Sýning Magnúsar Pálssonar að Kjarvalsstöðum

 

Að auka við eðlisþyngd efnisins

Þessi umsögn um yfirlitssýninu Magnúsar Pálssonar á Kjarvalsstöðum mun trúlega hafa birst í dagblaðinu DV á sýningartímanum sem var júlí til september 1994. Textinn ber með sér að vera unninn á þeim hraða vinnutakti blaðamannsins sem tíðkaðist á þessum árum.

Ein helsta forsenda þess að við meðtökum ákveðinn hlut í umhverfi okkar sem listaverk er sú, að við upplifum það sterkt að efni hlutarins sé gegnumsýrt og mettað af ákveðinni merkingu. Því mettaðri sem hluturinn er af merkingu, þeim mun áhrifaríkari verður hann og þeim mun göfugri er sú list, sem hann miðlar. Galdur listarinnar er í raun í því fólginn að auka eðlisþyngd efnisins, þannig að við finnum það svífa á okkur þegar við nálgumst það. Þessi galdur verður ekki framkvæmdur af listamanninum í einangrun, heldur krefst hann virkra móttökuskilyrða. Án virkrar upplifunar áhorfendans verður enginn galdur og engin “þyngdaraukning” á efninu.

Fáir íslenskir listamenn hafa áttað sig betur á þessu en Magnús Pálsson. Og fáum íslenskum listamönnum hefur tekist betur í þeirri íþrótt að gera léttvægt efni að þungavigt með þessum hætti. Í yfirlitssýningu hans að Kjarvalsstöðum sjáum við mörg dæmi þessa:

Í verkinu Rúmbjarni frá 1976 erum við leidd inn í rými þar sem mælieiningin rúmbjarni er á miðju gólfi í formi glertenings, sem er fullur af vatni. Rúmbjarni er rúmmál Bjarna H. Þórarinssonar listamanns, eins og það mældist árið 1976. Rýmið sem umlykur rúmeininguna eru 260 rúmbjarnar. Upplýsingarnar um tilurð verksins eru utan á herberginu og eru nauðsynlegur hluti verksins. Þegar við göngum inn í þetta rými efir að hafa kynnt okkur sögu þess, verður það blátt áfram yfirþyrmandi tilfinning að vera staddur innan í 260 rúmbjörnum. Og sjálf mælieiningin á miðju gólfinu verður bæði ögrandi og hrollvekjandi: teningur af vatni = mælieinig manns.

Magnús Pálsson: Rúmbjarni, 1976. Bjarni Þórarinsson í rými Gallerí Suðurgata 7, sem er 260 „rúmbjarnar“.

Húmanistarnir á endurreisnartímanum urðu fyrstir manna til þess að skapa rými sem hugsað var út frá mælieiningu mannsins. Hlutföll mannslíkamans voru gerð að forskrift fyrir hlutföllum í byggingarlist endurreisnartímans. Munurinn á húmanisma endurreisnartímans og húmanisma Magnúsar Pálssonar í þessu verki er kannski fyrst og fremst sá, að þeir Brunelleschi og Alberti byggðu á upphafinni fyrirmynd, sem var fullkomin í líkamsbyggingu sinni og formgerð. Magnús Pálsson byggir hins vegar á Bjarna H. Þórarinssyni og hefur þar með komið hinni upphöfnu fyrirmynd endurreisnartímans niður á jörðina og sett efnismassann fyrir gæðin. Rýmið í þessum teningi og þessu herbergi er mettað af merkingu svo það svífur á þann sem inn í það gengur. Hann verður þátttakandi í þeim galdri að upplifa aukningu á “eðlisþyngd” efnisins.

Á sama hátt og andrúmsloftið og vatnið eru meðal þeirra formlausu efna, sem eru bæði hvað ódýrust og yfirlætislausust sem efniviður í listaverk, er gifsið með ódýrustu og sviplausustu föstu efnum, sem hægt er að nota í sama tilgangi. Þar að auki er auðvelt að móta það. Þetta mun hafa verið meginástæða þess að Magnús Pálsson vann á tímabili nær eingöngu í gifs, og gerði úr þeim efniviði nokkur af sínum eftirminnilegustu verkum.

Eitt þeirra er Flæðarmál frá 1975, gifssamloka í þrem pörtum, sem sýnir okkur fjöruna, sjóinn og andrúmsloftið sem eina afsteypu. Verkið er að því leyti einstakt, að við sjáum ekki bara afsteypu af yfirborði afmarkaðs hluta af fjörunni, heldur sjáum við líka, þegar samlokan er opnuð, neðra yfirborð sjávarins þar sem það snertir fjöruna og skeljarnar sem þar liggja í sandinum. Loftið yfir fjöruborðinu er líka efnisgert í gifsmassa sem breiðist yfir vatnið og sandinn og lokar samlokunni. Þegar við opnum hana sjáum við líka neðra yfirborð andrúmsloftsins, sem gefur óbeint til kynna loftþyngdina við yfirborð jarðar (jafngildi 760 mm. kvikasilfursúlu).

Magnús Pálsson: Flæðarmál, 1976

Gifsmassinn í þessu verki er ekki bara mettaður af höfuðskepnunum þrem, jörð, vatni og lofti, heldur vekur hann okkur líka til umhugsunar um það, hvernig við erum vön að skoða flæðarmálið og sjá það fyrir okkur á mynd. Við erum vön því að myndir séu uppréttar eins og við sjálf. Efst er himininn, síðan kemur hafsflöturinn eins og lárétt strik við sjóndeildarhringinn, þá fjöruborðið sem annað lárétt strik og neðst fjaran: tvö lárétt strik skipta sléttum myndfletinum í þrjá hluta, þar sem efra strikið táknar um leið sjónarhorn okkar á óendanleikann. Það er hins vegar sama hversu færan skýjamálara við fáum til að mála bláma himinsins og hversu færan sjávarmálara við fáum til að mála kvikar öldurnar og hversu færan kyrralífsmálara við fáum til að mála skeljarnar í sandinum á þennan flöt: aldrei geta þeir nálgast það raunsæi sem fólgið er í gifssamloku Magnúsar Pálssonar. Mynd hans er ekki byggð á hefðbundinni þrívídd, sem miðuð er við sjónarhorn mannsins og fjarvíddarglugga hans, heldur er viðfangsefnið þvert á móti nálgast með þeim hætti, að hið hefðbundna húmaníska þrívíddarmyndmál er fullkomlega sniðgengið. Það er enginn sjóndeildarhringur í þessu verki, enginn punktur sem markar óendanleikann og í rauninni ekkert sem snýr frekar upp en niður. Engu að síður er verkið fullkomlega rökrétt í framsetningu sinni og gengur fullkomlega og bókstaflega upp í einni heild sem lokaður efnismassi og sannferðug afsteypa af viðfangsefninu. Gifssamlokan “Flæðarmál” er því mettuð af merkingu, sem er margræð og vísar ekki bara til “fyrirmyndarinnar”, hins raunverulega flæðarmáls, heldur raskar hún við hinu hefðbundna sjónarhorni okkar á náttúruna og um leið því tungumáli, sem við höfum leitt af þessu sjónarhorni.

Því myndlistin er tungumál, rétt eins og móðurmálið, sem við notum til þess að nálgast veruleikann á sem sannferðugastan hátt.

Við getum séð einn rauðan þráð í allri listsköpun Magnúsar Pálssonar, hvort sem um er að ræða þrívíddarverk, teikningar, gipsskúlptúra, bókverk, raddskúlptúra, “rjóður” eða leikhúsverk: endurskoðun og endurnýjun tungumálsins. Slík endurnýjun er listinni lífsnauðsyn, ef hún á að standa undir því nafni að vera rannsókn á veruleika okkar í samtímanum, en ekki einskær afþreying eða stofustáss.

Magnús Pálsson hefur einstakan hæfileika til þess að nálgast viðfangsefni sitt á ferskan og óvæntan hátt, þar sem hefðbundnum aðskilnaði listgreina er varpað á glæ og öllum fyrirfram gefnum formúlum með. Verk hans eru umfram annað ígrunduð rannsókn á tungumáli listarinnar og möguleikum hennar til þess að takast á við veruleika samtímans. Um leið skilgreina þau listina upp á nýtt með hverju verki og taka innihald hennar til gagngerðrar rannsóknar. Þess vegna koma verk hans okkur stöðugt á óvart. Þau kenna okkur jafnframt að varpa af okkur viðjum vanans og sjá umhverfi okkar í nýju ljósi. Ef við hreinsum ekki tungumál okkar af innihaldslausum formúlum og vanahugsun, verðum við blind á allar þær furður sem umhverfi okkar og tilveran öll bjóða uppá. Þegar við hættum að geta nálgast tilveruna með þeirri barnslegu undrun og furðu, sem hún gefur ærin tilefni til, má bóka það að við höfum fjötrast í viðjum vanans, ellinnar og þeirra innihaldslausu orða, sem ellirausinu fylgja. Ellirausinu gerir Magnús reyndar frábær skil í verkinu Enginn gleypir sólina”, þar sem stillt er saman nefjum, neftóbaki og búkhljóðum og stunum ýmsum með óborganlegum hætti.

Sýning Magnúsar Pálssonar að Kjarvalsstöðum er með eftirminnilegustu listviðburðum ársins og óhætt að hvetja sem flesta til að skoða hana með opnum huga og skilja fordómana eftir heima.

Í tilefni sýningarinnar hefur Listasafn Reykjavíkur gefið út fróðlega bók um list Magnúsar, sem ætti að vera fengur að fyrir allt áhugafólk um íslenska samtímamyndlist.

Forsíðumyndin: Magnús Pálsson og verkið „Bestu stykkin“ frá 1965

                                                               

 

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.