HVAÐ ER SAMTÍMAVITUND? – Giorgio Agamben

Undanfarið hef ég staðið fyrir háskólakennslu í listasögu undir yfirskriftinni "Eros". Það hefur verið fróðleg yfirferð um sögu hugtaksins, um goðsöguna, myndirnar og hugmyndirnar sem tengjast Erosi frá fornklassískum tíma til samtímans.  Einn af áhrifavöldum þessa námskeiðs var ítalski heimspekingurinn Giorgio Agamben. Ég hafði lesið margar bækur eftir hann áður en ég rakst á þessa ritgerð á netinu, sem var skrifuð sem eins konar lokaniðurstaða námskeiðs sem hann hafði sjálfur haldið um sögu hugmyndanna. Ritgerðin heitir á frummálinu "Che cosa é il contemporaneo?" Þetta hugtak, "contemporaneo", komst í tísku í listumræðunni eftir að módernismi og postmodernismi og framúrstefna duttu úr tísku. Ég hef ekki náð að þýða alla ritgerðina, einungis brot úr henni, en þessi brot eru mikilvæg og koma vel til skila meginmálinu sem Agamben vildi segja. Ég stóðst ekki mátið að ráðast í þessa þýðingu nú þegar námskeiði mínu um Eros er að ljúka, því ritgerðin lýsir betur markmiðum mínum og tilætlun með þessu námskeiði en ég hefði getað sagt sjálfur. Þessi texti á erindi við samtímann.
Giorgio Agamben:

Hvað er samtímavitund?

 

I. Skáldið – sá sem er fullur vitundar um samtímann – þarf að beina sjón sinni að tímanum. En hvað sér sá sem sér sinn tíma, hið sinnulausa bros aldarinnar? Ég vildi að svo komnu máli gera tillögu að annarri skilgreiningu á samtímavitundinni: Sá hefur samtímavitund sem heldur einbeittu áhorfi á samtíma sinn, ekki til að sjá ljós hans, heldur myrkrið. Allir tímar eru umluktir myrkri fyrir þá sem skynja samtíma sinn. Samtímavitundin tilheyrir einmitt þeim sem sjá þetta myrkur, þeim sem getur skrifað með því að dýfa penna sínum í myrkur samtímans. En hvað merkir það að „horfa í myrkheimana“, „skynja myrkrið“?

Fyrstu skýringuna getum við fundið í taugaeðlisfræði sjónskynsins. Hvað gerist þegar við erum stödd í myrkvuðu rými eða þegar við lokum augunum? Hvað er slíkt myrkur sem við sjáum þá? Taugasérfræðingarnir segja okkur að við fjarveru ljóssins sé sérstök frumutegund á jaðarsvæðum sjónhimnunnar virkjuð, svokallaðar off-cells, sem framkalla þá sérstöku sýn sem við köllum myrkur. Myrkrið er því ekki hugtak sem merkir skort, ekki einfaldur skortur á ljósi, eitthvað sem við gætum kallað ekki-sjón, heldur er það áhrif frá starfsemi þessara fruma sem kallast off-cells, áhrif sem eru framkölluð af ljóshimnu okkar.

Ef við snúum okkur aftur að tilgátu okkar um myrkur samtímavitundarinnar, þá felst skynjum þessa myrkurs ekki í einskærri óvirkni eða afskiptaleysi, heldur felur hún í sér tiltekna virkni og tiltekinn hæfileika, sem í okkar tilfelli felast í því að aftengja ljósin sem skína úr tímabilinu í því skyni að uppgötva hin myrkvuðu svið þess, það myrkur sem einkennir tímaskeiðið en er hins vegar óaðskiljanlegt frá ljósum þess.

Sá getur einungist talist hafa samtímavitund sem lætur ekki blindast af ljósum tíðarfarsins, en nær að greina hina myrkvuðu hluta þeirra, hið nákomna innra myrkur tímans.

Með þessu höfum við engan veginn gefið fullægjandi svar við spurningu okkar. Hvers vegna ætti að vera áhugavert að ná að skynja hin myrkvuðu svæði tímabilsins? Er myrkrið ekki nafnlaus og ógreinanleg reynsla samkvæmt skilgreiningunni? Eitthvað sem ekki beinist að okkur og ætti því ekki að koma okkur við? Þvert á móti þá hefur sá einn samtímavitund sem skynjar myrkur síns tíma sem eitthvað er kemur honum við, sá sem hættir aldrei að túlka þetta myrkur sem eitthvað er beinist einkum og sér í lagi að honum sjálfum. Sá hefur samtímavitund sem meðtekur ljósgeisla myrkursins úr samtímanum beint í andlitið.

 

II. Þegar við horfum á himinfestinguna að næturlagi þá lýsa stjörnurnar umkringdar þéttu myrkri. Þar sem alheimurinn er gerður af óendanlegum fjölda stjörnuþoka og úr lýsandi geimryki þá er myrkrið sem við sjáum á himninum eitthvað sem vísindamennirnir segja að kalli á skýringu. Og það er einmitt skýring stjarneðlisfræði samtímans á þessu myrkri sem ég vildi nú benda ykkur á. Í alheimi sem er í útþenslu fjarlægjast þær stjörnuþokur sem eru í mestri fjarlægð jörðina með slíkum hraða að ljós þeirra nær ekki til okkar. Það sem við skynjum sem myrkur himinsins er þetta ljós sem ferðast á ljóshraða í áttina til okkar en nær okkur þó aldrei því hraðinn á þessum stjörnuþokum er meiri en hraði ljóssins. Að hafa samtímavitund merkir að skynja þetta ljós í myrkrinu, þetta ljós sem reynir að nálgast okkur en nær aldrei því marki. Þetta er ástæða þess að samtímavitundin er sjaldséður eiginleiki. Þetta er ástæða þess að samtímavitundin er fyrst og fremst merki um hugrekki, einmitt vegna þess að hún felur ekki bara í sér að hafa stöðuga sýn á myrkur tímabilsins, heldur einnig að skynja í þessu myrkri ljós sem beinist að okkur um leið og það fjarlægist okkur í það óendanlega

 

III. Þetta sérstaka samband við hið liðna á sér einnig aðra hlið. Samtímavitundin innritar sig reyndar í samtímann með því að merkja hann fyrst og fremst sem forneskju (arcaico) og einungis sá sem skynjar í hinu allra nýjasta vísa og ummerki hins ævaforna getur talist hafa samtímavitund. Orðið forneskjulegt (arcaico) merkir það sem er nálægt arké, það er að segja nálægt upprunanum. En uppruninn á sér ekki bara stað í tímatali fortíðarinnar. Uppruninn er samtímis sögulegri verðandi og hættir ekki virkni sinni í henni, ekki frekar en fósturvísirinn heldur áfram að virka í hinum þroskaða vef lífverunnar. Sá sem á þá reynslu að baki að hafa í fyrsta skipti séð frá sjó við sólarupprás hvernig skýjakljúfar New York borgar rísa upp yfir sjóndeildarhringinn hefur um leið upplifað þetta facies forneskjunnar í nútímanum, þetta samhengi rústanna sem hinar tímalausu myndir frá 11. September hafa opinberað öllum.

Sagnfræðingar bókmenntanna og myndlistarinnar vita að það liggur leyndur þráður á milli fornaldarinnar og samtímans, ekki fyrst og fremst vegna meints aðdráttarafls hinna fornu forma gagnvart samtímanum, heldur vegna þess að lykillinn að samtímanum er falinn í forsögulegum heimi óminnisins. Þannig snýr heimur fornaldarinnar sér að því sem var í árdaga. Framúrstefnan, sem hefur glatað sjálfri sér í tímanum, leitar eftir hinu frumlæga og forna. Það er í þessum skilningi sem við getum sagt að leiðarvísirinn að samtímanum sé óhjákvæmilega fólginn í eins konar fornleifafræði. Það felur hins vegar ekki í sér afturhvarf til þáliðinnar tíðar, heldur stafar það af því að við getum með engu móti lifað í núinu, og þar sem núið er ólifað dregst það með óstöðvandi hætti að upprunanum án þess að geta nokkurn tímann fundið hann. Þar sem núið er ekki annað en hið ólifaða í sérhverri lífsreynslu og þar sem aðgangurinn að núinu er heftur af þeim massa sem við af einhverjum ástæðum höfum ekki náð að upplifa (vegna of mikillar nálægðar eða vegna streituáfalls). Samtímavitundin beinist að athyglinni gagnvart þessu sem var okkur um megn að lifa. Að hafa samtímavitund merkir í þessum skilningi afturhvarf til núveru sem við höfum aldrei meðtekið.

 

IV. Þetta merkir að sá sem hefur til að bera samtímavitund er ekki bara sá sem hellir sér ofan í myrkur samtímans til þess að höndla óhöndlanlega birtu þess, hann er einnig sá sem sundurgreinir tímann og uppstokkar honum, er fær um að umbreyta honum og setja hann í samhengi við aðra tíma, að lesa úr honum söguna með áður óþekktum hætti, að vitna til hennar samkvæmt nauðsyn sem kemur ekki frá hans eigin sjálfdæmi, heldur af þörf sem hann getur ekki annað en brugðist við. Rétt eins og þetta ósýnilega ljós, sem er myrkur samtímans, varpi skugga sínum á fortíðina og að hún sem þannig verður snortin af þessum geisla myrkursins öðlist kraft til að svara myrkri líðandi stundar.

Það var eitthvað þessu líkt sem Michel Faucault hafði í huga þegar hann sagði að rannsóknir hans á sögu hins liðna væru einungis skugginn af rannsóknum hans á samtímanum. Eða Walter Benjamin, þegar hann skrifaði að sögulegar vísanir er væru til staðar í myndum fortíðarinnar sýndu að þær yrðu einungis læsilegar á tilteknu augnabliki sögu sinnar. Árangur eða árangursleysi námskeiðs okkar mótast af getu okkar til að hlusta á þessa þörf og þennan skugga, að vera ekki bara samtímis okkar eigin tíma og „núinu“, heldur einnig myndum hans í heimildum fortíðarinnar

Forsíðumyndin er verk eftir ítalska listamanninn Claudio Parmiggiani. Það er án titils frá 1995.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: