Ítalía er tímasprengja Evrópusambandsins

Fréttaskýring um efnahagslegar afleiðingar veirukreppunnar

Þýski félagsfræðingurinn Wolfgang Streeck segir að Ítalía sé tímasprengja í yfirvofandi kreppu ESB.

Þetta kemur fram í stuttu en athyglisverðu viðtali við dagblaðið Frankfurter Allgemeiner Zeitung. Sjónarmið hans endurspegla að mörgu leyti afstöðu núverandi stjórnarandstöðuflokka á Ítalíu, jafnt til vinstri og hægri.

Streeck bendir á tvo atburði sem vitnisburð um yfirvofandi kreppu, sem hafa legið í þagnargildi meginfjölmiðla í álfunni:

Annars vegar er nýfallinn dómsúrskurð hæstaréttarins í Karlsruhe í Þýskalandi sem taldi „hömlulausar tilslakanir“ Seðlabanka Evrópu gagnvart aðildarlöndum myntsamstarfsins (einkum Ítalíu) ólögmætar.

Hins vegar eru þeir skilmálar ESB að lánalínur sambandsins til Ítalíu fari í gegnum reglur „Stöðuleikasáttmálans“ (EMS), en það er stofnun óháð Seðlabanka ESB (SE) sem veitir lán úr sameiginlegum sjóði evru-ríkjanna gegn skilmálum um aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum eins og dæmi eru um í Grikklandi, þar sem „Þríeykið“ svokallaða tók yfir gríska fjárlagagerð til að standa vörð um hagsmuni þýskra og franskra fjármálastofnana, sem höfðu stundað áhættufjárfestingar í Grikklandi.

Allir vita hvernig sú saga endaði með því að gera Grikkland að nýlendu fjármálastofnanna, en nú hafa ítölsk stjórnvöld samþykkt að gangast inn á þessa sömu „efnahagsaðstoð“, sem er lánalína óháð SE en lýtur skilmálum um „gríska aðhaldsstefnu“ í framtíðinni.

Dómsúrskurðurinn í Karlsruhe setur aðra „efnahagsaðstoð“ ESB við Ítalíu vegna veiruplágunnar í gegnum SE í uppnám, þar sem úrskurðurinn virðist taka af skarið um að bankinn sé ekki sjálfstæð stofnun heldur lúti hún forræði þýskra dómstóla.

Ítalska tímasprengjan í Evrópu stafar einkum af tvennu:

Frá því Ítalía gekk í myntsamstarfið og afsalaði sér eigin gjaldmiðli, og þar með rétti til gengisskráningar og seðlaútgáfu, hefur ítalska ríkið safnað skuldum sem nema nú um 123% af þjóðarframleiðslu. Um leið er Ítalía það land í Evrópu sem hefur farið verst út úr veiruplágunni, og þarf nú nauðsynlega að hækka þessar skuldir upp í amk 150% að mati sérfræðinga til þess að gangsetja atvinnulífið eftir 2 mánaða stöðvun.

Þetta setur þrýsting á lánakjör ríkissjóðs til frambúðar og mun auka muninn á vaxtakjörum evruríkjanna og þar með á skattbyrði almennings.

Í stuttu viðtali segir Wolfgang Streeck að yfirstandandi kreppa skilji Evrópuríkin eftir berskjölduð. Þau hafi beitt niðurskurðarstefnu frá upptöku evrunnar 2002 til að „nútímavæða“ hagstjórnina og bæta samkeppnisstöðu aðildarríkjanna í alÞjóðavæðingu viðskiptanna. Frá upptöku evrunnar hefur Ítalía búið við stöðugt samdráttarskeið, atvinnuleysi, auknar skattaálögur og niðurskurð í heilsugæslu og mentamálum í þessu skyni.

Streeck segir að þessi „nútímavæðing“ hagkerfisins hefði aldrei verið möguleg innan lýðræðislegs ramma evru-ríkjanna og því hefðu þau gengist undir evruna til að gera þessar umbætur mögulegar, nokkuð sem reyndar hafi enn ekki tekist fullkomlega í Frakklandi vegna andstöðu almnennings.

Þetta ójafnvægi á fjármálamarkaði evruríkjanna hefur skapað Þýskalandi sérstöðu sem  nýtir samkeppnisstöðu sína í skjóli vaxtamunarins og þess að flytja út iðnvarning sinn á sama gengi og samdráttarríkin eru bundin af. Þannig blasir nú við stórfelldara atvinnuleysi á Ítalíu en dæmi eru um á friðartímum, svo dæmi sé tekið.

Þegar Streeck er spurður hvort evrumyntin styrki ekki stöðu þjóðríkjanna innan ESB segir hann að hið þveröfuga gerist. Samkvæmt Maastricht sáttmálanum má SE ekki veita aðildarríkjunum lán, heldur einungis einkareknum bönkum, SE kaupi hins vegar skuldabréf af evrópskum bönkum sem þannig geti veitt fé áfram til viðkomandi ríkissjóðs, en SE sé ekki í neinni bankaábyrgð fyrir þessu lánsfé. Þannig eru sögurnar um „aðstoð“ ESB við aðildarríkin goðsögn ein, þar sem Maastricht samningurinn gengur út á að lögmál samkeppni og fjármálamarkaðsins skuli ríkja ein innan ESB.

Aðspurður um framtíð ESB segir segir þessi kunni félagsfræðingur að helsta framtíðarsýn hans felist í takmörkun sambandsins í þeim skilningi að yfirbygging þess verði afögð og að upp verði tekin lárétt samvinna á milli starfsgreina á sjálfsprottum forsendum án pólitískrar eða þingbundinnar yfirbyggingar. Tími miðstýringarinnar sé afstaðinn. Evrópa eigi að nýta sér það tvíveldisástand sem upp er komið í heiminum (á milli BNA og Kína) og skapa eins konar stuðpúða eða frísvæði á milli þessarra risa er byggi á varðveislu menningarlegrar og sögulegrar sérstöðu einstakra Erópuríkja og hafi að leiðarljósi friðsamlega sambúð andstæða allri heimsvaldastefnu.

Heimild: Soziologe Wolfgang Streeck über die Folgen von Corona für die EU

ÍTALSKUR RÚSSÍBANI

Ítalskt samfélag hefur löngum verið eins og kanarífuglinn í kolanámunni, vitnisburður um það sem koma skal í evrópskum stjórnmálum. Atburðarás síðustu mánuða er góður vitnisburður um þetta og kannski marktækari vísbending en það óvissuástand sem finna má víðar í álfunni, ekki bara á Bretlandi, heldur einnig í Frakklandi gulu vestanna, uppgangi þjóðernissinna í Þýskalandi samfara stöðnun í efnahagslífinu, neyðarástandi í Grikklandi, efnahagskreppu á Spáni, vaxandi þjóðernishyggju í Austurríki og Ungverjalandi og öðrum Austur-evrópuríkjum, og ekki síst vaxandi efahyggju um samstarfsstofnanir Evrópuríkja eins og ESB og NATO. Hér er gerð yfirborðskennd tilraun til að lýsa flókinni atburðarás á Ítalíu síðustu mánuði í örfáum orðum.
Heljarstökk stjórnmálastéttarinnar andspænis ráðþrota þjóð

 

Nýkominn heim eftir 5 mánaða lærdómsríka dvöl á Ítalíu get ég ekki annað en gefið smá skýrslu um upplifun mína á þeirri rússíbanareið  ítalskra stjórnmála sem markaði dauðastríð ríkisstjórnar hreyfinganna sem kynntu sig báðar sem andspyrnuhreyfingar gegn spennitreyju hins yfirþjóðlega fjármálavalds með kröfuna um fullveldi að leiðarljósi. Það eru Fimm stjörnu hreyfingin (M5S) sem  var óvæntur sigurvegari þingkosninga í mars 2018 og Lega bandalagið sem kenndi sig við leiðtogann Salvini (LS). Samanlagt fengu þessi öfl óvæntan meirihluta á þingi í mars 2018, hreyfingar sem stóðu utan hinna hefðbundnu kerfisflokka sem leitt hafa Ítalíu inn í samfellt 20 ára samdráttarskeið undir forystu Forza Italia (FI) og Demókrataflokksins (PD). Þessir tveir flokkar höfðu fyrir kosningarnar reynt að búa til kosningakerfi er tryggði yfirburðastöðu þeirra til framtíðar, allt innan þess fjármálakerfis sem lýtur ytri ramma og agavaldi ES og myntbandalags evrunnar. En það er agavald sem hefur leitt af sér samfellt 20 ára skeið samdráttar með atvinnuleysi um og yfir 10%, stöðnun eða minnkun kaupmáttar, helmingsfjölgun þeirra er lifa undir fátæktarmörkum og útilokun ungs fólks frá vinnumarkaði þar sem atvinnuleysið er á bilinu 25-45% eftir landsvæðum og lausráðning án samningsbundinna réttinda er algengasti aðgöngumiðinn að vinnunni.

Fæðingarhríðir þessarar ríkisstjórnar voru sársaukafullar því á skala hefðbundinna mælikvarða stjórnmálanna stóðu þingflokkar hennar lengst til vinstri og lengst til hægri og höfðu í kosningabaráttunni 2018 margútilokað nokkuð samstarf sín á milli: talsmáti þessara hreyfinga, forsaga og rætur kölluðu á alkemískan samruna olíu og vatns undir fánamerki kröfunnar um „fullveldi“ (gagnvart ES), kröfunnar um þensluhvetjandi aðgerðir, aukin ríkisútgjöld til fjárfestinga og endurheimt aukins efnahagslegs jafnaðar er gæti aukið eftirspurn, hleypt lífi í efnahagskerfið og opnað vinnumarkaðinn. Allt voru þetta kröfur sem gengu þvert á niðurskurðarstefnu ESB, sem setti skilmála um aukna skattbyrði og samdrátt í ríkisútgjöldum og lækkun á skuldaklafa ríkisins gagnvart fjármálastofnunum ESB. Eftir tveggja mánaða stjórnarkreppu fæddist þessi samsteypustjórn sem átti sér engan líka í evrópskum stjórnmálum, samsteypustjórn sem byggði á undirrituðum samstarfssamningi þar sem óskaverkefnum beggja hreyfinga var raðað til jafns og ráðinn „tæknilegur“ forsætisráðherra, Giuseppe Conte, lögfræðiprófessor utan flokka, sem átti að tryggja valdajafnvægi og framkvæmd stjórnarsáttmálans þannig að á hvorugan aðilann væri hallað.

Í ljósi þess efnahagsástands sem hafði skapað fylgishrun hinna hefðbundnu kerfisflokka var þessi stjórnarmyndun bæði forvitnileg og áhugaverð þótt margir hefðu uppi efasemdir um að samkomulagið myndi halda og áformin ganga upp. Það sem M5S og LS áttu sameiginlegt (og það sem um leið endurspeglaði andrúmsloftið meðal kjósenda) var krafan um „fullveldi“, krafan sem allt í einu hafði myndað nýja póla í ítölskum stjórnmálum á milli svokallaðra „Evrópusinna“ og „fullveldissinna“. Til að gera langa sögu stutta þá stóð þetta stjórnarsamstarf í 14 mánuði og lyktaði með því að Matteo Salvini, leiðtogi LS, lýsti yfir vantrausti á forsætisráðherra sinn (hann gegndi sjálfur embætti innanríkistráðherra og aðstoðar-forsætisráðherra) um miðjan ágúst, á tímapunkti þegar meirihluti vinnandi fólks var í sumarfríi, en stjórnin átti fáar vikur í að leggja fyrir þingið drög að nýjum fjárlögum. Það vakti athygli að vara-forsætisráðherrann lýsti yfir vantrausti á forsætisráðherra sinn án þess að segja af sér sjálfur. Það gerði Giuseppe Conte hins vegar daginn eftir, og hlaut skömmu síðar umboð forseta til að mynda nýja ríkisstjórn M5S og Demókrataflokksins. Samsteypustjórn þessara tveggja flokka var með nokkrum ólíkindum þar sem þeir höfðu hatað hvorn annan eins og pestina, ekki síst eftir að fylgi Demókrata hafði flust að stórum hluta til M5S í kosningunum 2018. Þessi atburðarás var nánast eins og nýtt straumrof í stjórnmálunum og kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti yfir kjósendur, en á bak við allt saman var greinilegt baktjaldamakk sem hinn almenni kjósandi gat illa áttað sig á. En ný stjórn þessara höfuðóvina ítalskra stjórnmála var mynduð á einni viku með undirritaðri stefnuskrá sem Demókratar túlkuðu sem róttæka stefnubreytingu en M5S sem áframhaldandi baráttu í þágu hinna afskiptu í ítölsku samfélagi. Eftir sátu ráðvilltir kjósendur sem áttu fáa möguleika til að skilja hvaðan vindurinn blés. Eftir sat líka ráðvilltur vara-forsætisráðherra sem ekki hafði sagt af sér og krafist nýrra kosninga til að styrkja stöðu sína á þinginu eða „fá fullt valdaumboð“ eins og hann orðaði það sjálfur, til að ná fram kröfum LS-flokksins um fjárlagagerð í fullri andstöðu við ráherranefnd ESB og í stríði við sömu nefnd vegna flóttamannavandans, sem hann hafði gert að helsta deiluefninu á stjórnartímanum.

Öll er þessi lýsing atburðarásarinnar yfirborðskennd, og á bak við þennan skollaleik ítalskra stjórnmála liggur dýpri undirliggjandi vandi sem aldrei hefur komið upp á yfirborðið nema helst í máli nokkurra lærðra hagfræðinga sem kalla má hugmyndafræðinga LS, þótt málefni þeirra hafi ekki náð að skila sér til almennings. Á bak við þennan vanda lá líka þverstæðufullur leikur leiðtoga LS, Matteo Slvini, sem hafði á þeim 14 mánuðum sem hann var ráðherra, verið á stöðugum ferðalögum um landið í eins konar kosningaham til að boða slagorð sín um föðurlandsást, að Ítalir væru í fyrirrúmi og að vandi þjóðarinnar kæmi annars vegar frá afrískum flóttamönnum og hins vegar frá illræmdri ráðherranefnd og valdamiðstöðum ESB í Brussel, Frankfurt og Strassburg. Allur málflutningur Matteo Salvini var í ráðherratíð hans nýmæli í evrópskum stjórnmálum, málflutningur sem byggði á slagorðaflaumi og æsingum gegn útlendingahættunni. Það undarlega gerðist á þessum tíma að stór hluti kjósenda M5S hreyfingarinnar kokgleypti ofstopafullar áróðursræður Salvini, og sama gerðist með hinn gamla hægri-flokk Berlusconi. Á 14 mánuðum hafði fylgi M5S og LS snúist við, „hægri-armurinn“ var kominn í 36% fylgi og M5S komin niður í 17%, samanlagt var fylgi stjórnarinnar þó óbreytt og hún hafði fullan stuðning kjósenda þegar Salvini rauf samstarfið, en hann hélt í einfeldni sinni og hrokafullu oflæti að hann gæti á eigin forsendum rofið þing og boðað til kosninga og halað inn hreinan meirihluta hægri-flokkanna (í bandalagi við minni flokk nýfasista „Fratelli di Italia“) á meðan M5S sleikti sár sín eftir samstarfið. Þetta var ein skýringin á þessu skammhlaupi, sem reyndar fór þveröfugt við tilætlunina: Giuseppe Conte fékk nýtt umboð til myndunar „vinstristjórnar“ M5S og Demókrata (sem eiga rætur sínar í gamla kommúnistaflokknum) og myndaði stjórn á einni viku á meðan Salvini mátti sleikja sár sín og horfast í augu við hrapalleg mistök.

Því fer þó fjarri að þetta skýri alla söguna. Þegar Salvini setti fram vantraust sitt (á „tvitti“ eins og stallbróðir hans Trump) voru tilgreind nokkur ágreiningsatriði sem vörðuðu stórframkvæmdir eins og jarðgöng á milli Ítalíu og Frakklands (sem M5S var andvíg) en einnig slíkar skýringar Salvini reyndust yfirbreiðsla dýpri vanda: hugmyndafræðingarnir á bak við Salvini sem höfðu haft sig lítið í frammi komu smám saman fram með þá skýringu að forsætisráðherrann væri úlfur í sauðargæru og svikari í deilunni við ESB í samsæri með fjármálaráðherranum, sem vildi fylgja fyrirmælum ESB um niðurskurð í stað útgjaldaaukningar við fjárlagagerð. Þetta hefði komið í ljós þegar Conte forsætisráðherra og M5S greiddu Von Der Leyen atkvæði sem forseta ráðherranefndar ESB, en atkvæði M5S réðu úrslitum um kjör hennar í þetta embætti. Á bak við allt saman var sem sagt djúpstæður ágreiningur sem varðaði afstöðuna til ráðherranefndar ESB og evru-samstarfsins í heild sinni. Annars vegar einangrun Ítalíu innan bandalagsins, hins vegar samtal með von um málamiðlun.

Ekki er auðvelt að skýra þetta flókna valdatafl fyrir utanaðkomandi, þar sem flétturnar virðast jafn óskiljanlegar fyrir kjósendur, en hafi stjórn M5S og LS verið ný von þeirra um breytta tíma (stjórnin hafði um 60% fylgi í skoðanakönnunum þegar hún felldi sig), þá voru þær vonir sviknar af báðum aðilum.

M5S er grasrótarhreyfing sem hefur þrifist á óánægju almennings undir óljósum kröfum um „heiðarleika“ og „umhverfisvanda“ með áherslu á þá hugmynd að afskrifa muninn á hægri og vinstri og afskrifa alla hugmyndafræði. Luigi di Maio leiðtogi flokksins er frekar litlaus pertsóna (ólíkt Salvini) og hafði ekki vitsmunalegan bakgrunn til að móta heildstæða stefnu eða framtíðarsýn. Sama má reyndar segja um Salvini, hann hefur sýnt sig vera alls ófæran um að greina efnahagsleg eða pólitísk ágreiningsefni vitsmunalega, og kann ekki að tala nema í slagorðum. Öðru máli gegnir hins vegar um hugmyndafræðilegt bakland LS, þar sem flokkurinn hefur fengið til liðs við sig málsmetandi hagfræðinga, sem hafa leitast við að skýra fyrir þjóðinni hvernig ESB og evru-samstarfið eru valdatæki sem bitna á aðildarríkjunum með ólíkum hætti. Þeir segja ESB vera fyrst og fremst sniðið að hagsmunum Þjóðverja og þýskra og franskra banka og hafa fært fyrir því sterk rök.. Þó LS hafi ekki sett fram kröfu um úrsögn úr myntsamstarfinu, þá hafa þessir hagfræðingar jafnframt lýst þeirri persónulegu skoðun sinni að eina leið Ítalíu úr spennutreyju fjármálavaldsins sé að taka upp gjaldmiðil sem lúti stjórn ítalskra stjórnvalda og ítalsks seðlabanka. Það er ekki auðvelt fyrir almenning að skilja þessa efnahagslegu rökræðu, en hún hefur hins vegar haft áhrif langt út fyrir flokk þeirra og mætt vissum skilningi einnig innan Demókrataflokksins, sem hefur áttað sig á að flótti launafólks frá „vinstri“ til „hægri“ eigi sér einhverjar skýringar í þessum allt umlykjandi vef fjármálavaldsins sem kristallast í niðurskurðarstefnunni sem flokkur þeirra hefur fylgt samviskusamlega. Hvorugur flokkurinn var þannig fær um að setja fram málefnalega sannfærandi framtíðarsýn og eftir á að hyggja má segja að báðir hafi leikið feluleik hvað framtíðarsýnina varðar.

Þennan feluleik getum við síðan rakið til tungumálsins, sem báðir stjórnarflokkarnir gátu þó sameinast um: að vera „fullveldissinnar“. Hvorugur flokkurinn hefur getað skýrt hvað fullveldishugtakið felur í sér nema í neikvæðri merkingu: fullveldishugtakið felur samkvæmt því í sér að vera á móti því að fjárlög Ítalíu þurfi samþykki frá Brussel, að vaxtamunur á lánamarkaði skuli taka mið af yfirburðastöðu Þjóðverja sem beri mun minni vaxtakostnað en ítalska ríkið og nýti sér þannig yfirburða samkeppnisstöðu, að Ítalir geti ekki krafist þess að þeir sem koma inn í landið sjóleiðina frá löndum utan ESB skuli fyrst afla leyfis ítalskra stjórnvalda en ekki lúta tilskipana frá Brussel (í gegnum Dublinarsamkomulagið), að ítalska ríkið þurfi ekki að fara með betlistaf til Brussel til að mæta náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta o.s.frv. Þetta eru kröfur sem báðir flokkarnir orðuðu með ólíkum og loðnum hætti, en hvað fullveldi felur í sér í raun á tímum alþjóðavæðingar fjármagnsins stendur enn ósvarað: sjálfstæður gjaldmiðill er hefði eigin seðlabanka sem bakhjarl gæfi vissulega fleiri valkosti hvað varðar gengisskráningu, (gengislækkun í stað skattlagningar á laun) en ítölsk líra væri engu að síður jafn háð spákaupmennsku hins fjölþjóðlega markaðar og þau vaxtakjör sem Ítalir búa nú við og útiloka samkeppnishæfni þeirra við Þýskaland. „Fullveldi“ er ekki mögulegt á okkar tímum, hvort sem litið er til efnahagsmála eða umhverfismála. Og þegar kemur að stóra ágreiningsefninu sem Salvini gerði að kjarna hugmyndafræði sinnar (Ítalir í fyrirrúmi) þá er fullveldi yfir landamærum án samstarfs við Evrópuríkin óframkvæmanlegt: fyrirsjáanleg flóðbylgja frá fátækum ríkjum undan hernaði, loftslagsbreytingum og arðráni iðnríkjanna verður ekki stöðvuð með herskipum eða strandgæslu. Þessi vandi er sameiginlegur vandi þeirra ríkja sem búa við umframgetu í efnahagslegum skilningi miðað við ríki þriðja heimsins, og andspænis þeim vanda verður „fullveldið“ fánýtt slagorð. Það er mikil ábyrgð sem þessir flokkar hafa tekið á sig að láta sem hægt sé að leysa þennan vanda í samvinnu við „fullveldissinna“ innan ESB eða utan. Þessi málflutningur and-kerfisflokkanna er svartasti bletturinn á málflutningi þeirra og hefur skapað andrúmsloft haturs og kynþáyttahyggju innan landamæra Ítalíu og utan.

Meirihluti ítölsku þjóðarinnar studdi þessa stjórn sem norður-evrópubúar hafa kennt við „popúlisma“. Slík nafngift er jafn slæm og „fullveldis“ -slagorðin. Nú er þjóðin klofin og ráðvillt andspænis nýrri stjórn, þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru kallaðir til að hysja upp um sig buxurnar og horfast í augu við veruleikann. Í vændum eru sveitarstjórnarkosningar í þeim héruðum Ítalíu sem frá stríðslokum hafa verið höfuðvígi gamla kommúnistaflokksins og arftaka hans sem voru Olívubandalagið og svo núverandi Demókrataflokkur. LS flokkurinn hefur enn yfir 30% fylgi í skoðanakönnunum og margt bendir til að Demókratar bíði afhroð í þeim kosningum. Slíkur ósigur gæti orðið hinni nýju ríkisstjórn „vinstri-aflanna“ að falli, og þá yrði efnt til kosninga sem gætu raskað öllu jafnvægi í ítölsku samfélagi, leitt til hreinnar hægri stjórnar er væri í stríði við ESB og myndi ógna efnahagsklegum og pólitískum stöðugleika í álfunni í heild sinni. Óttinn við slíka framtíðarsýn er ekki góður heimanmundur hinnar nýju ríkisstjórnar Giuseppe Conte.

 

Forsíðumyndin er málverk Peters Breughel, „Blindur leiðir blindan“ frá 16. öld.

 

 

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Átakavettvangur kosninganna á Ítalíu

Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður

Ég hef reynt að fylgjast með stjórnmálum á Ítalíu frá því ég kom þangað fyrst fyrir 52 árum síðan.
Oft hefur verið erfitt fyrir utanaðkomandi gesti að skilja þann flókna hagsmunavef sem hefur mótað þessa ævintýralegu sögu sem oft hefur nálgast átakavettvang glæpareifarans með hinu flókna hugmyndafræðilega samspili kaþólsku og kommúnisma, miðstýringar og stjórnleysis sem hefur einkennt þessa sögu. Og enn í dag ganga Ítalir að kjörborðinu í sögulegum kosningum til þingsins, og satt að segja virðist átakavettvangurinn flóknari nú en nokkru sinni og niðurstöðurnar ófyrirsjáanlegri.
Málið er flóknara en svo að það komist fyrir á einni blog-síðu, og forsagan flóknari en hægt er að skýra í stuttu máli.
Margir flokkar og „flokkabandalög“ eru í framboði og kosningalögin eru nánast óskiljanleg fyrir allan almenning, að hluta til eiga úrslitn að verðlauna stærstu flokkana, að hluta til eiga allir flokkar að búa við sömu hlutfallaregluna.
Þessi óskapnaður var málamiðlun Demókrataflokksins og FI-flokksins (flokks Silvio Berlusconi) og átti að tryggja tveggja flokka kerfi. Það þveröfuga gerðist og síðasta áratuginn hafa amk. þrír flokkar verið á jöfnu róli, og nú enn fleiri, en það sem ruglar dæmið er einkum 5 stjörnu hreyfingin sem kennd er við grínistann Beppe Grillo, sem síustu skoðanakannanir segja stærsta flokkinn með um 30% fylgi. Þessi flokkur eða hreyfing hefur ekki staðfesta stefnu í öðru en að „vera á móti kerfinu“ og hefur því ekki verið tekinn alvarlega af hinum flokkunum.
Hinir pólarnir eru Demókrataflokkurinn (PD) sem er sögulegir arftaki gamla Kommúnistaflokksins og telst meðal sósíaldemókrata á evrópskan mælikvarða (og skoðanakannanir hafa sagt hafa um eða undir 20% atkvæða) og Kosningabandalag Mið-hægri flokkanna (hagsmunabandalag vegna kosningalaganna) sem skoðanakannanir hafa sagt sigurstranglegast með allt að 40%. Þetta er bandalag FI, Lega og Fratelli d’Italia, þar sem FI og Lega eru taldir berjast um yfirráð með rúm 15% hvor flokkur og Fratelli-flokkurinn 5-10%. Skoðanakannanir eru 2 vikna gamlar og því ónákvæmar.

Fyrir utanaðkomandi er þetta síðasttalda bandalag mesta ráðgátan,en FI flokkurinn (og mið-hægri bandalagið) eru gjarnan kennd við Silvio Berlusconi, margdæmdann fjársvikamann sem hefur verið sviptur kjörgengi og er því ekki í framboði. Flokkur hans er því höfuðlaus her, og tilnefndi sinn kandidat í forsætisráðuneytið örfáum dögum fyrir kosningar, lítt þekktan þingmann Evrópuþingsins sem ekki tekur þátt í kosningabaráttunni.

Það er ekki síst bandalagsflokkur Berlusconi, Lega-flokkurinn, sem hefur sett svip á kosningabaráttuna og valdið umróti og ótta, ekki síst vegna stefnu sinnar í Evrópumálum og gagnvart innflytjendum. Þessi flokkur á sér sögu sem flokkur aðskilnaðarsinna N-Ítalíu frá Róm, en átti engu að síður lengi samstarf við flokk SB á stjórnartíma hans. Lega flokkurinn hefur nú kúvent, tekið „norður“-hugtakið úr nafni sínu og hafið kosningabaráttu af miklum krafti á landsvísu. Þessi umskipti hafa staðið yfir síðustu 2 árin, en urðu afgerandi þegar flokksleiðtoginn Salvini leiddi tvo virta hagfræðinga til áhrifa innan flokksins sem hafa frá áramótum hleypt nýju blóði í hina pólitísku umræðu, þó málflutningur þeirra hafi átt erfitt uppdráttar í meginfjölmiðlum. Margir spá því nú að Lega-flokkurinn verði stærri en FI innan „Mið-hægri bandalagsins“ og fái því rétt til að tilnefna forsætisráðherraefni bandalagsins. Það vald er þó formlega í höndum Mattarella forseta lýðveldisins.

Hver eru þá deiluefnin sem kosningarnar snúast um?
Það sem fyrst blasir við hjá hinum almenna kjósanda er atvinnuleysið sem hefur verið 12% og 25-30% hjá ungu fólki. Þetta hefur verið viðvarandi ástand undanfarinn áratug og tengist efnahagslegri stöðnun sem lýsir sér í samdrætti í þjóðarframleiðslu og samdrætti í félagslegri þjónustu. Upphaflega var þessi slæma útkoma gjarnan tengd stjórnarferli Silvio Berlusconi, en þar sem PD hefur ekki fundið lausnir á þessum vanda á valdatíma sínum hefur almenningur glatað trausti sínu á flokkakerfinu, hinni hefðbundnu pólitík, og þannig skýrist hið mikla fylgi 5 stjörnu hreyfingarinnar. Fáir trúa því þó að sú hreyfing hafi lausnir á þessum vanda, og því leita menn skýringa annars staðar.

Þessi umræða hefur tengst innflytjendavandanum og tregðu Evrópusambandsins að deila þeim vanda með Ítölum, sem hafa borið þyngstu byrðina eftir innrás NATO-ríkja í Líbýu og hernað BNA og bandalagsríkjanna í Mið-Austurlöndum með tilheyrandi flóttamannastraumi.

Það eru þessi tengsl ESB við hinn pólitíska vanda á Ítalíu sem nú veldur titringi í valdamiðstöðum sambandsins í Brussel, Berlín og Frankfurt. Það er ekki síst málflutningur Lega-flokksins sem veldur þessum skjálfta, en einnig tortryggni í garð sambandsins meðal kjósenda 5 stjörnu hreyfingarinnar og flokks Berlusconi. En Berlusconi lýsti því nýverið yfir að hann myndi senda 600.000 „ólöglega“ innflytjendur til heimahúsanna ef hann kæmist til valda.

Hin almenna pólitíska umræða í Evrópu hefur búið til orðið „popúlisma“ um þau stjórnmálaöfl sem hafa haft uppi efasemdir um myntsamstarfið og og þá skerðingu á lýðræði sem Evrópusamstarfið hefur haft í för með sér. Þetta neikvæða slagorð er til þess fallið að breiða yfir þann raunverulega vanda sem blasir við öllum almenningi og gefur nú til kynna að öll stærstu stjórnmálaöflin á Ítalíu að Demókrataflokknum undanskildum séu „popúlísk“ og sem slík óalandi og óferjandi. Demókrataflokkurinn gengur til móts við sögulegan ósigur í kosnngunum í dag undir kjörorðum um „stöðugleika“ og „ábyrgð“ er felast í óbreyttum grundvallarreglum í samstarfinu innan ESB. Öll hin öflin beina spjótum sínum gegn ESB.

Þar eru áherslur þó mismunandi. Fimm stjörnu-hreyfingin er hætt að berjast fyrir úrsögn úr myntsamstarfinu, án þess að benda á valkosti. Silvio Berlusconi segist líka styðja myntsamstarfið en hefur óskýra stefnu gagnvart sambandinu að öðru leyti. Hagfræðingarnir sem hafa gengið til liðs við Lega-flokkinn hafa hins vegar beitt sinni fræðilegu þekkingu til þess að greina þann vanda sem myntsamstarfið hefur skapað, og reynt að móta mótvægisstefnu gegn þeim.

Hagfræðingurinn Alberto Bagnai, sem er helsti efnahagsráðgjafi Lega flokksins, á sér sögu sem fræðimaður og gagnrýnandi myntsamstarfsins allt frá því Maastricht samkomulagið var gert 1992, en það var undanfari Evrunnar sem tekin var í notkun 2002. Bagnai hefur með sannfærandi fræðilegum málflutningi rakið meginorsök þeirrar stöðnunar sem verið hefur viðvarandi á Ítalíu undanfarinn áratug til þess ójöfnuðar sem óhjákvæmilega verður fylgifiskur þess að ólík hagkerfi eiga að starfa í innbyrðis samkeppni undir sama gjaldmiðli án þess að hann sé tengdur sameiginlegri stjórnsýslu hvað varðar vexti, viðskiptajöfnuð skuldaábyrgð og aðra meginþætti stjórnmálanna. Það merkilega er að þessi hagfræðingur skrifaði sínar fræðigreinar upphaflega í málgögn sem voru talin yst á vinstri-vængnum (il manifesto og síðar Il Fatto Quitidiano) en er nú helsti málsvari Lega-flokksins sem telst „til hægri“ við flokk Berlusconi og hefur uppi slagorð um „þjóðleg gildi“ og „Ítalía fyrst“ í anda Trump forseta BNA. Enginn fræðimaður hefur svarað greiningu Bagnai með fræðilegum rökum, enda eru hagfræðiskýringar hans byggðar á alþekktum rökum sem nóbelsverðlaunahafinn Stieglitz hefur verið hvað ötulastur að setja fram um strúktúrgalla evrópska myntsamstarfsins. Hér stöndum við þannig frammi fyrir þeirri þversögn að hið málefnalega frumkvæði í kosningabaráttunni hefur komið fram frá gömlum róttæklingi sem nú er í framboði fyrir flokk sem er ekki bara kenndur við popúlisma, heldur jafnvel rasisma og kynþáttastefnu.

Þetta skýrir að einhverju leyti glundroðann í ítölsku kosningabaráttunni, en segir þó alls ekki alla söguna. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að Evran hefur gert Þýskaland með sinn jákvæða viðskiptajöfnuð að fjárhagslegu yfirvaldi yfir þeim „jaðarríkjum“ innan sambandsins sem búa við neikvæðan viðskiptajöfnuð en sama gjaldmiðil og að þau eru dæmd til viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar með „niðurskurðarstefnu“ ESB. Þó búið sé að greina efnahagslegu forsendurnar, þá skortir á hina pólitísku, tilfinningalegu og sálfræðilegu greiningu sem tengist þessum leikreglum óbeint, en einnig heimspólitíkinni í víðara samhengi.

ESB var sambandið sem átti að efla jaðarríkin til jafnræðis við höfuðbólin í Þýslkalandi og Frakklandi. Nú hefur hið þveröfuga sýnt sig að vera niðurstaðan eftir 10 ára stöðnunartímabil. Þá kemur í ljós að þessi vandi virðist ekki komast á dagskrá stjórnmálanna, þar sem hann er ofar því sem kallað hefur verið „sjálfsákvörðunarréttur þjóða“, og er orðið úrelt slagorð í alþjóðastjórnmálum eins og Grikkir hafa t.d. sannreynt. Þjóðríkið sem slíkt hefur fúnar og feysknar undirstöður á tímum hins fjölþjóðlega fjármálavalds, og almenningur skynjar vel að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið eða ekkert að segja um vandamál dagsins: réttinn til vinnu, menntunar, heilsugæslu, lífeyris o.s.frv.

Þetta skapar ekki bara efnahagslega neyð eða skort, þetta framkallar tilfinningalegt og sálrænt öryggisleysi sem birtist í vantrausti á stjórnmálunum og uppvaxandi „popúlisma“. Hverjar eru sálrænar og tilfinningalegar afleiðingar þess að upplifa upplausn slíkrar undirstöðu tilverunnar sem hugtakið „sjálfsákvörðnarréttur þjóða“ hefur verið allt frá tilkomu upplýsingar í Evrópu á 17. og 18. öldinni?

Þetta eru spurningar sem ekki komast upp á yfirborðið í kosningabaráttunni á Ítalíu, en kalla engu að síður á umhugsun ef við viljum í reynd reyna að skilja hvernig stjórnmálaumhverfið getur breyst með jafn afgerandi hætti á svo stuttum tíma. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eins og er þá hafa hugtökin hægri og vinstri ekki skýra merkingu í ítölsku kosningabaráttunni. Þetta ástand á sér hliðstæður í Austurríki, Frakklandi, Póllandi, Ungverjalandi, Króatíu, Grikklandi og þó víðar væri leitað, svo ekki sé minnst á Bretland.

Einhver kynni að halda að ég væri með þessum pistli að lýsa yfir stuðningi mínum við „hægri-flokkinn“ Lega Salvini, sem hefur verið orðaður við rasisma og flest illt. Það er ekki svo. Mér sýnist margt undarlegt við einstakar hugmyndir þessa flokks, en umfram allt þá er eitt sem skortir í málflutning allra flokkanna sem nú gefa kost á sér til þingsins á Ítalíu: spurningin um framtíðarmarkmið ESB og hlutverk þess í heiminum. ESB hafði í upphafi stórbrotin markmið um að skapa frið í álfunni. Nú er Sambandið orðið uppspretta nýrrar þjóðernisstefnu, sem getur allt eins orðið stórhættuleg ef hún miðar að afturhvarfi til hins gamla þjóðríkis. Mikilvægasta vandamálið í Evrópskum stórnmálum á okkar tímum er að marka ESB framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem íbúar Evrópu geta fundið sig í sem fullgildir þegnar. Afturhvarf til hins gamla þjóðríkis mun fela í sér upplausn og átök. Því miður var mikilvægasta pólitíska vandamálið í Evrópu ekki á dagskrá í ítölsku þingkosningunum  2018.

%d bloggers like this: