Ég fann þessa gömlu grein nýlega í tölvu minni. Hún mun hafa birst í sýningarskrá eftirminnilegrar sýningar sem Hannes Sigurðsson stóð fyrir í Listasafni Akureyrar sumarið 2003. Þar var gerð áhugaverð tilraun til að setja íslenska rýmislist 20. aldar í samhengi við meginlandið og höfuðból listheimsins, en um leið var sýningin athyglisverð ögrun Eyjarfjarðarsvæðisins við höfuðból íslenskrar menningar í Gullbringusýslunni. Kannski hefur greinin enn gildi sem söguleg heimild?
Í dag (24.06.2003) verður opnuð í Listasafni Akureyrar sýning frá Ríkislistasafninu í Berlín, þar sem leitast er við að gefa okkur eins konar yfirlit yfir höggmynda- og rýmislist 20. aldarinnar í Evrópu, séða í hnotskurn í gegnum úrval verka eftir 31 heimskunnan listamann er spanna tímabilið frá Edgar Degas (1834-1917) og Henry Moore í gegnum Giacometti, Marini, Sol Lewitt, Carl Andre, Buren, Donald Judd og Richard Long til Rosemary Trockel (f. 1952), svo örfá nöfn séu nefnd. Við þetta úrval Ríkislistasafnsins í Berlín hefur svo verið bætt verkum eftir ellefu íslenska listamenn sem spanna nánast sama tímabil, allt frá Einari Jónssyni til Þorvalds Þorsteinssonar. Sýningin vekur óhjákvæmilega spurningar um hvaða sögu hér er verið að segja og hvort það sé yfirleitt hægt að túlka viðfangsefni rýmislistar 20. aldar með marktækum hætti í yfirlitssýningu sem þessari.
Það var engin tilviljun að stofnun fyrstu listasafna fyrir almenning í Evrópu á 18. öldinni gerðist samfara því að þýskir fræðimenn eins og Baumgarten, Winckelmann og Kant lögðu grundvöllinn að fagurfræðinni sem sérstakri vísindagrein. Þar með var gerð fyrsta tilraunin til þess að setja algilda fagurfræðilega mælikvarða, er hægt væri að leggja á alla list. Það var aftur forsenda þess að hægt væri að segja listasöguna sem trúverðuga heildarfrásögn er stefndi í ákveðna átt og að tilteknu marki. Winckelmann dró enga dul á það að fræði hans voru beinlínis til þess fallin að upphefja evrópskra menningu og hinn evrópska kynstofn, enda rakti hann göfgi og fegurð grískrar höggmyndalistar meðal annars til útlitseinkenna hins gríska kynstofns, um leið og hann skýrði ófullkomleika afrískrar listar út frá breiðum vörum og flötu nefi blökkumanna. Alla tíð síðan hafa hin algildu fagurfræðilegu viðmið verið notuð með hliðstæðum hætti til að rækta hugmyndir um þjóðríkið, þjóðernisstefnu og menningarlega stigveldishugsun, þar sem viðmiðin urðu um leið eins konar vegvísir þeirrar sögu er fylgir í kjölfar hinnar evrópsku (og síðar bandarísku) framvarðarsveitar á leið sinni til aukinna framfara – í áttina að hinu fullkomna samfélagi frelsis, jafnréttis og bræðralags, eins og það var orðað í frönsku stjórnarbyltingunni.
Hlutverk Kants í þessari umræðu var fyrst og fremst að tengja skilgreiningu hins fagra við hið háleita í náttúrunni og manninum og við snilligáfuna, þar sem hin hlutlausa fullnægja sem verkið átti að vekja með áhorfandanum byggði endanlega á hinum menntaða smekk hans. Hin menntaði smekkur kom óhjákvæmilega til sögunnar eftir að verkin hættu að sækja réttlætingu sína í notagildið (hvort sem það var trúarlegt eða verklegt) og fóru að þjóna fegurðinni sem gildi í sjálfu sér.
Listasöfnin hafa gegnt mikilvægu hlutverki í þessari hugmyndafræðilegu innrætingu. Það er þeirra hlutverk að sviðsetja minnisvarða sögunnar og rekja þannig þráð hennar. Í Listasafninu á Akureyri erum við stödd í eins konar leikhúsi minnisins eins og því sem Giulio Camillo smíðaði í Feneyjum á 16. öld, þar sem öll mannleg þekking var sviðsett með skipulögðum og kerfisbundnum hætti [1]. Þannig gegndi stofnun þjóðlistasafna lykilhlutverki í myndun og ræktun þjóðernisvitundar á tímum Upplýsingarinnar í Evrópu, sem jafnframt var mótunartími þjóðríkja í álfunni. Á safninu eru verkin sett í tilbúið samhengi, sem leiðir þar með lestur og skilning áhorfandans í áttina að ákveðinni niðurstöðu. Slík frásögn er á endanum skáldskapur sem ávallt speglar samtíma sinn frekar en þá fortíð sem þannig er túlkuð í ljósi hans. Hin sögulega sýning er yfirleitt réttlæting og skýring á samtíma sínum sem rökréttri sögulegri niðurstöðu þess sem áður var.
Sú mynd af módernisma 20. aldar sem dregin er fram með þessari sýningu er óhjákvæmilega þessu sama marki brennd. Hún segir okkur vafalaust meira um þá sem valið hafa verkin en það hvaða vanda höggmynda- og rýmislist 20. aldar var í raun og veru að glíma við. Engu að síður er sýning sem þessi einstakur viðburður á Íslandi og mikið fagnaðarefni. Þá er ekki síður forvitnilegt að sjá hvernig íslensku verkin sem valin hafa verið á sýninguna koma út í þessu samhengi. Þau vekja þá forvitnilegu spurningu hvort útkjálkinn eigi erindi inn í hringiðu hinnar miðstýrðu menningarumræðu og hvernig þessir heimar kallast á.
Það er vel við hæfi að hefja þessa sögu með Edgar Degas (1834-1917), en undir lok ferils síns komst þessi málari að formlegri niðurstöðu með bronsmyndum sínum af dansmeyjum sem gekk lengra en félagar hans meðal impressjónistanna höfðu nokkurn tíman hugsað. Rýmið varð ekki lengur endurspeglað í gegnum hina hlutlausu móttöku augans á fleti málverksins, heldur opnast það fyrir okkur með virkri hreyfingu líkamans og nánast líkamlegri þátttöku áhorfandans. Augað er ekki lengur hlutlaus móttakandi, heldur eru líkaminn og hugurinn orðnir virkir þátttakendur í opnun rýmisins. Um leið sker Degas á allar sögulegar og táknrænar vísanir og setur þannig nútímann á dagskrá í list sinni með afgerandi hætti. Þannig má vel halda því fram að rýmislist módernismans eigi rætur sínar í dansmeyjunum sem Degas steypti í brons í lok 19. aldar, miklu frekar en í upphöfnum höggmyndum Rodins sem voru ennþá bundnar af táknrænum og sögulegum vísunum. Það á líka við ef við berum dansmeyjarnar saman við konumyndir Renoirs og Aristides Maillol sem byggja á hefðbundnari fegurðarímyndum með vísun í klassískan myndlistararf endurreisnarinnar.
Hið byltingarkennda við bronsmyndir Degas er að þær opna rýmið sem raunverulega reynslu, í stað þess að skoða það sem fyrirfram gefna stærð sem hægt sé að endurgera og sýna. Í stað þess að vera lýsandi eru þær vekjandi út frá stund og stað. „Maðurinn hefur engan líkama og er enginn líkami, heldur lifir hann líkama sinn“, sagði Martin Heidegger í stuttri ritgerð um líkamann og rýmislistina [2]og lagði þar með áherslu á mikilvægi hins tilvistarlega skilnings jafnt á líkamanum og rýminu sem umlykur hann. Hvorki líkaminn né rýmið eru í raun mælanlegar einingar sem augað getur skoðað utan frá undir yfirskini þeirrar hlutlægni er byggir á fjarveru sjáandans.
Hennry Moore: Liggjandi kona, brons 1963-65
Ein leiðin til þess að túlka módernismann í rýmislist 20. aldar er að leggja þessi grundvallarviðhorf Heideggers til viðmiðunar. Í þessu samhengi verða tveir myndhöggvarar mikilvægir, og þá undir nokkuð andstæðum formerkjum: Henry Moore (1898-1986) og Alberto Giacometti (1901-1966). Báðir styðjast við líkamann, en skúlptúrar Moore hafa í fyllingu og massa formsins og þess holrýmis sem umlykur hann einhver dulmögnuð tengsl við forsögulega tilvist og allt að því jarðsöguleg tengsl mannsins við uppruna sinn. Myndir Moore gegndu mikilvægu hlutverki í Evrópu á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöld við að endurvekja tiltrú manna á nýtt upphaf siðmenningarinnar, endurnýjaða trú á manninn og getu hans til að endurheimta sjáfan sig í frumgerð sinni, ef svo mætti segja. Á meðan Moore lagði áherslu á fyllingu og massa formsins leitaðist Giacometti við að leysa það upp. Mannverur hans eru eins og í upplausn, eins og tálguð tákn sem vísa ekki til mannsins lengur, heldur til fjarveru hans eða stöðu hans gagnvart óendanleika eða tómi þess hyldýpisrýmis sem umlykur hann. Verk Giacomettis tengjast hinni frönsku tilvistarspeki eftirstríðsáranna með sambærilegum hætti og formleysumálverkið og endurspegla þannig þá tilvistarangist sem Moore vildi andæfa með bjargvissri trú sinni á hið frumlæga í manninum.
Giacometti: Maður sem bendir (1947) og Maður sem gengur (1960)
Annar þáttur í þróun rýmislistar 20. aldar snýr að áhrifum tækninnar. Einnig þar má sjá tvö ólík viðhorf mætast. Annars vegar þá hugsun að höggmyndalistin eigi að ryðja brautina fyrir hinn skapandi verknað í viðleitni mannsins að umbreyta heiminum með tæknikunnáttu sinni. Það eru þau viðhorf sem við getum rakið til kúbismans og konstrúktívismans. Á þessari sýningu eru þeir Alexander Archipenko og Henry Laurens helstu fulltrúar þessa sjónarmiðs ásamt með Ítalanum Marino Marini, Spánverjanum Manolo og Þjóðverjanum Rudolf Belling. Þeir eiga það sameiginlegt að líta á rýmislistina sem möguleika til þess að umbreyta heiminum frekar en að lýsa honum.
Donald Judd: Án titils, 1965-70
Hins vegar sjáum við þá listamenn sem litu á tækniþróunina og iðnframleiðsluna sem ferli er orsakar firringu mannsins og slítur tengsl hans við umheiminn. Sú var afstaða dadaistanna, súrrealistanna og að einhverju leyti expressjónistanna, og hana finnum við hér einkum í verki Giacomettis. Hliðstæða tilvistarangist má einnig lesa úr verki þýsku grafíklistakonunnar og myndhöggvarans Käthe Kollwitz, þótt myndir hennar séu bundnari bjargfastari trú á manninn en hægt er að segja um Giacometti.
Á seinni hluta 7. áratugarins má marka nokkur straumhvörf í rýmislist 20. aldar. Þá er neyslusamfélagið komið í algleyming og smám saman rennur upp fyrir mönnum að tæknisamfélagið hefur ekki önnur innri markmið en stöðuga og sjálfvirka útþenslu og framleiðsluaukningu. Spurningin snýst ekki lengur um hvað maðurinn á að gera við tæknina, heldur hvað tæknin og afurðir hennar muni gera við manninn og hið náttúrulega umhverfi hans. Hin bjartsýna trú á formið og mótun þess sem lýsandi fordæmi fyrir tækniframfarirnar víkur og áherslan flyst frá forminu eða hlutnum til spurningarinnar um rýmið og tilvistarlega upplifun þess.
Kannski sjáum við síðasta fulltrúa formhyggjunnar í frumformum Bandaríkjamannsins Donalds Judd (1928-94), en verk hans eru eins konar kassar, yfirleitt unnir úr hráu iðnaðarefni og felldir inn í umlykjandi rými með vísindalegri nákvæmni. Þessi verk hafa ekkert með lýsingu eða túlkun veruleikans að gera, heldur eru þau tilraunir til þess að skapa nýtt rými og nýjan veruleika á eigin forsendum. Að nokkru leyti gengur Judd í fótspor De Stijl-hópsins á millistríðsárunum: bæði Judd og Mondrian gengu vísindalega til verks og lögðu stranga siðfræði til grundvallar verkum sínum með rökhyggjuna að vopni og þá trú að þannig gæti listin orðið siðferðilegt fordæmi fyrir lýðræðislegt þjóðfélag er væri laust við alla þjóðernishyggju og allt tilfinningahlaðið ofbeldi. En á meðan Mondrian takmarkaði sig við að endurskapa fullkomið jafnvægi innan ramma myndarinnar á grundvelli frumeiginda myndflatarins – línunnar, flatarins og frumlitanna – þá eru verk Judds í raun hugsuð hvorki sem málverk né höggmynd, heldur vildi hann yfirstíga hlutlæg takmörk þessara miðla og sögulegar vísanir þeirra með því að skapa nýtt rými er væri laust við allar sjónhverfingar og án vísunar í nokkuð annað en sig sjálft. Siðferðilega mátti hins vegar hugsa slíkt rými sem fordæmi fyrir samfélagslegt rými eða skipulag er byggði á fullkominni rökhugsun. Þá útópíu tókst Judd augljóslega ekki að framkvæma nema kannski í smækkaðri mynd á búgarði sínum í Texas.
Skyld hugsun liggur til grunvallar verka Daniels Buren (f. 1938), en hann vildi með síendurteknum einlitum röndum sínum, sem hann málaði á fyrirfram gefið umhverfi, ekki bara segja skilið við málverkið sem mynd af heiminum, heldur leit hann á verk sín sem heimspeki í framkvæmd er hefði sagt skilið við hugmyndina um listina sem eftirlíkingu annars veruleika. Rýmishugsun Burens var fólgin í framkvæmdinni sjálfri, og rýmið og upplifun þess féllu þannig saman – án beinnar upplifunar var rýmið óhugsandi.
Þessar hugmyndir um rýmið sem nánast líkamlega upplifun koma enn skýrar fram í verkum Richards Long (f. 1945) sem hefur meðal annars gert rýmisverk sem marka gönguferðir hans um skosku heiðalöndin. Eins og hjá Buren er rýmisskilningur Longs bundinn við framkvæmdina á rauntíma ef svo mætti segja, og efniviður hans eru fenginn hrár úr náttúrunni, ekki til þess að sýna hana, heldur til þess að lifa hana.
Richard Long: Lína í Skotlandi, 1981
Fjórði listamaðurinn sem fellur inn í þennan hóp er Carl Andre, en gólfverk hans verða í raun eins konar vettvangur fyrir áhorfandann til þess að skapa og upplifa sitt rými með nærveru sinni.
Viðleitnin að hreinsa listina af allri eftirlíkingu og sjónhverfingu og þar með að nálgast hina beinu upplifun tengist óhjákvæmilega þeim vanda sem snýr að tungumáli myndlistarinnar og því flókna sambandi sem liggur á milli þeirra tákna og merkja sem myndlistin notar, og þess veruleika sem þau vísa til. Vandi þessi, sem fyrst var settur fram af svissneska málfræðingnum Saussure í upphafi 20. aldar, snertir jafnt hið talaða mál sem tákn og merki myndlistarinnar. Í samtíma okkar hafa táknin öðlast sjálfstæða tilvist og myndmálið þannig vísað í æ ríkara mæli í sjálft sig án þess að höndla í raun þann veruleika sem eitt sinn lá á bak við orðin og táknin. Við lifum í æ ríkara mæli í heimi orða og tákna um leið og við fjarlægjumst þær höfuðskepnur sem eitt sinn voru fastur grundvöllur tilverunnar: jörð, vatn, loft og eldur. Svokallaður sýndarveruleiki orðanna og táknanna umlykur okkur með æ þéttara neti þannig að náttúran hverfur sjónum okkar. „Ég öðlast samsemd með sjálfum mér í tungumálinu, en einungis til þess að glata sjálfum mér í því sem hlut“ [3] sagði franski sálfræðingurinn Lacan og varpaði þannig ljósi á hvernig tungumálið mótar vitund okkar um leið og það hlutgerir veruleikann.
Rétt eins og þeir Judd, Buren, Andre og Long reyna að forðast þennan vanda sem fólginn er í firringu tungumálsins með því að skilgreina og rannsaka rýmið sem beina og milliliðalausa reynslu, þá hafa aðrir listamenn í samtímanum gert tungumálið að viðfangsefni rétt eins og það væri hið raunverulega umhverfi okkar og það landslag sem við hrærumst í. Þetta á við um listamenn eins og Fritz Schwegler, Raffael Rheinsfeld og að einhverju leyti Rosemary Trockel. Verk þeirra snúa að landslagi tungumálsins eins og það væri sjálfstæður veruleiki.
Rosemarie Trockel, Living Means To Play Some Records, 2002
Þannig beinir þessi sýning sjónum okkar að nokkrum grundvallarviðfangsefnum rýmislistar 20. aldar. Hugmyndin um höggmyndina sem hið afmarkaða form er sýnir okkur mynd af heiminum víkur fyrir nýjum rýmisskilningi og rannsókn á sambandi vitundar mannsins við það rými sem hann hrærist í og skapar með veru sinni. Á seinni hluta aldarinnar sjáum við hvernig rýmið tengist tímanum órjúfanlega sem reynsla þess sem skapar það með nærveru sinni og upplifun.
Það er forvitnilegt að sjá hvernig hinn íslenski hluti þessarar sýningar fellur að þeirri umræðu meginlandanna í rýmislist samtímans sem hér er sett á svið. Þótt hálf öld skilji á milli í aldri stendur Edgar Degas (1834-1917) til dæmis nær nútímanum í þeirri umræðu en Einar Jónsson (1873-1954) að því leyti að Einar er ennþá bundinn af táknrænum og lýsandi vísunum í söguna, þjóðlegar hefðir og trúarlega heimspeki, á meðan Degas er fyrst og fremst upptekinn af því að skapa rýmið í augnablikinu með hreyfingu myndarinnar. Sá munur endurspeglar þó fyrst og fremst þann ólíka jarðveg sem þessir listamenn eru sprottnir úr, þannig að samanburður á grundvelli hinnar módernísku hugsunar verður vart raunhæfur.
Gerður Helgadóttir: Komposition, um 1950
Ef leitað er eftir fyrsta íslenska listamanninum sem verður samstíga því framsæknasta sem er á dagskrá í módernískri rýmislist 20. aldar á meginlöndunum tveimur er nærtækt að staðnæmast við verk Gerðar Helgadóttur (1928-1975) frá upphafi 6. áratugarins. „Kompositionir“ hennar frá þessum tíma eru tilraunir til þess að „teikna“ rýmið með járnskúlptúrum þar sem hrein form og hreinar línur án nokkurrar táknrænnar vísunar takast á við það tómarúm sem umlykur myndina, þannig að hvort tveggja verður jafn mikilvægt í verkinu. Í þessum verkum nálgast Gerður rýmið á fullkomlega nýjan hátt, þar sem horfið er frá öllu lýsandi táknmáli og áherslan færist frá forminu til rýmisins í heild sinni. Gerður var á þessum tíma undir áhrifum frá Bauhaus-hreyfingunni og konstrúktífismanum og átti það sammerkt með jafnaldra sínum Sol LeWitt frá Bandaríkjunum, en ferill hennar hófst fyrr og stóð skemur, því hún lést fyrir aldur fram aðeins 47 ára gömul. Sol LeWitt kom hins vegar fram sem einn af frumkvöðlum minimalismans í upphafi 7. áratugarins og er enn meðal virtustu fulltrúa þeirrar stefnu á Vesturlöndum.
Annar íslenskur fulltrúi á þessari sýningu sem grípur á púlsi samtímans í alþjóðlegu samhengi er jafnaldri þeirra tveggja, Magnús Pálsson (f. 1929), en ferill hans á vettvangi frjálsrar rýmislistar hófst ekki að marki fyrr en á seinni hluta 7. áratugarins með gipsverkum sem gengu þvert á alla formhyggju og þar með þvert á allar hugmyndir Bauhaus-skólans. Magnús varð fyrstur íslenskra rýmislistamanna til þess að kryfja þann vanda er snýr að tungumáli myndlistarinnar og þeirri gjá sem myndast hafði á milli táknanna og þess veruleika sem þau vísa til. Verk hans Flæðarmál frá árinu 1975 er áleitin afhjúpun á blekkingarleik hinnar lýsandi listar landslagsmálverksins. Í stað þess að sjá landið, hafflötinn og himininn sem þrjá samliggjandi fleti á flötu léreftinu út frá sjónarhorni áhorfandans höfum við gipsafsteypu í þremur hlutum sem fela í sér „afsteypu“ jarðarinnar, sjávarins og himinsins. Þannig eru sjórinn og loftið „sýnd“ frá sjónarhorni jarðarinnar, ef svo mætti segja, og þar með grafið undan hinu „húmaníska“ sjónarhorni á veruleikann. Verk Magnúsar eru mikilvægt innlegg í umræðu rýmislistarinnar í alþjóðlegu samhengi og er því óhætt að telja hann brautryðjanda í íslenskri myndlist.
Magnús Pálsson: Bestu stykkin, 1965
Sama má segja um Kristján Guðmundsson (f. 1941), en hann hefur einnig glímt við hinn merkingarlega vanda tungumálsins með áhrifaríkum hætti og afhjúpað dulin tengsl hins talaða og myndræna tungumáls. Verk hans Eyjólfr hét maðr (1983) vísar vissulega til hins mikla bókmenntaarfs þjóðarinnar, en gerir það með bókstaflegri hætti en okkur er kannski tamt. Myndin af Eyjólfi og merking nafns hans opinberast hér fyrir okkur í formi og þyngd bókstafsins E – og allt í einu þurfum við ekki meira. Greining Kristjáns á sambandi myndmáls og hugtaka er merkt og frumlegt innlegg í þá heimspekilegu umræðu sem átt hefur sér stað í samtímalistinni á meginlöndunum austan hafs og vestan á síðari hluta 20. aldar.
Að lokum er vert að minnast hér á tvo yngstu fulltrúa íslenskrar rýmislistar á þessari sýningu, þá Finnboga Pétursson (f. 1959) og Þorvald Þorsteinsson (f. 1960). Finnbogi teiknar og skapar rýmið með hljóði og leggur þar með áherslu á að rýmið verður fyrst og fremst til í tímanlegri upplifun þess. Þannig hefur hann sagt afdráttarlaust skilið við alla efnislega lýsingu rýmisins og fært mynd þess yfir í vitund og upplifun „áhorfandans“ sem atburð og reynslu. Þorvaldur notast einnig við hljóð í sínu rýmisverki, en með nokkuð ólíkum hætti. Í verkinu Söngskemmtun (1998) erum við óþyrmilega vakin til vitundar um þann örþunna vegg sem skilur á milli listar og veruleika: við stöndum frammi fyrir lokuðum dyrum „tónleikasalarins“ og heyrum aðeins daufan óm tónlistarinnar sem þar er flutt en sjáum hins vegar fyrir okkur tónleikagestina í yfirhöfnum þeirra sem hanga á fatahenginu. Upplifun þess sem verkið „sýnir“ er öll falin handan við lokaðar dyr og við erum óhjákvæmilega of sein til þess að taka þátt í leiknum. Ábyrgðin á upplifun listarinnar hvílir öll á herðum áhorfandans. Þetta verk Þorvalds er verðug niðurstaða þeirrar sýningar sem hér hefur verið sett á svið og sýnir okkur að hinn íslenski hluti hennar á þar fullt erindi, þótt eflaust hefði mátt tína til fleiri verðuga fulltrúa.
Þorvaldur Þorsteinsson: Söngskemmtun,1998
———————————————————
[1] sbr. Frances A Yates: The Art of Memory, London 1966
[2] „Der Mensch hat kein Körper und ist kein Körper, sondern lebt seinen Leib“, Martin Heidegger: Corpo e Spazio – Osservazione su arte-scultura-spazio, Genova 2000, bls 32.
[3] J. Lacan: Function and Field of Speech and Language in Psychoanalysis, NY 1977.
Forsíðumyndin: Edgar Degas: Dansmær, um 1890. Ljósm. Frank Horvath.