SJÓNARHORN Á SAMTÍMANN Þegar ég var að taka til í tölvunni minni nýverið fann ég þessa gömlu skrá sem hafði að geyma texta sem ég skrifaði fyrir vandaða sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur í tilefni sýningarinnar „Skúlptúr Skúlptúr Skúlptúr – Íslensk samtímalist“, sem haldin var á Kjarvalsstöðum vorið 1994. Þetta var metnaðarfullt verkefni sýningarstjóranna Gunnars Kvarans og Kristínar G. Guðnadóttur þar sem 28 ungir listamenn höfðu verið valdir til að gefa yfirlit yfir íslenska samtímalist eins og hún blasti við sýningarstjórunum. Það má segja að þetta hafi verið tímamótasýning að mörgu leyti, en þetta unga listafólk var að mestu fætt á 6. áratugnum og því í blóma lífsins. Verkin voru fjölbreytt og því bauð heildaryfirbragðið upp á mörg óvænt sjónarhorn á samtímann, en í heildina var þetta vel heppnuð sýning sem sýndi að þetta unga og hæfileikaríka fólk hafði tileinkað sér margt af því nýjasta í evrópskri samtímalist og heimfært það upp á íslenskan veruleika eftir bestu getu. Ég man ekki vel hvernig ég kom að þessum skrifum, en fann þó að erfitt væri að skrifa um sýningu sem ég hefði ekki séð, þar sem bókin kom út við sýningaropnun. Ég þekkti að vísu þátttakendur af góðu einu, en vissi í raun alls ekki hvað þarna yrði á boðstólum, eða hvernig þeim stólum yrði upp stillt. Ég tók því þann pólinn í hæðina að búa til ímyndaðan sjónarhól á þessa ímynduðu sýningu: ímynda mér hvernig sýningargestur frá Grikklandi um 500 f. Kr. Myndi túlka þessa sýningu sem var líka ímyndun í mínum huga. Ég hafði sumarið áður upplifað einhverja áhrifamestu skúlptúrsýningu ævi minnar, sem var sýningin á vígamönnunum frá Riace, tveim bronsstyttum sem sýndir voru í fyrsta skipti í Flórens eftir að hafa fengið þvott og snyrtingu sérfræðinga, snyrtingu sem tók nokkur ár því vígamennirnir höfðu legið í sjónum í nær 2500 ár og höfðu brýna þörf fyrir yfirhalningu. Þessi upplifun hefur lifað með mér í þau 30 ár sem liðin eru, og nú stefni ég á endurfund í sumar til Calabriu, þar sem bronsmyndirnar hafa fengið varanlegan dvalarstað í fornminjasafniinu í Reggio Calabria, en verkin fundust á sjávarbotni út frá nágrannabænum Riace árið 1975. Þessi texti minn fjallar semsagt um sjónarhorn á samtímann, sem kemur úr talsverðri fjárlægð. Slík fjarlægð býður upp á óvæntar uppákomur, sem fram koma meðal annars í þessum texta, vonandi einhverjum til ánægju.
Frá Kjarvalsstöðum til Riace
Í leit að mælikvarða til skilnings á rýmislist samtímans
I
Þegar ég var nýlega að því spurður, hver væri eftirminnilegasta upplifun mín af rýmislist á síðari árum, kom mér í hug sá atburður er ég fékk tækifæri til að sjá bronsmyndirnar frá Riace, sem sýndar voru í fyrsta skipti í Flórens á miðjum síðasta áratug eftir að þær höfðu legið í allt að 2500 ár á sjávarbotni undan strönd bæjarins Riace Marina í Kalabríu. Myndir þessar, sem sýna tvo nakta gríska hermenn, eru frá upphafi hins klassíska tímabils í sögu grískrar menningar (um 500 f.Kr.), og bera með sér svipmót hinnar grísku hetjusögu, sem endurspeglar það hamingjusama jafnvægi manns og náttúru er ríkti á Olympsfjalli í árdaga, þegar hinir grísku guðir höfðu unnið sigur á risum, títönum og öðrum fordæðum hinna illskeyttu náttúruafla í frumbernsku grískrar goðafræði og sögu.
Bronsmennirnir frá Riace, um 500 f.Kr. Óvæntir gestir á Kjarvalsstöðum
Þessir nöktu grísku hermenn hafa fullkominn líkamsvöxt og eru algjörlega afslappaðir og í andlegu og líkamlegu jafnvægi. Líkamar þeirra eru mótaðir af nákvæmri þekkingu á byggingu mannslíkamans, þar sem hverju smáatriði er komið til skila, ekki síst í skeggjuðum andlitum þeirra og síðhrokknu hári, þar sem hvíta augnanna og messinglitaðar varirnar skera sig úr hinum spanskgræna eir. Undir sléttri húðinni sést sums staðar djarfa fyrir slætti slagæðanna, brjóstvöðvarnir eru ávalir og stinnir, kviðurinn mjúkur og sléttur og fagurlega mótaður limurinn óvarinn. Þeir kreppa báðir vinstri olnboga og rétta fram handlegginn, sem hefur bersýnilega haldið skyldi, sem nú er horfinn, en hægri höndin fellur afslöppuð niður með líkamanum. Annar þeirra virðist hafa haft spjót í hægri hendi, sem hann studdi við jörð, en er nú horfið. Sá hinn sami hefur einnig misst annað augað, þannig að í stað augnhvítunnar er nú gat inn í holan hausinn, umlukið fagurmótaðri umgjörð augans. Að öðru leyti eru þessar styttur ótrúlega vel varðveittar, nema hvað þær standa í bera fæturna á tilbúnum stöpli: undirstaðan er horfin og þar með upprunaleg innbyrðis afstaða þeirra í rýminu. Bronsmennirnir standa báðir í hægra fótinn á meðan sá vinstri er afslappaður og eilítið beygður um hnjáliðinn, og yfir þeim hvílir sjálfsöryggi og reisn, sem er fágæt en þó fullkomlega mannleg. Þeir eru um 2 metrar á hæð, og áferðin á eirnum er fagurgræn og glansandi eftir vandlega viðgerð og ljósið og birtan taka breytingum í takt við fullkomin líkamsformin þegar maður gengur umhverfis stytturnar, sem greinilega eru gerðar til þess að standa saman á bersvæði. Annar hermaðurinn horfir djarfur og opinn fram og upp á við, á meðan hinn beinir sjónum sínum fram og niður á við eins og hann sé meira inni í sjálfum sér. Nærvera þeirra er svo sterk að hún gefur rýminu umhverfis nýtt viðmið og nýja merkingu.
Bronsmyndirnar fundust á sjávarbotni árið 1972, og eru einn merkasti fornleifafundur síðari tíma í Evrópu. Þær eru nú varðveittar á fornminjasafni í borginni Reggio Calabria, syðst á Ítalíuskaganum, í námunda við fundarstaðinn.
II
Því er þetta stefnumót mitt við þessa forngrísku hermenn rifjað upp hér, að það getur varpað forvitnilegu ljósi á viðfangsefni þessarar samantektar, sem er íslensk rýmislist síðasta áratugar, eins og hún birtist hjá yngstu kynslóð íslenskra listamanna. Í þessu langa sögulega samhengi og úr þessari fjarlægð vakna ýmsar forvitnilegar spurningar:
* Hvaða forsendur höfum við til að skilja þessa 2500 ára gömlu grísku rýmislist, og að hvaða leyti er skilningur okkar frábrugðinn skilningi höfundarins og samtímamanna hans?
* Hvaða augum myndi höfundur bronsmyndanna frá Riace líta þessa yfirlitssýningu á íslenskri rýmislist frá síðasta áratug 20. aldar, sem hér er haldin í Listasafni Reykjavíkur? Hefði hann einhverjar forsendur til að skilja það sem þar er að sjá?
* Á sú rýmislist, sem nú er sýnd í Listasafni Reykjavíkur, eitthvað sameiginlegt með þessum grísku bronsmyndum, eða er um fullkomlega óskyld fyrirbæri að ræða í einu og öllu?
* Leggjum við að einhverju leyti sambærilega mælikvarða á rýmislist samtímans og rýmislist fornaldar, og ef svo er, hverjar eru þá hinar sameiginlegu forsendur?
* Ef ekki, er þá ekkert samhengi í listasögunni, eða hefur það endanlega verið rofið?
Spurningar eins og þessar eru yfirgripsmeiri en svo, að þeim verði svarað til nokkurrar hlítar í þessari samantekt. Engu að síður varða þær grundvallarforsendur þess viðfangsefnis, sem mér er ætlað að gera skil. En það er spurningin um þann mælikvarða og þær forsendur sem við notumst við, þegar við leggjum mat á gildi og merkingu þess fjölbreytilega viðfangsefnis, sem er rýmislist í fortíð og nútíð.
Brunavörður Slökkviliðs Reykjavíkur (úr verki Þorvalds Þorsteinssonar) og bronsmennirnir frá Riace
III
Ef ég ætti að reyna að lýsa upplifun minni af stefnumótinu við hermennina frá Riace, þá yrði það flóknara en svo, að um væri að ræða einskær hughrif. Hughrifin eru hins vegar fyrsta stig þessa stefnumóts: það að upplifa sjálfan sig skyndilega í þessum nöktu ofurmennum og öðlast þannig einhverja óumræðilega hlutdeild í einhverjum altækum og óræðum veruleika, sem er í raun handan hins áþreifanlega og efnislega hlutar. Slíkt algleymi er það sem stundum er kallað listnautn. Eitthvað álíka og að fara í sturtubað: við finnum sæluhrollinn meðan vatnið rennur um líkamann, en svo er það búið.
Hvers vegna vakti sturtubaðið þennan sæluhroll og þetta algleymi? Slíkri spurningu verður ekki svarað með frösum um „fullkomið form“ eða „hlutlausa fullnægju“ eða einhverju þaðan af verra. Hrollurinn er forboði sem kallar á frekari úrvinnslu eða krufningu, og sú krufning varðar bæði skilning og snertingu og tekur jafnframt til innihalds og merkingar. Hún varðar einnig bæði tilfinningalegar og þekkingarlegar/sögulegar forsendur þess er skoðar verkið. Hún varðar líka (fátæklega) þekkingu okkar og skilning á grísku samfélagi fyrir 2500 árum.
Þýski heimspekingurinn Theodor W. Adorno hefur sagt, að list fortíðarinnar hljóti ávallt að vera okkur torskildari, því eldri sem hún er, þar sem reynslan er liggi á bak við hana sé okkur fjarlægari. Hið auðskiljanlega, sem okkur finnst við oft sjá í list fortíðarinnar sé blekking, og þessi blekking sé jafnframt fyrsta og helsta hindrunin í vegi fyrir raunverulegum skilningi okkar á list fortíðarinnar. Hins vegar hljóti sú reynsla, sem liggi að baki innihaldsríkrar samtímalistar, að vera okkur bæði nærtækari og auðskildari. „Öfgafyllstu ögranir og framandleiki sem finna má í samtímalistinni … standa okkur nær en gömul list, sem okkur virðist einungis nærtæk vegna sögulegrar hlutgervingar. „1
Eftir því sem ég hugleiddi bronsmennina frá Riace lengur, fannst mér ég eignast hlutdeild í tilveru, sem var mér í raun því meiri ráðgáta, þeim mun meir sem ég reyndi að nálgast hana. Ég fann að skilningur minn á blygðunarlausri nekt þessara íturvöxnu hermanna var merktur af arfborinni kynferðislegri bælingu og undirgefni, sem okkar kristni menningararfur er fullur af. Hrifning mín var blandin illa meðvituðum fortíðartrega, er beindist að samfélagi sem ég þekkti ekki af eigin reynslu, þótt slík reynsla væri að öllum líkindum falin í erfðavísum og ómeðvitaðri minningu líkamans. Tregi yfir horfinni paradís, sem ég hef í rauninni aldrei þekkt, en kannski látið mig dreyma um. En jafnframt fann ég í köldu augnatilliti hermannanna eitthvert sjálfsöryggi, sem var allt að því ógnvekjandi og valdboðslegt, enda þótt vald þeirra væri greinilega af öðrum toga en þeim sem sjá má í nýklassískum hetjumyndum síðari tíma, til dæmis frá tímum fasismans í Evrópu, (sbr. stytturnar af íþróttahetjununum umhverfis olympíuleikvanginn í Róm, sem reistur var á dögum Mussolini.) Hér var ekki um hefðbundna retoríska ofbeldissefjun að ræða, heldur fólst í þessu sjálfsöryggi eitthvert vald yfir náttúrunni og náttúruöflunum, sem verkaði sem upphafning yfir hið einstaklingsbundna og tilkall til hinnar algildu mannsmyndar, sem var ógnvekjandi og hrífandi í senn.
Hefði ég þekkt af eigin reynslu þann veruleika , sem þessar bronsmyndir eru sprottnar af, hefði ég þá ekki brugðist við þeim með öðrum hætti? Hefði ég kannski gagnrýnt höfundinn fyrir að taka undir þá karlupphafningu og kvennakúgun, sem landlæg væri í þjóðfélaginu? Hefði ég kannski gagnrýnt hann fyrir að horfa framhjá þeirri þrælkun og því ofbeldi, sem væri daglegt hlutskipti stórs hluta þjóðarinnar? Eða hefði ég kannski gagnrýnt hann fyrir siðspillandi myndlist er höfðaði til holdlegrar munúðar á kostnað andlegra dyggða og meinlætis?
Hversu óralangt hlaut ég að vera frá skilningi listasmiðsins, sem steypti þessar myndir í brons fyrir 2500 árum!
Fyrir honum hafa myndirnar gengt ákveðnu hlutverki í hinni grísku polis eða borg, hlutverki sem var bæði sögulegt og samfélagslegt og skilyrti bæði merkingu og form. Það ber vott um snilld smiðsins að verkið skuli vera okkur ögrandi ráðgáta 2500 árum síðar. Ráðgáta sem kallar á skilning, án þess að gefa minnstu von um endanlegt svar.
IV
Ímyndum okkur nú, að okkur tækist að vekja þennan ókunna listasmið af 2500 ára svefni sínum og leiða hann inn í Listasafn Reykjavíkur að Kjarvalsstöðum. Reynum að setja okkur í spor hans og ímynda okkur upplifun hans af þessari sýningu. Myndi hann upplifa það ögrandi sturtubað og þann sæluhroll, sem ég fann til í Flórens forðum daga? Myndi hrollurinn duga honum til frekari hugleiðslu og krufningar á reynslu sinni og tilefni hennar?
Við vitum að þessi maður hefur yfirburða tækniþekkingu á rýmislist og býr yfir formskyni sem tekur flestu fram, er sést hefur hér á landi. Trúlega er þetta einnig hógvær maður og lítillátur, sem lítur á sjálfan sig sem fagmann er hafi hliðstæðu hlutverki að gegna og húsasmiðurinn, pípulagningameistarinn, skósmiðurinn og klæðskerinn: að smíða hluti er sameini nytsemd, fegurð og merkingu. Í Grikklandi til forna voru myndlistarmenn ekki settir á bekk með heimspekingum, fræðimönnum og skáldum er störfuðu að „hinum frjálsu listum“. Þeir voru fyrst og síðast handverksmenn sem unnu verk sitt af þeirri list, sem sérhvert viðfangsefni krafðist til þess að geta fullnægt ákveðnu hlutverki og miðlað ákveðinni samfélagslegri merkingu og reynslu.
Finna B Steinsson: Þúfur á stétt Kjarvalsstaða, 1994
Þegar listasmiðurinn frá Riace nálgast Kjarvalsstaði, spyr hann sjálfan sig trúlega fyrst af öllu, hvaða hlutverki þetta lágreista hús gegni. Og við blasir strax, að það er ekki með öllu frábrugðið grísku hofi, þótt inngangurinn sé óhefðbundinn. Hann veitir fánum lýðveldisins og höfuðborgarinnar athygli, þar sem þeir blakta við hún á háum stöngum í bláum, hvítum og rauðum litum, og hann stikar yfir grænar þúfur Finnu B. Steinsson, sem vaxa upp úr stéttinni fyrir framan húsið. Hann gengur framhjá ryðbrenndum stálplötum Steinunnar Þórarinsdóttur í forgarðinum og staðnæmist í Vestursalnum andspænis vínrauðu rými og pappírsformum Svövu Björnsdóttur. Þar fær hann fyrstu staðfestingu á grun sínum, og telur nú spurninguna einungis snúast um það, hvaða guði eða guðum þetta hof sé helgað. Vinur okkar myndi ekki skilja hugtakið safn, eða tilgang þess að safna saman verkum er ekki hefðu heildstæða trúarlega eða þekkingarlega merkingu og hlutverk, er tengdust ákveðnu ritúali eða helgiathöfn. Hann reynir að ímynda sér þær trúarathafnir, er hér fara fram og þau trúarbrögð er liggi hofinu til grundvallar. Hvert er hlutverk prestanna í þessu húsi, hvar er staður safnaðarins, hvar innsti helgidómurinn og hvar blótstallurinn? Út frá verkum Svövu Björnsdóttur myndi hann rekja rauðan þráð í gegnum kapellu Steingríms Eyfjörðs með sínum rauða krossi, í gegnum slökkviliðsstöð Þorvalds Þorsteinssonar að brenndu hraungrýti Halldórs Ásgeirssonar, sem stendur á blótstalli í garðinum eins og endanleg sönnun þess, að trúarbrögðin sem iðkuð eru í þessu húsi tengist eldinum náið. Út frá þessari niðurstöðu myndi hann síðan skoða helgidómana í glerskáp Guðrúnar Hrannar, velta fyrir sér undarlegri uppsetningu á helgiritum Ástu Ólafsdóttur og komast að þeirri niðurstöðu, að hvítur kassi Ólafs S. Gíslasonar með málaratrönunum umhverfis væri ef ekki blótstallur, þá öllu heldur ímynd æðsta guðsins. Hvítur litur hans gæti bent til vatnsins í frosnu formi þess, enda kenni hinir innfæddu sjálfa sig og land sitt við ís. Hann veltir síðan vöngum yfir merkingu trúarlegra tákna í verkum Kristins Hrafnssonar og hlutverki sósukönnu Önnu Líndal í trúarathöfninni. Svargrænir tréhnullungar Guðjóns Ketilssonar yrðu honum verðug vísbending um jarðnesk tengsl og frjósemisdýrkun, djúpblátt „Draumarými“ Erlu Þórarinsdóttur vísaði veginn til himinsins ásamt með vindverki Finnboga Péturssonar. Mælikvarða Rúríar myndi hann taka sem teikn jarðarguðsins, og þar með væri dæmið að stórum hluta gengið upp: Trúarbrögðin, sem iðkuð eru í þessu húsi, tengjast greinilega höfuðskepnunum fjórum, eldi, lofti, vatni og jörð og samsvarandi litum: rauðum, bláum, hvítum og svörtum/grænum. Ýmislegt benti einnig til þess, að samkvæmt trúarbrögðum innfæddra hvíldi viss bannhelgi á mannsmyndinni, því áberandi lítið væri um það að guðirnir væru sýndir í mannsmynd.
Guðjón Ketilsson: Hnullungar úr máluðu tré, Nafnlaust verk frá 1994
Smiðurinn frá Riace myndi trúlega ekki hugleiða listrænt gildi þessara verka í sjálfum sér, þar sem honum væri það ekki tamt að einangra slíkt gildi frá merkingu og tilgangi sérhvers fyrirbæris í þessum annars flóknu og fjölbreytilegu trúarbrögðum. Hvort einstök verk myndu vekja með honum sæluhrollinn er erfitt að segja, en hugsanlega gæti það hafa gerst andspænis tæknilega fullkomnum slökkvibúnaði Þorvalds Þorsteinssonar, rafmagnsgaldri Finnboga Péturssonar eða hvítum kassa Ólafs S. Gíslasonar. Slíkur hrollur væri hins vegar að öllum líkindum forsenda þess, að vinur okkar héldi hugleiðslu sinni áfram um merkingu og tilgang þessa hofs, og þeirra framandlegu hluta, sem það hefur að geyma.
V
Við sjáum nú að listasmiðurinn frá Riace hefur misskilið sýninguna í Listasafni Reykjavíkur í grundvallaratriðum. Hann skilur ekki einfalda hluti eins og þá, að verkin í húsinu voru valin sérstaklega til þessarar sýningar fyrir eigin verðleika, án þess að nokkur heildstæð trúarbrögð eða heildstætt þekkingarlegt markmið lægju þar að baki.
Maðurinn skilur ekki fyrirbæri eins og listasafn og það menningarlega hlutverk, sem slíkar stofnanir gegna í upplýstu nútímasamfélagi. Hann skilur ekki að safnið á sér lýðræðislega kjörna stjórn og lögverndað hlutverk sem miðill myndlistar samtímans. Möguleikar hans á að skilja það sem fram fer í þessu húsi eru vægast sagt afar takmarkaðir, og því kemur ekki á óvart að ályktanir hans séu að mörgu leyti fjarstæðukenndar.
Spurningin um það, hvort möguleikar okkar á að skilja bronsmyndirnar sem sóttar voru á hafsbotn eftir að hafa hvílt þar í 2500 ár séu á einhvern hátt meiri, verður að liggja á milli hluta, því höfundurinn er því miður ekki til frásagnar. En óneitanlega verður reynslan af ímyndunartilraun okkar ekki til þess að styrkja okkur í trúnni á hinn „rétta“ skilning okkar, jafnvel þótt við höfum 2500 ára sögu á okkar bandi.
VI
Þá komum við að næstu spurningu, það er að segja hvort rýmislist samtímans eins og sú, sem Listasafn Reykjavíkur býður upp á, sé í eðli sínu alls óskyld list á borð við bronsmyndirnar frá Riace, eða hvort þar sé, þrátt fyrir gjörólíkt ytra yfirbragð, um einhverjar sameiginlegar grundvallarforsendur að ræða?
Þetta er erfið spurning, en afar mikilvæg, ætlum við okkur að finna haldbæran mælikvarða á það viðfangsefni, sem hér er til umfjöllunar.
Það liggur í augum uppi, að sláandi munur er á bronsmyndunum frá Riace og þessari sýningu. Sá munur skýrist ekki eingöngu af því að fyrirbærin séu fjarlæg í tíma og rúmi. Það eru ekki nema 100 – 150 ár síðan menn sáu helsta mælikvarða á listræna fegurð einmitt í styttum á borð við þessar. Nægir þar að nefna Bertel Thorvaldsen, sem lést árið 1844, aðeins 100 árum fyrir stofnun íslenska lýðveldisins. Á þessum 150 árum hefur heimurinn reyndar breyst mikið, sennilega meira en á næstu 2400 árum þar á undan. En engu að síður getur skýringin hvorki legið í tímanum né fjarlægðinni. Við hljótum að leita hennar í ólíkri afstöðu, ólíkum skilningi á merkingu og tilgangi, innihaldi og formi, fegurð og ljótleika. Og umfram allt: ólíkum skilning á náttúrunni og sögunni.
Á bak við íturvaxin form bronsmyndanna frá Riace býr eins og áður var sagt bjargviss trú og ögrandi sjálfsöryggi, sem birtist okkur í altæku formi er sameinar hið einstaka og hið almenna: hermennirnir eru í upphafningu sinni hafnir yfir hið einstaklingsbundna og brotakennda, þeir eru ímynd heildstæðrar sýnar á náttúruna og þeir eru jafnframt ímynd þeirrar náttúru, sem maðurinn hefur hamið og steypt í brons. Rýmislist samtímans einkennist af hinu gagnstæða: hún er brotakennd og gerir ekki tilkall til þess að endurspegla algildan veruleika og altæk sannindi. Hinn algildi og altæki sannleikur, sem liggur til grundvallar bronsmyndunum frá Riace, er ekki lengur til staðar. Sú útópía, að maðurinn og náttúran eigi sér fullkomna og algilda samsvörun í sögunni og að sagan sé opinberun á guðdómlegum vilja, er ekki lengur haldbær.
Ástæðan er margþætt. Við getum leitað hennar í vísindabyltingu þeirra Kópernikusar og Galileos, sem hrifsuðu jörðina út úr miðju fastmótaðrar heimsmyndar og vörpuðu henni (og gjörvöllu mannkyninu með) á sporbraut út í ómælisvíddir óendanlegs rýmis, sem á sér engin skiljanleg takmörk. Við getum leitað hennar í þeirri uppgötvun að frelsi mannsins og lögmál náttúrunnar falli ekki saman, heldur birtist okkur í illleysanlegri mótsögn. Við getum leitað hennar í firringu mannsins frá náttúrunni, vinnunni og sjálfum sér, þar sem hið einstaka og brotakennda hefur komið í stað hins algilda og altæka, magnið fyrir gæðin og yfirskinið fyrir hinn trausta kjarna. Myndlistin endurspeglar aðstæður mannsins, og mælikvarðar myndasmiðsins frá Riace gilda ekki lengur á okkar veruleika.
VII
Eru þá myndirnar frá Riace og samtímalistin alls óskyld fyrirbæri? Er ekki um neinn sameiginlegan mælikvarða að ræða?
Í fljótu bragði getum við séð einn sameiginlegan mælikvarða. Í báðum tilfellum er um ákveðna fullyrðingu eða yfirlýsingu að ræða, sem við getum líka kallað tjáningu á afstöðu til umhverfisins. Fullyrðing Grikkjans frá Riace er jákvæð eða trúarleg, á meðan samtímalistin er fyrst og fremst veraldleg, neikvæð og afhjúpandi eða gagnrýnin. Alla tuttugustu öldina hefur mátt lesa út úr hinum ólíku myndlistarstefnum og ismum höfnun í ólíkum myndum á þeim jákvæðu, altæku og algildu sannindum, sem hin klassíska list stendur fyrir. Þau standast ekki lengur próf þess veruleika sem við búum við, hvort sem við lítum til vísindalegrar þekkingar eða samfélagslegra aðstæðna. Þar sem hinum altæku sannindum hefur verið haldið á lofti í listum, stjórnmálum eða trúarbrögðum í okkar samtíma hefur það verið gert með ofbeldi og í nafni pólitísks alræðis eða í nafni bókstafstrúar trúarríkisins.
Hin neikvæða og afhjúpandi fullyrðing nútímalistarinnar er því til komin af nauðsyn, og það er ekkert sem segir okkur að hin neikvæða yfirlýsing eða tjáning, sem byggir á gagnrýni og afhjúpun, geti ekki verið jafn áhrifamikil og marktæk og sú jákvæða. Þvert á móti hafa samfélagslegar og sögulegar aðstæður gert hina jákvæðu/trúarlegu framsetningu bæði ósannfærandi og pólitískt hættulega við ríkjandi aðstæður.
Samhengið í listasögunni er því fyrir hendi, þrátt fyrir allt. Mælikvarðinn verður ekki settur á verkið í einangrun frá umhverfi sínu, heldur á þá afstöðu til umhverfisins sem verkið endurspeglar. Munurinn á hinni klassísku hefð og samtímalistinni er fólginn í ólíkum skilningi á sambandi mannsins við náttúruna og söguna. Það var hlutskipti módernismans og framúrstefnulistar 20. aldarinnar að afhjúpa þá fölsku mynd af náttúrunni, sem hin klassíska list býður okkur upp á andspænis veruleika okkar samtíma: með því að höggva náttúruna í marmara eða steypa hana í brons, eins og listasmiðurinn frá Riace gerði, var maðurinn í raun að fjötra náttúruna og gera listina að staðgengli hennar. Hin frjálsa og óbeislaða náttúra var ógnvekjandi á meðan maðurinn hafði ekki tæknilegt vald til að beygja hana undir vilja sinn. Listin varð honum tæki til að bjóða náttúrunni birginn. Þegar manninum óx ásmegin og tæknikunnáttan gerði honum kleift að ganga af náttúrunni dauðri, hætti hin frjálsa náttúra að vera ógnvekjandi, en var hafin á stall í staðinn sem eitthvað eftirsóknarvert í sjálfu sér, sem maðurinn gat mælt sig við. Tæknikunnáttan og tæknivæðingin, sem áður hafði verið manninum nauðsynlegt hjálpartæki í baráttu við illvíg náttúruöflin, var skyndilega orðin að ógnvekjandi fyrirbæri sem staðfesti firringu mannsins frá náttúrunni í umhverfinu og honum sjálfum. Að steypa náttúruna í brons eða höggva hana í marmara með þeim hætti sem listasmiðurinn frá Riace gerði væri á okkar tímum ekki frelsandi, heldur bælandi list. List sem þjónaði best fasísku ofbeldi eða hömlulausri vélvæðingu og tæknivæðingu samfélagsins og náttúrunnar.
Myndirnar frá Riace verða hins vegar ekki skildar með sama mælikvarða, því þær eru unnar út frá öðrum sögulegum forsendum sem ríktu við upphaf blómatíma grískrar menningar.
Ívar Valgarðsson: Litasamsetningar innanhúss. Hörpusilki, 1994
VIII
Gildi listaverksins hefur þá ekki með efnislega gerð þess að gera, ekki með formið í sjálfu sér, heldur hvaða afstöðu verkið markar til umhverfis síns og hvernig sú afstaða er sett fram í formi og efni. Efniviðurinn og formið þjóna þessu hlutverki. Verkið hefur ekki gildi í sjálfu sér sem sjálfstæður og einangraður hlutur, heldur verður að leita gildisins í þeirri samræðu sem verkið kallar á við umhverfi sitt. Þar höfum við sameiginlegan mælikvarða, sem hægt er að leggja jafnt á bronsmennina frá Riace og slökkviliðsmenn Þorvalds Þorsteinssonar, svo dæmi sé tekið. Viðfangsefni okkar andspænis listaverkinu er ekki fólgið í „nautn“, heldur í skilningi. Andspænis samtímalistinni beinist sá skilningur að afhjúpandi og gagnrýnu innihaldi, sem meðal annars hefur beinst gegn hinni klassísku listsýn og gegn þeirri hugsun að gera listina að staðgengli náttúrunnar.
Í augum margra stefnir þessi afhjúpun og gagnrýni endanlega að sjálfstortímingu listarinnar. Að hún geri sjálfa sig óþarfa. Þessar hugmyndir urðu fyrst til fyrir um 150 árum, en þeirra gætir mun meira í samtímanum: á bíennalnum í Feneyjum síðastliðið sumar sýndi ísraelskur listamaður (Gideon Ofrat) gróðurhús og fiskabúr, þar sem fram fóru tilraunir með náttúrulega ljóstillífun, ræktun á gróðri og fiskum. Í stað þess að láta listina vera staðgengil náttúrunnar, eins og við sjáum í hinni klassísku listhefð, var náttúran orðin að staðgengli listarinnar. Og í sýningarskrá sömu sýningar er haft eftir gagnrýnenda einum: „Þegar ég heyri listamann tala um að fylla eitthvert rými verður mér alltaf hugsað til herteknu svæðanna“2. Listin er í eðli sínu andstæða við náttúruna. Hún fyllir upp hið náttúrulega rými, manngerir það og bindur á sinn hátt. Sú árátta síðari tíma að hefja hina óbeisluðu náttúru á stall sem heilagan Guð andspænis sora hins synduga mannkyns er önnur hlið á hinni altæku bókstafstrú sem á endanum kæfir samræðuna og bannfærir listina. Endanlega er rýmislist eins og sú, sem við sjáum hér á Kjarvalsstöðum, kannski fyrst og síðast leit að formi fyrir samræðu. Samræðu er hafi samfélagslegt gildi um leið og hún afhjúpar og bendir okkur á vissar illleysanlegar þverstæður í mannlegri tilveru. Endanlega er þessi samræða ákall um mannlega samstöðu, sem við getum þrátt fyrir allt ekki án verið.
1T.W. Adorno: Aesthetic Theory, bls. 262
2 Tilvitnun í Philippe Parreno úr inngangi Nicolas Bourriaud að sýningunni „Standards “ í fyrra bindi sýningarskrár La Biennale di Venezia, bls 322.
Myndirnar af slökkviliðsmönnunum eru hluti af innsetningu Þorvalds Þorsteinssonar á sýningunni á Kjarvalsstöðum, þar sem sýndur var reykköfunarkklefi Slökkviliðs Reykjavíkur og aðrir munir og heimildir frá þessari merku stofnun. Verk sem sýndi ákall listarinnar til samtímans.