ALMENNINGSÁLITIÐ OG SJÁLFSVERAN „Sérhver er annar og enginn er hann sjálfur“ segir Martin Heidegger í þessum fræga 27. Kafla höfuðverks síns „Sein und Zeit“ frá 1927. Þetta er kaflinn sem fjallar um fjöldasálfræðina, hvernig „almenningsálitið“ stjórnar orðum okkar og gjörðum, hvernig það virkar og hvaðan það kemur. Ég hélt áfram að reyna að dýpka skilning minn á Heidegger eftir tilraunina með tungumálið, þar sem þessi 27. kafli reyndist tilvalið framhald. Um leið er þetta tilraun til að gera hið ómögulega: að koma hinni margræðu glímu Heideggers við tungumálið og tilveruna í íslenskan búning út frá þeirri verufræði sem varast að líta á hlutina sem „staðreyndir“ þar sem þeir eru stöðugt á fleygiferð í tíma og rúmi. Verufræði Heideggers kallaði á glímu við tungumálið þar sem ekkert minna er undir en sjálf tilvera mannsins, sjálfsvera og handanvera. Glíma hans við tungumálið, veruna og tímann hefur því ekkert með hefðbundna málfræði að gera, en snýst því meir um þversögnina sem á sér stað þegar tilveran og tíminn mætast í orðum okkar og gerðum. Í þessum bókarkafla er Heidegger að greina almenningsálitið að hætti verufræðinnar. Þar snúast átökin ekki síst um tungumálið og byggingu þess. Í þessum stutta texta er eitt lykilorð sem verður óþýðanlegt á íslensku í þessum verufræðilega skilningi: „das Man“. Við þýðum þetta orð gjarnan sem „maður“: maður liggur, gengur, borgar og kyssir og faðmar og deyr eins og menn almennt liggja, ganga, borga, kyssast, faðmast og deyja almennt. En „maður“ á okkar germanska móðurmáli er frábrugðið því þýska að einu leyti: Man liegt, geht, bezahlt, küsst und empfängt á þýsku tungumáli líkt og því íslenska nema að einu leyti: „maður“ er alltaf karlkynsorð á íslensku, en á þýsku eru tvö orð: der Mann (=maður) og das Man (=maður). Í hverju liggur þessi kynferðislegi munur? Hvers vegna hafa Þjóðverjar hvorugkynsmyndina „Man“ í sínu germanska máli, en við ekki? Er þetta dæmi um nútímalega „afkynjun“ tungumálsins eins og víða er í tísku nú á tímum? Nei, hér er annað á ferðinni, og það er meðal annars þetta sem Heidegger er að velta fyrir sér: Hvert er þetta frumlag sem segir „Man liegt“, maður liggur? Hvers vegna er það hvorugkyns? Hvernig getur maður verið hvorugkyns? Getum við staðsett veru þessa „Man“ í tíma eða rúmi? Hefur það sjálfsvitund og kynvitund eins og annað fólk? Er þetta „Man“ merki samvitundar karla og kvenna og þess vegna hvorugkyns? Í hverju er samvitund fólgin, og hvernig verður hún til? Hver eru tengsl samvitundar og sjálfsvitundar og hvernig tengjast þessi hugtök hugmyndum okkar um einstaklingsfrelsi og lýðræði? Þetta eru allt stórar spurningar sem Heidegger bryddar á í þessum ögrandi texta, sem kallar á mun ítarlegri greiningu en hér er hægt að bjóða upp á. Nærtækara væri að nefna sjálfan þýðingarvandann. Ég hef legið yfir þessum síðum í 2 daga og veit mætavel að árangurinn er umdeilanlegur og langt frá allri fullkomnun. En kannski getur þýðingarvandinn hjálpað okkur að spyrja enn þýðingarmeiri spurninga um heimspekilega merkingu þessa texta? Hvers vegna er þessi bók um veruna og tímann ekki til á íslensku? Mig langar aðeins til að nefna eitt þýðingarvandamál sem hér er óleyst: „das Man“ reyndist mér óþýðanlegt á íslensku, ekki vegna þess að okkur vantaði mannshugtakið, heldur vegna þess að hvorugkynsmynd orðsins er ekki til á íslensku. En ekki bara það: í texta Heideggers er „das Man“ frumlag í málfræðilegum skilningi sem gerandi í tungumálinu, án þess að til sé skilgreining á ytri mynd eða nafnnúmer þessa geranda. Samt talar það í gegnum okkur. Það er hluti af „sam-veru“ okkar og „sam-kennd“. Og Þegar betur er að gáð þá vitum við ekki hvar eða hvenær þetta „Man“ talar í gegnum okkur né heldur hvar sjálfsvitund okkar byrjar. Í stuttu máli stóð ég frammi fyrir þeim valkosti að búa til nýtt myndleturstákn fyrir „das Man“ eða þýða það sem „Maður-gerir“ eins og það væri eitt sjálfstætt frumlag í setningaskipan Heideggers. Ég játa það hér að þetta er klaufaleg lausn og kalla á aðra betri. Þá vil ég minnast á annað þýðingarvandamál, sem varðar hinn mikilvæga skilning Heideggers á hugtakinu „Dasein“. Þetta hugtak á sér frábæra mynd á íslensku sem tilvera. Það merkir veru til einhvers annars. Við erum hins vegar búin að gleyma þessum verufræðilega skilningi hugtaksins og skiljum tilveruna yfirleitt sem tímabundið ástand er eigi sér enga tímanlega vídd. Heidegger notar „Dasein“ í þessum texta oft sem frumlag og geranda í verufræðilegum skilningi. Til þess að minna á þessa gleymmdu merkingu tilverunnar hef ég skrifað Tilveru með stóru T að hætti Þjóðverja. Einnig þessi stafsetningarvandi Tilverunnar leiðir okkur að dýpri heimspekilegum vandamálum. Í heild er þessi vandþýddi texti Heideggers lesmál sem snýr ekki bara að sjálfu tungumálinu, heldur að skilningi okkar á verunni og tímanum í sinni þversagnarfullu mynd. Málefni sem þessi undurfurðulega bók Martins Heideggers frá árinu 1926 fjallar um, og virðist eins og töluð beint inn í okkar samtíma. Þessi þýðing er unnin upp úr útgáfu ítalska bókaforlagsins Mondadori á "Sein und Zeit / Essere e tempo" á tveim tungumálum, þýsku og ítölsku, í ritstjórn Alfredo Marini frá árinu 2006. Til hliðsjónar hef ég einnig haft afburða þýðingu Franco Volpi og Pietro Chiodi á texta Heideggers á ítölsku í XI útgáfu Longanesi forlagsins frá 2020. Samanburður á frumtexta og ítölskum þýðingum hefur auðveldað mér að rýna í vandlesinn texta Heideggers.
Martin Heidegger:
VERAN OG TÍMINN
Hversdagsleg sjálfsvitund og „Maður-gerir“-meðvirknin
27. Kafli í Veran og tíminn
Sú verufræðilega niðurstaða sem skiptir máli í undangenginni greiningu okkar á Sam-verunni (Mitsein) felst í þeim skilningi (Einsicht) að eðli sjálfsveru (Subjektkarakter) eigin tilveru og annarra sé tilvistarlega ákveðið, en það felur í sér sérstaka veruhætti (gewissen Weisen). Við aðgæslu umhverfisins mætum við hinum eins og það sem þeir eru. Þeir eru það sem þeir aðhafast.
Umhyggjan sem við sýnum (Besorgen) gagnvart því sem mætir okkur, hvort sem það er með eða á móti hinum, ræðst stöðugt af umhugsuninni um að greina sig frá hinum. Þetta getur líka tekið á sig form afneitunar alls mismunar eða viðleitnina að gera eigin Tilveru (Dasein) samstíga hinum -hafi hún á tilfinningunni að hafa dregist aftur úr – eða að staðsetja sig sem yfir aðra hafna og viðhalda hinum sem undirmálsflokki. Öll dagleg sam-vera er upptekin af þessum samanburði við hina, jafnvel þó hann sé dulinn. Á tilvistarlegu tungumáli kallast Þetta afstöðumæling (Abständigkeit). Því ósýnilegri sem þessi mæling er í allri daglegri umgengni, þeim mun öflugri er tilvistarleg virkni hennar.
Þessi afstöðumæling sem tilheyrir sam-verunni (Mit-sein), leiðir til þess að Tilveran felur í sér skuldbindingu (Botmässigkeit) hinna. Tilveran er ekki lengur hún sjálf, hinir hafa rænt hana veru sinni (Sein). Geðþótti hinna stýrir daglegum verumöguleikum tilverunnar. Þessir „hinir“ eru þó ekki tilteknar persónur. Þvert á móti getur hver sem er gegnt hlutverki hins. Það sem máli skiptir eru hins vegar hin ómeðvituðu og ósýnilegu yfirráð hinna, sem Til-veran (Dasein) í formi sam-veru (Mitsein) felur í sér frá upphafi.
Maður tilheyrir hinum og staðfestir þar með vald þeirra. „Hinir“, sem við köllum svo til að fela eðlisbundna aðild (Zugehörigkeit) okkar að þeim, eru þeir sem standa okkur næst í daglegri samveru (Miteinandersein) og eru fyrst og fremst „da sind“[i] (þessir þarna). Þessir „þeir“ eru hvorki tilteknar persónur né maður sjálfur, ekki nokkrir og ekki summa allra. Sá „Hver“ (Wer) sem þarna er til umræðu er hvorugkynsmyndin af „Maður“ (Maður-gerir…das Man)[ii]
Áður höfðum við sýnt fram á hvernig hinn opinberi umheimur (Umwelt) er þegar til staðar í aðgát okkar og umgengni nánasta umhverfis. Við notkun almenningssamgangna og fréttamiðlunar (dagblaða) er sérhver eins og hinn. Með þessari samveru (Mitsein) leysist hin einstaka Tilvera (Dasein) fullkomlega upp í veruhátt „hinna“ í svo ríkum mæli að mismunur og sýnileiki (Ausdrücklichkeit) hinna verður hverfandi. Við þennan hverfandi ógreinanleika gerir hin eiginlega harðstjórn „Maður-gerir“ (das Man) sig sýnilega:
Við njótum og skemmtum okkur eins og menn njóta og skemmta sér, við lesum, horfum og fellum dóma eins og menn lesa horfa og fella dóma um bókmenntir og listir. Við höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá fjöldanum eins og menn halda sig í slíkri fjarlægð og okkur finnst það hneykslunarefni sem menn telja hneykslanlegt. Þessi „Maður-gerir“ sem ekki er neitt tiltekið, heldur allir, en þó ekki summa allra, er einkennismerki hinnar hversdagslegu tilveru.
Þessi „Maður-gerir“ á sér sína sérstöku tilveruhætti. Áðurnefnd tilhneiging sam-veru (Mitseins) sem við kölluðum afstöðumælingu (Abständigkeit) byggist á því að samveran sem slík haldi utan um (besorgt) meðalhófið (Durchschnittlichkeit). Það er tilvistarlegt einkenni „Maður-gerir“. Hvað varðar veru „Maður-gerir“ þá er meðalhófið aðalatriðið. „Maður-gerir“ heldur sig þannig innan þeirrar meðalmennsku sem honum hentar, innan þess sem er viðtekið og innan þess sem er hafnað, innan þess sem telst ábatasamt og innan þess sem telst það ekki. Við ákvörðun hins mögulega, eða þess sem reyna má, grandskoðar meðalhófið fyrir fram allar hugsanlegar undantekningar. Allur framúrakstur er þegjandi útilokaður. Sérhver frumleiki er umsvifalaust yfirfærður á það sem þegar var vitað, sérhvert stórvirki gert handhægt. Allir leyndardómar missa krafta sína. Umhyggjan fyrir meðalhófinu leiðir í ljós nýja grundvallar viðleitni tilverunnar: útjöfnun allra möguleika verunnar.
Afstöðumetingur (Abständigkeit), meðalmennska og útjöfnun mynda veruhætti „Maður-gerir“, sem við þekkjum í mynd „hins opinbera“ (die Öffentlichkeit). Það stýrir nánast allri túlkun heimsins og tilverunnar, og hefur alltaf rétt fyrir sér. Ekki á grundvelli augljósra yfirburðatengsla við hlutina, ekki vegna þess að um sé að ræða yfirburða gagnsæi á tilveruna, heldur þökk sé útilokun allrar dýpri skoðunar „hlutanna“, þar sem allt skynnæmi á stigsmun og sanngildi er víðs fjarri. Hið opinbera (die Öffentlichkeit) formyrkvar allt og opinberar þannig hið falda, eins og það sé hið alþekkta sem öllum er aðgengilegt.
Þetta „Maður-gerir“ er alls staðar til taks, en þó þannig að það gengur manni úr greipum þegar Tilveran kallar á ákvörðun. En þar sem „Maður-gerir“ hefur þegar fyrir fram kveðið upp alla sína dóma og ákvarðanir er sérhver einstök Tilvera undanskilin allri ábyrgð. Þannig getur „Maður-gerir“ alltaf leyft sér, ef svo mætti segja, að til þess sé leitað. Það getur auðveldlega veitt svör við öllu, því enginn einn er til andsvars. Þetta „Maður-gerir“ „var“ alltaf til staðar, en engu að síður má um það segja að það hafi aldrei verið „neinn“.
Þetta „Maður gerir“ léttir þannig byrðum sérhverrar Tilveru (Dasein) í hversdagsamstri hennar. En ekki bara það: með þessum létti tilverunnar kemur „Maður-gerir“ til móts við tilveruna að því marki sem hún hneigist til léttleikans í orði og verki. Og þar sem þetta „Maður-gerir“ kemur til móts við sérhverja tilveru með því að létta byrði verunnar, viðheldur það og styrkir stöðugt hið óbilgjarna yfirvald sitt.
Sérhver er annar og enginn er hann sjálfur. Þetta „Maður-gerir“, sem veitir svarið við spurningunni um „hver“ hins daglega amsturs sé, er sá enginn (Niemand) sem þegar hefur útnefnt sig (ausgeliefert) til sérhverrar Tilveru og samveru (Dasein und Mitsein).
Sá stöðugleiki tilverunnar sem nærtækastur er, ber því eftirtalin eðliseinkenni samverunnar: afstöðumatið, meðalhófið, útjöfnunina, opinberanir auglýsinganna, tilvistarléttinn og þjónslundina (Entgegenkommen). Þessi stöðugleiki merkir þó ekki viðvarandi nærveru einhvers, heldur tjáningarmáta tilverunnar sem samvera (Dasein als Mitsein).
Með þessum tilveruhætti hafa sjálf eigin tilveru og sjálf „hinna“ hins vegar ekki fundið sig, heldur öllu frekar glatað sjálfum sér. Þetta „Maður-gerir“ dvelur í sviði óstöðugleikans og óveruleikans. Þessir tilveruhættir draga hins vegar ekki úr skilvirkni Tilverunnar með sambærilegum hætti og þetta „Maður-gerir“; sem er enginn, er ekki neitt. Þvert á móti, með þessum hætti er Tilveran ens realissimum (sterkur veruleiki) að því tilskyldu að „raunveruleiki“ sé skilinn sem verufræðilegur gæðastimpill tilverunnar.
Þetta „Maður-gerir“ er reyndar ekki einföld nærvera – ekki frekar en Tilveran yfirhöfuð. Því meira áberandi sem sýnileiki þessa „Maður-gerir“ verður, þeim mun óhöndlanlegra og faldara verður það. En það verður engan veginn að engu. Þvert á móti gerist það við þessar aðstæður að gagnvart hinni fordómalausu hlut-verufræðilegu (ontisch-ontologischen) sýn birtist það sem hið „raunverulegasta inntak“ hversdagsins. Og þó það sé ekki til staðar eins og handbær og áþreifanlegur steinn, þá segir það ekkert til um verumáta þess (Seinsart). Við verðum að gæta okkur á fljótfærnislegum yfirlýsingum um að þetta „Maður-gerir“ sé ekki neitt. Einnig varast að trúa því að fyrirbærið hafi verið túlkað verufræðilega, ef svo vildi til að það væri „útskýrt“ sem afleiðing einfaldrar nærveru margra þátta er fléttist saman. Þvert á móti er nauðsynlegt að úrvinnsla verufræðilegra hugtaka gangi út frá þessum ófrávíkjanlegu fyrirbærum.
Þetta „Maður-gerir“ er heldur ekki neitt „almennt viðfangsefni“ er svífi ofar öllum öðrum. Um slíkt væri einungis að ræða ef Tilvera „viðfangsefnisins“ væri ekki skilin tilvistarlega og „viðfangsefnið“ smækkað niður í einfalt tilfallandi dæmi af sértækum toga. Frá þessum sjónarhóli er ekki um annan mögulegan verufræðilegan skilning að ræða en að skilgreina allt sem ekki er til staðar (sem einstaklingur) út frá túlkun á tegund og ættkvísl (Art und Gattung). „Maður-gerir“ er ekki ættkvísl tiltekinnar tilveru og lætur ekki heimfæra sig upp á skapnað slíkrar veru til frambúðar.
Það á ekki heldur að koma á óvart hvernig hefðbundin rökfræði bregst andspænis þessu fyrirbæri, þegar haft er í huga að hún byggir á verufræði þess sem er einfaldlega og áþreifanlega til staðar. Þrátt fyrir allar umbætur og betrumbætur er rökfræðin ekki annað en það sem hún er. Og umbætur hennar í skilningi „hugvísindanna“ gera ekki annað en auka á hinn verufræðilega rugling.
Fyrirbærið „Maður-gerir“ er tilvistarlegs eðlis, og sem upprunalegt fyrirbæri tilheyrir það jákvæðum skilningi á tilverunni. Sem hlutlægt fyrirbæri býr það yfir ólíkum möguleikum. Máttur þess, áhersluþungi og skýrleiki geta tekið sögulegum breytingum.
Sjálf hinnar hversdagslegu tilveru er Maður-sjálfið (Man-selbst), sem við greinum aðskilið frá hinu eiginlega sjálfi, því sem við búum sjálf yfir. Sem „Maður-sjálf“ er tilfallandi Tilvera sundruð í þessu „Maður-gerir“ og er því tilneydd að finna sjálfa sig. Þessi sundrung einkennir frumlag eða geranda (Subjekt) þess veruháttar (Seinsart) sem við segjum að felist í beinni umhirðu nánasta umhverfis og heims.
Þegar Tilveran finnur sig í sjálfri sér sem „Maður-sjálf“ þá merkir það um leið að þetta „Maður-gerir“ leggi einnig fram beina og milliliðalausa túlkun á heiminum og verunni í heiminum. Þar sem dagleg Tilvera snýst um vilja „Maður-sjálfsins“, þá býr það til merkingarsamhengi hlutanna. Heimur tilverunnar fellir þá hluti er á vegi verða í heiminum í það heildarsamhengi hagkvæmninnar sem „Maður-gerir“ (das Man) þekkir, og afmarkast af meðalhófshugsun þess. Hin raunverulega Tilvera er umfram allt í sameiginlegum heimi (Mitwelt) meðalmennskunnar. Umfram allt þá „er“ ég ekki í skilningi eigin sjálfs, heldur í skilningi „hinna“ samkvæmt aðferðinni „Maður-gerir“. Það er út frá þessu „Maður-gerir“ og í hlutverki „Maður-gerir“ sem ég er „gefinn“ mér „sjálfum“. Í framhaldinu er Tilveran „Maður-gerir“ og verður lengst af þannig.
Ef Tilveran (Dasein) uppgötvar heiminn í sinni raunverulegu mynd og gerir sig heimakomna í henni, ef hún opnar sjálfa sig fyrir henni og umfaðmar, þá mun þessi opnun „heimsins“ gagnvart Tilverunni og þessi móttaka (Erschliessen) Tilverunnar gagnvart umheiminum jafnframt fela í sér afhjúpun og niðurrif þeirrar yfirbreiðslu og formyrkvunar sem Tilveran hefur beitt sjálfa sig.
Með túlkun sam-verunnar (einn með öðrum) og sjálfs-verunnar undir formi „Maður-gerir“ hefur þeirri spurningu verið svarað hverjum þessi „hver“ í sam-veru hversdagsins tilheyrir. Þessi greining hefur jafnframt leitt til hlutlægs skilnings á grundvallar byggingu Tilverunnar (Daseins). Veran-í heimium (Das in-der Welt-Sein) hefur verið gerð sýnileg í sinni hversdagslegu meðalmennsku (Durchschnittlichkeit).
Tilveran frá degi til dags byggir hina for-verufræðilegu túlkun á veru sinni á tilfallandi veruhætti (Seinsart) „Maður-gerir“. Þessi verufræðilega túlkun fylgir umfram allt þessari túlkunartilhneigingu og skilur tilveruna út frá heiminum og upplifir hana sem innanbúðarveru heimsins (findet es (Das Dasein) als innerweltlich Seiendes vor.).
En ekki bara það; hin „beina“ verufræði Tilverunnar byggir merkingu verunnar einnig á „heiminum“ þar sem hún skilur þetta fyrirbæri sem „Subjekt“ (hér virðist bæði átt við heiminn sem geranda, frumlag og sjálfsveru, allt í senn). En með þessari samsömun með heiminum (Aufgehen in der Welt) hefur verið horft Fram hjá heiminum sem fyrirbæri og í stað heimsins er komið það sem tilfallandi tilheyrir heiminum, það er að segja hlutirnir. Vera hlutanna, þessi með-vera (mit-da-ist) er skilið sem einföld nærvera. Þannig gerir ávísun á hin jákvæðu fyrirbæri hversdagslegrar nálægðar hlutanna okkur mögulegt að uppgötva rætur hinnar villuleiðandi verufræðilegu túlkunar á þessari stöðu verunnar í Tilverunni (Seinsverfassung). Það er þessi staða verunnar í sínum hversdagslega veruhætti sem gerir í senn að missa marks og fela sig.
Ef sú vera hversdagslegrar sam-veru, sem virðist verufræðilega líkjast einfaldri nærveru, reynist hins vegar henni gjörólík í grundvallaratriðum, höfum við ríkari ástæðu til að álykta að ekki sé hægt að líta á veru hins eiginlega sjálfs sem eitthvað borðleggjandi (Vorhandenheit). Hin eiginlega sjálfsvera felst ekki í undantekningarástandi sjálfsverunnar sem „Maður-gerir“ hefur aftengt, heldur er um tilvistarlega umbreytingu „Maður-gerir“ að ræða sem varðar hinar tilvistarlegu undirstöður.
Sjálfsvera (Selbigkeit) hins eiginlega sjálfs hefur þannig orðið viðskila við eigin sjálfsmynd (Identität) fyrir tilverknað þeirrar verufræðilegu heljargjár er viðheldur fjölbreytni upplifaðrar reynslu hins þrautseiga Égs.
Orðalisti: Sein: "vera". Spurningin um "veruna" er lykilatriði í allri heimspeki Heideggers. Hún varðar meðal annars það hvort, hvenær og hvernig við túlkum veruna sem tímatengdan atburð og hvað það feli í sér. Í ritgerðinni Zur Seinsfrage frá 1955 leggur heidegger til að krossa yfir orðið til þess að losa okkur við hefðbundna frumspekilega merkingu þess sem tiltekna "veru" en undirstrika til-vistarlega merkingu orðsins. Seinsart: "verumáti", það hvernig við berum okkur að í tilverunni. Dasein: tilvera. Mikilvæ´gt hugtak í verufræði Heideggers sem leggur áherslu á til-veruna sem veru til einhvers annars, tímatengdan atburð. Í textanum hér að ofan er Dasein oft frumlag eða gerandi setningarinnar í þessum skilningi. Mit-sein: Sam-vera, sú vera sem byggir á gagnkvæmu, gagnvirku og tímatengdu sambandi mannsins og annarra, mannsins og náttúrunnar. Sorge: Umhyggja, mikilvægt hugtak sem varðar samband tilveru mannsins og umhverfis hans. Besorgen: Að hafa umhyggju fyrir umhverfi mannsins og "hinum". Abständigkeit: Afstöðumismunur í félagslegum skilningi, Das Man / der Mann: Der Mann er "maðurinn" í hefðbundinni merkingu, en "das Man" er hvorugkynsmynd þess ósýnilega manns sem stendur á bak við almenningsálitið og segir til um hugsanir okkar og gjörðir. Das Man-selbst /das eigentlige Selbst: Das Man-sebst er sú sjálfsvitund sem er sköpuð af almenningsálitinu, das eigentlige Selbst er hið eiginlega sjálf sem við teljum okkur hafa. Das Wer: Hinn óþekkti "hver" sem liggur á bak við það sem "sagt er". Durchscnittlichkeit: meðalhóf / meðalmennska Seinsweisen: Veruhættir, hvernig menn og fyrirbæri bera sig að. Subjekt: frumlag, gerandi, sjálfsvitund, frumglæðir... orð sem á sér margþættar merkingarhliðar. Ekkert íslenskt orð ær yfir þær allar eitt og sér. Existenzial: Tilvistarlegur. Upprunalega er orðmyndin dregin af forskeytinu ex sem það sem er fyrir utan og merkir því það sem er sérstætt. Heidegger notar Dasein í staðinn fyrir Existens af því að Dasein vísar frekar til hinnar verufræðilegu tilvistar. Ontologie , ontisch, ontologisch: Hugtakið Ontologie hefur verið þýtt sem verufræði á íslensku og merkir þau fræði er gefa fyrirbærunum tímatengsda merkingu sem "vera". Stundum er "ontisch" notað til að vísa til staðbundnari veru, en "ont" mun ver dregið af ens á latínu, sem merkir hlutur eða fyrirbæri.
[i] „da sind“ (bókstafleg merking: „þar eru“) Hér er um orðaleik að ræða þar sem sagt er að eitthvað „sé“ almenns eðlis (ekki persónubundið eða hlutbundið) en orðasambandið verður ekki réttilega þýtt á íslensku í þessu samhengi.
[ii] Þýska orðið „Man“ er lykilhugtak í þessari ritgerð og merkir einfaldlega „maður“ á íslensku, en fyrst og fremst í merkingunni „maður gerir svona og svona…“ Maður gengur, drekkur, sefur o.s.frv. eins og menn (og konur) drekka, ganga og sofa o.s.frv. Talsmátinn er hér meginatriði þar sem frumlagið í setningunni (maður) er ópersónulegt og því „hvorugkyns“ (das Man). Til frekari skýringar verður þetta þýska orð „das Man“ í framhaldinu þýtt sem „Maður-gerir“ þegar athöfnin er ekki skilgreind.
a
Forsíðumyndin er eftir Paul Klee frá 1923 og heitir Irr, sem þýðir villuráf. Eða