Texti um sýningu Magnúsar Pálssonar og Helgu Hansdóttur, „Viðtöl um dauðann“, sem sýnd var í Listasafni Reykjavíkur 2003.
Sýningin var samvinnuverkefni læknis og myndlistarmanns: Helga Hansdóttir öldrunarlæknir hafði gert rannsókn á viðhorfum aldraðra til dauðans. Viðtölin voru leiklesin og flutt í útvarpstækjum sem hluti af sviðsetningu Magnúsar Pálssonar
Prómeþeifur: Já, víst er mínum vinum raun að sjá mig hér.
Kór: En hefur þú auk þessa framið eitthvert brot?
Prómeþeifur: Ég létti af mönnum vitund um sín ævilok.
Kór: Hver var sá læknisdómur er þar dugði bezt?
Prómiþeifur: Ég gróðursetti blinda von í brjósti þeim.
Kór: Þar hefur þú veitt hinum feigu sanna líkn.
Æskílos: Prómeþeifur
Prómeþeifur var guðinn sem færði manninum eldinn og þar með tæknikunnáttuna sem gerði honum kleyft að losa sig úr viðjum hinna blindu náttúruafla til þess að byggja framtíð sína á vísindalegri þekkingu og tækni. Með því að ganga inn í heim tækninnar leitaðist maðurinn við að rjúfa þá hringrás náttúrunnar sem allt líf var undirorpið í árdaga. Eldur Prómeþeifs gerði manninum mögulegt að skapa merkingu úr tilveru sinni og í þeim skilningi að greina sig frá dýrum merkurinnar. Með gjöf sinni, sem Promeþeifur hafði stolið frá Seifi alföður, hafði hann gert manninn nánast jafnoka guðanna í öllu nema einu: hann þurfti óhjákvæmilega að deyja, á meðan guðirnir voru ódauðlegir. Eini munurinn var sá að eldur Seifs kom af himni ofan í formi eldingar, á meðan eldur mannanna var bundinn jörðinni og líf þeirra og tilvist mörkuð dauðanum. Þetta þýddi meðal annars að sjúkdómurinn var ekki lengur tilkominn vegna þess að maðurinn á að deyja og þarf nauðsynlega að deyja, eins og það var í árdaga, heldur verður hann smám saman skilgreindur sem bilun í því kerfi sem læknisfræðin á að viðhalda út yfir hina blindu von. Það er eðli tækninnar og sögu framfaranna að storka hinni upprunalegu hringrás náttúrunnar og beygja hana undir vilja og blinda von mannsins fram yfir rauðan dauðann.
Promeþeifur fékk grimmilega refsingu fyrir þetta agabrot sitt og þann hroka sem Seifur taldi í því fólginn: hann var hlekkjaður fastur á fjallstind þar sem örninn átti að nærast á lifur hans um alla framtíð eða „unz eilífðin er tæmd“ eins og segir í þýðingu Helga Hálfdánarsonar á harmleik Æskilosar um þessa goðsögn. Í leikritinu segir Prómeþeifur mennina hafa verið fávísa þar til hann kenndi þeim að greina rétt frá röngu: „þeir höfðu sjón en sáu þó til einskis gagns; þeir höfðu heyrn en skildu samt hvorki’ eitt né neitt; þeir létu lífið streyma hjá sem draumamyndir, allt var óskapnaði líkt…Svo kenndi ég þeim líka reikningslist, sem æðst er vísinda, og leturgerð sem geymir allt í minni og hverri menntagrein er fóstra sönn…„[1]
Prómeþeifur segist líka hafa kennt mönnunum læknislistina og þá list „að þekkja og byrla lyf, sem gátu líknað vel í sjúkdóms kröm og þungum þrautum af þeim létt.“ En merkilegast af öllur er þó sú játning hans að hann hafi létt af mönnum vitundinni um dauðann með því að „gróðursetja blinda von í brjósti þeirra„[2].
Dauðinn merkir skipbrot allrar þeirrar merkingar sem maðurinn hefur byggt upp með lífi sínu og starfi og bundið í minni tungumálsins. Með dauðanum þurrkast minnið út og merkingin hverfur. Því var hin mesta náðargjöf Prómeþeifs að létta af mönnum vitundinni um dauðann og sá blindri von í brjóst þeirra.
Sú sýning sem hér hefur verið unnin í samvinnu Magnúsar Pálssonar myndlistarmanns og Helgu Hansdóttur öldrunarlæknis fjallar með óbeinum hætti um þá harmsögulegu þversögn sem hér um ræðir. Helga hefur tekið viðtöl við skjólstæðinga sína og lagt fyrir þá viðkvæmar spurningar um hvernig þeir vilja mæta dauðanum. Spurningar sem eru mótaðar frá sjónarhóli læknisins. Viðtöl Helgu hafa verið skráð og endurflutt af leikurum fyrir útvarp og sett inn í rými sem verður í heild sinni eins konar memento mori, áminnig um dauðann. Í rými þessu sjáum við auk útvarpstækjanna er flytja viðtölinn, háþróaðan tæknibúnað læknislistarinnar sem opnar fyrir okkur lifandi kviku og leyndardóm mannslíkamans, hjartsláttinn og andardráttinn. Því hefur verið haldið fram, að á meðan reglubundin hegðun dýranna í heild sinni ráðist af eðlishvötinni, þá gildi öðru um manninn. Þar er eina reglufestan fólgin í taktfastri endurtekningu hjartslátts og andardrátts. Þess vegna er líkingamál um sál mannsins gjarnan bundið við anda og hjarta í flestum tungumálum[3]. Reglufestan í þessari líkamsstarfsemi verður grunnurinn að samskiptum líkamans við umheiminn og leit mannsins að reglufestu í náttúrunni og umhverfinu. Þessi taktfasta regla hjartsláttsins og andardráttsins vitnar um um órofa tengsl líkamans (og sálarinnar) við náttúruna og jörðina. Enn sem komið er hefur tækninni ekki tekist að skera á þau tengsl nema kannski tímabundið.
Þess vegna minnir þessi sýning okkur jafnframt á vanmátt tækninnar andspænis hinum endanlega sannleika dauðans, andspænis hinum óhjákvæmilega harmleik mannlegrar tilveru. Sá sannleikur er jafnframt markaður sársaukanum, og hann stendur utan og ofan við allar mælistikur og kvarða reikningslistarinnar. Endanlega spurningin snýst ekki um rök reikningslistarinnar og tungumálsins, heldur hvort við kjósum heldur að lina þjáninguna með opíum eða morfíni. Það reynist endanlega hin blinda von Promeþeifs, sem hann gaf manninum ásamt með reikningslistinni og tæknikunnáttunni.
Sú Mynd sem Magnús Pálsson hefur dregið upp með þessum óvenjulega efniviði á sér ýmsar hliðstæður í sögu myndlistarinnar. Mér kemur í hug mynd sem þýski málarinn Hans Holbein (1497-1543) málaði í London árið 1533 af „Sendiherrunum“. Mynd þessi, sem er ein af helstu gersemum National Gallery í London, sýnir tvo karlmenn í nánast fullri líkamsstærð. Þeir standa uppréttir og uppstilltir eins og við ljósmyndatöku og hvíla hönd á dúklagða hillu sem er hlaðin tólum og tækjum vísinda og lista. Mennirnir tveir eru nafngreindir sem sendiherra Frakklands í Lundúnum og vinur hans og samlandi úr stétt guðfræðinga. Þeir bera það með sér að þeir hafi fulla stjórn á sjálfum sér og umhverfi sínu í krafti þekkingar sinnar á vísindum og listum. Annar þeirra hefur yfirbragð veraldslegs valdsmanns, hinn ber með sér geistlegt yfirbragð. Hnattlíkön, tæki til rannsóknar á sólargangi og tímatali, hljóðfæri, fræðibækur og lúthersk guðsorðarit eru til vitnis um þekkingu þeirra og vald. Bakgrunnurinn er íburðarmikið grænt silkitjald með rósaflúri. Efst til vinstri hangir lítil mynd af Kristi á krossinum. Gólfið er steingólf með mósaík, sem mun vera það sama og er að finna í Westminster Abbey í London. Myndin er öll máluð af raunsæislegri nákvæmni þar sem sérhver hlutur er í réttu hlutfalli við heildina og öllum reglum fjarvíddarglugga endurreisnarinnar fylgt til hins ýtrasta. Að öllu leyti nema einu: á gólfinu fyrir miðri mynd sjáum við undarlegan hlut, sem við nánari athugun reynist vera skekkt mynd af hauskúpu, sem eins og hangir í lausu lofti. Mynd sem virðist kippa grundvellinum undan fullvissu þess valds og þeirrar sjálfstjórnar sem mennirnir standa fyrir. Hauskúpan er að sjálfsögðu algengt tákn um fallvaltleikann og dauðann í myndlist 16. aldar, en það hvernig Holbein málar hana með meðvitaðri sjónskekkju virðist undirstrika með afar óvæntum hætti þá þversögn sem dauðinn ber með sér: hann grefur ekki bara undan dýrð valds og virðingar, vísinda og lista, heldur ruglar hann líka reglum allrar þeirrar rökhyggju, sem sjálf bygging myndarinnar stendur annars fyrir með afgerandi hætti.
Vissulega eru aðferðir þeirra Holbeins og Magnúsar Pálssonar við að túlka þetta viðfangsefni eins ólíkar og hugsast getur. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að í verkunum má finna sameiginlegan skilning á fallvaltleik þess tækniheims sem umlykur okkur og reynir sífellt og með öllum ráðum að telja okkur trú um að við séum örugg og óhult. Tæknin sem Prómeþeifur færði manninum í árdaga er orðin örlög hans. Örlög sem hann hefur skapað sér, en kemst nú ekki undan. Það sem hefur breyst er kannski sú alvarlega staðreynd að maðurinn hefur ekki lengur tök á því hvert tæknin er að leiða hann. Á endanum snýst spurningin ekki um það hvað við munum gera við tæknina til þess að skilja heiminn, heldur hitt, hvað tæknin mun gera við okkur til þess að skilja við heiminn.
:::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::
[1] Grískir harmleikir í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, Mál og menning 1990, Æskílos: Prómeþeifur, bls 211
[2] sama, bls. 206
[3] sbr. Umberto Galimberti: Psiche e techne, L’uomo nell’età della tecnica, Milano 1999, bls. 93
Hans Holbein yngri: Sendiherrarnir, 1533.