Í dag opnar Erling Klingenberg sýningar í Nýlistasafninu og sýningarsal Kling og Bang. Í tilefni sýningarinnar skrifaði ég þennan pistil um verk hans "Staðgengill".
Önnur gríma!
Í tilefni Sýningar Erlings Klingenberg í Nýlistasafninu 14. mars 2020
[Sögumaður:] Förumaður, hver ert þú? Ég sé þig á róli, stríðnislausan og ástlausan með sviplausu augnaráði, rakan og dapran eins og blýsökku sem risið hefur ófullnægð ofan úr þessu djúpi og upp í ljósið – hverju var hún að sækjast eftir þarna niðri? – með brjóst án andvarps, með varir sem fela óbragð sitt, með hönd sem heilsar með hægð:
Hver ert þú?- Hvað hefur þú fyrir stafni? Fáðu þér sæti: hér eru allir gestir velkomnir – slappaðu af! Og hver svo sem þú skyldir vera, hvað mætti þá bjóða þér nú? Hvað vanhagar þig um? Nefndu það bara, allt sem ég á er þér falt!
[Förumaður:] „Til afslöppunar?, til heilsubótar? Æ‚ þú afskiptasami maður, um hvað ertu að tala! En heyrðu annars, gefðu mér, ég vildi …“
[Sögumaður:] Hvað? Hvað? Já segðu það!
[Förumaður:] „Eina grímu í viðbót! Aðra grímu!“….
Þannig hljómar orðskviður Friedrichs Nietzsche um förumanninn í „Handan góðs og ills“, (númer 278) án frekari skýringa. Hver er þessi förumaður, og hvers vegna vill hann aðra grímu? Þó förumaðurinn geti eins verið hann sjálfur, þá skyldi enginn ætla sér að gefa einhlíta skýringu á orðum Nietzsche, þar sem einmitt tungumálið var honum eins og gríma sem snerti hvort tveggja í senn, birtingarmyndina og spurninguna um undirliggjandi sannleika hennar, og þar með þær andstæður (og þá samstæðu) sem hann sá í guðamyndum Apollons og Dionysosar, guðamynd orðsins og undirliggjandi kviku tilfinninganna eins og þær birtast í vínguðinum.
En samspil þessara guðamynda og grímunnar sem við berum öll með okkur voru umhugsunarefni Nietzsche alla tíð, nánast frá upphafi ferils hans sem fræðimaður í fornmálum, grísku og latínu. Nietzsche var trúlega fyrstur manna til að skilgreina tungumálið og orð þess sem myndlíkingar er þróuðust frá (hug-) myndinni og hljóðinu til hugtaksins sem við höfum síðan verið vanin á að taka sem staðgengil hlutarins: orðið hundur stendur fyrir alla hunda veraldar en á sér þó ólíkar hljóðmyndir: dog, cane, chien, Hund, perro o.s.frv. Þessar ólíku hljóðmyndir eiga það sameiginlegt að enginn hundur í veröldinni uppfyllir myndina, en samt tökum við hana gilda sem staðgengil hins hundslega í náttúrunni og veröldinni.
Þetta gildi orðsins hefur ekkert með sannleika að gera, enginn getur bent á hina frumlægu hundsmynd eða strokið henni, en hún verður hins vegar nauðsynlegt samfélagslegt samkomulagsatriði til að tryggja manninum félagslegt öryggi og vörn gegn sársauka tilverunnar. Ef við höfum ekki orðin og hugtökin til að verja okkur gegn náttúruöflunum og hverju öðru, þá er okkur voðinn vís. Orðin eru gríma förumannsins.
Nietzsche hafði djúpan skilning á grískri goðafræði og áttaði sig á að guðirnir Apollon og Dionysus vísuðu til þessa spennusvæðis menningar og náttúru eins og kemur fram í fyrsta fræðiriti hans, Fæðing harmleiksins frá 1876. En skýringu sína á virkni tungumálsins hafði hann þegar sett fram í stuttri ritgerð frá 1873, sem hann kallaði „Um sannleika og lygi handan siðaboðanna“, fyrst prentuð að honum látnum. Spennan á milli myndarinnar/orðsins og hlutarins staðfestir óbrúanlega gjá mismunar. Í Fæðingu harmleikssins sá hann í tónlist Richards Wagners þann kraft er gæti brúað þessa gjá, en strax eftir útgáfu bókarinnar hafði hann áttað sig á því að tónlistin og listirnar almennt væru blekkingarleikur. Leikur sem Nietzsche iðkaði sjálfur af mikilli snilld og skáldlegum innblæstri í orðskviðum sínum og líkingamáli. Þess vegna bað hann um nýja grímu. Aðra grímu!
Þegar ég fékk það verkefni að skrifa örfá orð um „Staðgengil“ Erlings Klingenberg komst ég ekki hjá því að hugsa um grímur Nietzsche og blekkingarleikinn sem myndin leikur gagnvart veruleikanum. Þessi staðgengill er önnur gríma sem felur þá heljargjá er undir liggur.
Ólafur Gíslason.