ÍTALSKUR RÚSSÍBANI

Ítalskt samfélag hefur löngum verið eins og kanarífuglinn í kolanámunni, vitnisburður um það sem koma skal í evrópskum stjórnmálum. Atburðarás síðustu mánuða er góður vitnisburður um þetta og kannski marktækari vísbending en það óvissuástand sem finna má víðar í álfunni, ekki bara á Bretlandi, heldur einnig í Frakklandi gulu vestanna, uppgangi þjóðernissinna í Þýskalandi samfara stöðnun í efnahagslífinu, neyðarástandi í Grikklandi, efnahagskreppu á Spáni, vaxandi þjóðernishyggju í Austurríki og Ungverjalandi og öðrum Austur-evrópuríkjum, og ekki síst vaxandi efahyggju um samstarfsstofnanir Evrópuríkja eins og ESB og NATO. Hér er gerð yfirborðskennd tilraun til að lýsa flókinni atburðarás á Ítalíu síðustu mánuði í örfáum orðum.
Heljarstökk stjórnmálastéttarinnar andspænis ráðþrota þjóð

 

Nýkominn heim eftir 5 mánaða lærdómsríka dvöl á Ítalíu get ég ekki annað en gefið smá skýrslu um upplifun mína á þeirri rússíbanareið  ítalskra stjórnmála sem markaði dauðastríð ríkisstjórnar hreyfinganna sem kynntu sig báðar sem andspyrnuhreyfingar gegn spennitreyju hins yfirþjóðlega fjármálavalds með kröfuna um fullveldi að leiðarljósi. Það eru Fimm stjörnu hreyfingin (M5S) sem  var óvæntur sigurvegari þingkosninga í mars 2018 og Lega bandalagið sem kenndi sig við leiðtogann Salvini (LS). Samanlagt fengu þessi öfl óvæntan meirihluta á þingi í mars 2018, hreyfingar sem stóðu utan hinna hefðbundnu kerfisflokka sem leitt hafa Ítalíu inn í samfellt 20 ára samdráttarskeið undir forystu Forza Italia (FI) og Demókrataflokksins (PD). Þessir tveir flokkar höfðu fyrir kosningarnar reynt að búa til kosningakerfi er tryggði yfirburðastöðu þeirra til framtíðar, allt innan þess fjármálakerfis sem lýtur ytri ramma og agavaldi ES og myntbandalags evrunnar. En það er agavald sem hefur leitt af sér samfellt 20 ára skeið samdráttar með atvinnuleysi um og yfir 10%, stöðnun eða minnkun kaupmáttar, helmingsfjölgun þeirra er lifa undir fátæktarmörkum og útilokun ungs fólks frá vinnumarkaði þar sem atvinnuleysið er á bilinu 25-45% eftir landsvæðum og lausráðning án samningsbundinna réttinda er algengasti aðgöngumiðinn að vinnunni.

Fæðingarhríðir þessarar ríkisstjórnar voru sársaukafullar því á skala hefðbundinna mælikvarða stjórnmálanna stóðu þingflokkar hennar lengst til vinstri og lengst til hægri og höfðu í kosningabaráttunni 2018 margútilokað nokkuð samstarf sín á milli: talsmáti þessara hreyfinga, forsaga og rætur kölluðu á alkemískan samruna olíu og vatns undir fánamerki kröfunnar um „fullveldi“ (gagnvart ES), kröfunnar um þensluhvetjandi aðgerðir, aukin ríkisútgjöld til fjárfestinga og endurheimt aukins efnahagslegs jafnaðar er gæti aukið eftirspurn, hleypt lífi í efnahagskerfið og opnað vinnumarkaðinn. Allt voru þetta kröfur sem gengu þvert á niðurskurðarstefnu ESB, sem setti skilmála um aukna skattbyrði og samdrátt í ríkisútgjöldum og lækkun á skuldaklafa ríkisins gagnvart fjármálastofnunum ESB. Eftir tveggja mánaða stjórnarkreppu fæddist þessi samsteypustjórn sem átti sér engan líka í evrópskum stjórnmálum, samsteypustjórn sem byggði á undirrituðum samstarfssamningi þar sem óskaverkefnum beggja hreyfinga var raðað til jafns og ráðinn „tæknilegur“ forsætisráðherra, Giuseppe Conte, lögfræðiprófessor utan flokka, sem átti að tryggja valdajafnvægi og framkvæmd stjórnarsáttmálans þannig að á hvorugan aðilann væri hallað.

Í ljósi þess efnahagsástands sem hafði skapað fylgishrun hinna hefðbundnu kerfisflokka var þessi stjórnarmyndun bæði forvitnileg og áhugaverð þótt margir hefðu uppi efasemdir um að samkomulagið myndi halda og áformin ganga upp. Það sem M5S og LS áttu sameiginlegt (og það sem um leið endurspeglaði andrúmsloftið meðal kjósenda) var krafan um „fullveldi“, krafan sem allt í einu hafði myndað nýja póla í ítölskum stjórnmálum á milli svokallaðra „Evrópusinna“ og „fullveldissinna“. Til að gera langa sögu stutta þá stóð þetta stjórnarsamstarf í 14 mánuði og lyktaði með því að Matteo Salvini, leiðtogi LS, lýsti yfir vantrausti á forsætisráðherra sinn (hann gegndi sjálfur embætti innanríkistráðherra og aðstoðar-forsætisráðherra) um miðjan ágúst, á tímapunkti þegar meirihluti vinnandi fólks var í sumarfríi, en stjórnin átti fáar vikur í að leggja fyrir þingið drög að nýjum fjárlögum. Það vakti athygli að vara-forsætisráðherrann lýsti yfir vantrausti á forsætisráðherra sinn án þess að segja af sér sjálfur. Það gerði Giuseppe Conte hins vegar daginn eftir, og hlaut skömmu síðar umboð forseta til að mynda nýja ríkisstjórn M5S og Demókrataflokksins. Samsteypustjórn þessara tveggja flokka var með nokkrum ólíkindum þar sem þeir höfðu hatað hvorn annan eins og pestina, ekki síst eftir að fylgi Demókrata hafði flust að stórum hluta til M5S í kosningunum 2018. Þessi atburðarás var nánast eins og nýtt straumrof í stjórnmálunum og kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti yfir kjósendur, en á bak við allt saman var greinilegt baktjaldamakk sem hinn almenni kjósandi gat illa áttað sig á. En ný stjórn þessara höfuðóvina ítalskra stjórnmála var mynduð á einni viku með undirritaðri stefnuskrá sem Demókratar túlkuðu sem róttæka stefnubreytingu en M5S sem áframhaldandi baráttu í þágu hinna afskiptu í ítölsku samfélagi. Eftir sátu ráðvilltir kjósendur sem áttu fáa möguleika til að skilja hvaðan vindurinn blés. Eftir sat líka ráðvilltur vara-forsætisráðherra sem ekki hafði sagt af sér og krafist nýrra kosninga til að styrkja stöðu sína á þinginu eða „fá fullt valdaumboð“ eins og hann orðaði það sjálfur, til að ná fram kröfum LS-flokksins um fjárlagagerð í fullri andstöðu við ráherranefnd ESB og í stríði við sömu nefnd vegna flóttamannavandans, sem hann hafði gert að helsta deiluefninu á stjórnartímanum.

Öll er þessi lýsing atburðarásarinnar yfirborðskennd, og á bak við þennan skollaleik ítalskra stjórnmála liggur dýpri undirliggjandi vandi sem aldrei hefur komið upp á yfirborðið nema helst í máli nokkurra lærðra hagfræðinga sem kalla má hugmyndafræðinga LS, þótt málefni þeirra hafi ekki náð að skila sér til almennings. Á bak við þennan vanda lá líka þverstæðufullur leikur leiðtoga LS, Matteo Slvini, sem hafði á þeim 14 mánuðum sem hann var ráðherra, verið á stöðugum ferðalögum um landið í eins konar kosningaham til að boða slagorð sín um föðurlandsást, að Ítalir væru í fyrirrúmi og að vandi þjóðarinnar kæmi annars vegar frá afrískum flóttamönnum og hins vegar frá illræmdri ráðherranefnd og valdamiðstöðum ESB í Brussel, Frankfurt og Strassburg. Allur málflutningur Matteo Salvini var í ráðherratíð hans nýmæli í evrópskum stjórnmálum, málflutningur sem byggði á slagorðaflaumi og æsingum gegn útlendingahættunni. Það undarlega gerðist á þessum tíma að stór hluti kjósenda M5S hreyfingarinnar kokgleypti ofstopafullar áróðursræður Salvini, og sama gerðist með hinn gamla hægri-flokk Berlusconi. Á 14 mánuðum hafði fylgi M5S og LS snúist við, „hægri-armurinn“ var kominn í 36% fylgi og M5S komin niður í 17%, samanlagt var fylgi stjórnarinnar þó óbreytt og hún hafði fullan stuðning kjósenda þegar Salvini rauf samstarfið, en hann hélt í einfeldni sinni og hrokafullu oflæti að hann gæti á eigin forsendum rofið þing og boðað til kosninga og halað inn hreinan meirihluta hægri-flokkanna (í bandalagi við minni flokk nýfasista „Fratelli di Italia“) á meðan M5S sleikti sár sín eftir samstarfið. Þetta var ein skýringin á þessu skammhlaupi, sem reyndar fór þveröfugt við tilætlunina: Giuseppe Conte fékk nýtt umboð til myndunar „vinstristjórnar“ M5S og Demókrata (sem eiga rætur sínar í gamla kommúnistaflokknum) og myndaði stjórn á einni viku á meðan Salvini mátti sleikja sár sín og horfast í augu við hrapalleg mistök.

Því fer þó fjarri að þetta skýri alla söguna. Þegar Salvini setti fram vantraust sitt (á „tvitti“ eins og stallbróðir hans Trump) voru tilgreind nokkur ágreiningsatriði sem vörðuðu stórframkvæmdir eins og jarðgöng á milli Ítalíu og Frakklands (sem M5S var andvíg) en einnig slíkar skýringar Salvini reyndust yfirbreiðsla dýpri vanda: hugmyndafræðingarnir á bak við Salvini sem höfðu haft sig lítið í frammi komu smám saman fram með þá skýringu að forsætisráðherrann væri úlfur í sauðargæru og svikari í deilunni við ESB í samsæri með fjármálaráðherranum, sem vildi fylgja fyrirmælum ESB um niðurskurð í stað útgjaldaaukningar við fjárlagagerð. Þetta hefði komið í ljós þegar Conte forsætisráðherra og M5S greiddu Von Der Leyen atkvæði sem forseta ráðherranefndar ESB, en atkvæði M5S réðu úrslitum um kjör hennar í þetta embætti. Á bak við allt saman var sem sagt djúpstæður ágreiningur sem varðaði afstöðuna til ráðherranefndar ESB og evru-samstarfsins í heild sinni. Annars vegar einangrun Ítalíu innan bandalagsins, hins vegar samtal með von um málamiðlun.

Ekki er auðvelt að skýra þetta flókna valdatafl fyrir utanaðkomandi, þar sem flétturnar virðast jafn óskiljanlegar fyrir kjósendur, en hafi stjórn M5S og LS verið ný von þeirra um breytta tíma (stjórnin hafði um 60% fylgi í skoðanakönnunum þegar hún felldi sig), þá voru þær vonir sviknar af báðum aðilum.

M5S er grasrótarhreyfing sem hefur þrifist á óánægju almennings undir óljósum kröfum um „heiðarleika“ og „umhverfisvanda“ með áherslu á þá hugmynd að afskrifa muninn á hægri og vinstri og afskrifa alla hugmyndafræði. Luigi di Maio leiðtogi flokksins er frekar litlaus pertsóna (ólíkt Salvini) og hafði ekki vitsmunalegan bakgrunn til að móta heildstæða stefnu eða framtíðarsýn. Sama má reyndar segja um Salvini, hann hefur sýnt sig vera alls ófæran um að greina efnahagsleg eða pólitísk ágreiningsefni vitsmunalega, og kann ekki að tala nema í slagorðum. Öðru máli gegnir hins vegar um hugmyndafræðilegt bakland LS, þar sem flokkurinn hefur fengið til liðs við sig málsmetandi hagfræðinga, sem hafa leitast við að skýra fyrir þjóðinni hvernig ESB og evru-samstarfið eru valdatæki sem bitna á aðildarríkjunum með ólíkum hætti. Þeir segja ESB vera fyrst og fremst sniðið að hagsmunum Þjóðverja og þýskra og franskra banka og hafa fært fyrir því sterk rök.. Þó LS hafi ekki sett fram kröfu um úrsögn úr myntsamstarfinu, þá hafa þessir hagfræðingar jafnframt lýst þeirri persónulegu skoðun sinni að eina leið Ítalíu úr spennutreyju fjármálavaldsins sé að taka upp gjaldmiðil sem lúti stjórn ítalskra stjórnvalda og ítalsks seðlabanka. Það er ekki auðvelt fyrir almenning að skilja þessa efnahagslegu rökræðu, en hún hefur hins vegar haft áhrif langt út fyrir flokk þeirra og mætt vissum skilningi einnig innan Demókrataflokksins, sem hefur áttað sig á að flótti launafólks frá „vinstri“ til „hægri“ eigi sér einhverjar skýringar í þessum allt umlykjandi vef fjármálavaldsins sem kristallast í niðurskurðarstefnunni sem flokkur þeirra hefur fylgt samviskusamlega. Hvorugur flokkurinn var þannig fær um að setja fram málefnalega sannfærandi framtíðarsýn og eftir á að hyggja má segja að báðir hafi leikið feluleik hvað framtíðarsýnina varðar.

Þennan feluleik getum við síðan rakið til tungumálsins, sem báðir stjórnarflokkarnir gátu þó sameinast um: að vera „fullveldissinnar“. Hvorugur flokkurinn hefur getað skýrt hvað fullveldishugtakið felur í sér nema í neikvæðri merkingu: fullveldishugtakið felur samkvæmt því í sér að vera á móti því að fjárlög Ítalíu þurfi samþykki frá Brussel, að vaxtamunur á lánamarkaði skuli taka mið af yfirburðastöðu Þjóðverja sem beri mun minni vaxtakostnað en ítalska ríkið og nýti sér þannig yfirburða samkeppnisstöðu, að Ítalir geti ekki krafist þess að þeir sem koma inn í landið sjóleiðina frá löndum utan ESB skuli fyrst afla leyfis ítalskra stjórnvalda en ekki lúta tilskipana frá Brussel (í gegnum Dublinarsamkomulagið), að ítalska ríkið þurfi ekki að fara með betlistaf til Brussel til að mæta náttúruhamförum á borð við jarðskjálfta o.s.frv. Þetta eru kröfur sem báðir flokkarnir orðuðu með ólíkum og loðnum hætti, en hvað fullveldi felur í sér í raun á tímum alþjóðavæðingar fjármagnsins stendur enn ósvarað: sjálfstæður gjaldmiðill er hefði eigin seðlabanka sem bakhjarl gæfi vissulega fleiri valkosti hvað varðar gengisskráningu, (gengislækkun í stað skattlagningar á laun) en ítölsk líra væri engu að síður jafn háð spákaupmennsku hins fjölþjóðlega markaðar og þau vaxtakjör sem Ítalir búa nú við og útiloka samkeppnishæfni þeirra við Þýskaland. „Fullveldi“ er ekki mögulegt á okkar tímum, hvort sem litið er til efnahagsmála eða umhverfismála. Og þegar kemur að stóra ágreiningsefninu sem Salvini gerði að kjarna hugmyndafræði sinnar (Ítalir í fyrirrúmi) þá er fullveldi yfir landamærum án samstarfs við Evrópuríkin óframkvæmanlegt: fyrirsjáanleg flóðbylgja frá fátækum ríkjum undan hernaði, loftslagsbreytingum og arðráni iðnríkjanna verður ekki stöðvuð með herskipum eða strandgæslu. Þessi vandi er sameiginlegur vandi þeirra ríkja sem búa við umframgetu í efnahagslegum skilningi miðað við ríki þriðja heimsins, og andspænis þeim vanda verður „fullveldið“ fánýtt slagorð. Það er mikil ábyrgð sem þessir flokkar hafa tekið á sig að láta sem hægt sé að leysa þennan vanda í samvinnu við „fullveldissinna“ innan ESB eða utan. Þessi málflutningur and-kerfisflokkanna er svartasti bletturinn á málflutningi þeirra og hefur skapað andrúmsloft haturs og kynþáyttahyggju innan landamæra Ítalíu og utan.

Meirihluti ítölsku þjóðarinnar studdi þessa stjórn sem norður-evrópubúar hafa kennt við „popúlisma“. Slík nafngift er jafn slæm og „fullveldis“ -slagorðin. Nú er þjóðin klofin og ráðvillt andspænis nýrri stjórn, þar sem báðir stjórnarflokkarnir eru kallaðir til að hysja upp um sig buxurnar og horfast í augu við veruleikann. Í vændum eru sveitarstjórnarkosningar í þeim héruðum Ítalíu sem frá stríðslokum hafa verið höfuðvígi gamla kommúnistaflokksins og arftaka hans sem voru Olívubandalagið og svo núverandi Demókrataflokkur. LS flokkurinn hefur enn yfir 30% fylgi í skoðanakönnunum og margt bendir til að Demókratar bíði afhroð í þeim kosningum. Slíkur ósigur gæti orðið hinni nýju ríkisstjórn „vinstri-aflanna“ að falli, og þá yrði efnt til kosninga sem gætu raskað öllu jafnvægi í ítölsku samfélagi, leitt til hreinnar hægri stjórnar er væri í stríði við ESB og myndi ógna efnahagsklegum og pólitískum stöðugleika í álfunni í heild sinni. Óttinn við slíka framtíðarsýn er ekki góður heimanmundur hinnar nýju ríkisstjórnar Giuseppe Conte.

 

Forsíðumyndin er málverk Peters Breughel, „Blindur leiðir blindan“ frá 16. öld.

 

 

Ein athugasemd við “ÍTALSKUR RÚSSÍBANI”

  1. Afskaplega fróðlegt. Svona úttektir fær maður nánast aldrei í íslenskum fjölmiðlum. Takk.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: