ALÞJÓÐAVÆÐINGIN OG FLÓTTAMANNAVANDINN Í BRENNIDEPLI Á ÍTALÍU
Þrjár vikur á Ítalíu og allt á hverfanda hveli: ríkisstjórn „barbaranna“ tekur völdin í Róm og hótar uppgjöri við ESB og lokun hafna fyrir flóttamenn. Giuseppe Conte, hinn nýi forsætistráðherra í ríkisstjórn 5*hreyfingarinnar og Lega/Salvini flokksins setur hnefann í borðið í Brussel og krefst þess að Dublinarsamkomulagið um flóttamenn í Evrópu verði endurskoðað. Blekið á samkomulagi leiðtogafundar ESB þar að lútandi er varla þornað þegar Macron Frakklandsforseti dregur í land og síðan leiðtogar Póllands, Tékklands og Ungverjalands.
Samkomulagið fól í raun í sér að flóttamenn innan ESB væru komnir inn á Schengen-svæðið og væru á sameiginlegri ábyrgð aðildarríkjanna. Móttökustöðvar flóttafólks yrðu kostaðar af ESB og byggðu á frjálsri ákvörðun aðildarríkja um rekstur þeirra. Um leið fól samkomulagið í sér óljósa áætlun um uppsetningu „móttökustöðva fyrir flóttafólk“ inni í Afríku sjálfri, sunnan landamæra Líbýu, áætlun sem virðist vera gerð án viðræðna við viðkomandi Afríkuríki. Þessar „móttökustöðvar“ flóttafólks, sem eiga að greina „efnahagslega flóttamenn“ frá flóttafólki undan ofbeldi og stríðsátökum, og senda þá fyrrnefndu til upprunalands síns, eru orðnar að heitri kartöflu sem flestar þjóðir ESB segja sig frá og vilja vísa til Mið-Afríkuríkja án frekari umræðna eða samkomulags. Um leið eru uppi raddir um óskilgreinda fjárhagsaðstoð ESB við viðkomandi ríki án frekari útskýringa.
Málið sýnir þennan óleysanlega vanda í hnotskurn og vandin hefur nú einangrað Angelu Merkel, kanslara þýskalands og áður óumdeildan leiðtoga ESB, þannig að stjórn hennar riðar til falls og þar með einn af hornsteinum bandalagsins. Á henni standa nú öll spjót: frá leiðtogum samstarfsflokks Kristilegra í Bæjaralandi, frá Póllandi, Ungverjalandi, Tékklandi og Austurríki, auk þess sem hún hefur lýst því yfir að ekki sé sjáanlegur möguleiki á samkomulagi við hina nýju ríkisstjórn Ítalíu.
Flóttamannavandinn er ekki lengur vandi sem snýr bara að innra öryggi og stöðugleika ESB ríkjanna, hann ógnar nú einnig efnahagslegum grundvelli bandalagsins sem byggir á frjálsri umferð fólks, fjármagns og varnings, þar sem Schengen-samkomulagið gegnir lykilhlutverki.
Ef ESB ríkin vilja hafa ytri landamæri og frjálst flæði fólks, fjármagns og varnings innan þeirra, þá þurfa aðildarríkin að taka sameiginlega ábyrgð á þessum landamærum og umferð vegabréfslausra flóttamanna innan landamæranna. Þessi er afstaða ítalskra stjórnvalda núna, og verður að teljast eðlileg miðað við grunnforsendur ESB, en hún virðist illframkvæmanleg nema í óljósum yfirlýsingum ábyrgðarlausra leiðtoga bandalagsins.
Kjarni þessarar deilu komst í hámæli þegar ríkisstjórn Giuseppe Conte neitaði að taka við björgunarskipinu Aquariusi sem var með um 300 flóttamenn innanborðs, sem hafði verið bjargað úr gúmmífleytum á miðju úthafi milli Líbýu og Sikleyjar. Þar kom ein þversögn þessa vandamáls í ljós: samkvæmt mannréttindasáttmálum og grundvallarreglum kristinnar siðfræði, sem ESB-ríkin kenna sig við, þá er það skylda allra að bjarga fólki úr sjávarháska og veita því skjól.
Gagnrýnendur ítölsku stjórnarinnar innan lands og utan sögðu hafnbannið vera brot á mannréttindum og stjórnarskrá Ítalíu. Þau rök má til sanns vegar færa, enda tók hin nýja stjórn sósíalista á Spáni á móti skipinu „af mannúðarástæðum“.
Málið er þó flóknara en þetta, því talsmenn ítölsku stjórnarinnar halda því fram að flóttamannastraumurinn sé að stærstum hluta „þrælasala“ stunduð í ábataskyni og án allra mannúðarforsendna. Björgunarskipin sem bjarga flóttafólkinu úr líbýsku manndrápsfleytunum eru flest rekin af „frjásum samtökum án landamæra“, og halda ítölsk stjórnvöld því fram að lagalegur rekstur þessara björgunarskipa séu ekki fyrir hendi. Auk þess er því haldið fram (í samsæriskenningum án sönnunargagna) að þessi skipaútgerð sé fjármögnuð af auðkýfningnum Soros, sem beiti ómælanlegum auði sínum til að styrkja stoðir hins yfirþjóðlega fjármagnsflæðis á heimsvísu, og þar með til að draga úr vægi landamæra, þjóðríkja og þjóðernis. Semsagt, að á bak við flóttamannastrauminn sé ekki bara mannleg eymd og örlátt hjálparstarf, heldur líka efnahagslegur og pólitískur ásetningur af allt öðrum toga.
Málsvarar ítalskra stjórnvalda halda því fram með nokkrum rökum að það hafi falist í vilja kjósenda þeirra að þeir kæmu reglu á þennan flóttamannastraum og settu honum ákveðin og lögbundin takmörk.
Undanfarin ár hafa um 150.000 vegabréfslausir flóttamenn komið til Ítalíu á ári hverju. Þeir sem telja að loka þurfi þessari flóðgátt eru ekki bara þeir sem halda fram yfirburði eins kynþáttar fram yfir annan, heldur margir sem telja að stjórnlaus innflutningur af þessu tagi muni óhjákvæmilega leiða til félagslegs óstöðuleika, ýta undir löglausan og stjórnlausan vinnumarkað og einmitt verða gróðrarstíu fyrir kynþáttahyggju af verstu gerð.
Þannig sagði einn af leiðtogum Lega-flokksins nýlega í viðtali við franska sjónvarpið að Evrópa þyrfti að setja sér reglur sem fælu í sér flóttamannakvóta: „Eigum við að taka við 100 þusund á ári eða einni miljón eða jafnvel fleirum? spurði Claudio Borghi og sagði að flokkur hans teldi að ítalski kvótinn væri þegar fylltur. Því þyrfti að finna sameiginlega lausn á vandanum.
Aquarius-málið var því ekki bara brot á mannréttindasáttmálum um björgun fólks úr sjávarháska, það varð líka til þess að knýja Evrópuþjóðir til að takast á við vandamálið með öðrum hætti en viðgengist hefur til þessa. Það kallar á að kryfja vandann og orsakir hans, og að Evrópuþjóðir horfist í augu við þá staðreynd að flóttamannastraumurinn frá Líbýu hófst eftir að NATO-ríkin höfðu með loftárásum á Líbýu steypt lögmætri stjórn af stóli, eyðlagt samfélagslega innviði landsins og skapað skilyrði botnlausrar spillingar meðal stríðsherra sem tókust á um samfélagslegar eignir þjóðarinnar í innbyrðis átökum. Vitað er að ein meginorsök þessarar innrásar voru ekki mannúðarrök, heldur óttinn við áform Ghaddafis um að hefja viðskipti með olíu utan hagkerfis dollarans.
Þótt flóttamannavandinn hafi verið efst á baugi í fjölmiðlum frá því ríkisstjórn 5* og Lega komst til valda, stjórnin sem Financial Times kenndi við „barbara“ en aðrir meginfjölmiðlar kenndu við „populisma“ eða jafnvel „fasisma“, þá hafa þessi umskipti ekki síður umbreytt umræðunni um efnahagsmál hér á Ítalíu. Sú umræða hefur fyrst og fremst snúist um skuldavandann og þá niðurskurðarstefnu sem ráðherranefnd ESB, Evrópski seðlabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafa knúið fram hjá hinum skuldugri ríkjum bandalagsins. Þessi umræða hefur verið upplýsandi og gefandi, og er enginn vafi á því að almenningur á Ítalíu er nú upplýstari um það en áður, hvers vegna atvinnuleysi hefur undanfarin áratug verið 12-15% og um 25% meðal ungs fólks, hvers vegna rétturinn til vinnu hefur verið takmarkaður, hvers vegna kaupmáttur hefur ekki aukist í 15 ár og hvers vegna eldra fólk býr ekki lengur við vissu um endurgreiðslu á lífeyrissparnaði sínum að loknu æfisrtarfi. Þær efnahagsaðgerðir sem hafa skapað þetta ástand hafa verið studdar af fyrri stjórnvöldum og meginfjölmiðlum á þeim forsendum að þær séu nauðsynlegar til að styrkja samkeppnishæfni Ítalíu á alþjóðamarkaði og um leið til að greiða vaxtakostnað af skuldabyrðinni, sem hefur engu að síður farið vaxandi þrátt fyrir þessa niðurskurðarstefnu.
Loks hafa málsmetandi hagfræðingar fengið pláss í hinni opinberu umræðu til þess að skýra röksemdir niðurskurðaraflanna um óhjákvæmilega nauðsyn hins yfirþjóðlega fjármagns til að setja samfélaginu ramma og skorður.
Ríkisstjórn Giuseppe Conte er stofnuð til höfuðs þessari niðurskurðarstefnu, og þar með til höfuðs þeim efnahagslega ramma sem myntsamstarf ESB ríkjanna hefur sett ítalska ríkinu með utanaðkomandi fjárlagaramma og skuldaramma. Í stað þess að selja samfélagslegar eignir ríkissjóðs til hins yfirþjóðlega fjármálavalds vill hin nýja ríkisstjórn efla umsvif ríkisins með nýjum fjárfestingum í innviðum, þjónustu og atvinnustarfsemi í því skyni að auka eftirspurn eftir vinnuafli og varningi og þar með auka hagvöxt. Hún vill minnka skatta, ekki bara á launþegum, heldur einkum á átvinnustarfsemi sem hefur búið við hrun síðustu 15 árin vegna skattheimtu sem fer í að greiða vextina af ríkisskuldunum. Lokun smáfyrirtækja hefur farið um Ítalíu eins og farsótt undanfarin 15 ár með tilheyrandi atvinnuleysi. Þessi efnahagsáform hinnar nýju ríkisstjórnar sem fela augljóslega í sér aukin ríkisútgjöld og þar með aukningu skulda, á að mati hagspekinga hennar að verða forsenda þess að Ítalía losni úr spennitreyju niðurskurðarstefnunnar og þeirrar samkeppniskröfu sem myntsamstarfið skapar, kröfu sem felur í sér að hinn skuldugi er ævarandi dæmdur til að tapa í samkeppninni um útflutningsmarkaðinn vegna þess að hann er lokaður í sama gjaldmiðli og lánveitandinn. Ítalska þjóðin virðist vera að vakna til vitundar um að myntsamstarfið um evruna og niðurskurðarstefnan eru rammi sem lánardrottnarnir hafa sett þjóðinni: fátt annað skýri að iðnaðarframleiðsla og útflutningur Þýskalands fari stöðugt vaxandi á meðan hið þveröfuga gerist á Ítalíu. Það verður ekki skýrt með „eðlislægri leti og spillingu“ eins og þríeykið notaði gagnvart Grikkjum á sínum tíma.
Þessi umræða um efnahagsmálin hefur verið afar upplýsandi undanfarnar vikur og enginn vafi leikur á því að það eru ekki síður efnahagsleg rök en innflytjendamál sem skýra þá staðreynd að Lega-flokkurinn og 5* hreyfingin mælast nú í skoðanakönnunum með um 30% fylgi hvor flokkur, og ríkisstjórnin þar með með 60% stuðning. Það verður að segjast eins og er að hin hefðbundnu vinstri öfl hafa lotið í lægra haldi í þessu stríði áróðurs og upplýsinga, og er átakanlegt að sjá marga hefðbundna leiðtoga Demókrataflokksins hverfa inn í hýði sín án málefnalegrar þátttöku um þessi lykilmál evrópskra stjórnmála á okkar tímum: efnahagslegan veruleika alþjóðavæðingarinnar og raunverulegar orsakir flóttamannavandans.