Uppnám á ítalska þinginu:
forsætisráðherrann ásakaður um föðurlandssvik.
Fyrir viku síðan var kunngert að Evrópusambandið hefði náð samkomulagi um „Stöðugleikasáttmála“ sem hefur verið í undirbúningi allt frá því stóra fjármálakreppan, sem enn sér ekki fyrir endann á, gekk yfir heiminn 2008. Skuldakreppa Grikkllands og Íslands voru angar þessarar kreppu, en hún skekur enn fjármálakerfi heimsviðskiptanna og segja má að Grikklandsmálið hafi vakið ESB til umhugsunar um hvernig aðildarríkin ættu að bregðast við hugsanlegum eftirskjálftum og nýjum gjaldþrotahrinum einstakra aðildarríkja og þó enn fremur stærstu fjármálastofnana hins sameiginlega markaðar ESB og evrunnar.
Það kemur ekki á óvart að aðgerðaráætlun Ráðherranefndar ESB um viðbrögð við „óstöðugleikanum“ skuli ekki hafa farið hátt í íslenskum eða evrópskum fjölmiðlum almennt, en eins og oft áður þá reynist Ítalía vera kanarífuglinn í kolanámunni sem varar við yfirvofandi vá: upplýst er að ítölsk stjórnvöld (og ráðherranefnd ESB) hafa farið með innihald þessara lausna á „óstöðugleikanum“ eins og hernaðarleyndarmál og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sem nú stýrir annarri ríkisstjórn sinni á Ítalíu án þess að vera þingkjörinn né flokksbundinn, er nú ásakaður um að hafa leynt þjóðina, þingið og samstarfsflokkana um innihald þessa samkomulags og kynnt það eins og orðinn hlut, sem að sögn fjármálaráðherra hans væri ekki hægt að breyta úr því sem komið er.
Forsætisráðherrann var í nauðvörn í þinginu í gær og dró í land og sagði hægt að gera minniháttar breytingar á samkomulaginu, en málið allt virtist koma sjálfum utanríkisráðherranum og pólitískum leiðtoga 5 stjörnu hreyfingarinnar (Luigi di Maio) í opna skjöldu. (Flokkur di Maio er lang stærsti flokkurinn á ítalska þinginu með yfir 30% kjörfylgi í síðustu kosningum).
Síðustu fréttir herma að Ráðherranefnd ESB hafi í kjölfar þessa þingfundar ályktað að hægt væri að fresta endanlegri undirritun samkomulagsins, sem átti að fara fram 11. desember næstkomandi.
Hvert er þá hið eldfima innihald þessa „samkomulags“?
Í stórum dráttum má segja að það felist í að búa til sjóð sem á að bregðast við hugsanlegum greiðsluþrotum einstakra aðildarríkja gagnvart lánardrottnum sínum, sameiginlegum sjóði er taki áhættu lánardrottnanna (stóru alþjóðlegu bankanna) og færi hana í sameiginlegan tryggingasjóð evru-ríkjanna sem veitanda neyðarlána í kreppuástandi.
Framlag Ítalíu í þennan sjóð á að verða um 150 miljarðar evra á tilteknu tímabili, greiddar af ítölskum skattgreiðendum. Í sáttmálanum eru sett skilyrði fyrir neyðarlántöku sem í reynd svipta viðkomandi ríki sjálfræði sínu og efnahagsstjórn (eins og gerðist með Grikkland), en það eru tilskipanir um skattlagningu, launalækkanir, niðurskurð í samfélagsþjónustu og brunaútsölum á samfélagslegum eignum eins og gerst hefur í Grikklandi. Talsmenn þessa sáttmála á Ítalíu, sem helst er að finna í röðum Demókrataflokksins (sem kennir sig við vinstri og er samstarfsflokkur 5* hreyfingarinnar í stjórn) telja helsta kost sáttmálans vera þann, að Ítalía muni aldrei þurfa að leita eftir neyðarlánunum (og afsala sér efnahagslegu sjálfstæði) því efnahagurinn sé í raun traustur (með 10% atvinnuleysi s.l. 20 ár).
Málið reynist hins vegar ekki svo einfalt: fjölmargir sérfræðingar á sviði fjármála og lögfræði hafa bent á að þessi „fórn“ ítalskra skattgreiðenda til „stöðugleika“ á evru-svæðinu muni ekki renna til fátækra og atvinnulausra í álfunni, heldur séu þeir hugsaðir sem tryggingarfé Deutsche Bank og annarra stórra lánveitenda á evru-svæðinu, sem séu komnir í greiðsluvanda í verðbréfaviðskiptum sínum og þurfi á hjálp ítalskra skattgreiðenda að halda. Þannig er bent á að einungis 5% af „neyðaraðstoðinni“ sem fór til Grikklands hafi í raun hafnað hjá grísku þjóðinni, hin 95% hafi öll farið til lánveitendanna sem voru þessar sömu fjármálastofnanir. Um leið var sú hagstæða markaðsstaða sköpuð gagnvart Griklklandi að vextir á grískum skuldabréfum fóru upp í eða yfir 15% á meðan þeir voru nálægt núlli í lánveitendalöndum eins og Þýskalandi og Frakklandi. Þannig gátu þessar fjölþjóðlegu fjármálastofnanir fengið ódýrt fjármagn heima hjá sér til að hirða vaxtamismun af grísku þjóðinni eftir að hún hafði verið hengd í óleysanlegri skuldasnöru. Heiðarlegir fagmenn á sviði hagfræði hafa fyrir löngu bent á þessa spennitreyju sem evru-samstarfið felur í sér, spennitreyju sem skiptir evru-löndunum í tvo hópa: lánveitendur og skuldara. Í þessu tilfelli situr Ítalía í skuldarahópnum þó hún sé þriðja stærsta hagkerfið innan evru-landanna.
Það eru hörmuleg örlög óvitaskaparins hjá hinni „pragmatísku“ 5* hreyfingu sem nú leiðir ítölsku stjórnina og hafði „heiðarleika“ að slagorði þegar hún vann kosningasigur sinn fyrir 2 árum, að sitja nú uppi með forsætisráðherra sem hefur farið með þennan háskalega fjármálaleik Ráðherranefndar ESB eins og heita kartöflu sem þjóðin ætti að kyngja án málefnalegrar umræðu þings eða þjóðar. Erfitt er að sjá hvernig þetta mál verður leyst án stjórnarslita. En Ítalir eiga það þó skilið að þeir hafa lyft lokinu af þessum skuldapotti og leyft íbúum álfunnar að líta ofan í hann. Málið hefur hins vegar verið þagað í hel af meginfjölmiðlum í álfunni fram til þessa. Kannski verður nú breyting á? Vænta má hrinu fjöldamótmæla á Ítalíu næstu vikurnar, stjórnarslit eru yfirvofandi og fylgishrun 5* hreyfingarinnar virðist nú ekki verða stöðvað.
Hefurdu lesid „Adults in the Room“ eftir Varoufakis, Olafur minn, eda séd samnefnda kvikmynd
sem Costa Gavras hefur alveg nylega gert eftir henni? Mér thaetti gaman ad heyra hvad thér finnst
um thessi verk. Merkilegt er ad a Islandi virdist enginn thekkja thau (af theim sem ég hef talad vid).
Kv.
Einar Mar
Nei, ég hef ekki lesið þessa bók Varoufakis eða kvikmynd Costa Garvas. En áðan var ég að hlusta á umræður hjá sjónvarpsstöðinni Byoblu.it sem var athyglisverð. Þar kom m.a. fram að í Stöðugleikasáttmálanum er sérstakt ákvæði þar sem segir að ekki sé hægt að lögsækja neinn þann sem á aðild að þessum gjörningi. Þetta þýðir í raun að innan myntsamstarfs ESB landa er orðið til framkvæmdavald sem stendur utan laga. Þannig virðist raunin vera sú að innan ESB er að verða til framkvæmdavald sem er óháð öllu dómsvaldi. Þar með er þrískiptingu valdsins samkvæmt grundvallarreglum lýðræðisins hafnað innan ESB. Þetta gerist í lokuðum fundarherbergjum án þess að það komi til umræðu eða álita á þjóðþingum ESB. Efnahagssérfræðingar úr fyrri stjórn Giuseppe Conte hafa staðfest að þeir hafi verið boðaðir á lokaðan fimm manna trúnaðarfund í þinghúsinu 15. júní s.l. til þess að sjá þennan miklliríkjasamning í enskri útgáfu. Þeim var bannað að taka afrit eða ljósrit af sáttmálanum eða skrifa hjá sér aths. um innihald hans, og ekki var boðað til frekari umræðna um málið á þinginu eða innan stjórnarinnar. Giuseppe Conte fékk hins vegar þau skilaboð bæði frá 5*hreyfingunni og Lega-flokknum, sem þá var í stjórn, að þessir flokkar höfnuðu samningnum. Forsætisráðherrann gekk því gegn umboði þingsins og stjórnarflokkanna þegar hann gaf grænt ljós á samninginn í sumar. Gjörningurinn kemur fyrst í ljós nú þegar 10 dagar eru til undirritunar. ESB launaði Ítalíu hins vegar þetta leynimakk með því að samþykkja þingmann úr Demókrataflokknum (og fyrrverandi forsætisráðherra) sem „efnahagsmálakommisar“ ráðherranefndarinnar eftir stjórnarskiptin í sumar. Hann þakkaði fyrir sig í dag og sagði að sáttmálinn væri stór ávinningur fyrir Ítalíu.