Að lækna einstaklinginn en láta heiminn afskiptalausan

Þessi pistill birtist í ítalska dagblaðinu il manifesto í dag. Mér fannst hann athyglisverður og fékk leyfi til að birta hann hér á íslensku. Hann fjallar um hættuástandið í heiminum og vandann við að skilgreina það.

 

Að lækna einstaklinginn og láta heiminn afskiptalausan

 Eftir Raffaele K. Salinari

 

Læknisfræðin leggur línuna fyrir ferlin, fyrir sjúkdómana, en neitar að taka sér bólfestu í þeim. Það verður hlutverk stjórnmálanna

Sá sem hér skrifar hefur átt því láni að fagna að fá í starfi sínu sem læknir að takast á við smitfaraldra eins og Ebólu og HIV á þeim stöðum þar sem þessir sjúkdómar urðu til, í þeirri Afríku þar sem mislingarnir eru enn skæðasta banamein ungbarna þó bólusetningarefni hafi fyrir löngu verið uppgötvuð, efni sem fátæktin ein gerir hins vegar ófáanleg. Í nýlegri ritstjórnargrein fjallar blaðið ykkar um þann vanda sem Coronavírusinn beinir nú athygli okkar að, ekki síst í ljósi þess hvernig vísindahugsunin er beintengd ríkjandi valdakerfi: hvernig skilin á milli „eðlilegs“ eða „heilbrigðs“ ástands og „sjúklegs“ ástands og stöðugar sveiflur á milli þessara tveggja sviða eru orðin skilgreiningaratriði.

Um málið vildi ég segja þetta: Sú líffræðistefna sem við nú búum við og við getum kallað „bioliberismo“ (eða „líffrjálshyggju í slæmri þýðingu) miðar að því að setja lífið undir eftirlit, umbreyta því í vöru. Þeir lifandi eiga að vera settir undir einkaleyfisrétt, það er að segja einkavæddir og undirseldir ágóðalögmálinu. Til viðbótar má segja að líf(fræði)valdið (biopotere) meti sjálft sig á mælikvarða vísindarannsóknanna og skilgreininga þeirra á heilsu eða sjúkleika.

Í raun og veru lifum við alltaf á milli þessara tveggja sviða (heilbrigðis og sjúkleika) sem ekki verða skilgreind aðskilin og á hlutlægan hátt nema með sjálfdæmi. Því er það að vísindin ýkja hið sjúklega og hið eðlilega til þess að koma í veg fyrir að einstaklingarnir séu sífellt að sveiflast á milli þessara tveggja póla sem þau telja sig geta skilgreint og þar með stjórnað í nafni sinnar sjálfgefnu hlutlægni. Í stuttu máli þá er tilhneigingin sú að „sjúkdómavæða“ hið eðlilega með því að hverfa frá þeim eðlislægu sveiflum milli sviðanna sem eiga sér stað yfir í það sem er viðvarandi „sjúklegt“, yfir í óttann við að vera stöðugt veikur. Afleiðingin er sú að við setjum traust okkar á hlutlægni vísindanna sem sjá hag sinn í sinni einstöku stöðu sérþekkingarinnar sem er hin huglæga lína sem dregin verður á milli hins „eðlilega“ og „sjúklega“.

Andspænis núverandi hættuástandi sem hefur ekki að ástæðulausu verið skilgreint sem slíkt, þá verður vægi vísindanna, sem öll leggjast á þennan pólinn, að vera augljósara og knýja okkur til róttækrar umhugsunar um úrræðin. „Vísindin ráðskast með hlutina en neita að taka sér búsetu í þeim“ sagði Merleau-Ponty. (sbr. Grein hans um „Augað og andann“ á íslensku hér á vefsíðunni hugrunir.com).

Við sjáum greinilega hvernig allar tilraunir til að skilgreina sveiflurnar, það er að segja að smækka þessar sífelldu ummyndanir niður í einfaldan þrepaskala, þjóna þeim eina tilgangi að einangra sjúklinginn frá öllu sambandi við eigið líf. Skýrasta dæmið um þessa sýn er Dioptrique eftir Descartes (Ljósbrotsrannsóknin, heimspekiforsenda vísindanna) sem ruglar saman opinberun fyrirbæranna og fyrirbærunum sjálfum og umbreytir þannig hinu huglæga í hlutlægni sem í raun sýnir ekki annað en sjálfa sig. Við vitum núna að það er ekki bara einstaklingurinn sem er veikur, heldur Heimurinn. Og til þess að hjúkra sjálfum okkur þurfum við að láta Heiminn gera það.

Raunveruleikinn er veikur, helsta orsökin fyrir alvarlegustu sjúkdómsgreiningunum er hversdagsleiki hans. Hann segir okkur það í gegnum tjáningarfyllstu birtingarmyndir sínar, í gegnum byggingarlistina, skipulagsfræðin, tilvistarspurningarnar, stjórnmálin, framleiðsluna, neysluna, félagsmálin, stríðsástandið. Að hjúkra sjálfum sér án þess að huga að Heiminum skapar nýjan sjúkdóm: megintilgangur lyfjaiðnaðarins felst í að selja lyf til hinna „heilbrigðu“ í nafni forvarna. Þetta er ástæða þess að öll umhugsun um hið eðlilega og hið sjúklega , um höfnun „vísindalegra“ reglugerða í þjónustu líf(fræði)valdsins verður hápólitísk.

Ferlið á milli sjúkdómsins og eðlilegs ástands verður þannig fullkomlega dialektískt (gagnkvæmt), rétt eins og samskipti okkar við Heiminn. Það er vitundarferli sem felur í sér lækningu á eigin sjúkleika í gegnum endurheimt hins sanna eðlilega ástands: jafnvægi sem felur óhjákvæmilega í sér mátstöðu dauðans, en ekki það skelfilega andlit Dorian Gray sem siðmenning okkar í dag sýnir.

Lokaniðurstaðan er sú að hin meinta hlutlægni þessarar læknisfræði sem er undirsett tilskipunum líf(fræði)valdsins (sem Ivan Illich skilgreindi ekki af ástæðulausu sem lífræði (biocrazia)) er að stórum hluta hreint fals. Læknisfræðin leggur línurnar fyrir ferlin, fyrir sjúkdómana, en neitar að taka sér bólfestu í þeim. Það er hlutverk stjórnmálanna, að endurheimta annað sjónarmið sem varðar ekki bara lækningu líkamans, heldur að hrinda í framkvæmd stefnu er feli í sér einingu í markmiðum á milli mannsins og Heimsins.

Forsíðumyndin er verkið Calamità cosmica eftir Gino di Domenichis frá 1990
%d bloggers like this: