Þessi grein var skrifuð fyrir Listasafn Íslands í tilefni yfirlitssýningar á verkum Gunnlaugs Scheving í janúar 2001
Ég var að hugsa um ummyndanir í málverkum Gunnlaugs Scheving. Hvernig hann ummyndar mjaltakonuna, sjómanninn eða eldsmiðinn og skapar úr þeim goðsagnir sem eru fullar af táknum. Gunnlaugur er ekki að lýsa fyrir okkur lífi þessa fólks, hvernig það er í hátt eða útliti. Hann notast hins vegar við fyrirmyndir úr íslensku þjóðlífi til þess að skapa fullkomlega nýjan heim, sem er um leið heimurinn sem við lifum í. Hann er það vegna þess að við þekkjum okkur í honum, þó að hann sé nýr.
Ef það vakti ekki fyrir Gunnlaugi að lýsa fyrir okkur sjómanninum, mjaltakonunni eða eldsmiðnum eins og þau eru, hvað vakti þá fyrir honum, hvað var hann að tjá, hvað vildi hann segja?
Því hefur verið haldið fram að tjáning í list sé dæmigerð myndlíking – Við sjáum sjómenn, rá og reiða, fiskinn og ólgandi hafflötinn, allt dæmi sem við þekkjum og eru tekin úr raunveruleikanum eins og hlutar fyrir heild; en með kraftmikilli formbyggingu og fyllingu litarins birtast þessi dæmi okkur síðan sem myndlíking um Manninn og Náttúruna þar sem hið einstaka öðlast almenna og altæka merkingu í samspili krafta er takast á á myndfletinum. Þessi yfirfærða og altæka merking kallar á stóra fleti og vítt rými. Í myndum Gunnlaugs fer saman rismikið form og rismikið inntak. Þær eru málaðar fyrir stóra sali þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.
Það er fróðlegt að fylgjast með því af skyssum og uppkastsblöðum á sýningunni í Listasafni Íslands hvernig Gunnlaugur hefur unnið verk sín. Hann teiknar þau upp, aftur og aftur í örsmáu formi, allt niður í frímerkjastærð, og virðist hafa verið haldinn friðlausri áráttu til að endurtaka sama viðfangsefnið í óteljandi tilbrigðum. Þessar teikningar og skyssur veita okkur ómetanlega innsýn í listrænt sköpunarferli.
Að búa til mynd af heiminum er að tákngera hann.
Allar myndir sem við gerum okkur af sjálfum okkur og umheiminum birtast í táknum. Þegar Gunnlaugur Scheving er að teikna upp aftur og aftur sama viðfangsefnið í ótal tilbrigðum eru táknin að mótast fyrir hugskotssjónum hans. Alveg eins og barnið endurtekur í sífellu sama hugtakið á meðan það er að ná valdi á því og fá það til að passa við veruleikann, þá endurtekur málarinn í sífellu táknið sem hann er að uppgötva á meðan hann er að læra að nota það, þannig að það dugi í nýja mynd af heiminum.
Að búa til ný tákn er eins og vísindalegt rannsóknarferli sem byggir á ótal tilraunum þar sem táknið og viðmið þess eru mæld saman. Endurtekningin skapar þekkingu og vald á táknmálinu, og allt í einu verður listaverkið til. Við endusköpum heiminn í sífellu í máli og myndum og málið og myndirnar verða efniviður í nýjar setningar og nýjar myndir. Jafnvel sjálf okkur getum við ekki skilið nema í yfirfærðri mynd, við tölum um að við höfum sjálfsímynd.
Í myndum Gunnlaugs Scheving er að finna drjúgan hluta af sjálfsímynd íslensku þjóðarinnar eins og hún birtist hans kynslóð, og eins og hún ummyndaðist hjá næstu kynslóðum. Það er hins vegar ráðgáta að myndum hans skyldi ekki haldið á lofti meira en raun ber vitni. Hvernig stendur á því að Gunnlaugi Scheving var ekki falið að skreyta aðrar opinberar byggingar hér á landi en Kennaraháskólann? Er það satt að Háskólaráð hafi á sínum tíma hafnað tillögum hans að skreytingum í hátíðarsal Háskóla Íslands vegna þess að prófessorunum hafi ekki þótt við hæfi að hafa á veggjum salarins myndir af sjómönnum og bændum, sem stóðu utan háskólasamfélagsins?
Þessi vanræksla er þeim mun tilfinnanlegri sem Gunnlaugur Scheving er eini raunverulegi mónumentalmálarinn sem við höfum eignast, eini málarinn sem málaði rismiklar myndir ekki bara í forminu, heldur fyrst og fremst í inntaki sínu. Tími slíkrar myndhugsunar virðist nú liðinn og veggir hátíðarsalarins standa auðir. En gjöf listamannsins setur ábyrgð á herðar Listasafni Íslands, og er vonum seinna að þessi sýning skuli nú opnuð.
Mynd: Gunnlaugur Scheving; Hákarlinn tekinn inn, 255×405 cm. 1965