Íslandsvitinn eftir Claudio Parmiggiani
Þessi grein birtist upphaflega í sérstakri sýnigarskrá sem Fondazione Antonio Mazzotta gaf út í tilefni af vígslu verksins Viti eftir Claudio Parmiggiani í januar árið 2000, en verkið stendur ofan við Sandskeið á Hellisheiði. Í skránni eru einnig textar eftir Claudio Parmiggiani og listfræðingana Ester Coen og Marco Vallora. Sýningarskráin er prýdd ljósmyndum eftir Guðmnd Ingólfsson. Sýningarskráin er á íslensku og ítölsku. Allir textarnir í sýningarskránni voru síðan endurútgefnir í veglegri bók franska forlagsins Adam Brio árið 2002, „Le Phare d’Islande“með glæsilegum ljósmyndum Guðmundar Ingólfssonar sem hafði fylgt eftir smíði og uppsetningu verksins. Bókin er á frönsku og ítölsku. Vitinn var settur upp á vegum Reykjavíkurborgar í tilefni þess að hún hafði verið valin ein af „menningarborgum Evrópu“ árið 2000. Smíði Vitans var framkvæmd af Vélsmiðju Orms og Víglundar og Formax hf. undir eftirliti Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og Orkuveitu Reykjavíkur. Ólafur Jónsson sá einnig um eftirlit með verklegum framkvæmdum, en undirritaður var listrænn umsjónarmaður verksins. Staðarval Vitans var í framkvæmt af undirrituðum og Helga Þorgils Friðjónssyni í samvinnu við Orkuveituna.
Þegar Claudio Parmiggiani kom til Reykjavíkur fyrir hálfu öðru ári síðan til þess að taka þátt í alþjóðlegri námsstefnu um myndlist á vegum háskólans, kynnti hann í fyrsta skipti hugmynd sína um að reisa útilistaverk á Íslandi. Hugmynd hans var að reisa hér vita, sem átti ólíkt öðrum vitum að standa inni í landi, úr augsýn allra sjófarenda, og jafnframt utan byggða eða jafnvel alfaraleiða.
Þetta átti ekki að vera skúlptúr í hefðbundnum skilningi, ekki mynd af einhverju eða mynd sem sótti réttlætingu í form sitt, heldur einungis viti af einföldustu gerð. Ljós í myrkrinu.
Verkið átti heldur ekki að vera hefðbundinn viti með blikkandi ljósmerki sem varar við blindskerjum og markar siglingaleið, heldur viti með stöðugu og viðvarandi ljósi er beindist í höfuðáttirnar fjórar. Sívalur turn gerður úr járni og ljósi, einfaldur og hreinn í formi sínu.
Merking hans og tilgangur voru ekki bara hugsuð út frá fagurfræðilegum forsendum, heldur líka siðfræðilegum. Þegar Parmiggiani sendi okkur uppdrátt að hugmynd sinni lét hann fylgja með ljósrit af koparstungu sem birtist í ritinu Atalanta fugiens eftir Michael Maier frá árinu 1618. Myndinni fylgdi stuttur texti á latínu ásamt tilheyrandi nótnaskrift. ´
Á myndinni sjáum við íturvaxna konu ganga berfætta að næturlagi undir fölri skímu minnkandi tungls. Hún ber slör á höfði sem feykist í vindinum í takt við léttan kjólfaldinn. Í hægri hendi ber hún útréttan blómvönd, en ávexti í þeirri vinstri. Svo virðist sem hún gangi í uppþornuðum árfarvegi þar sem hún skilur eftir sig spor í sandinum. Farvegurinn skilur að sviðna jörð og gróna. Í humátt á eftir konunni gengur hokinn frakkaklæddur maður með undarleg gleraugu, hikandi skrefum. Hann heldur á lýsandi olíulampa í vinstri hendi en styður sig við göngustaf með þeirri hægri. Undir myndinni er latínutexti sem býður heimspekingnum að fylgja náttúrunni með skynsemina og reynsluna að vopni og með því að ástunda lærdóm og listir.
Michael Maier: úr Atalanta Fugiens, 1618
Þótt Parmiggiani hafi þannig vísað til hinnar hermetísku dulhyggju þegar hann kynnti verk sitt, þá er ekki rétt að taka þá vísun of bókstaflega. Ljósið í Vita Parmiggiani beinist ekki að fortíðinni, heldur að samtímanum, og það á rætur sínar fyrst og fremst í list samtímans.
Í þessu sambandi hygg ég að sú ákvörðun að ætla verkinu stað inni í víðerni íslensks öræfalandslags skipti miklu máli, og að hana megi túlka sem ögrandi skilaboð til samtímans. Vitinn átti ekki bara að vera úr augsýn allra sjófarenda, nánast falinn í einum afskekktasta kima í útjaðri Evrópu, á svæði sem kalla mætti eitt síðasta vígi ósnortinnar náttúru í gjörvallri álfunni. Hann átti líka á afdráttarlausan og meðvitaðan hátt að vera fjarri sviðsljósi heimslistarinnar.
Sá vilji Parmiggiani að staðsetja verk þetta í óbyggðum á Íslandi verður skiljanlegri þegar við skoðum verkið í samhengi við fyrri verk hans. Þetta er ekki fyrsta útiverkið sem hann reisir utan alfaraleiðar. Á árunum 1975-91 vann hann að verkinu Una Scultura/ Skúlptúr sem staðsett er á fjórum stöðum, í fjórum heimshornum ef svo mætti segja. Fjögur virki hlaðin úr múrsteinum utan um tómarými, staðsett út frá höfuðáttunum fjórum, hvert öðru ólíkt en þó hlutar af einu verki. Í heild sinni er þetta verk einungis til sem hugmynd, og það verður ekki upplifað í heild sinni án langra ferðalaga í tíma og rúmi frá Egyptalandi um Tékkland til Ítalíu og Frakklands. Parmiggiani hefur nýlega unnið hliðstætt verk (Ferro, Mercurio, Oro / Járn, Kvikasilfur, Gull, 1999) á torsóttum fjallstindi á eyjunni Corsicu, þar sem hann felldi gullhúðuð handaför sín í bráðið járn ofan í harða granítklöppina. Það verk ber aftur skyldleika við eldra verk, (Terra / Jörð, 1988) sem er hnöttur úr brenndum leir með lófaförum listamannsins, sem grafinn var til frambúðar í jörð í klausturgarði nútímalistasafnsins í Lyon í Frakklandi.
Claudio Parmiggiani: Ferro, Mercurio, Oro, Mont d’Or, a, 1999.Corsica. Gulltindur er hæsta fjallið á Corsicu.
Öll þessi verk tengjast Vitanum hugmyndalega, auk þess sem þau eiga það sameiginlegt með mörgum inniverkum Parmiggiani sem fjalla um skuggann, sporin eða leifarnar, að leggja áherslu á fjarveru myndarinnar í því skyni að skapa áhrifaríkari og um leið sannari nærveru. Nærveru sem er af andlegum toga og er í grundvallaratriðum eðlisólík þeirri þrúgandi nærveru ofhlæðis og auglýsingamennsku sem einkennir margmiðlunarsamfélag árþúsundamótanna.
Til þess að geta tendrað ljós sitt lagði Parmiggiani á sig langt ferðalag inn í vetrarnóttina og þögnina sem ríkja á norðurhjaranum, burt frá þrúgandi ofhlæði orðanna, myndanna og hlutanna, inn í þögnina, kuldann og myrkrið. Ljósið sem hann tendrar lýsir þrjóskufullt í krafti fjarlægðar sinnar, fyrst og fremst vegna þess að það er úr beinni augsýn.
Ljós Vitans fær þannig yfirfærða merkingu sem andlegt leiðarljós í samræmi við gamla hefð um merkingu ljóssins, merkingu sem á sér ekki síst trúarlegar rætur. Suger ábóti frá Saint-Denis, sem kalla má hugmyndalegan föður gotneskrar kirkjulistar, sagði um ljósið að í því „sameinaðist efnið og hið efnislausa, hið líkamlega og andlega“. Merking ljóssins í Vita Parmiggiani tengist þessari hefð í þeim skilningi að það er ekki bara rafmagnsljós, heldur um leið ljós af andlegum toga sem helgar umhverfi sitt á sinn sérstæða hátt, ekki ólíkt og kirkja eða musteri. Ljós sem á rætur í hefðinni um leið og það vísar fram á við.
Í frægri ritgerð frá 1936 hélt Walter Benjamin því fram að með tilkomu fjölföldunartækninnar myndi listaverkið glata áru sinni. Í augum Benjamins átti tækniþróunin ekki bara eftir að breyta útliti og miðlun listaverka með róttækum hætti, heldur líka sjálfu inntaki og forsendum listarinnar. Tækni tuttugustu aldarinnar átti að mati Benjamins eftir að svipta listina dulmagni sínu og breyta listamanninum frá því að vera spámaður og miðill andlegra sanninda yfir í að ástunda það sem við gætum kallað tæknilega vikni myndmálsins. Hliðstæðu við þessa breytingu sá hann í þróuninni frá galdralækni fortíðarinnar til skurðlæknisins: annar nálgast sjúklinginn í heild sinni í krafti dulinnar visku og leyndardóms, hinn ræðst beint að einstökum líffærum í krafti tæknikunnáttu og þekkingar í líffærafræðum. Í augum Benjamins var kvikmyndin sá myndmiðill er myndi leysa málverkið af hólmi. Líkt og skurðlæknirinn leysir manneskjuna upp í frumparta sína sem tæknilegt viðfangsefni átti myndlistarmaðurinn í hlutverki kvikmyndagerðarmannsins að nýta hina nýju tækni til að mynda veruleikann, búta hann sundur að vild og setja saman í nýja mynd af heiminum út frá tækni og myndhugsun er byggði fyrst og fremst á sjónrænu sjokkáreiti.
Hugmyndir Benjamins um „áru“ listaverksins og brotthvarf hennar tengjast einu megineinkenni tæknisamfélags tuttugustu aldarinnar, sem er afhelgun þeirra gilda sem áður voru heilagir og óhagganlegir hornsteinar samfélagsins. Tilkoma nútíma visinda og tækni hefur leitt til þess að framfarirnar hafa verið upphafnar sem markmið í sjálfu sér. Um leið hafa vísindin og tæknin breytt mynd okkar af náttúrunni, sem hefur verið svipt annarri merkingu en þeirri sem birtist í svörum hennar við tilbúnum spurningum vísindanna.
Náttúran er ekki lengur leiðarljós eins og það sem birtist í koparstungu Maiers, heldur lýtur hún lögum og sjálfdæmi vísindalegrar rökhyggju.
Myndlistin hafði þegar með upplýsingunni öðlast stöðu afhelgaðra trúarbragða í vissum skilningi. Sem einstakur vitnisburður og vettvangur fyrir einstaklingsbundna reynslu geymdi listaverkið þá „heilögu“ útgeislun sem það hafði tekið í arf frá trúarbrögðum og galdri. Út frá vísindalegri söguhyggju, sem virðist tengd nútímalegri trú á framfarir, sá Benjamin fyrir sér að myndlistin myndi í framtíðinni missa þessa útgeislun og verða í auknum mæli vettvangur samfélagslegrar reynslu og miðill pólitískra „sanninda“ um leið og markaðsgildi listaverksins sem einstaks viðburðar yrði að engu gert með fjölföldunartækninni.
Viti Parmiggiani kemur inn í þessa umræðu eins og síðasta endurskin áru myndlistarinnar við árþúsundamót. Það lýsir ekki á torgum stórborganna, ekki í flóðlýstum sýningarsölum safnanna eða á sölutorgum listkaupstefnanna. Það á heldur ekkert skylt við þær „listrænu ljósasýningar“ sem hafa víða sést í stórborgum Evrópu á síðari árum. Þetta er ljós af öðrum toga, ljós einsetumannsins sem hefur leitað athvarfs með list sína í eyðimörkinni. Verkið vitnar með átakanlegum hætti um hlutskipti listarinnar og listamannsins í samtíma okkar.
Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að þótt Viti Claudio Parmiggiani sé umhverfisverk í þeim skilningi að það „helgi“ með vissum hætti þann stað sem hann er reistur á, þá á hann ekkert sameiginlegt með þeim anga af samtímalistinni sem kenndur er við „land-art“: Parmiggiani notar ekki umhverfið eða náttúruna til þess að móta hana með nýjum hætti, heldur á verkið að falla inn í landslagið með sem eðlilegustum hætti og upphefja það.
Einnig er vert að hafa í huga að þrátt fyrir einfalt og hreint form vitans og látlausan efnivið á verkið ekkert skylt við þá stefnu í samtímalistinni sem kennd er við naumhyggju eða minimalisma. Ef einkenni minimalismans felst í því að nálgast innsta kjarna listarinnar með því að svipta formið og hlutinn öllum ytri tilvísunum, þá bendir Viti Parmiggiani í þveröfuga átt: fyrir honum sameinar verkið efnið og hið efnislausa, hið endanlega og hið óendanlega.
Í þessu samhengi mætti benda á ákveðinn skyldleika sem finna má á milli Vita Parmiggianis og verks samlanda hans, Piero Manzoni, sem kallast „Sökkull heimsins“ og var sett upp í Danmörku 1959. Verkið er sökkull sem stendur á hvolfi, en á honum hvílir heimurinn (á hvolfi) í öllum sínum óendanleika. Sökkullinn markar því bæði miðju og undirstöðu og vísar til óendanleikans, rétt eins og Vitinn. Þannig má finna viss tengsl Parmiggiani við brautryðjendur konseptlistar í Evrópu á sjöunda áratugnum, þar sem fjarveran, afturfærslan og hin óbeina vísun verða megineinkennin: í stað sjálfsmyndarinnar hefur Parmiggiani sýnt okkur skugga sinn (Autoritratto /Sjálfsmynd, 1979), í stað málverksins sótmyndaðan skugga þess á vegg (Delocazione / Tilfærsla, 1970), í stað litar á lérefti hreint og ómengað litarduftið sem fyllir rýmið óræðri birtu (Luce, luce, luce / Ljós, ljós, ljós, 1968). Hin landfræðilega fjarvist útiverkanna gegnir hliðstæðu hlutverki og vitnar um það þversagnarfulla samspil fjarvistar og kjarna sem Gianni Vattimo hefur gert grein fyrir í nýlegri umfjöllun sinni um verk Parmiggiani.
Í verkum Parmiggiani er það inntakið sem ræður formi verksins í einu og öllu, eða öllu heldur fjarvera inntaksins sem hugmyndar handan hins efnislega forms. Vitinn hefur slíka merkingu í tvöföldum skilningi, en helgar um leið umhverfi sitt sem andlega miðju. Hinn andlegi kjarni listarinnar á tímum árþúsundamótanna lýsir jafnframt með fjarveru sinni í þessu rafmagnsljósi sem hinsta endurskin þess andlega galdurs sem ekki er lengur rúm fyrir í tæknisamfélagi nútímans.
Í kunnri ritgerð um skáldið Hölderlin og eðli skáldskaparlistarinnar líkir Martin Heidegger skáldinu við tvöfaldan útlaga: hann er útlægur frá guðunum og þjóð sinni. Það er í þessu tómarúmi sem skáldið grundvallar tilveru sína með söng á tímum hinna brottflúnu guða, sem jafnframt eru tímar hins ókomna guðs, segir Heidegger. Í ljóði sínu „Brauð og vín“ spyr Hölderlin sjálfan sig hvert sé hlutverk og hlutskipti skálda á svo örsnauðum tímum, og svarar jafnframt í næstu ljóðlínu með þeim orðum að skáldin séu „eins og hinir helgu prestar vínguðsins, sem ferðast land úr landi í hinni helgu nótt.“
Sönghópurinn Voces Thule flyrtur 42. fúgu Michaels Maier, Dux natura, úr Söngvasveignum Atalanta fugiens frá 1616 við vígslu Vitans á Sandkeiði í janúar 2000. Ljósm. Guðmundur Ingólfsson.
Forsíðumyndin af vitanum er einnig eftir Guðmund Ingólfsson