Maðurinn og rými hans á 20. öldinni

Ég fann þessa gömlu grein nýlega í tölvu minni. Hún mun hafa birst í sýningarskrá eftirminnilegrar sýningar sem Hannes Sigurðsson stóð fyrir í Listasafni Akureyrar sumarið 2003. Þar var gerð áhugaverð tilraun til að setja íslenska rýmislist 20. aldar í samhengi við meginlandið og höfuðból listheimsins, en um leið var sýningin athyglisverð ögrun Eyjarfjarðarsvæðisins við höfuðból íslenskrar menningar í Gullbringusýslunni. Kannski hefur greinin enn gildi sem söguleg heimild?

 

Í dag (24.06.2003) verður opnuð í Listasafni Akureyrar sýning frá Ríkislistasafninu í Berlín, þar sem leitast er við að gefa okkur eins konar yfirlit yfir höggmynda- og rýmislist 20. aldarinnar í Evrópu, séða í hnotskurn í gegnum úrval verka eftir 31 heimskunnan listamann er spanna tímabilið frá Edgar Degas (1834-1917) og Henry Moore í gegnum Giacometti, Marini, Sol Lewitt, Carl Andre, Buren, Donald Judd og Richard Long til Rosemary Trockel (f. 1952), svo örfá nöfn séu nefnd. Við þetta úrval Ríkislistasafnsins í Berlín hefur svo verið bætt verkum eftir ellefu íslenska listamenn sem spanna nánast sama tímabil, allt frá Einari Jónssyni til Þorvalds Þorsteinssonar. Sýningin vekur óhjákvæmilega spurningar um hvaða sögu hér er verið að segja og hvort það sé yfirleitt hægt að túlka viðfangsefni rýmislistar 20. aldar með marktækum hætti í yfirlitssýningu sem þessari.

Það var engin tilviljun að stofnun fyrstu listasafna fyrir almenning í Evrópu á 18. öldinni gerðist samfara því að þýskir fræðimenn eins og Baumgarten, Winckelmann og Kant lögðu grundvöllinn að fagurfræðinni sem sérstakri vísindagrein. Þar með var gerð fyrsta tilraunin til þess að setja algilda fagurfræðilega mælikvarða, er hægt væri að leggja á alla list. Það var aftur forsenda þess að hægt væri að segja listasöguna sem trúverðuga heildarfrásögn er stefndi í ákveðna átt og að tilteknu marki. Winckelmann dró enga dul á það að fræði hans voru beinlínis til þess fallin að upphefja evrópskra menningu og hinn evrópska kynstofn, enda rakti hann göfgi og fegurð grískrar höggmyndalistar meðal annars til útlitseinkenna hins gríska kynstofns, um leið og hann skýrði ófullkomleika afrískrar listar út frá breiðum vörum og flötu nefi blökkumanna. Alla tíð síðan hafa hin algildu fagurfræðilegu viðmið verið notuð með hliðstæðum hætti til að rækta hugmyndir um þjóðríkið, þjóðernisstefnu og menningarlega stigveldishugsun, þar sem viðmiðin urðu um leið eins konar vegvísir þeirrar sögu er fylgir í kjölfar hinnar evrópsku (og síðar bandarísku) framvarðarsveitar á leið sinni til aukinna framfara – í áttina að hinu fullkomna samfélagi frelsis, jafnréttis og bræðralags, eins og það var orðað í frönsku stjórnarbyltingunni.

Hlutverk Kants í þessari umræðu var fyrst og fremst að tengja skilgreiningu hins fagra við hið háleita í náttúrunni og manninum og við snilligáfuna, þar sem hin hlutlausa fullnægja sem verkið átti að vekja með áhorfandanum byggði endanlega á hinum menntaða smekk hans. Hin menntaði smekkur kom óhjákvæmilega til sögunnar eftir að verkin hættu að sækja réttlætingu sína í notagildið (hvort sem það var trúarlegt eða verklegt) og fóru að þjóna fegurðinni sem gildi í sjálfu sér.

Listasöfnin hafa gegnt mikilvægu hlutverki í þessari hugmyndafræðilegu innrætingu. Það er þeirra hlutverk að sviðsetja minnisvarða sögunnar og rekja þannig þráð hennar. Í Listasafninu á Akureyri erum við stödd í eins konar leikhúsi minnisins eins og því sem Giulio Camillo smíðaði í Feneyjum á 16. öld, þar sem öll mannleg þekking var sviðsett með skipulögðum og kerfisbundnum hætti [1]. Þannig gegndi stofnun þjóðlistasafna lykilhlutverki í myndun og ræktun þjóðernisvitundar á tímum Upplýsingarinnar í Evrópu, sem jafnframt var mótunartími þjóðríkja í álfunni. Á safninu eru verkin sett í tilbúið samhengi, sem leiðir þar með lestur og skilning áhorfandans í áttina að ákveðinni niðurstöðu. Slík frásögn er á endanum skáldskapur sem ávallt speglar samtíma sinn frekar en þá fortíð sem þannig er túlkuð í ljósi hans. Hin sögulega sýning er yfirleitt réttlæting og skýring á samtíma sínum sem rökréttri sögulegri niðurstöðu þess sem áður var.

Sú mynd af módernisma 20. aldar sem dregin er fram með þessari sýningu er óhjákvæmilega þessu sama marki brennd. Hún segir okkur vafalaust meira um þá sem valið hafa verkin en það hvaða vanda höggmynda- og rýmislist 20. aldar var í raun og veru að glíma við. Engu að síður er sýning sem þessi einstakur viðburður á Íslandi og mikið fagnaðarefni. Þá er ekki síður forvitnilegt að sjá hvernig íslensku verkin sem valin hafa verið á sýninguna koma út í þessu samhengi. Þau vekja þá forvitnilegu spurningu hvort útkjálkinn eigi erindi inn í hringiðu hinnar miðstýrðu menningarumræðu og hvernig þessir heimar kallast á.

Það er vel við hæfi að hefja þessa sögu með Edgar Degas (1834-1917), en undir lok ferils síns komst þessi málari að formlegri niðurstöðu með bronsmyndum sínum af dansmeyjum sem gekk lengra en félagar hans meðal impressjónistanna höfðu nokkurn tíman hugsað. Rýmið varð ekki lengur endurspeglað í gegnum hina hlutlausu móttöku augans á fleti málverksins, heldur opnast það fyrir okkur með virkri hreyfingu líkamans og nánast líkamlegri þátttöku áhorfandans. Augað er ekki lengur hlutlaus móttakandi, heldur eru líkaminn og hugurinn orðnir virkir þátttakendur í opnun rýmisins. Um leið sker Degas á allar sögulegar og táknrænar vísanir og setur þannig nútímann á dagskrá í list sinni með afgerandi hætti. Þannig má vel halda því fram að rýmislist módernismans eigi rætur sínar í dansmeyjunum sem Degas steypti í brons í lok 19. aldar, miklu frekar en í upphöfnum höggmyndum Rodins sem voru ennþá bundnar af táknrænum og sögulegum vísunum. Það á líka við ef við berum dansmeyjarnar saman við konumyndir Renoirs og Aristides Maillol sem byggja á hefðbundnari fegurðarímyndum með vísun í klassískan myndlistararf endurreisnarinnar.

Hið byltingarkennda við bronsmyndir Degas er að þær opna rýmið sem raunverulega reynslu, í stað þess að skoða það sem fyrirfram gefna stærð sem hægt sé að endurgera og sýna. Í stað þess að vera lýsandi eru þær vekjandi út frá stund og stað. „Maðurinn hefur engan líkama og er enginn líkami, heldur lifir hann líkama sinn“, sagði Martin Heidegger í stuttri ritgerð um líkamann og rýmislistina [2]og lagði þar með áherslu á mikilvægi hins tilvistarlega skilnings jafnt á líkamanum og rýminu sem umlykur hann. Hvorki líkaminn né rýmið eru í raun mælanlegar einingar sem augað getur skoðað utan frá undir yfirskini þeirrar hlutlægni er byggir á fjarveru sjáandans.

 

HMoore Atom Reclining figure 1963-5

Hennry Moore: Liggjandi kona, brons 1963-65

Ein leiðin til þess að túlka módernismann í rýmislist 20. aldar er að leggja þessi grundvallarviðhorf Heideggers til viðmiðunar. Í þessu samhengi verða tveir myndhöggvarar mikilvægir, og þá undir nokkuð andstæðum formerkjum: Henry Moore (1898-1986) og Alberto Giacometti (1901-1966). Báðir styðjast við líkamann, en skúlptúrar Moore hafa í fyllingu og massa formsins og þess holrýmis sem umlykur hann einhver dulmögnuð tengsl við forsögulega tilvist og allt að því jarðsöguleg tengsl mannsins við uppruna sinn. Myndir Moore gegndu mikilvægu hlutverki í Evrópu á fyrstu árunum eftir síðari heimsstyrjöld við að endurvekja tiltrú manna á nýtt upphaf siðmenningarinnar, endurnýjaða trú á manninn og getu hans til að endurheimta sjáfan sig í frumgerð sinni, ef svo mætti segja. Á meðan Moore lagði áherslu á fyllingu og massa formsins leitaðist Giacometti við að leysa það upp. Mannverur hans eru eins og í upplausn, eins og tálguð tákn sem vísa ekki til mannsins lengur, heldur til fjarveru hans eða stöðu hans gagnvart óendanleika eða tómi þess hyldýpisrýmis sem umlykur hann. Verk Giacomettis tengjast hinni frönsku tilvistarspeki eftirstríðsáranna með sambærilegum hætti og formleysumálverkið og endurspegla þannig þá tilvistarangist sem Moore vildi andæfa með bjargvissri trú sinni á hið frumlæga í manninum.

Giacometto Gangandi og bendandi maður

 

Giacometti: Maður sem bendir (1947) og Maður sem gengur (1960)

Annar þáttur í þróun rýmislistar 20. aldar snýr að áhrifum tækninnar. Einnig þar má sjá tvö ólík viðhorf mætast. Annars vegar þá hugsun að höggmyndalistin eigi að ryðja brautina fyrir hinn skapandi verknað í viðleitni mannsins að umbreyta heiminum með tæknikunnáttu sinni. Það eru þau viðhorf sem við getum rakið til kúbismans og konstrúktívismans. Á þessari sýningu eru þeir Alexander Archipenko og Henry Laurens helstu fulltrúar þessa sjónarmiðs ásamt með Ítalanum Marino Marini, Spánverjanum Manolo og Þjóðverjanum Rudolf Belling. Þeir eiga það sameiginlegt að líta á rýmislistina sem möguleika til þess að umbreyta heiminum frekar en að lýsa honum.

Untiteled 1972

Donald Judd: Án titils, 1965-70

Hins vegar sjáum við þá listamenn sem litu á tækniþróunina og iðnframleiðsluna sem ferli er orsakar firringu mannsins og slítur tengsl hans við umheiminn. Sú var afstaða dadaistanna, súrrealistanna og að einhverju leyti expressjónistanna, og hana finnum við hér einkum í verki Giacomettis. Hliðstæða tilvistarangist má einnig lesa úr verki þýsku grafíklistakonunnar og myndhöggvarans Käthe Kollwitz, þótt myndir hennar séu bundnari bjargfastari trú á manninn en hægt er að segja um Giacometti.

Á seinni hluta 7. áratugarins má marka nokkur straumhvörf í rýmislist 20. aldar. Þá er neyslusamfélagið komið í algleyming og smám saman rennur upp fyrir mönnum að tæknisamfélagið hefur ekki önnur innri markmið en stöðuga og sjálfvirka útþenslu og framleiðsluaukningu. Spurningin snýst ekki lengur um hvað maðurinn á að gera við tæknina, heldur hvað tæknin og afurðir hennar muni gera við manninn og hið náttúrulega umhverfi hans. Hin bjartsýna trú á formið og mótun þess sem lýsandi fordæmi fyrir tækniframfarirnar víkur og áherslan flyst frá forminu eða hlutnum til spurningarinnar um rýmið og tilvistarlega upplifun þess.

Kannski sjáum við síðasta fulltrúa formhyggjunnar í frumformum Bandaríkjamannsins Donalds Judd (1928-94), en verk hans eru eins konar kassar, yfirleitt unnir úr hráu iðnaðarefni og felldir inn í umlykjandi rými með vísindalegri nákvæmni. Þessi verk hafa ekkert með lýsingu eða túlkun veruleikans að gera, heldur eru þau tilraunir til þess að skapa nýtt rými og nýjan veruleika á eigin forsendum. Að nokkru leyti gengur Judd í fótspor De Stijl-hópsins á millistríðsárunum: bæði Judd og Mondrian gengu vísindalega til verks og lögðu stranga siðfræði til grundvallar verkum sínum með rökhyggjuna að vopni og þá trú að þannig gæti listin orðið siðferðilegt fordæmi fyrir lýðræðislegt þjóðfélag er væri laust við alla þjóðernishyggju og allt tilfinningahlaðið ofbeldi. En á meðan Mondrian takmarkaði sig við að endurskapa fullkomið jafnvægi innan ramma myndarinnar á grundvelli frumeiginda myndflatarins – línunnar, flatarins og frumlitanna – þá eru verk Judds í raun hugsuð hvorki sem málverk né höggmynd, heldur vildi hann yfirstíga hlutlæg takmörk þessara miðla og sögulegar vísanir þeirra með því að skapa nýtt rými er væri laust við allar sjónhverfingar og án vísunar í nokkuð annað en sig sjálft. Siðferðilega mátti hins vegar hugsa slíkt rými sem fordæmi fyrir samfélagslegt rými eða skipulag er byggði á fullkominni rökhugsun. Þá útópíu tókst Judd augljóslega ekki að framkvæma nema kannski í smækkaðri mynd á búgarði sínum í Texas.

Skyld hugsun liggur til grunvallar verka Daniels Buren (f. 1938), en hann vildi með síendurteknum einlitum röndum sínum, sem hann málaði á fyrirfram gefið umhverfi, ekki bara segja skilið við málverkið sem mynd af heiminum, heldur leit hann á verk sín sem heimspeki í framkvæmd er hefði sagt skilið við hugmyndina um listina sem eftirlíkingu annars veruleika. Rýmishugsun Burens var fólgin í framkvæmdinni sjálfri, og rýmið og upplifun þess féllu þannig saman – án beinnar upplifunar var rýmið óhugsandi.

Þessar hugmyndir um rýmið sem nánast líkamlega upplifun koma enn skýrar fram í verkum Richards Long (f. 1945) sem hefur meðal annars gert rýmisverk sem marka gönguferðir hans um skosku heiðalöndin. Eins og hjá Buren er rýmisskilningur Longs bundinn við framkvæmdina á rauntíma ef svo mætti segja, og efniviður hans eru fenginn hrár úr náttúrunni, ekki til þess að sýna hana, heldur til þess að lifa hana.

Richard Long (32)

Richard Long: Lína í Skotlandi, 1981

Fjórði listamaðurinn sem fellur inn í þennan hóp er Carl Andre, en gólfverk hans verða í raun eins konar vettvangur fyrir áhorfandann til þess að skapa og upplifa sitt rými með nærveru sinni.

Viðleitnin að hreinsa listina af allri eftirlíkingu og sjónhverfingu og þar með að nálgast hina beinu upplifun tengist óhjákvæmilega þeim vanda sem snýr að tungumáli myndlistarinnar og því flókna sambandi sem liggur á milli þeirra tákna og merkja sem myndlistin notar, og þess veruleika sem þau vísa til. Vandi þessi, sem fyrst var settur fram af svissneska málfræðingnum Saussure í upphafi 20. aldar, snertir jafnt hið talaða mál sem tákn og merki myndlistarinnar. Í samtíma okkar hafa táknin öðlast sjálfstæða tilvist og myndmálið þannig vísað í æ ríkara mæli í sjálft sig án þess að höndla í raun þann veruleika sem eitt sinn lá á bak við orðin og táknin. Við lifum í æ ríkara mæli í heimi orða og tákna um leið og við fjarlægjumst þær höfuðskepnur sem eitt sinn voru fastur grundvöllur tilverunnar: jörð, vatn, loft og eldur. Svokallaður sýndarveruleiki orðanna og táknanna umlykur okkur með æ þéttara neti þannig að náttúran hverfur sjónum okkar. „Ég öðlast samsemd með sjálfum mér í tungumálinu, en einungis til þess að glata sjálfum mér í því sem hlut“ [3] sagði franski sálfræðingurinn Lacan og varpaði þannig ljósi á hvernig tungumálið mótar vitund okkar um leið og það hlutgerir veruleikann.

Rétt eins og þeir Judd, Buren, Andre og Long reyna að forðast þennan vanda sem fólginn er í firringu tungumálsins með því að skilgreina og rannsaka rýmið sem beina og milliliðalausa reynslu, þá hafa aðrir listamenn í samtímanum gert tungumálið að viðfangsefni rétt eins og það væri hið raunverulega umhverfi okkar og það landslag sem við hrærumst í. Þetta á við um listamenn eins og Fritz Schwegler, Raffael Rheinsfeld og að einhverju leyti Rosemary Trockel. Verk þeirra snúa að landslagi tungumálsins eins og það væri sjálfstæður veruleiki.

Rosemarie Trockel, Living Means To Play Some Records, 2002

Rosemarie Trockel, Living Means To Play Some Records, 2002

Þannig beinir þessi sýning sjónum okkar að nokkrum grundvallarviðfangsefnum rýmislistar 20. aldar. Hugmyndin um höggmyndina sem hið afmarkaða form er sýnir okkur mynd af heiminum víkur fyrir nýjum rýmisskilningi og rannsókn á sambandi vitundar mannsins við það rými sem hann hrærist í og skapar með veru sinni. Á seinni hluta aldarinnar sjáum við hvernig rýmið tengist tímanum órjúfanlega sem reynsla þess sem skapar það með nærveru sinni og upplifun.

Það er forvitnilegt að sjá hvernig hinn íslenski hluti þessarar sýningar fellur að þeirri umræðu meginlandanna í rýmislist samtímans sem hér er sett á svið. Þótt hálf öld skilji á milli í aldri stendur Edgar Degas (1834-1917) til dæmis nær nútímanum í þeirri umræðu en Einar Jónsson (1873-1954) að því leyti að Einar er ennþá bundinn af táknrænum og lýsandi vísunum í söguna, þjóðlegar hefðir og trúarlega heimspeki, á meðan Degas er fyrst og fremst upptekinn af því að skapa rýmið í augnablikinu með hreyfingu myndarinnar. Sá munur endurspeglar þó fyrst og fremst þann ólíka jarðveg sem þessir listamenn eru sprottnir úr, þannig að samanburður á grundvelli hinnar módernísku hugsunar verður vart raunhæfur.

Gerður Helgadóttir um 1950

Gerður Helgadóttir: Komposition, um 1950

Ef leitað er eftir fyrsta íslenska listamanninum sem verður samstíga því framsæknasta sem er á dagskrá í módernískri rýmislist 20. aldar á meginlöndunum tveimur er nærtækt að staðnæmast við verk Gerðar Helgadóttur (1928-1975) frá upphafi 6. áratugarins. „Kompositionir“ hennar frá þessum tíma eru tilraunir til þess að „teikna“ rýmið með járnskúlptúrum þar sem hrein form og hreinar línur án nokkurrar táknrænnar vísunar takast á við það tómarúm sem umlykur myndina, þannig að hvort tveggja verður jafn mikilvægt í verkinu. Í þessum verkum nálgast Gerður rýmið á fullkomlega nýjan hátt, þar sem horfið er frá öllu lýsandi táknmáli og áherslan færist frá forminu til rýmisins í heild sinni. Gerður var á þessum tíma undir áhrifum frá Bauhaus-hreyfingunni og konstrúktífismanum og átti það sammerkt með jafnaldra sínum Sol LeWitt frá Bandaríkjunum, en ferill hennar hófst fyrr og stóð skemur, því hún lést fyrir aldur fram aðeins 47 ára gömul. Sol LeWitt kom hins vegar fram sem einn af frumkvöðlum minimalismans í upphafi 7. áratugarins og er enn meðal virtustu fulltrúa þeirrar stefnu á Vesturlöndum.

Annar íslenskur fulltrúi á þessari sýningu sem grípur á púlsi samtímans í alþjóðlegu samhengi er jafnaldri þeirra tveggja, Magnús Pálsson (f. 1929), en ferill hans á vettvangi frjálsrar rýmislistar hófst ekki að marki fyrr en á seinni hluta 7. áratugarins með gipsverkum sem gengu þvert á alla formhyggju og þar með þvert á allar hugmyndir Bauhaus-skólans. Magnús varð fyrstur íslenskra rýmislistamanna til þess að kryfja þann vanda er snýr að tungumáli myndlistarinnar og þeirri gjá sem myndast hafði á milli táknanna og þess veruleika sem þau vísa til. Verk hans Flæðarmál frá árinu 1975 er áleitin afhjúpun á blekkingarleik hinnar lýsandi listar landslagsmálverksins. Í stað þess að sjá landið, hafflötinn og himininn sem þrjá samliggjandi fleti á flötu léreftinu út frá sjónarhorni áhorfandans höfum við gipsafsteypu í þremur hlutum sem fela í sér „afsteypu“ jarðarinnar, sjávarins og himinsins. Þannig eru sjórinn og loftið „sýnd“ frá sjónarhorni jarðarinnar, ef svo mætti segja, og þar með grafið undan hinu „húmaníska“ sjónarhorni á veruleikann. Verk Magnúsar eru mikilvægt innlegg í umræðu rýmislistarinnar í alþjóðlegu samhengi og er því óhætt að telja hann brautryðjanda í íslenskri myndlist.

Magnús Pálsson Bestu verkin 1965

Magnús Pálsson: Bestu stykkin, 1965

Sama má segja um Kristján Guðmundsson (f. 1941), en hann hefur einnig glímt við hinn merkingarlega vanda tungumálsins með áhrifaríkum hætti og afhjúpað dulin tengsl hins talaða og myndræna tungumáls. Verk hans Eyjólfr hét maðr (1983) vísar vissulega til hins mikla bókmenntaarfs þjóðarinnar, en gerir það með bókstaflegri hætti en okkur er kannski tamt. Myndin af Eyjólfi og merking nafns hans opinberast hér fyrir okkur í formi og þyngd bókstafsins E – og allt í einu þurfum við ekki meira. Greining Kristjáns á sambandi myndmáls og hugtaka er merkt og frumlegt innlegg í þá heimspekilegu umræðu sem átt hefur sér stað í samtímalistinni á meginlöndunum austan hafs og vestan á síðari hluta 20. aldar.

Að lokum er vert að minnast hér á tvo yngstu fulltrúa íslenskrar rýmislistar á þessari sýningu, þá Finnboga Pétursson (f. 1959) og Þorvald Þorsteinsson (f. 1960). Finnbogi teiknar og skapar rýmið með hljóði og leggur þar með áherslu á að rýmið verður fyrst og fremst til í tímanlegri upplifun þess. Þannig hefur hann sagt afdráttarlaust skilið við alla efnislega lýsingu rýmisins og fært mynd þess yfir í vitund og upplifun „áhorfandans“ sem atburð og reynslu. Þorvaldur notast einnig við hljóð í sínu rýmisverki, en með nokkuð ólíkum hætti. Í verkinu Söngskemmtun (1998) erum við óþyrmilega vakin til vitundar um þann örþunna vegg sem skilur á milli listar og veruleika: við stöndum frammi fyrir lokuðum dyrum „tónleikasalarins“ og heyrum aðeins daufan óm tónlistarinnar sem þar er flutt en sjáum hins vegar fyrir okkur tónleikagestina í yfirhöfnum þeirra sem hanga á fatahenginu. Upplifun þess sem verkið „sýnir“ er öll falin handan við lokaðar dyr og við erum óhjákvæmilega of sein til þess að taka þátt í leiknum. Ábyrgðin á upplifun listarinnar hvílir öll á herðum áhorfandans. Þetta verk Þorvalds er verðug niðurstaða þeirrar sýningar sem hér hefur verið sett á svið og sýnir okkur að hinn íslenski hluti hennar á þar fullt erindi, þótt eflaust hefði mátt tína til fleiri verðuga fulltrúa.

orvaldur Þorsteinsson songskemmtun

Þorvaldur Þorsteinsson: Söngskemmtun,1998

 

———————————————————

[1] sbr. Frances A Yates: The Art of Memory, London 1966

[2] „Der Mensch hat kein Körper und ist kein Körper, sondern lebt seinen Leib“, Martin Heidegger: Corpo e Spazio – Osservazione su arte-scultura-spazio, Genova 2000, bls 32.

[3] J. Lacan: Function and Field of Speech and Language in Psychoanalysis, NY 1977.

Forsíðumyndin: Edgar Degas: Dansmær, um 1890. Ljósm. Frank Horvath.

 

 

 

HIÐ HVERFULA YFIRBORÐ HEIMSINS – Listasafn Akureyrar

Hið hverfula yfirborð heimsins

Í tilefni opnunar sýningar á hollenskri 17. aldar list í Listasafni Akureyrar í september 2002

 

Grein þessi birtist í litlu kveri sem Listasafn Akureyrar gaf út haustið 2002 og fylgdi því djarfa framtaki Hannesar Sigurðssonar safnstjóra, að bjóða Norðlendingum upp á yfirlitssýninguna „Rembrandt og samtíðarmenn hans“, sýningu sem stóð undir nafni og átti sér vart fordæmi á Íslandi, hvað þá norðan heiða. Ég skrifaði þessa grein í tilefni þessa merka framtaks, þar sem ég freista þess að greina meginstrauma í hollenskri myndlist á þessum tíma, einkum með tilliti til Rembrandts, en einnig að grafast fyrir um þá rannsókn á sambandi sjónskyns, myndar og veruleika sem verður eitt megin viðfangsefni barokklistarinnar í Evrópu á 17. öldinni 

Það var Svetlana Alpers sem fyrst gerði skýran greinarmun á þeirri myndlist barokktímans á 17. öldinni, sem átti rætur sínar á Ítalíu annars vegar og í Hollandi hins vegar[1]. Á meðan ítalski barokkskólinn var upptekinn við að þjóna hugmyndum gagnsiðbótar kaþólsku kirkjunnar – í baráttunni við mótmælendur – með því að magna upp trúarlega hrifningu og innlifun, þá voru hollensku kalvínistarnir uppteknir við að lýsa yfirborði heimsins og kortleggja það í þágu hreinnar sjónrænnar þekkingar. Í stað þess að birta okkur mikilfenglegar og ofhlaðnar trúarlegar sýnir inn í handanheiminn leituðust hollensku málararnir við að kanna hið hverfula yfirborð hlutanna eins og það birtist auganu og sýna okkur hið stundlega og hverfula í náttúrunni og samfélaginu, hvort sem það var tilkomumikil sigling skýjann yfir haffletinum, áferðin og ljósbrotið á pelli og purpura borgarastéttarinnar, stundleg svipbrigði lifandi andlitsmyndar eða atvik úr mannlífinu þar sem samfélagið birtist okkur í svipmynd eins og lifandi leikmynd sem fryst er í andrá hins tilviljunarkennda augnabliks, sem augað og höndin hafa höndlað með galdri listarinnar.

Camera-Obscura-pencil

Augað sem myrkraherbergi (Camera obscura). Skýringarmynd frá 17. öld.

Þessi áhugi Hollendinga á sjónskyninu og hinu efnislega yfirborði hlutanna endurspeglar jafnframt nýjar hugmyndir og uppgötvanir 17. aldarinnar á sviði eðlisfræði og heimspeki. Þetta á ekki síst við um ljósfræði Keplers, en hann komst að þeirri niðurstöðu um aldamótin 1600 að sjónskynið ætti uppruna sinn í “mynd” (pictura) hinna sýnilegu fyrirbæra er myndaðist á hvolfi á íhvolfum fleti sjónhinmnunnar í botni augans. Þessi “mynd” var að mati Keplers vélræn og óháð vilja áhorfandans. Kepler taldi að hlutirnir máluðu mynd sína á sjónhimnu augans með litgeislum sínum og hélt fram máltækinu ut pictura, ita visio, sem merkir nánast að það að sjá sé það sama og að “myndgera” hlutina eða mála þá.[2]  Kepler varð fyrstur manna til þess að nota orðið pictura í umræðunni um myndina sem myndast jafnt á sjónhimnunni sem í botni þess myrkraklefa, sem kallaður er Camera oscura, og gegndi mikilvægu hlutverki í sjónrænum rannsóknum hollenskra myndlistarmanna og eðlisfræðinga á 17. öldinni, ekki síst í verkum málarans Jan Vermeers.

Vermeer view-delft.jpg

Jan Vermeer: Útsýni yfir Delft. (Málað með „camera obscura-tækni) 1660-61

Spurningin um hina vélrænu afmyndun hlutveruleikans á sjónhimnu augans og yfirfærslu hennar á tvívíðan myndflötinn vekur óneitanlega upp aðra spurningu um hina hugsandi vitund sem meðtekur myndina og endurgerir hana í huga sínum.

Hvert er þá hlutverk hugverunnar í skilningi og túlkun hins skynjaða yfirborðs og hugsanlegu endurvarpi þess á léreft eða myndflöt?

Þessi spurnig verður ekki síst áleitin þegar við virðum fyrir okkur andlitsmálverkið, einkum sjálfsmyndina, þar sem málarinn horfir á sjálfan sig sem viðfang í spegli og endurvarpar því í mynd þeirrar sjálfsveru er horfir á móti úr málverkinu til höfundar myndarinnar og áhorfanda í senn.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að þótt augað sé móttökutæki og myrkraherbergi samkvæmt ljósfræðinni, þá erum við vön að horfa í augu manna eins og þau sýni útgeislun persónunnar. Okkur er tamt að tala í þessu sambandi um áhorf, rétt eins og um væri að ræða frákast frá auganu en ekki móttöku. Þótt augað sé móttökutæki og skynfæri þá er það um leið þær dyr sjálfsvitundarinnar sem maðurinn opnar gagnvart umheiminum. Við sýnum okkur sjálf um leið og við sjáum.[3]

velazquez Las meninas 1656-8

Velazquez: Las meninas, 1656.

Þær þversagnakenndu aðstæður, sem þannig  geta myndast andspænis sjálfsmyndinni, hafa kannski hvergi verið betur krufnar en í málverki Velazquez af hirðmeyjunum (Las Meninas, 1656). Í snilldarlegri greiningu sinni á þeirri mynd bendir Michel Foucault[4] á að Velazquez hafi með þessu verki afhjúpað vanda alls endurvarps sannleikans á tvívíðan myndflöt, því viðfang og inntak myndarinnar verði ekki sýnd nema í ósýnileik sínum. Velazquez hefur í verki þessu málað sjálfan sig þar sem hann er að mála konung og drottningu Spánar, sem sjást þó ekki nema óljóst í daufri spegilmynd í bakgrunni myndarinnar. Áhorfandinn og hinn raunverulegi málari myndarinnar eru hins vegar settir í hið ímyndaða sæti konungsins undir vökulum augum hirðmeyjanna og dvergsins.  Gerandi, áhorfandi og viðfang myndarinnar falla þar með saman í einn ósýnilegan sannleika sem ekki verður sýndur öðruvísi en í því yfirborði sem felur viðfang sitt og skilur áhorfandann eftir í óleystri þversögn um sannleika listarinnar.

Spurningar þær sem Velazquez setur fram í þessu málverki og Foucault hefur orðað á meistaralegan hátt, varpa ljósi á þann vanda allrar myndlistar að kalla fram og sýna það sem ekki er til staðar í raun og veru. Þessi vandi verður aðkallandi á barokktímanum í ljósi nýrra hugmynda í heimspeki og vísindum. Þannig heldur Jean-Luc Nancy því fram í fyrrnefndri ritgerð um andlitsmyndina að öll röksemdafærsla Descartes um cogito byggi á þversögn hliðstæðri þeirri sem málverk Velazquez birtir okkur: hin klára sýn Descartes byggir á lögmálinu “videre videor” sem merkir það að sjá og vera séður eða sýnast um leið. Sjáandinn kallast á við hið séða eða það sem sýnist eins og gríman sem kallast á við andlit sitt og inntak.

Í Hollandi birtist þessi vandi okkur fyrst og fremst í myndlistinni: í kyrralífsmyndunum, landslagsmyndunum, þjóðlífsmyndunum og ekki síst í sjálfu andlitsmálverkinu.

Sagan segir að aðeins ein setning hafi varðveist af munni Rembrandts: “Ég hef eingöngu gert andlitsmyndir”[5].

remsp1660a

Rembrandt: Sjálfsmynd um 1660

Setningin minnir á þau orð Leonardos að sérhver málari máli sjálfan sig. En það sem gerir þessa setningu trúverðuga af munni Rembrandts er ekki skilningur Leonardos, heldur öllu frekar sú aðferð Rembrandts, sem birtist í þykkri og tjáningarfullri pensilskrift málverksins og fljótandi línuskrift ætinganna og fær okkur til að trúa því að fyrir honum hafi viðfangsefni myndlistarinnar ekki bara falist í því að endurvarpa “myndinni” sem fellur á sjónhimnu augans yfir á léreftið, heldur jafnframt og ekki síður að raungera sjálfan sig í þeirri athöfn, sem í sjálfri málaralistinni er fólgin. Efnisnotkun hans og aðferð við að smyrja litnum á léreftið í olíumálverkinu eða draga línuna á koparplötuna í grafíkmyndinni verður að ástríðufullri leiksýningu þar sem viðfangið vex út úr myrkvuðu tómi myndarinnar í efniskennd sinni og tekur á sig form, verður eins og leiksýning, þar sem leikarinn, málarinn, raungerir sjálfan sig í hinum líkamlega verknaði hugar og handar. Slíkan persónulegan “stíl” sjáum við ekki í annari myndlist fyrir hans daga, og mætti jafnvel halda því fram að í honum megi finna vísbendingu um þá djúpu einstaklingshyggju, sem einkennir tíma kalvínismans í Hollandi. Jafnframt afhjúpa sjálfsmyndir hans þversögn allra sjálfsmynda heimsins, – þversögn þess sjáanda sem horfir á sjálfan sig sjá -, betur en flest annað sem gert hefur verið á þeim vettvangi.

rembrandt-etching-morgan

Rembrandt: Sjálfsmynd sem sögupersóna 1654

Sjálfsmyndir Rembrandts eru grímur, og hann er sér meðvitaður um það. Hann bregður sér í hin ólíkustu gervi andspænis speglinum og léreftinu. Fyrirsætan Rembrandt, sem horfir á málarann Rembrandt úr spegli sínum, er leikari – og persónan sem hann skapar á léreftinu og horfist í augu við málarann jafnt og áhorfandann, er gríma; á bak við augu hennar og áhorf er tómur strigi; sannleikur sem öllum er hulinn. Augu grímunnar eru alltaf tómar tóftir. (Þess má geta að í Grikklandi til forna var orðið persona notað um grímu leikarans). Inntak myndarinnar og vitund og sjálfsvera málarans sýna sig með fjarveru sinni undir yfirborði grímunnar eins og sá hugsandi hlutur (res cogitans) sem hugsar sjálfan sig hugsandi og René Descartes sá fyrir sér sem forsendu alls frumspekilegs sannleika. Á bak við léreftið er ekkert. Það er hins vegar í pensilskriftinni, glóð litarins og flugi línunnar sem málarinn raungerir sjálfsveru sína. Við þekkjum Rembrandt ekki af þessum myndum vegna líkingar við frummyndina, heldur vegna þess að hann hefur raungert sjálfan sig í sjálfum galdri málaralistarinnar. Sannleikur myndarinnar er ekki eftirlíkingin, heldur atburður sem gerist á léreftinu. Þess vegna hefði Rembrandt vel getað sagt í líkingu við samtímamann sinn, Descartes: “Ég mála, þess vegna er ég til”. En þar sem Descartes fann sönnunina fyrir tilvist sinni í hugsuninni (Cogito, ergo sum), þá fann Rembrandt sjálfan sig í efniskennd litarins á léreftinu og línunnar í ætingunni.[6]

c1437fe5583292ca92e8723fb609ba5d

Rembrandt: Sjálfsmynd 1653

Svetlana Alpers hefur bent á það að vinnustofa Rembrandts hafi verið eins og lítið leikhús eða leiksvið[7]. Á því leiksviði var hann sjálfur oft í aðalhlutverki, en hann notaðist líka við fyrirsætur, klæddi þær upp og sviðsetti myndir sínar eins og leikstjóri. Rétt eins og hann brá sér sjálfur í ólík gervi klæddi hann fyrirsætur sínar í framandlega búninga úr búningasafni sínu. Oft voru þetta búningar sem leiddu hugann að fjarlægum menningarheimi austurlanda og voru fjarri hinum daglega umhverfi hans í Hollandi. Sögur úr Biblíunni voru honum umfram annað kærkomið tækifæri til þess að hverfa í fjarlæga og draumkenndari veröld. Heimur Rembrandts er leiksvið, rétt eins og heimur Shakespeares: “All the world’s a stage, And all the men and women merely players”, segir Jaques í leikriti hans, As you like it. Þessi heimur leiksviðsins nærist á meðvitaðri sjónhverfingu og blekkingu sjónarinnar. Rembrandt trúir ekki á “sanna” yfirfærslu myndarinnar frá sjónhimnu augans yfir á léreftið eins og svo margir aðrir samtímamenn hans virtust gera. Hann virðist líka hafa gert sér grein fyrir harmsögulegri merkingu þeirrar blekkingar, sem myndlist hans snérist um. Það er hin harmsögulega vídd sem greinir hann frá samtímamönnum eins og Vermeer, Saenredam, Potter, Claesz eða Dou. Þeir virðast hafa haft meiri tiltrú á bókstaflegt sannleiksgildi myndmálsins, eða ekki velt því vandamáli sérstaklega fyrir sér. Þeir máluðu yfirborð heimsins af sannri forvitni, einlægri gleði og löngun til að öðlast þekkingu og vald á umhverfi sínu. Einnig sú sýn gerir hollenska myndlist 17. aldarinnar einstakt framlag til evrópskrar listasögu á 17. öldinni.

Vermeer art-painting

Jan Vermeer: Allegoria um málaralistina, 1666-68.  Málaralistin kortleggur yfirborð heimsins eins og landabréfið sýnir.

Það úrval hollenskrar myndlistar, sem Listasafn Akureyrar hefur fengið að láni frá Ríkislistasafninu í Lettlandi, leiðir okkur vissulega inn í þennan heillandi heim. Ekki er hægt að ætlast til þess af sýningu sem þessari að hún sýni okkur hátinda hollenskrar 17. aldar myndlistar. En það úrval verka sem hér hefur verið valið leiðir okkur engu að síður inn í þennan heillandi tíðaranda með sannfærandi hætti, og vissulega eru þarna hrein gullkorn eins og nokkrar ætingar Rembrandts. Þorri myndanna ber dæmigerð hollensk einkenni, en nokkrir listamannanna bera með sér áhrif ítalska skólans af ætt mannerisma (Goltzius, Saenredam) eða hins kaþólska barokkskóla (Francken II, Martszen, Veen, skóli Van Dyck.).

Rembrandt Engillinn yfirgefur Tobias 1641

Rembrandt: Engillinn yfirgefur Tobias, 1637

Af ætingum Rembrandts eru þarna perlur eins og sjálfsmyndin: Maður að teikna gifsmynd, en þó ekki síður Engillinn yfirgefur fjölskyldu Tóbíasar, þar sem við sjáum í iljar engilsins eins og hann væri Súperman úr nútímalegri ævintýramynd. Dæmigert fyrir þann skilning Rembrandts, að heimurinn sé leiksvið. Og mynd hans af Hagar og Ísmael er sviðsett eins og austurlenskt ævintýri, en hefur um leið óvæntan boðskap til okkar samtíma: Ísmael og ambáttinni Hagar var vísað úr húsi Abrahams, til þess að víkja fyrir yngri bróðurnum Ísak. Til þeirrar deilu var stofnað að kröfu Söru og í óþökk Abrahams, en þessi fjölskyldudeila stendur nú enn sem hæst í landinu helga, þar sem Palestínumenn og gyðingar telja sig afkomendur þessara hálfbræðra, sem ekki fengu að búa undir sama þaki. Það er ekki trúlegt að Rembrandt hafi gert sér grein fyrir spádómsgildi þessarar myndar þegar hann risti hana á koparplötuna. Á sama hátt er mynd hans af Fást sviðsetning sem vísar til dulspekilegra pælinga, gullgerðarlistar og kabbalafræða. Slíkar vísanir heyra til undantekninga í hollenskri 17. aldar list þar sem handanheimurinn víkur gjarnan fyrir hinu sýnilega yfirborði hlutanna. Um það höfum við sláandi dæmi í þjóðlífsmyndum Pots, Bakenburghs og Dusarts, landslagsmyndum Brueghels og Backhuysen, kyrralífsmynd Van Lijenden og dýramyndum Van der Velde. Það er mikill fengur af þessari sýningu og nýmæli í íslensku myndlistarlífi, sem ætti að gefa tilefni til umhugsunar um leyndardóma þeirra myndrænu lýsingar á heiminum sem endanlega er viðfangsefni allrar skapandi myndlistar.

Ólafur Gíslason

[1]  Sjá: Svetlana Alpers: The Art of Describing. Duch Art in the Seventeenth Century. The University of Chicago Press, 1983.

[2]  Ibid. bls. 51-57

[3]  Sjá: Jean-Luc Nancy: Le regard du portrait, Editions Galilée, 2000.

[4] Michel Foucault: The order of Things. An Archeology of the Human Sciences, Vintage Books N.Y. 1994, bls. 3-16

[5] Sjá: Henri Matisse: Scritti e pensieri sull’arte, Torino 1982, bls. 136

[6] Sbr: Svetlana Alpers: Rembrandt’s Enterprise. The Studio and the Market. University of Chicago 1988

[7] Ibid, bls. 40-69.

 

%d bloggers like this: