Geðheilbrigðisvandi unga fólksins okkar
og hin lausnarmiðaða tæknihyggja stjórnmálanna
Þó ég hafi verið fjarverandi lengst af í sumar og getað leitt hjá mér loforðaflaum framboðsflokkanna í komandi kosningum, þá fór ekki hjá því að ég næði í endasprettinn sem fjallaði einkum um heilbrigðismál og löggæslu og loforð um auknar fjárveitingar í þessa málaflokka. Þar virtust geðheilbrigðismálin vera ofarlega í forgangsröðinni og snertu báða þættina beint og óbeint, einkum hvað varðar unga fólkið: geðheilbrigðisvandamál eru vaxandi vandamál meðal ungs fólks og skortur er á úrræðum heilbrigðisstofnana auk þess sem skortur er á mannafla í lögreglunni til að vernda unga fólkið okkar fyrir eiturlyfjum og leita þau ungmenni uppi sem láta sig hverfa sporlaust úr foreldrahúsum í síauknum mæli.
Það sem vakti athygli mína í þessum umræðum var sú áhersla sem stjórnmálaflokkarnir og fjölmiðlarnir hafa lagt á að þessi vandi verði ekki leystur nema með auknum fjárframlögum úr opinberum sjóðum, auknum mannafla og auknu eftirliti og löggæslu. Allir stjórnmálaflokkarnir virtust sammála því í umræðunni um geðheilbrigðismál unga fólksins að þetta væri í raun tæknilegur vandi sem hægt væri að leysa með peningum og engu öðru.
Enginn spurði sig þeirrar spurningar hvers vegna unga fólkinu liði illa á okkar tímum og hvers vegna geðheilbrigðisvandamál væru sívaxandi í þessum aldursflokki miðað við reynslu foreldrakynslóðarinnar af þeim tíma þegar geðheilbrigðisvandi var frekar tengdur efri aldurshópum.
Fyrir nokkrum árum þýddi ég bók um þennan vanda ungu kynslóðarinnar á okkar tímum fyrir íslenska bókaútgáfu, sem gafst síðan upp á verkefninu. Handritið hefur síðan legið hér í tölvu minni ónotað. Þessi bók er eftir ítalska heimspekinginn Umberto Galimberti, sem einnig hefur starfað að geðheilbrigðismálum, en hann stundaði meðal annars nám á sínum tíma hjá þýska heimspekingnum og geðlækninum Karli Jaspers. Ég átti frumkvæði að því að þýða þessa bók á íslensku, því mér þótti hún eiga brýnt erindi inn í íslenskan samtíma. Segja má að það erindi hafi verið staðfest með umræðum stjórnmálaforingja okkar um geðheilbrigðismál unga fólksins og lækningamátt peninganna nú fyrir kosningarnar. Bókin heitir á frummálinu „L’ospite inquietante“ eða „hinn kvíðavænlegi gestur“, með undirtitlinum „Il nichilismo e i giovani“, og sækir titil sinn í skrif Friedrich Nietsche um tómhyggjuna sem hann kallaði „Der unheimliche Gast“. Ég gaf bókinni titilinn „Boðflennan“, en merking þess hugtaks kemur strax fram í upphafsorðum fyrsta kafla þessarar bókar, þar sem einmitt er lögð áhersla á að geðheilbrigðisvandi unga fólksins sé ekki tæknilegt vandamál, sem hægt væri að leysa með auknum fjárveitingum, heldur sé um mun flóknari vanda að ræða er eigi sér rætur í sjálfri samfélagsgerðinni, verðmætamati hennar og samskiptum kynslóðanna. Vandi sem á sér menningarlegar rætur. Hugsanlega ætti ég að birta alla þessa bók hér á vefsíðu minni í íslenskri þýðingu, en læt hér nægja að birta upphafskaflann, sem gefur tóninn um það sem á eftir kemur. Bók þessi var metsölubók á Ítalíu þegar hún kom út 2007, og hefur síðan verið endurútgefin mörgum sinnum. Hér á eftir kemur inngangskafli bókarinnar.
Boðflennan
Tómhyggjan og unga fólkið
eftir Umberto Galimberti
Tileinkað Ken litlu, sem á unglingsárin og æskuna í vændum.
Nietzsche kallar tómhyggjuna “hinn kvíðavænlegasta af öllum gestum”, því það sem vaki fyrir honum sé heimilisleysið sem slíkt. Það stoðar ekkert að vísa honum á dyr, því hann hefur fyrir löngu gert sig heimakominn í húsi okkar. Það sem skiptir máli er að átta sig á boðflennunni og horfast í augu við hana.
Martin Heidegger: Zur Seinsfrage (1955-56)
Inngangur
„Tómhyggjan er í dyragættinni; hvaðan kemur hann, þessi kvíðavænlegasti af öllum gestum?“
(Friedrich Nietzsche, Nachgelassene Fragmente, 1885-87)
Bók um unga fólkið; vegna þess að unga fólkinu líður illa, jafnvel þótt það geri sér ekki grein fyrir því. Ekki vegna þeirrar hefðbundnu tilvistarkreppu sem einkennir uppvaxtarárin, heldur vegna þess að boðflenna hefur gert sig heimakomna í húsi þess, gegnsýrt hugsanirnar og smeygt sér inn í tilfinningalífið, máð út framtíðardraumana, deyft ástríðurnar og sogið úr þeim allt blóð.
Fjölskyldurnar eru felmtri slegnar, skólinn er ráðþrota, einungis markaðurinn sýnir unga fólkinu áhuga með því að leiða það á vit skemmtanalífsins og neyslunnar, þar sem neyslan beinist ekki að þeim hlutum sem úreldast jafnóðum, heldur að sjálfu lífi unga fólksins, þessu lífi sem megnar ekki lengur að setja sér framtíðarmarkmið fagurra fyrirheita. Þannig snýst lífið um að upplifa núið af sem mestri ákefð, ekki vegna þess að það sé uppspretta gleði, heldur vegna þess að það getur jarðað angistina sem alltaf gerir vart við sig þegar landslagið tekur á sig mynd merkingarlausrar eyðimerkur.
Ef ungt fólk er beðið um að lýsa vanlíðan sinni, þá skortir það orðin til þess, því það hefur þegar náð því stigi tilfinningalegs ólæsis sem aftrar því frá að bera kennsl á eigin tilfinningar og þá sérstaklega að gefa þeim nafn. Og hvaða nafn á svo sem að gefa því tómi sem hefur sest um unga fólkið og heltekið það? Á þessari eyðimerkurgöngu mannlegra samskipta, þar sem ekki er lengur að finna neinn hljómgrunn innan fjölskyldunnar og skólinn er líka hættur að vekja áhuga, kafna öll orð í fæðingu sem geta hvatt til dáða eða boðað örvandi framtíðarsýn. Þetta orðleysi á sér ekki betri samsvörun en ópið, sem stundum nær að rjúfa þykka brynju þagnarinnar er umlykur einsemd þeirrar leyndu depurðar sem einkennir tímalaust sálarástand þess er býr undir ofríki boðflennunnar, sem Nietzsche kallar „tómhyggju”.
Því er það að orðin sem vísa til vonarinnar, einlægu orðin og hvatningarorðin, orð fyrirheitanna og orðin sem vilja lina hina leyndu þjáningu, þessi orð eru á sveimi í kringum unga fólkið eins og ærandi hávaði sem enginn nemur.
Það verður að dæla dálitlum skammti af hávaða í hlustirnar til þess að drekkja öllum orðunum, það þarf svolítinn skammt af eiturlyfjum til að deyfa sársaukann eða finna til með einhverjum hætti, og það þarf mikla einsemd sem er dæmigerð fyrir öfgafulla einstaklingshyggju sem var óþekkt hjá fyrri kynslóðum og byggir á þeirri sannfæringu að vegna heftra tilfinningatengsla sé hver og einn sjálfum sér næstur og að helsta haldreipið í eyðimörk gildanna sé hinn eini viðurkenndi og táknræni mælikvarði allra gilda í okkar samfélagi, sem eru peningarnir.
Þar sem þessi vanlíðan er ekki bundin við einstaklinginn, vegna þess að hann er einungis fórnarlamb víðtækrar vöntunar á framtíðarsýn og áformum eða jafnvel fórnarlamb skorts á merkingu og tilfinningatengslum eins og raunin er í okkar samtímamenningu, þá gefur það auga leið að þeir lyfjaskammtar sem unga fólkið er nú æ oftar matað á, allt frá frumbernsku, koma að litlu haldi. Sama má segja um þær sállækningar sem eru einstaklingsmiðaðar.
Þetta verður augljóst ef orð Goethe reynast rétt, að maðurinn sé vera sem einkennist af þörfinni fyrir að gefa hlutunum merkingu [Sinngebung]. Í þeirri eyðimörk merkingaleysunnar, sem tómhyggjuandrúmsloft okkar samtíma hefur skapað, verður vanlíðanin ekki af sálrænum toga, heldur menningarlegum. Því þarf að beina sjónunum að samfélagslegum menningarþáttum, en ekki að einstaklingsbundinni vanlíðan, því orsakarinnar er ekki að leita í þessari vanlíðan, heldur er vanlíðanin afleiðing menningarlegs hruns. Fyrstu fórnarlömb þessa hruns er að finna meðal unga fólksins sem hefur verið skilið eftir í skólunum, háskólunum, sérskólunum og á fallvöltum vinnumarkaði.[1]
Hvað er svo sem hægt að segja um það samfélag sem ekki virkjar sterkasta líffræðilega aflið hjá þjóðinni, aflið sem býr í ungu fólki frá fimmtán ára til þrítugs með öll sín framtíðaráform, hugmyndir og sköpunarmátt, aðeins ef raunsætt markmið væri í sjónmáli, trúverðugur möguleiki, von sem getur virkjað þetta afl sem það finnur innra með sér en lætur síðan gufa upp áður en það þarf að horfast í augu við vonbrigðin?
Er raunverulegt merki um hnignun og sólsetur menningar okkar ekki einmitt að finna í þessari uppgjöf unga fólksins? Er þetta ekki mun ógnvænlegra hættumerki en sú framrás hreintrúarstefnu sem við getum fundið í öðrum menningarheimum eða sú óhefta vinnusemi sem finna má meðal fjarlægra þjóða, sem hafa speglað sig í sögu okkar og mótað sig í samræmi við hana með því að afneita öllum gildum sem ekki verða heimfærð upp á hrein peningaleg gildi?
Ef vanlíðan unga fólksins á sér ekki sálfræðilegar rætur, heldur menningarlegar, þá virðast þau læknisráð sem menning okkar býður upp á harla gagnslaus, hvort sem þau eru trúarlegs eðlis – því Guð er í raun og veru dáinn – eða runnin undan rifjum upplýsingarstefnunnar, því ekki verður séð að rökhyggjan ráði í mannlegum samskiptum á okkar tímum, nema þá í því einfaldaða formi sem fólgið er í þeirri „tæknilegu rökvísi” sem tryggir tæknilegar framfarir, en víkkar ekki sjóndeildarhring merkingarinnar vegna hugsunarleysis og tilfinningadoða.
Á síðum þessarar bókar er ekki að finna leiðbeiningar um auðvelda og skilvirka lækningu. Þessi viðurkenning á getuleysinu til að ráða við vandann segir þegar heilmikið um eðli þessarar vanlíðunar sem er, eins og áður sagði, menningarleg en ekki tilvistarleg. Mér finnst engu að síður ástæða til að skrifa þessar síður, þó ekki væri nema til að hreinsa borðið af öllum þeim skyndilækningum sem boðið hefur verið upp á, án þess að hugleiða raunverulegt eðli þeirrar vanlíðunar sem hrjáir unga fólkið okkar. Þetta fólk sem á tímum tómhyggjunnar er hætt að spyrja sjálft sig um merkingu eigin þjáningar eða annarra með sambærilegum hætti og mannkynið hefur gert frá upphafi vega. En eins og Gunter Anders hefur bent á, þá er hér um djúpstæðan mun að ræða sem snýst um sjálfa merkingu tilverunnar, sem virðist ekki merkingarlaus vegna þess að hún er merkt þjáningunni, heldur þvert á móti óbærileg vegna þess að hún er án merkingar. Neikvæði tómhyggjunnar birtist ekki í þjáningunni, sem í misríkum mæli fylgir tilverunni og allar hjálparstofnanirnar reyna að bregðast við, heldur birtist hún með róttækari hætti í lævísri skynjun á merkingarleysi eigin tilveru.
Er kannski hugsanlegt að lækninguna sé að finna annars staðar? Ekki í þessari örvæntingarfullu leit að tilgangi, eins og arfleifð gyðingdóms og kristni hefur kennt okkur, heldur í viðurkenningu okkar á því sem við erum sjálf í raun og veru, í dyggðum okkar og getu okkar, eða – svo notað sé grískt orð – í okkar daimon[2], sem veitir hamingju [eu-daímonia] þegar það guðdómlega afl sem í okkur býr –daimóninn– fær að njóta sín.
Ef sú væri raunin þá gæti tómhyggjan og sú tæring merkingarinnar sem hún ber með sér jafnvel bent okkur á að réttlætingu tilverunnar sé ekki endilega að finna í leitinni að merkingu, leit sem oft ræðst af takmarkalausri löngun, heldur í raunverulegri getu okkar í listinni að lifa lífinu [techne tou biou] eins og Grikkir sögðu. List sem felst í viðurkenningu á eigin getu [gnothi seauton] – þekktu sjálfan þig – og að skýra hana fyrir sjálfum sér og sjá hana blómstra samkvæmt aðstæðum [kata metron].
Þessi tilfærsla frá kristnum sjóndeildarhring til þess gríska gæti blásið unga fólkinu í brjóst þá gleðiríku forvitni sem fólgin er í því að uppgötva sjálfan sig og finna merkingu í slíkri uppgötvun, sem með réttum stuðningi og aðhlynningu gæti stuðlað að þeirri útrás lífsins sem æskunni er eðlileg í sköpunarkrafti sínum.
Ef unga fólkið kynni að framkvæma þessa tilfærslu sjóndeildarhringanna í gegnum tómhyggjuna og með því að yfirstíga hana, og öðlast um leið forvitni á sjálft sig, þá er ekki víst að boðflennan hafi komið í erindisleysu.
_____________________________________
[1] Ítalska orðið “precariato” er notað um hinar sérstöku aðstæður á ítölskum vinnumarkaði þar sem “sveigjanleikinn” sem átti að veita ungu fólki greiðari leið inn á vinnumarkaðinn hefur skapað nýjan hóp launþega án hefðbundinna réttinda launafólks, hvort sem það snýr að lífeyrissjóðsréttindum, uppsagnarfresti eða atvinnuleysisbótum. Íslenska hliðstæðu er að finna í því “verktakafyrirkomulagi” sem hefur verið innleitt hér á landi á síðustu árum.- þýð.
[2] Gríska orðið daimon merkir upprunalega “guðdómlegt afl” eða yfirnáttúrlega veru sem er miðill á milli guða og manna. Með kristindómnum fékk orðið nýja merkingu sem “uppreisnarengill” og síðan var það heimfært upp á djöfulinn sjálfan eða persónur sem voru setnar djöflum. – Þýð.