VÆNGBROTINN HROSSAGAUKUR

VÆNGBROTINN HROSSAGAUKUR

Endurminning um vorkomuna 1953

Jóhannes S. Kjarval: Vorkoman, 1952

Vordagurinn 17. maí 1953 var fallegur og sólríkur. Ég átti 10 ára afmæli þennan dag og foreldrar mínir höfðu gefið mér í afmælisgjöf fyrsta reiðhjólið sem ég eignaðist á æfinni. Það var rautt með krómuðu stýri, bjöllu, bögglabera, standara og lás, og mér fannst ég hafa eignast allan heiminn. Þetta var bjartur og svalur vordagur og fíflarnir voru búnir að brjóta sér leið undan steyptum skjólveggnum á Leifsgötunni með sín skærgulu blóm; það var þrastasöngur í reynitrjánum, dúfnakvak í þakrennunum og ég hafði heyrt að krían væri komin í Tjarnarhólmann. Hjólið var í hærra lagi miðað við stærð mína, en ég var fljótur að ná jafnvæginu og stefndi nú ótrauður niður að Tjörn til að heilsa upp á kríuna, rétt eins og mér væru allir vegir færir.

Leiðin lá upp Eiríksgötuna, niður Njarðargötuna og niður á Sóleyjargötuna meðfram Hljómskálagarðinum. Þá sá ég skyndilega einhverja undarlega hreyfingu undir runnabeðinu meðfram gangstéttinni. Ég steig af hjólinu, lagði það frá mér og gætti að: vel að merkja, þetta var særður fugl að brjótast um og náði ekki fluginu. Ég náði að handsama hann og þar sem ég stóð með lítinn hrossagauk í lúkunum þarna á gangstéttinni við Sóleyjargötuna kemur skyndilega stór drossía aðvífandi, stoppar snögglega, og út stígur stór og aðsópsmikill maður og spyr mig ákveðinni röddu hvað sé hér á seyði. Ég var rétt búinn að átta mig á að þetta væri vængbrotinn hrossagaukur, og ég skynjaði öran hjartslátt hans í lófum mínum, en þegar ég leit upp til þessa stóra manns sá ég strax að þetta var enginn annar en Jóhannes Kjarval, listmálarinn sem var höfundur eftirprentananna sem prýddu heimili okkar á Leifsgötunni og ég hafði áður séð ásýndar á listsýningu, líklega við opun Listasafns Íslands tveim árum áður. Ég bar lotningafulla virðingu fyrir þessum manni, sem þurfti ekki að kynna sig, og sagði honum sem var, að ég hefði fundið fuglinn í barningi undir runnanum. Hann sagði mér umsvifalaust og ákveðið að koma strax með fuglinn upp í bílinn, því hann þyrfti að komast undir læknishendur.  Ég hlýddi eins og þægt barn, skildi nýja hjólið eftir á Sóleyjargötunni og settist í aftursætið  við hliðina á meistara Kjarval sem skipaði bílstjóranum að keyra rakleiðis á Landspítalann. Þetta var leigubíllinn hans Kjarvals. Listmálarinn var í talsverðu uppnámi og talaði um kattapláguna á leiðinni á Landspítalann, þar sem við fórum saman inn með fuglinn og kölluðum eftir viðtali við yfirlækninn. Bráðavaktin var reyndar á þessum tíma til húsa í Austurbæjarskólanum, Borgarspítalinn ekki risinn, en Kjarval lét eins og hér væri um stórslys að ræða sem kallaði á allra bestu sérfræðiþjónustu. Og yfirlæknirinn kom að vörmu spori og skoðaði fuglinn gaumgæfilega, en sagði svo að við værum ekki á réttum stað, við ættum að fara með hrossagaukinn til Finns Guðmundssonar fuglafræðings, sem þá bjó í fjölbýlishúsi við Lönguhlíð. Hann væri eini maðurinn á Íslandi sem hefði þekkingu á fuglalæknisfræði. Eftir talsverðar umræður um alvarleika málsins og um kattapláguna var okkur lánaður lítill pappakassi undir fuglinn og stefnan tekin á Lönguhlíðina.

Á leiðinni í Lönguhlíðina talaði Kjarval mikið um hirðuleysi kattareigenda og það hneyksli að fuglar eins og þessi hrossagaukur hefðu lagt á sig langt flug yfir Atlantshafið til þess eins að lenda í klóm kattarins. Það ætti að skylda alla kattareigendur til að loka þessi rándýr innan veggja heimilisins á þessum árstíma. „Og nú þegar fuglarnir eru að koma til okkar yfir hafið fréttum við af því að það eigi að flytja heilu flugfarmana af Reykvíkingum til Spánar í sumar, þeir kunna ekki gott að meta. Nær væri að senda kettina í þessar flugvélar og leyfa fuglum og fólki að njóta náttúrunnar í friði hér á þessu eylandi, sem ætti að vera griðarstaður farfuglanna“. Það var umtalað í fréttum hérlendis á þessum tíma, og þóttu stórtíðindi, að Ferðaskrifstofa Íslands hefði skipulagt flugferðir með þrjá flugfarma af Íslendingum til Spánar þetta sumar, og mun það hafa verið upphafið að sólarlandaferðum Íslendinga.

Við komum í Lönguhlíðina og fórum upp á þriðju hæð, ég með pappakassann og fuglinn í fanginu,  þar sem við hringdum á dyrabjöllu Finns fuglafræðings. Til dyra kom kona sem sagði fuglafræðinginn vera staddan austur í Þrastarskógi, og Kjarval sagði án tafar að þá yrðum við að fara þangað. Það væri ekki um annað að ræða ef bjarga ætti fuglinum. Þegar við komum í leigubílinn og Kjarval sagði bílstjóranum að taka stefnuna á Þrastaskóg fóru að renna tvær grímur á ungan dreng með dýrmætan pappakassa í fanginu.

Ég vissi hvar Þrastaskógur var, en ég vissi líka hvar nýja hjólið mitt var og hvar foreldrar mínir voru. Það var enginn farsími eða símaklefi á þessum tíma. Þrátt fyrir ákafar fortölur meistarans gat ég fengið því áorkað að bílstjórinn tók stefnuna á Leifsgötuna en ekki Þrastaskóg. Þegar þangað kom kvaddi ég meistara Kjarval með loforðum um að gera allt sem í mínu valdi stæði til að bjarga lífi fuglsins.

Ég fór með kassann til foreldra minna, en þau voru farin að undrast um fjarveru mína. Sagði þeim alla söguna og að nú yrði að gera allt sem í mannlegu valdi stæði til að bjarga lífi hrossagauksins. Ég fór með pappakassann á skjólgóðan stað í stofunni og fór strax út í garð í leit að maðki og flugum til að næra fuglinn. Fór síðan niður á Sóleyjargötu að sækja hjólið mitt, sem var enn á sínum stað, læst með takkalásnum 2 takkar inn og 2 takkar út. Næstu dagar fóru allir í umhirðu um fuglinn, en foreldrar mínir töldu frekari eftirsókn eftir læknisaðstoð ekki vænlega til árangurs. Matarlyst fuglsins reyndist lítil, og hann dó eftir 3 daga. Ég gróf hann með mikilli virðingu í blómabeðinu í bakgarðinum á Leifsgötunni.

Það var kaldhæðni örlaganna að seinna á æfinni átti ég eftir að hafa að lífsviðurværi að taka á móti flugförmum af Íslendingum sem sóttu á sólarstrendur við Miðjarðarhafið. Aldrei man ég eftir að hafa tekið á móti íslenskum ketti í þeim viðskiptum. En kannski gæti þessi saga orðið einhverjum kattareiganda á Íslandi til umhugsunar, bæði um farfuglana og þá fljúgandi umhyggju sem meistari Kjarval sýndi náttúrunni og ungum dreng af Leifsgötunni fyrir 67 árum síðan.

Greinarhöfundur með splunkunýtt reiðhjól og Jóhannes S. Kjarval. Myndirnar teknar um svipað leyti 1953.

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d