HIÐ BLINDA AUGA TURNERS OG RUSKINS SAMKVÆMT ERNST GOMBRICH

Í tilefni athyglisverðra athugasemda heimspekingsins Kant um áhrif hugtakanna og tungumálsins á sjónskyn okkar, sem ég birti hér á vefnum í gær,  datt mér í hug að birta hér snjalla umræðu Ernst Gombrich um þetta sama efni út frá öðru sjónarhorni. Hann er að fjalla um breska málarann Turner og hinn hugmyndafræðilega stuðningsmann hans, listfræðinginn John Ruskin. Turner (1775-1851) var í raun samtímamaður Bertels Thorvaldsen, svo ólíkir listamenn sem þeir voru, en Ruskin nokkuð yngri (1819-1900). Eins og sjá má af þessu voru bæði Turner og Ruskin í uppreisn gegn forræði hinnar heiðríku rökhyggju Upplýsingarinnar sem Kant stóð fyrir: í stað hugtakanna vildu þeir framkalla myndina sem heimurinn málaði á nethimnu augna okkar milliliðalaust. Gombrich leiðir okkur snilldarlega í gegnum þessa deilu í IX. kaflanum í Art and Illusion, bls. 296-299.
Ernst Gombrich:

Saklausa augað[1]

Málarinn Joseph M.W. Turner og listfræðingurinn John Ruskin settir undir smásjá Ernst Gombrich vegna deilna um hugtökin og sjónskynið

 

… Það var reyndar á þessum forsendum [forsendum breska málarans Turners að hann hefði  hefði falið allt það það sem hann vissi, til  að geta einbeitt sér að því sem hann sá, sbr. undangenginn kafla í „Art and Illusion“-innsk. olg.][2] sem John Ruskin[3], hinn dyggi og baráttuglaði vinur málarans Turners skilgreindi málverkið, og það var þessi kenning sem olli því að Roger Fry[4] lofsöng impressíónismann sem hina endanlegu uppgötvun birtingarinnar (appearances) . Fyrir Ruskin og Roger Fry var þekking okkar á hinum sýnilega heimi undirrót allra vandamála í listinni. Ef við aðeins gætum náð að gleyma því öllu, þá yrði vandi málaralistarinnnar auðleystur, það er að segja sá vandi að koma þrívíðum heimi fyrir á flötu lérefti. Ruskin hélt því fram að í raun og veru sæjum við ekki þriðju víddina, það sem við sjáum er einungis óljós blanda af litaflekkjum, rétt eins og á málverki Turners.

Kenning Ruskins, sem hann setti fram 1856, kom á undan kennisetningum impressíónistanna:

“Skynjun fastra forma byggir einvörðungu á reynslu. Við sjáum ekkert nema flata liti. Það er einungis á grundvelli endurtekinna tilrauna sem við komumst að því að svartur eða grár blettur gefur til kynna skuggahliðina á föstu formi, og að daufur bjarmi gefur til kynna að það sem í honum birtist sé langt í burtu. Allur tæknilegur slagkraftur málverksins byggist á endurheimt þess sem við gætum kallað sakleysi augans.; það er að segja eins konar barnslega skynjun þessara flötu litaflekkja rétt eins og þeir eru, án vitundar um það sem þeir merkja, – eins og blindur maður myndi sjá þá ef hann fengi sjónina skyndilega.

            “Tökum dæmi: þegar grasið fær sterkan ljóma af sólarljósinu úr ákveðinni átt, þá breytist það frá grænu yfir í undarlegan og allt að því rykgulan lit. Ef við hefðum fæðst blind, en myndum skyndilega öðlast sjónina frammi fyrir grasi sem væri á köflum baðað í slíkri birtu, þá myndi okkur finnast hluti grassins vera grænn, hluti þess rykgulur (næstum eins og maríulykill eða prímúla); og ef maríulyklar yxu í grenndinni, þá myndum við halda að þetta uppljómaða gras væri annar flekkur af sömu jurtum með þessum brennisteinsgula lit. Við myndum reyna að tína nokkur þeirra, og þá myndum við sjá að liturinn hyrfi af grasinu þegar við skyggðum á það, en hins vegar ekki af maríulyklunum. Með nokkrum tilraunum myndum við þannig komast að því að það var í rauninni sólin sem olli litnum á grasinu í öðru tilfellinu, en ekki í hinu. Við göngum í gegnum slík tilraunaferli í bernsku, og þegar við höfum komist að niðurstöðu varðandi merkingu vissra lita, þá göngum við upp frá því út frá að við sjáum það sem við þó einungis vitum, og við erum okkur varla meðvituð um raunverulegt yfirbragð þeirra merkja, sem við höfum lært að túlka. Afar fáir eru sér meðvitaðir um að sólbaðað gras sé gult….”

J.T.W. Turner: Innisýn frá Petworth, 1835.

Wikipedia gefur eftirfarandi hugtakslega lýsingu á þessum stað: Petworth is a small town and civil parish in the Chichester District of West Sussex, England. It is located at the junction of the A272 east-west road from Heathfield to Winchester and the A283 Milford to Shoreham-by-Sea road. Some twelve miles to the south west of Petworth along the A285 road lies Chichester and the south-coast. The parish includes the settlements of Byworth and Hampers Green and covers an area of 2,690 hectares. In 2001 the population of the parish was 2,775 persons living in 1,200 households of whom 1,326 were economically active. At the 2011 Census the population was 3,027.

Við munum að þessar hugmyndir um skynjunina, sem Ruskin byggði á af fullri sannfæringu og með miklum listrænum árangri, höfðu verið settar fram hundrað árum áður af Berkeley biskupi[5] í verki hans The New Theory of Vision, þar sem löng hefð öðlaðist fasta mynd: heimurinn eins og við sjáum hann er tilbúningur, sem við byggjum innra með okkur hvert og eitt, hægt og sígandi í gegnum tilraunir. Augu okkar verða aðeins fyrir eftirlíkingum er birtast á nethimnunni í svokölluðum “litaskyni” Það er hugsun okkar sem umbreytir þessu skyni í skynjanir, hina einstöku hluta hinnar meðvituðu heimsmyndar sem við höfum öðlast í gegnum tilraunir og þekkingu.

Þessi kenning, sem var tekin góð og gild af nær öllum sálfræðingum 19. aldar og á enn í dag sitt pláss í handbókum um sjónskynið, var hinn óumdeilanlegi grunnur og forsenda Ruskins. Málaralist fjallar einungis um liti og ljós, eins og þau birtast á ljóshimnu okkar. Vilji málarinn mála viðfang sitt trúverðuglega  verður hann því að hreinsa huga sinn af öllu því sem hann veit um hlutinn, þurrka af töflunni og láta náttúruna mála sína eigin mynd – eins og Cezanne sagði um Monet: Monet n’est qu’un œil – mais quel œil!”

 Claude Monet málar sjónskynið: St. Giorgio eyjan í Feneyjum 1908

            En jafnvel þótt við getum fallist á margt í hugsun Berkeleys, þá hljótum við að efast þeim mun meir um þá hugsun að mannshuganum sé það mögulegt að öðlast slíkt hlutleysi og slíka óvirkni gagnvart sjónskyninu.

Alltaf þegar við tökum á móti sjónrænu áreiti, þá festum við á það merkimiða, setjum það í sérstaka skrá, flokkum það með einum eða öðrum hætti, jafnvel þótt áreitið komi ekki af merkilegri hlut en blekklessu eða fingrafari. Roger Fry og impressionistarnir töluðu um erfiðleikana við að komast að því hvernig hlutirnir birtust hinu óspillta auga vegna þess sem þeir kölluðu “hugtakavenjur”, er virtust lífsnauðsynlegar. En ef þessar venjur eru lífsnauðsynlegar, þá er krafan um hið óspillta auga krafan um hið ómögulega. Það er verkefni hinnar lifandi lífveru að skipulggja, því þar sem er líf, þar er ekki bara von, eins og máltækið segir, þar eru líka ótti og kvíði, ágiskanir og væntingar sem greina og flokka aðvífandi skilaboð, prufa þau, umbreyta þeim og prófa þau á ný.

Hið saklausa auga er goðsögn. Þessi blindi maður hjá Ruskin, sem skyndilega öðlast sjónina, sér ekki heiminn eins og hann væri málverk eftir Turner eða Monet – jafnvel Berkeley vissi að þessi blindi maður myndi einungis upplifa sáran glundroða, sem hann þarf síðan að læra að flokka sundur og greina í gegnum stranga skólun. Satt að segja gerist það með suma af þessum, að þeir læra það aldrei og gefast upp. Því það að sjá er aldrei einungis móttaka. Það felur í sér viðbrögð alls líkamans við því ljósamynstri sem örvar innra borðið í auga okkar. Reyndar hefur ljóshimnunni nýlega verið lýst af J.J. Gibson sem líffæri er bregðist ekki við einstökum ljósáreitum, eins og Berkeley hafði haldið fram, heldur við afstæðum þeirra og stigveldi (gradients).

Við höfum komist að því að jafnvel kjúklingar, sem eru nýskriðnir úr egginu, flokka það sem þeir skynja eftir afstæðum. Eins sennileg og öll aðgreiningin á milli skyns og skynjunar virtist vera, þá urðum við að gefa hana upp á bátinn eftir að hafa gert tilraunir með menn og skepnur.  Enginn hefur séð sjónrænt skyn ennþá, jafnvel ekki impressionistarnir, hversu klókindalega sem þeir nálguðust bráð sína.

Það er eins og við höfum hafnað í blindgötu. Annars vegar virðast skilgreiningar Ruskins og Freys á málaralistinni koma heim og saman við staðreyndirnar. Myndgerving virðist í raun og veru verða til við bælingu á hugtakalegri þekkingu. Hins vegar virðist slík bæling vera ómöguleg.

Þetta er blindgata sem hefur leitt til talsverðs ruglings í skrifum um list. Auðveldasta leiðin út úr blindgötunni er að afneita hefðbundnum lestri sögulegra staðreynda með öllu. Ef ekki er til neitt óspjallað auga, þá hljóta frásagnir Rogers Fry af uppgötvunum á því hvernig hlutirnir koma slíku óspjölluðu auga fyrir sjónir að vera marklausar. Andófið gegn imprssionismanum, sem kom upp á 20. öldinni, gerði slíka útgönguleið fýsilega.  Hér var komin enn ein svipan til að beita á þá hræsnara sem vildu að málverkið líktist náttúrunni. Krafan var fáráðleg. Ef allt sjónskyn byggist á túlkun, þá mátti halda því fram að allir túlkunarmátar væru jafngildir.

Ég hef sjálfur á síðum þessarar bókar oft lagt áherslu á hinn hefðbundna þátt í margvíslegum aðferðum  myndgervingarinnar. Það er einmitt þess vegna sem ég get ekki gengist inn á  þessa auðveldu leið út úr blindgötunni. Því auðvitað er hún líka markleysa.

John Constable: Wivenhoe Park 1816

Það má vera ljóst, eins og ég reyndi að sýna fram á í fyrsta kafla bókarinnar, að málverk Constables af Wivenhoe-garðinum er ekki einföld umritun á náttúrunni, heldur umbreyting á ljósi yfir í málverk. Þó er það engu að síður staðreynd að myndin stendur fyrirmyndinni nær en barnamyndin af því sama. Ég hef líka reynt að skilgreina svolítið betur, hvað geti falist í slíkri niðurstöðu. Mig grunar að það feli í sér að við getum og séum næstum tilneydd að túlka málverk Constables innan ramma mögulegs sýnilegs heims. Ef við viðurkennum það eyrnamark, að myndin sýni Wivenhoe-garðinn, þá getum við jafnframt verið nokkuð örugg með að þessi túlkun segi okkur heilmargar staðreyndir um þetta sveitasetur árið 1816, sem við hefðum getað séð ef við hefðum staðið við hlið Constables. Auðvitað hefði bæði hann og við séð heilmargt annað sem ekki hefði verið hægt að koma í dulmálsletur málverksins, en fyrir þá sem kunna á dulmálslykilinn ætti það að minnsta kosti ekki að veita neinar falskar upplýsingar. Ég veit að þessi túlkun kemur til með að hljóma kaldranaleg og smámunasöm, en hún hefur einn kost. Hún losar okkur við “myndina á sjónhimnu Constables”, og um leið alla hugmyndina um birtingarmyndirnar (appearances), sem hefur skapað svo mikinn rugling í fagurfræðinni.

Wivenhoe-garður Constables séður með saklausu auga barnsins. Mynd úr Art and Illusion eftir Gombrich.

[1] Textabrot úr bókinni Art and Illusion, 1960, bls. 296-299

[2] Að Turner hefði falið það sem hann vissi til þess að geta einbeitt sér að því sem hann sá, sbr. kaflann á undan.

[3]Kunnasti listfræðingur Breta (1819-1900), sérfræðingur í feneyskri gótík og helsti boðberi prerafaelítanna og “impressíónisma” Turners.

[4]Roger E. Fry (1866-1934), breskur málari og gagnrýnandi, er hélt fram kenningu um hið “hreina form”.

[5] George Berkeley (1685-1783), breskur hughyggjuheimspekingur, sem taldi að efnisheiurinn væri í rauninni ekki til nema sem huglæg skynjun.

 

Forsíðumyndin sýnir hvernig Turner „málar sjónskynið“ í þessu málverki sem hann kallar „Morguninn eftir flóðið“ frá 1842

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: