FORSETALEIKHÚS ÍTALSKRA STJÓRNMÁLA

Leiksýning ítalskra stjórnmála náði nýju hámarki í liðinni viku, sem lauk með Því að báðar deildir ítalska þingsins og kjörnir fulltrúar héraðsstjórna framlengdu forsetatíð Sergio Mattarella um sjö ár í viðbót í sjöttu atkvæðagreiðslu á 4 dögum. Fyrir kosningarnar hafði Mattarella lýst Því yfir að hann væri hættur, og var búinn að flytja heimilisfang sitt og búslóð úr Quirinalihöllinni í Róm í íbúð sína í Palermo. Kjörtímabil er 7 ár og er gert ráð fyrir því að skipt sé um forseta á 7 ára fresti nema við undantekningaraðstæður. Aðdragandi þessara óvæntu úrslita, þar sem fráfarandi forseti var kjörinn gegn yfirlýstum vilja sínum, einkenndist af miklu baktjaldamakki og taugastríði þar sem óttinn við að missa „stöðugleikann“ blandaðist ótta stórs hluta þingmanna við að missa þingmannaembættið ef allt færi úr böndunum og efnt yrði til nýrra kosninga í kjölfar þess að þingmeirihluti ríkisstjórnar Mario Draghi myndi springa. Samkvæmt nýjum kosningalögum mun þingmannafjöldi minnka um þriðjung í næstu þingkosningum.

Forsetakosningar á Ítalíu fara þannig fram að þingheimur kýs forseta í leynilegri kosningu þar sem enginn er formlega í framboði, en þingmenn skrifa nafn síns forsetaefnis á kjörseðilinn. Þannig er öll þjóðin yfir 50 ára aldri formlega í framboði, en þingflokkar reyna að sameinast um forsetaefni með baktjaldamakki. Krafist er 70% meirihluta í fyrstu fjóru atkvæðagreiðslunum en í þeirri fimmtu nægir einfaldur meirihluti. Þannig hvílir leynd yfir „frambjóðendum“ og meirihluti þingmanna skilaði auðu í fyrstu umferðum, því ekki var samkomulag. Taugaspennan jókst með hverri kosningu og smám saman kom í ljós hvað kraumaði undir pottlokinu.

Silvio Berlusconi hafði lýst áhuga fyrir kosninguna, en dregið sig í hlé þegar ljóst var að hann yrði ekki kosinn. Óstaðfestar heimildir sögðu að Mario Draghi forsætisráðherra sæktist eftir embættinu, en ekki var samkomulag um það, því þá hefði stjórnarsamstarfið væntanlega sprungið. Stjórn Draghi er í vissum skilningi neyðarstjórn, þar sem Mattarella forseti gaf honum umboð til stjórnarmyndunar þó hann væri utan þings og án umboðs þess. Draghi, sem er „guru“ úr hinum fjölþjóðlega fjármálaheimi með feril að baki sem háttsettur stjórnandi Goldman Sachs og fyrrverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans (sá sem skrúfaði fyrir gríska bankakerfið í kreppunni 2008). Draghi myndaði stjórn fyrir 2 árum með nánast alla flokka innanborðs nema hægri-flokkinn „Ítalska bræðralagið“ (Fratelli di Italia).

Á valdatímanum hefur stjórn Draghi brugðist við Covid-19 plágunni með meiri hörku en nokkur önnur ríkisstjórn í Evrópu. Í frægri ræðu í júní 2021 sagði Draghi að þeir sem ekki létu bólusetja sig væru ógn við líf og heilsu þjóðarinnar, og var í kjölfarið fyrstur Evrópuleiðtoga til að setja á veiruvegabréfið sem takmarkaði ferðafrelsi og réttindi óbólusettra. Hert löggjöf um veiruvegabréf var sett síðastliðið haust sem skyldaði ríkisstarfsmenn í þjónustustörfum og þá sem voru 50 ára og eldri til þrefaldrar bólusetningar. Má segja að óbólusettir séu réttindalausir á vinnumarkaði og þeir sem eru eldri en 50 ára útilokaðir frá þjónustu eins og opinberum samgöngum, auk þess sem lokun og takmarkanir á opnunartíma smáfyrirtækja hafa verið stórlega skertir. Þrátt fyrir strangar aðgerðir er veirufaraldurinn enn á fullu á Ítalíu, þó eitthvað hafi fækkað sjúkrahúsinnlögnum. Atvinnubann óbólusettra hefur m.a. bitnað á heilbrigðiskerfinu þar sem margt fagfólk í heilbrigðiskerfinu hefur neitað bólusetningu á faglegum rökum.

Sannleikurinn er sá að „stöðugleikinn“ sem þingheimur óttaðist að myndi glatast ef Draghi hætti sem forsætisráðherra, hefur fyrst og fremst ríkt á þinginu, þar sem ríkisstjórn Draghi hefur stjórnað með tilskipunum sem vart hafa komið til umræðu á þinginu. Hins vegar hafa stjórnarhættir Draghi orðið til að umbreyta ítölsku þjóðfélagi þannig að það er vart þekkjanlegt frá því sem áður var: vegabréfsskyldan, lokanir og brottvísanir af vinnumarkaði og annað misrétti, sem beinst hefur gagnvart þeim sem ekki hafa viljað láta bólusetja sig, hefur skipt þjóðinni í tvær fylkingar sem talast ekki við. Ágreiningurinn stendur þar um stjórnarhættina frekar en sjálf bóluefnin, og hafa þau öfl sem beita sér gegn sóttvarnarstefnu Draghi-stjórnarinnar ásakað hana um að ganga gegn stjórnarskrárbundnu jafnrétti borgaranna og umráðarétti sérhvers yfir eigin líkama.

Það var í sjöttu atlögu sem þingheimur og kjörmenn sameinuðust um endurkjör Mattarella, eftir að hafa m.a. hafnað tillögum um fjórar háttsettar konur í stjórnkerfinu, sem hefðu orðið fyrstu konurnar til að gegna forsetaembætti. Allir stjórnarflokkarnir stóðu að lokum saman um þennan frið sín á milli, en Ítalski bræðralagsflokkurinn lýsti andstöðu sinni og hugsar nú gott til glóðarinnar um atkvæðasmölun eftir háðulega útreið Lega-flokksins í tilraunum hans til samkomulags um forsetaefni. Stjórnarsamstarfið ber sterk merki um hagsmunabaráttu þingmanna og það bandalag „mið-hægriflokkanna“ sem áður var í hámæli virðist nú úr sögunni. Enginn veit lengur hvað er „hægri“ eða „vinstri“ í ítölskum stjórnmálum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: