Ef við eigum líka að lesa skyldleika við hermetismann[13], hugmyndirnar um samsvörun hins minni heims (míkrokosmos) og hins meiri (makrokosmos), sem þátt í þeim leiðarþræði er virðist ganga í gegnum heildarverk Parmiggiani, þá verður að segjast að myndir byggðar á hermetískum hugmyndum hafa einnig þann eiginleika að virka sem möguleg fjarvistartækni, frekar en aðferð til að öðlast fullkomna nærveru af platónskum/frumspekilegum toga. Hin sanna vera birtist í þeim mæli sem hún færir sjálfa sig aftur, einnig þar sem hún þjappar sér inn í egg alheimsins, eða kannski á endanum inn í það svarthol sem stjarneðlisfræðingum er svo tíðrætt um, en enginn mun nokkru sinni fá augum litið samkvæmt skilgreiningunni. Þetta virðist þó allt heldur þversagnakennt, einkum í ljósi þeirrar myndauðgi sem finna má í öllu höfundarverki Parmiggiani: til dæmis gula herbergið í Luce,luce, luce / Ljós, ljós, ljós[14]frá 1968, þar sem allur gólfflöturinn er þakinn lýsandi gulu litardufti eins og um innsta eðli litarins væri að ræða, er kalli fram einstaka birtu.
Claudio Parmiggiani: Ljós, ljós, ljós, 1968
Þetta kemur hins vegar vel heim og saman við hina andfrumspekilegu og andplatónsku afstöðu í rannsókninni á verunni sem fjarveru: að komast í svartholið sem endanlega návist hinnar algjöru fjarveru væri hápunktur á platónskum / frumspekilegum skilningi á hugmyndinni um fjarveru. Rétt eins og tómhyggjan, sem er afneitun undirstöðunnar og hins endanlega, væri endanlega komin í tilvistaraðstæður hins algilda tóms, sem algild fylling hinnar algildu fjarveru. Eins og Nietzsche hefur kennt og ástundað tómhyggjuna í sínum jákvæða sannleika, þá felur hún í sér -þegar búið er að yfirstíga fráhvarfseinkenni depurðarinnar sem tregar hina glötuðu nærveru sem eina mögulega sannindamerkið – samfellda uppgötvun aðferða og tækni við að fela, afturfæra og afmá nærveruna og hina þrúgandi bælingu hennar. Einnig það að sýna litina sem hreint litarduft er ein aðferð til að halda fram frelsi nærverunnar í gegnum afturfærslu hennar niður í algjört lágmark í stað þess að ástunda rannsókn á innsta eðli litanna. Það er engin þörf á því að leita að algjörum hliðstæðum milli þessa skáldskapar afturfærslunnar, eðlisins og fjarverunnar, og þess sem við höfum lagt til að kalla með hugtaki Hegels – en á grundvelli veiklaðs Hegelisma – tíðarandann (Zeitgeist). Auðvitað er neysluþjóðfélagið yfirfullt af “veru”, af þrúgandi nærveru (auglýsingaheimurinn nefnir stöðugt fleiri hluti sem “algjört must”, hluti sem ekki er hægt að vera án…).Til að forðast öfgar svartsýninnar mætti halda því fram að neysluæðið sé einnig ein leiðin til þess að “eyða” hlutunum, að frelsa sig undan þeim með eyðslu og sóun. En hvort sem við viljum lofa neysluna sem frelsun í gegnum verðbólguna eða kjósum heldur að líta á hana sem óvin er þurfi að bregðast við með róttækri og meinlætafullri afturfærslu, þá er engu að síður hægt að samþykkja þá staðreynd að það sem þrúgar okkur í dag og það sem við viljum frelsa okkur undan er einmitt nærveran. Tómhyggja felur ekki í sér upplausn og útþurrkun verunnar, heldur er hún vitund um að við höfum of mikið af veru, nærveru, hlutlægni, upplýsingum, veruleika. Sú list sem við náum að stunda samræður við, er vissulega sú list sem sýnir okkur heiminn, en hún hjálpar okkur líka að höndla hann í sannleika sínum sem samdrátt, afturfærslu, upphafningu. Þegar Heidegger var að ljúka síðbúnum fyrirlestri um “Listina og rúmið” vitnaði hann í setningu eftir Goethe sem lýsir vel þeim aðstæðum sem verk Parmiggiani tala um: “Það er ekki alltaf nauðsynlegt að sannleikurinn taki á sig efnislega mynd. Það er nóg að hann svífi í umhverfinu eins og andi og framkalli eins konar samræmi rétt eins og þegar hljómurinn frá kirkjuklukkunum fyllir andrúmsloftið vináttu sem friðarboði.”
[1] Með verndara listanna er hér átt við þá gömlu evrópsku stétt einstaklinga úr borgarastétt, klerkastétt eða aðli er hafði þann sið að ráða listamenn í sína þjónustu til ákveðinna verka og panta tiltekin verk af sérstöku tilefni eða í sérstökum tilgangi. Þessir menn höfðu þannig vissa íhlutun um gerð verksins, uppsetningu þess og samfélagslega umgjörð þess.
[2]Delocazione er heiti á nokkrum verkum sem Parmiggiani hefur unnið á síðustu 20 árum, öll með sama hætti: hann raðar myndum, bókum eða hlutum upp við veggi í lokuðu rými. Kveikir síðan sótmikinn eld á miðju gólfinu og sótar rýmið. Síðan fjarlægir hann hlutina og eldstæðið, þannig að eftir standa “sótmyndir” hlutanna á veggjunum.
[3] Iconostasi er heiti á þeim skilvegg sem stendur milli kórs og kirkjuskips, einkum í býsönskum kirkjum, og er þakinn með helgimyndum, sem geta verið styttur eða málverk. Verkið Iconostasi eftir Claudio Parmiggiani var sett upp í Galleria Christian Stein í Milano 1989. Það sýnir myndir á gagnstæðum veggjum, þar sem annars vegar voru styttur á vegghillum hjúpaðar hvítu klæði, sem gáfu til kynna að um dýrlingamyndir væri að ræða. Hins vegar voru málverk hjúpuð svörtu klæði á gagnstæðum vegg.
[4]La Gioconda er hið ítalska heiti á málverki Leonardos, Mona Lisa. Það var Marchel Duchamp sem teiknaði yfirskegg á póstkortsmynd af verkinu og birti á forsíðu Dada-tímaritsins 391 í París 1920.
[5] Í verki þessu, sem sett var upp í Pourtalesgarðinum í Strasbourg 1990, setti Parmiggiani upp bronsmyndir af mannseyra, sem eru um 1,5 m á hæð, við allmarga trjástofna í grisjuðum skóginum. Eyrun gefa skóginum nýja og dulmagnaða merkingu.
[6] Gipsafsteypa af gamalli grískri konumynd þar sem höfuðskelin er brotin og rými heilans fyllt með samanvöðluðu korti, sem sýnir stjörnuhimininn.
[7] Í verki Hugo von Hoffmannsthal, Bréf Chandos lávarðar, frá árinu 1902, er sagt frá skáldi sem hafði glatað trú sinni á að tungumálið gæti sagt sannleikann. Hann lokaði sig því inni í þögninni.
[8] Verkið Terra (Jörð) frá 1988 er hnöttur úr brenndum leir með lófaförum listamannsins mótuðum í yfirborð leirsins. Hnötturinn var jarðsettur með formlegri athöfn í klausturgarðinum í Musée des beaux arts í Lyon í Frakklandi, þar sem hann á að hvíla ósnertur um alla framtíð. Atburðurinn var festur á myndband.
[9] Völundarhús hinna brotnu glerja er stórt völundarhús úr gleri, sem fyrst var sýnt í Borgarlistasafninu í Modena 1978. Völundarhúsið var brotið niður eins og sá sem villst hafði inn í því hefði brotið sér leið út í gegnum veggi þess. Atburðurinn var festur á myndband.
[10] Verkið sýnir tvo mannhæðarháa spegla sem standa lóðréttir á ská anspænis hvor öðrum. Annar (sem stendur fyrir engilinn) er með gylltri slikju og speglast í hinum speglinum sem er tær og stendur fyrir Maríu Guðsmóður. Verkið var sett upp á tígulgólfi Tómasarkirkjunnar í Strasbourg 1975 og hafði tvo gotneska glugga í baksýn.
[11] Verkið Physiognomiae coelestis – per Adalgisa frá 1975 er tvær ljósmyndir. Önnur (til hægri) sýnir myrkvaðan en stjörnubjartan næturhiminn. Hin sýnir baksvip sitjandi nakinnar konu og eru stjörnurnar af næturhimninum á ljósmyndinni málaðar á bak hennar eins og örsmáir svartir blettir. Í verkinu má lesa tilvísun í dulspekihugmyndir um samsvörun hins minni heims (mikrokosmos) og hins meiri (makrokosmos).
[12] Verkið Alchimia (Gullgerðarlist) frá 1982 sýnir gipsafsteypu af gömlu grísku höfði. Upp úr því stendur stofn af lágvöxnu kræklóttu tré með naktar greinar.
[13] Hermetismi er miðaldadulspeki, kennd við Hermes Trismegistus, sem nýplatónistar töldu vera viskuguð. Dulspeki hermetista voru leyndarfræði sem byggðu á táknmáli og tengdust m.a. gullgerðarlist.
[14] Verkið Luce,luce, luce (Ljós, ljós, ljós) frá 1968 er lítið hvítmálað herbergi upplýst með skæru hvítu ljósi, þar sem lag af skærgulu litardufti þekur allt gólfið.