SAMDRYKKJAN

Námsefni fyrir Listaháskólann um Samdrykkju Platons

Samdrykkjan

Samantekt eða efnislegur útdráttur.

Ath. Lestur á texta Platons í útgáfu Bókmenntafélagsins og íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar (1999) er skylda fyrir þetta námskeið. Eftirfarandi samntekt er gerð til að auðvelda lesturinn, þar sem engin kaflaskil eru í verkinu, heldur einungis spássíutölur og bókstafir. Út frá þessari samantekt er hægara að fletta upp á einstökum efnisatriðum.

  1. atriði 172 a – b

Nokkrir vinir biðja Apollódóros  að segja það sem hann veit um  hvað hafi gerst í Samdrykkjunni hjá harmleikjaskáldinu Agaton  fyrir all löngu síðan.

  1. atriði – (Tilurð verksins) 172 c- 173 e

Apollódóros var nýbúinn að segja Glákon vini sínum þessa sögu, en Glákon hafði staðið í þeirri trú að Apollódóros hefði sjálfur verið viðstaddur, sem ekki var mögulegt, segir Apollódóros, því svo langt var um liðið, samdrykkjan hafði átt sér stað þegar hann var sjálfur kornungur strákur. Hann hafi hins vegar heyrt söguna hjá manni að nafni Aristódemos, sem var náinn vinur Sókratesar og viðstaddur samkvæmið. Sagan er höfð eftir Aristódemosi.  Samdrykkjan er skáldað leikrit, þar sem heimild sögunnar er maður, sem ekki var viðstaddur en hafði sögun eftir öðrum. Þetta er meðvitaður leikur Platons til að fela höfundarverk sitt. Á bak við skáldskapinn eru hins vegar lifandi umræður sem vafalaust tengjast sambandi Platons og lærimeistarans, Sókratesar, en einnig  þeim „samdrykkjum“ sem tíðkuðust í kringum Akademíu Platons í Aþenu

  1. atriði (Frásögn Aristódemosar – heimildamanns um veisluna)  174a-178 a

Aristódemos hittir Skókrates á gangi, allan hreinan og uppstrílaðan aldrei þessu vant. Hann er á leið í veislu hjá Agatoni, sem heldur upp á sigur sinn í leikritasamkeppni.  Sókrates  býður Aristódemosi að koma með, þó hann hafi ekki verið boðinn í veisluna.  Þegar Aristódemos kemur í veisluna uppgötvar hann að Sókrates er horfinn,  hann hafði numið staðar út á götu, uppnuminn af hugsunum sínum.  Aristódemos kemur í veg fyrir að hann sé truflaður.  Sókrates kemur síðan inn í miðja veisluna, og Agaton býður honum  að setjast á legubekkinn með sér (gestir snæddu og drukku liggjandi).  Að afstaðinni máltíð hefst eiginleg samdrykkja (drykkja og ræðuhöld) þar sem þátttakendur fara að ráðum læknisins Eryxímakkosar og ákveða að stilla drykkju í hóf, m.a. til þess að samræðan verði markvissari. Fædros á hugmyndina að umræðuefninu: lof Erosar, og hann hefur samræðuna.

  1. atriði (Fædros-áhugamaður um mælskulist) 178a -180 b

Eros er elstur Guðanna og ekkert jafnast á við gjafir hans. Skömmin á lágkúrunni og eftirsóknin eftir hinu göfuga og fagra sjást af dæmum Aklesti, Orfeifs og Akkillesar. Fædros gerir greinarmun á elskanda og hinum elskaða sem geranda og þolanda í ástarsambandi. Hann segir að þar sem elskandinn sé setinn af guðinum þá sé hann guðdómlegri en hinn elskaði (sveinn).

  1. atriði (Pásanías – ástmaður Agaþons) 180 c-185 c

Rétt eins og til eru tvær Afródítur þá eru tveir Erosar og tvenns konar ástir: Eros hinnar alþýðlegu Afrodítu er hvati holdlegra ásta og beinist frekar að konum og hinu líkamlega en drengjum og hinu andlega. Eros hinnar himnesku Afródítu (sem á enga hlutdeild í hinu kvenlega) beinir ástinni að hinu karllega, „sem er í eðli sínu sterkara og skynsamara“. Þessi ást beinist ekki að smádrengjum, heldur að piltum sem eru að  vaxa til sjálfstæðrar hugsunar. Samkynhneigðar ástir eru litnar ólíkum augum í Grikklandi og nágrannabyggðum. Í Jóníu og annars staðar þar sem menn búa við útlenda stjórn þykir hún skammarleg, því þeir „hafa skömm á heimspeki og íþróttum og búa við alræðisstjórn“. Í Grikklandi eru siðvenjurnar „fullkomnari“, þar sem „sæmra telst að elska opinskátt en í laumi, einkum ættgöfuga og dugandi pilta“. Í Elis og Böótíu eru allar sveinaástir vel séðar, en í Aþenu eru uppi meiri gæðakröfur: „ástin er hvorki fögur né ljót í sjálfri sér, heldur sé hún fögur þegar fallega er að verki staðið“.  Hið „ljóta“ felst í því að girnast líkamann fremur en sálina, sveinaástin þarf því að tengjast dyggðinni.

  1. atriði (Aristófanes forfallast vegna hiksta) 185c – 185 e
  2. atriði (Eryxímakkos – læknirinn) 185 e- 188 e

Rétt hjá Pásaníusi að til eru tvenns konar ástir, en hann gleymir að ástin er til staðar í öllum lífverum. Læknisfræðin hefur kennt mér að til sé heilbrigð ást er snúi að hinu góða, og sjúk ást er beinist að hinu sjúka. Allir sem verða gripnir hinu síðarnefnda verða sjúkir, og allir læknar vita, að í slíkum tilfellum er hlutverk þeirra að beina ástinni á rétta braut.  Allar greinar vísinda og lista gegna í raun þessu sama hlutverki.

  1. atriði (Aristófanes – gamanleikjahöfundur) 189 e – 189 d

Aristófanes hafði farið að ráðum læknisins Eryxímakkosar, hnerrað og snýtt sér svo hikstinn hvarf. Aristófanes vill skýra Eros og langanir hans út frá upprunasögu mannsins:

  1. atriði (Aristófanes-Kúlumennin) 189 d – 194 e

Í upphafi voru mennirnir kúlulaga með 4 fætur og 4 handleggi og 2 höfuð og tvenn kynfæri og þrjú kyn: 2xkk, 2xkvk, 1kk+1kvk. Seifi blöskraði afl þeirra og ákvað að kljúfa alla í tvennt. Hann lét Apollon sauma húðina yfir sárið þar sem ör var skilið eftir í naflanum. Höfðunum var snúið við svo maðurinn sæi ávalt „örið“ eftir sárið. Síðan hefur  maðurinn verið „táknbrot“ manns og ávalt leitað hins helmings síns.  Ástin er óstöðvandi þrá sérhvers til að sameinast hinum helmingnum af sjálfum sér.  Þeir sem voru hreinir kk eða kvk urðu samkynhneigðir, hinir gagnkynhneigðir. En A. segir ógerlegt að tjá ástina með orðum því hún sé handan allra skynsemisraka: „Og þó að þeir verji ævinni saman gætu þeir ekki sagt hvers þeir óska sér af hinum… Líkt og véfrétt mælir sálin það sem hún vill í torskildum gátum.“ Skýringin á þessu er sú að „við vorum forðum heilir. Þráin og sóknin eftir þessari einingu heitir Eros.“

  1. atriði (Agaþon – harmleikjaskáld og gestgjafi) 194 e – 197 e

Það sem vantar í þær ræður sem haldnar hafa verið er skilgreining á viðfangsefninu, Erosi.  Eros er fegurstur, bestur og yngstur guðanna, hann er eilífur, hófsamur, vitur og hugrakkur. Án Erosar yrði enginn getnaður og viðkoma, engin list og engar dyggðir. Eros er líka hvati þess að yfirfæra dyggðir hans á aðra.

  1. atriði (Sókrates) 198 a – 201 e

Ef þessi samræða á að snúast um eilífan lofsöng um Eros, þá á ég varla heima hér, en ef mér leyfist vildi ég, (sá sem ekkert veit , nema sannleikann um ástina),  segja ykkur þennan sannleika eins og mér var sagður hann af konu. En fyrst beinir Sókrates spurningum til Agatons um viðfang ástarinnar, og þar með um löngunina. Löngunin beinist alltaf, segir hann, að því sem við höfum ekki, og hver er löngun Erosar þá? Agaton segir löngunina beinast að hinu fagra, sem er líka hið góða. Samkvæmt þessu hefur Eros hvorki hið góða né hið fagra, og hvað hefur hann þá? Þá hefst samtal Sókratesar við Díótímu, sem svarar þessari ráðgátu á þann veg, að það sem hvorki sé fagurt né gott þurfi ekki endilega að vera ljótt og illt. Eros þurfi heldur ekki að vera dauðlegur þó hann hafi ekki þá eiginleika guðsins að vera hið fagra og góða. Hann „fyllir rýmið“ á milli guðs og manna, himins og jarðar, hann er demón eða andi, sem gegnir miðilshlutverki á milli guðs og manna.

  1. atriði (Díótíma -löngunin eftir ódauðleika) 201 e- 210a

Díótíma segir Eros fæddan af dauðlegri konu, Peníu (=Fátækt) og guðinum Póros (=guð útgönguleiðanna), sem er ódauðlegur. Hann sé því að upplagi fátækur, tötralegur og aumur og því fullur af löngun (eftir því sem hann hefur ekki) en um leið hafi hann erft  úr föðurlegg að vera úrráðagóður, snjall, hugrakkur bragðarefur, til alls vís, í stöðugri viðleitni að fóðra óseðjandi langanir sínar. Hann er hvorki dauðlegur né ódauðlegur, heldur er hann sífellt að deyja og endurlífgast.  Hann ert hvorki guð né maður, hvorki alvitur né heimskur, heldur mitt á milli. Sá sem situr á viskunni leitar hennar ekki eða þráir. Sá sem er alheimskur gerir sér ekki grein fyrir því, og leitar því ekki viskunnar heldur.  Einungis þeir sem eru mitt á milli leita viskunnar, og því er Eros ástmaður viskunnar, sannur heimspekingur.  Ekki má rugla saman ástmanninum og því sem hann elskar. Það er ekki rétt sem Fædros sagði, að ástmaðurinn sé elskhuganum æðri, heldur þveröfugt. Einnig segja menn að einungis sumir elski, en aðrir ekki, en menn gangast Erosi á hönd með margvíslegum hætti, líka t.d. í viðskiptum, lögspeki eða heimspeki; löngunin eftir hinu góða og því að lifa farsællega er „hinn voldugi og vélráði Eros í hverjum okkar“.  Löngunin eftir hinu góða og farsæld er öllum mönnum sameiginleg, því elska allir. Ást sumra beinist að persónum, annarra að listinni, stjórnmálunum, efnahagslegum ávinningi o.s.frv, og þeir vilja eiga það um alla framtíð. Ástin er löngunin eftir að höndla hið góða um aldur og ævi. Ástin er því þrá eftir ódauðleika. Manninum stendur ekki önnur eilífð til boða en getnaðurinn, en því  er við að bæta að getnaður telst ekki bara til hins líkamlega. Til er líka andlegur getnaður, persónur sem eru haldnar andlegu frjómagni og löngun til getnaðar. Frjósemi þeirra getur af sér listaverk, hugsanir, stjórnsýslu. Slíkar persónur þurfa sérstaka innvígslu inn í leyndardóma ástarinnar til þess að skilja sjálfa sig og þarfir sínar.

  1. atriði (Díótóma- platónsk stigveldishugsun) 210 a-212 c

Getnaður getur ekki orðið í ljótleika, og því leitar sá sem er haldinn getnaðarhvöt (hinn ástfangni) að fögrum líkama, sem aftur getur af sér fagrar hugmyndir. Ef þessi líkami hefur fagra sál vekur hún löngun og getnaðarhvöt, en ekki líður á löngu þar til hugsanir hins ástfangna ryðja sér braut og hann hættir að hugsa um tiltekinn líkama, því fegurð allra líkama sé ein og söm, og af því leiðir að hann tekur að elska fegurð allra sálna, og síðan að skilja að hin líkamlega fegurð, sem er hverful, sé lítils verð miðað við fegurð sálarinnar og þá fegurð sem í þekkingunni býr. Þannig leiðist hann smám saman að endanlegu markmiði ástarinna, sem er hin undursamlega fegurð í sjálfri sér, sú sem er ævarandi, fæðist hvorki, eykst né þverr, heldur er alltaf hin sama. Þarna leynist leyndardómur ástarinnar, sem er fegurðin í sjálfri sér, óháð öllum efnislegum myndum hennar. Þegar einstaklingurinn hefur náð að sjá hið fagra í sjálfu sér auðnast honum að geta af sér sanna dyggð, sem er fullnæging getnaðarþrárinnar.

  1. atriði (Alkibíades – herforingi og stjórnmálamaður -afbrýðisemin) 212 d -215 a

Að lokinni lofsverðri ræðu Sókratesar heyrist hávaði utan dyra og brátt birtist íturvaxinn en dauðadrukkinn gestur í dyrum með bergfléttusveig á höfði: Alkibíades í fylgd með flautuleikurum og vinum og með blómakransa. Hann vill krýna gestgjafann, Agaþon, og veita þannig viðurkenningu fyrir skáldskap hans.  Einn sveigurinn fellur yfir augu hans svo hann sér ekki Sókrates, þar sem hann sest á milli hans og Agaþons. Þegar hann kemur auga á Sókrates stekkur hann upp og sýnir afbrýðisemi með því að ásaka hann fyrir að hafa valið sér fríðasta manninn, Agaþon, sem sessunaut. Hann krýnir Sókrates líka blómakransi. Sókrates biður Agaþon um að verja sig gegn afbrýðisemi Alkibíadesar, en Eryxímakkos læknir minnir Alkibíades á að hér hafi viðstaddir haldið lofræður um Eros, og honum beri að gera hið sama, í stað þess að drekka í óhófi.  Alkibíades segist ekki getað lofað nokkurn annan mann en Sókrates að honum sjálfum viðstöddum, og heldur honum því lofræðu:

  1. atriði (Lofræða Alkibíadesar um Sókrates) 215 a – 222 b

Sókrates er eins og Sílenus eða satír, ljótur og ólánsamur í útliti, en guð að manni innvortis. Hann er eins og Marsýas, en mun snjallari, svo goðumlíkur innvortis að þeir fáu er fá að sjá hans innri mann  gera samstundis allt sem Sókrates segir. Alkibíades taldi sig hafa heillað Sókrates með fegurð sinni og þar með höndlað gæfuna. Alkibíades segist hafa beðið eftir ástarorðum Sókratesar án árangurs, hann hafi einungis haldið áfram eilífum rökræðum sínum og látið sig síðan hverfa. Að lokum sagðist Alkibíades ekki hafa staðist mátið lengur, dregið Sókrates með sér í hvílu og játað honum ást sína og örlæti á líkama sinn. Sókrates hafði þá svarað að Alkibíades vildi vöruskipti: sýndarfegurð fyrir sanna fegurð, en hann ætti eftir að komast að því að hann sjálfur (Sókrates) væri einskis verður. Í kjölfar þessara orðaskipta sagðist Alkibíades hafa breitt sæng yfir Sókrates og lagst undir hana og vafið hann örmum, en allt án árangurs: „Sókrates lítilsvirti þokka minn, hæddi og smánaði“. Þessi forsmánun gerði ekki annað en að auka þrá Alkibíadesar eftir Sókratesi, sem hann segist hafa fyrst fundið til, þegar þeir voru saman í hernaði og Sókrates sýndi ótrúlegt æðruleysi og hreysti. Hann segist ekki geta hætt að hugsa um Sókrates eftir að hafa kynnst honum, þrátt fyrir alla forsmánina sem hann hefur mátt þola, og varar Agaþon við að lenda í sömu gildrunni.

  1. atriði (Lokaþáttur-upplausn) 222 c-223 d

Allir lofa Alkibíades, nema Sókrates, sem hæðist að honum og segir hann vilja spilla sambandi hans við Agaþon. Skyndilega kemur hópur drukkinna manna inn í húsið, og leggjast þeir óboðnir upp í hvílurnar með háreysti og drykkju og snúa öllu á hvolf, þannig að sumir fyrri gesta yfirgáfu svæðið en aðrir sofnuðu. Aristódemos segist hafa vaknað um morgunninn við að Agaþon, Aristófanes og Sókrates stóðu einir uppi og ræddu og drukku saman úr stórri skál, og segist Aristódemos ekki muna annað úr samræðunni en þau orð Sókratesar, að sá sem hefði vald á skopleikjagerð væri jafn hæfur til harmleikjasmíða. Að lokum sofnuðu allir, nema hvað Sókrates gekk út í morguninn og Aristódemos fylgdi í humátt  á eftir honum til Lýkeion, þar sem Sókrates þvoði sér til þess að takast síðan á við nýjan dag án þess að sofa.

Grísk samdrykkja karlmanna þar sem heimspekileg samræða er iðkuð. Mynd frá 4. öld f. Kr.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: