Hlið augnabliksins – Gretar Reynisson

Texti úr sýningarskrá Gretars Reynissonar „Áratugur“

1/1 2001 – 31/12 2010

Útgefandi: Útúrdúr, 2013

eftir Ólaf Gíslason

Skyrtur 52

Gretar Reynisson: 52 skyrtur

 

Allt fer, allt kemur aftur; hjól tilverunnar veltur um eilífð. Allt deyr, allt blómgast aftur; ár tilverunnar tekur engan enda.

Allt brotnar, allt er skeytt saman á ný; um eilífð rís hið sama hús tilverunnar. Allt kveður, allt heilsast á ný; hringur tilverunnar er sjálfum sér trúr um eilífð.

Í hverju andartaki byrjar tilveran; kringum allt „hér“  snýst hnötturinn „þar“. Miðjan er allsstaðar. Hlykkjóttur er stígur eilífðarinnar.[1]

Þannig tala dýrin til spámannsins Zaraþústra, í hinni heimspekilegu dæmisögu Friedrichs Nietzsche um spámanninn sem var „kennari hinnar eilífu endurkomu“ og talaði í myndlíkingum um mannsandann sem var fyrst kameldýr undirlægjunnar, síðan ljón hins frjálsa vilja í eyðimörkinni og að lokum drengurinn, barnið sem er „sakleysi og gleymska, nýtt upphaf, leikur, hjól sem veltur af sjálfu sér, frumhreyfing og heilagt jáyrði“[2]

Sú einstaka sýning, sem Gretar Reynisson hefur nú sett upp í Nýlistasafninu sem rökrétt framhald sýninganna 1997, 1998, 1999 og 2000,  rímar með óvæntum hætti við hina áleitnu ráðgátu Nietzsche um stöðuga endurkomu hins sama í þeim tíma sem hættir að vera línuleg saga, er stefnir að tilteknu marki samkvæmt hinni gyðinglegu kristnu hefð, en verður þess í stað að hringrás, því „Allt sem liggur beint fyrir lýgur… Allur sannleikur er boginn og tíminn sjálfur er hringur[3].

Sýning Gretars spannar fyrsta áratug 21. aldarinnar og sýnir okkur „endurkomu hins sama“ í margvíslegum myndum er mynda eina heild, eitt listaverk um tímann og veruna í sínu áþreifanlega formi og án nokkurrar hlutdeildar í útópíu handanverunnar, hvort sem hún heitir hin himneska Paradís eða hið jarðneska allsnægtaborð neyslusamfélagsins. Við sjáum hér viðarplattana með grafítskriftinni endurborna frá fyrri sýningum, en nú í nýrri endurtekningu, en líka fjölmörg sambærileg þemu eins og skyrturnar, koddana, glösin, motturnar, flögurnar, geymt og gleymt-boxin, förin (pappírsverk),  ljósmyndirnar, og videóskotin, allt vitnisburði um tímann og veruna í sinni nöktu efnislegu mynd. Hvernig getur Nietzsche hjálpað okkur að skilja þessi verk?

Sú dæmisaga, sem verður lykillinn að leyndardómi Zaraþústra, er falin í kaflanum Um sýn og ráðgátu í upphafi þriðja hluta hinnar margræðu og margbrotnu frásagnar Nietzsche. Þar er spámaðurinn á ferð með dverginn á öxlinni, og þeir koma að hliðinu sem hefur tvö andlit. Í hliðinu mætast tveir vegir, leiðin til baka sem „varir um eilífð“ og leiðin framundan sem er „önnur eilífð“. „Þessar leiðir eru í mótsögn hvor við aðra; hausar þeirra rekast saman: „-og það er hér í þessu hliði sem þær mætast. Nafn hliðsins stendur skrifað fyrir ofan: „Augnablik“.“[4]  Og Zaraþústra segir við dverginn:

Frá hliðinu Augnabliki liggur löng eilífðargata til baka: að baki okkar liggur eilífð. Hlýtur ekki allt sem hlaupið getur einhvern tímann að hafa hlaupið eftir þessari götu? Hlýtur ekki allt sem getur gerst, einhvern tíman að hafa gerst, hafa verið gert, og hlýtur það nú ekki að vera þotið framhjá? Og ef allt hefur áður verið til: hvað heldurðu þá, dvergur, um þetta augnablik? Hlýtur ekki einnig þetta hlið að hafa verið til áður?… hljótum við ekki eilíflega að koma aftur?“

Þar sem Zaraþústra á í þungum þönkum um þetta hlið Augnabliksins heyrir hann skyndilega smalahund ýlfra í tunglsljósinu og kemur síðan auga á liggjandi smala „með afmyndað andlit sem engdist, tók andköf, hristist, og niður úr munni hans hékk þung svört slanga.“ Smalanum lá við kæfingu og Zaraþústra reyndi árangurslaust að toga snákinn úr kverkum hans en skipaði svo: „Bíttu, bíttu! Hausinn af!“. Og smalinn fór að óskum hans, spýtti slönguhausnum langt út úr sér og spratt á fætur. „Ekki lengur smali, ekki lengur maður, – hann var umbreyttur, það geislaði af honum og hann hló!“ Aldrei hafði Zaraþústra heyrt slíkan hlátur: „Þrá mín eftir þessum hlátri tærir mig upp; ó, hvernig fæ ég þolað að halda áfram að lifa! Og hvernig fengi ég afborið að deyja núna![5]

Þetta eru draumkenndar myndir og ráðgátur, og Zaraþústra biður lesandann að ráða þær. Alla tíð síðan hafa lesendur Nietzsche glímt við þessa þraut, því sjálfur talar Nietzsche bara í líkingum.

Hin eilífa endurkoma hins sama var martraðarfull uppgötvun fyrir Zaraþústra, og hún gegnir lykilhlutverki í allri heimspeki Nietzsche, þar sem hún er órjúfanlega tengd hugmyndum hans um „tómhyggjuna“, „dauða Guðs“ og „viljann til valds“. Sá tími sem gengur í hring er án markmiðs og þar með án sögulegs tilgangs. Hann er í raun mynd þeirrar tómhyggju sem Nietzsche skilgreinir svona: „Það vantar markmið, það vantar svar við spurningunni hvers vegna?; hvað merkir tómhyggjan? – að hin æðstu gildi glati öllu gildi.[6] Hin eilífa endurkoma er endurkoma tómsins, og hún vekur Zaraþústru hrylling. Það sem sagan af smalanum segir, er hins vegar leiðin sem Zaraþústra finnur út úr martröðinni: að bíta höfuðið af snákinum sem er ímynd þess tíma sem etur sjálfan sig og hefur fest sig í koki smalans.  Þessi verknaður er í dæmisögunni verknaður hins frjálsa vilja sem horfist í augu við óvin sinn, hina eilífu endurkomu tómsins, og tekst á við hana með þeim umskiptum sem vekja yfirmannlegan hlátur. Yfirmenni Nietzsche hefur ekkert með yfirdrottnun að gera, eins og oft er haldið fram,  heldur var það maðurinn sem náði með viljaverknaði sínum að yfirstíga tilvistaraðstæður sínar í vítahring endurtekningarinnar og öðlast þá handanveru sem tilheyrði jörðinni og hinu mennska samfélagi en ekki himninum og drottinvaldi Guðdómsins.

Það sem Nietzsche boðar með þessari sögu er ekki brotthvarf tómhyggjunnar heldur tilfærsla hennar yfir á nýtt svið, þar sem hún öðlast jákvætt gildi. Þetta er kannski kjarni þversagnarinnar sem Nietzsche var alltaf að glíma við: saga mannsandans sem fyrst lifði í undirgefni kameldýrsins gagnvart drottni sínum, reis síðan upp í anda ljónsins í þeirri eyðimörk þar sem ekkert var að finna, en umbreyttist síðan í gleymsku og sakleysi barnsins sem endurheimti hlátur og léttleika smalans sem hafði bitið höfuðið af skömminni.

Með ótrúlegri staðfestu sem nálgast þráhyggju hefur Gretar Reynisson tekist á við þann tilvistarvanda sem við finnum krauma undir í öllum texta Nietzsche. Verk hans takast ekki bara á við tómið með óvægilegu raunsæi og hreinskiptni, þau ögra ekki bara tómhyggju svarta snáksins, þau ögra líka allri þeirri fagurfræði sem leitast við að breiða yfir og loka fyrir óþægilegar hugsanir um það, hvernig „hin æðstu gildi hafa glatað öllu gildi“ í samtímanum, svo notuð sé skilgreining Nietzsche á tómhyggjunni. Um leið og verk hans yfirstíga hefðbundna fagurfræði opna þau augu okkar fyrir tilvistarlegum þversögnum í samtímanum þar sem „hlið Augnabliksins“ mætir okkur nýtt á hverjum degi og hinn listræni gjörningur bítur höfuðið af snáknum í eilífri endurkomu hans.

 

[1] Friedrich Nietzsche: Svo mælti Zaraþústra – Bók fyrir alla og engann, Háskólaútgáfan 1996. Þýð.: Jón Árni Jónsson. Bls. 218-19

[2] Sama rit bls. 54

[3] Sama rit bls. 166

[4] Sama rit bls. 166

[5] Sama rit, bls. 168

[6] F. Niertzsche: Nachlassene Fragmente 1887-1888.

Gretar Reynisson 1461dagur

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: