Fréttaskýring um efnahagslegar afleiðingar veirukreppunnar
Þýski félagsfræðingurinn Wolfgang Streeck segir að Ítalía sé tímasprengja í yfirvofandi kreppu ESB.
Þetta kemur fram í stuttu en athyglisverðu viðtali við dagblaðið Frankfurter Allgemeiner Zeitung. Sjónarmið hans endurspegla að mörgu leyti afstöðu núverandi stjórnarandstöðuflokka á Ítalíu, jafnt til vinstri og hægri.
Streeck bendir á tvo atburði sem vitnisburð um yfirvofandi kreppu, sem hafa legið í þagnargildi meginfjölmiðla í álfunni:
Annars vegar er nýfallinn dómsúrskurð hæstaréttarins í Karlsruhe í Þýskalandi sem taldi „hömlulausar tilslakanir“ Seðlabanka Evrópu gagnvart aðildarlöndum myntsamstarfsins (einkum Ítalíu) ólögmætar.
Hins vegar eru þeir skilmálar ESB að lánalínur sambandsins til Ítalíu fari í gegnum reglur „Stöðuleikasáttmálans“ (EMS), en það er stofnun óháð Seðlabanka ESB (SE) sem veitir lán úr sameiginlegum sjóði evru-ríkjanna gegn skilmálum um aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum eins og dæmi eru um í Grikklandi, þar sem „Þríeykið“ svokallaða tók yfir gríska fjárlagagerð til að standa vörð um hagsmuni þýskra og franskra fjármálastofnana, sem höfðu stundað áhættufjárfestingar í Grikklandi.
Allir vita hvernig sú saga endaði með því að gera Grikkland að nýlendu fjármálastofnanna, en nú hafa ítölsk stjórnvöld samþykkt að gangast inn á þessa sömu „efnahagsaðstoð“, sem er lánalína óháð SE en lýtur skilmálum um „gríska aðhaldsstefnu“ í framtíðinni.
Dómsúrskurðurinn í Karlsruhe setur aðra „efnahagsaðstoð“ ESB við Ítalíu vegna veiruplágunnar í gegnum SE í uppnám, þar sem úrskurðurinn virðist taka af skarið um að bankinn sé ekki sjálfstæð stofnun heldur lúti hún forræði þýskra dómstóla.
Ítalska tímasprengjan í Evrópu stafar einkum af tvennu:
Frá því Ítalía gekk í myntsamstarfið og afsalaði sér eigin gjaldmiðli, og þar með rétti til gengisskráningar og seðlaútgáfu, hefur ítalska ríkið safnað skuldum sem nema nú um 123% af þjóðarframleiðslu. Um leið er Ítalía það land í Evrópu sem hefur farið verst út úr veiruplágunni, og þarf nú nauðsynlega að hækka þessar skuldir upp í amk 150% að mati sérfræðinga til þess að gangsetja atvinnulífið eftir 2 mánaða stöðvun.
Þetta setur þrýsting á lánakjör ríkissjóðs til frambúðar og mun auka muninn á vaxtakjörum evruríkjanna og þar með á skattbyrði almennings.
Í stuttu viðtali segir Wolfgang Streeck að yfirstandandi kreppa skilji Evrópuríkin eftir berskjölduð. Þau hafi beitt niðurskurðarstefnu frá upptöku evrunnar 2002 til að „nútímavæða“ hagstjórnina og bæta samkeppnisstöðu aðildarríkjanna í alÞjóðavæðingu viðskiptanna. Frá upptöku evrunnar hefur Ítalía búið við stöðugt samdráttarskeið, atvinnuleysi, auknar skattaálögur og niðurskurð í heilsugæslu og mentamálum í þessu skyni.
Streeck segir að þessi „nútímavæðing“ hagkerfisins hefði aldrei verið möguleg innan lýðræðislegs ramma evru-ríkjanna og því hefðu þau gengist undir evruna til að gera þessar umbætur mögulegar, nokkuð sem reyndar hafi enn ekki tekist fullkomlega í Frakklandi vegna andstöðu almnennings.
Þetta ójafnvægi á fjármálamarkaði evruríkjanna hefur skapað Þýskalandi sérstöðu sem nýtir samkeppnisstöðu sína í skjóli vaxtamunarins og þess að flytja út iðnvarning sinn á sama gengi og samdráttarríkin eru bundin af. Þannig blasir nú við stórfelldara atvinnuleysi á Ítalíu en dæmi eru um á friðartímum, svo dæmi sé tekið.
Þegar Streeck er spurður hvort evrumyntin styrki ekki stöðu þjóðríkjanna innan ESB segir hann að hið þveröfuga gerist. Samkvæmt Maastricht sáttmálanum má SE ekki veita aðildarríkjunum lán, heldur einungis einkareknum bönkum, SE kaupi hins vegar skuldabréf af evrópskum bönkum sem þannig geti veitt fé áfram til viðkomandi ríkissjóðs, en SE sé ekki í neinni bankaábyrgð fyrir þessu lánsfé. Þannig eru sögurnar um „aðstoð“ ESB við aðildarríkin goðsögn ein, þar sem Maastricht samningurinn gengur út á að lögmál samkeppni og fjármálamarkaðsins skuli ríkja ein innan ESB.
Aðspurður um framtíð ESB segir segir þessi kunni félagsfræðingur að helsta framtíðarsýn hans felist í takmörkun sambandsins í þeim skilningi að yfirbygging þess verði afögð og að upp verði tekin lárétt samvinna á milli starfsgreina á sjálfsprottum forsendum án pólitískrar eða þingbundinnar yfirbyggingar. Tími miðstýringarinnar sé afstaðinn. Evrópa eigi að nýta sér það tvíveldisástand sem upp er komið í heiminum (á milli BNA og Kína) og skapa eins konar stuðpúða eða frísvæði á milli þessarra risa er byggi á varðveislu menningarlegrar og sögulegrar sérstöðu einstakra Erópuríkja og hafi að leiðarljósi friðsamlega sambúð andstæða allri heimsvaldastefnu.
Heimild: Soziologe Wolfgang Streeck über die Folgen von Corona für die EU