Palermo 1992
Ég er nýkominn úr löngu ferðalagi um Sikiley með hópi af fróðleiksfúsum farþegum á vegum ferðaskrifstofunnar Heimsferðir. Ég var leiðsögumaður í þessari ferð á söguslóðir Normannakonunganna í Palermo, Monreale og Cefalú, á söguslóðum mafíunnar í bænum Corleone, á söguslóðum Vulkans (Hefaistosar) og risans Polefemosar úr Odysseifskviðu í eldfjallinu Etnu, á söguslóðum grískra harmleikja í Taormínu og á söguslóðum Arkimedesar, Platons og heilagrar Lúsíu í borginni Siracusu.
Það var að mörgu að hyggja á þessu flandri okkar og í mörg horn að líta. Að því kom að nokkrir fróðleiksfúsir farþegar fóru að spyrja mig hvort frásagnir mínar væru ekki aðgengilegar sem lesefni einhvers staðar. Ég varð að neita því, þetta voru allt mínar eigin munnmælasögur sem hafa orðið til á óteljandi ferðalögum mínum um þessa töfraslungnu eyju.
Þó verð ég að gera eina játningu og undantekningu, því rannsóknarleiðangur minn á slóðir mafíunnar í Palermo í september 1992 var skráður sem grein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 1. nóvember sama ár. Það er frásögn af upplfun minni á atburðarás þessa heitasta sumars í sögu mafíunnar þegar dómararnir Giovanni Falcone og Paolo Borsellino voru drepnir. Ég horfði ofan í sprengigýginn sem grandaði Borsellino.
Þótt þessi frásögn sé orðin 15 ára gömul þá held ég að hún gefi enn lifandi mynd af upplifun minni. Ég ætla því að verða við ósk nokkurra farþega minna og birta lítið brot af því sem okkur fór á milli á þessu langa og eftirminnilega ferðalagi. Það er hægt að nálgast frásögnina af ferðalagi mínu með því að smella á tengilinn "Palermo 1992" hér fyrir ofan.
Like this:
Like Loading...
Related