Minningabrot um Rósku og Róm 1966-1969
Grein þessi birtist upprunalega í bókinni um Rósku sem Nýlistasafnið og Mál og menning gáfu út árið 2000
Það er sólríkur septemberdagur haustið 1966. Við erum stödd í gömlu fjölbýlishúsi frá 16. öld við Via Giulia í Róm, steinsnar frá Sixtusarbrúnni yfir Tíber. Það er hátt til lofts í þessu fimm hæða húsi og við göngum dimman steinstiga, máðan af göngu kynslóðanna, upp í risíbúð á efstu hæð. Þegar inn er komið sjáum við fyrst litla forstofu, síðan stóra stofu og inn af henni rúmgóða vinnustofu. Hinum megin svefnherbergi, bað og eldhús. Íbúðin er undir súð að hluta, með þykkum tréröftum í loftinu og það eru rimlahlerar fyrir gluggunum sem birgja útsýnið um leið og þeir vernda fyrir brennandi sólargeislunum úti fyrir. Að utan berst þungur og stöðugur umferðarniður sem stundum er rofinn af hrópum, köllum og sírenuvæli.
Þetta er staður sem einkennist af skipulagðri óreiðu: engu er þar beinlínis ofaukið, húsmunir eru fáir, flestir gamlir og slitnir en greinilega valdir af kostgæfni; við sjáum forvitnilegar bækur og tímarit hér og þar, óþvegið leirtau er í eldhúsinu og brunnin kanna með brúnum kaffitaumum á gaseldavélinni. Meðfram veggjum eru tómar flöskur og nokkur óhrein glös og ótæmdir öskubakkar á borðum og gólfi. Á stofugólfinu er slitin nautshúð ásamt nokkrum púðum og sessum og uppbúið flet í horninu. Á veggjunum má sjá teikningar, blaðaúrklippur og riss og á einum veggnum í stofunni er tregafullt olíumálverk sem sýnir afmyndað andlit og hendur, sem teygja sig í áttina að þurrkuðu blómi, sem hefur verið límt beint á léreftið. Í vinnustofunni standa málverk á trönum sem eru dregin hráum og ferskum dráttum, stundum draumkennd en þrungin af munúð og sársauka. Í einu horninnu í stofunni er lítið borð með fornfánlegri ritvél og í henni hálfskrifað blað. Á borðinu eru einnig nokkrar snjáðar bækur, pakki af frönskum Goluage-sígarettum og yfirfullur öskubakki ásamt tæmdu vínglasi. Við það stendur lítill og hrörlegur borðstofustóll, sem er greinilega kominn til ára sinna. Meðal þess sem þarna liggur á glámbekk eru bækur eftir André Breton, Louis Aragon, Leon Trotsky, Arthur Rimbaud, Charles Baudelaire, Lutreamont greifa, Bakunin, Leopardi og Borges, auk tímarita á borð við il manifesto og teiknimyndablaðið Diabolik.
Róska: Síðasta hálmstráið, 1969
Við erum stödd á heimili Rósku og Manrico í Róm. Þetta er gestkvæmt heimili og gjöfult sem andar af af ferskleika og frjálsu ímyndunarafli. Gestirnir í þessu húsi eru listafólk og hugsjónafólk um nýja og betri veröld, fólk í leit að frelsun undan þrúgandi oki fortíðarinnar, og það eru stöðugar umræður í gangi. Umræður um listir, stjórnmál og ástandið í heimsmálunum.
Sú skipulagða óreiða sem þarna ríkir er greinilega undir vökulli umsjón Rósku, sem fyllir þennan stað með ómótstæðilegu og ögrandi viðmóti sínu, kankvísu og munúðarfullu brosi og smitandi augnaráði sem gerir hvert augnablik að einhvers konar örlagastundu. Rétt eins og málverkin hennar. Og blöðin í ritvélinni sýna okkur atlögu dagsins hjá Manrico að sögunni af förumanninum með múmíuna í ferðatösku sinni, líkið sem hann gat ekki losað sig við. Þetta er saga sem minnir um sumt á Kafka en segir líka heilmikið um þá veröld sem við erum dottin inn í. Maðurinn með líkið í ferðatöskunni greip að lokum til þess örþrifaráðs að freista þess drepa það í annað sinn með drekkingu í baðkarinu, og uppgötvar þá sér til skelfingar að uppþornað múmíuandlitið tekur á sig andlitsmynd föður hans. Arfur forfeðranna virtist orðinn að óbærilegri byrði eða fjötrum, rétt eins og um líkamlega fötlun sé að ræða, sem hvorki er hægt að búa við né losa sig undan.
Utan dyra er hraður hjartsláttur mannlífsins í miðborg Rómar. Bílar og gangandi fólk berjast um plássið í þröngum götunum, það glymja hróp og köll og bílflautur eru þeyttar. Við getum byrjað daginn á Via Giulia með því að fara á barinn á Campo dei Fiori og fá okkur kaffisopa. Þetta er stuttur spölur að ganga eftir þröngri og hlykkjóttri götu og fyrr en varir fer umferðarfnykurinn að blandast þungum ilmi af kryddjurtum, ávöxtum, blóðugu kjöti og fiski, sem er magnaður af sólarbreiskjunni og liggur eins og ský yfir mannhafinu sem blasir við þar sem markaðstorgið opnast fyrir augum okkar. Þar er handagangur í öskjunni, söluborðin svigna undan fjölbreytilegu úrvali ávaxta og grænmetis í öllum regnbogans litum, á blóðugum kjötborðunum munda slátrararnir sveðjurnar og skera niður svínahryggi, nautsvöðva og lambaskrokka jafnt sem kýrvambir, kálfshöfuð, fiðurfé og kanínur. Fisksalarnir bjóða fram lifandi skelfisk, smásíli og smokkfiska eða sneið af risavöxnum sverðfiski, túnfiski eða kolkrabba og það heyrast hróp og köll frá söluborðunum þar sem tilboðin ganga á víxl. Yfir iðandi kösinni gnæfir Giordano Bruno, þögull og álútur eins og minnisvarði um hinn eilífa uppreisnarmann gegn helsi fortíðarinnar. Hann stendur á stalli þar sem bálköstur hans var kveiktur að tilskipan páfastóls þann 8. febrúar árið 1600. Hverfið sem við erum stödd í er frá svipuðum tíma, niðurníddar byggingar og veðraðar af langri sögu, en þröngar og krókóttar göturnar sem liggja að torginu eiga sér þó mun lengri sögu. Það er veggjakrot á öðru hvoru húsi og innan um litrík og æpandi veggspjöld hins nýja neyslusamfélags sjöunda áratugarins, sem sýna okkur flennistórar myndir af nýjasta tannkreminu og sokkabuxunum, sjáum við upplímd veggblöð með vígorð gegn stjórnvöldum, ókvæðisorð gegn Franco á Spáni, Salazar í Portúgal og stuðningsyfirlýsingar við þjóðfrelsisfylkinguna í Víetnam og uppreisnaröfl í Angola, Mozambique og Brasilíu. Í einni hliðargötunni eru helstu síður dagblaðsins l’Unità frá því í morgun festar upp á vegg. Þar er hópur fólks að ræða málin. Það eru félagar úr ítalska kommúnistaflokknum, sem hefur gefið út þetta dagblað frá því það var stofnað af Antonio Gramsci, menntamanninum sem var hugmyndalegur lærifaðir ítalskrar verkalýðshreyfingar og lét lífið fyrir skoðanir sínar í fangabúðum Mussolini. Píslarvottur eins og Bruno.
Umheimurinn æpir af húsveggjunum sem umlykja þetta iðandi mannhaf og yfir morgunkaffinu við bardiskinn á Campo dei Fiori lendum við óhjákvæmilega í hrókasamræðum sem nær undantekningalaust snúsat um stjórnmál. Þar eru Róska og Manrico virkir þátttakendur, opin fyrir öllu sem gerist í umhverfi þeirra, og það er einhver og óþreyjufull eftirvænting í loftinu. Eins og þetta samfélag finni sig búa í spennitreyju sem það kann ekki að hrista af sér.
Róska: Boðun Maríu, 1967
Leið okkar frá barnum liggur ef til vill áfram í gegnum mannhafið á torginu um þröngar göturnar fram hjá blómasölukonunni, blaðaturninum og hljómplötumarkaðnum, þar sem nýjasta Bítlalagið heyrist í gjallarhorninu: Strawberryfields forever.
Við ryðjum okkur veg í gegnum umferðaröngþveitið á Corso Viktors Emanúels og skjótumst á milli húsanna inn á Piazza Navona. Umferðin er yfirþyrmandi þessa haustdaga í Róm: hvar sem við förum þurfum við að skáskjóta okkur framhjá bílum og farartækjum. Bíllinn er nýorðinn alþýðueign á Ítalíu og þeir sem áður ferðuðust á tvíhjóla farartækjum eru nú komnir á nýjasta tækniundrið, Fiat 500, sem virðist vera að leggja undir sig miðaldaborgir Ítalíu eins og engisprettufaraldur. Jafnvel á Piazza Navona hringsóla þeir í kringum gosbrunna Berninis og spúa yfir þá og vegfarendur kolsýringnum í fullkomnu virðingarleysi við þessa meistarasmíð evrópskrar byggingarlistar sem hefur þjónað sem umgjörð og vettvangur borgarlífsins allt frá dögum Ágústusar keisara. Yfir þessu leiksviði gnæfir kirkja heilagrar Agnesar í Agonis, annar þögull vitnisburður um uppreisnarmann gegn hefðinni sem einnig lét lífið með vofeiflegum hætti: arkitektinn Francesco Borromini.
Þótt bílarnir hringsóli utan dyra ríkir sveitastemming inni á kránni við torgið andspænis Neptúnusarbrunninum: rykfallnar vínámur úr eik meðfram veggjum, ódúkuð langborð með trébekkjum, hveitisekkir í einu horninu og á borðum eru baunir og heimalagað pasta með kjötsósu og fjórðungur af víni fyrir 150 lírur.
Vertinn er orðinn gamall og feitlaginn eins og víntunnurnar, enda sér nú fyrir endalok þessa veisluborðs og umskipti á innréttingu og verðlagningu í þessum húsakynnum skammt undan. Þær eru fjörlegar umræðurnar yfir baunasdiskunum og andinn eins og á stóru sveitaheimili frekar en í miðri stórborg. Þarna sitja námsmenn, listamenn, verkamenn og utangarðsfólk og þarna eru margir tíðir heimilisgestir á Via Giulia:
Þarna situr myndhöggvarinn Sergio, dökkur á brún og hrokkinhærður með tindrandi svört augu, barmafull af sársauka og viðkvæmni. Hann lenti síðar á þessum vetri í höndum geðlækna sem tókst að slökkva neistann úr augnaráði hans með raflosti.
Þarna situr Jean-Paul, listamaðurinn franski sem gerði ótrúleg listaverk er öll byggðu á formi rakblaðsins frá Gillette. Verk sem voru eins konar popplist með minimalískri konsepthugsun, sem á þessum tíma var hvergi sjáanleg í listasölum Rómar. Jean-Paul átti erfiða fortíð að baki, list hans fékk hvergi inni, hann varð veikur fyrir fíkniefnum og eftir langan flótta frá frönskum uppruna sínum endaði hann með að hörfa aftur í faðm fjölskyldu sinnar, niðurbrotinn eftir langa útlegð.
Þarna situr Domenique, kankvís og brosmild stúlka, rauðbirkin með freknur og nýkomin úr ársreisu um Afríku. Hún er ekki nema tvítug en talar fjölda tungumála reiprennandi af fljúgandi gáfum og ótrúlegri lífsreynslu. Hún birtist skyndilega á Piazza Navona, nýkomin frá Algeirsborg, og þar sem hún var húsnæðislaus var ekki nema sjálfsagt að hún settist að í risíbúðinni á Via Giulia. Þar er hún hvers manns hugljúfi og trúnaðarvinur. Domenique er af hollensku foreldri en segist aldrei muna snúa aftur til æskustöðva sinna öðruvísi en sem framandi gestur. Hún átti eftir að finna sitt athvarf í lífinu sem krúnurökuð nunna íklædd óranslituðum kufli í Búddaklaustri á Siri Lanka.
Þarna situr líka Hreinn Friðfinnsson og lætur sig dreyma um stórbrotnar ljóðmyndir sem ekki er hægt að hrinda í framkvæmd við ríkjandi aðstæður. Hann deilir plássi með Domenique í stofunni á Via Giulia þessa haustmánuði og virtist ekkert sjálfsagðara.
Þarna er líka Claudio, náinn vinur Manricos og áhugamaður um bókmenntir. Hann er bróðir einnar skærustu stjörnunnar í hinum nýju pólitísku raunsæiskvikmyndum sjöunda og áttunda áratugarins á Ítalíu. Claudio lét lífið með voveiflegum hætti fáum árum síðar.
Þarna fer Domenico dansandi á milli borða með sitt draumlynda augnaráð og kankvísa bros. Hann er bæði franskur og ítalskur og honum finnst hann vera bæði karl og kona. Hann er ballettdansari og leikari og teiknari af guðs náð og elskar að sýna sig í kvengervi, en hefur mátt sæta fangelsisvist fyrir þessa ástríðu sína vegna þess að það er bannað með lögum að rugla kynhugmyndum í Róm.
Og þarna er Oddo Bacci sem leggur á ráðin um nýjustu kvikmyndina sem verið er að vinna að þessa dagana, þar sem Hreinn og Róska leika aðalhlutverkin með þátttöku margra viðstaddra: “Maðurinn í þvögunni”. Manrico er handritshöfundur í samvinnu við Oddo, og hugmyndin er sótt í samnefnda smásögu Edgars Allan Poe. Kvikmyndatökumaðurinn er bandarískur, sonur vellauðugs kvikmyndaframleiðanda í Hollywood. Virðist eins og landflótta strandaglópur á þessum stað og reykir hass liðlangan daginn. Oddo átti sér stórbrotna kvikmyndadrauma sem aldrei náðu að rætast, en hæfileikar hans voru ótvíræðir og byggðu á staðgóðri þekkingu á bókmenntum, heimspeki og leikstjórn. Þegar Oddo ætlaði með myndina um manninn í þvögunni fullbúna á Stuttmyndabíennalinn í Feneyjum tveimur árum síðar lenti hann í mótmælagöngu á leiðinni, var fyrir tilviljun gripinn í fjöldahandtöku lögreglunnar og sat af sér kvikmyndahátíðina í fangelsi. Þessi kvikmyndareynsla var hins vegar upphafið að tilraunum Rósku og Manrico á sviði kvikmyndalistar.
Manrico Pavolettoni, Róska, Hreinn Friðfinnsson og undirritaður. Ljósmyndin er tekin í ljósmyndasjálfsala í Róm vorið 1967
Þessi glaðværi hópur virðist fullur af bjartsýni og trú á tilveruna. Þetta er hæfileikaríkt fólk og lifandi, en það á það líka flest sameiginlegt að lífið átti eftir að verða því dýrkeypt.
Hvar erum við stödd þennan nóvemberdag haustið 1966?
Ef við skjótumst á milli húsanna út af Piazza Navona blasir Palazzo Madama við, háreist 16. aldar höll í renessansstíl þar sem Del Monte kardináli stundaði gullgerðarlist í lok 16. aldar og skaut skjólshúsi yfir listmálarann Caravaggio, þá nýkominn til Rómar. Húsið er nú umkringt herlögreglu, sem er grá fyrir járnum, enda er það öldungadeild ítalska þingsins sem nú ástundar alkemíu ítalskra stjórnmála í þessu húsi; en handan við hornið á bak við Palazzo Madama, í kirkju Lúðvíks franska, leiðir Róska okkur að meistaraverki Caravaggios um köllun og píslarvætti Matthíasar guðspjallamanns. Hún á sér leyndan félaga í uppreisnarmanninum Caravaggio, og í hálfrokknu hliðaraltari Contarelli-frjölskyldunnar sýnir hún okkur hvar morðingi guðspjallamannsins stendur hálfnakinn yfir varnarlausu fórnarlambi sínu með brugðinn brandinn og sveinbarnið æpir vitstola á meðan viðstaddir hörfa frá í skelfingu augnabliksins, allir nema engillinn og málarinn sjálfur: á meðan engillinn kemur af himnum og færir píslarvættinum pálmagreinina sem tákn um eilífa endurlausn sjáum við í bakgrunni myndarinnar hvar ljósgeisli fellur á andlit málarans þar sem hann virðir fyrir sér þessa dauðastund úr hæfilegri fjarlægð með svipbrigðum sem sýna sambland af meðlíðan og hryllingi. Rétt eins og hann væri að horfast í augu við eigin örlög. Þessi harmleikur píslarvættis og endurlausnar hefur verið kirkjugestum til íhugunar þarna í hálfrökkrinu allt frá því að Caravaggio lagði frá sér pensilinn og hengdi verkið upp aldamótaárið 1600. Sama árið og Bruno var brenndur á Campo dei Fiori. Myndin er eins og forboði þeirrar hólmgöngu við dauðann og yfirvöldin sem átti eftir að einkenna líf Caravaggios allt þar til hann laut lægra haldi landflótta og heltekinn af malaríu við Herkúlesarhöfn árið 1610, 39 ára gamall.
Caravaggio: Píslarvætti heilags Mattheusar í Contarelli-kapellunni í kirkju Heilags Lúðvíks hins franska frá árinu 1600
Það er vafalaust ekki af ástæðulausu að Róska finnur til skyldleika við Caravaggio. Þótt liðin séu 450 ár frá því hann spígsporaði um Piazza Navona, ábúðarmikill og dökkur á brún og brá, sveipaður svartri slá með ríting við beltisstað, þá voru krárnar sem hann stundaði þarna í hverfinu trúlega ekki ósvipaðar hosteríunni okkar á Piazza Navona, og hann hefði vafalítið fallið vel inn í þann félagsskap sem þar var nú að finna.
En höldum nú áfram göngu okkar um þröngt götusund inn á Piazza Rotonda með gosbrunninum og egypsku óbeliskunni sem gerð var til heiðurs Ramses II, faró Egyptalands á 13. öld f.Kr. Við okkur blasir Panþeonhofið; tröllauknar granítsúlurnar frá dögum Ágústusar keisara bera uppi fordyrið að hvelfingu Hadríans keisara, sem sýnir okkur steingerða himinfestinguna eins og í hnotskurn og á milli skilja lúnar bronshurðirnar sem Sturla Sighvatsson mun hafa kropið fyrir þegar hann tók út svipuhöggin fyrir syndaaflausn sína forðum tíð. Eða var það kannski nýverið? Við getum svo lokið þessari stuttu gönguferð með því að líta inn í Santa Maria sopra Minerva á bak við Panþeon: við göngum framhjá fílsmynd Berninis með óbelisku viskunnar á bakinu, framhjá betlikonunum á kirkjutröppunum og þegar inn er komið blasa við okkur málaðar gotneskar bogahvelfingar, en undir háaltarinu liggur borðalagður smurningur heilagrar Katrínar frá Siena, verndardýrlings Ítalíu, sem með meinlæti og friðarboðskap setti niður deilur geistlegra og veraldlegra höfðingja í Evrópu á 14. öldinni. Hún lést aðfram komin af meinlætalifnaði 33 ára gömul með þeim andlátsorðum að sig tæki það sárast að hafa ekki náð að höndla “hina rauðu rós píslarvættisdauðans”, en var reyndar gerð höfðinu styttri eftir andlátið, því höfuðskeljar hennar eru varðveittar sem helgur dómur í kirkju heilags Dómeníkusar í heimaborg hennar, Siena.
Helgidómur og líkamsleifar heilagrar Katrínar frá Siena, verndardýrlings Ítalíu, varðveittar á altari kirkju heilagrar Maríu ofan á Mínervu í Róm
Það er Kristur Michelangelos sem stendur eins og heiðursvörð á vinstri hönd þessa höfuðlausa og heilaga líkama, fullkominn í hvítri nekt marmarans. Einnig Michelangelo storkaði yfirvaldinu í Kristsmynd sinni, svo það sá sig tilneytt að setja gyllta bronsdulu yfir karlmennskutákn frelsarans og fela það þannig á vald hinnar sætu ímyndunar systranna í reglu heilags Dómeníkusar, sem Katrín frá Siena hafði þjónað. Frá hægri virðir reglufaðirinn, heilagur Tómas frá Aquino, þessa sviðsmynd fyrir sér úr hásætinu í freskómynd Filippino Lippi, umkringdur himneskum hljóðfærasöng, en að baki Krists sjáum við hvar Beato Angelico, annar reglubróðir Dómenikusar og byltingarmaður í trúarlegri myndlist 15. aldar, liggur kylliflatur á gröf sinni greyptur í marmaralokið með tærnar upp í loftið í sannri auðmýkt andspænis dauðanum.
Það var Baudelaire sem sagði á sínum tíma að fegurðin væri alltaf undarleg, en það er ekki bara svo: þegar grannt er skoðað geymir fegurðin í arfleifð okkar að öllu jöfnu andhverfu sína, sem lesa má úr hryllingnum og skelfingunni í andliti Caravaggios andspænis dauðastundinni. Hún birtist okkur í píslarvættinu eins og við sjáum það í þögulli ásjónu Giordano Bruno, í fórnarhefðinni og upphafinni ásjónu hins krossfesta fórnarlambs og í draumnum um hina endanlegu endurlausn úr fjötrum fortíðarinnar og efnisheimsins, í þessari skelfilegu tvíhyggju efnis og anda. Þessi undarlega fegurð birtist okkur í hrollvekjandi ásjónu föðurímyndarinnar í sögu Manricos. Við sjáum hana líka í málverkum Rósku.
Róska: Án titils, 1965
Fyrir aðkomugest frá Íslandi birtist þessi heimur sem framandleg og furðuleg blanda draums og veruleika. Það er ekki bara að tvöþúsund ára saga birtist honum eins og í sjónhendingu með töfraslungnum leiktjöldum sínum, heldur opnast líka ný sýn á umheiminn út frá þessu leiksviði. Sýn sem birtist í óendanlegum og óleysanlegum þversögnum og í ósættanlegum árekstrum fortíðar og nútíðar.
Gesturinn situr í litlu herbergi í drungalegum salarkynnum Skandinavíska klúbbsins við Via dei Condotti í Róm. Þar ríkir andi Thorvaldsens í nýklassískum höggmyndum og húsgögnum, slagharpan í stofunni virðist ennþá geyma í sér síðustu tónana úr píanósónötu Edvards Grieg, eins og hann sé nýstiginn upp frá hljóðfærinu og rykfallið bókasafnið er rétt eins og Henrik Ibsen gekk frá því um aldamótin síðustu. Handan við götuna er Café Greco, þar sem þessir fastagestir virðast nýgengnir frá borðum sínum. Þjónarnir bera glösin og bollana burt á silfurbakka og þeir eru klæddir í kjólföt rétt eins og fyrir hundrað árum. Í einu horninu situr einn aldraður fastagestur enn sem fastast og heldur um grappastaupið sitt. Þetta er þögull einfari með silfurgrátt og sléttgreitt hár, þreytulegur en þóttafullur á svip, íklæddur ljósgráum jakkafötum, hvítri skyrtu og hálsbindi og nýburstuðum hvítum og brúnum leðurskóm: listmálarinn Giorgio de Chirico. Hann hefur átt sitt sæti þarna í hálfa öld, allt frá því hann lagði grunninn að hinu súrrealíska málverki með metafísisku myndunum sínum við upphaf heimsstyrjaldarinnar fyrri. Þótt hann sé kominn fast að áttræðu er hann enn að mála, og nú hanga nokkrar nýjustu myndir hans inni í loftkældu og teppalögðu listagalleríi handan götunnar. Þær sýna okkur tryllta hesta í goðsagnakenndu umhverfi, eins uppvakningar úr rómantísku málverki Gericaults og Delacroix, og virðast láta sér lífið utan veggja engu skipta, ekki frekar en þögull og þóttafullur málarinn með grappastaupið handan götunnar.
Giorgio de Chirico: Piazza d’Italia, olíumálverk frá 1948
Utan dyra blasir við gestinum iðandi mannlífið á Spánartorgi með tröppunum sem falla eins og Dynjandifoss undan Þrenningarkirkjunni á fjallinu, Trinità dei monti. Undir tröppunum standa blómasölustúlkurnar ennþá við blómabreiðu sína framan við uppsprettulindina sem vellur úr úr bátsmynd Berninis og svalar sveittum og göngumóðum vegfarendum. Svitastorknir vagnhestar híma undir tröllvöxnum pálmatrjánum á vinstri hönd en súla Maríu guðsmóður gnæfir upp úr mannhafinu á miðju torginu á hægri hönd. Á horninu við tröppurnar er enn hægt að gera sig heimakominn á uppbúnum rúmstokknum hjá skáldinu John Keats og virða fyrir sér útsýnið frá svefnherbergisglugganum þar sem hann lá banaleguna veturinn 1821, 26 ára gamall. A thing of beauty is a joy forever?
Á öðrum rúmstokki í herbergiskitrunni á Circolo Scandinavo situr gestur okkar hins vegar og lifir sig inn í enn aðra veröld: kjallaraíbúð Tómasar Jónssonar í Skuggahverfinu í Reykjavík. Það er veröld metsölubókarinnar sem kom eins og sprengja inn í íslenskan bókmenntaheim þetta sama haust. Þótt ólíku sé saman að jafna, Skuggahverfinu og Rómaborg, þá finnur hann í þessum ólíku heimum einhverja undurfurðulega samsvörun: það er eins og þeir geti hvorki staðið né fallið, lifað né dáið. Við honum blasir eilíf hringrás og endurkoma hins sama í lífi sem er margdáið eða í endurlífguðum dauða, rétt eins og líkið í tösku förumannsins.
Fegurðin er alltaf undarleg, sagði Baudelaire. Ekki bara undarleg, heldur líka skelfileg.
Róska: Án titils, 1966
Haustið 1968 var eins og holskefla hefði gengið yfir þessa draumkenndu veröld sem hvorki virtist geta haggast né staðist. Við erum stödd í iðandi mannþröng sem hlykkjast eftir endilöngum Corso frá Feneyjatorgi til Piazza del Popolo og virðist hvorki eiga sér upphaf né enda. Þetta er í októberbyrjun, og það er heiftaræði í loftinu, þúsundir reiddra hnefa á lofti og það koma bæld reiðiöskur upp úr mannhafinu sem enduróma í þröngum götunum allt í kring: Olimpiadi di sangue, non ci farà! Ho!-Ho!-Ho! Ho!-Chi!-Minh! Ho!-Ho!-Ho! Ho!-Chi!-Minh! Lifi Panguilis! Rússar burt úr Tékkóslóvakíu! Lifi tékkneska vorið! Sa-la-sar! Morð-ing-i!-Sa-la-sar!-Morð-ing-i! Niður með Liu Chiao Chi! Lifi Mao Tse Tung!
Mannhafið er umgirt hundruðum brynklæddra hermanna og vopnaðra lögregluþjóna og það virðist ekki þurfa nema lítinn neista til að kveikja í ófriðarbáli sem gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Dagblaðið Messagero: Blóðug átök í háskólanum
Hvað var að gerast?
Lítum í dagblöðin þessa viðburðarríku daga í október, nóvember og desember 1968:
Blóðugir Olympíuleikar: 200 námsmenn drepnir í götuóeirðum á Torgi þriggja menningarheima í Mexíkó skömmu fyrir opnun Olympíuleikanna. Svartasta síðan í sögu Mexíkó hefur verið skrifuð.
Hersveitir Sovétríkjanna enn í Tékkóslóvakíu.
Soyus 3 lendir farsællega eftir dvöl í geimnum.
Ögurstund í Víetnam. Loftárásir Bandaríkjanna í hámarki í kjölfar Tet-sóknarinnar. Heimurinn kallar á stöðvun loftárása.
Papandreu og Canellopulos látnir lausir í Aþenu gegn skilyrðum um að hætta afskiptum af stjórnmálum.
Næstum allt með kyrrum kjörum um borð í Apollo 7 á sporbaug um jörðu, en geimfarinn Walter Schirra þjáist af kvefi.
Kjarnorkuvígbúnaðarnefnd NATO hótar að beita kjarnorkuvopnum gegn Varsjárbandalagsríkjunum.
Smith og Carlos reisa kreppta hnefana á verðlaunapalli Olympíuleikanna í Mexíkó.
Jacquline Kennedy giftist skipakónginum Onassis á grísku eyjunni Scorpios. Hetjan frá Dallas er fallin af stalli sínum.
“Górillurnar” í Brasilíu halda upp á fjögurra ára afmæli valdaránsins.
Fjöldaaftökur á leiðtogum kommúnista í Indónesíu.
Hersveitir Varsjárbandalagsríkjanna yfirgefa tékkneskar borgir.
Fimmtíu þúsund framhaldsskólanemar fara um götur Rómar og krefjast umbóta í skólamálum.
Manngrúinn hrópar “Frelsi!” við útför Papandreu í Aþenu í Grikklandi.
Grunur leikur á að lifandi hjartagjafar hafi verið notaðir við hjartaígræðslu Christians Bernard á Groote Schuur sjúkrahúsinu í Cape Town, Suður-Afríku.
Nixon kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Brottrekstur Liu Sjao Chi markar þáttaskil menningarbyltingarinnar í Kína. Áróðurshópar sendir í kínverska skóla til að endurhæfa menntamenn.
Panguilis ákærir fasistastjórnina í Grikklandi fyrir mannréttindabrot og er dæmdur til dauða.
Forræðishyggju andmælt í skólunum um alla Ítalíu. Kröfur um réttinn til opinna umræðufunda.
Pasolini síknaður í Róm af ákæru um brot á velsæmislögum vegna kvikmyndarinnar Teorema.
John Lennon og Yoko Ono handtekin með hass innanklæða í London.
Lögreglan skýtur á mótmælagöngu landbúnaðarverkamanna á S-Ítalíu. Allsherjarverkfall lamar atvinnulíf í landinu. Krafa um afvopnun lögreglunnar.
Söngkonan Melina Mercuri: baráttan gegn NATO er stuðningur við frelsisbaráttu Grikkja.
Eggjum, málningu og rotnum ávöxtum kastað á frumsýningargesti við opnunarsýningu Scalaóperunnar í Milano. Slagorðið er “La Scala fyrir alla!”
Lögreglan skýtur á mótmælagöngu námsmanna í miðborg Rómar.
Bein sjónvarpsútsending frá tunglinu: Frank Borman, James Lowell og William Anders kanna bakhlið tunglsins frá geimfarinu Apolló 8. Geimfararnir þjást af svima og ógleði í þyngdarleysinu. William Anders: “Tungið er ekki fallegt, það er eins og skítugur knöttur úr gifsi. Þetta veldur mér vonbrigðum.” Borman: “Þetta er staður sem ég myndi aldrei vilja búa á”.
Við erum stödd á reykfylltum bar í miðborg Rómar. Það er þriðjudagurinn 23. desember. Rykfallnar hillur eru hlaðnar af vínflöskum og skrautlega innpökkuðu jólabrauði. Barinn er skreyttur með músastigum úr mislitum pappír og glimmerskrauti. Í einu horninu hefur verið sett upp líkan af fjárhúsunum í Betlehem. Þar sitja fjárhirðarnir innan um haganlega tálgaðar sauðkindur og nautpening ásamt Maríu og Jósep og virða fyrir sér nýfæddan frelsara mannkynsins. Yfir lýsir Betlehemstjarnan. Það er margt um manninn á barnum þetta Þorláksmessukvöld og bláleitur geisli sjónvarpsins lýsir í gegnum reykjarsvæluna, sem er blönduð lykt af kaffi og áfengi. Bargestir fylgjast með því sem er að gerast á sjónvarpsskjánum eins og með hálfum huga. Ákefðin í rödd þularins virðist ekki snerta þá nema að takmörkuðu leyti. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem sjónvarpað er beint frá tunglinu. “We made it!” hrópar Frank Borman geimfari þar sem hann svífur í þyngdarleysi inn í geimskipinu Apollo 8. Hann er í sigurvímu eftir 30 mínútna spennuþrungið sambandsleysi við jörðu. Sambandið hafði rofnað á meðan geimfarið kannaði bakhlið tunglsins. Á skjánum sjáum við fálmkenndar hreyfingar geimfaranna í þyngdarleysinu. Bormann handleikur myndavélina óstyrkum höndum og beinir henni að ósléttu yfirborði tunglsins. Myndin birtist á skjánum, óljós svipmynd af sprengigígum og sviðinni skorpu tunglsins. Myndavélin skimar áfram út í kolsvartar ómælisvíddir geimsins og allt í einu sjáum við hvar jörðin birtist eins og lýsandi vígahnöttur í myrkrinu.
NASA: Jörðin birtist yfir sjóndeildarhring tunglsins í desember 1968
Gamall maður með gulnaða fingur og hrukkótt og skorpið andlit keðjureykir sígarettur í einu horninu um leið og hann gjóir augunum að skjánum. Það blístrar í honum tóbaksmæðin og hann rær í gráðið. Geiflað andlitið lýsir samblandi af vantrú og vanþóknun og hann bandar frá sér með óstyrkum höndum um leið og reykjarmökkurinn umlykur hann. “Þeir væru ekki lengi að leggja undir sig heiminn”, segir ungur piltur um tvítugt og pantar sér heitt púns við bardiskinn. “Ég held þeir ættu að láta sér nægja Víetnam” segir stúlkan við afgreiðslukassann um leið og hún tekur við peningunum.
Leiðin niður á Via Giulia liggur í gegnum Campo dei Fiori. Undir styttunni af Giordano Bruno sitja nokkur ungmenni og reykja hass. Yfir rökkvuðu torginu grúfir stjörnubjartur kvöldhiminn með glottandi tungli. Einhvers staðar þarna eru þeir Borman, Lowell og Anders í þyngdarleysinu að munda sjónvarpsgræjur sínar. Það grípur gest okkar undarleg þyngdarleysistilfinning, eins og skilin á milli raunveru og draums hafi rofnað. Hann upplifir sjálfan sig eins og farþega í geimskipi sem komið er á sporbraut og úr glymskratta á næsta bar berast nýjustu skilaboðin frá The Rolling Stones: I can’t get no satisfaction, I can’t get no….
Í risíbúðinni í Via Giulia verður þyngdarleysið áþreifanlegt.Ýmislegt hefur breyst þar á tveim árum. Það er hassilmur í loftinu og óreiðan er hin sama. En sagan af förumanninum er ekki lengur í ritvélinni, og það eru komin plaköt og ljósmyndir á veggina sem boða vopnaða baráttu. Innan um bækurnar eftir Borges og Breton má nú sjá tímarit og blöð með nýjan boðskap: Potere operaio, Lotta continua. Það er komin ný mynd á trönurnar í vinnustofu Rósku: “Hlandblautar löggur”. En það er ekki málverkið sem á hug hennar allan þessa dagana: nú eru ljósmyndavélin og kvikmyndavélin orðin hin kjörnu vopn í baráttu þar sem róttækustu dreifiblöðin gefa tóninn: Verkalýðsvald og Baráttan heldur áfram.
Lítum á nokkrar fyrirsagnir í vikublaðinu Potere operaio:
Segjum já við ofbeldi verkalýðsins.
Verkalýðsofbeldið sem tæki í stéttabaráttunni.
Frá vinnustaðaskærum til baráttu til valda.
Skipulagning baráttunnar fyrir alræði verkalýðsins.
Lýðræðið er byssushlaupið í bak verkalýðsins.
Atburðarásin í veröldinni og innanlands hefur magnað upp fortíðardrauga sem ganga nú ljósum logum um rústir Rómaborgar eins og nýtt hjálpræði: upp eru dregnar myndir af hinu frelsandi ofbeldi verkalýðsstéttarinnar og óvinnurinn goðmagnaður í mynd hins blóði drifna arðræningja er ekkert skilji nema ofbeldið. Þetta er eins og að detta inn í trúarbragðastyrjöld frá miðöldum sem er knúin áfram af tveim ólíkum öflum er mætast í sameiginlegum skiningi á svarthvítum heimi þar sem baráttan stendur á milli góðs og ills.
Róska tekur þessa umræðu greinilega inn á sig að einhverju leyti. Uppreisn hennar virðist þó frekar knúin af eðlishvöt og tilfinningu en meðvitaðri rökhugsun. Hún á það vissulega til að bregða fyrir sig þessari trúarlegu orðræðu, en er jafnvís með að snúa út úr henni aftur, hvenær sem hún heldur að verið sé að festa hana í nýjum fjötrum. Í hjarta sínu er hún stjórnleysingi sem lifir fyrir uppreisn gegn öllu yfirvaldi og öllu því skipulagi sem gæti hugsanlega ógnað athafnafrelsi hennar.
Róska: Uppvakning þjóðanna… eða Ó!, fyrsti maídagurinn minn!, veggblað 1975
Til þess að átta okkur á þeirri orðræðu sem liggur í loftinu þessa örlagaríku tíma í Róm getum við litið í tímaritið Potere operaio. Textinn er frá því í september 1972, en gæti eins vetrið frá þessum haustdögum árið 1968. Hann fjallar um vísindin og verkalýðsstéttina og ber yfirskriftina: “Öll vísindi beinast gegn öreigunum.”
Eftir greinargóða og að mörgu leyti trúverðuga lýsingu á því hvernig hernaðarvél stórveldanna í kalda stríðinu, og þá einkum hernaðarvél Bandaríkjanna í Vietnam, hefur tekið vísindin í sína þjónustu í stríði sem beinist ekki bara gegn fátækri bændaþjóð, heldur öllu lífríkinu í Indókína, kemur eftirfarandi ályktun:
“Það sem “vísindin” hafa sýnt okkur, svart á hvítu, með gjöreyðingarstríðinu í Indókína, gerir alla umræðu um “hlutleysi” vísindanna marklausa. Vísindamaðurinn er í dag meðvitað handbendi heimsvaldastefnunnar. Einasta leiðin til þess að stöðva kapphlaupið um gereyðingarvopnin er vissulega ekki fólgin í samræðu (milli yfirdrottnaranna) eða samningum, heldur í kollvörpun ríkjandi kerfis. Þær ráðstefnur um “takmörkun” vopna sem nú standa yfir á milli stórveldanna tveggja (SALT-viðræðurnar) eru haldnar á sama tíma og verið er að prófa nýja vígbúnaðartækni í Víetnam og loftárásirnar þar að ná nýju hámarki. Þessar viðræður þjóna því eingöngu því markmiði að slá reyk í augu hinna auðtrúuðu. Þær byggja á gagnkvæmri tryggingu Nixons og Brésnjevs á því að yfirráð þessarra vopna verði einungis í þeirra höndum, og að “stóru” ríkin þurfi að varna þess að litlu ríkin læri of mikið. Sérhver samningur um mannúðlega þróunarhjálp og sérhver ræða um frið sem kemur frá þeim sem stendur fyrir vísindalegum útrýmingarhernaði og kúgun annarra þjóða getur ekki annað en staðfest okkur enn frekar í þeirri sannfæringu að friðsamleg sambúð er í dag aðeins innantóm orð, til þess fallin að grímuklæða og fela hið daglega ofbeldi yfirdrottnarans….”
Og í sama riti frá því í maí 1970 lesum við þetta:
“Upp úr kjörkössunum kemur ávalt vald yfirdrottnarans. Klukkustundarbarátta sem sviptir yfirdrottnarann því sem honum er kært, auði og völdum, er meira virði en ein miljón atkvæðaseðla. Við verðum að gera okkur ljóst að úr kjörkössunum kemur ávalt vald yfirdrottnarans og umbótasinna hans. Þess vegna er nauðsynlegt að berjast gegn blekkingunni sem tækifærissinnarnir vilja sá í kringum sig innan raða verkafólks með því að halda því fram að kosningar geti tryggt áunnin réttindi stéttabaráttunnar. Kosningar hafa aldrei breytt stöðu verkalýðsstéttarinnar og enn síður boðið upp á að hún nái völdum. Það væru alvarleg mistök að leyfa kosningadraumum umbótasinnanna að veikja baráttu okkar. Ef við gengjum með þá grillu að einn þingmaður geti náð því fram sem einungis baráttan getur þvingað fram, þá jafngilti það sjálfsmorði…”
Orðræða í þessum anda var algeng á árunum 1968-75, ekki bara í Róm, heldur um alla Evrópu og víðar. Hún var afsprengi aðstæðna sem enn hafa ekki verið greindar til fulls. Andófið gegn dauðateygjum gömlu heimsvaldastefnunnar var ekki bara skiljanlegt og réttlætanlegt á þessum tíma, það mátti færa gild rök fyrir því að það væri forsenda allrar listsköpunar er gæti staðið undir nafni – með sama hætti og það var forsenda þess að vísindi gætu talist trúverðug að þau væru ekki notuð í þeim sjúka hernaði sem stórveldin tvö stunduðu jafnt á jörðu niðri sem úti í himingeimnum. Hvernig er hægt að yrkja ljóð eftir Auswitch? spurði Adorno í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari. Það sama gilti um Vietnam. Það sem skapaði þyngdarleysið í þeirri orðræðu sem þarna sveif yfir vötnunum og hér var vitnað í stafaði ekki af óréttmæti andófsins, heldur öllu fremur því, að orðræðan átti sér ekki lengur raunveruleg viðmið: þetta var orðastríð við goðmagnaða drauga og vindmyllur, andstæðingurinn var annars staðar og átti sér dýpri rætur. Rætur sem kannski mátti líka finna í þeirri orðræðuhefð sem þarna var ástunduð. Goðmögnuð trúarleg orðræða. Arfur fortíðarinnar. Líkið í tösku förumannsins.
Forsíðumyndin sýnir Campo de’fiori í róm með styttuna af Giordano Bruno frá árinu 1968