LIST ÞAGNARINNAR
Eftir Carlo Sini
(Stuttur kafli úr kverinu „Il Gioco del silenzio“ frá 2013)
Er eitthvað til sem við getum kallað list þagnarinnar? Er þögnin kannski listgrein?
Hún er augljóslega tvöföld (en hvað er það sem ekki er tvöfalt?): Þögnin eð bæði það sem er umleikis og millibilið (sem aðskilur).
Allt sem er gerist reyndar í þögninni sem ávalt er umleikis. Hvar annars staðar? Þögnin kemur á undan sérhverjum hlut. En hún er líka umleikis hlutina því hún aðskilur þá. Þannig kemur hún líka á eftir sérhverjum hlut.
Þögnin er ekki „einhver hlutur“, öllu fremur er hún neikvæði einhvers. Lítum á tvo algenga talsmáta: „þögnin skellur á“, „Þegiðu!“, eða eins og skáldið segir: „Það sem eftir stendur er þögnin“. Þögnin er leifar sem sitja eftir þegar eitthvað er ekki lengur til staðar. Leifar sem leiða til nýs upphafs: hún er áður en eitthvað getur gerst. Áður en eitthvað gerðist sem „rýfur þögnina“ eins og sagt er.
„Jú, þetta get ég skilið að einhverju leyti, en hvað með hléið eða millibilið?“ Hvernig skyldi millibil þagnarinnar á milli hlutanna vera? Það er þetta sem ég skil ekki.“
Hugsaðu um Stóra Píramídann, eins og Alfred Whithead sagði. Í árþúsundir hefur hann staðið þarna óhagganlegur án þess að þekkja hléin. Engu að síður er það svo, ef vel er að gáð, að þetta er ekki raunin. Því verður ekki neitað að Stóri Píramídinn hefur, eins og reyndar sérhver hlutur, tekið sífelldum breytingum. Samfellt er eitthvað að gerast með hann, jafnvel þó við þurfum löng tímaskeið til að verða þess vör. Þá skynjum við umbreytingarnar, til dæmis veðrun og hrörnun.
Þetta á sér hins vegar allt saman stað „í þögninni“ án þess að gera vart við sig. Þögul augnablik tímans bera með sér breytingar. Fyrir augnabliki síðan var Píramídinn með sérstökum hætti, augnabliki síðar er hann annar. Hvað getum við sagt um millibilið sem aðskilur þessi augnablik? Ekkert. Um það er ekkert að segja. Ef um það væri eitthvað að segja yrði til nýtt millibil sem ekki væri hægt að segja neitt um. Það er með þessum hætti sem þögnin myndar hið óskynjanlega bil á milli ástandsbreytinga hlutanna, eða á milli allra “hluta“ eins og sagt er.
„Gerist þetta þá, eins og þú sagðir áðan, vegna þess að allir hlutir gerast í þögninni og þögnin er umleikis alla hluti?“
Sjáðu til, þú hefur skilið þetta. Þögnin er eitt, en einnig tvennt. Hún felur allt í sér en aðgreinir það um leið í sína hluta eða sína hluti. Það er vegna þess að allir hlutir eru tilkomnir úr þögninni, þeirri þögn sem er og aðskilur um leið hlutina hvern frá öðrum. Skilurðu?
„Já og nei, ef satt skal segja. Þetta er mjög erfitt…“
Það er einmitt þetta sem gerir þögnina að listgrein. Það er í raun engan veginn auðvelt að skilja hana, hvað þá að notfæra sér hana, jafnvel þó hún sé til staðar í sérhverjum hlut. Og í sérhverju listaverki. Einkum og sér í lagi þó í þeirri list allra lista sem er orðsins list.
Hugleiðum málið. Sérhvert orð segir eitthvað ólíkt öllum öðrum orðum. Til dæmis get ég sagt „með“ til aðgreiningar frá „án“. Ég get ekki lifað með þér, en heldur ekki án þín, eins og vesalings Catullus sagði. Þannig tjáir orðið ómögulegan mismun. Það hrifsar þennan mismun út úr þögn sinni eða framlengingu þagnar sinnar. Orðið stöðvar mismuninn stundarkorn með því að segja hann, jafnvel þó hann falli umsvifalaust inn í þögn sína á ný eins og Stóri Píramídinn. Jafnvel þó ekki væri annað en þetta nafnlausa afturhvarf umbreytingarinnar sem er án nafns eða undanfari nafnsins. Eingöngu sá sem hefur á valdi sínu listina að nefna hlutina getur stöðvað þetta afturhvarf, þessa líðandi stund hlutanna, rétt eins og fingurnir stöðva sandrennslið og lófinn stöðvar vatnið.
Ég lifi með þér og þú hefur þegar yfirgefið mig. Og nákvæmlega sama gerist með mig: ég vil lifa ást mína en umsvifalaust er hún horfin og gleymd. Þess vegna vildi ég að það hefði aldrei gerst: ég elskaði þig, nú hata ég þig, og þannig get ég ekki án orðanna verið til þess að segja fjarlægð mína og mismun. Fjarlægð frá þér, mismuninn sem líf mitt felur í sér. Það er þessi þögn lífs míns, þögnin í lífi mínu sem ég segi í sífellu í því skyni að gera það „mitt“, í þessu felst sú ómeðvitaða orðsins list sem við iðkum hvert og eitt.
Það er þögnin sem gerir hana mögulega. Það er þögnin sem gerir sérhverja niðurstöðu ómögulega. Elska ég þig eða hata ég þig? Vil ég lifa með þér eða án þín? Það er ekkert „með“ sem ekki felur í sér „án“. Það er ekkert „án“ sem ekki felur í sér „með“. Það sem eftir stendur er þögnin.
Píramídinn í Dashu