MARGRÆTT MYNDMÁL ÞORVALDS ÞORSTEINSSONAR

 

Í skammdegissóttkvínni verður manni hugsað til hins liðna. Af einhverjum ástæðum sóttu á mig minningar um Þorvald Þorsteinsson, og ég fór að grafast fyrir um eitthvað sem mig minnti að ég hefði skrifað um verk hans. Þá rakst ég á skrif mín í Helgarblaðið fyrir 28 árum síðan. Undarlegt hvað tíminn flýgur... Þessi pistill úr Helgarblaðinu frá 7. Febrúar 1992 er eins og svolítill minnismiði úr fortíðinni um eitthvað sem var að gerast og kveikti í sínum samtíma. Að minnsta kosti í þeim sem þá voru að hugsa um veruleikann og myndir hans. Það er undarlegt til þess að hugsa að nú sé komin upp ný kynslóð myndlistarmanna sem hefur lítil sem engin tengsl við verk Þorvalds. Að vísu héldu Akureyringar minningu hans á lofti í fyrra, en er ekki kominn tími til að kynna verk hans fyrir ungu kynslóðinni á höfuðborgarsvæðinu? Erindi þessa pistils er frekar að kveikja upp í gömlum minningum en að kryfja verk Þorvalds, pistill skrifaður á hraðfleygri stund blaðamanns fyrir tæpum þrem áratugum…

Helgarblaðið 7. Febrúar 1992 

Margrætt myndmál 

 

Þorvaldur Þorsteinsson 

Sýning á teikningum,klippimyndum, textum og ljósmyndum í Nýlistasafninu og á Mokkakaffi 

 Klippimyndir frá 2012

„Hlutirnir í kringum mig kallast á við frummynd sína í höfðinu á mér og mitt hlutverk er að skerpa stöðugt heyrnina svo ég heyri til þeirra,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson í nýlegu blaðaviðtali. 

Þessa fullyrðingu má skilja á ýmsa vegu. Hvers eðlis er sú „frummynd“ hlutanna í umhverfi okkar sem Þorvaldur segir að búi líka i höfði hans? Er það frummyndin sem Platon talaði um að hefði með skilninginn að gera og lægi til grundvallar hinum síbreytilega og hverfula efnisheimi sem skynfærin miðla til okkar á sinn frumstæða og yfirborðskennda hátt? Eða á frummyndin sem Þorvaldur talar um eitthvað skylt við frummyndir þær sem sálfræðingurinn Carl Gustav Jung sagði að byggju i dulvitund allra manna sem sameiginlegur líffræðilegur arfur mannshugans frá því fyrir tíma siðmenningarinnar og birtast okkur í riki draumsins? 

Eftir að hafa séð sýningar Þorvalds í Nýlistasafninu og á Mokkakaffi sýnist mér að  hvorug þessara skýringa eigi beinlínis við. Því það sem myndmál hans fjallar um er í rauninni ekki „frummyndir“ fyrirbæranna í ofangreindum merkingum, heldur tengsl hins ytra forms við þær merkingarmyndir sem formið getur tekið á sig í vitund mannsins. Þegar fyrirbærin í umhverfi okkar vekja með okkur óræða tilfinningu sem við náum ekki að skilgreina fullkomlega á rökrænan hátt, hafa þau öðlast táknræna merkingu. 

Táknið vísar til hins óþekkta og margræða sem á rætur sínar í dulvitundinni á meðan merkið hefur afmarkaða og skilgreinda tilvísun. Munurinn á tákni og merki sést til dæmis í ólíku merkingarsviði biðskyldumerkisins og krossins. Biðskyldumerkið segir okkur að öllu jöfnu aðeins einn afmarkaðan hlut um umferðarreglurnar, krossinn hefur margræða menningarsögulega merkingu og á rætur sínar djúpt í dulvitund okkar sem hið helga tré lífsins. Táknið kallast á við „frummyndir“ sínar í dulvitundinni þegar það vísar til hins margræða og óljósa, sem við getum ekki skilgreint í fáum orðum. Í teikningum sínum og klippimyndum er Þorvaldur að fást við fyrirbæri og form úr umhverfinu og meðhöndla þau þannig að þau öðlist slíka táknræna tilvísun og um leið margræða merkingu. Myndir hans kallast á við dulvitundina, en þær fjalla ekki beinlínis um frummyndir í skilningi Jungs, heldur öllu frekar um tengslin á milli ytri skynveruleika og innri vitundar mannsins, á milli vitundar og dulvitundar, siðmenningar og náttúru. 

Aðferð Þorvalds á ekki skylt við þá aðferð súrrealistanna að draga fram úr dulvitund sinni „málaða ljósmynd af draumi“, sem byggi á óheftu flæði ósamstæðra mynda, heldur notast hann gjarnan við raunverulegar ljósmyndir af hversdagslegum fyrirbærum og meðhöndlar þær þannig að þær varpa ljósi á merkingartengsl sem annars eru okkur dulin. Með því að leggja hálfgagnsæjan pappír yfir myndir af dýrum eða algengum fyrirbærum í náttúrunni og klippa eða skera í hann fastmótuð form, sem gjarnan eru geómetrísk, verða til andstæður sem endurspegla spennuna á milli vöku og draums. Fyrirbærin í náttúrunni, sem þarna birtast okkur misjafnlega skýr undan hálfgagnsæjum pappírnum í gegnum tilskorin geómetrísk form,enduróma spennuna á milli óreiðunnar sem býr í náttúrunni og dulvitundinni og þess skipulags sem vitundin og siðmenningin vilja hafa á hlutunum. Reyndar eru hin tilskornu form Þorvalds ekki í öllum tilfellum geómetrisk: yfir ljósmynd af mjúkfiðruðum strút hefur hann lagt útskorið form af reistum mannslim, sem kallar ekki bara fram sérkennilega andstæðu skipulags og óreiðu, heldur líka sláandi andstæður sem felast í reistum limnum og flosmjúku og kvenlegu fjaðraskrúði strútsins. 

Sams konar andstæður er Þorvaldur að reyna að sætta í teikningum sínum, þar sem fyrirbæri úr heimi náttúrunnar og siðmenningarinnar eru sett upp á stalla og undir gler eins og í tilbúnu safni eða rými, sem er í raun táknmynd sem vísar til innri hugarheims eða vitundar mannsins: vitundin er eins og safnhús sem leitast við að koma skipulagi á óreiðuna í náttúrunni og umhverfi okkar en firrist hvort tveggja um leið. Því þetta safnrými er dauður heimur þar sem öll snerting er forboðin og þögnin ríkir ein. Skipulagsgáfa vitundarinnar hefur slitið öll lífræn tengsl hennar við umhverfið. 

Í myndaröð sem Þorvaldur kallar „skúlptúra“, og unnin er með krít, grafít og olíu á prentaðar myndir, er svipuð hugmynd sett fram í nýrri mynd: ímyndaðir skúlptúrar eru teiknaðir í villta náttúruna. Efni þeirra er landslagið, jörðin, gróðurinn, dýrin og andrúmsloftið. Eins konar ímyndunarleikur þar sem við ímyndum okkur hvernig villt náttúran verði fönguð í tamið form skúlptúrsins. Form þessara skúlptúra eru árangur meðvitaðrar formmótunar, en efni þeirra er villt og óhamið í margbreytileik sínum og stjórnleysi. Eins og dulvitundin.   

Þær myndir á sýningunni í Nýlistasafninu, sem Þorvaldur hefur unnið upp úr Biblíumyndum franska listamannsins Gustave Dorés, eru við fyrstu sýn af nokkuð öðrum toga. Doré var meðal fremstu grafíklistamanna 19. aldar og það þarf í sjálfu sér nokkuð áræði til að leggja út af jafn sígildum myndverkum og Biblíulýsingar hans eru. Ekki síst þegar jafnframt er fitjað upp á hliðstæðri aðferð og súrrealistinn Max Ernst notaðist við í skáldsögu sinni, „Sæluvika“: að klippa út myndparta og skeyta saman á ný og skapa þannig nýtt samhengi eða nýja sögu. Myndir Þorvalds eiga þó, þegar betur er að gáð, fátt skylt við myndir Max Ernsts. Hann blandar ekki saman ólíku myndefni til þess að afhjúpa kynferðislegar duldir og menningarsjúkdóma hins borgaralega samfélags, heldur sker hann meðvitað út stök form í myndum Dorés, skilur eftir auðan flötinn en flytur formin til í myndinni þannig að nýtt samhengi skapast. Þessar myndir þeirra Þorvalds og Dorés eru í einu orði sagt hreinasta augnayndi og vekja jafnframt til umhugsunar um myndmálið, merkingu þess og viðtekna hefð við lestur þess. Eins og til dæmis i myndinni þar sem hermaðurinn stendur yfir Davíð konungi með hörpuna. Þar er harpan horfin úr höndum Davíðs og spjót hermannsins komið í staðinn, en hermaðurinn leggur til skáldsins með hörpuna að vopni. Myndrænt séð ganga þessi formlegu umskipti fullkomlega upp en merkingu myndarinnar hefur verið snúið á haus. Hér erum við vakin til umhugsunar um form og innihald með nýjum hætti, en ef betur er að gáð, þá er rauði þráðurinn í öllum verkum Þorvalds kannski einmitt fólginn í slíkum spurningum. Og það á reyndar ekki síður við um örsögur Þorvalds, sem eru í góðu samræmi við myndmál hans og vekja hliðstæðar spurningar. Eins og til dæmis eftirfarandi saga sem birtist í sögusafninu „Hundrað fyrirburðir“ frá 1987: 

„Einu sinni ákváðum við Pétur að finna alls konar verðmæti í görðum og meðfram götunum. Það var skrýtið hvað leitin gekk vel. Við fundum fullan sígarettupakka, smápeninga og lykil og jafnvel eitthvað fleira. Núna dettur mér jafnvel í hug að Pétur hafi verið búinn að koma hlutunum fyrir og stungið upp á leiknum. En kannski stakk ég upp á leiknum.“ 

Forsenda formsins ákvarðar innihaldið. Hvort var það Pétur eða sögumaðurinn sem stakk upp á leiknum? Hvort var það Þorvaldur eða Doré sem skapaði Bibliusögumyndirnar? Hvort er það náttúran eða siðmenningin, vitundin eða dulvitundin, vakan eða draumurinn, sem setja leikreglur myndlistarinnar? 

Sýning Þorvalds Þorsteinssonar er einhver athyglisverðasta tilraun sem hér hefur sést lengi til þess að kryfja og takast á við forsendur og merkingu myndmálsins. Því miður er það allt of algengt að menn horfi framhjá þeim vanda sem hér er verið að kryfja, en láti sem forsendur myndmálsins séu sjálfgefnar. Spurningarnar sem myndir Þorvalds vekja eru ögrandi og vekja eftirvæntingu um framhaldið. 

Þorvaldur Þorsteinsson: Skór

Forsíðumyndin er frá sýningunni í Nýló 1992, endurunnin eftirprentun úr biblíumyndum Gustavs Doré.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d