NIETZSCHE: FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS II. – EIGNARÉTTURINN OG RÉTTLÆTIÐ

NIETSCHE UM EIGNARRÉTTINN OG SIÐFERÐI GÓÐS OG ILLS

Næsta orðspjót Nietzsche sem hér er birt á eftir textabrotinu um stríðið, fjallar um réttlætið og náttúrleg talmörk jafnréttis í mannlegu samfélagi.

Nietzsche er þekktur fyrir andúð sína á lýðræði og sósíalisma, og þá jafnframt fyrir áherslu sína á frelsi einstaklingsins. En þessi skilningur á Nietzsche er ekki einhlítur, eins og sjá má af eftirfarandi textabroti. Rétt er að hafa í huga að þessi samtöl förumannsins Nietzsche við skugga sinn eru skráð á ferðalagi hans um svissnesku Alpana síðsumars 1879, þegar hann var 35 ára.

Seinni hluti 19. aldarinnar í Evrópu einkenndist meðal annars af eftirstöðvum Napoleonsstyrjaldanna í upphafi aldarinnar, og síðan af iðnvæðingu og vaxandi nýlenduveldi Erópuríkja með tilkomu eimreiða, rafmagns og annarra tækninýjunga. Á þessu tímabili verður til ný stéttaskipting, sem Marx og Engels skilgreindu manna best í Kommúnistaávarpinu frá 1845. Þeir Marx og Engels stóðu einnig á bak við Fyrsta alþjóðasamband verkalýðsins, sem var stofnað 1864, og fyrsta bindi Kapítalsins eftir Karl Marx kom út 1873, og var því tiltölulega nýtt þegar Nietzsche skrifar orðspjót sín um „Förumanninn“.

Það sem hér skiptir þó kannski mestu máli með tilliti til tíðaranda „Förumannsins“ er „Prússneska stríðið“ sem Napoleon III. hóf gegn tilraunum Bismarks til að sameina Þýskaland 1870. Því lauk með kyrfilegum ósigri Frakka, er aftur leiddi af sér stofnun „Parísarkommúnunar“ 1871, en það var í raun sósíalísk bylting er fól í sér stórfelldar umbætur í jafnræðisátt og aðskilnað ríkis og kirkju, allt framkvæmt í heiftarbræði og með ofbeldi byltingarinnar. Parísarkommúnan stóð einungis í 3 mánuði og henni lauk með blóðbaði þar sem 10 þúsund Parísarbúar voru felldir á einni viku og franska lýðveldið, sem kennt var við Versali var stofnað.

Ágreiningur og vinslit Nietzsche og Wagners verða vart skilin án þessa sögulega bakgrunns þar sem þjóðernissinnuð og rómantísk andúð Wagners á alþjóðahyggju og nýlendustefnu Napoleonstímans birtist í endurvakningu hins „frumgermanska menningararfs“ eins og hann birtist til dæmis í Niflungahringnum, og var í takt við hið nýja Prússland Bismarks.

Nietzsche hafði uppgötvað að hin þjóðernissinnaða herkvöð Wagners gegn frönsku nýlendustefnunni var ekki sú dionýsiska endurvakning sem hann hafði haldið, heldur afsprengi nýrrar þjóðernissinnaðrar borgarastéttar, og að sigurinn yfir Frökkum hafði ekki bara kallað fram sósíalíska byltingu í París, sem síðan varð kæfð í blóði eftir þriggja mánaða  ógnarstjórn. Athugasemdir Nietzsche um náttúruleg takmörk jafnaðarstefnunnar sem hér birtast, og hina tvíræðu merkingu réttlætisumræðunnar, verður að skoða í þessu ljósi.

Nietzsche beinir gagnrýni sinni ekki að höfundum Kommúnistaávarpsins, sem hann hefur vafalaust þekkt, heldur rekur hann gagnrýni sína á tvíbenta jafnréttishugsjón sósíalista til hugmynda Platons um sameignarsamfélagið í „Ríkinu“, þar sem útópían byggði í raun á miðstjórnarvaldi heimspekinganna, sem einir hefðu „sannleikann“ á sínu valdi. Í stuttu máli heimfærir Nietzsche sósíalískar hugmyndir jafnaðarstefnu og kommúnisma á 19. öldinni undir hinn frumspekilega hugmyndaheim Platons, og það er kannski fyrst og fremst á þessum forsendum sem hann rökstyður andúð sína á sósíalisma og lýðræði víða í seinni ritum sínum, andúð sem virðist fara frekar vaxandi með árunum. Nietzsche var jafn andvígur þýskum þjóðernishroka og blóðugri ógnarstjórn Parísarkommúnunnar, því hann vildi huga lengra og byggja rök sín á djúpri þekkingu á mannlegu eðli. Nietzsche sá í gegnum falsið í notkun jafnaðarhugtaksins, en eins og kemur fram í lokasetningunni merkir það ekki að hann hafi í raun verið á móti þeim jöfnuði er væri siðmenntuðum mönnum eðlislægur.

Friedrich Nietzsche

Förumaðurinn og skuggi hans II.

 

285. Ef réttlætið getur komið í stað eignarhaldsins

Ef tilfinningin fyrir óréttlæti eignarréttarins gerir sterklega vart við sig – en vísar stóra klukkuverksins eru enn á ný á þessum punkti, – þá eru tvö atriði sem geta endurstillt verkið: annars vegar jöfn eignadreifing, hins vegar afnám séreignarinnar og endurheimt hinnar samfélagslegu sameignar. Þetta síðasta úrræði er í sérstöku uppáhaldi hjá sósíalistunum okkar, sem hafa horn í síðu þess forna gyðings er boðaði: þú skalt ekki stela. Samkvæmt þeim ætti sjöunda boðorðið frekar að segja: þú skalt ekki eiga.

Tilraunir í átt til staðfestingar fyrri reglunnar hafa oft verið reyndar í fornöld, en þó aðeins í takmörkuðum mæli og án raunverulegs árangurs, sem ætti einnig að vera okkur lærdómur. Það er auðvelt að segja: „jafnstór landskiki fyrir hvern og einn“, en hvílík depurð fylgir ekki þeirri nauðsyn sem í yfirlýsingunni felst: að skipta upp landi og deila. Glötun ævagamals erfðagóss sem er kastað á glæ! Þegar vörðurnar á jarðarmörkunum eru rifnar niður fara undirstöður siðferðisins sömu leið. En ekki nóg með það: hvílík endurvakin vonbrigði nýrra landeigenda, hvílík öfund og hvílík reiði, því aldrei geta tveir jarðarskikar verið eins, og jafnvel þó svo væri, þá myndi öfundin gagnvart nágrannanum aldrei viðurkenna slíka jafngildingu. Og hversu lengi myndi slík jafngilding duga er fæli í sér svo eitraðar rætur? Innan fárra ættliða hefur einum og sama skikanum verið skipt í fimm hluta, en hjá öðrum er hann óskiptur. Og þar sem þessi regla kom til framkvæmda með svo ströngum og ósveigjanlegum erfðaskiptareglum, þar sem skikarnir voru vissulega jafnir, en leiddu um leið af sér vansæla einstaklinga með ólíkar þarfir, þá skildi hún ekkert eftir nema öfundina gagnvart foreldrum og nágrönnum og löngunina til að umbylta öllu.

Ef seinni reglunni hefði hins vegar verið fylgt, og landinu skilað til samfélagsins, þar sem aðkoma einstaklingsins væri til bráðabirgða og í formi verktakans, þá myndi það leiða til landeyðingar. Maðurinn ber aldrei umhyggju fyrir því sem hann hefur einungis tímabundin afnot af, og gerist því jarðvöðull og landaspillir.

Þegar Platon segir að sérhyglina skuli uppræta í krafti eignarréttarins, þá mætti svara því til, að þegar maðurinn hafi verið sviptur sérhygli sinni þá hafi höfuðdyggðirnar fjórar fokið með, -eða eins og segja mætti: engin farsótt yrði mannkyninu skaðvænlegri en ef það væri einn daginn svipt hégóma sínum. Hvað væru hinar mannlegu dyggðir annars án hégóma og sérhygli? Það er langt í frá að hér sé því haldið fram að dyggðirnar séu einungis nafnið eitt og gríman.

Grundvallar útópía Platons, sem sósíalistarnir lofsyngja enn í dag, byggir á meingölluðum skilningi á manninum sjálfum: Platon horfði framhjá sögu tilfinningalegrar siðferðiskenndar mannsins, hann skildi ekki uppruna þeirra grundvallargæða sem búa í mannssálinni. Skilningur hans á hinu góða og illa var, rétt eins og í fornöldinni,  bundinn við svart og hvítt, sem fól í sér að um væri að ræða róttækan eðlismun á hinum góðu og hinum illu mönnum, á hinum góðu og illu gæðum.

Til þess að eignarrétturinn blási mönnum í brjóst trúartraust og bjartsýni á framtíðina og efli þannig siðferðisvitundina þarf að halda opnum öllum leiðum í smærri atvinnurekstri og koma í veg fyrir fyrirhafnarlausa og skyndilega auðsöfnun. Taka þarf allar greinar samgangna og viðskipta úr höndum einstaklinga og einkafyrirtækja. Þetta á við um allar þær atvinnugreinar er bjóða upp á mikla og skjóta auðsöfnun, en það á ekki síst við um öll viðskipti með peninga.  Hér gildir hið sama um stóreignamennina og hina eignalausu:  báðir hóparnir fela í sér hættu fyrir samfélagið.

…………………………..

Forsíðumyndin er sögulegt málverk um Parísarkommúnuna eftir óþekktan höfund

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d