Þessi minningarorð um Birgi Andrésson birtust í Morgunblaðinu í október 2007, daginn sem hann var jarðsettur
Birgir Andrésson: Röskur meðalmaður, litprent, 1979
Hann er röskur meðalmaður á hæð og gildur að sama skapi, svarar sér vel og rekinn saman um herðarnar, sem eru dálítið lotnar og kúptar. Hálsinn er tiltakanlega stuttur en mjög gildur og er til að sjá eins og höfuðið standi fram úr bringunni, er hann gengur lotinn. Hann er mjög hárprúður, hárið mikið og fagurt, dökkt á lit og brúnt alskegg, sem tekur niður að bringu. Hann er tiltakanlega vel eygður, móeygður og fremur stóreygður; augnaráðið stillt, blíðlegt og eins og biðjandi og ógleymanlega fagurt.
Þetta er ekki mynd af Birgi Andréssyni, heldur mynd eftir hann, sem hann færði mér eitt sinn að gjöf sem vott um vináttu okkar. Nú, þegar hann er allur, og ég horfi á þessa mynd, sé ég hann engu að síður ljóslifandi fyrir mér. Letrið er gulur Ariel-fontur og þekur efri þriðjung myndflatarins en grunnurinn er mórauður. Myndir sýnir okkur fjarveru þessarar persónu sem er einhvers staðar í bakgrunni verksins eins og þessi mórauði myndflötur sem gerir gult letrið ágengt og ögrandi. Þetta verk er eins og öll myndlist Birgis áminning og áskorun til okkar um stöðuga endurskoðun á hinu flókna sambandi sem ávalt ríkir á milli myndar og hlutar, orðs og myndar, hugsunar og veruleika.
Hluturinn sem slíkur öðlast enga tilvist í huga okkar nema við gerum okkur mynd af honum. Án myndarinnar í huganum höfum við enga hugmynd um hlutina eða veruleikann. Með því að gera okkur mynd af hlutnum köllum við hann fram fyrir sjónir okkar í líkingu hans. Í myndinni fær hluturinn að líkjast sjálfum sér, eitthvað sem hann getur ekki gert án myndar. Um leið og myndin verður til, þannig að hluturinn fær að líkjast sjálfum sér, hverfur hann í bakgrunninn og staðfestir fjarvist sína.
Að líkjast sjálfum sér er að vera annar en maður sjálfur, nefnilega mynd. Maðurinn hverfur alltaf á bak við mynd sína. Þetta brotthvarf er táknrænn dauði viðfangsins sem öðlast nýtt og eilíft líf í mynd sinni.
Mynd Birgis Andréssonar sem ég hef fyrir augum mér sýnir persónu. Orðið persóna er grískt að uppruna og merkir gríma. Það er eðli grímunnar að sýna það sem hún felur. Augnaráð persónunnar í myndinni, sem er “stillt, blíðlegt og eins og biðjandi og ógleymanlega fagurt”, er löngu slokknað. Þessi persóna horfir ekki á mig. Það er ég sem horfi með myndinni, með því að hverfa inn í hana, með því að hverfa inn í rýmið sem er á milli bakgrunnsins og letursins, milli andlitsins og grímunnar sem það ber og er mynd persónunnar. Til þess að myndin snerti okkur nægir ekki að horfa á hana. Við þurfum að fara inn í hana og læra að horfa með henni til þess að skynja rýmið á milli myndarinnar og hlutarins, milli orðsins og myndarinnar, á milli hugsunar okkar og veruleikans.
Nú er Birgir allur. Hann er horfinn inn í mórauðan bakgrunn myndarinnar. En með því að hverfa inn í myndina, inn í rýmið á milli letursins og bakgrunnsins, getum við enn fundið til návistar hans. Það er hlý návist og örlát og við þökkum honum fyrir gjafir hans.