Móðir mín, Hólmfríður Jóhannesdóttir hefði orðið 100 ára í dag.
Hún var fædd að Hofstöðum í Skagafirði 18. desember 1919.
Hún lést á sjúkraheimilinu Sóltúni 12. janúar 2018.
Efri myndin er tekin 1938, þegar hún var 19 ára.
Neðri myndin sýnir hönd hennar skömmu áður en hún lést.
Þetta er höndin sem tók á móti mér og leiddi mig út í lífið fyrir þrem aldarfjórðungum eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Þetta er líka ömmuhöndin sem hlúði að barnabörnum sínum sem elskuðu hana og kölluðu Ömmu Hó.
Þetta var örfandi og hvetjandi hjálparhönd fyrir alla sem fengu að njóta hennar.
Nú er hún horfin, en minning okkar um hana er ekki bara lituð söknuði:
hún kenndi okkur að meta fegurð lífsins.