NIETZSCHE, HEIDEGGER OG ORÐSPJÓT TÓMHYGGJUNNAR

NIETZSCHE, HEIDEGGER OG ORÐPSJÓT TÓMHYGGJUNNAR

„…og ég sá mikinn harm ríða yfir mannkynið. Bestu menn urðu verkum sínum afhuga.

Kenning var sett fram, trú slóst í för með henni: „allt er hégómi, allt má einu gilda, allt er liðin tíð!“

Og ofan af öllum hæðum endurómaði: „allt er hégómi, allt má einu gilda, allt er liðin tíð!“

Víst höfum við uppskorið; en hvers vegna rotnuðu allir ávextirnir í höndum okkar og urðu brúnir? Hvað féll ofan frá tunglinu illa í nótt er leið?

Allt starf hefur verið unnið fyrir gýg, vín okkar er orðið að eitri, illt auga hefur sviðið akra okkar og hjörtu, og skilið þau eftir gulnuð.

Við þornuðum allir upp; og ef eldi slær niður í okkur rjúkum við í allar áttir eins og aska: - já, við höfum dasað sjálfan eldinn.

Allar lindir okkar þrutu, meira að segja sjórinn hörfaði undan. Foldina langar að rifna, en djúpið neitar að gleypa!

„Æ, hvar er nú til haf sem hægt er að drukkna í“: þannig óma kveinstafir okkar – út yfir flatlendar mýrar.

Sannarlega erum við orðnir of þreyttir til að deyja; nú vökum við bara og höldum áfram að lifa – í grafhýsum!“


Þetta voru orð spámannsins sem Zaraþústra heyrði á eyðimerkurgöngu sinni ofan af fjallinu í frásögn Friedrichs Nietzsche „Svo mælti Zaraþústra – Bók fyrir alla og engan“, í þýðingu Jóns Árna Jónssonar frá 1996. Þetta er lýsing á „tómhyggjunni“ sem Nietzsche upplifði undir lok 19. aldar sem „dauða Guðs“ og kenndi við „Dekadenz“ eða hnignun. Tíðarandi sem endurspeglaði ekki bara aldamótin 1900, heldur á sínar augljósu birtingarmyndir í okkar samtíma.

Tómhyggjan var alla tíð eitt af meginviðfangsefnum Nietzsche, og í safnritinu „Viljinn til valds“, sem gefið var út eftir lát hans sem „ófrágengin heildarmynd“ af hugsun hans, hafa ritstjórar valið þessi upphafsorð: „Tómhyggjan er í dyragættinni. Hvaðan kemur þessi uggvænlegasta af öllum boðflennum?“

Svarið við þessari spurningu fólst í ævilangri glímu Nietzsche við Platon, kristindóminn og tæknina: í einu orði við „frumspekina“, þar sem Platon hafði staðsett mælikvarða sannleikans í „handanveru hugmyndanna“ og vanvirti þannig skynreynslu okkar af hlutunum.

Nietzsche rakti hvernig heilagur Ágústínus hefði fært þessa tvíhyggju Platons yfir á handanveru Guðs og það Himnaríki sem drottnaði yfir hinu jarðneska sköpunarverki hans, sem hafði endanlega skilið ekki bara á milli sannleika og sýndarveru, heldur hérverunnar og hinnar himnesku handanveru, hins jarðneska og himneska, andans og holdsins, líkamans og sálarinnar.

Hinn kristni heimur Ágústínusar, laut í einu og öllu yfirskilvitlegri forsjá. Forsjá sem vísindabylting upplýsingaaldar hafði með aðstoð heimspekinganna Descartes og Kants fært í hendur tækninnar og hinnar „reiknandi hugsunar“  þar sem maðurinn (veran) varð að óvirku viðfangi reiknilíkana í hinu skipulagða alræðisríki hins yfirþjóðlega tæknivalds okkar samtíma.

Endaskiptin sem Nietzsche sagðist hafa framkvæmt á Platonismanum fólu óhjákvæmilega í sér „endurmat allra gilda“ þar sem „sannleikurinn“ varð fyrsta fórnarlambið. Ef frummyndaheimur Platons var afskrifaður sem mælikvarði sannleikans stóð sýndarveruleikinn einn eftir, eða það sem blasir við sjónum hvers og eins út frá óteljandi sjónarhornum. „Það eru engar staðreyndir, einungis túlkanir á staðreyndum“, sagði Nietzsche og bætti því við að einnig þetta væri „túlkun“. „Hinn sanni heimur var orðin að skáldsögu“.

Út frá þessu uppgötvar Nietzsche í stuttu máli „viljann til valds“ sem forsendu og mælikvarða gildanna, hugtak sem varð titillinn að þessu áformaða lokaverki hans sem aldrei komst í verk. Segja má að „hið dionýsiska æði“ sem Nietzsche fann í grískum harmleikjum og í tónlist Richards Wagners í upphafi ferils hans, hafi smám saman umbreyst í þennan „vilja til valds“ sem Nietzsche gat þó aldrei útskýrt endanlega eða útfært í ótvíræðri pólitískri mynd. En Nietzsche hélt sig við „stigveldisreglu“ Platons og færði gjarnan „viljan til valds“ í hendur „ofurmennisins“ er drottnaði með forsjá sinni yfir „hjarðmennsku fjöldans“ (rétt eins og heimspekingarnir drottnuðu í fyrirmyndarríki Platons).

Allar þessar útskýringar á Nietzsche eru þó málum blandnar, ekki síst vegna þess að hann gat aldrei slitið sig frá þeirri ómótstæðilegu (og demónísku) ástríðu að tjá sig í mótsetningum. Það er þessi ástríða sem gerir allar túlkanir á verkum hans torveldar og hættulegar, trúlega var það einmitt þessi ástríða sem olli því endanlega að Nietzsche gafst upp á því ætlunarverki sínu að skrifa skipulagt „lokaverk“ er gæfi heildstæða mynd af hugmyndaheimi hans. Þetta „verk“ er nú til í tveim myndum: Annars vegar bók undir titlinum „Viljinn til valds“ (t.d. endurskoðuð útgáfa frá 1911), hins vegar sem „Eftirlátin textabrot“ í fræðilegri útgáfu Giorgio Colli og Mazzino Montinari í bindum VII og VIII, sem fylla 7 aðskilin hefti, en Colli og Montinari sögðu „Viljann til valds“ aldrei hafa verið til sem höfundarverk Nietzsche. Ég hef undir höndum endurskoðaða útgáfu þessa „óskrifaða verks“ frá 1911. Hún er brotakennd og greinilega „safnverk“ textrabrota sem eiga misjafnlega mikið erindi er þjónað geti því hlutverki að skapa heildarmynd af hugmyndaheimi höfundarins.

Glíma Heideggers við Nietzsche

Í viðtali við Franco Volpi og Antonio Gnoli frá 2000 segir Hans Georg Gadamer:

„Mikilvægi fyrirbærisins Nietzsche fyrir þýska þjóðarsál var öllum augljóst, og Heidegger vildi kryfja það til mergjar. Ég er ekki viss um að honum hafi tekist það. Hermann sonur hans segir föður sinn hafa sokkið í djúpa sálarkreppu við þessa glímu, og að hún hafi sett varanleg mörk á líf hans og hann hafi margoft tautað fyrir munni sér heimavið „Nietzsche hefur lagt líf mitt í rúst!“ Eitt er víst að sú túlkun sem hann hefur dregið fram úr verkum hans er meistaraverk sem á sér enga hliðstæðu.“

Þetta „meistaraverk“ Heideggers að mati Gadamers er bókverkið um Nietzsche sem Heidegger vann að einkum á árunum 1936 -46, þegar hann stóð fyrir sérstökum námskeiðum um Nietzsche við háskólann í Freiburg. En Nietzsche hafði hann þekkt frá því hann um tvítugt las nýútkomna fyrstu útgáfuna af Viljanum til valds 1909. En Heidegger sá ekki ástæðu til að gefa skrif sín um Nietzsche út á prent fyrr en 1961, þá í tveim bindum. Glíma Heideggers við Nietzsche var því langvinn og örlög þessara stólpa í þýskri heimspeki samtvinnuð með margvíslegum hætti. Nægir þar að nefna að báðir voru orðaðir við nasisma, annar með röngu, hinn með réttu.

Tilraunir nasista til að tengja hugmyndaheim Nietzsche við nasismann eru svo augljóslega byggðar á falsi að ekki þarf að fjölyrða um það. Hann lýsir ítrekað andúð sinni á gyðingahatri og þjóðernishyggju svo dæmi sé tekið. Hins vegar gætu hinar „platonsku“ hugmyndir Nietzsche um „ofurmennið“ andspænis „hjarðmenninu“ og stigveldismælikvarða á milli þessara hugtaka hugsanlega hafa orðið einhverjum tilefni til slíkra samlíkinga, en segja má að þær pólitísku hugmyndir sem Nietzsche bregður upp með sínu tvíræða myndmáli séu einn veikasti (og þverstæðufyllsti) hlekkurinn í hugmyndaheimi hans. Stríðið sem Nietzsche boðaði gegn „hjarðmennskunni“, „lýðræðinu“ og „sósíalismanum“ átti sér hins vegar enga hliðstæðu í hinni „endanlegu lausn“ nasismans.

Annað gildir um Martin Heidegger, sem augljóslega gekk í nasistaflokkinn og fann í honum einhvern samhljóm sem fræðimönnum hefur hins vegar gengið illa að tengja við fræðirit hans í heimspeki. En ólíkt Nietzsche er öll fræðileg framsetning Heideggers afar skipulögð og sett fram út frá strangri rökhyggju. Án þess að geta talist dómbær um tengsl fræðirita Heideggers við nasismann, þá er tvennt sem kemur í hugann eftir á: Annað er mikilvægið sem Heidegger leggur á hin jarðbundnu tengsl við heimahagana, jörðina og sveitina. Þetta mikilvægi tengist uppgjöri hans við þá tómhyggju sem Nietzsche hafði boðað og Heidegger sá ljóslifandi í samtímanum: gagnrýni Heideggers á tæknisamfélagið fléttaðist saman við gagnrýni hans á „hina reiknandi hugsun“ sem jafnaði út öll gildi á kostnað virkninnar og gerði manninn þannig að rótlausu viðfangi þeirrar tæknihyggju sem hann taldi ógna Evrópu úr austri (Sovétríkjunum) og vestri (Ameríku). „Hinir heimilislausu“ voru einnig orðaleppar sem nasistar festu á gyðinga og þannig má finna vissa hliðstæðu nasismans við fræðileg skrif Heideggers.

Hitt er kannski sú fræga yfirlýsing Heideggers í viðtali við tímaritið Der Spiegel frá 1976 að „Einungis Guð geti komið manninum til bjargar“ – fullyrðing sem vísar ekki beinlínis til trúarlegs afturhvarfs, heldur öllu frekar i þá hugmynd að maðurinn sé þrátt fyrir allt háður utanaðkomandi yfirvaldi um forsjón sína, yfirvaldi sem við sjáum yfirfært á hið ósýnilega yfirþjóðlega vald tækninnar í samtíma okkar, lífvaldið sem maðurinn virðist nú hafa falið forsjóninni á allt að því trúarlegum forsendum. Fullyrðing sem jafnframt vísar til uppgjafar Heideggers á að skrifa seinna bindi „Veru og tíma“ en upphaflega áformaði hann að skrifa framhald þessarar mikilvægu bókar  er leysti endanlega þá kreppu heimspekinnar sem hann sá fyrir sér. Þar er kannski að finna þá „verufræðilega guðfræði“ um utanaðkomandi forsjón sem lausn á tilvistarvanda mannsins. Vísunin til „leiðtogans“ sem kemur að utan og var nasistum hugleikin.

Þau gildi „jarðtengingarinnar“ sem Heidegger sér sem vörn gegn tómhyggjunni eru fjarri hugmyndum Nietzsche sem leit gjarnan á sjálfan sig sem rótlausan „förumann“ þar sem „viljinn til valds“ var ekki utan að komandi, heldur innsti kjarninn í veru mannsins og leið hans til frelsunar.

Nietzsche og Heidegger áttu það hins vegar sameiginlegt að horfast í augu við tómhyggju síns samtíma og sú gagnrýna sýn hefur haft mótandi áhrif á alla menningarumræðu í Evrópu alla tíð síðan. Í raun og veru tók Heidegger upp þráðinn frá Nietzsche og spann út frá honum sín stórbrotnu verk um sögu og örlög vestrænnar menningar, þar sem stórverkið „Vera og tími“ frá árinu 1926 markar upphafið.

Ítalski heimspekingurinn Franco Volpi (1952-2009), sem var einn fremsti Heidegger-túlkandi  á ítölsku segir í sjónvarpsviðtali að Vera og Tími hafi fengið misjafnar viðtökur í upphafi, en athyglisvert sé að Ludwig Wittgenstein, einn helsti frumkvöðull rökgreiningarskólans í heimspeki, hafi sýnt skilning á bókinni, en hann hafði einmitt um svipað leyti bent á það í frægri lokasetningu í bókarinnar Tractatus logico filosoficus, að menn ættu að þegja um það sem ekki væri hægt að segja með skýrum orðum á forsendum viðurkenndrar rökfræði. Volpi segir Wittgenstein hafa litið á manninn sem íbúa á eylandi þar sem eylandið væri eins og rökfræðin fast land undir fótum. En umhverfis þetta eyland er óravíðátta úthafsins sem eru draumar okkar, tilfinningar, trúarhugmyndir og „sýnir“ sem rökfræðin geti ekki annað en drekkt sér í. Heidegger vildi beita tungumálinu á þetta úthaf segir Volpi, jafnvel þó það kostaði málfarslega útúrsnúninga og jafnvel skáldskap.

Sjálfur gaf Volpi út sjálfstætt heimspekirit um tómhyggjuna árið 1996, skömmu fyrir sviplegt andlát sitt, þar sem hann spinnur þráðinn út frá lærimeisturunum Nietzsche og Heidegger til samtímans. Bókinni Il nichilismo lýkur hann með þessum orðum:

 „Tómhyggjan hefur gert okkur meðvituð um að við sem tilheyrum nútímanum erum rótlaus, að við séum á blindsiglingu í skerjagarði lífsins, heimsins og sögunnar. Því engan áttavita er lengur að finna í vonleysinu til vegvísunar, ekki eru lengur útgönguleiðir í boði, siglingaleiðir eða nothæfar útmiðaðar framfarabrautir, né fyrir fram gefnir áfangastaðir til að ná landi.

Tómhyggjan hefur sett tæringu í sannleikann og veiklað trúarbrögðin; en hún hefur líka leyst upp kreddurnar og gert út af við hugmyndafræðikerfin … Við vitum ekki ennþá hvenær við getum sagt um okkur sjálf það sem Nietzsche vogaði að hugsa um sjálfan sig þar sem hann sagðist vera „fyrsti fullkomni níhílisti Evrópu er hefði þegar upplifað sjálfa tómhyggjuna á eigin skinni og til botns, - að hann hefði tómhyggjuna á bak við sig, undir sér og framundan.“ (F.Volpi: IL nichilismo, 1996, bls. 178).

Undanfarnar vikur og mánuði hef ég notið félagsskapar þessara ágætu höfunda og sett nokkrar eitraðar athugasemdir Nietzsche hér inn á vefinn í því samhengi. Í hinni frábæru þýðingu Artúrs Björgvins Bollasonar og Þrastar Ásmundssonar á stórverki Nietzsche „Handan góðs og ills“ frá 1994 er skeytastíl Nietzsche líkt við „Orðspjót“ frekar en orðskviði. Hér á eftir fylgja fáein mögnuð „orðspjót“ Nietzsche úr „Viljinn til valds“ í íslenskum búningi:

 

 

 

Friedrich Nietzsche:

 

Regla fyrir nýja setningu gildanna

Bók III í Viljinn til valds

1.

Viljinn til valds sem þekking

 

  • 515

Ekki að „skynja“ (erkennen), heldur að samræma, innramma óreiðuna undir fjölda regluverka og forma er duga til að fullnægja þörfum okkar í daglegri reynslu.

þegar kemur að mótun skynseminnar, rökfræðinnar, flokkanna og undirflokkanna hefur  þörfin orðið mótandi mælikvarði. Ekki þörfin til að skynja (erkennen), heldur til að gera ráð fyrir, setja reglur til að átta sig og reikna út… Nota ímyndunaraflið til að koma á reglufestu samkvæmt líkingu og jafngildingu – það er sama ferlið og fylgir sérhverri skynjun skynfæranna og þróun rökhugsunarinnar!

Hér er engin fyrir fram gefin „hugmynd“ að verki, heldur notagildið, þannig að hlutirnir verði okkur útreiknanlegir og viðráðanlegir þar sem þeir mæta okkur í ógreinilegri mynd…

Markmiðið hjá rökhugsuninni er tiltekin virkni en ekki orsök. Séhver skynsemi af öðrum toga, sem engu að síður þarfnast undirstöðu, verður lífinu að fótaskorti (Mißräth das Leben) – hún verður ófyrirsjáanleg. –

 

Hugtakahólfin (die Kategorien) eru „sannleikur“ einungis í þeim skilningi að þau eru lifandi fyrir okkur. Það gerist með sambærilegum hætti og þegar evklíðskt rými verður okkur „sannleikur“ sem skilyrt forsenda. (Svo ég tali við sjálfan mig: þar sem engin heldur fram nauðsyn þess að til sé upprétt mannkyn, þá er rökhugsunin, rétt eins og rýmismynd Evklíðs, einfalt einkenni tiltekinna dýrategunda, eitt einkenni af mörgum…)

Hin huglæga þvingun – hér er átt við þá þvingun sem bannar þversagnirnar – er líffræðileg þvinga. Sú eðlishvöt notagildisins sem fær okkur til að hugsa eins og við gerum, býr í líkama okkar. Við erum nánast þessi eðlishvöt…  En hvílík einfeldni að taka þetta fyrir sönnun þess að við hefðum þar með höndlað tiltekinn „sannleika í sjálfum sér“!…

Það að geta ekki sett fram mótsögn (nicht wiedersprechen können) sýnir getuleysi en ekki „sannleika“.

 

  • 516

Við erum ófær um að játast og afneita einum og sama hlutnum; Þessi setning tjáir tiltekið huglægt reynslusvið en tjáir enga „nauðsyn“, eingöngu getuleysi.

Ef það er rétt sem Aristóteles sagði, að reglan um mótsagnirnar væri öllum öðrum grundvallarreglum æðri, ef hún er sú hinsta og sannasta, ef hún er reglan sem stendur á bak við allar sannanir, ef það er rétt að hún feli í sér allar aðrar reglur – hversu rík væri þá ekki ástæðan til að kanna til hlítar hvað Aristóteles eigi í raun og veru við með staðhæfingum.

Annað hvort að staðhæfingin feli í sér eitthvað um raunveruleikann, um það sem er (seienden), rétt eins og þetta væri alkunnugt eftir öðrum leiðum, og við myndum því vita fyrir fram; þar af leiðandi væri ekki hægt að  bjóða upp á mótsagnakenndar staðhæfingar.  Eða þá að reglan vilji segja okkur þetta: um veruleikann og það sem er má ekki setja fram andstæðar staðhæfingar. Í þessu tilfelli væri rökfræðin það skipunarvald er skipaði svo fyrir að bannað væri að nálgast þekkinguna um reynslu sannleikans (Erkenntnis des Wahren), heldur skyldi rökfræðin festa í sessi og útbúa (Setzung und Zurechtmachung) tiltekinn heim sem okkur bæri að taka sem sannan.

Í stuttu máli þá er spurningin opin: falla rökfræðilegar staðhæfingar að veruleikanum, eða eru þær mælikvarðar og tæki til að skapa okkur raunveru (Wirkliches), hugtakið „raunveruleika“?… Til þess að halda hinu fyrra fram þurfa menn að vita fyrir fram hvað veran (das Seiende) er, en við erum því miður ekki í þeirri stöðu. Því felur staðhæfingin ekki í sér neinn mælikvarða á sannleikann, heldur tilskipun um hvað skuli gilda sem sannleikur.

Gefum okkur að ekki sé til A sem samsami sjálfu sér (sich-selbst-identisches A). Eins og allar tilgátur rökfræðinnar (og stærðfræðinnar) ganga út frá, þá myndi þetta A þegar vera sýndarvera (Schein), rökfræðin hefði þannig fyrir fram gengið út frá sýndarheimi. Sannleikurinn er sá að við trúum þessari staðhæfingu út frá þeirri endalausu skynreynslu (Empirie) sem látlaust virðist staðfesta hana. „Hluturinn“ (das Ding): þar höfum við hina sönnu undirstöðu (Substrat) A: átrúnaður okkar á hlutina er forsenda trúarinnar á rökfræðina. Fyrir rökfræðina er A, rétt eins og atómið, endurgerð (Nachkonstruktion) „hlutarins“…

Þar sem okkur er varnað að skilja þetta og við gerum rökfræðina að  mælikvarða hinnar sönnu veru, þá erum við stödd á þeirri slóð sem leiðir okkur til þess samkrulls (Hypostasen) að setja í eina körfu sem veruleika (Realitäten) hugtök eins og þessi: undirstaða (Substanz), umsögn (Prädikat), andlag (Objekt), frumlag (Subjekt), virkni (Aktion) o.s.frv. Þetta þýðir að við meðtökum og göngumst inn á frumspekilegan heim, „sannan heim““ (en þetta er enn einu sinni heimur ásýndarinnar, sýndarheimurinn (die scheinbare Welt)…).

Frumlægustu hugsanagjörningarnir sem felast í að játa og afneita, að taka eitthvað fyrir satt eða ósatt, ganga ekki bara út frá vana, heldur út frá réttinum til að telja eitthvað satt eða logið. Þeir stjórnast því af átrúnaði sem segir að við búum yfir skynreynslu (Erkenntniß) og dómgreindin geti raunverulega höndlað sannleikann;  í stuttu máli þá vefst það ekki fyrir Rökfræðinni að hún sé þess umkomin að setja fram staðhæfingar er feli í sér „sannleikann í sjálfum sér“ (An-sich-Wahren) (eða að ekki sé hægt að setja fram andstæðar staðhæfingar).

Hér drottnar sá grófi tilfinningafordómur að skynjanirnar (Empfindungen) segi okkur sannleikann um hlutina – og þar með að ég geti ekki samtímis sagt að tiltekinn hlutur sé mjúkur og harður. (Þessi eðlislæga sönnun (instinktive Beweis): „ég get ekki sannað samtímis tvær andstæðar skynjanir“ – hún er gróflega fölsk.)

Þetta hugtakslega mótsagnabann á rætur sínar í þeim átrúnaði að okkur sé gefið vald til að mynda hugtök, að tiltekið hugtak bendi ekki bara á, heldur feli raunverulega í sér sannleika tiltekins hlutar… Reyndin er sú að rökfræðin (rétt eins og flatarmálsfræðin og tölfræðin) gildir einungis um tilbúna sannleika (fingierten Wahrheiten), sem við höfum búið til. Rökfræðin er tilraun til að skilja hinn sanna heim samkvæmt líkani verunnar sem við höfum búið til, eða öllu heldur til að gera heiminn formlega og tölfræðilega meðfærilegan.

 

  • 517

Okkur er nauðsynlegt að játast verunni til þess að geta hugsað og rökrætt: rökfræðin stýrir eingöngu formúlum er varða óhagganlega og óbreytanlega (gleichbleibendes) hluti.

Þessi játning hefur því ekki til að bera þá dyggð að sýna okkur veruleikann: „veran“ (Das Seiende) tilheyrir sjónskyni okkar:  „Éginu“ sem veru (seiend) (ósnert af verðandinni og þróuninni).

Hinn ímyndaði heimur, gerður af hlutum, efnum, „rökhugsun“ o.s.frv. er nauðsynlegur: í okkur býr kraftur til skipulags, einföldunar og fölsunar sem skapar tilbúna aðgreiningu og mismun. „Sannleikurinn“ býr í viljanum til að ná valdi á margbreytileika skynjananna. Flokka fyrirbærin samkvæmt tilbúnum og skilgreindum hólfum.

Hér göngum við út frá átrúnaði á eiginleikanum „í sjálfum sér“ sem við gefum hlutunum (við tökum fyrirbærunum sem raunverulegum).

Eiginleiki heimsins í verðandinni sem er ótækur fyrir formúlum, sem „falskur“, sem „í mótsögn við sig sjálfan“. Skynreynsla (Erkenntnis) og verðandi eru hér útilokuð. Þar af leiðandi hlýtur skynreynslan að vera allt annar hlutur: á undan henni þurfum við viljann til að gera hlutinn þekkjanlegan fyrir skynreynsluna (Erkennbar-machen), eins konar sjálfs-verðandi þarf að skapa „blekkingu Verunnar“ (eine Art Werden selbst muß die Täuschung des Seienden schaffen.).

 

  • 522

Grundvallar-niðurstaða. Við trúum á skynsemina: en hún er heimspeki hinna gráu hugtaka. Tungumál hennar byggir á hinum barnalegustu fordómum.

Nú skynjum við að ósamræmi og vandamál eru í hlutunum. Það er vegna þess að við hugsum þá einvörðungu í formi tungumálsins – þar af leiðandi trúum við á „eilífan sannleika skynseminnar“ (til dæmis frumlag, umsögn o.s.frv.).

Við hættum að hugsa ef við ætlum okkur að gera það án þvingunarreglna tungumálsins, við lendum jafnvel í efasemdum um hvort við sjáum hér endamörk sem endamörk.

Skynsamleg hugsun felst í túlkun er fylgir regluverki (Schema) sem við getum ekki hafnað.

 . 572

Listamaðurinn sættir sig ekki við neinn veruleika, hann beinir sjón sinni út í fjarskann, til baka. Afdráttarlaus sannfæring hans er þessi: gildi tiltekins hlutar er fólgið í þeim skuggsælu leifum sem við föngum úr litunum, forminu, hljóðinu, hugsununum. Listamaðurinn trúir því að gildi þeirra, hvort sem það er hlutur eða mannsmynd, vaxi  í hlutfalli við hvernig hægt er að smætta þá niður, fínpússa þá og gera þá loftkenndari. Því minni raunveruleiki, þeim mun meira gildi.  Þetta er Platonisminn. En Platonisminn var mun hugdjarfari þegar hann virkjaði umsnúning (Umdrehen) sinn:  Hann mældi raunveruleikastigið á mælikvarða gildisins og sagði: Veran (Sein) vex í hlutfalli við „hugmyndina“. Hann hafði endaskipti á „raunveruleikahugtakinu“ og sagði: „það sem þið teljið veruleika er villa. Því nær sem við komumst hugmyndinni, þeim mun nær erum við sannleikanum“.

Er þetta augljóst? Þetta var stærsti umsnúningurinn (Umtaufung): en þar sem hann var innleiddur af kristindóminum þá áttum við okkur ekki á þessari furðulegu staðreynd.

Í Platon bjó slíkur listamaður að þegar allt kemur til alls þá tók hann sýndarveruna (Schein) fram yfir veruna! Hann tók lygina og hinn skáldlega spuna fram yfir raunveruna! Hið óraunverulega fram yfir það sem við blasir (das Vorhandenen)! Hann var svo sannfærður um gildi sýndarinnar (Schein) að hann heimfærði undir hana táknmyndir (Attribute) „verunnar“, „orsakavirkninnar“ og „gæskunnar“ (Gutheit) og „sannleikans“, í stuttu máli alla aðra verðleika sem við teljum til gildanna.

Sjálft gildishugtakið hugsað sem orsök: fyrsta innsýn (Einsicht).

Hugsjónin (das Ideal) hafin til vegs, hugsuð með öllum sínum táknmyndum: innsýn númer 2.

Forsíðumyndin er málverk Edvards Munch af Nietzsche frá 1906.

 

STEFNUMÓT VIÐ HEIDEGGER OG NIETZSCHE I.

Stefnumót við Heidegger og Nietzsche I.

Inngangur

 

Um mánaðarmótin ágúst september síðastliðinn rakst ég á óvæntan ferðafélaga nýkominn  til Ítalíu eftir nær tveggja ára ferðabann vegna plágunnar. Við vorum komin „heim“ á fornar slóðir á Rimini, og eftir góðra  vina fundi var ein fyrsta heimsókn mín af gömlum vana í gömlu bókabúðina mína, þar sem ég kannaði hvort einhverjar breytingar hefðu átt sér stað á landslaginu í  heimspekihillunum eftir nær tveggja ára fjarveru.

Það sem vakti fljótt athygli mína var tiltölulega ný ítölsk útgáfa Adelphi útgáfunnar og Franco Volpi á öllum skrifum Martins Heideggers um Nietzsche, sem hann skrifaði á árunum 1937-41 en gaf ekki út fyrr en 1961, þá í 2 bindum. Þetta er doðrantur í vasabókarbroti, 1036 bls. með eftirmála og orðskýringum, og átti eftir að verða ferðafélagi minn í Riccione, Palermo,  á gömlu fangaeyjunni Usticu og síðast í Róm næstu 10 vikurnar.

Ég fann fljótlega að þetta yfirdrifna lesefni var sprengiefni sem varpaði ekki bara nýju ljósi á Nietzsche fyrir mig, heldur opnaði líka fyrir nýjan skilning á Heidegger, sem ég hafði lagt mig eftir að skilja fyrir allmörgum árum, meðal annars með aðstoð Franco Volpi, helsta sérfræðings Ítala í Heidegger sem  þýðanda og túlkanda, en hann lést af slysförum langt fyrir aldur fram árið 2009, aðeins 57 ára gamall. Frágangur þessarar útgáfu á verki Heideggers um Nietzsche með tilheyrandi eftirmála og orðskýringum er til fyrirmyndar og mun hafa verið eitt af hans síðustu verkum .

Það er ekki tilgangur þessara skrifa að fella dóm um þetta risaverk, enda langt í frá að ég hafi lesið hverja blaðsíðu. En leiftrandi stíll Heideggers og ástríðan sem hann leggur í skrif sín, hugmyndaflugið, hugrekkið og áræðið sem leiftra af hverri blaðsíðu, fengu mig til að skilja að í þessu langa stefnumóti Heideggers og Nietzsche á sér stað bókmenntaleg sprengja sem hafði mótandi áhrif á flest það sem síðar hefur gerst í heimspekiumræðu á meginlandi Evrópu allt til okkar dags, í gegnum fyrirbærafræði Merleau-Ponty, túlkunarheimspeki Gadamers, tilvistarhyggju Sartre, sálgreiningu Lacans, poststrúkturalisma Foucaults, Derrida og Nancy  í Frakklandi, allt til lærimeistara minna í ítalskri samtímaheimspeki eins og Gianni Vattimo, Umberto Galimberti, Carlo Sini, Giorgio Agambens, Cacciari og fleiri. Allt mjög ólíkir hugsuðir, en þegar upp er staðið er erfitt að hugsa sér skrif þessara manna (og ótal fleiri) öðruvísi en sem eftirköst þessa áreksturs risanna tveggja frá árunum 1937-41: Heideggers og Nietzsche.

Hvað var það sem gerðist á þessu stefnumóti? Bindin tvö sem Heidegger byrjaði að skrifa 1936 byggja á háskólafyrirlestrum og rannsóknum sem áttu sér mun lengri sögu. Heidegger var fæddur 1889 og í skrá Volpi yfir æviferil hans má sjá að hann las  fyrstu útgáfu „Viljans til valds“ eftir Nietzsche, þá nýútkomna, þegar á árunum 1909-13, en þetta var bókin sem Nietzsche náði aldrei að ljúka: hún var gefin út að honum látnum í nokkrum útgáfum, þar sem útgefendur röðuðu upp textabrotum, orðskviðum og slitrum sem Nietzsche hafði skilið eftir sig áður en hann varð geðveikinni að bráð 1890.

Heidegger hóf feril sinn sem háskólakennari í Freiburg 1916 og gefur út sitt höfuðverk, Sein und Zeit, (Vera og Tími) 1927. Í þeirri bók, sem er trúlega eitt áhrifamesta heimspekirit 20. aldarinnar,  leikur Nietzsche ekki það hlutverk sem ætla mætti í heildarfrásögninni miðað við það sem á eftir kom, en við lestur textanna um Nietzsche má sjá að hann kraumar þar undir niðri. Nietzsche var víða feimnismál í faglegri heimspekiumræðu fram eftir 20. öldinni, því hann hafnaði hefðbundinni akademískri orðræðu en studdist víða við líkingamál, orðskviði og skáldamál þar sem oft þurfti að lesa á milli línanna.

Heidegger byrjaði sem sagt að lesa Nietzsche um tvítugt en hafði tiltölulega hljótt um áhrifin lengi vel. En árið 1936 tekur hann að sér, samkvæmt beiðni, ráðgjafastarf við Nietzsche-skjalasafnið í Weimar, þar sem unnið var að nýrri endurskoðun og útgáfu á Viljanum til valds. Árið 1942 segir hann sig frá þessu embætti og afsalar sér allri ábyrgð á nýrri útgáfu verksins. Þegar Heidegger gefur út skrif sín um Nietzsche í tveim bindum 1961 voru liðin 50 ár frá því að glíma hans við Nietzsche hófst og 20 ár frá því hann hafði gengið frá handritinu eftir 5 ára rannsóknarvinnu og skrif. Þessi tímarammi segir líka sína sögu um þann tíma sem það tók fyrir Nietzsche að vinna sinn sess í heimspekisögu Vesturlanda.

En hvað er það þá sem stendur upp úr við fyrstu kynnin af þessari glímu Heideggers við Nietzsche? Í fyrsta lagi er þess að geta, að umræðan snýst fyrst og fremst um þetta ófullgerða verk Nietzsche sem hann náði aldrei að ljúka við, Viljann til valds, en það átti samkvæmt Heidegger að gefa fræðilega heildarmynd af heimspekihugsun Nietzsche, samhengi hennar og samkvæmni. Af einstakri rökvísi dregur hann fram aðalatriðin og hinar „einföldu spurningar“ sem upp úr standa og hin eiginlega glíma snýst um: viljinn til valds, grundvallar endurmat allra gilda, eilíf endurkoma hins sama, Yfir-mennið… Í raun er hægt að draga alla heimspekihugsun Nietzsche niður í spurningar um þessi grunnatriði, en til þess að gera það með fullnægjandi hætti þurfti Heidegger 1000 blaðsíður. Það sýnir að þær spurningar sem Nietzsche setur fram eru ekki einfaldar og þær kalla á djúpa greiningu sem felst ekki bara í lofi eða sleggjudómum, heldur líka í gagnrýni þar sem velt er upp hverjum mögulegum steini. Í húfi er menningarsaga Vesturlanda og örlög vestrænnar menningar.

Það er ekki erindi þessa inngangs að þrem stuttum köflum úr maraþonverki Heideggers að kryfja verk hans og aðferðarfræði, eða hugmyndir hans um Nietzsche. Bókin um Nietzsche segir okkur ekki minna um Heidegger sjálfan en umfjöllunarefni hans, og þó hann taki það fram að í bindunum tveim um Nietzsche sé í engu reynt að heimfæra  hugmyndir hans upp á þær hugmyndir sem settar eru fram í ritinu Vera og Tími, þá fer ekki hjá því að áhrifin frá Nietzsche á heimspeki Heideggers eru augljós, enda eru skrif hans mótuð af því eina sjónarhorni sem okkur er gefið: persónulegum rótum og bakgrunni hvers og eins.

Hér skal þó dregið saman í stuttu máli hverjar þær meginspurningar eru, sem Heidegger dregur fram:

  1. Viljinn til valds.

Viljinn til valds er það sem eftir stendur þegar frumspeki Platons um handanveru hinna huglægu frummynda hins skynjanlega heims hefur verið afskrifuð, handanvera sem Platon staðsetti á himnum, eða öllu heldur ofan á himinhvelfingunum sem umlykja alheiminn. Þessi handanvera, sem Platon skapaði til að skilgreina óumbreytanlegan sannleika hins síbreytilega heims skynjana okkar, var síðan yfirfærð í Evrópu á hinn gyðinglega og kristna skapara og þá markhyggju sem kristindómurinn hefur sett fram með endalokum heimsins og eilífri tilvist í Himnaríki.

Með afskrift hinnar grísku handanveru Platons og hinnar gyðinglegu/kristnu handanveru vildi Nietzsche horfa til jarðarinnar.

Með þeim „dauða Guðs“ sem hann boðar er hann ekki að hugsa af illum vilja heldur að lýsa óhjákvæmilegri afleiðingu þess að maðurinn og skynheimur hans geti ekki átt sér gild eilíf utanaðkomandi markmið er eigi forsendur sínar í óhlutstæðri handanveru.

Það sem þá stendur eftir að mati Nietsche er „viljinn til valds“ sem er ekki sá vilji sem er innritaður í náttúrulögmálin samkvæmt Schopenhauer, heldur sá vilji sem býr innra með manninum sérstaklega, en líka með sérhverri veru eða fyrirbæri sem finnst í  náttúrunni og alheiminum. Þar sem þessi vilji er ekki skilyrtur af utanaðkomandi kosmískum eða guðfræðilegum öflum á hann sér ekki önnur markmið en eigin sjálfseflingu.

Þessi vilji til valds sem hefur stöðuga sjálfseflingu sem sitt eina markmið er jafnframt rótin að „tómhyggjunni“ í samtímanum. Þessi staða, sem Nietzsche telur sig greina í þróunarsögu vestrænnar menningar undir lok 19. aldar, er ekki tilkomin af illum vilja eða óskhyggju, heldur er hún niðurstaða rannsókna sem eiga rætur sínar ekki síst í tungumálinu og frumspekilegum rótum þess.

  1. Gagngert endurmat allra gilda

Þessi kenning Nietzsche um leiðina sem liggur frá markhyggju og siðalögmálum handanverunnar til hins jarðbundna í menningarsögu Vesturlanda er þannig dæmd til þeirrar „tómhyggju“ sem felst í þeim vilja til valds sem sækist marklaust eftir eigin sjálfseflingu og engu öðru. Nietzsche sér bæði hættuna sem stafar af þessari „tómhyggju“ en einnig möguleika nýrrar manngerðar til að horfast í augu við hana í gegnum „gagngert endurmat allra gilda“ í heimi sem er „handan góðs og ills“, handan þeirra tvíhyggju sem hann rekur allt aftur til Platons.

Þetta „grundvallar endurmat allra gilda“ er í raun í beinum tengslum við „viljans til valds“ sem leitar ekki eftir öðru en eigin sjálfseflingu. Þegar Nietzsche leitast við að afneita tvíhyggju góðs og ills er það ekki vegna þess að hann vilji vera á bandi hins illa eða hins góða, heldur þvert á móti vegna þess að með brotthvarfi hins „himneska yfirvalds“ á maðurinn ekki eftir haldbær rök til að hugsa á forsendum hins „góða“ og „illa“, hugtökum sem endanlega eiga upptök sín í utanaðkomandi „vilja til valds“ og boða þannig „þrælasiðferði“ sem stýrt er að ofan með valdboði. Stærsti vandinn sem Heidegger glímir við er kannski fólginn í þessu: hvernig á að yfirstíga tvíhyggju góðs og ills. Við þekkjum líkingu Nietzsche úr Zaraþústra um kameldýrið (þrælinn), ljónið (uppreisnarmanninn) og drenginn, sem er í raun ímyndin sem Nietzsche gefur okkur af Yfir-menninu. Hann er ekki hið grimma, ofbeldisfulla yfirvald, heldur hin bernska sýn sem er í beinum tengslum við upprunann og „hið eina“ sem er „handan góðs og ills“.

  1. Eilíf endurkoma hins sama

Þetta hugtak er að mati Heideggers óhjákvæmilega tengt „viljanum til valds“ sem á sér einungis eitt markmið: eigin valdeflingu. Viljinn til valds á sér ekkert tímanlegt markmið, hann nemur ekki staðar við tiltekinn áfanga, hann kemur eilíflega aftur og aftur og gefur okkur þannig nýja mynd af tímanum.

Margir gagnrýnendur Nietzsche hafa einmitt bent á þetta atriði sem mótsögn við „viljann til valds“ er stefni stöðugt áfram og stangist þannig á við alla endurkomu. Þetta sé þversögnin í allri heimspeki Nietzsche. Heidegger tekur ekki undir það, heldur segir hugmyndina um hina eilífu endurkomu einmitt fólgna í endalausri sókn viljans til eigin valdeflingar, og því óhjákvæmilegrar endurkomu sinnar. Á milli þessara hugmynda sé órjúfanlegt samband.

….

Heidegger veltir upp öllum hugsanlegum og óhugsanlegum vandamálum er koma upp við hugleiðingu þessara grunnatriða í heimspeki Nietzsche. Hann tekur fram að það sé ekki hlutverk sitt að halda fram eða halda með Nietzsche, heldur að greina hugmyndir hans og þá heildarsýn sem af þeim má draga. Það er ekki einfalt mál, enda hafa ótal heimspekingar spreytt sig á Nietzsche og lagt sitt að mörkum í túlkunum á verkum hans. Flestir í kjölfar þessarar djúpu greiningar Heideggers og undir áhrifum hennar. En ég held að hægt sé að fullyrða að fáir eða enginn hafi greint hugmyndaheim Nietzsche af jafn mikilli hugkvæmni og hugrekki og Heidegger, og vissulega markar þetta verk tímamót í hugmyndasögu okkar, þar sem spurningin um frumspekina, frumforsenduna og frumorsökina er sett á oddinn. Öll sú leit að upprunanum sem hefur einkennt evrópska heimspekiumræðu á seinni hluta 20. aldar á að stórum hluta rætur sínar í þessu verki Heideggers, og því bregður það ekki bara nýju ljósi á Nietzsche, heldur líka á Heidegger og örlög hans, á samtíma okkar, á alla umræðu um tómhyggju tæknimenningar samtímans og framtíðarsýn vestrænnar menningar í heild sinni.

ATHUGASEMD UM ÞÝÐINGARVANDA

Við lestur bókar Heideggers kom upp hjá mér sterk þörf til að sjá þessar hugsanir með einhverjum hætti í íslenskum búningi. Ekki síst í þeirri von að það gæti dýpkað skilninginn. Ég greip niður í þrjá kafla sem mér fannst vera leiftrandi og lagðist í þýðingargírinn. Ekki til að gefa heildarmynd af verkinu, heldur einungis svolítið innlit, er gæti vakið forvitni og kannski verið lærdómsríkt.

Eins og allir lesendur Heideggers vita þá er ritlist hans sérstök og meðferð hans á þýsku máli fer oft út fyrir hefðbundnar venjur. Það skýrist ekki bara af sérvisku, heldur fyrst og fremst af viðleitni hans til að freista þess að yfirstíga frumspekina. Þessi vandi verður stærstur þegar kemur að leyndardómum verunnar, eða því sem heimspekihefðin kallar verufræði eða ontologia, hugsunaraðferð sem greinir sig frá þekkingarfræðinni (epistemologia) vegna þess að þekkingarfræðin fjallar um óbreytanlegan og staðfastan sannleika viðfangsins á meðan verufræðin fjallar um tímatengda og síbreytilega veru hlutanna. Heidegger orðaði þetta þannig að vesturlensk þekkingarfræði hefði gleymt verunni sem tímatengdri verðandi eða sem atburði (Ereignis) og opnun fyrir nýjum möguleikum – og þar með lokað sig inni í frumspekilegum skilningi á hlutunum og heiminum í óbreytanleika sem væri í raun ekki til. Þessi verufræði Heideggers kemur vel fram í túlkun hans á Nietzsche, og þar lendum við óhjákvæmilega í íslenskum þýðingarvanda, ekki síður en þýðendur Heideggers á önnur tungumál.

Ég er ekki hagvanur þýskulesandi þó ég hafi vissan grunnskilning á því máli. Mér reynist mun auðveldara að lesa Heidegger á ítölsku en þýsku (svo ekki sé minnst á enska tungu). Ástæðan er ekki síst sú að vandaðar ítalskar þýðingar á Heidegger hafa þegar greint þýðingarvandamálin og fundið sínar lausnir. Þær falla kannski ekki að íslensku en hjálpa engu að síður til að sjá, skýra og skilja vandann. Ekki bara vegna þess að ítalskan er kliðmjúkra mál en þýskan og setningaskipanin liprari, heldur líka vegna þess gagnsæis sem hún veitir með beinum tengslum sínum við sinn latneska og gríska uppruna.

Heidegger hefur sjálfur kallað þennan verufræðilega vanda „Die Seinsfrage“, vanda sem gengur í gegnum öll hans skrif. Þessi vandi snýst þannig um sagnorðið „sein“, að vera, sem í þýsku orðabókinni okkar er þýtt svona:

„sein 1 < bịn, bịst, ịst, sịnd, se̱i̱d, wa̱r, gewe̱sen > [ zain ] I. vi sein 1. ( existieren ) vera ; es ist schon immer so gewesen það hefur alltaf verið svona ; was nicht ist, kann noch werden ekki er öll von úti enn.“

Vissulega er hér ekki öll von úti, en hún vandast þegar við sjáum að orðið „vera“ á okkar góða máli hefur tvær myndir og merkingar sem sagnorð og nafnorð. Nafnorðið „vera“ á íslensku hefur tvíræða merkingu: annars vegar er það viðfang eða hlutur (kyrrstætt /t.d. mannvera), hins vegar það sem er varanlegt í tímanum (breytilegt /t.d. viðvera, dvöl, verund). Hugtakið „existieren“, sem þýsk-íslenska orðabókin gefur upp sem valkost við „sein“, hefur að geyma þessa „gleymsku verunnar“ sem Heidegger talar um: ex-ist, það sem stendur út úr og vísar því til þess sem er ekki samtengt í verðandi tímans. Heidegger notar frekar „Dasein“ um „existieren“ vegna þess að orðið geymir hið óorðna sem felst í allri „til-veru“, sem þannig er tímatengd og hefur að geyma óorðinn eða mögulegan  veruleika og vegferð. Þegar kemur að verunni býður þýskan líka upp á nafnorðið „Wesen“, sem er þýtt á íslensku sem „vera“ (no.) en getur líka þýtt eðlishátt (im Wesen begründet = eðlislægt).

Við þessi óljósu merkingarmörk hugtaksins vera bætist svo að Heidegger notar einnig orðið „Seiendes“ sem nafnorðsmynd verunnar. Stundum breytir hann rithættinum í „Seyendes“ með vísan í forngermanska mynd orðsins. Volpi notar „ente“ sem þýðingu á þessu orði, en þetta er hinn ítalski ritháttur latneska orðsins „ens“ sem þýðir m.a. „vera“ sem nafnorð, en getur líka haft almennri merkingu, t.d. „stofnun“ eða „aðili“. Volpi viðurkennir að með þessari þýðingu (Seiendes = ente) eigi sér stað merkingarfræðileg tilfærsla, þar sem ítalska orðið „ente“ sé yfirleitt notað sem staðbundin nafnorðsmynd frekar en sem tímatengdur lýsingarháttur, á meðan þýska orðið virki frekar sem tímatengdur lýsingarháttur til „verðandinnar“. Í þessu samhengi vill Volpi heimfæra „ente“ upp á lýsingarhátt sem „ það sem er“ eða „essente“ á ítölsku, það sem við myndum kalla „verðandi“ á íslensku. Þannig höfum við t.d. mikilvægt orðasamband Heideggers sem er „das Seiende im Ganzen“ sem þýtt hefur verið á ítölsku sem „l‘ente nella sua totalità“. Þetta myndum við hins vegar þýða á íslensku sem „veran í heild sinni“ eða hugsanlega sem „verðandin í heild sinni“ og virðist liggja nær hugsun Heideggers en hið ítalska „ente“.

Þessi dæmi um þýðingarvandamál á glímu Heideggers við veruna og verðandina eru bara örfá dæmi um þýðingarvandamál sem sérhver þýðandi Heideggers þarf að glíma við. Ljóst er að sú tilraun sem hér hefur verið gerð er ekki fullkomin, og væru allar ábendingar um betrumbætur vel þegnar.

 

 

 

%d bloggers like this: