Hugleiðing í kjölfar leikhúsupplifunar
Það var leikhúsupplifun að sjá leikrit Peters Weiss, Marat Sade, í uppfærslu Labloka-leikflokksins á sviði Borgarleikhússins í gær. Úrval öldungadeildar íslenskrar leikarastéttar undir leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar sviðsetur sýningu í sýningunni: sviðsuppfærslu Marquis de Sade á morðinu á Jean-Paul Marat með vistmönnum á Charenton geðveikrahælinu í París í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar. Hugmynd sem gefur höfundi og flytjendum möguleika til að sviðsetja heiminn sem það geðveikrahæli sem hann var árið 1807 undir ógnarstjórn Napoleons í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar, rétt eins og hann var þegar Peter Weiss skrifaði verkið 1963, árið sem John F Kennedy var myrtur og Bandaríkjamenn létu til skarar skríða í stríðinu í Vietnam, rétt eins og hann er á okkar tímum í vitfirringu yfirgengilegs blóðbaðs í hjarta Evrópu, rúmum 200 árum eftir þá ógnarstjórn sem franska stjórnarbyltingin leiddi af sér í lok 18. aldar. Hugmyndin að þessu leikhúsverki er snilldarleg og tímasetning þessarar uppfærslu er sannarlega við hæfi: geðveikrahælið hefur á okkar tímum öðlast hnattræna vídd sem aldrei fyrr með nútíma samskiptatækni þar sem veruleikinn hefur hefur tekið á sig nýja stafræna vídd er útvarpar ógnarstjórninni með hnattrænum hætti og í rauntíma sem yfirstígur allan áður þekktan veruleika og tímaskyn.
Í þessari sýningu er Marquis de Sade fulltrúi hinnar hreinu og ómenguðu einstaklingshyggju sem í raun endurspeglar fyrsta kjörorð byltingarinnar: frelsishugstakið, sem í miskunnarlausu raunsæi de Sade afhjúpar ofbeldið sem það felur í sér. De Sade hefur komist að þeirri rökréttu niðurstöðu að frelsið feli í sér réttinn til að vera öðruvísi en hinir. Sá réttur kallar á ofbeldi, eða hvað væri frelsið án þessarar fullnægingar ofbeldisins? Endanleg niðurstaða hans er ofbeldi óheftrar einstaklingshyggju.
Jean-Pierre Marat er byltingarforinginn sem segir frelsið óskiljanlegt án jafnréttisins, því hvað er frelsi eins án frelsis allra hinna? Jafnréttið er hins vegar jafn hált hugtak og frelsishugtakið, því engir tveir einstaklingar eru fæddir eins, og auk meðfædds kynbundins mismunar þá hefur náttúran ekki gengið út frá jafnaðarstefnu í sköpunarverki sínu: Sumir eru sterkari en aðrir, og þar verður jafnræði ekki komið á nema með valdi. Til þess höfum við ríkisvaldið.
Bræðralagið er gildishlaðið hugtak sem á sér trúarlegar rætur og hefur í sögunnar rás reynt að leysa úr andstæðum gildum frelsis og jafnréttis. Í þeim guðlausa heimi sem franska stjórnarbyltingin innleiddi virðist þetta hugtak falla á milli stafs og hurðar í þeirri afskræmdu mynd kynlífsins sem de Sade setur á svið í lok leiks síns undir kjörorðinu „bylting og samfarir“: kynlífið verður hin afskræmda mynd bræðralagsins í þessum sturlaða átakavettvangi vistmannanna á Charenton-hælinu sem með sturluðum ærslum sínum fá okkur áhorfendur til að horfa í eigin barm.
Það mun hafa verið franska stjórnarbyltingin sem innleiddi hugtökin hægri og vinstri sem lykilinn að stjórnmálaátökum samtímans. Einstaklingshyggja de Sade tilheyrir hinni gömlu yfirstétt konungsveldisins sem keisaraveldi Napoleons var framlenging á. Þessari hefð hefur verið viðhaldið til samtímans: rétturinn til að vera öðruvísi en hinir er viðtekin hægri-stefna í samtímanum, sem hefur yfirlýstan forgang einstaklingsins á sinni stefnuskrá. Einstaklingshyggjan er eðlilega skilin sem ofbeldi af hálfu undirsátanna.
Jafnréttishugsjónin er talin tilheyra vinstri-öflunum, þeim sem vilja yfirstíga hinn náttúrlega mismun einstaklinganna varðandi kynferði, líkamsbyggingu, litarhátt, holdafar, ætterni, þjóðerni o.s.frv. Það gerist með lögregluvaldi ríkisins. Jafnréttið er hér eðlilega skilið sem ofbeldi af hálfu þeirra einstaklinga sem finna til sinna arfbornu yfirburða sem náttúrurétt.
Í þessari tvískiptingu hefur bræðralagshugmyndin óljósari skírskotun með afhelgun réttarríkisins. Og sannleikurinn er sá að þessar gömlu hólfaskiptingar virðast á okkar tímum hafa orðið þokunni að bráð: með hnattrænni yfirdrottnun á forsendum tækni- og vélvæðingar er virðist lúta eigin lögmálum verður æ erfiðara að finna mörkin á hægri og vinstri, einkum og sér í lagi ef við ætlum okkur að beita mælistikum tækninnar og vísindanna: stjórnmálin lúta ekki lengur hugmyndum um einstaklingshyggju eða jafnrétti nema í orði kveðnu. Frelsið til að greiða atkvæði hefur æ minna vægi í átökum hægri og vinstri, því þessir tvískiptu flokkar lúta nú sama yfirþjóðlega valdinu sem gengur fyrir vélvæddu stýriafli eigin eflingar án annarra markmiða.
Við þessar aðstæður er ekki óeðlilegt að líta til Karls Marx, sem telja má forsprakka hinnar veraldlegu jafnræðishyggju í hugmyndasögu okkar Vesturlandabúa. Þó er ekki hægt að segja um hann að hann hafi trúað á jafnræði allra manna sem náttúrlegan rétt. Hann talaði um jafnræði á þeim forsendum að hver legði fram eftir eigin getu og bæri úr býtum eftir eigin þörfum. Þessi regla gengur ekki út frá náttúrubundnum rétti til jafnræðis. En úrlausn hennar verður okkur engu að síður vandasöm, því hver á að dæma um þarfir náungans?
Það eru spurningar af þessu tagi sem vakna við að sjá sýninguna Marat Sade í Borgarleikhúsinu þessa dagana.