NIETZSCHE – FÖRUMAÐURINN OG SKUGGI HANS I. – STRÍÐIÐ

RAUNIR FÖRUMANNSINS - STRÍÐ OG FRIÐUR
Hvaða ferðafélaga er hægt að velja sér þegar langt er í enn eitt langferðalagið með 10 kílóa hámark í ferðatöskuna? Auðvitað nýt ég blessunarlega félagsskapar Unu í enn einni langferð okkar til Ítalíu á 42 ára farsælu sambúðarferli, en bókarlaus á ég erfitt með að ferðast. Ég valdi seinna bindið af stórvirki Friedrich Nietzsche, „Mannlegt allt of mannlegt“, með þeim ásetningi að njóta samskipta við ferðalanginn sem skrifaði „Förumaðurinn og skuggi hans“ á ferðalagi um Engidadalinn og St. Moritz í Sviss síðsumars árið 1879. Nietzsche var einn á ferð, hrjáður af sjúkdómi sem hann átti eftir að glíma við ævilangt, en hafði félagsskap af skugga sínum, sem varð honum efni í 350 „orðspjót“ eða hugdettur, skrifaðar á þrem mánuðum, og mynda þennan einstaka lokakafla ritsins sem markar viðskilnað Nietzsche við áhrifavaldinn Richard Wagner og á vissan hátt einnig við þau áhrif frá Schopenhauer, sem mátti finna í fyrsta verki hans, „Fæðing harmleiksins“ frá 1872, byltingarverkinu sem markaði endurmat á goðsagnaheimi Forn-Grikkja með upphafningu hins dionysíska sem Nietzsche hafði fundið enduróminn af í tónlist Wagners.

Þótt Nietzsche nefni Wagner hvergi með nafni í „Mannlegt allt of mannlegt“, þá mátti sjá það þegar í tileinkunn bókarinnar til Voltairs, að Nietzsche var með þessu verki sínu að hafna þýskri þjóðernisrómantík Wagners og þeirri dulspeki sem hún endurspeglaði, um leið og hann var að takast á við rökhyggju upplýsingarinnar og þeirrar nýklassíkur sem fylgdi frönsku stjórnarbyltingunni og Nietzsche var greinilega ekki ósnortinn af. Í raun og veru er hann kannski að reyna með þessu verki að skrifa sig frá hvorutveggja og leitast við að skapa nýjan hugmyndagrundvöll handan þjóðernislegrar afturhaldsstefnu Wagners og alþjóðahyggju frönsku byltingarinnar á grundvelli vísindalegrar frumspeki.

„Förumaðurinn og skuggi hans“ er í raun og veru sjálfstætt verk, ekki skrifað með beinum og fyrir fram gefnum ásetningi hvað varðar form og byggingu, heldur er um að ræða hugleiðingar sem ganga í allar áttir án mikillar formhyggju, þar sem umræðan snýst um trúmál, listir, siðferði í samtímanum, stjórnmál, fornfræði, heimspeki og evrópskan veruleika á seinni hluta 19. aldar. Skrifin endurspegla hugsanir sem urðu að sjálfstæðri bók, bók sem ekki átti sér fyrir fram gefinn ásetning, heldur er öllu frekar um að ræða sjálfsprottinn samtalsvettvang við skuggann sem endurspeglar efahyggju förumannsins gagnvart öllum fyrir fram gefnum sannleika og siðalögmálum.

Það er undarleg staða að eiga í samtali við förumanninn og skugga hans fyrir um 140 árum síðan, á tímum sem einkennast ekki bara af ógnvekjandi harmleik stríðsins í Úkraínu með daglegum stríðsfréttum um skotgrafarhernað og mannfall sem talið er í hundruðum þúsunda, þegar síðan bætist við stríðið um Palestínu, sem nú yfirskyggir Úkraínustríðið með stríðsglæpum sem eiga sér ekki hliðstæðu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við lestur samtalsbókar förumannsins og skugga hans undir aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar (sem Nietzsche virtist sjá fyrir) öðlast hryllingsfréttirnar frá Úkraínu og Palestínu nýja vídd, sem meðal annars má lesa úr eftirfarandi „orðspjóti“ um stríðið, sem Nietzsche gat hvorki séð með hetjuljóma þjóðernishyggju Wagners né þeim hetjuljóma alþjóðahyggjunnar sem Napóleonstyrjaldirnar höfðu leitt yfir Evrópu. Í þessum skrifum er Nietzsche raunsæismaður sem horfir beint á samfélagsveruleikann og sér í honum bæði ógn og von.

Ég hef ákveðið að birta hér á vefnum valin orðspjót úr samtali förumannsins við skugga sinn, sem væntanlega munu birtast hér á vefnum eftir því sem tími og aðstæður leyfa. En fyrsta orðspjótið er einmitt helgað stríðinu – og friðnum – og bregður um leið óvæntu ljósi á samtíma okkar nú um stundir.

Friedrich Nietzsche:

Förumaðurinn og skuggi hans

 

284. Meðal hins sanna friðar.

Á okkar tímum viðurkennir engin ríkisstjórn að hún viðhaldi herafla sínum til að fullnægja þörfinni fyrir hugsanlega landvinninga. Heraflinn er allur í þjóustu varnarmálanna. Við heyrum lofsönginn um göfgi siðalögmálsins um réttinn til sjálfsvarnar. Þetta felur hins vegar í sér eftirfarandi: að eigna sjálfum sér siðsemina og nágrannanum siðleysið, því réttmætt telst að líta svo á, að hann sé haldinn óbilandi löngun til landvinninga og yfirgangs, og því sé Ríki okkar nauðugur sá kostur að huga vel að meðulum hinnar lögmætur sjálfsvarnar. Þar að auki er nágrannaríkið þögult sem gröfin, og neitar því nákvæmlega eins og okkar ríki að það hafi nokkur yfirgangsáform á sínum prjónum, þvert á móti gefur það í skyn að það viðhaldi hernaðarstyrk sínum einungis í þeim tilgangi að tryggja lögmæta vörn. Þannig útskýrum við að hætti hræsnarans og hins útsmogna afbrotamanns hvað liggi til grundvallar vígbúnaðarþörfum ríkisins, þess ríkisvalds sem er þess fullbúið að beita fátækt og varnarlaust fórnarlamb miskunnarlausum yfirgangi. Á okkar tímum standa öll ríki þannig andspænis náunga sínum: þau herma ill áform upp á nágrannann og góðmennsku á eigin geðþótta.

En þessi hugsunarháttur er hrein ómennska, illgjörn eins og stríðið. Eða öllu heldur felur hann í sér ögrun og hvatningu til stríðsreksturs, því eins og við sögðum, þá ber hann siðleysið upp á náungann og leitast þannig við að vekja upp árásargjarnar kenndir og gjörðir.

Við þurfum að afskrifa kenninguna um heraflann sem meðal til lögmætrar sjálfsvarnar með sama hætti og við afneitum ofsóknaræðinu. Hver veit nema upp renni sá dagur að þjóð nokkur, kunn af hernaðarsigrum sínum og háþróuðum samfélagsreglum og hernaðartækni, sem hún hefur áunnið sér með dýrum fórnarkostnaði, gefi allt í einu út yfirlýsingu af frjálsum vilja: „Við slíðrum sverðin…“ Og hún eyðir þar með öllum vígbúnaði sínum frá hinu minnsta til hins stærsta. Að gera sig varnarlausan á hátindi hernaðarmáttar síns á forsendum göfuglyndis – þetta er verkfæri hins sanna friðar, sem ávallt þarf að hvíla á friðsemd tilfinninganna, á meðan hinn svokallaði „vopnaði friður“ sem við mætum nú í öllum löndum, hvílir á tilfinningum ofstopans sem reiðir sig hvorki á sjálfan sig né nágrannann og megnar ekki að leggja niður vopn sín af ástæðum sem stafa annars vegar af ótta og hins vegar af hatri. Það er betra að farast en að lifa í ótta og hatri, og helmingi skárra að farast en að lifa við ótta og hatur náungans. Slík yfirlýsing ætti að marka stærsta hátíðisdag sérhvers siðmenntaðs ríkis!

Sem kunnugt er skortir ráðamenn hinna frjálslyndu þjóða stundarfrið til að hugleiða mannlega náttúru, annars væri þeim ljóst að starf þeirra væri til einskis þegar þeir vinna að „miklum niðurskurði til vígbúnaðar“. Einmitt þegar hörmungar stríðsins ná hámæli gerir einnig vart við sig sú eina tegund Guðs er þar getur hjálpað. Hið hávaxna tignartré stríðshetjanna verður einungis einu sinni fellt, og þá fyrir tilverknað eldingarinnar. En eins og þið vitið vel, þá kemur eldingin úr skýjunum – af himni ofan.

…………..

Forsíðumyndin er koparstunga Antonio Pollaiolo: "Stríð hinna nöktu" frá 15. öld

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d