MAGNÚS PÁLSSON

Eftirfarandi pistill var skrifaður fyrir Listasafn Íslands í tilefni sýningar á verkum Magnúsar Pálssonar í safninu árið 2003. Undirritaður starfaði á þessum tíma tímabundið á stafninu sem sýningarstjóri og umsjónarmaður um stafræna skráningu safnsins.

Það er eitt af einkennum hins sérhæfða tæknisamfélags samtímans að sérhvert viðfangsefni á sinn afmarkaða bás. Þannig hafa menningarstofnanir, sérfræðingar og fjölmiðlar sameinast um það að kenna okkur að myndlistin eigi sinn afmarkaða bás í samfélaginu, bás sem stundum er kenndur við sjónmenntir: á sama hátt og svokölluð heilbrigð skynsemi kennir okkur að tónlistin fjalli um samstillingu ólíkra hljóða sem eyrað nemur, þá hefur okkur verið kennt að myndlistin snúist um það sem augað sér: form og liti. Reglulega lesum við palladóma um myndlist og tónlist í dagblöðunum þar sem listin er vegin og metin á þessum forsendum og út frá hinum menntaða smekk. Þessi básahugsun hefur einn ótvíræðan kost: þar sem smekkurinn er óneitanlega persónubundinn (hversu menntaður sem hann er) endar hann óhjákvæmilega með að þurrka út allan mun. Þar með er tryggt að engum verði mismunað, lýðræðisreglurnar séu virtar og allir geti unað glaðir við sitt. Um leið hefur þetta þann augljósa kost, að ekki þarf lengur að óttast að myndlistin fari að valda óþarfa ólgu á öðrum sviðum þjóðfélagsins, þar sem henni hefur endanlega verið markaður sinn lýðræðislegi bás þar sem frjálsræðið ríkir.

Þessi heimur væri í raun hinn besti allra hugsanlegra heima, ef ekki væru ólíkindatólin sem sífellt leitast við að raska ró okkar, ryðja burtu skilveggjunum, opna básana og rugla þeim mælikvörðunum, sem okkur hefur verið kennt að nota. Eitt þessara ólíkindatóla er Magnús Pálsson.

Allt frá því hann snéri baki við málamiðlunum stofnanaleikhússins sem leiktjaldamálari á sjöunda áratugnum hefur hann verið óþreytandi við að rugla okkur í ríminu. Hann byrjaði til dæmis á því að ráðast af fullkominni ósvífni gegn mælikvarða smekksins, þegar hann sýndi “Bestu verkin” á listsýningu í Gallerí SÚM 1969: hrúgöld úr gifsi sem hafði verið hellt í og utaná föt, rétt eins og smekkurinn snérist (réttilega) um fatatískuna frá Karnabæ.

Það var upphafið af gifsverkunum sem við sjáum á þessari sýningu: “Hundaljóðunum” frá 1970, sem sýna okkur afsteypur af alþekktri postulínsmynd kjölturakkans, sem víða var sönn heimilisprýði á þessum tíma. Hundar Magnúsar eru hinns vegar illa leiknir af greinilegum árekstrum við umheiminn, og undan fáguðu yfirborðinu brýst kjarninn fram, hálmur og tuskudrasl. Verkið ögrar ekki bara hinum menntaða smekk, það kennir okkur líka að hinar stöðluðu hugmyndir um fegurðina eru brothættar og holar að innan og fullar af hálmi eins og fuglahræðan og standast illa sviptivindana í samtíma okkar.

Hundasería MP

MagnúsPálsson: Hundaljóð, 1971. Gifs og hálmur

Gifsið átt eftir að verða Magnúsi frjór efniviður, ekki bara í markvissum undirróðri hans gegn mælikvörðum hins menntaða smekks, heldur ekki síður í áleitnum spurningum sem verk hans kölluðu fram og snérust ekki bara um form og liti, heldur ekki síður um samband forms og inntaks, um tilurð merkingar í myndmálinu og um virkni þess.

Meðal þessara verka er gifsmyndin “Flæðarmál” frá 1975. Þetta er landslagsmynd, sem sýnir okkur afsteypu af þremur höfuðskepnum; jörðinni, hafinu og loftinu. Saman mynda þessar einingar samloku himins, sjávar og lofts. Verk þetta raskar ró okkar vegna þess að það sýnir okkur að sú mynd sem við erum vön að gera okkur af umheiminum þarf ekki alltaf að vera hin eina rétta. Öll lærðum við í barnaskóla að til þess að draga upp “rétta” mynd af flæðarmálinu þurfi tvær láréttar línur sem skipti örkinni í þrennt. Neðst er fjaran, í miðjunni er hafið og fyrir ofan sjóndeildarhringinn er himininn. Þegar við erum búin að lita þessa þrjá fleti með réttu litunum er flæðarmálið komið.

mAGNÚS pÁLSSON fJÖRUBORÐ 7189

Magnús Pálsson: Flæðarmál, 1975.

Gifsmynd Magnúsar ruglar þessari mynd. Í verki hans er enginn sjóndeildarhringur og ekkert eitt sjónarhorn og enginn litur. Mynd hans er ekki sýnd út frá hinu húmaníska sjónarhorni traustrar hugveru, sem er með staðlaða 160 cm augnæð og horfir beint út á hafflötinn. Í raun og veru er þetta verk Magnúsar andhúmanískt, þar sem það sýnir okkur mynd af náttúrunni á hennar eigin forsendum. Áhrif verksins eða virkni felast í því að við upplifum ekki bara handahófskenndar forsendur hinnar hefðbundnu myndar okkar af flæðarmálinu/veröldinni, heldur líka að það eru til aðrar leiðir til að búa til mynd af heiminum sem eru ekki síður sannar – eða falskar.

4791

Magnús Pálsson: Pappírsást, 1965

Flæðarmálið á sér hliðstæðu í öðru og eldra verki á þessari sýningu. Verkið “Pappírsást” (frá 1965) er bókverk og ástarsaga í senn, þar sem ástin birtist okkur í því hvernig ein blaðsíða aðlagar sig að misfellum annarar með ómótstæðilegum hætti. Í stað langra og flókinna sálfræðilegra útlistana á því hvernig ástin fær tvo ólíka einstaklinga til að “verða eitt hold”, eins og sagt er, þá sjáum við þetta gerast bókstaflega á spjöldum bókarinnar, hvítt á hvítu.

Annað verk á þessari sýningu, “Ljóshirsla” frá árinu 1977, sýnir okkur kommóðu með ljóshirslum Bakkabræðra, í minningu “þess afreks þeirra að bera ljós í húfum sínum inn í gluggalaust hús”. Þetta afrek Bakkabræðra er í rauninni draumur sérhvers listamanns, og sem minnisvarði er verkið um leið minnisvarði allra stórra hugsjónamanna. Að finna birtu sólarinnar réttan stað innan ramma verksins sem er um leið myndin af heiminum. Ljósið í hirslu Bakkabræðra sýnir okkur einnig óvænta hlið á þeirri viðteknu kennisetningu, að form og inntak séu eitt og hið sama í myndlistinni. Hvernig verður þetta samband þegar ljóshirslan lokast?

Magnús Pálsson Bakkabræður 7383

Magnús Pálsson: Ljóshirsla, 1977.

Í starfi sínu sem kennari á 8. og 9. áratugnum vann Magnús enn markvisst að því að brjóta niður skilveggi myndlistarinnar og opna bása hennar. Hann lék sér að því að gera samspil nemenda og kennara við umhverfið að sjálfstæðu “listformi”, sem sá dagsins ljós á sýningunni “Kennsla, geggjaðasta listgreinin” í Nýlistasafninu 1984. Þar verður sú viðleitni áleitin að hafna ekki bara smekknum, heldur líka allri þrepaskiptingu og staðlaðri stigveldishugsun í myndlistinni. Síðar birtist þessi viðleitni í því að brjóta niður mörkin á milli myndlistar, leikhúss, tónlistar og bókmennta. Þar markar leikhúsverkið “Sprengd hljóðhimna” nokkur tímamót, en í kjölfarið hefur Magnús gert fjölmargar innsetningar, gjörninga og myndbandsverk, þar sem hin hefðbundna skipting á milli listgreina verður ekki lengur viðhöfð. Sýnishorn þessara verka eru hér á sýningunni: Innsetningin “Engin gleypir sólina – Herra Turpur Jónsson” frá 1993 og myndbandsverkin “Eye-Talk”.

Myndlistarferill Magnúsar Pálssonar hefur til að bera fjölbreytni, áræðni og hugmyndaflug, sem á sér enga hliðstæðu í íslenskri myndlist. Með verkum sínum hefur hann sýnt að myndlistin skiptir máli í samtímanum: verk hans fjalla á áleitinn og afhjúpandi hátt um tilurð merkingar í myndlistinni, um virkni myndmálsins og samband fegurðarhugmynda og smekks. Í þeim skilningi er list hans hápólitísk og eðlilega umdeild. Magnús hefur orðið lærimeistari heillar kynslóðar yngri listamanna og er enn að koma yngstu kynslóðinni á óvart. Verkin á þessari sýningu, sem öll eru í eigu Listasafns Íslands, veita örlitla innsýn í 40 ára starfsferil og eiga vonandi eftir að vekja til umhugsunar og frjórrar umræðu um viðfangsefni og hlutskipti myndlistarinnar í samtíma okkar.

Ein athugasemd við “MAGNÚS PÁLSSON”

  1. Það var svo gaman að vinna með þér að undirbúningi sýningarinnar árið 2003.
    Góðar kveðjur
    Klara

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: