PIERO DELLA FRANCESCA

Þann 1, janúar 1992 birti Lesbók Morgunblaðsins þessa ritsmíð mína um ítalska málarann Piero della Francesca. Ritgerðin var skrifuð vegna þess að ég hafði þá nýverið kynnt mér verk hans á Ítalíu, en einkum þó vegna þess að árið 1992 voru liðin 500 ár frá dauða þessa málara sem víkkaði skilning okkar á listinni og umheiminum ekki síður en landafundir Kólumbusar í Ameríku, sem áttu sér stað sama ár (1492). Því má vel halda fram að ekki sé bætandi á öll þau lærðu skrif sem til eru um Piero, og það sé í raun ofætlun að ætla sér að bæta einhverju þar við. En þessi tilraun mín var ekki svo metnaðarfull, hún var ekki síst unnin í þeim tilgangi að leiða íslenska lesendur inn í nokkur grundvallaratrði listasögunnar, sem Íslendingar hafa annars ekki talið ástæðu til að kenna í skólum sínum. Ég ímynda mér að þessi texti geti ef til vill ennþá haft eitthvert notagildi fyrir þá sem hafa sýnt listasögunni áhuga í trássi við íslenska menntakerfið, og ekki sakar um leið að minnast þess að á næsta ári munu vera 600 ár frá fæðingu Piero. Ég hef bætt nokkrum myndum og myndskýringum við upphaflega textann.

Heimsljósið í Fjarvíddarglugganum

 

Eftir ÓLAF GÍSLASON

 

1.

Þýski listfræðingurinn Erwin Panofsky heldur því fram í ritgerð sinni Fjarvíddin sem táknrænt form, frá árinu 1927, að uppgötvun hinnar geometrísku fjarvíddarteikningar, þar sem allar samsíða línur enda í einum punkti óendaleikans, hafí í raun markað fyrsta uppgjörið við hina lokuðu heimsmynd Aristótelesar, þar sem alheimurinn er sýndur sem sjö kristalhvel er umlykja jörðina sem markar miðju alheimsins. Með fjarvíddarteikningunni hafi óendanleikinn ekki lengur verið frumspekileg guðfræðileg hugmynd, heldur hugtak er stutt var rökum reynslunnar.

Óendanleikinn, sem var óhugsandi fyrir Aristótelesi og hafði einungis yfírskilvitlega merkingu guðdómsins fyrir skólaspekingum miðalda, var ekki lengur yfirskilvitlegur, heldur var hægt að sýna fram á hann með aðferðum flatarmálsfræðinnar og reynsluhyggjunnar. Og sá sem gerði það fyrstur manna að talið er, var flórenski arkitektinn Filippo Brunelleschi (1377-1446), höfundur hvolfþaksins yfir dómkirkju Flórensborgar, Santa Maria del Fiore.

Trúlega elsta varðveitta fjarvíddarteikningin eftir Brunelleschi og sýnir innra rými kirkju hans, S.Spirito í Flórens eins og talið er að hann hafi teiknað það 1428.

Eitt fyrsta málverkið sem við þekkjum, þar sem stuðst er við línulega fjarvíddarteikningu með samsíða línum er stefna á óendanleikann, er frá miðri 14. öld (Boðun Maríu eftir Ambrogio Lorenzetti frá Siena, talið málað 1344), en fyrsta málverkið sem byggir á fjarvíddarreglu Brunelleschis var veggmálverk Masacchios af Heilagri þrenningu í S. Maria Novella kirkjunni í Flórens frá 1427-28 og fyrstu rituðu greinargerðina fyrir forsendum fjarvíddarmálverksins er að finna í ritverki arkitektsins Leon Battista Alberti (1406-1472), Della Pittura (Um málaralistina) frá 1435.

Alberti er kunnastur fyrir fræðistörf sín, en skildi einnig eftir sig byggingar er marka tímamót í sögu evrópskrar byggingarlistar, bæði í Flórens, Róm, Rimini og Mantovu. í Rimini endurreisti hann Malatesta-hofið árið 1450, og átti þar meðal annars samstarf við listmálarann Piero della Francesca (1420-1492), en þess er minnst á þessu ári að 500 ár eru liðin frá láti hans. Piero skrifaði síðan sérstakt rit um fjarvídd, De prospeetiva pingendi (Að mála fjarvíddina), er hann hafði lagt penslana á hilluna sakir blindu er ásótti hann á efri árum. Hann lést í fæðingarbæ sínum, Sansepolcro, 12. október 1492, sama dag og Kristófer Kólumbus steig á land í Nýja heiminum.

Þau fáu málverk sem varðveitt eru eftir Piero della Francesca marka hápunkt fyrra skeiðs endurreisnar á ítalíu og grundvöll hinnar klassísku listsýnar, auk þess sem þau sýna okkur betur en flest annað, að myndlistin var á þessum tíma umfram annað miðill þekkingar, og gekk á undan hefðbundnum vísindum í því að ryðja braut þeirri heimsmynd nýaldar á Vesturlöndum sem tók við af hinni lokuðu heimsmynd miðaldakirkjunnar.

Piero della Francesca átti stærri þátt í því en flestir aðrir að hefja myndlistina frá því að vera handverk eða iðngrein eins og hún var talin á miðöldum upp í það að vera ein af þeim „artes liberales“ sem mynduðu meginstoðir vísinda og þekkingarleitar húmanismans.

2.

Þekking á lögmálum fjarvíddarteikningarinnar varð til í Flórens áður en heimspekingurinn og húmanistinn Marsilio Ficino (1433-1499) opnaði heim grískrar heimspeki á ný fyrir Vesturlöndum með latneskum þýðingum sínum á verkum Platons (1484) og Plótínusar (1492), en þær þýðingar eru taldar mikilvæg forsenda fyrir þróun hinnar vísindalegu heimsmyndar nýaldar á Vesturiöndum.

Skýringarmynd Dürers á fræðilegum vanda fjarvíddarteikningar út frá einu auga sjáandans frá 1525. Listamaðurinn þarf að hafa óhagganlegt sjónarhorn á viðfang sitt vilji hann yfirfæra það á tvívíðan flöt myndarinnar. Hann verður að horfa með einu auga og loka hinu. Við þessar aðstæður er hætt við að listamaðurinn fái störu og missi þannig sjónina, sem byggir á hreyfingu tveggja augna.

Orðið „fjarvídd“ er ófullkomin þýðing á latneska orðinu „perspectiva“, sem þýðir „að horfa í gegnum“, eins og þýski málarinn Albrecht Dürer skilgreindi það. Með réttri fjarvíddarteikningu er rýmið skoðað í gegnum eins konar glugga, þar sem afstaða einstakra fyrirbæra í rýminu er fyrirfram skilgreind á rökrænan hátt út frá sjónarhorni sjáandans. Þannig skapast fullkomlega rökrétt mynd af rýminu og óendanleika þess, þar sem stærð og afstaða hvers forms og fyrirbæris er fyrirfram skilgreind út frá sjónarhorninu og hinn tvívíði myndflötur, sem teikningin er felld á, verður eins og þversnið af sjónkeilunni sem endar í punkti óendanleikans þar sem allar samsíða línur mætast á endanum.

Þessi framsetning á rýminu, sem okkur fínnst núna af einskærum vana vera bæði sjálfsögð og sjálfgefin, er það í raun alls ekki, því hér er um fullkomlega tilbúna abstraktsjón af veruleikanum að ræða.

Piero della Francesca: Húðstríking Krísts, máluð með tempera á tré 1450-55. Stærð: 58x81 sm. Varðveitt í Ríkislistasafni Marche-héraðs í hertogahöllinni í Urbino. Myndin tengir geometrísk lögmál og deilur austur- og vesturkirkjunnar: Tveir menn, annar austurlenskur og hinn hertogasonur frá Urbino ræða ágreiningsmál Konstantinopel og Rómar í viðurvist rauðklædda mannsins í hlutverki hugmyndarinnar um sættir, sem ekki náðust.. Í bakgrunni er Pílatus áhorfandi að húðstríkingu Krists í gervi austurkirkjunnar. Myndin byggir á geometrískri fjarvídd og hlutföllum gullinsniðs eins og sést á myndinni hér að neðan:

3.

Í varðveittum málverkum frá síðhellenskum og rómverskum tíma má víða fínna ófullkomna fjarvíddarteikningu, en ekkert dæmi er til frá þeim tíma um rétta „miðjufjarvídd“ með einum fjarvíddarpunkti á sjóndeildarhringnum. Rómverjar gerðu sér þó grein fyrir þessum vanda að eihhverju leyti, því í frægri tilvitnun í riti rómverska arkitektsins og fræðimannsins Vitruviusar frá 1. öld f.Kr. er „scenografía“ eða framsetning þrívíðs hlutar í tvivíðu plani skilgreind út frá því að „omnium linearum ad circini centrum responsus“ eða að allar línur „svari til hringamiðju“.  Nákvæm merking þessarar tilvitnunar er umdeild, en í fornrómverskri og hellenskri myndlist virðist þó frekar byggt á innsæi en fræðilegri rökhyggju við framsetningu rýmisins, og um samfellda rökræna og óendanlega heimsmynd var ekki að ræða.

4.

Í þeirri myndlistarhefð sem ríkti á miðöldum í Evrópu, og kennd er við rómanskan stíl, voru allar tilraunir til þess að líkja eftir rýminu lagðar af; línan var bara lína, yfírborðið yfirborð og myndlistin hafði ekki síst það hlutverk að vera ornament eða skraut og viðbót við byggingar og nytjahluti og undirstrika þannig merkingu þeirra. Einnig gegndi myndlistin á þessum tíma mikilvægu hlutverki við að útlista fyrirfram gefin guðfræðileg sannindi. Afneitun rómönsku listarinnar á allri eftirlíkingu á rýminu fól í sér að fyrirbærin og rýmið voru jöfnum höndum falin í sjálfum myndfletinum, og þannig bundin órjúfanleguum böndum. Erwin Panofsky segir að einmitt þessi róttæka afneitun rómönsku listarinnar á eftirlíkingu rýmisins hafi verið forsenda nútímalegs skilnings, því eftir að rýmið og fyrirbærin höfðu verið sameinuð í einum fleti var ekki hægt að útvíkka fyrirbærin á myndfletinum án þess að víkka rýmið út að sama skapi.

T.v. Ambrogio Lorenzetti, Boðun Maríu frá 1344. T.h. Masaccio: Heilög þrenning samkvæmt fjarvíddarreglu Brunelleschis 1427-28. Fyrstu dæmin um einstaklingsbundna miðjufjarvídd í myndlist miðalda og frum-endurreisnar. Einstaklingsbundin miðjufjarvídd byggði á staðlaðri augnhæð meðalmanns eins og sést á skýringarmyndinni t.h.

5.

Fyrstu meðvituðu tilraunirnar til þess að túlka rýmið í gegnum glugga réttrar miðjufjarvíddar felast í eftirlíkingu tígulgólfsins. í mynd Ambrogio Lorinzetti frá Siena frá 1344 af boðun Maríu er tígulgólfið rétt teiknað með samsíða línum er stefna á óendanlega fjarlægð miðjunnar, en síðan er rýminu lokað með hinum hefðbundna gotneska bakgrunni úr gulli. María og engillinn fá skilgreinda staðsetningu í þessu tilbúna rými út frá gólffletinum, en hliðar þessa rýmis eru óskilgreindar. Þarna getum við séð hvernig vísirinn að flatarmálsfræði nútímavísinda varð til á vinnustofum listamanna á ítalíu þegar á 14. öld, löngu áður en henni var gefinn fræðilegur grundvöllur af stærðfræðingum og stjörnuspekingum 16. og 17. aldar, sem mótuðu heimsmynd nýaldar. Skólaspeki miðalda var smám saman yfirunnin um leið og myndlistin haslaði sér völl á nýjum vettvangi; í stað þess að þjóna hlutverki hugleiðslu eða leiðbeiningar um fyrirfram gefinn guðfræðilegan sannleika varð hún að hlutlægri rannsókn á náttúrunni, manninum og þeirri sögu sem tengja mann og náttúru órjúfanlegum böndum. Með því að skoða veröldina í gegnum glugga réttrar miðjufjarvíddar út frá sjónarhorni, sem jafnvel tilviljun gat ráðið, var horfið frá hinni aristótelísku heimsmynd skólaspekinnar, þar sem jörðin var miðja alheimsins, innilokuð í endanlegri kristalkúlu hins ysta himinhvols og þar sem náttúran og sagan var endanleg og fyrirfram gefin opinberun guðdómlegs vilja.

6.

Nú er ekki óeðlilegt að sú spurning vakni hvort rétt fjarvíddarteikning sé ekki tiltölulega einfalt stærðfræðilegt vandamál og hvort hún hafi yfirleitt nokkuð með listrænt gildismat að gera. Eða hver er munurinn á hinni fagurfræðilegu og vísindalegu framsetningu rýmisins?

Það eru augljós þáttaskil sem verða ekki bara í listasögunni, heldur líka í hugmyndasögunni, þegar málaralistin gerir rýmið sem slíkt að viðfangsefni sínu á ný eftir margra alda hlé. Rýmið hefur ekki bara með mælanlegar stærðir og mælieiningar að gera, það birtir okkur líka gildi sem hafa almennt þekkingarlegt, siðfræðilegt og fagurfræðilegt inntak.

Fjarvíddarkeilan sem varpað er á tvívíðan myndföt hafði „táknræna“ merkingu (í skilningi listfræðinganna Panofskys og Ernst Cassiriers) þar sem „tiltekið andlegt innihald er tengt áþreifanlegu og hlutlægu myndmálskerfi og bundið því órjúfanlega“. Þannig er áhorfandanum stillt frammi fyrir fyrirfram skilgreindu og einstaklingsbundnu sjónarhorni fjarvíddargluggans. Í anda þess húmanisma sem varð til í Flórens í upphafi 15. aldar var rýmið auk þess ekki túlkað sem einangrað fyrirbæri og einskorðað við náttúruna, heldur tengdi það manninn bæði við náttúruna og söguna. Rýmið var vettvangur mannlegra athafna og þjónaði í myndmálinu því hlutverki að skýra tengsl mannlegra athafna bæði við náttúruna og söguna. Með öðrum orðum vildu menn sýna heildstæða og altæka og umfram allt rökræna mynd af yeruleika mannsins, sem bundinn var náttúrunni annars vegar og sögunni hins vegar. Hið rökræna og kerfisbundna myndmál fjarvíddarinnar þjónaði þessu hlutverki framar öðru. Þetta var uppgötvun sem hafði ekki minni þýðingu fyrir framvindu sögunnar en fundur Ameríku, og sú saga sem sögð er af flórenska málaranum Paolo Ucello (1397-1475) var ekki tilefnislaus, en hann hafði frá sér numinn og annars hugar andvarpað, þegar kona hans kallaði á hann í háttinn: „Oh, che dolce cosa é questa prospettiva!“ („Hvílíkar eru ekki unaðsemdir fjarvíddarinnar!“)

Piero della Francesca: Heilög samræða (í Brera-safninu). María guðsmóðir með barnið, sex dýrlingar, fjórir englar og Friðrík II. hertogi af Montrefeltro, sem krýpur í forgrunni, en hann fékk Piero til að vinna verkið. Fjarvíddin, geometría myndbyggingarinnar, hvelfingin og eggið  vottaum samræmi hins andlega og veraldlega valds, náttúru, sögu og menningar. Myndin hefur verið skorin, en augu Maríu mynda brennipunkt fjarvíddarinnar. Efri hluti sigurbogans er afskorinn, en skurðpunktur hornalínanna er í egginu, hinu kosmíska eggi sem vísar til dauða og endurfæðingar, rétt eins og hörpuskelin er fæðingarmerki Afrodítu úr grískri hefð. Í flestum verkum Piero eru geometrísk hlutföll og myndbygging veigamikill þáttur í frásagnarefni myndarinnar.

7.

Málarinn Piero della. Francesca, sem þessi samantekt er tileinkuð, fæddist í litlum miðaldabæ, Sansepolcro, sem stendur ofarlega í Tíberdalnum í Toscanahéraði um 38 km frá borginni Arezzo. Fátt er vitað um ævi hans og þau verk sem varðveist hafa og honum eru eignuð skipta einungis fáum tugum, auk tveggja ritverka, De prospectiva pingendi og De quinque corpori bus regularibus. Hann er talinn fæddur nálægt 1420, og var faðir hans skósmiður og leðurskraddari. Fyrstu heimildirnar um Piero eru frá Flórens þar sem hann vann árið 1439, ásamt málaranum Domenico Veneziano, að gerð freskumyndar, sem nú er glötuð, í kirkju heilags Egidiusar. Þótt ekki sé fleira vitað um Flórensdvöl Pieros skiptir sú vitneskja máli við túlkun verka hans. í Flórens hefur hann drukkið í sig þær byltingarkenndu hugmyndir sem þá voru að skjóta rótum í borginni. Hann hefur drukkið í sig verk málara á borð við Masaccio, Masolino, Beato Angelico og Paolo Uccello, sem allir höfðu tileinkað sér fjarvídd. Hann hefur séð nýreist Sjúkrahús sakleysingjanna eftir Brunelleschi og fleiri byltingarkenndar byggingar, og hann hefur fylgst með vinnunni við byggingu hvolfþaksins yfír dómkirkjuna, sem var í fullum gangi á þessum tíma. Og hann hefur séð glænýja marmaramynd Donatellos af Davíð í garði Medici-hallarinnar, sem var í raun fyrsta höggmyndin er gerð var í Flórens til þess að standa sjálfstæð í opnu rými og skoðast frá öllum hliðum. Þannig höfðu menn ekki hugsað í skúlptúr síðan á dögum Rómverja og Hellena. Auk þessa má rekja áhrif frá sögulegum kirkjupólitískum fundi sem átti sér stað í Flórens árið 1439 í nokkrum verka hans. Fundinn sóttu kirkjuhöfðingjar austur- og vesturkirkjunnar og keisari aust-rómverska eða býsanska ríkisins, og var markmið fundarins sameining kirknanna eða sameiginleg viðbrögð þeirra við ásókn Tyrkja, sem á þessum árum ógnaði bæði Evrópu og Konstantínópel. Fundur þessi bar reyndar ekki árangur og Konstantínópel féll í hendur Tyrkja árið 1453.

 

8.

Eitt fyrsta verkið sem varðveitt er eftir Piero er Misericordia altarissamstæðan, sem ber vott um áhrif frá Masaccio og Masolino, og var unnin á árunum 1445-62 í Sansepolcro. Þá er talið að hann hafi málað Skírn Krists á árunum 1448-50, áður en hann fór til Rimini árið 1450, þar sem hann gerði freskumynd í Malatesta-hofinu og andlitsmálverk. af Sigismondo Malatesta,sem nú er varðveitt í Louvre-safninu. Þá var arkitektinn Leon Battista Alberti að vinna að endurreisn Fransiskusarkirkjunnar í Rimini, sem síðan hefur verið kölluð Malatestahofið. Þar endurvekur Alberti hinn rómverska sigurboga sem lifandi form í nútíma byggingarlist. Kynni Pieros af Alberti hafa skipt miklu, bæði fyrir skilning hans á lögmálum fjarvíddarinnar, á formlegri rökhyggju og fyrir það mónúmentala inntak og framsetningu sem átti eftir að einkenna verk. hans. Kynni Pieros af Alberti hafa eflaust líka dugað honum til framdráttar þar sem hann fékk um þessar mundir mikilvæg verkefni bæði í Arezzo og við hirð Federico di Montefeltro hertoga í Urbino. í Arezzo vann Piero á árunum 1452-66 að höfuðverki sínu, sem eru freskumyndirnar um Helgisögnina af hinum sanna krossi,. er prýða kórkapelluna í kirkju heilags Frans í Arezzo, og voru unnar fyrir Bacci-fjölskylduna í Arezzo. Önnur meginverk hans, sem varðveist hafa, eru Húðstrýking Krists frá 1450-55, varðveitt í hertogahöllinni í Urbino, Upprisan, (1460-63) varðveitt í Sansepolcro, Hertogahjónin af Urbino, myndasamstæða frá 1465 varðveitt í Flórens, Guðsmóðirin með barnið og englarnir frá 1465/70 varðveitt í Massachusetts, Guðsmóðirin með barnið, helgir menn og hertoginn af Urbino frá 1472-4, varðveitt í Brera safninu í Milano, Fæðing Krists frá sama tíma, varðveitt í London og Senigallia-Madonnan svokallaða frá svipuðum tíma, varðveitt í Urbino.

Piero della Francesca: Skírn Krísts, máluð með tempera á tré 1440-45,  167 x 116 sm, varðveitt í National Gallery í London. Englarnir þrír vísa í þrenningu og sáttagjörð Austur- og Vesturkirkjunnar. Í bakgrunni er maður að afklæða sig fyrir skírnina. Miðpunktur hringformsins er dúfa heilags anda. Toppur jafnarma þríhyrnings er hönd Jóhannesar, sem eys vatni úr hörpuskel yfir höfuð Krists. Jafnarma þríhyrningur speglast í fæti Krists. Geometrían er mikilvægur hluti frásagnar myndarinnar.

9.

Þótt hér hafi verið tíðrætt um þýðingu réttrar línulegrar og miðlægrar fjarvíddarteikningar, þá er hún ekki þungamiðjan í verkum Pieros. Því skilningur hans á rýminu er ekki fyrst og fremst línulegur, heldur gegnir birtan þar lykilhlutverki. Andstæður ljóss og skugga eru ekki skarpar í myndum hans því þær eru mettaðar af birtu og í verkum hans verður birta og rými eitt og hið sama, og fyrirbærin og mannverurnar sem hann málar eru líka eins og mettuð af ljósi. Annað sem einkennir myndir hans er það sem kalla mætti mónúmental yfirbragð; í þeim ríkir magnþrungin kyrrð og nærvera þar sem hreyfíngin er fryst í óumbreytanlega formfestu og athöfnin og nærveran fær sögulega þýðingu. Myndir hans eru settar inn í ramma fjarvíddarinnar, en hann notar ekki arkitektúr nema að takmörkuðu leyti til þess að afmarka rýmið og skapa dýpt. Segja má að með myndmáli sínu leitist Piero við að birta okkur mynd af heiminum sem einni og órjúfanlegri heild þar sem manneskjan og rýmið og birtan verða ekki aðskilin og þar sem tíminn stendur kyrr, því hann er líka órjúfanlegur hluti rýmisins. í stað þess að leiða myndmálið beint út frá rökfræðilegum forsendum flatarmálsfræðinnar byggir hann á reynslu og upplifun, sem hann notar til þess að skapa hið algilda rými sem felur í sér samsömun mannsins með náttúrunni og sögunni. í myndum hans sjáum við hvernig reynslan og hugmyndin, náttúran og sagan, sameinast í hinu fullkomna og altæka rými/formi. Þessi listsýn Pieros átti síðan eftir að bera ávöxt í verkum lærisveina hans,  sem marka hátind  hinnar klassísku listsýnar; málaranna Perugino og Rafaels og arkitektsins Bramante frá Urbino. í verkum sínum leituðust þeir allir við að birta okkur hið rökvísa og fagurfræðilega fullkomna samræmi í sköpunarverkinu, sem þeir töldu kristnina og hina heilögu rómversku kirkju vera eins konar samnefnara fyrir.

10.

Miklu bleki hefur verið úthellt við að skýra merkingarlegar ráðgátur í nokkrum mynda Pieros. Meðal annars hefur vafist fyrir mönnum merking hinna dularfullu engla er standa til vinstri á bak við tréð í Skírn Krists, hlutverk þremenninganna í forgrunni Húðstrýkingarinnar og merking eggsins er hangir niður úr hörpuskelformuðu hvelfingunni í Brera-Madonnumyndinni. Skýringar á slíkum atriðum verða seint ótvíræðar og hafa trúlega takmarkaðri þýðingu í tilfelli Pieros en hjá mörgum öðrum, þar sem formleg framsetning rýmisins er lykilatriði í myndmáli hans, og tilfallandi sögulegar eða tímanlegar tilvitnanir gera ekki annað en í besta falli að undirstrika þetta magnþrungna myndmál. En englarnir í Skírn Krists haldast í hendur og eru áhorfendur en ekki þátttakendur í skírnarathöfninni. Menn hafa séð í þeim hina ecumenisku eða samkirkjulegu hugsjón frá kirkjuþinginu í Flórens 1439 og bent á að hefðarmaðurinn lengst til hægri í bakgrunni skírnarmyndarinnar – á bak við manninn sem er að afklæðast til að skírast -, sé íklæddur búningi býsanskra háklerka og gæti hafa birst Piero við prósessíón í tengslum við þinghaldið. En í myndinni ríkir slík heiðríkja að hér eru öllu gerð jöfn skil. Tréð er tilvísun í hið fullkomna form súlunnar/Krists, skýin og heilagur andi í líki dúfunnar á himnum hafa samsvarandi form, og í baksýn sjáum við landslag Tíberdalsins, þar sem áin Jórdan er færð á heimaslóð málarans. Bent hefur verið á að myndin sé eins og innlegg í deilu dulspekinga og skynsemistrúarmanna sem stóð á þessum tíma um hinn sýnilega heim og það sem býr handan hans. í þeirri deilu hélt Alberti því fram að Iistin ætti einungis að fjalla um það sem „augað sér“ því skilningurinn búi ekki yfir neinu því sem augun sjá ekki og augun sjái ekki neitt sem sé skilningnum ofviða. Dulhyggjumennirnir vildu hins vegar að myndlistin gæfi hið yfirskilvitlega og ósýnilega í skyn. Hjá Piero ríkir heiðríkja skynseminnar ofar öllu. Jafnvel vatnið sem rennur um fætur Krists er svo tært að það sést ekki en sýnir okkur árbotninn annars vegar og spegilmynd himinsins og landslagsins hins vegar; birtan kemur bæði að ofan og neðan og fyllir rýmið og gefur því altæka merkingu.

11.

Húðstrýking Krists er ein frægasta mynd Pieros, bæði vegna ráðgátunnar sem hún býr yfir með herramönnunum þrem í forgrunni, og þó einkum vegna þeirrar fullkomnu framsetningar rýmisins, sem þar kemur fram. Í engri annarri mynd styðst Piero við arkitektúr í jafnríkum mæli við að afmarka rýmið. Húðstrýkingin er „inni“ og í bakgrunni, en aðalatriði myndarinnar, fundur heiðursmannanna þriggja í forgrunninum til hægri, er „úti“. Tveir þeirra bera klæði aðalsmanna, en sá í miðið er líkari engli eða helgum manni og er berfættur. Sá til vinstri með svarta vefjarhöttinn hefur arabískt eða austrænt yfirbragð og er gerandinn í þessari samræðu. Ráðgátan snýst um hvað hann standi fyrir og hvað hann sé að segja. Myndin er gerð fyrir hertogann af Urbino á árunum 1450-55 og varðveitt f hertogahöllinni þar enn í dag. Hún er máluð á tré og aðeins 58,4 x 81,5 cm. að stærð.

Lítill vafi er talinn leika á að myndin hafi pólitíska tilvísun. Vangamynd mannsins lengst til hægri virðist koma fram í fleiri myndum Pieros; í Orrustu Eraclio og Cosroe í kapellunni í Arezzo, þar sem hann er viðstaddur aftökuna, og hugsanlega í myndinni af fundi Salómons og drottningarinnar af Saba á sama stað, þar sem hann stendur rauðklæddur til vinstri og horfir stíft á Salomón konung. Hvorttveggja sögulegar myndir er hafa með samskipti austurs og vesturs og heiðindóms og kristni að gera. Höfuðbúnaður og vangamynd Pílatusar í hásætinu lengst til vinstri virðist líkjast vangamynd meðreiðarmanns Konstantíns keisara með krossinn í freskumyndinni um sigur Konstantíns yfir Massensíusi (sigur kristninnar og Rómar yfir heiðninni), sem einnig er í Arezzo. Hvítklæddi maðurinn andspænis Kristi sem virðist stjórna húðstrýkingunni ber arabískan vefjarhött og hefur nákvæmlega sömu stellingu og handahreyfíngu og maðurinn með svarta höttinn. Útilokað er að segja til um hvort hér er um tilviljanir að ræða, en margt bendir til þess að pólitískt inntak myndarinnar tengist frekar kirkjuþinginu í Flórens og falli Konstantínópel í hendur Tyrkja árið 1453, en pólitískum erjum sem hertoginn í Urbino stóð í á róstursömum valdatíma sínum, eins og sumir hafa haldið fram. Þá er sú tilgáta E.H. Gombrich, að maðurinn með svarta vefjarhöttinn sé Júdas að skila silfurpeningunum, afar ósennileg. En pólitískt inntak myndarinnar bliknar í raun í samanburði við formræna framsetningu efnisins, þar sem við sjáum rýmið skilgreint á fullkomlega rökrænan hátt sem vettvang fyrir mannlega athöfn og einstaklinginn sem geranda og mótandi afl í sögunni í anda húmanismans og ólíkt því sem tíðkaðist meðal skólaspekinga miðalda sem litu á manninn sem verkfæri fyrir vilja Guðs.

12.

Brera-Madonnumyndin með helgum mönnum og hertoganum af Urbino krjúpandi í herklæðum er talin ein af síðustu myndum Pieros og jafnframt hans andlega testamenti. Hér kemur glögglega fram sú athygli fyrir smáatriðum sem varð áberandi í myndum Pieros á síðari hluta starfsferils hans sem málara og hefur verið rakin til flæmskra raunsæisáhrifa. Piero tínir sér þó aldrei í smáatriðunum eins og flæmsku málararnir gerðu stundum, heldur þjónar'“ hvert smáatriði hinni kristaltæru heildarsýn. Hér notar hann ljós og skugga til þess að fylla rýmið af lofti sem við getum næstum andað að okkur. Ljósið leikur um hina helgu menn og engla sem umlykja Guðsmóðurina með barnið, og fyrir framan krýpur hertoginn af Urbino í öllum herklæðum. Hörpuskelin í hvelfingunni er gamalt tákn Venusar og hreinleikans og heilagrar meyjar og eggið sem hangir niður úr skelinni er eins og hið fullkomna form sem jafnframt er endurtekning á höfuðformi Guðsmóðurinnar og efniskennd endurtekning á því holrými loftsins sem fyllir hvelfinguna; ljósið, loftið, efnið og formin í hinu smáa sem hinu stóra mynda eina órofa heild og órofa rökrænt samræmi þar sem ekkert er hulið sjónum augans og skilningi rökhugsunarinnar.

Þegar Piero hafði lokið þessari mynd dapraðist honum sjón og hann tók að leggja stund á stærðfræði í heimabæ sínum. Hann skrifaði ritgerð um hvernig ætti að mála fjarvíddina og aðra „um margflötungana fimm“. Hann lokaði sig síðan inni við stærðfræðiiðkanir eftir því sem blindan ágerðist. Ungur drengur fékk það hlutverk að leiða blinda meistarann á milli húsa í Sansepolcro. Seinna kaus þessi piltur sér það starf að smíða ljósker fyrir samborgara sína. Kannski vildi hann breiða út það ljós sem meistarinn hafði kveikt í fjarvíddarglugga sínum til þess að lýsa upp heim okkar eftirkomendanna.

Þungaða guðsmóðirin eftir Piero er eftirtektarverð mynd. Það þekkist varla í listasögunni að sýna þungaðan kvið Maríu. Þessi sviðsetning á sér hins vegar hliðstæður í myndskreyttum heimi gullgerðarlistarinnar þar sem frumefni hins "heimspekilega gulls" er gjarnan sýnt sem hin þungaða móðir sem opnar kvið sinn. Samanber myndina úr gullgerðarbókinni "Aurora congruens" frá 15. öld hér að neðan. Annað atriði sem vísar í Krist sem "heimspekigull" alkemíunnar eru englarnir, sem skiptast á litum: grænir og rauðleitir kirtlar, vængir og skór. Græni engillinn er tunglið og kvenkynið, brúni engillinn sólin og karlkynið í mörgum myndlísingum gullgerðarlistarinnar, þar sem sundrun og göfgun frumefnisins er stundum sýnd sem samræði tveggja kynja. Piero felur hér andstæður kynjanna, því samkvæmt strangri guðfræði eru englarnir kynlausir eða tvíkynja. Myndin til hægri að neðan sýnir framkvæmd hins alkemíska verknaðar þar sem brúni kóngurinn og græna drottningin skapa heimspekigull úr óreiðu heimspekinnar. Heimspekigullið er hér óbein vísun í Krist.

Ekki er hægt að segja að erótísk myndefni séu beinlínis viðfangsefni Piero. Mannslíkaminn í myndum hans er stífur og hreyfingarlaus og laus við kynþokka, þar sem geometrían skiptir meira máli en hin holdlega mýkt. Erótík Pieros birtist í ást hans á geometríunni og rökhyggjunni. Þessi blindaði Eros úr freskómynd frá Arezzo (1452-66) getur varla talist undantekning, en augnbandið segir okkur að ástin sé blind og handan allrar rökhyggju. Örvar Amors svipta okkur í raun vitglórunni og einginn er ´varinn fyrir skotum hans.

"Hin fullkomna borg" er málverk sem eignað hefur verið Piero, en höfundur er annars óþekktur. Málverkið er hins vegar varðveitt í Urbino þar sem Piero starfaði og þykir bera höfundareinkenni hans. Verkið sýnir hina fullkomnu borg geometríunnar, endurreisnartímans og húmanismans og er málað á þeim tíma sem Piero dvaldi í Urbino 1460 - 1480.

Forsíðumyndin er Upprisan, freskómynd frá Sansepolcro, varðveitt á safninu þar. Rómversku hermennirnir sofa á meðan Kristur rís úr gröf sinni, innritaður í geometríu þríhyrningsins, sem er skorin af láréttri línu grafarveggsins. Í bakgrunni er visin jörð og tré til vinstri, sem vísar til dauðans og vetrarins, til hægri er laufgað tré og gróður sem vísar til vorkomunnar, upprisunnar og eilífs lífs. Ef vel er að gáð þá er tvöföld fjarvídd í myndinni, áhorf á hermennina kemur að neðan, en sjónarhornið á Krist er beint og upphafið. Berhöfðaði hermaðurinn sem hallar sér upp að grafarveggnum er talin vera sjálfsmynd Piero. 

Heimildir:

Giulio Carlo Argan: Storia dell’arte italiana, Flórens 1988.Erwin Panofsky: Die Perspektive als „symbolische Form“, Leibzig- Berlin 1927.

Ernst H. Gombrich: Reflections on the history of art: views and reviews, Oxford 1987.

Carlo Ginzburg: Indagini su Piero, Torino 1982.Elenora Baiati: Piero della Francesca, Milano 1991.

Þorsteinn Vilhjálmsson: Heimsmynd á hverfanda hveli, I-II, Reykjavík 1986.

La nuova enciclopedia dell’arte, 1986.

 

Argan um mannerismann og 16. öldina

Lesefni fyrir Listaháskólann

Giulio Carlo Argan:

SEXTÁNDA ÖLDIN

Þegar manneristarnir líktu eftir listinni

 

Inngangur að 3. bindi „Storia dell’arte italiana“ frá 1988

Lausleg endursögn

 

Sextánda öldin var hádramatísk og full af mótsögnum, jafnt á sviði trúarbragða, heimspekilegrar hugsunar, stjórnmála og lista. Á grundvelli gjörbreytts gildismats fæðast þær hugmyndir sem mynda grunninn að nútímalegri evrópskri menningu. Þetta er öld „endurbótanna“ (reforma=endurbót/siðbót).

„Endurbót“ mótmælenda knýr sjálfa kaþólsku kirkjuna til þess að taka eigin uppbyggingu og starfshætti til endurskoðunar. Trúarbrögðin felast ekki lengur í opinberun eilífra sanninda, heldur í angistarfullri leit að Guði í sál mannsins. Þau felast ekki lengur í hlýðni við yfirvaldið, heldur í vali sem felur í sér persónulega ábyrgð einstaklingsins andspænis Guði.

Á sama hátt eru hin nýju vísindi ekki lengur miðlaður sannleikur er byggir á óskeikulleik fornra helgirita, heldur rannsókn á lifandi veruleika sem skilinn er sem stöðugt og síbreytilegt vandamál.

Stjórnmálin felast ekki lengur í stigskiptu valdakerfi er þiggur réttlætingu sína frá Guði, heldur í baráttu á milli afla sem leita stöðugt tímabundins jafnvægis sín á milli.

Og listin felst ekki lengur í hugleiðslu um guðdómlega reglu sköpunarverksins og framsetningu á henni, heldur í friðlausri rannsókn: rannsókn á eðli listarinnar, tilgangi og markmiði og á tilverurétti hennar og hlutverki í framvindu sögunnar.

Hvers vegna skyldi listin endurspegla form alheimsins ef um hann ríkir óvissa og hann er sjálfur settur undir rannsókn vísindanna?

Hvers vegna skyldi listin dá hið guðdómlega samræmi sköpunarverksins, ef Guð er ekki þar að finna, heldur í sjálfri vitund mannsins, í þeirri óþreyju og spennu sálarinnar sem berst fyrir eigin frelsun?

Hið mikla vandamál, sem við er að glíma, er héðan í frá fólgið í hegðun mannsins eða siðferði: afstöðu mannsins til Guðs og aga trúarlífsins, afstöðu mannsins til aðferða vísindalegra rannsókna og vísindalegrar reynslu.

Listin felur líka í sér hegðun eða siðferði á sinn hátt. Og skilgreiningin áframkvæmd hennar, hvernig hún verður að list og hvernig hún vinnur endanlega að andlegri frelsun mannsins, verður ekki síður mikilvæg en hin listræna afurð í sjálfri sér, verkið eða hluturinn.

Sú hugsun, að 16. öldin sé framar öðru öld hinnar klassísku lissköpunar, á rætur sínar að rekja til Giorgio Vasari, sem boðar þessa kenningu í bók sinni „Vite degli artisti…“ (Líf listamannanna), sem kom út árið 1550 og síðan aukin og endurbætt 1568. En strax á þessum tíma sá Vasari öldina skiptast í tvo þætti: framfarirnar og hnignunina í hinum klassíska anda og menningu, þar sem Michelangelo myndaði hápunktinn, en við tók síðan hnignunin (la decadenza) sem birtist í verkum þeirra listamanna sem gátu ekki lengur staðið hinum „guðdómlega“ meistara á sporði, heldur hófu að „stæla“ form hans.

Samkvæmt Vasari er sá listamaður manierista (orðið mannerismi þýðir nánast „tilgerðarstefna“) sem líkir eftir listinni í stað þess að líkja eftir náttúrunni. En ef rannsóknarverkefni listarinnar felst í því að kanna aðferðir hennar, þá er augljóst að viðfangefni hennar eru ekki lengur fólgin í því að útskýra náttúruna í gegnum listina, heldur beinast þau að þeim aðferðum sem beitt er við listsköpunina: að kanna hvað felist í tiltekinni aðferð við að vera maður og skapa list og hvaða tilgangi það þjóni.

Manneristunum var gjarnan lýst sem sérvitrum og ofurnæmum persónum, er hugsuðu ekki um annað en að yfirstíga „erfiðleika“ listarinnar, þar sem þeir lögðu hana stöðugt fyrir sig með nýjum hætti í því skyni að ná lengra.

Söguskilningur Vasari hefur haft mótandi áhrif á þá framsetningu sögunnar sem síðan fylgdi. Öldum saman hafa menn sameinast um að líta á hápunkt klassískrar listar í hinum stóru meisturum fyrrihluta 16. aldarinnar. Á sama hátt hafa menn sameinast um að sjá hnignunina og úrkynjunina í manneristunum á  síðari helmingi aldarinnar, þar sem listin er ekki lengur upptekin af þekkingu og framsetningu á náttúrunni, heldur sveiflast á ófrjóan hátt á milli reglu og sjálfdæmis (arbitrio) eða útúrsnúningsins (capriccio).

Síðari tíma gagnrýni hefur hins vegar endurreist virðingu hins illræmda mannerisma, þar sem um er að ræða list sem er óháð hinum hlutlæga veruleika en stefnir að því að tjá þá hugmynd sem listamaðurinn sér í huga sínum.

List manneristanna stefnir því að þekkingu á hinu huglæga (soggetto) fremur en á hinu hlutlæga (oggetto), og stendur því mun nær nútímalegum skilningi á listinni.

En ef mannerisminn virðist nútímalegri en klassíkin, hvenig getum við þá skýrt þá staðreynd, að meistarar fyrrihluta 16. aldarinnar – hinir svokölluðu klassíkerar – stóðu hinum framar?

Trúlega felst skýringin í því að klassíkerarnir voru alls ekki klassískir, og að hin stóru vandamál 16. aldarinnar voru einmitt sett fram í verkum þeirra.

Ef við lítum svo á, eins og reyndin sýnir, að mannerisminn sé í kjarna sínum andklassísk stefna, þá er það vegna þess að kreppa klassíkurinnar – eða öllu heldur kreppa endurreisnar klassískrar menningar – birtist okkur í öllu sínu veldi í verkum stóru meistaranna í upphafi 16. aldarinnar.

Ef það sem við köllum klassík er fólgið í heiðskýrum og altækum skilningi á heiminum, þá getur enginn þessara meistara talist klassískur.

Ekki Leonardo, sem leit ekki á náttúruna sem óbreytanlegan sannleika, heldur sem myrkan óljósan heim sem þurfti að gegnumlýsa og kryfja.

Ekki Michelangelo, sem sér angistarfulla spennu og harmleik í samskiptum Guðs og manns.

Ekki Tizian, sem flytur brennandi ástríður mannsins inn í heim listarinnar.

Þá eru þeir eftir, Bramante, sem deyr árið 1514, og Rafael, sem deyr árið 1520. Og þá er aðeins um að ræða verkin sem þeir unnu í Róm á öðrum tug aldarinnar.

Við nánari athugun sjáum við að verk Bramante eru fyrst og fremst klassísk á yfirborðinu, en ekki undir niðri. Og við sjáum einnig að áhugi Rafaels beinist frekar að þeim vandamálum sem Leonardo og Michelangelo og jafnvel Feneyingarnir settu fram, heldur en að beinni framsetningu hins hlutlæga veruleika. Jafnframt er hann sá listamaður síns samtíma sem setur framar öllum öðrum listina fram sem markmið í sjálfu sér. Að minnsta kosti lítur hann það svo, að hún nái aldrei endanlegu markmiði sínu nema í krafti þess að vera list.

Því má heldur ekki gleyma, að hinir raunverulegu manneristar litu á list þessara meistara sem útgangspunkt og viðmið og gengu svo langt í því, að þeir litu á eigin verk sem framhald, túlkun og athugasemdir við verk þeirra.

Frá og með þessum tíma (miðbik 16. aldarinnar) fram að lokum 17. aldarinnar verður grundvallarvandi ítalskrar listar fólgin í valinu á milli fordæmis Rafaels og fordæmis Michelangelos. Jafnt í listinni sem í trúarbrögðunum verður fyrsta verk manna að velja á milli tveggja fordæma (ídeala) sem menn komast ekki hjá að taka afstöðu til.

 

Rafael og Michelangelo standa fyrir tvenns konar skilning á listinni, það er að segja tveim ólíkum aðferðum við að nálgast svar við spurningunni um gildi og hlutverk listarinnar.

Sú staðreynd að umræðan um það hvor væri meiri, Michelangelo eða Rafael, stóð yfir í nærri tvær aldir, sýnir gleggst að hvorug lausnin verður tekin sem algild og endanleg, og að hvor fyrir sig hefur sitt gildi. Ef menn velja aðra leiðina þýðir það jafnframt höfnun á hinni, en reyni menn að sameina þær, felur það jafnframt í sér gagnrýna greiningu á báðum leiðunum. Í hvora áttina sem litið er þá verður sú list sem lifir á milli þessara fordæma hluti af díalektísku (gagnvirku) ferli eða samræðu.

Ef við höldum því fram að listin verði til sem díalektískt val á milli ólíkra valkosta þá höfum við jafnframt viðurkennt að listin hefur flust frá sviði hugleiðslunnar yfir á svið samræðunnar og rannsóknarinnar.

Það er einmitt með þessum hætti sem listin og stórbrotnustu fulltrúar hennar taka virkan þátt í því mikla umbreytingaskeiði og þeirri kreppu menningarinnar, sem í stuttu máli fólst í því að yfirstíga hin lokuðu hugsanakerfi skólaspekinnar og taka upp aðferðir stöðugrar þróunar er leiði okkur frá viðurkenndum sannleika til kerfisbundinna efasemda og rannsókna, frá hlýðni við reglur yfirvaldsins til löngunar í beina reynslu, frá trú á kennisetningar (dogmatisma) til trúar á rannsóknir (próblematisma).

Í hvaða skilningi gátu verk Bramantes og Rafaels talist hápunktur klassíkurinnar?

Fyrst og fremst vegna þess hversu föstum rótum þau standa í  hinum tveim stóru fordæmum síðari helmings 15. aldarinnar:

Í fyrsta lagi er það klassíkin sem algild rökvísi (razionalitá) og kenning, hin algilda framsetning heimsins eins og hún birtist hjá Piero della Francesca.

Í öðru lagi er það klassíkin sem algild saga (storicitá assoluta), algild framsetning á mannlegu lífi eins og hún birtist í verkum Mantegna.

Síðan er á það að líta, að verk þau sem þessir meistarar unnu í Róm á öðrum tug aldarinnar þróuðust í nánu sambandi við Kúríu páfans (æðsta yfirvald kirkjunnar) á tímum þar sem menn sáu fram á yfirvofandi kreppu siðaskiptanna og stefna kirkjunnar miðaði öll áð því að því að koma í veg fyrir siðbótina með því að setja með afgerandi hætti fram hinn formlega vitnisburð kennisetningarinnar og einingu hennar og hins sögulega og rökhugsaða sannleika (veritá razionale e veritá storica).

Þótt list Rafaels og Bramantes beinist að „sígildri“ klassík, þá er hún nátengd tilteknum sögulegum og tímabundnum aðstæðum, og í henni felst ákveðið svar við knýjandi spurningu sem lá í loftinu, einnig á Ítalíu, um trúarlega vitund og samvisku.

Svar þeirra verður óhjákvæmilega íhaldssamt, þar sem það miðar að því að fullvissa sálirnar og styrkja í trú þeirra á óbrigðulleika yfirvaldsins og þeirra gilda sem það stendur fyrir.

Málið snérist um samsemd trúar og rökhugsunar, samsemd rökhugsunar og sögunnar.

Hugmyndin um endurnýjun Rómaborgar („renovatio Urbis“), sem þeir Rafael og Bramante unnu að fyrir Júlíus II. og Leó X., miðaði að því að endurreisa hina klassísku Róm í hinni kristnu Róm. Hún átti að sýna hin sögulegu rök fyrir pólitísku og trúarlegu hlutverki hinnar heilögu rómversku kirkju. En grundvellinum var í raun kippt undan þeirri bjartsýni sem lá að baki þessara fyrirbyggjandi áforma um 1520, þegar trúarátökin taka á sig nýja mynd með beinni uppreisn Marteins Lúthers, og ágreiningurinn verður djúpstæðari og gengur lengra en menn höfðu áður getað ímyndað sér.

Rafael og Bramante eru þeir síðustu sem skilja klassíkina eða fornöldina sem sögulegan veruleika er þróist eða endurgerist í nútímanum. Eftir þá, og þegar hjá Michelangelo, verður fornöldin að sértækri fyrirmynd (modello astratto) sem menn geta meðtekið eða hafnað eða túlkað á ýmsa lund; semsagt hugmynd sem menn gera sér, huglæg staðreynd.

Þróun ítalskrar listar á 16. öld helst í hendur við mikla útgáfustarfsemi. Allar ritsmíðar þessa tíma um myndlist setja fram kenningar um fornöldina (l’antico), en þær miða frekar að því að festa í sessi ákveðnar reglur um hlutföll mannslíkamans og hlutföll í byggingarlist, heldur en að kryfja sögulega þýðingu rómverskra bygginga og minnisvarða.

En það er eitt sem stingur í augun: kenningar Vitrúvíusar[1] koma ekki í einu og öllu saman við sögulegan vitnisburð rómverskra bygginga og hinir sögulegu vitnisburðir eru í innbyrðis mótsögn hver við annan, þannig að reglan getur af sér undantekningar og sú reglufesta sem sýnist getur af sér sjálfdæmið.

Það sem vekur áhuga listamannanna nú er ekki óbrigðuleiki reglunnar, heldur sá árekstur sem skapast á milli reglu og sjálfdæmis, á milli formlegs og viðtekins aga og freistingarinnar að losna undan honum.  Þetta er árekstur sem endurspeglar í listinni það sem hvarvetna kraumar undir á öllum sviðum samfélagsins og er, þegar allt kemur til alls, hinn fullkomlega nútímalegi árekstur á milli valdboðs og frelsis.

Hinn trúarlegi kvíði og skilningurinn á siðferðisvanda tilverunnar verður ekki til með trúarbragðadeilunum, heldur eru trúarbragðadeilurnar sprottnar af samviskukreppu sem þegar var skollin á. Þetta er hvort tveggja meginþema í hinum flórenska nýplatónisma frá síðari helmingi 15. aldarinnar og ágreiningi hans við kerfisbundna rökfræði skólaspekinnar.

Marsilio Ficino hafði teflt fram heimspeki sálarinnar gegn ríkjandi náttúruheimspeki, og hann hafði lýst kvíðanum sem dæmigerðu ástandi mannsins (anxietas… hominis est propria). Ficino hélt því fram að þekkingin á Guði byrji með sjálfsþekkingu og að sérhver sé sinnar gæfu smiður (og um leið smiður eigin náttúru) og að einmitt þetta sé lögmál frelsisins.

Savanarola hafði skynjað og staðfest með píslarvætti sínu hin nánu tengsl sem eru á milli trúarlegrar vitundar og pólitsks frelsis. Og það er engin tilviljun að stutt æfiskeið hins hetjulega flórenska lýðveldis féll saman við hápunkt mannerismans, list manna á borð við Pontormo og Rosso, þar sem allri hefð er gefið langt nef í nafni rannsóknar á ríki og innbyggðum reglum frelsisins.

Gegn þeim sannfæringarboðskap sem þeir Rafael og Bramante senda frá Róm, að lausn vandans sé að finna í samræmingu trúarinnar, rökhugsunarinnar og sögunnar, kemur það svar að vandamálið eigi sér enga lausn, og að handan sérhvers vandamáls bíði alltaf annað nýtt, og að lífið sjálft sé vandamál og að lausn þess sé líka handan lífsins, það er að segja í dauðanum.

Lífið sem dagleg reynsla kemur nú í staðinn fyrir þann opinberaða sannleik sem fólginn var í náttúrunni, sögunni og heiminum. Trúarbrögðin verða að reynslu og trúarlegu líferni, stjórnmálin verða að pólitísku lífi eða reynslu og sá verður vísindamaður sem reynir rannsóknina og upplifir hina vísindalegu reynslu. Listamaður verður að sama skapi sá sem upplifir rannsókn formsins.

Ef sagan er þegar lifuð reynsla sem búið er að afgreiða, og hefur því ekki afgerandi gildi fyrir samtímann, þá er það sem eftir stendur og gildi hefur einungis mannlegar aðstæður og sú aðferð sem hver og einn beitir við að mæta andlegum erfiðleikum tilverunnar. Arfbornar hefðir glata öllum krafti sínum um leið og það verður þeim mun mikilvægara að skiptast á mannlegri reynslu, þar sem einstaklingsbundin reynsla manna er alltaf ólík.

Verk þýskra listamanna, ekki síst Dürers, vekja mikla athygli ítölsku manneristanna, sérstaklega í Flórens. Ekki bara vegna þess að þau endurspegla beint eða óbeint trúarlega spennu siðbótarinnar, heldur fyrst og fremst vegna þess að þau víkja af hinni forskrifuðu braut sögunnar. Og ástæða þess að listamenn frá Toscana hópast til Fontainebleau í Frakklandi, þar sem þeir mynda „alþjóðlega manneríska menningarmiðstöð“,  er ekki bara listáhugi við frönsku hirðina. Það sem gerir mannerismann lýsandi fyrir listræna menningu í Evrópu í lok aldarinnar er ekki útþenslustefna eins og gerðist með „alþjóðlegu gótikina“ í lok 14. aldar, heldur þvert á móti knýjandi þörf fyrir samskipti og átök ólíkra menningarstrauma, þar sem hver og einn birtist hinum sem viðfangsefni til að yfirstíga, mótsögn sem menn urðu að upplifa og ganga í gegnum með öllum þeim átökum sem því fylgdi.

Þau blóðugu og djúpu sár, sem klofningur hins kristna samfélags í siðbótarmenn og gagnsiðbótarmenn skildi eftir, ollu því að menn gátu ekki lengur stutt hina opinberuðu kennisetningu með rökhugsuninni, og hið trúarlega vandamál fólst því ekki lengur í því að sýna sannleikann, heldur að boða hann með tiltækum áhrifameðulum. Þar með verður til djúpstæð breyting á skilningi, meðulum og markmiðum listrænnar sköpunar innan ramma sem enn byggði þó á trúarlegum forsendum.

Kirkjuþingið í Trento (stóð með hléum 1541-1563) viðurkenndi grundvallarþýðingu listarinnar sem framleiðslu á ímyndum (immagine) í hinni trúarlegu baráttu . Ímyndin er ekki formið, og hún er í sjálfri sér hvorki rétt né röng, og því síður er hægt að halda því fram fyrirfram að hún sé góðrar eða slæmrar náttúru. Það þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig og kanna það út frá neytendunum, hvort áhrif hennar muni vera holl eða skaðleg.

 

 

Smásmuguleg og raunsæ lýsing á kvalafullum dauðdaga heilagra manna getur verið góðra gjalda verð ef hún hangir uppi í trúboðsskóla Jesúítanna, þar sem hún undirbýr þá undir tilhugsunina um mögulegt eigið píslarvætti og styrkir trú þeirra á að píslarvætti verði launað með eilífri frelsun.

Samskonar mynd sem, hengd er upp í kirkju til almenns messuhalds, getur hins vegar orðið til þess að hræða söfnuðinn að óþörfu. Mynd af heilagri konu getur haft óheillavænleg áhrif á óundirbúinn söfnuðinn þó listamaðurinn hafi ekki haft neitt slíkt í huga.

List sem vill helga sig einlægri trúrækni á sér tvo valkosti: að vera „tímalaus“ list, sem reynir að yfirfæra í hina listrænu sköpun þann hreinleika, reglufestu og einfaldleika sem hæfir trúarlífinu, eða á hinn bóginn að beita öllum tiltækum ráðum og meðulum myndlistarinnar til að örva ímyndunarafl áhorfandans og trúarinnlifun og örva hann þannig til virkrar trúarlegrar þátttöku og reynslu. Þetta eru ekki tveir valkostir sem útiloka hvorn annan, og það skildu upphafsmenn hins nýja myndmáls barokklistarinnar mætavel í lok 16. aldarinnar og við upphaf þeirrar 17.

[1] Rómverskur arkitekt og fræðimaður um byggingarlis á 1. öld f. Krist. Skrifaði ritröðina De Architectura í 10 bindum. Verk hans voru „enduruppgötvuð“ árið 1414 og urðu grundvöllurinn að fræðikenningum Albertis um byggingarlist og myndlist.

Pontormo: Kristur tekinn af krossinum, Flórens 1526-28

Ferðin til Rómar

Ferðin til Rómar

 

“Í Róm fann ég sjálfan mig í fyrsta skiptið.”

Johann Wolfgang Goethe: Ítalíuferðin, 17. mars 1788

Antonio_Joli_-_Rome_-_View_of_the_Colosseum_and_The_Arch_of_Constantine_-_WGA11961

Antonio Joli: Colosseum og sigurbogi Konstantíns 1744

 

Hvers vegna segist Goethe fyrst hafa fundið sjálfan sig í Róm?

Við þessari spurningu er sjálfsagt ekkert einfalt svar, en hitt er ljóst að ef líf mannsins er ferðalag og ef ferðalagið sem slíkt á sér markmið og áfangastað, þá hlýtur sjálfsþekkingin að vera einn helsti tilgangur og markmið ferðalagsins.

Ferðalög beinast yfirleitt að tveim ólíkum stöðum: annars vegar förum við burt úr borginni út í sveitina til þess að höndla hina óbeisluðu náttúru og finna samhljóm hennar í sjálfum okkur.

Hins vegar förum við á vit borgarinnar og menningarinnar sem hefur mótað umhverfið og náttúruna eftir þörfum mannsins og skilgreint rýmið út frá þörfum hans.

Bæði ferðalögin eru í einhverjum skilningi á vit fortíðarinnar og sögunnar: í náttúrunni skynjum við hinar líffræðilegu rætur okkar í djúpi vatnsins, forgengileika efnisins og lífríkisins og í óendanleika himinblámans; í borginni skynjum við hvernig maðurinn hefur ummyndað náttúruna í sinni mynd á grundvelli þeirrar staðreyndar að hann er einn dýranna ófær um að lifa í og með náttúrunni án þess að beygja hana að þörfum sínum og þar með að gefa henni merkingu.

Það er tilgangslaust að velta því fyrir sér hvort flokka beri Zenobiu í hóp hamingjusamra eða óhamingjusamra borga. Það hefur engan tilgang að flokka borgir í þessa tvo hópa. Þær tilheyra hins vegar tveim öðrum flokkum: það eru þær borgir sem halda áfram í gegnum árin og umbreytingarnar að gefa óskum og draumum mannanna form og svo þær borgir sem hafa eyðlagt draumana og þrárnar eða verið eyðilagðar af þeim” segir skáldið Italo Calvino í bók sinni “Ósýnilegar borgir”.

Calvino er þarna að halda því fram að mynd borgarinnar sé skyldari draumi en áþreifanlegum veruleika, og að við eigum að nálgast hana sem slíka.

Við erum alin upp í því á  okkar dögum að eini marktæki veruleikinn sé sá sem við getum mælt á mælistiku vísindanna. Merking rýmisins og hlutanna sé fólgin í mælanleika þeirra og hvernig þessi fyrirbæri virka á mælikvarða tækninnar og vísindanna, hvort sem það er vistfræðin og geometrían eða hin allsráðandi lögmál markaðarins.

En borgin er í eðli sínu uppsöfnuð blanda af skipulagi og óreiðu, reglu og tilviljunum, hún er ummynduð saga sem birtist okkur áþreifanlega á afar tilviljunarkenndan hátt, hún er ekki bara efnislegt rými til að mæla og skilgreina eða fornminjagarður til að grafa upp eins og mynd af Sögunni, hún er líka sálfræðilegt rými, tilfinnigalegt og trúarlegt rými sem á endanum reynist eins og Calvino sagði, meira af ætt draumsins en hins áþreifanlega veruleika.

Fyrsta reynsla mín af Róm var einmitt af þessum toga: mér fannst ég staddur á leiksviði sem var fyrst og fremst af ætt draumsins. Á þessu leiksviði voru margir leikmunir sem ég hafði kynnst af óbeinni frásögn eða myndum úr bókum, annað sem mér fannst ég þekkja þótt ég hefði aldrei séð það áður, en heildaráhrifin voru líkust því að vera staddur í miðjum draumi, á ferðalagi einhvers staðar djúpt inni í dulvitund míns sjálfs. Ég áttaði mig fljótt á því að ferðalagið til Rómar var var ekki bara útrás, heldur ekki síst ferðalag inn á við, inn í heima sem höfðu verið lokaðir einhvers staðar í dulvitund minni eða líkama, en opnuðust nú hver á fætur öðrum. Þetta var eins og ferðalag inn í myrkvaðan miðaldakastala með óteljandi vistarverum sem voru sífelt að koma manni á óvart, ekki síst vegna þess hversu kunnuglega þær komu mér fyrir sjónir í öllum sínum framandleika.

Róm er eins og forskrift að hugmyndinni um borgina. Hún geymir minni okkar og drauma um þetta rými sem gefur náttúrunni merkingu og manninum kleift að lifa af. Hún er eins og safnhaugur minninga og drauma mannkynsins um hið fullkomna rými, ekki bara í þau 2760 ár sem hún hefur staðið, heldur frá upphafi vega. Form hennar, neðanjarðarhvelfingar, breiðstræti og háreistar hallir geyma í sér drauma um aðra heima, annað líf og annan veruleika um leið og þau birtast okkur í áþreifanlegri upplifun sem bein og milliliðalaus reynsla sem hefur ekkert með mælistikur sagnfræðinnar og vistfræðinnar að gera en snertir okkur beint og án túlkunar eins og eitthvað sem kemur djúpt úr eigin vitund, úr hinu dulda minni líkama okkar.

Goðsögulegur uppruni Rómar er líka eins og af ætt draumsins. Hún byggir á bróðurmorði líkt og upphaf siðmenningarinnar, eins og því er lýst í 1. Mósebók: Rómúlus drap Remus eins og Kaín drap Abel. Hugmyndin um borgina sem heilagt rými og stofnun hennar sem heilaga athöfn er viðfangsefni bandaríska arkitektsins Joseph Rykwerts í frábæru riti hans The Idea of a Town: The Anthropology of Urban Form in Rome, Italy, and The Ancient World (1988). Rykwert segir söguna af þessu bróðurmorði enduróm af gleymdu ritúali er tengist hugmyndinni um stofnun borgar og um borgarmúrana sem þann helga stað sem skilur á milli borgar og náttúru. Eða eins og Plútarkos segir: “Stofnandi borgarinnar festir bronsplóg við pál sinn og bindur við naut og kvígu, beitir þeim síðan til að draga mörkin með djúpu plógfari. Á eftir fylgir hópur manna sem sér til þess að torfristurnar lendi innan markanna. Á þessum mörkum á að reisa pomoerium , orð sem merkir “meðfram eða handan múrsins”. Þar sem borgarhlið eiga að vera taka þeir upp plóginn… því Rómverjar telja allan múrinn heilagann nema hliðin…”.

Scene 8 in situ: Trajan pours an initial libation (left) as the victimarii lead the pig, ram, and bull to sacrifice. The procession moves around the walls of the camp, led by musicians. The military standards, including the aquila, have been set up at the center of the camp. RBU2013.2069
Sviðsmynd af ´Sigursúlu Trajans keisara í Róm (2. öld e.Kr.) þar sem fórnarhátíðin „Suovetaurilia“ fer fram, en hún felst í því að helga borgarmúra Rómar með dýrafórnum til hernaðarguðsins Mars. Tónlistarmenn leika utan múranna en keisarinn færir fórn sína innan múranna.

Plógfarið var heilagur hringur sem skiptist í 4 parta með krossgötum sem kallast Cardo og Decumanum og eru dregnar í samræmi við gang sólar. Hringurinn var mynd af heiminum með himinhvelfingunni yfir eins og hvolfþak og krossgöturnar voru höfuðáttirnar. Hugmyndin um borgina átt sér frá upphafi fyrirmynd annars staðar, í myndinni af kosmos, í öðrum heimi. Hún var mynd af hinum skipulagða heimi, heimi sem var byggilegur af því að hann hafði merkingu, ólíkt hinni ómerktu náttúru utan múranna. Rómúlus drap bróður sinn af því hann rauf hin helgu vé plógfarsins, hann truflaði þá heilögu athöfn að gefa rými mannsins merkingu. Á krossgötunum var nafli þessa heims og þar reis hofið og þar var fórnargröfin og þar reis altarið sem átti að tryggja velferð þessa staðar. Enginn veit með vissu hvar “umbilicus” eða nafli Rómaborgar var staðsettur við stofnun hennar hinn 21. apríl árið 753 fKr., en Rykwert færir líkur að því að það hafi verið þar sem nú er hof gyðjunnar Vestu á torgunum miðjum. Þar logaði eldur á altari Vestu samfleitt í yfir 1000 ár og sjálfur var Rómúlus getinn í synd af samræði Vestumeyjar og hernaðarguðsins Mars. En sem kunnugt er var það úlfynjan sem bjargaði þeim bræðrum frá drukknun í ánni Tíber eftir að reynt var að hylma yfir þessa synd.

Róm í upphafi

Uppdráttur af Róm í upphafi, byggð á 7 hæðum: Palatinus, Aventinus, Velia, Oppius, Viminalis, Quirinales og Caelius. Breiða línan markar elstu borgarmúrana, en nafli borgarinnar, Umbelicus, er á Forum.

Ekki sjáum við nafla Rómar á ferð okkar um borgina í dag, en vitundinn um að heimurinn eigi sér nafla er örugglega greipt jafn djúpt í vitund okkar og vitundin um eigin nafla og þá tengingu sem hann eitt sinn veitti okkur við annan heim í móðurkviði. Og þegar við stöndum við hof Vestu og ímyndum okkur þessa frumhelgun rýmisins sem frumforsendu siðmenningarinnar þá stöndum við jafnframt óhjákvæmilega nærri þeim stað þar sem við fyrirhittum okkur sjálf, rétt eins og skáldið Goethe forðum daga.

Í dag getum við reikað um rústirnar á Fori imperiali og séð það sem eftir stendur af Vestuhofinu eins og það var endurgert á keisaratímanum. Allt hefur þetta verið grafið úr jörð og öll vegsummerki úr lagi færð, en með ímyndunaraflinu getum við séð fyrir okkur að þarna hafi áttirnar verið settar fyrir Rómarborg árið 753 f.Kr, og þar með markað rými, ekki bara fyrir borgina, heldur fyrir gjörvalla hina evrópsku og vestrænu menningu. Hugmyndir Rómverja um borgina sem “città quadrata” á þessum tíma voru fengnar frá Etrúum frekar en Grikkjum, en sambærilegir siðir tíðkuðust í grískum borgum og þeim nýlendum Grikkja sem reistar voru á Ítalíu á 7. og 6. öld f.Kr og mynduðu hið forna Stóra Grikkland. Mörkun og helgun rýmisins út frá höfuðáttum og gangi himintungla gerði borgina að þeirri mynd af heiminum sem var manninum nauðsynleg til þess að hann gæti staðsett sig í veröldinni og séð samhengi hins stóra og hins smáa. Byggðir Miðjarðarhafsins hafa síðan lagst ofan á þessar undirstöður siðmenningar eins og jarðlög og grafið frumhugmyndina í gleymsku tímans, en þó sá malarían til þess að borg eins og Paestum er fullkomlega varðveitt með sínum Cardo og Decumanus og sínum “mundus”, grafhýsi við nafla borgarinnar sem hýsti fórnir til guðanna og til stofnanda borgarinnar. Og jafnvel Vesúvíus hefur varðveitt fyrir okkur grunnmynd rómverskrar borgar, en árið 79 eKr var rétt rúmur áratugur liðinn frá því að Pompei  eyðilagðist í jarðskjálfta þannig að jafnvel hún hefur ekki varðveist okkur í fullkomlega upprunalegri mynd frá stofnun hennar.

Eina borgin við Miðjarðarhaf sem hefur varðveitt grískt götumynstur með með sínu upprunalega skákborðsmynstri og Cardo og Decumanus frá stofnun allt fram á okkar daga er Napoli, en elsti hluti borgarinnar byggir í dag á því götumynstri sem Grikkir mörkuðu við stofnun hennar á 5. öld f.Kr. Það er eðli borga sem eiga sér margra alda eða árþúsunda byggðasögu að uppruni þeirra hverfur undir marglaga feld sögunnar, en kjarni málsins – samkvæmt Rykwert- er sá, að hugmyndin um borgina sem slíka er til fyrir stofnun hennar, hún er byggð og stofnuð með helgiathöfn og hún á sér stofnanda sem hefur stöðu hetjunnar í grísk-rómverskum menningarheimi, þannig að minningu hans er haldið á lofti með árlegri helgiathöfn og fórn á þeim helgistað sem hýsir “mundus”, sem er eins konar móðurlíf borgarinnar, helgur staður við nafla hennar þar sem stofnunar borgarinnar og stofnanda er minnst.

Þegar því er haldið fram að Róm sé eins og frummynd og fyrirmynd annarra borga, þá er það vegna þess að engin borg hefur varðveitt jafn mörg lög siðmenningar í grunni sínum, engin borg hefur haldið jafn lengi áfram “að gefa óskum og draumum mannanna form” eins og Calvino kemst að orði um hina ósýnilegu borg Zanobiu. Í upphafi var borgin lítið “borgríki”, en á fáum öldum nær hún þeirri stöðu að verða fyrstra stórborgin í nútíma skilningi þess orð. Það gerist um leið og hún verður valdamiðstöð heimsins, upphaf og ljósmóðir þess miðstýrða valds sem setti heiminum lög, en eins og stendur í Jólaguðspjallinu þá lét Ágústus “skrásetja alla heimsbyggðina” á fæðingarári Krists, og heimsbyggðin var þá Rómverska heimsveldið, það sem var þar fyrir utan taldist ekki til þessa heims.

Upphaflega byggðist borgin af Etrúum, Latverjum og Sabínum, en hinar hugmyndalegu rætur borgarinnar verða engu að síður fyrst og fremst raktar til þess helleníska jarðvegs sem Grikkir höfðu sáð til um allt Miðjarðarhafið og var Rómverjum fyrirmynd bæði í trúarlegum, lögfræðilegum og heimspekilegum efnum. Á dögum Ágústusar  gerist það hins vegar að hin gyðinglegu áhrif fara að gera vart við sig. Ef við leggjum leið okkar upp á Aventinohæð og förum inn í basilíku heilagrar Sabínu sjáum við þetta svart á hvítu: á innra gafli kirkjunnar yfir innganginum eru tvær táknmyndir um uppruna hinnar rómversk kaþólsku kirkju frá 5. öld e. Kr.: Ex gentibus og ex circumcisione.

Ex gentibus e circumcisione

Ex Circumcisione og Ex gentibus, mósaíkmyndir úr S. Sabina í Róm, 5. öld e. Kr.

Ex gentibus voru þeir sem snúist höfðu frá rómverskri fjölgyðistrú til kristni, ex circumcisione voru hinir umskornu, þeir sem höfðu snúist frá gyðingdómi til kristni. Þeir sem áttu stærstan heiðurinn af sameiningu þessara menningarheima í hinn kristna söfnuð voru helgustu píslarvættir kirkjunnar í Róm, þeir Pétur og Páll, annar gyðingur og hinn af grísk-rómverskum uppruna. Rétt eins og hin forna Rómaborg var reist á gröf  þeirra Rómulusar og Remusar, þá er hin kristna Róm reist á gröfum þessara píslarvotta og gröf Péturs postula er enn undir höfuðaltari Péturskirkjunnar í Róm, höfuðkirkju hins kristna heims frá því hún var reist af Konstantín keisara á fyrri hluta 4. aldar; eins konar fórnaraltari sem vitnar um stofnanda hins kristna safnaðar og hinnar kristnu Rómar.

Hvergi í hinum kristna heimi getum við fundið áþreifanlegri ummerki um þessi tímamót í sögu Vesturlanda en einmitt í Róm. Tímamót sem skipta svo miklu máli að þau eru látin marka upphaf tímatals, ekki bara í kristni, heldur um víða veröld.

Grikkir höfðu miðað tímatal sitt við upphaf hinna olympisku leika, en þeir höfðu annan skilning á tímanum en gyðingar og hinir kristnu. Fyrir þeim hafði heimurinn alltaf verið og átti sér engan enda eða markmið. Hann var tími sífelldrar endurkomu hins sama eins og hann birtist í gangi sólar og endurkomu árstíðanna. Samkvæmt sköpunarsögu Gamla testamentisins skapaði Guð heiminn úr engu og tilvera gyðinga markaðist af biðinni eftir komu hins smurða. Þannig fékk tíminn línulegt ferli í átt að því markmiði, sem fyrst var uppfyllt með komu Krists samkvæmt Nýja testamentinu, og síðan staðfest með spádómnum um endalok heimsins og endurkomu Krists og endurreisn hins kristna heims í hinni Himnesku Jerúsalem sem átti sér hliðstæðu í hinni upprunalegu Paradís.

Í Róm sjáum við hvernig þessi ólíki skilningur á tímanum og rýminu birtist fyrst í undirheimum katakombanna og fátæklegum ummerkjum þeirrar undirstéttar sem fylgt hafði þeim Pétri og Páli og mátt sækja ofsóknum. Síðan sjáum við hvernig þessi hugmynd um holdtekju Guðs í líkama Krists færist smám saman yfir á hinn guðdómlega veraldlega höfðingja sem var keisarinn sjálfur. Sigurbogi Konstantíns keisara við Colosseum í Róm er ekki bara minnisvarði um þennan örlagavald í sögu Vesturlanda, hann er líka minnisvarði um það hvernig hinir veraldlegu valdhafar notfærðu sér hugmyndina um Krist sem konung og yfirfærðu hana í vissum skilningi yfir á hinn veraldlega höfðingja. Konstantín lét ekki bara lögleiða kristni í rómverska ríkinu, hann gerði líka hinu fornu Bísantíum að höfuðborg rómverskla ríkisins, sem þannig var nefnd eftir honum sem Konstantinopel, og hann átti jafnframt frumkvæði að því að samþætta með vissum hætti hið keisaralega myndmál og formhugsun keisaraveldisins hinni kristnu hugmyndafræði og heimsmynd.

Sigurbogi Konstantíns hluti

Hluti af Sigurboga Konstantíns í Róm frá því um 330 e.Kr. Sigurboginn er samsettur úr eldri verkum og nýjum: Skyldirnir tveir eru aðfengnir og í klassískum hellenískum anda og sýna hetjudáðir eldri keisara. Lárétti borðinn sýnir Konstantín sjálfan umkringdan af hirð sinni. Lágmyndin markar þau rof sem verða á þessum tíma á milli hins klassíska helleníska stíls og hins býsanska stíls miðalda. Þarna situr Konstantín (höfuðlaus) fyrir miðju umkringdur hirð sinni. Myndin byggir á samhverfu stílföstu mynstri en ekki þeirri eftirlíkingu (mimesis) sem var aðalsmerki hins klassíska hellenska myndlistararfs. Myndin minnir um margt á býsanskar myndir af Kristi meðal kennimannanna og Kristi meðal kirkjufeðranna á dómsdegi og markar þannig upphaf þess að kristin hugmyndafræði er samsömuð hugmyndinni um hið keisaralega vald eins og tíðkaðist um aldir í býsanska eða Aust-rómverska ríkinu.

 

Á fyrstu öldum kristni var myndlistin fátækleg og að vissu marki mótuð af hinum gyðinglegu hugmyndum um bannið á helgimyndum. Myndgerving guðanna var talin tilheyra fjölgyðistrúnni og við finnum nánast engin merki kristinnar myndlistar fyrr en á 3. öld e.Kr. Fram að tíma Konstantíns er öll helgimyndagerð í lágmarki og leifar hennar vart finnanlegar nema í elstu katakombum Rómar. Með lögleiðingu kristni er hin keisaralega rómverska byggingararfleifð hins vegar endurvakin í basilíkum Péturs, Páls, Jóhannesar og Maríu í Róm, sem allar tóku mið af formi hinna veraldlegu dómshúsa sem vottuðu um ægivald keisaranna yfir heimsbyggðinni. Basilíkur Rómar voru eins og aðrar opinberar byggingar í borginni tröllvaxnar og báru í formum sínum og yfirstærð þessa einstöku hugsun um hið altæka veraldlega vald er náði yfir alla heimsbyggðina. Colosseum var ekki bara blóðvöllur þar sem skylmingaþrælar börðust upp á líf og dauða við hungruð villidýr og hver við annan, það var líka eins konar líkan eða frummynd af heimsveldinu sem samanstóð af “urbis et orbis”, borginni og hringferlinum sem umlukti hina lokuðu grísk-rómversku heimsmynd og gjörvalt rómverska heimsveldið í senn. Rétt eins og Pantheon var ekki bara hof allra guða, heldur um leið mynd af þessari sömu heimsmynd, þar sem hvolfþak Hadríans er eins og himinfestingin, gatið í toppi hennar eins og gatið yfir í eilífðina eða ríki dauðans og ljósgeislinn sem það kastar inn í rýmið möndullinn sem heimurinn snýst um. Þessi mynd af heiminum sem hús allra guða var umbreytt í kirkju um aldamótin 600, og við getum þakkað það kirkjunni að við getum enn gengið inn í þessa heimsmynd eftir 2000 ár, minnug þess að þegar Sturla Sighvatsson lét húðstríkja sig fyrir framan bronshurðirnar sem enn standa var þessi bygging meira en 1000 ára gömul.

Pantheon11

Pantheon, hof allra guða, reist á dögum Ágústusar keisaraog endurreist af Hadrían á fyrrihluta 2. aldar e.Kr.

 

Þegar við ráfum um rústir og undirheima Rómaborgar á okkar dögum komumst við í beina snertingu við þessa undirheima sem eru um leið undirheimar þess dulda minnis sem býr í líkama okkar og undirvitund. Það er engin tilviljun að við þekkjum sjálf okkur í þeirri mynd af heiminum sem Panþeonhofið birtir okkur. Þessi mynd er okkur í blóð borin, við höfum fengið hana í arf sem er ekki bara hugmyndalegur heldur líka með einhverjum hætti af líkamlegum toga. Hugmyndinn um naflann sem tengir okkur við umheiminn í móðurlífi og sú hugmynd um nafla alheimsins sem þarna stendur eru óaðskiljanlegar, það sem skiptir hins vegar máli er að þarna skynjum við hvernig þessari hugmynd hefur verið gefin efnisleg mynd um leið og rýminu er gefin hugmyndaleg merking og manninum markaður staður í alheiminum. Maðurinn fann  sig ekki lengur varnarlausan á berangri náttúrunnar í þessari mynd, hann var kominn í öruggt skjól óhagganlegrar myndar af óbreytanlegum heimi sem var hlaðinn merkingu.

 

Rétt eins og við getum rakið hugmyndina um hina fullkomnu borg sem mynd af hinni fullkomnu byggingu alheimsins aftur til Platons, þá getum við rakið þá hugmynd að hin fullkomna borg eigi sér fyrirmynd í hinni Himnesku Jerúsalem aftur til hinna kristnu miðalda. Ágústínus kirkjufaðir segir í bók sinni Borg Guðs að þótt hin veraldlega borg muni alltaf hafa hina Himnesku Jerúsalem að fyrirmynd þá sé hún óhjákvæmilega mörkuð erfðasyndinni og þar með áhrifum djöfulsins.

Leonardo Vitruvius

Myndskreyting Leonardos við útgáfu endurreisnartímans á fræðiriti Vitruviusar um hlutföll í alheimi og smáheimi, makrokosmos og mikrokosmos, ritað á 1. öld f. Kr. tengir form þessara heima í eina mynd

Hins vegar á sú hugmynd rætur sínar að rekja til húmanismans að hin fullkomna borg sé um leið mynd af líkama mannsins. Ekki þannig að hún sé eftirlíking af formi hans, heldur að hún sé eftirlíking af virkni hans. Að maðurinn finni sig í hinni fullkomnu borg eins og hann finni sig í sínum eigin líkama. Heilagur Tómas af Aquinas sagði reyndar að listin líkti ekki eftir náttúrunni í formum hennar, heldur í virkni hennar. Þannig virkar hin fullkomna borg eins og hinn fullkomni líkami mannsins. Við vitum reyndar að rómverski arkitektinn Vitruvius setti fram hugmyndina um samræmi í byggingu mannslíkamans og alheimsins þegar á 1. öld f. Kr. Hin fræga teikning Leonardo af manninum inni í ferningi og hring er einmitt skýringarmynd við þessa hugsun. Alla þessa sögu borgarrýmisins og alla þessa drauma mannkynsins um hið fullkomna rými getum við lesið úr undirheimum, rústum og höllum Rómaborgar.

Hvar er höfuð þeirrar Rómaborgar sem er mynd hins mannlega líkama?

Við finnum það á Campidoglio, hæðinni þar sem ráðhús Rómar hefur staðið í meira en 2500 ár, hæðinni sem eitt sinn hýsti hof Júpiters og hýsir nú torg Michelangelos frá 16. öld, meistaraverk í nýrri rýmishugsun endurreisnartímans og húmanismans. Þarna hefur höfuð þessa líkama verið staðsett frá öndverðu.

Hvar finnum við hjarta Rómaborgar?

Hugur okkar hvarflar strax að gröf Péturs postula sem er falin undir háaltari Péturskirkjunnar. Þetta er ekki bara hjarta Rómar, þetta er hjarta hins gjörvalla kristna heims.

Hvar finnum við nafla Rómar? Miðjuna sem allar vegalengdir í rómverska heimsveldinu voru mældar út frá og markaðar mílusteinum eftir vegakerfi keisaranna og rómverska hersins?

Við finnum hann óhjákvæmilega á Forum, trúlega undir sjálfu Vestuhofinu sem nú hefur verið grafið úr rústum og er aðeins varðveitt að hluta. Þar undir er “mundus”, gröfin og fórnaraltarið þar sem ekki bara Rómaborg var markaður staður, heldur gjörvallri heimsbyggðinni.

Hvar finnum við augu Rómaborgar?

Hvergi nema í gatinu á hvolfþaki Panþeons þar sem okkur opnast sýn ekki bara upp í himininn, heldur út fyrir himinfestinguna yfir í ríki dauðans og óminnisins.

Hvar finnum við þyrstan munn borgarinnar?

Hvergi nema við Trevi-brunninn sem notar enn 2000 ára gamlar vatnsleiðslur til að flytja ferskt drykkjarvatn um langan veg ofan úr fjöllunum inn í þéttbýlið.

Hvar finnum við maga Rómaborgar?

Við finnum hann á matvörumarkaðnum á Campo dei Fiori, þessu einstaka torgi sem var vettvangur aftöku þegar Giordano Bruno var brenndur þar á báli fyrir að halda í hugmyndir gnostíkeranna um að náttúran og Guð væri eitt og hið sama.

Hvar finnum við þvagfæri og endaþarm Rómaborgar?

Við finnum þau í Cloaca maxima, holræsinu mikla sem enn stendur og færir afrennsli frá Forum út í Tíber. Op þess er enn sjáanlegt við árbakkann eins og endaþarmur borgarinnar.

Hvar finnum við fætur Rómaborgar?

Við finnum þær út með Via Appia,  veginum þar sem Rómverjar treistu grafhýsi sín og minnisvarða til þess að þeir mættu öðlast framlengt líf í minni eftirkomendanna. Á veginum þar sem Pétur mætti Kristi á göngu og spurði hann: Dominum quo vadis?. Á veginum þar sem þrælar Spartakusar tóku út kvalir sínar negldir upp á krossa í steikjandi sólarhitanum kílómetrum saman.

Hvar finnum við blóðrás Rómaborgar?

Í Tíber sem rennur í hlykkjum gegnum borgina eins og óstöðvandi framrás tímans. Þannig getum við endalaust haldið áfram að leika okkur að þessari samlíkingu, sem verður með undarlegum hætti raunveruleg þegar við förum að kynnast þessari undraveröld sem er um leið veröld okkar eigin líkama og undirvitundar, hið leynda minni mannsins og siðmenningarinnar.

 

Italo Calvino segir að sumar borgir haldi áfram að varðveita drauma og þrár mannsins á meðan aðrar borgir hafi orðið draumunum að bráð. Róm er ein þeirra borga sem hefur hvað best tekist að varðveita þessa drauma. Við finnum þá í formum borgarinnar, draumum mannana um hið fullkomna rými hinnar grísk-rómversku heimsmyndar, í drauminum um hina Himnesku Jerúsalem eins og hann birtist í basilíkum og klaustrum borgarinnar, í draumi Tómasar frá Aquinas um eftirlíkingu náttúrunnar í virkni hennar eins og þeir birtast í krókóttum strætum miðaldanna,  í draumunum um hina rökréttu borg húmanismans með höllum torgum og samgönguæðum milli höfuðkirkna borgarinnar, við finnum þá í draumum gagnsiðbótarinnar um annan heim í hvelfingum barokk-kirknanna og leiksviði barokk-torganna við Trevi-brunninn, Spænsku tröppurnar og Piazza Navona, við finnum stórveldisdrauma Mussolinis í hinni undarlegu blöndu modernisma og klassíkur á Olympiuleikvanginum gamla og í fjölmörgum opinberum byggingum fasíska tímans, við finnum drauma mannkynssögunnar í þessum flókna vef sem bílamenningin er nú á góðri leið með að drekkja í eimyrju, hraða og hávaða með hraðbrautum sínum og umferðarmannvirkjum. En við erum blessunarlega laus við gler- og stálhallir postmódernismans í þessu völundarhúsi minninganna sem fékk skáldið Goethe til að finna sjálfan sig í fyrsta sinn árið 1788 og fékk Tómas Sæmundsson til að skrifa þessi orð í Ferðasögu sína árið 1832:

Hef eg þar fyrir mér eigin reynslu, og hafði eg varla hugað að hinum smiðandi snilldum (áður en hann kom til Rómar, innsk.), öllu þeirra ágæti, þeirra mikilvægu verkunum í veraldarsögunni … og í mannligu lífi, hvað mikið þar um er talað í bókum, og oft ómöguligt án þess að bera þar á skynbragð að skilja heilt merkisrit eða taka þátt í samræðum siðaðra manna, fyrr en augu mín opnuðust og eg sá hin fögru löndin hvar snilldin eiginlega á heima ásamt náttúrunnar indæli og himinsins blíðu…Verður því dómur minn annar, og eg sanna héðan af að þeir hafa rétt að mæla sem álíta þennan hlut meðal þeirra verðugustu og veita eftirtekt hvörjum menntuðum manni sem víða fer.(Tómas Sæmundsson: Ferðabók, bls. 338).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

%d bloggers like this: