BYUNG-CHUL HAN: ALRÆÐI UPPLÝSINGANNA


ÓVÆNT RÖDD Í EVRÓPSKRI HEIMSPEKIUMRÆÐU SAMTÍMANS
Fyrir tæpu ári síðan, þegar ég var síðast hér á Ítalíu kom ég að venju í bókabúð og greip fyrir tilviljun bók eftir Suður-Kóreiskan rithöfund sem ég þekkti ekkert - en mér þótti titillinn forvitnilegur: "Hvers vegna er byltingin ómöguleg?". Mér þótti bókin skemmtileg og vel skrifuð og þegar ég komst svo aftur í ítalska bókaverslun fyrir mánuði síðan keypti ég fleiri bækur, sem hafa stytt mér stundirnar undanfarið.
Byung-Chul Han kom til Þýskalands fyrir um 40 árum og settist á skólabekk, fyrst í tæknivísindum en leiddist fljótt út í þýskunám, heimspekinám og nám í kaþólskum fræðum. Hann varð kennari við Listaháskólann í Berlín og hóf rithöfundaferil sinn á þýsku fyrir rúmum áratug og hefur á þessum tíma orðið metsöluhöfundur, ekki bara á þýskum bókamarkaði, heldur í fleiri heimsálfum, ekki síst í fæðingarlandi sínu og í löndum Latnesku Ameríku. Og eins og sjá má á bókatitlum hér að neðan hefur hann fengið mikla útbreiðslu einnig hér á Ítalíu.
Bækur hans eru flestar stuttar og skrifaðar á hnitmiðuðu tungumáli og án málalenginga, sem gerir hann afar óvenjulegan innan síns fags, heimspekinnar, þar sem samtímaheimspekin hefur lokast æ meir inn í tæknilegum orðalengingum og rökflækjum um leið og hún hefur fjarlægst almenning.
Bækur hans hafa allar sterkan pólitískan undirtón og má oft kenna þær við heimspekilega heimsádeilu, þar sem nýfrjálshyggjan og tækniþróun samtímans eru í skotmarkinu. Han sækir margt til Michel Foucault og Agambens í ritum sínum, en deilir á báða og má segja að hann hafi klætt samtíma okkar í nýjan hugtakabúning sem veitir oft nýstárleg sjónarhorn á samtímann. Í þessu samhengi minnir hann ekki síst á Jean Baudrillard, en ég hef hins vegar ekki rekist á beinar tilvitnanir í Baudrillard enn. 
Greining hans á kapítalisma nýfrjálshyggjunnar er utan hinnar klassísku greiningar marxismans á stéttabaráttunni, þar sem hann segir valdið nú ekki snúast lengur um eignarhalæd á framleiðslutækjunum, heldur sé Það fólgið í földum reiknilíkönum og talnavélum gagnabankanna. Í því umhverfi eru hefðbundnir atvinnurekendur og launþegar á sama báti, segur Hun, hver að skapa sína eigin tilveru í gegnum þá neysluvél sem er um leið arðránsvél kapítalismans. Ekki er tilefni til að rekja hugmyndaheim Hun frekar hér, en ein af síðustu bókum hans "Infokratie" frá 2021 hefur að geyma nokkrar magnaðar greinar sem greina og gagnrýna meðferð og notkun upplýsinga í samtímanum. Ég snéri fyrstu greininni á íslensku þar sem hún er afar kjarnyrt og skýr og bregður óvæntu ljósi á samtímann, um leið og hún varpar vissu ljósi á hugmyndaheim þessa þýska Kóreumanns sem kemur með óvæntan tón inn í evrópska heimspekiumræðu.
Byung-Chul Han:

Alræði upplýsinganna

 

Við köllum það valdstjórn upplýsinganna þar sem upplýsingarnar og dreifing þeirra eru afgerandi þáttur í félagslegri, efnahagslegri og pólitískri stjórnsýslu í gegnum reiknilíkön og Gervigreind. Öfugt við agasamfélagið þá er ekki um að ræða arðrán á líkömum og orku, heldur upplýsingum og skráðum gögnum. Það sem er afgerandi fyrir valdið er ekki eignarhald á framleiðslutækjunum, heldur aðgangur að upplýsingum er nýtast til sálfræðilegs-pólitísks eftirlits, til forsagna og eftirlits með hegðunarmynstri. Upplýsingavaldstjórnin helst í hendur við upplýsinga-kapítalismann sem þróast yfir í eftirlitskapítalismann og gjaldfellir mannfólkið niður í dýr til skrásetningar og neyslu.

Agasamfélag iðnaðarkapítalismans

Valdstjórn agasamfélagsins felur í sér valdakerfi iðnaðarkapítalismans, og hefur sjálf innbyggða vélvæðingu. Sérhver einstaklingur er eins og tannhjól í valdamaskínu agavaldsins. Það grefur sig inn í taugar og vöðvavefi er mynda vel smurða vél samsetta úr „ómótuðu deigi, úr vanhæfum líkama“[i]. Það er „auðsveipur og meðfærilegur líkami sem má ummynda og fullmóta“[ii]. Þessir líkamar, sem eru meðfærilegir rétt eins og framleiðsluvélarnar, eru ekki uppspretta skráningargagna og upplýsinga, heldur uppspretta orku. Undir valdstjórn agasamfélagsins er mannfólkið tamið til að verða að vinnudýrum.

Upplýsingakapítalisminn, sem byggir á tengslum og fjölmiðlun, gerir tækni agavaldsins úrelta, rétt eins og einangrunarsvæðin, hinn stranga aga vinnunnar og líkamsþjálfunina. Auðsveipnin (docilité) sem felur líka í sér eftirgjöf og þjónslund, getur ekki talist kjörsvið upplýsingasamfélagsins. Þegninn sem lýtur valdstjórn upplýsinganna er hvorki meðfærilegur né hlýðinn. Þvert á móti telur hann sig vera frjálsan, heilsteyptan og skapandi: hann framleiðir og raungerir sjálfan sig.

Panopticon

 Koepelgevangenis eða Hvelfingarfangelsið í Arnheim, teiknað af  J.F. Metzelaar, 1882–1886. Hugmyndin endurspeglar "Panopticon" fangabúðir Foucaults í bók hans Eftirlit og Refsing.

Sú agavaldsstjórn sem Foucault hefur lýst, nýtir sér einangrunina sem stjórntæki. „Einsemdin er fyrsta forsenda algjörrar undirgefni“[iii]. Alsæiseftirlitið (Panopticon)[iv] með sínum einangruðu raðklefum er táknmynd og fyrirmynd agavaldsins. Einangrunin hæfir hins vegar ekki valdstjórn upplýsingasamfélagsins, sem byggir einmitt á samskiptum. Í þessu samfélagi fer eftirlitið fram í gegnum gagnasöfnin. Fangarnir sem búa undir eftirliti Panopticon búa í innbyrðis einangrun, þeir framleiða engin gögn, skilja ekki eftir sig stafrænar upplýsingar og eru því sambandslausir.

Fórnarlamb og skotmark hins agabundna lífvalds er líkaminn: „Í hinu kapítalíska samfélagi er það lífpólitíkin sem skiptir mestu máli, hið líffræðilega og það sem snertir líkamann.“[v] Undir valdstjórn lífvaldsins er líkaminn undirseldur framleiðsluvélinni og því eftirliti sem hámarkar afköst hennar í gegnum hið líkamlega agavald. Þveröfugu máli gegnir um valdstjórn upplýsingasamfélagsins, nokkuð sem Foucault hafði af eðlilegum ástæðum ekki séð fyrir – þar er ekki um neina stjórnskipan lífvaldsins að ræða. Valdstjórn upplýsingasamfélagsins gerir sér ekki annt um líkamann, heldur situr hún um mannssálina í gegnum hið sálræna yfirvald. Nú á tímum er líkaminn fyrst og fremst viðfang fegrunarfræða og „fitness“. Að minnsta kosti á það við um hinn vestræna kapítalisma upplýsinganna. Hann hefur að stærstum hluta losað líkamann úr viðjum agavaldsins sem þjálfaði hann til að verða að vinnuvél. Hann er þannig orðinn fangi fegrunariðnaðarins.

Sérhverju valdakerfi fylgir tiltekin stjórnlist sýnileikans. Í konungsríkinu var mikilvægast að sviðsetja valdstjórnina með áberandi hætti: leiksýningin (lo spettacolo) er miðill þess. Yfirvaldið sýnir sig í tilkomumikilli leiksýningu. Dýrðarljóminn verður réttlæting þess. Skrautsýningar og valdatákn festa valdið í sessi. Viðhafnartilburðir og sviðsmunir ofbeldisins er hrífa mannfjöldann, stórhátíðir og myrkir refsi- og aftökusiðir tilheyra valdinu í formi leiksýninga. Líkamlegar kvalir eru sviðsettar til áhorfs og til að hrífa fjöldann. Böðullinn og hinir dæmdu koma fram sem leikendur. Svið hins opinbera er leiksvið. Konungsvaldið virkar í gegnum leikræna framsetningu: það er vald sem sýnir sig, auglýsir sig, stærir sig af eigin ljóma. Undirsátarnir sem það sviðsetur sig fyrir, eru hins vegar ósýnilegir.

Aftakan sem sviðsetning konunglegs valds: aftaka John Turrell í Hertford, Englandi 1824

Ólíkt hinu konunglega valdi er ríkti fyrir tíma módernismans, þá felur agavald nútímans ekki í sér samfélag sjónarspilsins, heldur samfélag eftirlitsins. Hin tilkomumiklu hátíðahöld konungsvaldsins og allar skrautsýningar þess víkja nú fyrir hverstagslegu skrifræði eftirlitssamfélagsins. Mannfólkið er hvorki til staðar „á áhorfendapöllunum né á sjálfu leiksviðinu“ heldur „í hinni alsjáandi (panoptica) eftirlitsvél.“[vi]

Undir agavaldinu verða algjör endaskipti á sýnileikanum. Þar eru það ekki valdhafarnir sem láta ljós sitt skína, heldur hinir undirokuðu. Agavaldið gerir sig ósýnilegt um leið og það þvingar þegnana undir samfellt ljós eftirlitsvélanna. Þegnarnir eru undir eftirlitsljósi ljóskastaranna til að tryggja stöðu yfirvaldsins. Vitundin um að búa „samfleytt undir eftirlitsljósinu“ viðheldur agavaldi þegnskyldunnar.[vii]

Skilvirkni hins panoptíska agavalds byggist á því að  undirsátar þess finni stöðugt til eftirlitsvélarinnar. Þeir innbyrða eftirlitið. Það skiptir mestu máli fyrir agavaldið að „innræta […] viðvarandi meðvitund um sýnileikann“[viii]. Í eftirlitssamfélagi George Orwells framkallar „Stóri bróðir“ (The Big Brother) samfelldan sýnileika. Big Brother is watching you. Undir valdstjórn agavaldsins er umfang rýmisins, í mynd einangrunarsvæða og fangabúða, trygging fyrir sýnileika þegnanna, sem þannig hafa fengið úthlutað afmörkuðu rými sem þeir hafa enga heimild til að yfirgefa. Hreyfigeta þeirra er vandlega takmörkuð þannig að þeir geti ekki smogið undan eftirlitsljósi Panopticon.

Í upplýsingasamfélaginu eru hin eiginlegu einangrunarrými agavaldsins leyst upp í opin net. Í upplýsingasamfélaginu mynda eftirtalin atriði hina staðfræðilegu reglu: Stífluverkin víkja fyrir flæðinu. Í stað læsinganna sjáum við opnanirnar. Einangrunarklefarnir víkja fyrir samskiptanetunum. Sýnileikinn fær nú á sig þveröfuga mynd, ekki lengur í gegnum einangrunina, heldur í gegnum samtenginguna. Hin stafræna upplýsingatækni umbreytir samskiptunum í eftirlit: því fleiri sem netskilaboð okkar eru, því ákafari sem netsamskipti okkar verða, þeim mun árangursríkari verður eftirlitsvélin. Farsíminn nýtir sér frelsið og samskiptin sem eftirlits- og valdatæki. Í upplýsingasamfélaginu finnur fólk ekki fyrir eftirliti, heldur fyrir frelsistilfinningu. Þversögnin er sú að það er einmitt frelsistilfinningin sem tryggir yfirráðin. Að þessu leyti finnum við reginmun á agavaldinu og upplýsingavaldinu. Yfirdrottnunin fullkomnast á þeirri stundu þegar frelsið og eftirlitið falla í sama farveg.

Valdstjórn upplýsinganna blómstrar í fjarveru agavaldsins. Einstaklingarnir eru ekki lengur þvingaðir undir neitt „panoptískt“ eftirlitsljós. Þvert á móti beina þeir athyglinni að sjálfum sér af innri þörf, án nokkurrar ytri þvingunar. Þeir fram-leiða sjálfa sig, það er að segja setja sjálfa sig í sviðsljósið. Franska orðatiltækið se produire merkir að „sýna sig“. Undir valdstjórn upplýsinganna eiga þegnarnir sjálfir frumkvæði að því að skapa sér þann sýnileika sem agavaldið hafði áður þvingað þá í. Þeir setja sig í sviðsljósið af frjálsum vilja, eða öllu heldur þá sækjast þeir eftir því, á meðan undirsátar eftirlitsljósa Panopticon reyna að forðast það.

Gagnsæið

Eignarhald valdstjórnar upplýsingasamfélagsins á sýnileikanum gengur undir nafninu gagnsæi. Þegar gagnsæið er einskorðað við opinbera stjórnsýslu upplýsingasamfélagsins, undir yfirstjórn tiltekinna stofnana eða einstaklinga, eru höfð endaskipti á hlutunum: Gagnsæið verður kerfisbundin þvingun upplýsingasamfélagsins. Boðorðið verður: allt á tilvist sína undir upplýsingunni. Gagnsæi og upplýsingar verða eitt og hið sama. Upplýsingasamfélagið er samfélag gagnsæisins. Tilskipun gagnsæisins verður sú, að upplýsingarnar fái frjálst flæði. Hið sanna frelsi tilheyrir ekki þegnunum, heldur upplýsingunum. Þversögn upplýsingasamfélagsins staðhæfir að mannfólkið sé fangar upplýsinganna. Þeir smíða sér sjálfir eigin hlekki að því marki sem þeir miðla og framleiða upplýsingar. Hið stafræðna fangelsi er gagnsætt.

Hof gagnsæis og myrkurs

Helsta viðskiptamiðstöð (flagship store) Apple í New York er teningur úr gleri, hof gagnsæisins. Út frá pólitískum sjónarhóli gagnsæisins myndar hann andstæðu Ka‘ba (Svarta teningsins) í Mekka. Ka‘ba merkir bókstaflega „teningur“ (cubo): þykkt svart yfirborð hans sviptir hann öllu gagnsæi. Aðeins hofprestarnir hafa aðgang að innra rými hans. Hið ævaforna (arcano / arcanus á latínu, samstofna forskeytinu „erki-“ á ísl. = það sem tilheyrir hinum myrka uppruna hlutanna, forneskjan, „örkin“.), sem er svipt öllum sýnileika, er um leið grundvöllur sérhverrar trúarlegrar-pólitískrar yfirdrottnunar. Innrýmið (la cella) í gríska hofinu er hulið sjónum allra, og kallast adyton á grísku, sem þýðir bókstaflega „þar sem inngangur er bannaður“. Einungis hofprestarnir hafa aðgang að þessu helga rými. Yfirdrottnunin hvílir hér á hinni ævafornu forneskju (arcano). Hin gagnsæja verslunarmiðstöð Apple er hins vegar opin öllum dag og nótt. Undir teningnum er verslunarkjallarinn. Hver sem er hefur aðgang byggingunni sem viðskiptavinur. Svarti Ka‘ba teningurinn í Mekka og glerteningur Apple-verslunarinnar eru tvö ólík form yfirvaldsins: forneskjan og gagnsæið.

Ka'ab teningurinn í Mekka. Helgasta trúarhof múslima

Apple-verslunin í New York: glerteningurinn

Glerteningur Apple vísar til hömlulauss frelsis og samskipta, en í raun og veru er hann mynd hinnar  vægðarlausu yfirdrottnunar upplýsinganna. Valdstjórn upplýsinganna gerir mannfólkið fullkomlega gagnsætt. Sjálft yfirvaldið er hins vegar aldrei gagnsætt: gagnsætt yfirvald er hvergi til staðar. Gagnsæið er forhliðin á starfsemi sem er handan alls sýnileika. Sjálft gagnsæið er ekki gagnsætt: það á sína bakhlið. Skurðstofa gagnsæisins er myrkraklefi. Við felum okkur honum á vald, þessum myrkraklefa reiknilíkananna.

Snjallsíminn, snjallheimilið og snjallvaldið

Valdsvið upplýsinganna er í felum um leið og það er alvirkt í allri hversdagsreynslu okkar. Það felur sig á bak við greiðvikni samfélagsmiðlanna, á bak við þægindi leitarvélanna, á bak við kliðmjúkar aðstoðarraddir upplýsingaveitnanna og allan þann hægðarauka sem hin snjöllu forrita-öpp bjóða upp á. Snjallsíminn sýnir sig að vera hraðvirk upplýsingaveita sem setur okkur undir stöðugt og samfellt eftirlit. Snjall-heimilið (smart-home) umbreytir gjörvallri íbúðinni í stafrænt fangelsi, sem hefur nákvæmt eftirlit með öllum daglegum gerðum okkar. Snjall-ryksugan, sem losar okkur undan erfiði gólfþrifanna, kortleggur gjörvalla íbúðina. Snjall-rúmið með sínum nettengingum framlengir eftirlitið inn í svefninn. Eftirlitið smeygir sér inn í hversdagstilveru okkar undir merki vellíðunar. Engin andstaða gegn ríkjandi yfirvaldi gerir vart við sig í hinu stafræna fangelsi hins snjalla hægindarýmis. „Lækið“ útilokar sérhverja byltingu.

Smart-Home, auglýsing fyrir snjall-heimilið

Kapítalismi upplýsinganna hagnýtir sér hina nýfrjálsu tækni valdsins. Gjörólíkt eiginlegri valdatækni agasamfélagsins þá beitir hann hvorki skyldum né bönnum, heldur ber fyrir sig jákvæða hvata. Hann nýtir sér frelsið í stað þess að bæla það. Hann leiðir ómeðvitaðan vilja okkar í stað þess að brjóta hann niður með ofbeldi. Hið kæfandi agavald víkur fyrir snjall-valdinu, sem beitir ekki tilskipunum heldur pískri, ekki fyrirskipunum heldur ábendingum, með duldum boðmerkjum hvetur það okkur að fylgja hegðunareftirlitinu. Eftirlit og refsing  voru aðalsmerki agasamfélagsins samkvæmt Foucault, en þau víkja nú fyrir hvatningum  og betrun. Valdstjórn upplýsingasamfélags nýfrjálshyggjunnar kynnir sig til leiks undir merkjum frelsis, samskipta og samfélags.

Áhrifavaldarnir og fylgjendurnir

Áhrifavaldarnir sem starfa á You Tube og Instagram hafa einnig innbyrt valdatækni nýfrjálshyggjunnar. Hvort sem um er að ræða ferðalög, fegrunarmeðul eða líkamsrækt, þá starfa áhrifavaldarnir markvisst undir merkjum frelsisins, nýsköpunarinnar og hinnar heilsteyptu sjálfsmyndar. Auglýsingatækni þeirra miðar að lævísu framboði varnings, þar sem þeir sviðsetja sjálfa sig án þess að ganga fram með oflæti sölumannsins. Þannig skapa þeir eigin eftirspurn og leitarmarkmið á meðan hefðbundnar auglýsingar eru fjarlægðar með adblocker. Áhrifavaldarnir njóta vinsælda sem eftirsóknarverðar fyrirmyndir. Þannig fær allt á sig trúarlegt yfirbragð. Í gervi hugsjónaleiðtoga ganga þeir inn í hlutverk hins frelsandi afls. Fylgjendurnir (followers) taka þátt í lífi þeirra eins og lærisveinar með því að kaupa varninginn sem áhrifavaldarnir hampa í sviðsetningu síns daglega lífs. Þannig öðlast fylgjendurnir hlutdeild í hinni stafrænu altarisgöngu. Samfélagsmiðlarnir taka þannig á sig mynd safnaðarstarfs kirkjunnar: „Lækið“ er þeirra Amen. „Sharing“ samsvarar altarisgöngunni og neyslan verður sáluhjálpin. Sú endurtekning sem fólgin er í leikrænni framsetningu áhrifavaldanna framkallar hvorki leiða né tilbreytingarleysi, öllu heldur felur hún í sér trúföst einkenni helgisiðarins. Um leið kynna áhrifavaldarnir neysluvarning sinn sem meðul til að raungera sjálfan sig. Þannig verðum við neytendur til dauðs. Neysla og sjálfsímynd verða eitt og hið sama: sjálfsímyndin verður sjálf að söluvöru.

Snertiskjárinn og frelsið í fingurgómunum

Við teljum okkur vera frjáls jafnvel þótt líf okkar sé undirsett algjörri skrásetningu er miði að fullkomnu sálrænu eftirliti með hegðun okkar. Virkni valds nýfrjálshyggjunnar undir valdstjórn upplýsinganna ræðst ekki af vitundinni um samfellt eftirlit, heldur af hinu skynjaða frelsi. Ólíkt hinum ósnertanlega sjónvarpsskjá Big Brother-sjónvarpsþáttanna, þá er það hinn snjalli snertiskjár sem færir okkur alla hluti innan seilingar og neyslufæris. Þannig færir snertiskjárinn okkur „frelsið í fingurgómana“[ix]. Að vera frjáls undir valdstjórn upplýsinganna merkir ekki að bregðast við, heldur að klikka, sýna „Like“ og ýta á „senda- takkann“. Þannig sleppum við undan allri mótstöðu, og engin bylting verður yfirvofandi. Fingurgómarnir eru ekki færir um raunverulega handvirkni (Handlung). Þeir eru einungis líffæri hinnar valkvæmu neysluhyggju. Neysla og bylting fela í sér gagnkvæma útilokun og eiga því ekki samleið.

Eitt af einkennum hins klassíska alræðis sem pólitísk og veraldleg trúarbrögð er hugmyndafræðin, sem heldur fram „meintri algildri útskýringu“. Sem heildarfrásögn býður hugmyndafræðin upp á „að bregða ljósi á alla sögulega atburði, ráða yfir algildri skýringu á fortíðinni, fullgildu mati á samtímanum og áreiðanlegri forspá um framtíðina“[x]. Sem algild útskýring útilokar hugmyndafræðin sérhver skilyrt eða tilfallandi frávik, sérhverja óvissu.

Frásagnarvaldið og reiknivaldið

Með aðferðarfræði heimildafræðanna (Dataismus) að vopni sýnir valdstjórn upplýsinganna einkenni alræðisins. Hún boðar altæka þekkingu. Þessi algilda þekking, sem byggir á heimildum, er þó ekki sett fram sem hugmyndafræðileg frásögn, heldur með framkvæmd tölfræðilegs (algoritmísks) verknaðs reiknilíkananna. Heimildafræðin (Dataismus) vilja reikna út allt sem er, og allt sem koma skal. Frásögnin víkur nú fyrir virkjun reiknilíkananna. Valdstjórn upplýsinganna leysir frásagnarháttinn endanlega af hólmi í formi tölfræðinnar. Hversu snjöll sem reiknilíkönin kunna að vera, þá ná þau aldrei að útiloka reynslu hinna skilyrtu og tilfallandi frávika fyrir fullt og allt, í líkingu við hinar hugmyndafræðilegu frásagnir.

Alræðisríkið segir skilið við veruleikann eins og hann birtist okkur í gegnum skynfærin fimm. Það býr til annan og sannari veruleika er býr handan þess sem við blasir og höfðar þannig til sjötta skilningarvitsins. Heimildafræðin hafa hins vegar enga þörf fyrir sjötta skilningarvitið. Þau yfirfæra ekki áþreifanlega íveru hins gefna, það er að segja heimildanna. Latneska orðið datum, sem er dregið af sögninni dare (= að gefa) merkir bókstaflega „það sem er gefið“. Heimildafræðin (Dataismus) ímyndar sér engan annan veruleika handan þess sem er gefið, handan heimildanna, því hann felst í alræðishyggju án hugmyndafræði.

Alræðishyggjan vinnur úr meðfærilegum efniviði sem gefur sig á vald foringja. Hugmyndafræðin kveikir í sálum fjöldans, gefur honum sál.  Þannig talar Gustave Le Bon um sál fjöldans í bók sinni um fjöldasálfræðina. Sál sem sameinar fjöldann í virkni hans. Valdstjórn upplýsinganna vinnur hins vegar að einangrun  einstaklinganna.  Jafnvel þegar þeir koma saman mynda þeir ekki heilsteyptan fjölda, heldur stafrænan sveim sem fylgir engum foringja, heldur sínum áhrifavaldi.

Múgmennið og handhafar „prófílsins“

Hinir rafrænu fjölmiðlar eru múgmiðlar þar sem þeir framkalla múgmanninn. „Múgmaðurinn er rafrænn íbúi jarðarkringlunnar, en um leið samtengdur öllum öðrum mönnum og konum, rétt eins og hann væri áhorfandi á hnattrænum íþróttaleikvangi. Múgmennið á sér enga sjálfsmynd, hann er „enginn“. Hinir stafrænu netmiðlar binda enda á tímaskeið múgmennisins. Íbúi hinnar stafrænu jarðarkringlu er ekki „enginn“: hann er öllu heldur einhver með prófíl – á meðan það hlutskipti að „hafa prófíl“ tilheyrði einungis refsiföngunum á tímaskeiði múgmennisins. Valdstjórn upplýsinganna er umhugað um einstaklingana, einmitt vegna þess að hún gerir úr þeim „prófíl“ hegðunarmynstursins.

Sjónræn og stafræn dulvitund

Samkvæmt Walter Benjamin veitir kvikmyndatökuvélin aðgang að vissum hluta dulvitundarinnar sem hann kallar „hin sjónræna dulvitund“. Nærmyndirnar eða hægagangurinn leiddu í ljós örsmáar hreyfingar og örviðbrögð, sem hið beina sjónskyn meðtekur ekki, og opna þannig fyrir dulvitað rými. „Það er einungis fyrir tilverknað kvikmyndatökuvélarinnar sem við upplifum hið dulvitaða sjónskyn, rétt eins og við öðlumst þekkingu á dulvitund hvatalífsins í gegnum sálgreininguna“.[xi] Hægt er að heimfæra hugleiðingar Benjamins um hina sjónrænu dulvitund upp á valdstjórn upplýsinganna. Gagnabankar (Big Data) Gervigreindarinnar fela í sér stafrænt sjóngler sem opnar handhafa þess aðgang að þeirri földu dulvitund er liggur á bak við meðvitaðan athafnavettvang okkar. Rétt eins og við tölum um sjónræna dulvitund þá getum við kallað þetta svið hina stafrænu dulvitund. Gagnabankarnir (Big Data) og Gervigreind (AI) gera valdstjórn upplýsingasamfélagsins kleift að skilyrða þá hegðun okkar sem rekja má til hins ómeðvitaða. Valdstjórn upplýsinganna nýtir sér þau forskilvitlegu svið hvatalífsins og tilfinninganna er virka á undan hinni meðvituðu hegðun. Sú sálræna stjórnlist er byggir á gagnasöfnunum smeygir sér inn í hegðunarmynstur okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir þessari íhlutun.

Fullveldi gagnabankanna

Sérhver afgerandi umbreyting á miðlun verður lífgjafi nýs valdakerfis. Miðlunin er yfirdrottnun. Þegar Carl Schmitt stóð andspænis hinni rafrænu byltingu sá hann sig tilneyddan að endurskilgreina hið fræga lögmál sitt um fullveldið. „Eftir fyrri heimsstyrjöldina sagði ég: „sá er fullvalda sem innleiðir undantekningarástandið.“ Eftir seinni heimsstyrjöldina segi ég, nú þegar ég stend frammi fyrir dauða mínum: „fullvalda er sá sem ræður yfir öldum ljósvakans“.[xii] Stafrænu miðlarnir gera yfirdrottnun upplýsinganna mögulega. Bylgjur ljósvakans og hinir rafrænu miðlar múgmenningarinnar glata mikilvægi sínu. Á okkar tímum er eignarhald upplýsinganna frumforsenda allra yfirráða. Valdið verður ekki lengur tryggt með massaáróðri risafjölmiðlanna, heldur með upplýsingastjórnun. Andspænis stafrænu byltingunni hefði Schmitt þurft að endurskoða lögmál sitt um fullveldið enn einu sinni: fullvalda er sá sem ræður yfir upplýsingaveitum netsins.

 

(Millifyrirsagnir eru þýðandans)

………………………………………………………………………………………………

[i] M.Foucault, Sorvegliare e punire. Nascita della prigione, Einaudi ed. Torino 2014, bls 147

[ii] Sama rit, bls. 148

[iii] Sama rit, bls 248

[iv] Panopticon er hugtak sem Foucault tók að láni frá J. Bentham (1791) um hringlaga fangelsi umgirt „alsjáandi“ eftirlitsklefum og notaði um „agasamfélagið“.

[v] M.Foucault: La nascita della medicina sociale, birt í Il filosofo militante, Archivo Foucault 2. Interventi, colloqui, interviste. 1971-1977, Feltrinelli, Milano 2017, bls. 222.

[vi] M.Foucault: Sorvegliare e punire, bls 236.

[vii] Sama rit, bls. 205.

[viii] Sama rit, bls. 219.

 

[ix] V.Flusser: Dinge und Undinge. Phänomenologische Skizzen, Carl Hans Verlag, München 1993, bls. 964.

[x] H.Arendt: Le origini del totalitarismo, Bompiani, Milano 1978, bls. 642.

[xi] W.Benjamin: Listaverkið á tímaskeiði endurgerðar þess. L‘opera dell‘arte nell‘epoca della sua reproducibilità tecnica, Einaudi, Torino 2000, bls. 42

[xii] C.Linder: Der Banhof von Finnentrop. Eine Reis eins Carl Schmitt Land, Matthes & Seitz, Berlín 2008, bls. 422 (neðanmáls).

 

 

%d bloggers like this: