ÞEGAR RAUÐI HANINN GALAÐI Í MADRID

Endurminning frá Madrid

Cuando canta el gallo negro es que ya se acaba el día.

Si cantara el gallo rojo otro gallo cantaría.

Ay, si es que yo miento, que el cantar que yo canto lo borre el viento.

Ay, qué desencanto si me borrara el viento lo que yo canto.

Se encontraron en la arena los dos gallos frente a frente.

El gallo negro era grande pero el rojo era valiente.

Se miraron cara a cara  y atacó el negro primero.

El gallo rojo es valiente pero el negro es traicionero.

Gallo negro, gallo negro, gallo negro, te lo advierto:

no se rinde un gallo rojo mas que cuando está ya muerto.

Söngurinn um "Rauða hanann" sem Silvia Pérez Cruz syngur hér listilega í upptöku Spánska sjónvarpsins á tónleikum í San Sebastian 2015

Skyndilega er ég vakinn upp við gamla endurminningu hér á netmiðlum, þar sem Silvia Perez Cruz hefur upp raust sína og syngur af ástríðu um átakavettvang svarta og rauða hanans. Ég man það ekki nákvæmlega, en kannski var það árið 1976 eða 1977 sem ég kom til Madrid. Það var allavega skömmu eftir lát Francesco Franco, fasistaleiðtogans sem hafði drottnað yfir Spánverjum frá lokum borgarastríðsins 1939 þar til hann dó 1975. Ég hafði fengið ódýrt flug með vinkonu minni til Alicante og tekið lestina til Madrid. Við vorum nýkomin til borgarinnar án allrar leiðsagnar og með takmarkaða tungumálakunnáttu og enduðum hungruð á látlausu veitingahúsi einhvers staðar í miðborginni undir miðnættið. Það var nánast tómt nema hvað maður og kona sátu við nálægt borði og áttu í innilegum samræðum sem enduðu með að þau fóru að syngja saman alþýðlega söngva. Þetta vakti mér mikla ánægju og forvitni, og svo fór að ég gekk að borði þeirra og spurði hvort þau gætu sungið fyrir mig sönginn um rauða hanann, söng sem ég hafði kynnst sem einni af menningararfleifð borgarastríðsins og andspyrnunnar gegn fasismanum á Spáni. Áður en ég segi svör þeirra verð ég að segja að þetta voru karl og kona á miðjum aldri, þar sem konan hafði vakið sérstaka athygli mína vegna útlits og líflegrar framkomu. Hún var lágvaxin og tágrönn með nánast krúnurakað höfuð og afar svipsterkt andlit rist rúnum mikillar lífsreynslu. Augun skutu neistum og hún var flugmælsk. En þegar ég ávarpaði þau kurteislega og spurði hvort þau gætu sungið fyrir mig þennan þekkta söng sem ég hafði átt á hljómplötu heima í Reykjavík varð hún hvumsa, og sagði svo: þennan söng er bannað að syngja hér, hann má ekki syngja opinberlega… en hver ert þú að biðja um þetta hér og nú…? Ég gerði klaufalega grein fyrir uppruna mínum nýkomnum frá Íslandi til Madrid, og hún spurði áfram: hvað ertu að gera hér? Þessi samræða okkar varð mér svolítið vandræðaleg, ég skildi að ég hefði sett hana í óþægilega stöðu, en eftir nokkur orðasamskipti sagðist hún vilja eiga við okkur orð utan dyra. Og þar sem máltíð var lokið fórum við út síðust gesta og þessi merkilega kona sagði við okkur að kannski gæti hún sagt okkur svolítið um Spán, og bauð okkur heim til sín um leið og hún kvaddi borðfélaga sinn. Við slógum til og fórum með leigubíl í náttmyrkrinu um óþekkt hverfi Madridborgar þar til  við komum að stóru fjölbýlishúsi í skuggalegu umhverfi þar sem við vorum leidd í gegnum ranghala inn í kjallaraíbúð sem virtist að mestu vera neðanjarðar og gluggalaus. Þegar inn var komið tókum við fyrst eftir að allir veggir voru þaktir bókaskápum og bókastaflar víða á gólfi og borðum, og hún afsakaði með að hún væri nýflutt í þessi húsakynni eftir erfiða reynslu. Hún talaði við okkur á spænsku og ég svaraði henni á bjagaðri ítölsku og fann strax að henni lá mikið á hjarta: hún var nýkomin úr fangelsi stjórnvalda eftir dóm sem hún hafði fengið fyrir skrif sín í spánskt dagblað um spillingarmál í Madrid. Það var ekki auðvelt mál, því hún sagðist vera dóttir þekkts bókmenntagagnrýnanda sem var látinn og hafði tilheyrt menntaelítu fasistaflokksins. Hún hafði tekið í arf eftir föður sinn glæsilega villu og bókasafn og gnægð peninga, en starf hennar sem blaðakonu hefði kostað hana aleiguna. Af öllu því sem hún hefði misst saknaði hún þó mest hundsins sem hún hefði átt, því hún væri afar sjónskert og gæti vart ferðast um án hans. En skrif hennar kostuðu hana eignasviptingu og hundurinn hennar var drepinn og nú var hún komin í þessa kjallarakompu sem hýsti allt bókasafn fjölskyldunnar þannig að fátt annað komst lengur inn. Hún hafði setið einhver ár í fangelsi, verið ásökuð um „kommúnisma“ og mátt sæta pyntingum. Hún sýndi okkur svarta rönd á hálsi sér sem voru ummerki um vír sem hafði verið strekktur um háls hennar og negldur við vegg þannig að henni lá við köfnun. Hér var hún semsagt nýkomin úr þessari fangavist og sagðist hafa innritað sig í kommúnistaflokk Spánar eftir fangavistina eins og til að staðfesta þær ásakanir sem á hana höfðu vetrið bornar. Nokkuð sem hún hafði aldrei hugleitt fyrir þessa reynslu. Þessi samræða okkar stóð í að minnsta kosti 2-3 klukkustundir og hún söng líka fyrir okkur sönginn um Rauða hanann áður en við kvöddum hana og tókum leigubíl á okkar gististað. En áður en við kvöddum spurði hún okkur hvað við hefðum hugsað okkur að gera daginn eftir, og ég sagði henni að við hefðum hugsað okkur að heimsækja Prado-safnið í Madrid. Hún sagðist vilja veita okkur leiðsögn og spurði um heimilisfang okkar, og viti menn, strax næsta morgun var hún komin tilbúin að fara með okkur í þetta stórkostlega listasafn, þar sem hún leiddi okkur um helstu listafjársjóði Spánar, Velazques, Goya, Zubaran og einnig Tizian og fleiri fjársjóði sem hafa lifað með manni síðan. Stundum skilur maður ekki tilviljarnirnar í lífinu, en ég missti samband við þessa konu og man ekki nafn hennar eftir meira en 40 ár. En söngurinn um Rauða og svarta hanann vekur með mér lifandi minningu um þetta stefnumót örlaganna í Madrid.

 

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d