Tryggvi Ólafsson

Í dag kveðjum við vin okkar Tryggva Ólafsson listmálara. Hann var gæfumaður í lífi sínu þrátt fyrir stór áföll. Á námsárum mínum í Kaupmannahöfn kynntist ég honum sem hinum þrotlausa baráttumanni fyrir myndlistinni. Tryggvi var ósveigjanlegur frá köllun sinni. Ég kynntist honum sem hinum sanna fjölskylduföður og hinum örláta gestgjafa á heimili hans og Gerðar í Stampesgade. Þær voru ófáar stundirnar sem við sátum þar á rökstólum fram á nætur. Hann var ótæmandi sögumaður og kenndi mér að hlusta á jazz, sem var hans ástríða ásamt með myndlistinni. Við kynntumst á umbrotaárum í stjórnmálum og hin pólitíska sannfæring Tryggva var samtvinnuð myndlist hans. Sjöundi og áttundi áratugurinn einkenndust af vígbúnaðarkapphlaupi og seinustu fjörbrotum gömlu nýlendustefnunnar í Víetnam, Angola og víðar. Afstaða Tryggva til stjórnmálanna var órjúfanlega tengd köllun hans í myndlistinni. Hún var í senn siðferðileg og fagurfræðileg og beindist innst inni að fegurra mannlífi. Tryggvi var leitandi í myndlist sinni, en krafa hans um fegurð og samræmi var ófrávíkjanleg, hvort sem það snerti myndlistina, heimilislífið, vináttuna eða stjórnmálin. Endanleg gæfa hans var að svíkja aldrei köllun sína í þeim efnum.

Þær eru ófáar myndirnar sem Tryggvi gaf börnum mínum, en eitt málverk keypti ég af Tryggva um miðjan áttunda áratuginn. Það hefur hangið á vinnustofu minni alla tíð síðan og ég horfi til þessarar myndar á hverjum degi. Þetta er andlitsmynd af manni sem í fyrstu virðist hefðbundin í gerð sinni, hefur nánast myndbyggingu passamyndarinnar. En málverkið hefur til að bera ósveigjanlega dulúð sem stafar frá þaulhugsuðu litasamspili hins dimmbláa og dökka og hins appelsínugula og rauða. Það óvænta og ágenga samhengi sem Tryggvi nær fram í verkinu tengist þessu samspili litanna og færir myndina beint inn í sinn samtíma: þetta er myndin af Giap herforingja  sem var fyrstur til að sigra stærstu og öflugustu vígvél veraldarsögunnar í glæpsamlegri sneypuför hennar gegn fátæku bændafólki í Víetnam. Maðurinn sem sveik ekki köllun sína.

Nú hefur Tryggvi kvatt okkur, en hann lifir áfram með okkur í myndum sínum: maðurinn sem bar gæfu til að fylgja köllunn sinni alla leið og standa uppi sem sigurvegari þrátt fyrir stór áföll í lífinu. Hann verður áfram með mér hér á skrifstofunni, og ég þakka honum fyrir samfylgdina og það sem hann færir mér enn í dag.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: