MÁLVERKIÐ OG FLÖTUR ÞESS
Þegar ég fór að rifja upp gömul viðtöl við listamenn kom upp í hugan minnisstætt samtal sem ég átti við Karl Kvaran á hinu sérstaka heimili hans og vinnustað á efstu hæð Símahússins við Austurvöll í máímánuði 1988. Hann var að undirbúa sýningu í Gallrí Svart á hvítu á gömlum teikningum. Þetta var síðasta sýning Karls meðan hann lifði, því hann lést rúmu ári síðar. Viðtalið birtist í Þjóðviljanum 8. maí 1988.
Karl Kvaran á vinnustofu sinni í maí 1988. Ljósm. Þjóðviljinn / Sig.
ÉG FORÐAST ALLT SEM ER HÉRUMBIL…
Segir Karl Kvaran í samtali við Ólaf Gíslason sem birtist í Þjóðviljanum 1988
„Það sem við gerðum með abstraktmálverkinu var að láta myndina gerast á fletinum, en ekki úti í náttúrunni eins og tíðkaðist í íslenska landslagsmálverkinu. Menn höfðu alltaf tengt bláa litinn við himininn eða hafið, en við slitum hann úr tengslum við náttúruna og litum bara á hann sem andstæðu við til dæmis gult. Annars hef ég unnið svo lengi með liti að ég er hættur að botna nokkuð í þeim. Það er línan sem skiptir meginmáli í mínu málverki, en þó get ég ekki sagt þér út á hvað hún gengur. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að línan sé ekkert hikandi og að liturinn sé ekki hérumbil, heldur alveg blár. Allt sem er hérumbil hefur aldrei höfðað til mín, það er eins og sósíaldemókratarnir sem geta unnið með öllum…“
Þetta sagði Karl Kvaran listmálari þar sem ég hitti hann á vinnustofu hans og heimili á efstu hæð símahússins við Austurvöll. Þar hefur Karl unnið að myndlist sinni síðastliðin 30 ár og ekki fengist við annað en línur og liti. Og nærri hálfrar aldar reynsla hans af glímunni við myndflötinn hefur kennt honum þá sparsemi á stóru orðin sem við sjáum endurspeglast í verkum hans, þar sem allt stefnir til einfaldari og skýrari framsetningar og þar sem línurnar verða þeim mun hlaðnari merkingu sem þær eru færri og litirnir tala þeim mun sterkar til okkar sem andstæður þeirra eru hreinni og klárari. Og þegar ég spurði hann hvort hann fengi aldrei þá tilfinningu að þessi myndflötur með sínum línum og litaandstæðum væri þröngur starfsvettvangur, svaraði hann:
-Nei, síður en svo, í línunni rúmast svo margt og hún dugir mér prýðilega. Menn hafa bent mér á að það sé mikið af bognum línum í mínum myndum…ég held að það skipti ekki svo miklu máli á meðan ekki er eitthvað bogið við myndirnar…
Það er lítið um það sem telst til nútímaþæginda á vinnustofu og heimili Karls Kvaran. Myndir standa í stöflum meðfram veggjum, trönur eru á miðju gólfi með ófullgerðri mynd, litaslettur margra ára þekja gólfið og á vinnuborðinu eru haugar af litatúpum, skyssum og pappírum. Einn kollur og hægindastóll og skápur með plötusafni og nokkrum bókum um myndlist. En á bak við málaratrönurnar er heimilisdýrgripurinn, splunkunýr skápur með hljómflutningstækjum og hátölurum sem virðast geta nægt heilum hljómleikasal.
– Ég er með dellu fyrir hljómflutningstækjum, segir hann, -en hún er fyrst og fremst tæknileg, því ég hef ekkert vit á tónlist.
Við komum okkur fyrir í fremri stofunni þar sem er gamall legubekkur og hægindastóll og borð sem er hlaðið yfirfullum öskubökkum, pípum og píputóbaki. Á veggjunum hanga nokkur ófullgerð málverk og nokkrar fjölskylduljósmyndir eru á veggnum í einu horninu. Karl er orðinn einbúi í þessu húsi, konan dáin og börnin flogin úr hreiðrinu, og það er greinilegt að innan þessara veggja stefnir allt að einu marki, hinni hreinu og sönnu línu sem í spennu sinni og sveigju birtir af lítillæti sínu það sem kannski er endanlega hægt að segja í mynd: hið hreinræktaða form.
– Hvenær byrjaðir þú að fást við myndlist?
– Ætli ég hafi ekki verið fimmtán ára þegar ég fór í teikniskóla til þeirra Marteins Guðmundssonar og Björns Björnssonar. Eftir það fór ég líka til þeirra Jóhanns Briem og Finns Jónssonar, það var á árunum 1941-42. Það var Finnur sem sagði að línan í myndinni skipti öllu máli, að hún væri nógu kröftug. Jóhann sagði hins vegar að aðalatriðið væri að hafa enga línu, því línan væri ekki til. Þegar menn voru orðnir þreyttir á þessari þrætu hættu menn í þessum skóla. Svo fór ég í Handíða- og myndlistaskólann þar sem Þorvaldur Skúlason var aðalkennarinn, þá nýkominn frá námi. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir og var bæði greindur og áhrifamikill sem kennari. Hann og Jóhann Briem voru af gagnstæðum skóla og gjörólíkir, en báðir sannir í því sem þeir voru að gera og gegnum vandaðir málarar. Síðan lá leiðin til Kaupmannahafnar, þar sem ég var í þrjú ár á Listaakademíunni hjá Kirsten Iversen. Hann var góður maður en lélegur kennari og sagði aldrei neitt sem skipti mig máli. Aðrir kennarar þar voru Axel Jörgensen sem hafði tíma í listasögu og svo Lundström, sem var stórkostlegur málari en beitti sér lítið við kennsluna. Hann kom kannski inn í vinnustofuna og spurði: Skal jeg sige noget? Ef enginn svaraði var hann rokinn á dyr. Hann var líka oft við skál. Þessi fátæklega reynsla mín af Akademíunni gekk mest út á að teikna módel, og þar sem kennslan var ekki upp á marga fiska, þá fór ég á einkaskóla til Boyesen, þar sem við teiknuðum afsteypur af gömlum grísk-rómverskum styttum undir járnaga. Boyesen skammaði okkur gríðarlega og talaði gjarnan um heimska Íslendinga. Eitt sinn spurði hann mig hversu margar kindur væru á Íslandi. Ég svaraði: „tre“. Eftir það skildum við á jöfnu.
– Varðst þú fyrir áhrifum af abstrakt-málverki á þessum árum í Danmörku?
– Nei, abstraktlistin var varla orðin til þar þá, þeir voru ákaflega fáir sem lögðu stund á hana. Ég sá til dæmis engar myndir eftir Richard Mortensen á þessum tíma. Ég var alltaf að teikna og hafði ekki áhuga á öðru. Þeir málarar sem höfðu mest áhrif á mig í Danmörku á þessum tíma voru Lundström, Leergaard og Hoppe. Þegar ég kom heim 1948 málaði ég myndir af húsunum og sjónum, mínu nánasta umhverfi. Húsin voru brún og hafið blátt, ég átti heima þarna við sjóinn. Það var viss breyting frá rómantíska landslagsmálverkinu þar sem fjöllin og firnindin réðu ríkjum og smám saman fór maður að víkja frá þessum ytri mótífum. Danmerkurárin voru þýðingarmikil fyrir myndbygginguna og teikninguna, en maður gat ekki haldið áfram að teikna módel endalaust. Það er betra að gera eitthvað annað við konurnar en að teikna þær…
– Hvenær ferð þú að mála abstraktmyndir?
Það var um 1951. Valtýr Pétursson varð fyrstur okkar til að tileinka sér geómetríuna út í París. Hann kom með þessar hugmyndir hingað heim. Og svo auðvitað Þorvaldur, sem fór að gera geómetrískar myndir 1952, og var mjög fljótur að tileinka sér þessa myndhugsun og ná góðum árangri. Við hittumst á þessum tíma reglubundið, Jóhannes Jóhannesson, Kjartan Guðjónsson, Valtýr, Þorvaldur og ég, og það var mikill hugur í mönnum. Annars held ég að abstraktlistin hafi ekki hvað síst borist hingað til landsins með listatímaritinu Aujourd’hui. Þetta var eins og hálfgerð sprenging, og það var eitthvað í andrúmsloftinu og tíðarandanum sem kallaði á þetta hjá okkur. En það er hins vegar ekki hægt að segja að þetta hafi verið vinsælar myndir. Það var almennur dómur fólks að þetta væri hrein vitleysa, og það kom varla fyrir að við seldum mynd.
– Um hvað rædduð þið þegar þið hittust, félagamir hér heima? Myndlist?
– Nei, ekkert frekar. Við ræddum um allt mögulegt, en fyrst og fremst held ég að við höfum styrkt hver annan og fundist það skipta máli að hittast.
– Á þessum árum var nokkuð áberandi, sérstaklega meðal róttækra vinstri-manna, að menn hefðu trú á vísindum og vísindalegri skipulagningu þjóðfélagsins. Sumir litu nánast á sósíalismann sem hlutlæg vísindi. Er hægt að sjá hliðstæðu á milli þessarar trúar á vísindin og geómetrísku abstraktlistarinnar?
– Nei, ég held að þetta hafi ekki haft neitt með vísindatrú að gera. Enda vorum við oft fullir efasemda. Ég veit ekki til þess að geómetríska listin hafi haft neina hugmyndafræðilega skírskotun. Við vorum hins vegar að flytja viðfangsefni listarinnar frá náttúrunni yfir á myndflötinn og byggja myndirnar á hreinum eigindum forms og lita.
-Áttuð þið ekki samleið eða samstarf við skáld eða rithöfunda á þessum tíma?
– Nei, það get ég varla sagt. Við þekktum að vísu Stein, og hann var mjög fljótur að tileinka sér skilning á abstraktlistinni, en annars var ekki um beint samstarf að ræða.
– En hvernig skýrir þú það út eftir á, að þú varðst móttækilegur fyrir abstraktmálverkinu á þessum tíma og fórst að gera slíkar myndir sjálfur?
– Það var Cezanne sem lagði grundvöllinn að abstraktmálverkinu, og hann dó 1906, þannig að þetta átti sér langan aðdraganda. Og ég hafði séð verk hans og Matisse á Ríkislistasafninu í Höfn á námsárunum. Þetta fólst allt í því að láta myndina gerast í fletinum, andstætt því sem þeir Jón Stefánsson og Ásgrímur höfðu gert. Jón Stefánsson hafði reyndar verið nemandi Matisse, en hann botnaði ekki í honum. Því þótt Matisse notaði fyrirmyndir, þá gerðist galdurinn í myndum hans í sjálfum myndfletinum. Jón sagði einhvern tímann frá því að hann hefði gengið framhjá vinnustofu Matisse, og séð inn um gluggann að hann var að mála uppstillingu sem var í brúnu. Þegar hann og félagar hans áttu svo leið framhjá skömmu síðar, sáu þeir að myndin var orðin blá. þetta þótti þeim skrýtið. En Matisse byggði á litaandstæðum í verkum sínum og sérstökum eigindum litarins. Módelið var bara viðmiðun. Þótt Jón hafi aldrei getað tileinkað sér þennan skilning Matisse, þá breytir það því hins vegar ekki að hann var hörkumálari. En það var Gunnlaugur Blöndal sem fyrstur fór að mála í andstæðum litum hér á landi.
– Ég sé það á hljómlistargræjunum hjá þér að þú hlustar mikið á tónlist. Eru einhver tengsl á milli tónlistarinnar og þess hvernig þú málar?
-Nei, ég held að tónlistin hafi ekkert með það að gera… nema kannski strengjakvartettar Beethovens, þeir eru svo agaðir í forminu… það kunna að hafa komið fram einhver áhrif í teikningu eða formi hjá mér þar. Ég hef ákaflega gaman af tónlist, en ég hef hins vegar ekkert vit á henni. En mér finnst yfirleitt tónlistin batna eftir því sem flytjendum fækkar. Ég kann til dæmis ekki að hlusta á kóra, hvað þá blandaða kóra, biddu fyrir þér… Ég held hins vegar að við eigum góð tónskáld, til dæmis hann Leif (Þórarinsson) og Þorkel Sigurbjörnsson. Ég man reyndar eftir einu atviki sem kom fyrir mig eftir að ég hafði hlustað á tónverk eftir Þorkel sem heitir „Læti“. Þetta eru öguð og blæbrigðarík læti, og þegar ég kom af tónleikunum málaði ég mynd sem var bókstaflega þetta tónverk. En slíkt kemur ekki oft fyrir. En þegar þú segir það þá er ég ekki frá því að það séu kannski einhver tengsl þarna á milli.
– Það má kannski segja að geómetríska abstraktlistin hafi fyrst verið búin að fá almenna viðurkenningu þegar hún fór úr tísku og aðrir vindar urðu ríkjandi í myndlistarheiminum. Margir kollegar þínir sem unnu abstraktmyndir hafa snúið blaðinu við og mála jafnvel í anda þess sem þeir snerust gegn sem ungir menn. En hvernig stendur á því að þú ert ennþá á svipuðu róli?
– Jú, þetta má til sanns vegar færa, að minnsta kosti um þá félaga mína, Valtý og Kjartan, og ég held að það sé ekkert við því að segja. Við höfum allir elst og sennilega sljóvgast, og þá taka menn upp á öllu mögulegu og ómögulegu. En sumir hafa líka haldið sínu striki. Til dæmis Jóhannes Jóhannesson, sem er gott dæmi um góðan málara sem er alltaf að bæta við sig. Annars finnst mér það vera einkenni á skandinavískri myndlist, og þar með talinni íslenskri myndlist, að hún er eitthvað hérumbil en ekki eitthvað ákveðið. Allt sem er hérumbil hefur ekki höfðað til mín. Það er kannski þess vegna sem ég er enn að fást við það sama.
– Þegar þú lítur yfir farinn veg finnst þér þá að áhrif ykkar abstraktmálaranna á myndskyn okkar og daglegt myndmál hafi verið meiri eða minni en þið væntuð ykkur í hita slagsins í byrjun 6. áratugarins?
– Ég held satt að segja að þessar myndir mínar hafi varla haft áhrif á aðra formsköpun. Þó er hugsanlegt að þetta hafi einhverju breytt. En það er alltaf stór hópur fólks sem vill hafa sinn læk eða sína hríslu í myndinni, og það er reyndar allt í Iagi, ef það er vel gert. Það hefur alltaf verið meiri sala í landslagsmyndum hér á landi en abstraktmyndum, en það segir reyndar ekkert um gæði verkanna. Hér áður fyrr voru yfirleitt allir sammála um að þetta væri ómögulegir hlutir, breytingin felst kannski í því að nú verður þessi list frekar tilefni rifrildis. Þegar best tekst til, hafa menn einhverja ánægju af þessu, og meðan maður hefur sjálfur ánægju af því að mála skiptir öllu máli að halda áfram.
– Þegar ég kvaddi Karl Kvaran eftir langt spjall og mikla kaffidrykkju var sendiferðabílstjórinn kominn að sækja teikningarnar á sýninguna í Gallerí Svart á hvítu. Þetta eru einfaldar línuteikningar, dregnar með blýanti og lýsa öruggri hendi og rannsakandi og öguðum vinnubrögðum Karls mætavel. Myndirnar gerði hann fyrir 10-15 árum, en hefur ekki sýnt þær áður. Sýningin stendur frá 7.-22. maí og verður opin frá kl. 14-18. -ólg
Nýlega var ég minntur á eftirfarandi viðtal, sem nú er orðið 32 ára gamalt. Þetta samtal átti ég við Guðmundu Andrésdóttur í tilefni 40 ára starfsafmælis hennar og yfirlitssýningar sem Gunnar Kvaran stóð fyrir á Kjarvalsstöðum af því tilefni. Allt í einu fannst mér þetta eftirminnilega samtal eiga erindi hér á síðunni og endurbirti það hér með.
Myndlistin er ólæknandi sjúkdómur
Ólafur Gíslason ræðir við Guðmundu Andrésdóttur
um 40 ára starfsferil hennar sem listmálara
Viðtal skrifað fyrir sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur í tilefni yfirlitssýningar á Kjarvalsstöðum 1990
Hvernig það atvikaðist að ég fór að fást við myndlist?
Það er einn maður sem ber ábyrgð á því. Ég hafði gengið í Verslunarskólann og útskrifaðist þaðan 1941 eða 2. Þar var engin myndlistarkennsla. Ég fór að vinna á skrifstofu hjá Laugavegsapóteki eftir að ég útskrifaðist, en sótti gjarnan myndlistarsýningar af meðfæddum áhuga. Svo var það að ég sá fyrstu sýningu Svavars Guðnasonar eftir að hann kom frá Kaupmannahöfn. Það var veturinn 1945-1946. Þessi sýning var fyrir mér opinberun. Þetta var fyrsta abstrakt-listasýningin sem sett var upp hér á landi, og bæði litirnir og þessi mikli kraftur sem ég fann í myndunum hans urðu til þess að ég ákvað að verða málari. Ég hef ekki orðið meira uppnumin af nokkurri myndlistarsýningu fyrr né síðar…
Guðmunda Andrésdóttir: Málverk án titils, 1972.
Það er Guðmunda Andrésdóttir sem hér segir okkur tildrögin að því að hún lagði út í myndlistarnám í Stokkhólmi haustið 1947. Það var ekki sjálfgefinn hlutur hjá ungri stúlku á þeim árum.
Var þessi sýning Svavars ekki litin hornauga af almenningi á Íslandi á þessum tíma?
Jú, hún hlaut almennt dræmar undirtektir. En þetta var engu að síður eins og sprengja inn í okkar þrönga heim.
Og hvar hófst þú svo nám í myndlist?
Ég fór til Svíþjóðar og innritaðist í Konstfack í Stokkhólmi haustið 1947. Ég var þar í tvo vetur og tók bæði kennaradeildina og málaradeildina. Samhliða stundaði ég einnig nám í málaraskóla Otte Skjöld (f. 1884).
Þetta hefur verið stór ákvörðun á sínum tíma. Hvernig leit fjölskylda þín á þetta?
Já, þetta hefur verið einhver sjúkdómur í mér, og ég held að fjölskyldan hafi skilið það þannig.
Hvernig var kennslunni háttað?
Þetta var fyrst og fremst fólgið í því að teikna og mála naktar fyrirsætur. Þetta var algjörlega hefðbundið nám. Ég á engar myndir frá þessum tíma, málaði yfir það sem ég gerði eða reif það. Að vísu var haldin sýning í skólalok, og sænskur læknir keypti þrjár módelteikningar eftir mig á sýningunni. Kannski eru þær varðveittar einhvers staðar í Svíþjóð ennþá.
Hvað var það sem helst vakti áhuga þinn í myndlistinni í Stokkhólmi á þessum tíma?
Það var margt að sjá í nýju umhverfi, en ég man ekki eftir neinu sem stendur upp úr. Abstraktlistin var ekki komin til Svíþjóðar að ráði á þessum tíma, en sá málari sem mest bar á í sænskri myndlist á þessum tíma var Karl Isaksson (1878-1922), sem byggði í list sinni einkum á fordæmi Cezanne. Fyrir mér var námið í Stokkhólmi fyrst og fremst akademísk vinna. Ég var ekki farin að mótast sjálfstætt sem málari á þessum tíma.
Voru einhverjir Íslendingar við nám í myndlist í Stokkhólmi á þessum tíma?
Nei, en það var fjöldinn allur af Íslendingum í öðru námi, og ég umgekkst þá mikið.
Síðan kemur þú heim eftir tveggja ára nám. Hvað tekur við þá?
Ég málaði og kenndi jafnframt myndlist í gagnfræðaskóla hér í bænum. Mínar hugmyndir um myndlist fóru hins vegar ekki að mótast fyrr en ég kom til Frakklands 1951. Þá hafði ég verið heima í tvö ár. Ég bjó mig undir Frakklandsferðinna með því að lesa mig svolítið til í frönsku veturinn áður, og var svo í París í tvo vetur.
Það hafa verið mikil viðbrigði að koma til Parísar…
Já, þetta var bæði erfitt og heillandi, svona álíka og að taka lyf við sjúkdómi. Ég fékk styrk til fararinnar frá íslenska ríkinu, og byrjaði fyrst í Académie de la Grande-Chaumière. Mér líkaði það hins vegar ekki, þar var allt fullt af Ameríkönum sem voru með hugann við flest annað en myndlistina. Ég flutti mig því yfir á Académie Ranson og hafði þar fyrir kennara Gustav A Signier (f. 1909). Hann var belgískur að uppruna, þekktur málari í París og sýndi mikið í Galerie France. Myndirnar hans voru óhlutbundnar, lýrískar en ekki mjög fastar í forminu. Ég fékk líka lítilsháttar franskan styrk frá skólanum, sem var mér að minnsta kosti siðferðilegur stuðningur.
Þetta var líka á þeim tímna þegar Evrópa var að ná sér á strik eftir heimsstyrjöldina, og París var orðin hin óumdeilanlega menningarmiðstöð heimsins. Var ekki mikið um að vera og margt að sjá í heimsborginni á þessum árum?
Jú, það má nú segja. Maður var alltaf að skoða söfn og sýningar. Þeir málarar sem bar hvað hæst í París á þessum tíma og verkuðu sterkast á mig voru Auguste Herbin (1882-1960) og Victor Vasarely (f. 1908). Þeir voru báðir frumkvöðlar geometrískrar abstraktlistar, hver á sinn hátt, og ég byrjaði einnig á því í París að mála geometrískar abstraktmyndir.
Hvernig var kennslunni háttað hjá Gustave Signier í Académie Ranson?
Hann var lítið formfastur í kennslunni, en hvatti okkur til að mála það sem okkur datt í hug. Það var engin módelteikning eða módelmálun, og flestir máluðu abstrakt. Hann hvatti mig áfram í geometríska abstraktmálverkinu þótt hann málaði ekki þannig sjálfur.
Hvað var það sem gerði að verkum að geometríska abstraktlistin kemur svo sterkt fram á þessum tíma?
Þetta voru uppgjörstímar eftir síðari heimsstyrjöldina og allar þær hörmungar sem gengið höfðu yfir Evrópu. Við vildum skapa nýjan heim, hreinan og kláran, sem jafnframt fól í sér eins konar uppgjör við fortíðina. Myndlistin átti að vera hrein og klár og laus við öll aukaatriði. Bauhaushreyfingin tengdist þessu líka, hugmynd Bauhaus-mannanna um að tengja myndlistina í ríkari mæli við byggingarlist, hönnun og umhverfismótun. Því var það að þótt abstraktmálverkið hafi ekki falið í sér neinn boðskap eða dulda merkingu, þá var þetta fyrir okkur þjóðfélagslegt fyrirbrigði sem tengdist því sem var að gerast i samtímanum með ótvíræðum hætti.
Tengdist það rof við fortíðina sem sjá má í abstraktlistinni á einhvern hátt höfnun á hinni klassísku list?
Nei, síður en svo. Ég skoðaði mikið gamla, klassíska myndlist á þessum árum, og hér heima hafði ég miklar mætur á Jóni Stefánssyni til dæmis, þótt hann málaði ekki abstrakt.
Fórst þú víðar um Evrópu á Frakklandsárum þínum?
Já, ég fór meðal annars til Ítalíu og var þar í mánuð. Ég fór víða á þessum stutta tíma og heimsótti Flórens, Siena, Genova, Arezzo, Assisi, Ravenna og Róm. Það var svo margt að skoða í þessari ferð að það er ekkert eitt sem stendur upp úr í minningunni, nema hvað ég man ennþá hvað Uffizi-safnið verkaði sterkt á mig. Og það kom mér á óvart hve mikill fjöldi fólks var þar inni.
Það voru fleiri Íslendingar við listnám í París á þessum árum…
Þá, það voru bæði Hörður Ágústsson og Valtýr Pétursson og Valgerður Hafstað og Gerður Helgadóttir. Valgerður stundaði nám á Academie de la Grande Chaumière, en mig minnir að Hörður og Valtýr hafi starfað sjálfstætt. Svo var Thor Vilhjálmsson þarna líka. Það voru mikil samskipti á milli Íslendinganna í París á þessum árum, eiginlega allt of mikil.
Þú kemur svo heim eftir tveggja ára dvöl í París. Hvað tók þá við?
Ég kom heim 1952, og tók þátt í síðustu Septembersýningunni, sem var haldin þá um haustið. Ég hélt svo áfram að sýna með FÍM á samsýningum og hélt mína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal 1956.
Almenningsálitið var ykkur ekki sérlega hagstætt á þessum tíma…
Nei, ekki aldeilis. Hér heima fannst mönnum að ekki væri um myndlist að ræða ef ekki væri í myndinni landslag. Það skapaðist því feykileg andúð á abstraktmálurum hér á landi, sem nálgaðist oft sjúklegt hatur.
Hver telur þú að hafi verið ástæða þess?
Ég veit það eiginlega ekki. Þetta hlýtur að hafa snert einhverjar djúpar tilfinningar hjá fólki. Þetta var eitthvað nýtt og áður óþekkt, og það var talið til skammar. Það kom til dæmis glögglega í ljós þegar Norræna listabandalaginu var boðið að halda yfirlitssýningu á norrænni list í Róm í upphafi sjötta áratugarins. Þetta var stór sýning, og félagið okkar, FÍM, valdi íslensku þátttakendurna. Meðal þeirra voru Hörður, Þorvaldur, Svavar, Ásgrímur, Kjarval, ég og fleiri. Það linnti ekki blaðaskrifum gegn þessum ósóma og þeirri skömm, sem þjóðinni væri gerð með þessari sýningu. Þetta var talið vera óþjóðlegur kommúnismi og ég man ekki hvað. Það var lyginni líkast, hvað þessi sýning kom miklu róti á hugi fólks, og það var ótrúlegasta fólk sem gaf sig út í þessa herferð gegn okkur, sérstaklega á síðum Morgunblaðsins. Að sama skapi voru þeir fáir sem tóku okkar málstað.
Þú hefur ekki látið almenningsálitið buga þig, því þú hefur verið að mála abstraktmyndir alla tíð síðan, eða í yfir 40 ár. Eru það alltaf sömu vandamálin sem þú ert að glíma við í málverkinu?
Það eru kannski ekki alveg sömu vandamálin, en þó hef ég í rauninni alltaf verið að glíma við hreyfinguna og formið. Margir hafa haldið því fram, að ég hafi alltaf verið að mála sömu myndina í gegnum þessi fjörutíu ár, en það á eftir að koma í ljós á þessari sýningu á Kjarvalsstöðum, að svo hefur ekki verið. Mínar myndir sýna ákveðið rannsóknarferli, þær eru í rauninni rannsókn á formi, hreyfingu og litum.
Þið sem komuð frá París og Kaupmannahöfn eftir stríðið og innleidduð módernismann og abstraktmálverkið hér á landi, þið hélduð vel hópinn eftir að þið komuð heim, ekki satt?
Jú, abstraktlistin varð að hálfgerðum trúarbrögðum í okkar hópi, þetta var svo sterkt og afgerandi. Baráttan gegn okkur þjappaði okkur líka saman. Við hittumst nokkuð reglulega og sýndum nokkru sinnum erlendis, en við höfðum engin formleg tengsl við útlönd sem hópur. Það kom líka lítið sem ekkert af erlendri abstraktlist hingað til lands á þessum árum. Ég minnist bara einnar sýningar sem var haldin í Bogasalnum á vegum British Council með breskri nútímalist. Það var ákaflega sterk sýning. Við fórum hins vegar stundum til útlanda til þess að sjá hvað þar var að gerast. Mér er minnisstætt þegar við fórum fjögur-fimm saman til London til þess að skoða yfirlitssýningu á abstraktlist í Tate-safninu. Gunnlaugur Scheving var með í þeirri ferð og hreifst mikið. Það var ekki eldri kynslóð málara sem snerist gegn abstraktmálverkinu, heldur allt annað fólk.
Hefur þú unnið eingöngu við myndlist allan þennan tíma?
Nei, ég hef ekki lifað af myndlistinni. Fyrstu árin kenndi ég, en hætti því fljótlega og fór að vinna hjá Orkustofnun, þar sem ég vinn enn hálfan daginn. Það hef ég gert allan minn starfsferil.
Nú hefur þú glímt við abstraktmálverkið í yfir 40 ár. Hefur það aldrei hvarflað að þér að hætta þessu í eitt skiptið fyrir öll? Að nóg væri komið. Eða finnur þú enn fyrir sömu knýjandi þörfinni og þú fannst þegar þú sást sýninguna hans Svavars fyrir 45 árum?
Ég neita því ekki að ég hef verið þunglynd og fundist allt vonlaust og ómögulegt. Þá hefur hvarflað að mér að hætta þessu. En þau tímabil hafa varað skammt. Þetta er eins og ólæknandi sjúkdómur, og ég finn ennþá sömu óþreyjuna til þess að mála, og þá… -en hún kemur þó með hléum, sem geta varað misjafnlega lengi.
Hvernig dæmir þú sjálf þínar myndir, hvaða mælikvarða hefur þú á hvort þér hafi tekist það sem þú ætlaðir þér?
Það er einfalt mál…mér hefur aldrei tekist að gera það sem ég ætlaði mér í málverkinu. Ég hef hins vegar komist misjafnlega nálægt því. Mælikvarðinn er ekki annar en sá, að ein mynd höfðar frekar til mín en önnur. En það er alveg á hreinu, að ég er aldrei ánægð með það sem ég er að gera.
Er ekki slítandi að vinna við þessar aðstæður?
Jú, starfið er mér eiginlega mikið kvalræði. Það má segja að þetta nálgist það að verða sálarháski. Fólkið sér hins vegar ekki þennan sálarháska út úr myndunum mínum. Því finnst jafnvel að þetta séu hlutir sem hver og einn geti gert.
Það er líklega ekki á hvers manns færi að skapa persónulegt myndmál?
Nei, ég hugsa ekki. Ef maður málar eftir sinni bestu samvisku, þá hlýtur það að koma í gegn í myndinni.
Málverkið er þá samviskuspurning fyrir þér?
Já, það getur verið samviskuspurning fyrir málarann. Ég held að það megi segja um listamenn, að þeir séu með nokkrum hætti samviska síns tíma.
Forsíðumyndin er nafnlaust málverk Guðmundu frá 1980
Ljósmyndin af Guðmundu er tekin af Kristjáni Pétri Guðnasyni.
Kaflinn um „Heimspekina og merkingarfræðina“ í heildarútgáfu verka Carlo Sini: Opere, Volume I, Tomo I.
Fyrra bindið (af tveim) í fyrstu bók þessarar heildarútgáfu hefur titilinn „Lo spazio del segno – Semiotica ed ermeneutica“ (Rými merkisins – Merkingarfræði og túlkunarfræði)
Fyrsta bindið í ritsafni Carlo Sini, sem kom út hjá Jaca Book 2017 (470 bls.) í ritstjórn Florindu Cambria, fjallar að stórum hluta um uppgjör Sini við Nietzsche og Heidegger og frumspekina í heild sinni og framlag hans til merkingarfræðinnar, þar sem Sini leiðir hugmyndir bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce um "merkin" inn í þá heimspekilegu deilu sem hefur einkennt samtímann og verið lýst sem gjá eða klofningi milli heimspekiskóla sem kenndir hafa verið við „meginlands-heimspeki“ annars vegar og heimspekiskóla hins engilsaxneska pragmatisma hins vegar. Í þessari deilu gegnir tungumálið mikilvægu hlutverki og hið frumlega í nálgun Sini felst ekki síst í því að tengja merkingarfræði Peirce inn i þessa deilu og hugmyndir hans um virkini „merkisins“, sem er í raun samheiti yfir orðin, myndirnar og táknin sem við notum til að nálgast hlutina og okkur sjálf. Í þessu samhengi eru „hlutirnir“ (þar með taldir mennirnir) kynntir til sögunnar sem „merki“. Greining Carlo Sini á virkni merkisins er hér sett fram í samtalsformi á snilldarlegan hátt og skýrir fyrir okkur á tiltölulega auðskildu talmáli þær heimspekilegu ráðgátur sem felast í venslum mannsins, merkisins og hlutarins, ráðgátur sem hafa verið til umræðu hér á vefnum í textum Kants, Nietzsche, Heideggers, Lacans og Agambens. Þessi kafli er framhald undangenginnar umræðu Sini um heimspekina og merkingarfræðina, um formgerðarstefnu Claude-Levi Strauss og Saussure, um fyrirbærafræði og and-húmanisma Heideggers og Strauss, húmanisma og tilvistarstefnu Sartre og fornleifafræði hugmyndanna hjá Foucault. Þessi kafli veitir okkur í stuttu máli nýja og skýra innsýn í þá umræðu sem ég hef dregið fram hér á vefnum í endursögn á textabrotum þessara höfunda. Auk þess má lesa þennan kafla sem stutta kynningu á frumlegasta framlagi Sini í þessari umræðu, en það er tenging fyrirbærafræðinnar, túlkunarheimspekinnar og hins bandaríska pragmatisma í nokkuð heilsteypta heimspekilega hugsun. Vonandi tekst mér að skrifa samantekt með samanburði á hugmyndum þessara höfunda á næstunni og birta hér á vefnum.
Merkið og fjarlægðin
Þegar talað er um endalausa merkingarfræði (semiosi infinita) rekumst við oft á -með hrapallegum afleiðingum – þá almennu og venjubundnu hefð að líta á merkið sem „natúralískt“ fyrirbæri: merkið er þannig skilið sem hver annar hlutur meðal hluta: við höfum tréin, fljótin, hallirnar, bílana, hundana, börnin og svo merkin (í almennum skilningi: til dæmis merki hins talaða og ritaða tungumáls, umferðarskiltin, stafróf heyrnarlausra-mállausra, hljómkall trompetsins, allt svið táknanna, „heilkennanna“ o.s.frv.) Þessi almenni skilningur byrjar hins vegar að missa fótfestu sína þegar við áttum okkur á að merki er aldrei hin beina merking tiltekins hlutar (kannski væri réttara að segja meints hlutar) heldur vísun í annað merki.
— „Meintan“ hlut? Ert þú kannski að halda því fram að hlutir eða viðföng séu ekki til? Hvaða merkingarfræðilega öfgahughyggja er hér á ferðinni?
— Í vissum skilningi vildi ég einmitt segja þetta.
— En hvaða tilgangi þjónar það að skilgreina sem merki allt það sem almennt og ekki af ástæðulausu hefur verið kallað hlutir (náttúrlegt fyrirbæri eins og tré, eða tilbúið fyrirbæri eins og til dæmis járnbrautalest)?
— Ég ætla að reyna að svara. Þó ég viti að það er ekki auðvelt. Við getum byrjað með því að segja að þó járnbrautalestin sé vissulega „hlutur“ (oggetto), en eins og Peirce segir, þá er hún það fyrir tiltekinn „Túlkanda“. Við höfum ekki bara lest, og svo búið mál. Það er lest fyrir einhvern /einhverjum.
— Æ, já, það er gamla kenningin hans Berkeley: esse est percipi (vera er skynjuð). En allir vita að…
— Ég bið þig að grípa ekki of snemma fram í fyrir mér: við þurfum að sýna smá þolinmæði. En, sem sagt, ég sagði að það sé lest fyrir einhvern. En þegar ég segi „einhvern“, þá á ég ekki við „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Túlkandinn er í raun og veru ekki „sjálfsvera“ („soggetto“) í hefðbundnum skilningi þess orðs. Túlkandinn tilnefnir menningarlega heild „merkinga“ sem eru í sjónmáli mögulegs þekkingarsviðs á skilgreindum hlutum.
— Hér má auðveldlega greina óskiljanlegan tjáningarmáta hughyggjumeistarans og orðfæri hans: það er kvalræði að reyna að fylgja honum eftir og skilja!
— Gott og vel: segjum sem svo að skýin séu hlutirnir, og andrúmsloftið sé það sem við kölluðum áður „menningarlega heild merkinga“. Nú eru skýin í andrúmsloftinu (atmosfera), við getum skynjað þau sem slík, en einungis í andrúmsloftinu. Ef ekkert er andrúmsloftið, þá eru engin ský, en þau eru formgerðir (formazioni) þess. Þannig sjáum við að til þess að geta aðgreint hlutina sem slíka, þurfum við skilgreinda menningu sem hægt er að dvelja í og birtast í (byggingu umræðuhæfra formgerða og sérstakra tilnefninga, myndi Foucault hafa sagt). Ef við notum dæmið af „lestinni“ sem áður var nefnd: ef túlkandinn er „Babilóníubúar“ eða „pygmýa-frumbyggjar“ (menning Babilóníumanna eða Pygmýa-frumbyggja), þá er ekki um neinn „hlut“ að ræða sem heitir „lest“. Hjá þeim er eitthvert hliðstætt fyrirbæri ekki til staðar, hvorki í reynd (Babilóníumenn höfðu engar lestir), né sem aðgengi (pygmýa-frumbyggi sem kemur til Evrópu getur ekki séð „lest“ þegar við sýnum honum hana, jafnvel þótt auðvitað sjái hann „eitthvað“. Endanlega vildi ég skilgreina þetta „eitthvað“ sem „atburð“, en að svo komnu máli er víst best að sleppa þessu atriði og gera okkur að góðu fyrri nálganirnar með dæmum okkar). Ertu sammála?
— Sammála. Ég vildi bara benda á hvernig frumspekilegur hughyggjumaður, síðasti nemandi Sókratesar, myndi líta á dæmið um skýin sem huggulegan lapsus animae, en ég er ekki að gera mál úr því.
— Gott og vel, þá getum við haldið áfram. Reynum að taka saman það sem þegar hefur komið fram (mjög yfirborðslegt, og þess vegna óljóst): Rétt eins og hver annar hlutur, þá ætti „viðfangið“ lest að geta staðsett sig í samhengi hugtaka (menningarlegra merkinga) sem túlka hlutinn (túlka hann einmitt sem „lest“). Það er þetta samhengi sem við túlkum hér sem Túlkanda (Interpretante), og það er mikilvægt að hafa í huga.
— Ég hef aldrei heyrt „samhengi“ segja: „Lestin mín er að koma“…
— Einmitt, hárrétt athugað. Þetta er athugasemd sem Heidegger hefði talið “hárrétta“.
— Því trúi ég! Að minnsta kosti er ég sama sinnis: það eru takmörk fyrir sérviskuuppátækjum frumspekinganna! Einnig þeir taka lestina þegar þeir fara á ráðstefnur (undir titlinum: „Við erum alltaf alls staðar og hvergi“). Svo taka þeir lestina heim.
— Ég veit ekki hvort hægt sé að segja um Heidegger að hann sé frumspekingur, og þegar hann talar um nákvæmni (esattezza), þá á hann vissulega við það sem við erum vön að meina með þessu orði, en um leið á hann við annað og flóknara mál…
— Þó það nú væri! Var nokkur von á öðru?
–…reyndar er það ekki samhengið (contesto) sem segir: „Lestin mín er að koma“, það erum við sem segjum það, „ég“, „þú“, „við“ o.s.frv. Getum við sæst á þetta og haldið áfram?
–Að sjálfsögðu.
–Jæja, „ég“, „þú“ o.s.frv. könnumst við lestina, en það gerist í krafti þess að við tilheyrum tilteknu menningarlegu samhengi (contesto), það er að segja almennum túlkanda. Ef við viljum, þá getum við vel sagt að „ég“, „þú“ o.s.frv. séum „holdgerðir“ túlkendur. Við gerum athafnir okkar virkar með gjörðum okkar og forþekkingu, í gegnum merkin og merkingarnar, sem mynda saman okkar menningarlega samhengi og okkar almenna túlkanda. En með öllu þessu höfum við alls ekki sagt né sýnt fram á, að „lestin“ sé merki, og í hvaða skilningi það geti verið.
— Ég var einmitt að hugsa um það.
— Gott og vel, til þess að geta sýnt hvernig lestin er merki (ekki orðið „lest“, eða skiltið „gætið ykkar á lestinni“, heldur hin raunverulega lest úr stáli og skrúfum) þurfum við að spyrja okkur þessarar spurningar: hvernig sýnir lestin sig gagnvart okkur? (un „treno, come si da?). Það á við um lestina eins og alla aðra hluti, að hún sýnir sig ekki í algjörri birtingu, með fullu innsæi. Ég hef aldrei fyrir mér „alla þessa lest“ né heldur „lestina“ eins og um væri að ræða kjarna hennar eða hina platónsku hugmynd hennar. Með öðrum orðum, þá er alltaf til staðar viss „fjarlægð“ á milli þess sem birtist og þess Túlkanda af holdi og blóði, sem gæti til dæmis verið ég. Við skulum jafnframt hafa í huga að sérhver fjarlægð hefur sinn hátt á að vera fjarlæg. Við gætum orðað þetta þannig að hin upphaflega eða frumlæga reynsla er reynsla fjarlægðarinnar. Hún gefur í sérhverju tilfelli til kynna „uppfyllingu“ sína (eins og Husserl hefði sagt), það er að segja, hvernig við eigum að umgangast hana til þess að eyða henni.
— Hin frumlæga reynsla er reynslan af fjarlægðinni. Hvernig gerist hún? Mér virðist þetta vera óljósasta fullyrðingin fram að þessu.
— þarf að skýra þetta betur. Það gerðist einnig með góðvin minn frá París, eftir að hafa hlustað með eftirtekt og þolinmæði á mínar tyrfnu útskýringar eins og hann var vanur, þá sagði hann að þessi skilningur á fjarlægðinni væri að þvælast fyrir honum og gerði honum torskilið þetta eðli merkisins, sem ég var að reyna að skýra. Ég ætla því að reyna að byrja upp á nýtt, og nálgast efnið frá öðru sjónarhorni. Sem sagt:
Annað hvort er ekkert eða eitthvað. Ef eitthvað er, þá er fjarlægð. Þetta er tilgátan. Reynum að skýra hana.
Við skulum byrja á að segja að eitthvað geti verið með margvíslegum hætti. Ég á við: við erum ekki bara að hugsa um skynreynsluna, eða dómgreindina (hvort sem um er að ræða greiningu í hugtakakvíar eða forsögulega greiningu (categoriale o precategoriale)). Eitthvað getur verið, til dæmis eins og kraftaskaut tiltekins átakavettvangs, eða þá gjörningur eða hegðun. Það getur verið póll einhverrar hneigðar eða löngunar, til dæmis að gleypa eða æla eða eitthvað því um líkt. Nú felur sérhvert „eitthvað“ í sér fjarlægðarmið (distanza vettoriale) sem við getum orðað með þessu móti: það gefur til kynna ákveðna stefnu eða markmið (að gera, að skynja, að taka inn, að langa í o.s.frv.). Eitthvað er með margvíslegum hætti að því marki sem það ber með sér þessa boðhætti (það er að segja hætti boðberans, (la sua vettorialità)).
Við höfum nú sagt að þetta „það er“ feli í sér fjarlægð, og þetta er grundvallaratriði, sem ekki er enn á hreinu. Höldum því áfram.
Ef eitthvað er, þá gefur Viðfangið sig fram (við skrifum hér Viðfangið (l‘oggetto) með stóru V til að gefa til kynna almennt eðli þess. Af sömu ástæðu skrifum við Túlkandann með stóru T). Viðfangið gefur sig fram; þetta þýðir að það er til staðar eða öðlast nálægð (presenza). Nú getur nándin annað hvort verið takmörkuð eða algjör. Með algjörri nánd (presenza. Ath. Þetta orð er á latínu prae-sensum sem merkið það sem er skynjað „á undan“, þ.e.: „forskynjun“) er Viðfangið sjálf nándin: það er allt í nálægð sinni, það er sjálf návistin (presenza). En þetta er einungis önnur aðferð við að segja að í algjörri nánd sé Viðfangið ekki. Það er ekki gerlegt að nálgast það, að hafa það í sjónmáli. Það er allt þarna (eða hérna, ef menn vilja það heldur) og það er eiginlega allt þetta þarna (eða hérna). Ekki er um neina fjarlægð að ræða á milli Viðfangsins og nándar þess. Hin algjöra návist er það sem ekkert verður sagt um eða reynt. Hún er hið beina og milliliðalausa (immediato) hjá Hegel og Peirce. Við getum tekið dæmi (sem ófullkomna tilgátu eins og öll önnur dæmi): reynsluna af algjörri návist sjáum við í reynslu barnsins í móðurkviði. Barnið hefur ekki móðir sína sem viðfang, það er með móðurinni, samtengt í algjörri návist viðfangs síns. Móðirin verður þá fyrst viðfang þegar nálægð hennar er orðin takmörkuð, það er að segja þegar viðfangið er ekki lengur algjörlega eitt með návistinni, heldur einmitt komið í fjarlægð hennar. Við höfum þannig staðsett okkur á sviði hinnar takmörkuðu nálægðar. Samkvæmt þessu er hér um að ræða eina tilfellið þar sem Viðfangið getur verið í návistinni (presenza) (að því gefnu að í algjörri návist sé Viðfangið ekki til staðar og geti alls ekki verið það). Könnum þetta nánar.
Takmörkuð nálægð: eitthvað boðar sig í nálægð án þess að vera nándin (eða vera í henni). Hvers vegna segjum við „boðar sig“? Það er vegna þess að eina leiðin fyrir Viðfangið til að dvelja í nálægð án þess að vera nándin, það er að segja eina mögulega reynslan af takmarkaðri nærveru, felst í reynslunni af merkinu. Merki er boðberi (anghelos).
— Loksins komum við á sprengjusvæðið! Ég verð hins vegar að gera þá athugasemd, að ef allt er merki og merkin eru „englar“, þá opnast fyrir okkur heimsmynd sem er „englum lík“ (angelicata), nokkuð sem „stilnovistarnir“ gætu horft til með öfundaraugum („stilnovistar“ eru miðaldaskáld mansöngva af skóla Dante). Við höfum sem sagt flutt okkur um set frá því að lifa í skýjunum upp í að lifa meðal englanna.
— Að því marki sem hlutirnir eru „boðanir“ get ég ekki annað en samsinnt. En við skulum reyna að kanna dýpra. Við skulum spyrja okkur hvaða tengsl séu á milli hins algjöra Viðfangs og hins takmarkaða. Við gætum svarað (svolítið goðsögulega) að hið algjöra Viðfang (það sem ekki á sér stað í nærverunni) samsvari fjarverunni, algjörri fjarveru. Hið algjöra Viðfang er glatað viðfang. Þessi missir hins algjöra Viðfangs, þessi róttæka fjarvera, er hins vegar forsenda sérhverrar nærveru (sem við höfum nú skilið að er alltaf takmörkuð nærvera) . Við gætum þar með sagt: í sinni takmörkuðu nærveru hins altæka Viðfangs er með einhverjum hætti um endurfund að ræða, takmarkaðan endurfund. En hér vildi ég vera nákvæmari: Hið altæka Viðfang er „fundið“ (ekki „endurfundið“, þar sem frá þessari stundu hefur það aldrei áður verið fundið. Þetta er smáatriði sem skiptir að mínu mati höfuðmáli. Það er eins og að segja að Viðfangið sé glatað aðeins í takmarkaðri nærveru sinni, áður væri það hvorki glatað né höndlað. Hin altæka nálægð og hið algjöra Viðfang eru þannig þættir og forsendur takmarkaðrar nærveru hins takmarkaða Viðfangs, ekki „goðsögulegt“ svið er komi til á undan tímanum og rýminu. Hið altæka Viðfang er þannig einn þáttur og einn verumáti merkisins).
— Mín tillaga væri sú að setja hömlur á hömlulausa óðamælgi fræðimannsins og þessa sífelldu flugeldasýningu, en taka þess í stað upp leiðarþráðinn sem ég var, þótt ótrúlegt sé, farinn að fylgja eftir.
— Sammála, það væri sanngjarnt. En framhald þessarar hugsunar (ég meina raunverulegt framhald) líkist reyndar meira flugeldasýningu en rökhendu, jafnvel þó það sé alltaf mögulegt, eins og Peirce sagði, að draga hana saman í rökhendu. En ég sný engu að síður aftur að virðingarstiganum. Sagt var: í nærveru hins algjöra Viðfangs á sér með einhverjum hætti stað endurfundur (eða fundur); „með einhverjum hætti“ merkir hér: um er að ræða takmarkaðan endurfund. „Takmarkaður endurfundur“ merkir : endurfundurinn sem merki. Og þar sem merkið er boðberi, þá felur það í sér að hið takmarkaða Viðfang (það sem er til staðar) er boðberi hins altæka Viðfangs (við gætum einnig orðað það, út frá því sem áður var sagt, að um sé að ræða boðun fjarverunnar, því hún var eitt og hið sama og hin algjöra nærvera). Ef horft er á málið frá öðru sjónarhorni (sem er hinn dæmigerði hugsunarháttur heimspekinnar: ekki út frá afleiðslu (deduzione) og stærðfræðilegri sönnun, eins og Kant hafði þegar áttað sig á), þá gætum við sagt: birting hins takmarkaða Viðfangs felur samtímis í sér brotthvarf hins altæka Viðfangs. Þessi missir er á sama tíma og í sama skilningi kynning einhvers (atburðarins – en ég var þegar búinn að segja að ég vildi ekki snerta það viðfangsefni hér). Það sem kynnir sig til leiks er á sama tíma og í sama skilningi tiltekið merki, (að sýna sig, það er að segja boðunin, og það að vera merki, er eitt og hið sama).
Við gætum skilgreint allt sem hér hefur verið sagt til þessa sem ættfræði hins frumlæga Viðfangs eða frumgerðar þess. Samkvæmt því og þar sem við vildum byrja upp á nýtt, þá lítum við hér á þetta sem afgreitt mál, en um leið vildum við snúa aftur til „lestarinnar“ okkar til að sannreyna hvernig hún virkar.
— Látum gott heita að málinu sé lokið, þó mér sýnist alls ekki svo vera. Sem sagt, mér virðist alls ekki liggja hreint fyrir hvernig málinu sé lokið.
— Einnig hér verð ég að vera sammála. Umræður eins og þessar verða aldrei leiddar til lykta. Við getum alltaf breytt um sjónarhorn: heimspekingurinn tekur hinni óútkljáðu umræðu ávallt með jákvæðu viðhorfi frekar en vonbrigðum, öfugt við ekki-heimspekinginn. Og báðir hafa eitthvað til síns máls. Hins vegar vildi ég aðeins segja, að þótt þegar framlagðar röksemdir þyrftu á viðbótar leiðréttingum og dýpri greiningu að halda, þá gætu þær hugsanlega dugað í glímunni við viðfangsefnið: þessa frægu „lest“ okkar.
Sem sagt: hvernig náum við því marki að hafa það að hafa (svo vitnað sé enn einu sinni í orð Husserls), nokkuð sem felst í því að hafa lest sem viðfang? Eins og við höfum áður gert, þá vísum við hér aftur til dæmisins af barninu, en núna þar sem það er nýkomið úr móðurkviði. Við segjum að þar eigi sér í fyrsta skiptið stað myndun hlutareðlisins (oggettualità), það er að segja „kraftaskaut hagsmuna“: móðurbrjóstið fullt af mjólk, pelinn o.s.frv. Þannig verður til Umwelt (umheimur), heimur andrúmslofts og hluta (sem er ekki heimur í „verufræðilegum“ (ontoligico) skilningi eins og Heidegger myndi segja, heldur í skilningi milliliðalauss hlutareðlis (ontico)). Móðurbrjóstið er hér skaut sogsins og fullnægju því tengdu (brjóstið, sogið fullnægjan eru í upphafi nánast sami hluturinn). Sem slíkt, það er að segja sem hlutur/viðfang (oggetto) er brjóstið þá merki sogsins og fullnægjunnar. Eðlilega auðgast það smám saman af eðliseiginleikum (aukinn merkingarblær (connotazione) eins og sagt er, þar sem nýjar, oft dulvitaðar upplýsingar koma fram). Brjóstið eykst að „gæðum“ (hvað varðar snertingu, lykt, hlýju, bragðskyn, sjónskyn o.s.frv.) En það sem við þurfum að hafa í huga er að brjóstið er alltaf með takmarkaða nærveru, aldrei altæka. Fjarlægð þess er alltaf meiri eða minni, en þar er alltaf um fjarlægð að ræða.
— Þetta er tilgangslaust, ég skil ekki hvert þetta á að leiða. Hvað merkir: það er alltaf fjarlægð? Gerum ráð fyrir að nýburinn okkar sé blessunarlega sjúgandi geirvörtuna: hann hefur brjóstið í munni sér, munninn fullan af sætri og volgri mjólk, kollinn hvílandi í armi móðurinnar sem styður mjúklega við hann og hvetur hann kannski með kliðmjúkum orðum, hendur hans snerta brjóstið með nautnafullum strokum og við getum ekki lesið úr andlitinu annað en fullkomna sælu: hvað viltu meira? Öll þessi reynsla er brjóstið. Þetta er ekki þannig að fyrst komi brjóstið og svo, handan þess, hið sæta, mjúka, volga, bleika o.s.frv. Ég verð að játa að mér finnst við gætum smættað allt þetta stóra vandamál niður í lítilsháttar orðaleik (Wittgenstein sagði: heimspekin er einföld spurning um tungumálið, öllu heldur er hún sjúkdómur tungumálsins). Sem sagt, komum okkur saman um þetta: með brjóstinu erum við að tala um hið bleika, mjúka, sæta o.s.frv…. það er að segja öll þau form reynslunnar sem það varða. Þegar við erum einu sinni orðnir sammála um þetta, þá held ég að þessi meinta „fjarlægð“ muni hverfa. Ég meina: þá er vandinn úr sögunni.
— Þetta var vel sagt. Ég á við: það sem nú hefur verið sagt skilgreinir mjög vel tvennar skoðanir okkar. En þrátt fyrir þær réttmætu athugasemdir sem hér hafa komið fram (og ég get ekki annað en verið sammála að hluta til), þá er ég enn þeirrar skoðunar að fjarlægðin sé til staðar. Þrátt fyrir snjöllustu tilgátuna (nýburinn hefur brjóstið á milli handanna, geirvörtuna í munninum, sýgur volga mjólkina o.s.frv.) þá er nærvera brjóstsins boðuð í gegnum merki þess (mýkt, ylur, sætleiki, bleikt), hún er fyrst og fremst í þessum merkjum nærverunnar, en í heild sinni (insieme) er hún ekki í þessum merkjum.
— Hvað merkir „í heild sinni“?
— Ég mun reyna að skýra mál mitt. Við munum öll eftir frægri kenningu Locke sem sagði að efnið (sostanza) væri summa einfaldra hugmynda þess. Til dæmis „eplið“; efnið „epli“, verður skilið af samfelldri samsetningu hins hála, rauða, sæta o.s.frv. og ekki er um neitt annað að ræða en þessa samsetningu, þessa summu. Ég held að Locke hafi haft rétt fyrir sér, en aðeins að hálfu leyti. Eplið er vissulega þessi summa, en það er líka meira en þessi summa. Ekki í þeim skilningi að sérhvert epli hafi einnig að geyma eidos (hugmynd) eplisins, eins og Husserl hefði sagt, heldur af allt öðrum og að mínu áliti dýpri ástæðum. En snúum okkur að því sem sagt var rétt áðan: nærvera brjóstsins er í merkjum þess og í heild sinni er það (brjóstið) ekki í þeim (merkjunum). Könnum hvernig það er ekki.
Í fyrsta lagi getum við séð að ég þarf að „ná“ brjóstinu í gegnum athafnir eins og sog o.s.frv. Enn fremur þarf brjóstið að ná til mín. Ekki er um hlut að ræða sem slíkan, sem ekki þarf að ná til mín til að ég geti höndlað hann sem slíkan. (Þegar ég tala um hlut er ég ekki eingöngu að hugsa um efnislega hluti, heldur um hvaða hlut eða hvaða nærveru sem verða vill). Ég þarf einnig að nálgast eigin líkama, og hann mig. Reyndar er það rétt að fjarlægð hans er frábrugðin öðrum fjarlægðum, hann hefur sinn sérstaka máta sem gerir fjarlægð hans frábrugðna öðrum fjarlægðum. Nokkuð sem er trúlega frumorsök aðgreiningar hins „innra“ og hins „ytra“.
— Leiðarþráðinn!, leiðarþráðinn!
— Fyrirgefðu, en brjóstið þarf þannig að nálgast mig (móðirin er fjarverandi, en nú birtist hún fyrst agnarlítil, en svo stækkar hún o.s.frv.) og ég þarf að ná til þess. Nú skulum við spyrja okkur: hvenær hef ég náð brjóstinu? Á hvaða augnabliki nálgunarinnar og sogsins hef ég brjóstið? Einhver gæti sagt, þegar ég snerti það og sýg það, þá hef ég höndlað brjóstið. En í raun og veru er málið ekki svo einfalt. Vissulega hafa snertingin og bragðskynið afar mikilvæg nálgunaráhrif á hlutinn, þau tengja hann þeirri sérstöku fjarlægð sem fólgin er í „mínum eigin“ líkama (eins og við sjáum, þá var ég ekki að fara út fyrir efnið áðan, jafnvel þó ég geti játað að mér var það ekki ljóst þá). Það er engin tilviljun að skynnæmið, líkaminn og hinir efnislegu hlutir, séu stöðug viðfangsefni heimspekinnar. En það að öðlast meiri nánd felur ekki í sér afnám allrar fjarlægðar. Við getum í þessu skyni horft til hinnar kynferðislegu nálgunar í gegnum samfarir: hvenær hef ég „höndlað“ hina elskuðu konu? Án þess að móðga nokkurn, þá öðlast ég mesta nálgun með inntakinu (penetrazione). Engu að síður er það út frá óbrúanlegri fjarlægð. Hér getur nautnin fengið mig til að loka augunum: ég einbeiti mér að snertingunni. Þá finn ég sársaukann af því að „sjá ekki“. Þessi yfirtaka mín á viðfanginu er ófullkomin. Því opna ég augun og í fyrstu eykur það á skynnæmið og mér finnst ég hafa nálgast Viðfang mitt enn meir (sem sjálfsvera (soggetto), ég hef ekki gleymt því…). En ég sé í nærsýni og kannski ekki það sem ég einmitt vildi sjá. Staðreyndin er sú að jafnvel þó ég væri umkringdur speglum myndi ég aldrei sjá allt. Og ef ég einbeiti mér of mikið að áhorfinu glata ég snertingunni, lyktarskyninu og umfram allt þeim fortakslausa spuna (spontaneità) sem felst í hnattrænni og taumlausri leiðslu. Það sama myndi gerast í sérhverjum þeim erótíska leik sem mér kynni að hugkvæmast: alltaf gerir fjarlægðin vart við sig, sama hvað ég leitast við að tæma hana.
— Ég verð að játa að þessi samlíking kemur mér á óvart; ég vissi ekki að heimspekingar gætu hugsað svona „jarðneska“ hluti; eða öllu heldur að þeir hefðu minnstu hugmynd um þá í því heimsveldi skýjanna sem er þeirra höfuðból.
— Rangt! Það er engin tilviljun að heimspekin varð til í Aþenu, en ekki í Jerúsalem eða Róm. Grikkirnir vissu mætavel að eros og heimspekin eru ekki fjarskyld, auk þess sem þeirra uppáhaldsfrásögn var sagan af Ixíoni sem hafði fengið þá flugu í höfuðið að serða Heru, eiginkonu Seifs og húsmóðurina á Olympstindi. Sjálfur var Seifur oftar en ekki með hugann bundinn við getnaðinn og þá ekki alltaf með Heru, en hann fann hins vegar aðferð til að fullnægja löngun vesalings Ixíons með þeirri einu aðferð sem hæfði dauðlegum manni: hann sendi honum ský sem var í mynd Heru, og fullur hamingju höndlaði hann hana og sarð og átti með henni, ef ég man rétt, einstök afkvæmi. Þetta mætti skýra með eftirfarandi hætti, sem nú kemur okkur vel: aðeins guðirnir eru þess megnugir að yfirtaka konuna (hlutina) í raun og veru. Mennirnir geta nálgast hana í seilingarfjarlægð í gegnum skýin, það er að segja í gegnum merkin.
En eins og Nietzsche skrifaði (og Hölderlin hafði uppgötvað á undan honum) þá eru „allir guðirnir dauðir“. Þess vegna verðum við að vekja okkur af draumi Ixions (kannski er ofsagt að segja „við verðum“, nægir að segja „við getum“): við getum vel verið án þess að telja okkur trú um að skýið sé Hera, það er að segja hið altæka Viðfang, sem við eigum að höndla. Þannig höfnum við því að merkin séu ský, það er að segja staðgenglar og tvífarar hinna algildu Viðfanga. Þessi í stað meðtökum við hið altæka Viðfang og hina frumlægu grundvallar-fjarvist þess sem tiltekinn veruhátt og framboðsmáta merkjanna, eins og áður var sagt, og þar með nærveru hlutanna. En snúum okkur nú að okkur sjálfum.
Það sem hér hefur verið sagt um kynmökin og hinn kynferðislega maka á líka við um brjóstið, og reyndar um alla hluti, þar sem við getum byrjað á mér sjálfum. Einnig ég „yfirskyggi“ mig (eins og Husserl komst að orði, en þá var hann aðeins að hugsa um efnislega hluti, því hann trúði á innsæið og taldi þar af leiðandi að „das Erlebnis“ færi ekki í felur, heldur gæfi sig í holdi og blóði, nokkuð sem er ekki satt.): einnig ég „yfirskyggi“ sjálfan mig fyrir mér sjálfum.
Þessi þráður leiðir okkur fullkomlega eðlilega að „lestinni“: flóknu merki sem er fullt af bergmáli og „sögnum“. Hugsum okkur hvernig Carducci (ítalskt skáld 1837-1907) upplifði lestina sem merki framfaranna og síðar, skömmu fyrir dauða sinn, í stuttu ljóði (sem ber lítil höfundareinkenni hans og hefur þess vegna að mínu mati yfirburði yfir „miðlungs bókmenntaafrek“ hans) þar sem hann sér lestina sem tákn vélvæðingar og merkingarleysu nútíma mannlífs, tómar brottfarir og kveðjuköst og órjúfanlegar fjarlægðir frá viðföngum ástar okkar. Eðli þess að vera merki „lestar“ eða hvaða hlutar sem er, er fólgið í boðun þess, sem er um leið vísun út í óendanleikann. Sérhver nærvera gefur í skyn og er staðgengill annarra nærvera: hún geymir runu endalausra merkja, það er að segja óendanlega Túlkendur á undan sér og á eftir sér. Sérhver nærvera kallar á að við sundurgreinum hana („decodifichiamo“ eins og nútíma merkingarfræðingar myndu segja), en það felur í sér að við virkjum aðild okkar að henni á meðvitaðan hátt. En það merkir, eins og Peirce komst að orði, aðild okkar að alheimi merkjanna, þar sem sérhver hlutur er þar sem hann virkar (það er að segja hvernig hann virkar sem merki).
Þrátt fyrir þessa endalausu framvísun hefur sérhvert merki sína merkingu og á sama tíma þetta sama: það er að segja fjarveru hins altæka Viðfangs, fjarlægðina sem er innbyggð í sérhverja nálægð. Ef við viljum orða það þannig, þá er sérhver aðild okkar að örlögum þess Túlkanda sem í okkur býr (og í gegnum þetta aðildin að heild hinnar óendanlegu raðar Túlkendanna), og um leið aðildarleysi okkar að örlögum eignarhaldsins (ómennsk örlög eða ef við viljum heldur: örlög handan hins mannlega). Þegar við látum sem hlutirnir séu merki og skiljum þá í veru þeirra sem merki, þá felur það ekki í sér afneitun hlutanna, „raunveruleika“ þeirra (eins og sagt er gjarnan): raunveruleiki þeirra er einmitt fólginn í þessari virkni skilaboðanna. Þegar við segjum að lestin sé merki, þá erum við ekki að hafna „efnislegum gæðum“ hennar, að hún hafi til að bera hörku og þyngd og að hún geti keyrt á mig og að ég geti stigið um borð, að hún geti verið í seinkun (auðvitað ekki!) eða jafnvel að hún komi aldrei á áfangastað fyrir tilverknað einhvers atburðar sem er „utan“ hugsana minna, óska minna og túlkana. Þetta felur hins vegar í sér að mæta henni sem hluta af merkingunum sem hafa mótað mig og minn heim, og jafnframt að taka eftir því að birting hennar, eins og sérhver birting, er upprunalegur atburður (evento originario): alltaf þessi sama birtingarvirkni, að láta sig birtast í fjarveru sem ab origini (frá örófi alda); hún hefur birst okkur sem merki og „merkir okkur“ (ci assegna) tilsvarandi örlögum (en ég vil ekki ennþá tala um atburðinn).
Að gangast undir þessa reynslu (eins og hún er, og hvernig við erum merkt þeim örlögum að túlka hana í gegnum hlutdeild okkar í tilteknum Túlkanda) merkir ekki að hún sé „afskiptalaus“ (indifferente), þessi reynsla segir okkur að „lestin“ skipti máli, að ekki séu til hrein tól án tilgangs eða hreinir líkamar aðskildir frá sálinni. Við og lestin deilum sameiginlegum örlögum. Það kann að hljóma sem einfeldnisleg spurning, en hversu oft skyldum við í rauninni hafa lagt traust okkar á lestina og treyst henni fyrir lífi okkar? Ef lestin er tákn framfaranna, eins og okkar ágæti Carducci hélt fram, þá höfum við lagt traust okkar á þær, og þær lagt traust sitt á okkur. Lestin er ekki sinnulaus, enginn hlutur er sinnulaus að því marki sem hann er anghelos, boðberi skilaboða sem okkur varða, og hvetja okkur til túlkunar. Hins vegar má einnig segja, að sérhver hlutur sé „dif-ferente“ (eins og Derrida orðaði það), (hefur verið þýtt á íslensku sem „á skilafresti“). Sem sagt, enginn hlutur er hið altæka Viðfang. Að sinna viðfanginu, meðtaka boðskap þess, er ekki það sama og að „hafa skipti á því“ og hinu algilda Viðfangi, og gefa því þannig tilkall til altækrar yfirtöku (possesso totale). Listin að taka á móti hlutunum er líka um leið listin að innbyrða þá ekki (trattenerle). Það gerist mjög oft að við yfirstígum hluti, göngum yfir þá, til að ná öðrum hlut sem hefur í okkar augum ígildi eftirlíkingar hins algilda Viðfangs og hinnar algildu yfirtöku. Við meðhöndlum hlutina eins og meðöl eða tæki, við meðtökum þá ekki, heldur notum þá, jafnvel þó allir viti að hið endanlega viðfang verður aldrei höndlað. Eða þá að það breytist umsvifalaust eftir yfirtökuna í meðal til annars markmiðs. Mikilvægast er þó að með einfaldri notkun hlutanna (að notfæra sér þá), með því að nota þá sem meðul, meðtökum við aldrei boðskapinn sem þeir hafa að geyma, við gerum okkur ekki grein fyrir að þeir allir, hver fyrir sig, hafa sína tilvísun í hið altæka Viðfang sem við erum stöðugt en árangurslaust á höttunum eftir. Við sjáum ekki að hafandi hlutina við höndina höfum við líka við höndina þá fjarveru sem býr í hinum holdi klædda Túlkanda. Því er hið algilda Viðfang, eins og Heidegger myndi segja, bæði það sem stendur okkur næst og fjærst: það er hér, í sérhverri nærveru, og einmitt þess vegna sjáum við það ekki og leitum því langt yfir skammt. Reyndar er hér ekki við sérstaka sök okkar að sakast, þetta er hluti af merkiseðli okkar sem Túlkendur: því meiri nálgun sem merkið færir okkur við hlutinn, þeim mun skjótari verður hann á flótta sínum. Það merki sem færir okkur nærveru (áberandi) skapar líka (áberandi) fjarlægð. Ef lestin (eða flugvélin á okkar tímum) hefur dregið úr vegalengdum í rýminu, þá hefur hún einnig skapað fjarlægðir í öðrum skilningi, en Heidegger hefur skýrt þetta svo vel fyrir okkur að það er engin tilviljun að ég endurtaki það hér. Þannig óttast ég að áðurnefndur „frumspekingur“, sem talaði um að vera alls staðar og hvergi, yrði tekinn af meiri alvöru en þetta tiltekna dæmi gæfi tilefni til: kannski vildi hann tala um okkur, um okkar nútímalegu aðferð í hlutverki Túlkendanna. Ef hann hefði farið úr einni lest í aðra eða úr einni flugvél í aðra, til þess að breiða ráðstefnu sína út um heimsbyggðina að hætti margra meistara sem hafa af kaldhæðni hlotið viðurnefnið fullgildir áhafnarmeðlimir The Jet-Philosophy (þetta hef ég eftir amerískri vinkonu minni), þá hefði hann kannski viljað tala um einsemd sína og ógjörning virkrar háskólakennslu, án þess þó að losna undan þeim sameiginlegu örlögum okkar samtímamenningar sem kennd er við fjöldamenningu fjölmiðlanna, en þar er merkingarfræðin einmitt og ekki af tilviljun beinn þátttakandi.
— Hvað þá, ef engin er undankomuleiðin, til hvers er þessi umræða þá? Hvaða tilgangi þjónar það að velta fyrir sér eðli merkjanna í hlutunum og okkur sjálfum? Sem sagt, hverju þjónar umræðan þá?
— Nú skil ég, þú hefðir viljað færa þér umræðu mína í nyt, gera hana að meðali…
— Ekki ég, í guðanna bænum! Ég hef hlýtt á „crescendo“ (vaxandi þunga) umræðu þinnar dágóða stund, þennan einleik, en um leið fannst mér að Carnap hefði haft rétt fyrir sér: þið heimspekingar eruð misheppnaðir tónlistarmenn; umræðunum breytið þið í sinfóníur með skellum málmgjallanna á hápunktinum og undiröldu strengjanna og viðarhljóðfæranna. Mér fannst líka áhugavert að sjá hvernig hin ídealísku fyrirheit enda hrapallega í dulspekilegum og þversagnafullum niðurstöðum (allt er alls staðar, eilífðartilvist mannsins er lokið o.s.frv.: auðvitað sagt með nútímalegra orðavali, en súpan er alltaf hin sama). Ég var einnig að hugsa um hversu snjallir þið eruð að vísa stöðugt í alþekkt dæmi, rétt eins og af tilviljun, og að nota þau síðan með leyndum hætti til að styðja orðræður ykkar og meintar sannanir (þetta skildi Kant líka mætavel þegar hann talaði um frumspekingana en ekki bara málefni heimspekinnar, sem er ekki stærðfræði o.s.frv.). Öll þessi orðræða sem ég hef mátt hlíða á, notaðist af rætinni illkvittni við dæmi barnsins í móðurkviði, rétt eins og það væri tilfallandi dæmi. Það er hins vegar mun meira en dæmi: ef við tækjum það út úr orðræðunni væru allir möguleikar á að vísa í hið algilda Viðfang og í glatað Viðfang og endurfundið úr sögunni. Ég spyr mig hvernig þessi samflétta ólíkra hluta, almennra reynslufyrirbæra, vísindakenninga sem beitt er með yfirborðskenndum og tilviljanakenndum hætti, grískra goðsagna, ólíkra heimspekikenninga frá ólíkum tímum og svo framvegis, hvernig slík flétta geti gert tilkall til einhvers sannleiksgildis. Hvað getum við gert með orðræður á borð við þessar? Hvernig eigum við að setja þær undir gæðamat? Ég á ekki við að þær eigi að „þjóna“ einhverju í grófum og einfeldnislegum skilningi, en ég hef fullan rétt á að spyrja hvert sannleiksgildið sé… eða hvað?
— Við erum margir sem spyrjum okkur þessara spurninga í dag. Við spyrjum okkur hvaða orðræða sé heimspekileg (reyndar hefur heimspekin alltaf spurt sig þessarar spurningar). Ég held hins vegar að ekki sé hægt að heimfæra þessar orðræður (einmitt þessar fléttur ólíkra hluta) upp á einfaldan mælikvarða sannleikans. Sjáðu, ef við myndum spyrja okkur hvað við ættum við með „mælikvarða sannleikans“, þá efast ég ekki um að við værum tilneyddir að endurtaka einhverja af þessum orðræðum, fullum af óskyldum hlutum, og með engu móti gulltryggðar. Hvað það er sem heimspekingurinn er að leita að, og hvers vegna, er stórt vandamál, sem Nietzsche var fyrstur til að uppgötva. Hann grunaði að ekki væri allt með felldu, allar þessar rannsóknir og umræður; en þegar allt kemur til alls, þá er grunurinn líka orðræða. Vesturlönd virðast dæmd til orðræðna: þær eru aðferð þeirra til að nálgast hlutina og einnig til að gera þá fjarlæga, að finna þá og glata þeim. En ég ætlaði mér ekki að opna hér fyrir nýja orðræðu. Öllu heldur vildi ég stela nokkrum mínútum til að draga fram tvær niðurstöður af því sem sagt hefur verið, því þær kalla á mig og hvetja til útskýringa í formi niðurstöðu. Leyfist mér það?
— Við skulum líka hlusta á niðurstöðuna. Þannig verður þú ánægður.
– Það var meira en ein niðurstaða, þær voru tvær eins og ég sagði. Semsagt: Við lögðum fram spurninguna hvenær við mætum hlutnum. Í raun og veru höfum við lagt megináhersluna á hvernig við mætum honum. Nú hefur spurningin um „hvenær“ sinn sérstaka áherslupunkt. Þar sem ég nálgast hlut sem boðar sig, og hann nálgast mig eða fjarlægist á móti, þá tímaset ég mig (mi temporalizzo). Betra væri að segja að merkið hafi tímasett mig, merkisafstaðan. Þar sem merkið hefur að geyma upprunalega fjarlægð í kjarna sínum sem merki, sem boðun, þar sem það er upprunaleg fjarlægð, þá vísar það einnig til tímasetningar, vegferðar, uppruna og tiltekinnar áttar. Það eru fortíð, nútíð og framtíð. Í boðun merkisins er til staðar annar staður (un altrove) sem er aldrei hér og nú í fullri merkingu, heldur nokkuð sem er háð hér og nú. Af þessu mætti draga margvíslegar mikilvægar ályktanir (til dæmis varðandi tímabundna leiðslu eða upphafningu (estasi), varðandi ekki-uppruna nándarinnar (presenza) eða núsins (presente)); en leikreglurnar þvinga okkur engu að síður til að leiða þessi atriði hjá okkur að svo stöddu, svo ekki upphefjist ný umræða um ólíka hluti og afskrifaða á forsendum hvaða sannleiksgildis sem vera kann.
Seinni niðurstaðan: Við höfðum greint á milli hugtaksins um heiminn í ontískum (hlutverulegum) skilningi og ontologískum (verufræðilegum) skilningi (eins og Heidegger gerði líka. (Aths.: hugtakið ontisch er nýyrði Heideggers sem vísar til beinnar og milliliðalausrar skynjunar, ólíkt ontologisch sem vísar til heimspekilegrar túlkunnar á verunni sem slíkri)). Ég ætla að víkja augnablik að dæminu sem þú dæmir sem rætið og illkvittnislegt og varðar barnið í móðurkviði (hin algjöra reynsla sem enginn getur sagst hafa upplifað, en enginn getur heldur neitað að hafa upplifað): sagt var að barnið væri með móðurinni, altekið af algjörri nærveru viðfangs síns. Við spyrjum (mig minnir að Fink hafi spurt sömu spurningar): hvernig er maðurinn með heiminum, ef heimurinn er hans upprunalega vera með? Hér merkir „heimur“ ekki þá ontísku heild „hluta“ sem við okkur blasa, heldur hina verufræðilegu (ontologica) vídd sem tekur til allrar veru heimsins (við gætum einnig sagt að þetta væri vandamál sköpunarsögu alheimsins (cosmologico). Er heimurinn altæk návist fyrir manninn (og þú manst hvað var sagt um það)? Er þá einnig um að ræða upprunalega fjarveru? Eiga orðræður okkar og mælikvarðar á sannleikann rætur sínar þarna? Í „atburði“ heimsins í túlkandanum? Hvernig er þá málunum háttað gagnvart dýrunum? Hvernig hafa þau heiminn? Og svo, með hvaða rétti tölum við um dýrin og heim þeirra? Að lokum: um hvaða rétt erum við að tala? Og hvers vegna viljum við tala út frá „rétti“? Sérhver orðræða er hringferli, sagði dvergurinn við Zaraþústra.
Sjáðu til, eitt hollráð að lokum: þú skalt fara núna, annars byrja ég á nýrri orðræðu.
___________________________________________
Forsíðumyndin er málverk Filippo Lippi: Kona og maður í glugga, 1435. Metropolitan Museum of Art.
Níundi kafli Sjöunda námskeiðsins um Siðfræði sálgreiningarinnar
Ráðgátur sálgreiningarinnar
Það í raunverunni sem þjáist af nefnaranum
Sagan um krúsina og vasann
Kynning á Katarisma
Verufræðilegar athugasemdir um Hvatir
Ég ætla hér að halda áfram umræðu minni um það hlutverk sem ég hef eignað Le Chose, (Das Ding, „þingið“, „þaðið“, „hluturinn“) í skilgreiningunni á göfgun (sublimation) með því að segja ykkur skemmtilega sögu.
Þegar ég kvaddi ykkur um daginn fékk ég skyndilegt samviskubit eins og oft gerist þegar ég fæ það á tilfinningunna að ég hafi ekki gefið tæmandi úttekt á viðfangsefni okkar, og um eftirmiðdaginn leit ég í tvær greinar eftir Melanie Klein, sem Glover vitnar í. Þær eru birtar í Contributions to Psychoanalysis.
Fyrri greinin, „Sálgreining ungbarna“ frá 1923 hefur að geyma afar áhugaverða umfjöllun um göfgunarferlið og bælingarfyrirbærið sem eftirköst þess. Um er að ræða þann skilning sem Klein leggur í það hvernig kenndir fullnægjandi lífshvatar í gegnum göfgun verða hjá barninu tilefni til bælingar.
Ég ætla ekki að eyða tíma í þetta sérstaklega, heldur vil ég fyrst og fremst beina athygli ykkar að göfgunarhugtakinu (sublimation) sem slíku, og öllum þeim misskilningi sem óljósar hugmyndir um þann vanda geta valdið.
Það var hins vegar seinni greinin frá 1929 sem ég sá eftir að hafa ekki kannað. Hún heitir „Infantile Anxiety Situations Reflected in a Work of Art and in the Creative Impulse“ (Barnakvíði sem birtist í listaverkum og sköpunarþörfinni). Þetta er stuttur texti, en eins og stundum gerist, þá gaf hann mér þá fullnægju að uppfylla áform mín eins og höndin fylgir hanskanum.
René Magritte: The Spirit of Geometry, 1937
1.
Fyrsti hlutinn er umræða um tónsmíð eftir Ravel sem byggir á sviðsmynd Colette, L‘Enfantet les Sortilèges. Ég las þennan texta með mikilli ánægju, sem var ekki sjálfgefið þar sem fjallað er um verkið í þýskum og enskum þýðingum.
Það sem vekur furðu Melaine Klein, er að listaverk geti fallið svo nákvæmlega að hugarburði barnsins um líkama móðurinnar, hugarburði varðandi frumstæða árásargirni og gagnárásir er barnið skynjar. Í stuttu máli er þarna um að ræða nokkuð langa og áhugaverða staðfestingu á þeim þáttum í ímyndunarafli skapara verksins, sérstaklega hjá tónskáldinu, sem falla merkilega vel saman við það frumlæga og miðlæga svið í byggingu sálarinnar, sem Klein hefur fundið í barnasálgreiningu sinni. Um leið er það stórmerkilegt að skynja hvernig þetta fellur saman við byggingu listaverksins, – jafnvel þótt þetta fullnægi eðlilega ekki öllum okkar kröfum.
En það er seinni hluti greinarinnar sem er áhugaverðari, þar verður textinn skemmtilegur. Hér er um að ræða vísun í greiningu sálgreinis sem heitir Karin Mikailis, sem segir undir titlinum „Tómt rými“ frá greiningartilfelli sem er á vissan hátt sláandi. Á þeim fjórum blaðsíðum sem greina frá þessari sögu er sagt frá vissu jaðartilfelli, sem þó felur ekki í sér að hægt sé að setja fram ákveðna greiningu, eða segja til um hvort um sé að ræða melankólska depurð eða ekki.
Málið varðar skjólstæðing sem er kölluð Ruth Kjar, og fylgir stutt lýsing á lífshlaupi hennar. Þessi kona var aldrei listmálari, en depurðarköstum hennar var þannig lýst að hún fengi sterka tilfinningu fyrir innra tómarými sem hún gæti aldrei fyllt.
Ég ætla ekki að trufla ykkur með lýsingu á lífshlaupi hennar, en með aðstoð sálgreinis síns gat hún gengið að eiga mann, og eftir hjónabandið gekk allt vel í fyrstu. En eftir tiltölulega stuttan tíma gerðu melankólíuköstin vart við sig á ný. Og þar komum við að hinu áhugaverða í sögunni. Við finnum okkur í raun og veru stödd í töfraheimi sálgreiningarinnar eins og hún getur virkað, þó fullnægja okkar kunni að vera nokkuð barnaleg.
Af óþekktum ástæðum eru veggirnir í húsi hjónakornanna þaktir málverkum eftir mág konunnar, sem er listmálari. Þetta átti sérstaklega við um eitt herbergið. Svo gerist það á tilteknum tíma að mágurinn, sem var hæfileikaríkur málari – án þess að við getum um það dæmt – selur eitt málverkanna, sem hann fjarlægir af veggnum. Eftir stendur tómt rými á veggnum.
Í ljós kemur að þetta tóma rými leikur afgerandi hlutverk í þunglyndisköstum konunnar, sem taka sig upp að nýju við þessa breytingu. Hún nær hins vegar að endurheimta bata með eftirfarandi hætti. Einn góðan veðurdag ákveður hún að „daub a little“ (setja smá klessuverk) á vegginn, í þeim tilgangi að fylla upp í þetta bölvaða tómarými, sem hafði heltekið hana með afgerandi hætti. Nokkuð sem við myndum vilja hafa frekari vitneskju um og nánari sjúkdómsgreiningu á en hér er í boði. Þannig reyndi hún að fylla upp í þetta tóma rými með eftirlíkingu verka mágsins, þar sem hún reyndi að fylgja aðferð og efnistökum hans eftir bestu getu. Hún sótti litaskala samkvæmt litanotkun mágsins í listmálarabúðina og hóf að mála af ástríðu sem mér virðist dæmigerð fyrir upphafsfasa geðlægðar. Úr þessu verður til listaverk.
Það skemmtilega við söguna er að þegar mágurinn fær að sjá verkið, og listakonan er komin í kvíðakast með hjartsláttareinkennum þar sem hún bíður eftir dómi meistarans, þá bregst hann við í hálfgerðu reiðikasti: „Þú munt aldrei geta talið mér trú um að þú hafir málað þetta“ segir hann. „Þetta er verk listamanns, ekki bara handverksmanns, heldur þroskaðs listamanns. Fjandinn hirði þessa sögu þína. Hver gæti þetta annars verið?“
Þau geta með engu móti sannfært manninn, og hann heldur áfram að sverja að ef mágkona hans hafi málað þetta verk, þá gæti hann eins vel stjórnað sinfóníu Beethovens í Royal Chapel, jafnvel þótt hann sé ólæs á nótnaskrift.
Það vantar gagnrýna fjarlægð á frásögnina af þessum orðaskiptum, sem óhjákvæmilega kalla á vissar spurningar. Slíkt tæknilegt kraftaverk hlýtur að vekja vissar spurningar. En það skiptir okkur ekki öllu máli í þessu tilfelli. Melanie Klein finnur í þessu atviki staðfestingu á ákveðnum strúktúr sem vekur aðdáun hennar. Og þið komist ekki hjá því að sjá, hvernig þessi strúktúr fellur saman við þann miðlæga uppdrátt sem ég notast við í skipuriti staðsetningar þar sem spurningin um La Chose (þingið, hlutinn, þaðið) er sett fram.
Eins og ég sagði, þá er þetta staður móðurlíkamans samkvæmt kenningu Klein. Hún staðsetur öll stig göfgunar (sublimation) þar, einnig þá göldrum líku göfgun sem felst í þessari sjálfsprottnu atlögu eða uppljómun sem birtist í þessum tökum byrjandans á tækni meistarans. Frú Klein finnur þarna staðfestingu kenningar sinnar, og það skýrir trúlega skort hennar á undrun yfir þessum fyrirbærum, sem skjólstæðingur hennar málaði í þeim tilgangi að fylla upp í tómarýmið. Fyrst kemur nakin negrastúlka, síðan mjög gömul kona sem ber öll líkamseinkenni öldrunar sinnar, vonbrigða og óhjákvæmilegrar uppgjafar gagnvart háum aldri sínum, en síðan endar þessi sería með endurfæðingu, endurkomu móður hennar í blóma eigin fegurðar í ljómandi birtu nýs dags. Samkvæmt Klein er kenningin hér með sönnuð (Q.E.D.), við þurfum einungis að skilja hvað kallaði á þessa atburðarás.
Það skemmtilega við þetta er augljóslega það sem okkur er sagt varðandi staðsetningu göfgunarfyrirbærisins. En þið hljótið að skynja að við erum skilin eftir í nokkru myrkri varðandi möguleika hennar.
Ég er að reyna að færa ykkur þær upplýsingar um göfgun, sem eru nauðsynlegar ef við eigum að skilja hvernig tengingu hennar við það sem við köllum La Chose / „Þingið“ er háttað – miðlæga stöðu þess hvað varðar raunveru einstaklingsins. Hvernig getum við skilgreint þetta „þing“ nánar í staðfræðilegu skipuriti okkar?
Litla dæmisagan úr síðasta tíma, sem við fengum að láni úr söfnunarsálfræðinni, var dæmi sem rangt væri að taka sem tæmingu vandamálsins, jafnvel þó það hjálpi okkur góðan spöl áleiðis. Það dæmi sýnir í stuttu máli umbreytingu hlutar yfir í „þing“ (La chose), skyndilega upphafningu eldspýtustokksins til þess virðingarstigs sem hann hafði ekki áður. En hann er hlutur sem er auðvitað ekki „Þingið“ (das Ding)
Ef „Þingið“ væri ekki í eðli sínu hulið, þá hefðum við ekki þá afstöðu til þess sem skyldar okkur – og alla sálina – til að umkringja það eða sneiða hjá því, ef við ætlum að skynja það. Hvar sem „Þingið“ staðfestir tilvist sína, þá gerist það á heimavelli (domesticated spheres). Það skýrir hvers vegna við skilgreinum sviðið með þessum hætti, því „þingið“ kynnir sig alltaf sem hulið fyrirbæri.
René Magritte: Le bagneuse de clair au sombre, 1932
Í dag skulum við segja að „Þingið“ fylli þann stað í byggingu mannssálarinnar, sem Freud skilgreindi á grundvelli nautnalögmálsins. Ég vil meina að þetta skýrist af því að „Þingið“ er það sem þjáist af völdum nefnarans (signifier) innan raunverunnar, hinnar frumlægu raunveru. Þið eigið að skilja að um er að ræða raunveru sem við þurfum ekki enn að afmarka, heldur raunveruna í heild sinni. Bæði raunveru einstaklingsins og þá utanaðkomandi raunveru sem hann þarf að glíma við.
Fyrstu tengslin sem myndast í sál sjálfsverunnar, sem sjálf er mótuð af jafnvægismyndun (homeostasis) á grundvelli nautnalögmálsins, fela í sér flækjustig (flocculation) og kristallamyndun nefnandi eininga. Sálarbúnaður einstaklingsins er undirorpinn nefnandi skipulagningu eins og hann birtist okkur við greiningu skjólstæðingsins. Út frá því getum við sagt með neikvæðum hætti, að ekkert standi á milli skipulagningar hins nefnandi sviðs ( Vorstellungsreprasentanzen) og myndunar raunveru rýmisins, eða þess miðlæga rýmis þar sem svið „Þingsin“ sem slíks kynnir sig fyrir okkur.
Það er einmitt á þessu sviði sem við ættum að staðsetja það sem Freud kennir okkur hins vegar að sé samsvörun við fundinn, sem hið endurfundna (Wiedergefundene) eða hinn endurfundna hlut. Þannig er grundvallar skilgreining hlutarins hjá Freud fólgin í leiðandi hlutverki hans, en ég hef þegar sýnt fram á þversögnina sem þetta felur í sér, því ekki er gengið út frá að þetta viðfang hafi þegar verið glatað. Eðli sínu samkvæmt er viðfangið (the object) endurfundinn hlutur. Glötun þess er afleiðingin. Þannig er um endurfund að ræða, án vitundar okkar, en í gegnum endurfundinn upplifum við glötun þess að eilífu.
Við stöndum hér enn á ný andspænis grundvallar byggingu sem leyfir okkur að orða þá staðreynd að „Þingið“ sem um ræðir er fyrir tilstilli innri byggingar sinnar opið fyrir því að vera kynnt til staðar með því sem ég hafði áður kallað Hinn hlutinn, í tengslum við leiðann og bænina.
En þar finnum við annað einkennismerki hins hulda „Þings“: með endurfundi þess er það eðli málsins samkvæmt kynnt til staðar (represented) með einhverju öðru.
Við komumst ekki hjá því að sjá þetta í frægum orðum Picasso þar sem hann sagði: „Ég leita ekki, ég finn“. Það er sá fundur (trouver, trobar) trúbadoranna frá Provence (trouvères = farandsöngvarar) og allra þeirra mælskulistarskóla er koma á undan allri leit.
Augljóslega er hið fundna árangur leitar. En leitin fer fram í sporum og slóð nefnarans. Nú er þessi leit á vissan hátt and-sálræn, þar sem hún er handan nautnalögmálsins í virkni sinni og staðsetningu. Því samkvæmt nautnalögmálinu vísar nefnarinn til þessarar yfirfærðu jöfnu (beyond equalisation) sem er homeostasis (jafnvægisregla) og til hinnar einsleitu kerfisviðleitni sjálfsins. Hún framkallar eigin villu. Hlutverk nautnalögmálsins felst í raun í því að leiða sjálfsveruna frá einum nefnara til annars og kalla fram eins marga nefnara og nauðsyn krefur, til að halda því spennustigi í lágmarki sem stýrir hinni sálrænu virkni.
Við erum þannig leidd að þeim venslum sem ríkja á milli mannsins og þessa nefnara – nokkuð sem mun leyfa okkur að stíga enn eitt skref fram á við.
Ef nautnin stýrir mannlegri umhugsun í gegnum lögmál freistingarinnar og þá ofboðslegu orðræðu sem er ekki bara gerð úr því sem hún skilgreinir, heldur úr gjörvallri virkni sinni – að því marki sem hún stýrist af leit sem leiðir til uppgötvun hluta í gegnum merki. Hvernig geta tengsl mannsins við nefnarann sett hann í samband við viðfang sem stendur fyrir „Þingið“? Þannig komum við að spurningunni um hvað það er sem maðurinn gerir þegar hann býr til nefnara.
Ren´3 Magritte: Hið fullkomna málverk, 1928
2.
Hvað nefnarann (signifier) varðar, þá er vandinn fólginn í að varast að stökkva á þá staðreynd að maðurinn sé smiður og hönnuður eigin stoðkerfis.
Ég hef nú í mörg ár vanið ykkur við þann skilning, þann ríkjandi forgangsskilning, að nefnarinn sem slíkur sé samsettur af gagnvirkum (oppositional) þáttum og að tilkoma þeirra hefur í för með sér grundvallar breytingu á veröld mannsins. Málið snýst einnig um að þessir nefnarar eru hver um sig tilsniðnir af manninum, og trúlega meira með handavinnunni en í gegnum andlegri vinnu.
Hér mætum við aftur þeirri málvenju, að minnsta kosti í tengslum við göfgun á sviði listanna, að aldrei er hikað við að tala um sköpun. Þess vegna þurfum við nú að hugleiða skilning okkar á sköpunarhugtakinu með öllu sem því fylgir, þekkingu á skaparanum (creator) og skepnunni (creature), því hún er miðlæg, ekki bara varðandi spurninguna um hvað kalli á göfgunina, heldur líka hvað kalli á siðfræðina í víðtækri merkingu.
Ég legg eftirfarandi fram: að því marki sem tiltekinn hlutur er tilbúinn hlutur getur hann gegnt því hlutverki sem gerir manninum kleift að forðast ekki „Þingið“ sem nefnara, heldur að framkalla (represent) það. Samkvæmt þjóðsögu sem keðja kynslóðanna hefur fært okkur og ekkert hindrar okkur í að nota, þá ætlum við nú að vísa í það sem er frumstæðast af allri listrænni virkni, sem er iðja leirkerasmiðsins.
Í síðasta tíma talaði ég við ykkur um eldspýtustokkinn; það var út frá persónulegri reynslu og við munum koma að því síðar. Hugsanlega getur það einnig gert okkur kleift að kanna nánar díalektík leirkersins. En leirkrúsin er einfaldari. Hún kom sannarlega til sögunnar á undan eldspýtustokknum. Krúsin hefur alltaf verið þarna, hún er kannski frumlægasta fyrirbærið í iðnsögu mannsins. Hún er vissulega tól eða nytjahlutur sem gerir okkur kleift að staðfesta mannlega nærveru, hvar sem við finnum hana. Þessi krús sem hefur alltaf verið til staðar og hefur lengi verið notuð til að kynna okkur leyndardóma sköpunarinnar í gegnum dæmisögur, hliðstæður og myndlíkingar, gæti enn reynst okkur gagnleg.
Staðfestingu á gagnsemi vasans í þessum tilgangi finnum við hjá Heidegger í því sem hann skrifar um das Ding (hlutinn eða „þingið“). Hann er sá síðasti í langri röð manna sem hafa hugleitt sköpunina sem slíka; og hann býr til díalektík sína út frá vasanum.
Ég ætla ekki að gera virkni das Ding að umræðuefni hér í skilgreiningu Heideggers á Dasein (tilvera) og tengist greiningu hans á frumspekinni. Þið getið öll flett upp í riti hans Essays and Lectures (Vorträge und Aufsätze) og lesið ritgerðina um das Ding. Þar sjáið þið hvernig hann tengir það við sameiningu jarðneskra og himneskra afla í kjarna mannlegrar tilveru.
Í dag vildi ég einfaldlega halda mig við þá grundvallar aðgreiningu sem hann gerir á notkun vasans sem nytjahlut og merkingarlegri virkni hans. Það er spurningin um hvort hann sé í raun nefnari (signifier) og þá sá fyrsti af slíkum nefnurum sem skapaðir voru af mennskri hönd. Ef svo er, þá er hann í nafngefandi kjarna sínum nefnari einskis annars en nafngiftarinnar sem slíkrar, eða með öðrum orðum nefnari einskis tiltekins viðfangs. Heidegger staðsetur vasann í miðju kjarna jarðar og himins. Fyrst og fremst í því sem við köllum „að skála“ í gegnum tvöfalda virkni þess gjörnings: upp til að taka á móti og niður til jarðarinnar þar sem hann sækir eitthvað. Það er virkni vasans.
Þetta tóm í sjálfu sér, sem einkennir vasann í nefnandi virkni sinni (signifying function), er það sem einkennir vasann sem slíkan í sinni efnislegu mynd. Hann skapar tómið og kallar þannig fram möguleika á fyllingu þess. Tóm og fylling eru þannig kynnt til sögunnar í heimi sem er sér ekki meðvitaður um tilvist þeirra. Það er á grundvelli þessa tilbúna nefnara, þessa vasa, sem tómið og fyllingin fæðast inn í heiminn sem slík, hvorki meira né minna og í sama skilningi.
Þetta er rétta augnablikið til að benda á þær fölsku andstæður sem hafa verið búnar til á milli þess sem kallað er hlutlægt (concrete) og fígúratíft (hlutbundin ímynd). Ef hægt er að fylla vasann, þá er það fyrst og fremst vegna þess að hann er tómur í kjarna sínum. Það gerist með nákvæmlega sama hætti og tal og orðræða geta verið full eða tóm.
Þetta er vandamál sem við tókum til umræðu á ráðstefnu sem haldin var í Royaumont, þar sem ég lagði áherslu á þá staðreynd að sinnepskrukka hafi að geyma þá staðreynd að hún kynnir sig í kjarna okkar hversdagslífs sem tóma sinnepskrukku. Þetta var athugasemd, sem örugglega hefur verið meðtekin sem hugarórar eða hroki. En þessi athugasemd fær sinn rökstuðning í þeirri röksemdafærslu sem ég legg nú hér fram. Gangið nú eins langt og ímyndunarafl ykkar leyfir í þessa átt. Ég set það í raun ekki fyrir mig ef þið sjáið fyrir ykkur guðdómlegt fyrirbæri í nafninu Bornibus (þekkt frönsk sinnepstegund), nokkuð sem er kunnuglegasta og algengasta formið sem sinnepskrúsir taka á sig, þar sem það er einmitt Bornibus sem fyllir þessar krúsir. Þetta setur okkur mörk – við erum ef svo mætti segja, skilyrt af Bornibus. (nafnið á Bornibus-sinnepinu er hér notað í orðaleik með líkinguna við afturbeygða sagnorðið „se borner“ sem merkir að setja sér mörk,)
Dæmið um sinnepskrúsina og leirvasann leyfir okkur að kynna til sögunnar það hringtorg sem höfuðvandi „Þingsins“ hefur snúist um, allt til þess að verða grundvallaratriði siðfræðinnar og felst einfaldlega í spurningunni hvort heimurinn hafi verið skapaður af skyni gæddri veru. Ef Guð skapaði heiminn, hvernig stendur þá á því að heimurinn sé í jafn slæmu ástandi og raun ber vitni, óháð því hvað við tökum okkur fyrir hendur?
Leirkerasmiðurinn hefur verk sitt með Því að hafa á milli handanna meira eða minna fíngerðan leirklump. Það er einmitt á þessum punkti sem trúboðar okkar setja okkur stólinn fyrir dyrnar, rétt til að láta okkur hlusta á kvalastunur leirklumpsins í höndum leirkerasmiðsins. Trúboðinn lætur hann tala með sem átakanlegustum hætti, allt að kvalastununum, og lætur hann spyrja skapara sinn hvers vegna hann fari um sig jafn hörðum höndum – eða þvert á móti, jafn mjúkum höndum. Það sem er hins vegar á huldu í þessari goðafræði sköpunarsinnanna, og merkilegt nokk, einnig hjá þeim sem styðjast við dæmið um vasann, sem er svo kunnuglegur í hugmyndasmíðum um sköpunarferlið (ég sagði ykkur að þeir væru alltaf rithöfundar sem starfa af gildum ástæðum á mörkum trúarbragða og goðafræði) – það er sú staðreynd að vasinn er búinn til úr áþreifanlegu efni. Ekkert er búið til úr engu.
Öll heimspeki fornaldarinnar snýst um þetta atriði. Ef okkur reynist erfitt að hugsa aristótelíska heimspeki, þá er það vegna þess að hana verður að hugsa út frá þeirri forsendu sem aldrei gleymir því að efnið er eilíft og að ekkert er gert úr engu. Sem felur aftur í sér að við erum djúpt sokkin í mynd af heiminum sem opnar aldrei fyrir þann möguleika, ekki einu sinni fyrir sjálfan Aristóteles – og það er erfitt að hugsa sér jafn voldugan hugsuð í gjörvallri sögu mannsandans – að stíga út fyrir það lokaða rými sem himinhvolfið myndar fyrir augum hans, og þar með að sneiða hjá því að hugsa heiminn, einnig heim mannlegra samskipta eða heim tungumálsins, eins og það sem er innifalið í þeirri eilífu náttúru sem er í grunni sínum takmörkuð.
Ef við lítum nú á vasann út frá því sjónarhorni sem ég gekk út frá í upphafi, að hann væri hlutur skapaður til að standa fyrir eða sýna (represent) tilvist tómsins sem miðju þeirrar raunveru sem við köllum „Þingið“, þá er þetta tóm eins og það sýnir sig í sýningunni sem nihil, sem ekkert. Það felur í sér að leirkerasmiðurinn, rétt eins og þú sem ég nú tala til, skapar vasann með eigin höndum utan um þetta tóm, skapar það rétt eins og hinn dularfulli skapari, ex nihilo, þar sem byrjað er á holinu.
Allir búa til brandara um makkarónurnar, því þær eru hol með eitthvað utan um sig, eins og fallbyssuhlaupin. Sú staðreynd að þetta kitlar hláturtaugarnar breytir ekki staðreynd málsins, því hér blasir við að það að búa til nefnara og að búa til holrými í raunverunni er eitt og hið sama.
René Magtritte: Representation („Endursýning“), 1937
Mér er minnisstæð kvöldstund sem ég átti með einum af afkomendum þeirra konunglegu bankamanna sem höfðu tekið á móti skáldinu Heinrich Heine, þegar hann kom Parísar fyrir um hundrað árum síðan. Ég kom honum á óvart með fullyrðingum mínum um nútíma vísindi – ég held að undrun hans sé enn vakandi og ekki undir það búin að jafna sig – en fullyrðingin varðaði tilkomu þeirra vísinda sem við kennum við Galileo Galilei, nánar tiltekið að þessi vísindi hefðu einungis getað fæðst og þróast út frá biblíulegri eða gyðinglegri hugmyndafræði, en ekki út frá fornri heimspekihefð eða hinni Aristótelísku hefð. Sívaxandi geta og máttur tákngervingarinnar hefur ekki linnt látum við útvíkkun athafnasviðs síns frá tímum Galileo, og hefur heldur ekki linnt látum við að gleypa í sig öll þau fyrirbæri er gætu hugsanlega takmarkað athafnasvæðið við tiltekin svið upplýsinga. Með því að veita leiknum með nefnarana óheft athafnasvæði hafa orðið til vísindi sem stefna að sívaxandi samsvarandi heild, án þess þó að nokkuð skipti minna máli en það sem er til staðar á hverjum tíma.
Með öðrum orðum, þá er himinhvolfið ekki lengur til, og allir himnakropparnir sem eru hér besta viðmiðunin, birtast okkur eins og þeir gætu allt eins ekki verið til staðar. Raunveruleiki þeirra, eins og tilvistarstefnan myndi segja, einkennist fyrst og fremst af staðreyndatali, þeir eru í grundvallaratriðum skilyrtir (contingent).
Rétt er líka að minna á að það sem okkur er tjáð með orku/efnis-jöfnunni er að einn góðan veðurdag gætum við séð alla samloðun birtingarmyndarinnar sundurtætta, allt út frá gjánni (gap) sem við höfum fest í hana, þannig að öll myndin gæti horfið okkur sjónum.
Með tilkomu þessa tilbúna nefnara, sem er vasinn, höfum við þegar til staðar skilning á sköpun sem er ex nihilo (úr engu). Og þessi skilningur á sköpun ex nihilo er fullkomlega samsvarandi stöðu „Þingsins“ sem slíks. Það er einmitt á þessu sviði sem framsetning og jafnvægisstilling siðferðilegra vandamála hefur verið staðsett í gegnum aldirnar, en einkum þó á þeim öldum sem standa okkur næst og hafa haft mótandi áhrif á okkur.
Til er staður í Biblíunni sem einkennist af glaðlegri bjartsýni, og segir okkur að Drottinn hafi lokið við hinn fræga sex daga sköpunargjörning sinn og hugleitt hann í lokinn og séð að hann var „harla góður“. Við getum sagt það sama um leirkerasmiðinn við verkalokin – verkið er gott, það er heilsteypt, það er umlykjandi. Með öðrum orðum þá er það ávallt gott frá sjónarhorni verksins.
Engu að síður vita allir hvað getur komið úr vasa eða hvað hægt er að láta í hann. Augljóslega er engin bjartsýni réttlætanleg út frá því hvernig málin ganga fyrir sig í heimi mannanna eða hvað þau kunna að leiða af sér. Þannig hefur kreppa samviskunnar kristallast út frá spurningunum um ávinning eða kostnað verksins, en að minnsta kosti á Vesturlöndum hafði þessi samviska verið í jafnvægisástandi sem lauk á tímanum sem ég vísaði í um daginn, þegar ég vitnaði í sígilda setningu Marteins Lúthers – manns sem lengi hefur nagað kristilega samviskusemi. (Hér notar Lacan orðaleik um tvíræða merkingu franska orðsins conscience, sem getur bæði merkt samvisku og (með-vitund. ) En Lúther hélt því fram að vinnan eða gjörningurinn væru ekki innistæður verðleika.
Hér er ekki um neina ómerka trúvillu að ræða. Það eru gild rök fyrir slíkri afstöðu. Til þess að skilja betur á trúflokkaflóðið, sem hefur meðvitað eða ómeðvitað orðið viðskila vegna spurningarinnar um hið illa, er upplagt að styðjast við þá einföldu þrískiptingu sem útlegging okkar á dæminu um vasann kennir okkur.
Í erfiðri leit mannsins að uppruna hins illa upplifir hann sig standa frammi fyrir þrem kostum, því um aðra er ekki að ræða.
Það er gjörningurinn, verkið, og þetta er afneitunarafstaða sem aðrir hópar hefðbundinnar visku en okkar hafa tileinkað sér. Sérhvert verk er í sjálfu sér skaðlegt, og það hefur í för með sér afleiðingar sem hafa að minnsta kosti jafn margar neikvæðar og jákvæðar hliðar. Þessi afstaða birtist með formlegum hætti í Taoisma, svo dæmi sé tekið, að því marki að það er varla liðið að menn noti til dæmis vasa sem skeið – með því að innleiða skeiðina í heiminn hefur heimurinn þegar öðlast flóðbylgju díalektískra mótsagna.
Svo er það efnið. Þar mætum við þeim kenningum sem ég geri ráð fyrir að þið hafið heyrt eitthvað um, en það eru kenningar trúarhóps sem kenndur er við Katara – nafn sem við vitum ekki hvaðan er komið. Þetta er mál sem kallar á smá umfjöllun.
3.
Ég ætla ekki að flytja ykkur fyrirlestur um Katara-trúna, en ég mun benda ykkur á hvar hægt er að finna góða heimild um efnið, í bók sem þið hafið örugglega heyrt minnst á, nefnilega Love and the Western World eftir Denis de Rougement. Það er hvorki besta bókin um efnið, né hin djúphugsaðasta, en hún er skemmtilestur.
Ég las mig í gegnum þetta í endurskoðaðri útgáfu, og við seinni lesturinn voru vonbrigði mín minni en ég átti von á. Mér líkaði lesturinn næstum því. Í bókinni má finna alls konar staðreyndir í tengslum við hina sérstöku kenningu höfundarins, og þessar staðreyndir hjálpa okkur að skilja þá djúpstæðu kreppu sem hugmyndafræði eða öllu heldur guðfræði Kataranna stendur fyrir, andspænis þróunarsögu vesturlenskrar hugsunar. Því hér snýst málið um hinn Vesturlenska mann, jafnvel þótt höfundurinn sýni okkur að vandamálið eigi frekar rætur sínar við jaðarmörk þess sem við erum vön að kalla Vestrið. En þetta er hugtak sem ég hef engar sérstakar mætur á, og enginn ætti að líta á sem miðlægt hugtak í minni hugsun.
Engu að síður gerist það á vissum tímapunkti í lífi Evrópubúa að þeirri spurningu er varpað fram, hvað sé í raun og veru rangt við sköpunina sem slíka. Þessi spurning var sett fram af fólki sem bjó við hugsanagang sem við getum illa gert okkur grein fyrir, né heldur hvaða djúpstæðari hugsanir sú trúarlega og dulspekilega hreyfing stóð fyrir sem við kennum við Katara-trúvilluna. Jafnvel má segja að um sé að ræða eina dæmið í sögunni þar sem tímabundið yfirvald reyndist svo afgerandi að því tókst að nánast þurrka út öll spor réttarhaldanna. Þannig voru hin hörðu viðbrögð (tour de force) hinnar heilögu Kaþólsku kirkju í Róm. Við erum háð heimildaleit í skúmaskotum og fáar þessara heimilda eru áreiðanlegar. Dómsskjöl Rannsóknarréttarins eru horfin, og allt sem við finnum eru örfá óbein vitni hér og þar. Til dæmis er munkur af reglu Dómenikana sem segir okkur að Katarar hafi verið gott fólk með djúpa kristna trú og það hafi lifað einstaklega hreinu og siðavöndu lífi.
Ég get vel keypt það að siðavendni þeirra hafi einkennst af óvenjulegum hreinleika, því þeim bar í grunninn að forðast sérhvern þann verknað er gæti með nokkrum hætti orðið til eilífðar-framlengingar heimsins, sem þeir töldu að væri óhreinn og illur í kjarna sínum. Þannig var hin fullkomna iðja fólgin í viðleitninni að öðlast dauða með eins kærulausum hætti og unnt var, því það fæli í sér endursameiningu við þann Edenlíka heim sem einkennist af hreinleika og ljósi, hinn sanna heim hins upprunalega og góða Skapara eða Frumglæðis. En sköpunarverk hans hafði verið saurgað með aðkomu hins illa Skapara. Sá síðarnefndi hafði innleitt þann skelfilega þátt í heiminn sem fólst í getnaði og spillingu, sem er það sama og umbreyting.
Hugmyndin um að varanleiki efnisins sé rót hins illa á rætur sínar í hugmyndum Aristótelesar um umbreytingu eins efnis yfir í annað efni sem síðan framlengist sjálfkrafa
Eins og þið sjáið, þá er lausnin einföld. Hún felur í sér vissa samkvæmni, þó hún feli ekki í sér allan þá rökfestu sem við teldum ákjósanlega.
Ein þeirra sjaldgæfu áreiðanlegu heimilda sem við höfum um þessi mál – því við vitum í raun og veru ekki hvað fólst í grundvallar kenningu Katara -, er seinni tíma verk, sem þess vegna býður upp á vissar efasemdir. Þessi heimild fannst 1939 og var gefin út undir titlinum Book of Two Principles. Það er auðvelt að nálgast hana í ágætri bók sem nefnist Cathar Writings og René Nelli ritstýrði.
Hið illa býr í efninu. En hið illa getur líka verið annars staðar. Spurningunni er ósvarað. Svarið er hins vegar óhjákvæmilegur lykill, ef við viljum skilja hvaða sögulegi atburður varð til þess að breyta siðferðishugsun mannsins gagnvart hinu illa. Hið illa getur ekki eingöngu verið bundið við verkin og gjörðirnar, ekki við hinn andstyggilega efnisheim – sem öll meinlætaviðleitni beinist þar af leiðandi gegn – án þess að rata inn í þann heim sem við kennum við dulhyggju, og gæti allt eins verið kallaður goðsagnalegur eða jafnvel ímyndaður heimur blekkinga – hið illa gæti leynst í „Þinginu“.
René Magritte: Ógnardagar, 1928
Hið illa gæti verið í „Þinginu“ að því tilskyldu að það sé ekki nefnarinn sem stýrir verkinu eða að því tilskyldu að hann sé ekki inntak verksins. sem það er heldur ekki efni verksins, heldur einungis að því marki sem það viðhaldi nærveru mannlega þáttarins í hjarta sköpunargoðsagnarinnar sem allt hitt hvílir á. Innan sviga mætti taka fram að hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, jafnvel þó þú gefir skít í Skaparann – þá er það engu að síður satt, að þú hugsar um ímynd hins illa og nálgast það á forsendum sköpunarsinnans.
„Þingið“ skiptir hér máli að því marki sem það er hugsað út frá þeirri staðreynd að það skilgreini mannlega þáttinn, – jafnvel þó við vitum mætavel að mannlegi þátturinn gengur okkur úr greipum.
Við getum ekki skilgreint „mannlega þáttinn“ í þessu samhengi öðruvísi en þeim sem ég skilgreindi „Þingið“ rétt í þessu, það er að segja sem það í raunverunni sem þjáist fyrir tilverknað nefnarans.
Hafið nú eftirfarandi í huga: hugsun Freuds kennir okkur að spyrja spurningarinnar hvað það sé í raun og veru sem við finnum í kjarna nautnalögmálsins, en það er nokkuð sem er handan nautnalögmálsins og að öllum líkindum það sama og ég kallaði um daginn hinn grundvallandi góði eða illi vilji. Auðvitað er það rétt að hvers kyns gildrur og freistingar koma fram í hugsun manns, eins og til dæmis hvað það er sem við köllum mann – eins og það væri leikur einn að skilgreina mann – sé í grundvelli sínum gott eða illt. En spurningin snýst ekki um það, heldur öllu frekar um heildina. Staðreyndin er sú að maðurinn býr sjálfur til þennan nefnara og kynnir hann fyrir heiminum. Með öðrum orðum, þá verðum við að vita hvað hann býr til þegar hann býr það til í mynd „Þingsins“ þegar það er höfuðeinkenni „Þingsins“ að ekki er mögulegt að ímynda sér það. Það er hér sem við rekumst á vandamál göfgunarinnar.
Þetta er ástæða þess að ég hef valið sögu Minne (orð notað um mansöngva frá miðöldum) sem upphafspunkt. Ég byrja þar vegna einstaks gildis þessarar ljóðahefðar, og vegna þess að orðið er án allrar tvíræðni á þýsku. Minne er gjörólíkt Liebe, en í frönsku höfum við einungis eitt orð, „amour“ eða ást.
Vandamálið sem sett var fyrir áðurnefndan höfund varðar tengslin sem kunna að vera á milli hinnar mjög svo djúpu og leyndu trúvillu sem varð ríkjandi í Evrópu undir lok elleftu aldar – án þess að við vitum nákvæmlega hversu langt aftur í söguna þetta náði annars – og þeirrar birtingar, framsetningar og innleiðingar heils siðaramma sem var fullkomlega siðfræðilegur lífsmáti og kallaðist hofmannaástir (courtly love).
Það eru engar ýkjur að halda því fram að þegar menn hafa einu sinni rannsakað allar sögulegar, félagslegar, pólitískar og hagfræðilegar aðstæður og beitt öllum tiltækum túlkunaraðferðum hinnar samfélagslegu yfirbyggingar, þá hafa sagnfræðingar samtíma okkar sammælst um að vandinn sé óleysanlegur.
Ekkert getur gefið okkur sannfærandi skýringu á vinsældum þessarar einstöku tísku á tímum sem – trúið mér – voru alls ekki svo umburðalyndir eða siðmenntaðir. Þvert á móti var um að ræða samfélag sem var skríða út úr fyrsta tímaskeiði lénsveldisins, sem hægt er að lýsa í stuttu máli sem afmörkuðu landsvæði er stýrt var af glæpamönnum. Einmitt þar finnum við skyndilega siðareglur er stýra sambandi manna og kvenna er bera öll einkenni stórfurðulegrar þversagnar.
Með hliðsjón af tíma okkar þá ætla ég ekki að hefja umræðuna um þetta í dag. Þið ættuð hins vegar vera undirbúin undir það sem ég ætla að fjalla um næst. Það mun hafa með hin tvíræðu og leyndardómsfullu vandamál hins kvenlega viðfangs að gera.
Látið ykkur ekki til hugar koma að þetta sé eitthvað er varði mig sérstaklega. Ég mun ekki reyna að beita mínum veika rannsóknarmætti á þetta viðfangsefni. En sú staðreynd að þetta viðfangsefni lofgerðar, þjónslundar, hollustu og hvers kyns tilfinnigasemi staðlaðrar hegðunar sem einkennir dýrkendur hofmannaástanna gagnvart hefðardömunni, fær einn fræðimanninn til að segja að svo virðist sem þessir söngvarar hafi allir verið að lofsyngja sömu persónuna. Og það er staðreynd sem við getum reiknað með að skilji eftir spurningarmerki. Fræðimaðurinn sem hér um ræðir er Hr. André Morin, prófessor í bókmenntadeild Université de Lille, en við eigum honum einnig að þakka vandaða safnútgáfu Minnesang, sem Aubier gaf út.
Sköpunarverkið sem hér um ræðir er angi viðfangsefnis sem á eðlilega eftir að vekja furðu okkar: hvað var hið raunverulega hlutverk þeirra mannvera af holdi og blóði sem hér áttu hlut að máli? Okkur er ekkert að vanbúnaði að nefna þessar hefðarkonur og fólkið sem var í miðri útbreiðslu þessa nýja stíls og lífsmáta á því tímaskeiði sem hann varð til. Við þekkjum fyrstu stjörnurnar í þessari félagslegu farsótt jafn vel og við þekkjum Herra Sartre og Frú de Beauvoir. Eleanor frá Aquitaine er engin goðsagnavera, ekki frekar en dóttir hennar, greifynjan af Champagne.
Aðalatriðið verður að sjá hvernig vissar af þeim gátum, sem sagnfræðingarnir hafa sett fram um þessi mál, má leysa út frá þeirri kennisetningu sem ég er hér að halda fram, kennisetningu sálgreiningarinnar. Að hve miklu leyti leyfir hún okkur að skýra fyrirbærið sem göfgunargjörning (work of sublimation) í sinni hreinustu mynd?
Þið munið sjá í smáatriðum hvernig það var gerlegt að gefa viðfangi, sem í þessu tilfelli var kallað Hefðarfrúin (The Lady) gildi þess að standa fyrir „Þingið“. Til þess að gefa ykkur hugmynd um slóðina sem ég ætla að rekja til þess augnabliks er ég yfirgef ykkur í Febrúar, þá bið ég ykkur að taka eftir að þetta mun gefa mér færi á að fylgja málinu eftir og sýna fram á þau áframhaldandi þróunarferli er varða tilurð þess sem við köllum hið kvenlega viðfang, þar á meðal hvernig þetta vandamál snýr að okkur í dag. Við munum nálgast viðfangsefnið út frá hinum greinandi formgerðum.
Eftir febrúarhléið er markmiðið að leyfa ykkur að reikna út frumleikann í framlagi Freuds til þessara mála.
Hugmyndin um sköpun er samtvinnuð hugsun ykkar. Þið getið ekki hugsað, enginn getur hugsað, nema á forsendum sköpunar. Það sem ykkur er tamast í hugsanagangi ykkar, það er að segja þróunarhyggjan (evolutionism), er innbyggt í ykkur eins og samtímafólk ykkar, eins og varnarviðbúnaður og viðhald í trúarlega handfestu sem kemur í veg fyrir að þið sjáið það sem er að gerast í heiminum í kringum ykkur. Hvort sem þið vitið það eða ekki, þá er það er ekki vegna þess að þið (og allir aðrir) eruð fangin í hugsuninni um sköpunina sem Skaparinn er stöðugt í sjónmáli ykkar.
Það er augljóst að Guð er dauður. Það er nokkuð sem Freud tjáir frá upphafi til enda goðsagnar sinnar. Þar sem Guð stafar af þeirri staðreynd að Faðirinn er dáinn, þá merkir það augljóslega að við öll höfum skilið að Guð er dauður. Það er líka ástæða þess að Freud veitir efninu svo mikla athygli. Um leið er það svo að það er hinn upprunalega dauði Faðir sem Guð endurleysir, þá var hann einnig dauður frá byrjun. Spurningin um Skaparann hjá Freud tengist þess vegna í dag við það sem heldur áfram að virka á þessu sviði.
Þetta er markmið rannsóknar okkar í ár; form spurningarinnar um hvað „Þingið“ er í raun og veru kallar á andsvar okkar. Það er nokkuð sem Freud hugleiðir í sálfræði hvatanna, en það sem hann kallar Trieb getur með engu móti takmarkast við hinn sálfræðilega skilning. Um er að ræða fullkominn verufræðilegan (ontological) skilning, sem er andsvar við samviskukreppu sem okkur ber skylda til að bera kennsl á, því við erum að upplifa hana.
Hvernig svo sem við upplifum samviskukreppuna, þá er markmið þess sem ég er að reyna að opna augu ykkar fyrir jafnframt tilraun til að gera ykkur hana ljósa.
René Magritte: Að gera hið ómögulega, 1928. Höfundur málar málverlið, höfundur málar „fyrirmyndina“ og sjálft málverkið. Fyrirmyndin er Georgette Magritte, eiginkona málarans.
Forsíðumyndin er málverkið „Falskur spegill“ eftir René Magritte frá 1928
LACAN SKYNJAR "HLUTINN Í SJÁLFUM SÉR" Í GEGNUM ELDSPÝTUSTOKKINN
Í framhaldi af færslunni með ritgerð Heideggers um "das Ding - leirkrúsina" og fyrirlestri Agambens um Kant og Heidegger er við hæfi að birta kaflabrot úr Sjöunda Seminari Jacques Lacans um Siðfræði sálgreiningarinnar, þar sem sömu mál eru á dagskrá, en skoðuð frá gjörólíku sjónarhorni. Það eru fyrirlestrarnir um "das Ding" eða "þingið" sem hefur sérstaka merkingu í sálgreiningu Freuds sem Lacan tengir jafnframt við göfgunarhugtakið, sem hann tók upp frá Kant en túlkaði á sinn hátt. Freud tengir "þingið" við löngunina, en Lacan þróar þær hugmyndir lengra og dregur í því skyni fram gamla endurminningu sem hann hafði frá stríðsárunum um veggskreytingu sem hann hafði séð á heimili vinar síns, ljóðskáldsins Jacques Prévert, og var gerð úr tómum eldspýtustokkum. Þessi veggskreyting verður Lacan tilefni til skýringar á eldspýtustokknum sem "das Ding", sem verður hjá honum mynd er nær langt út yfir hinn einfalda nytjahlut, rétt eins og lýsing Heideggers á leirkrúsinni. Lacan sér í veggskreytingu Préverts dæmi um göfgun hlutarins þar sem hann hefur verið gæddur nýju gildi sem er í senn listrænt og siðferðilegt. Þó nálgunaraðferð Lacans sé allt önnur en Heideggers, þá eru hugmyndir þeirra skyldar, þar sem þeir ganga gegn hefðbundinni frumspekilegri skilgreiningu til þess að nálgast kjarna hlutarins sem veru. Lýsing Lacans á eldspýtnaverkinu er tvíræð og hefur í senn erótíska vísun, þar sem "skúffa" eins eldspýtustokks er hálfopin og stunginn inn í þann næsta og þannig koll af kolli í eins konar æxlunarleik, sem jafnframt hefur óbeina vísun í skilning Lacans á tungumálinu, sem hann segir, ólíkt Freud, að stýri dulvitund mannsins. Út frá Saussure leggur Lacan áherslu á vensl hugtakanna /orðanna og hlutanna sem þau vísa til. Þar eru orðin "signifier" (hér þýtrt sem nefnari) og hluturinn "signified" (hér þýtt sem "hið nefnda"). Samkvæmt skilningi Lacans á tungumálinu geta "nefnarar" endanlega ekki vísað í annað en annan "nefnara" sem gerir það að verkum að tungumálið byggir á keðju nefnara. Keðja eldspýtustokkanna í stofu Préverts verður þannig eins og mynd af tungumálinu, þótt Lacan komistr ekki þannig að orði í þessum fyrirlestri. En umfjöllunin um eldspýtustokkana og "göfgun" þeirra verður að mikilvægu forspjalli um hofmannaástirnar sem Lacan fjallar um í næstu fyrirlestrum. Það er framhaldssaga þessa fyrirlesturs, sem er eins og öll seminör Lacans, munnleg blaðalaus framsetning, skráð af nemendum hans og síðan yfirfærð í einar 20 bækur sem tengdasonur Lacans, sálgreinirinn Jacques-Allain Miller hefur séð um útgáfu á. Þessi seminör eru einstök í evrópskri bókmenntasögu, því bindin 20 eru ekki skrifuð af höfundi sínum, heldur nemendum hans, sem voru tilvonandi fagfólk í sálgreiningu. Hugmyndir Lacans um listræna sköpun og tengsl hennar við göfgunina, löngunina og lífshvötina hafa grundvallar þýðingu í allri listgagnrýni okkar tíma, og þar skiptir greining Lacans á ástarsöngum miðalda í Þýskalandi og Frakklandi ekki síst máli, það sem við köllum ljóðlist hofmannaástarinnar. Fyrir nokkrum árum snéri ég kaflanum um hofmannaástirnar á íslensku og er hann hér á vefsíðunni sem 10. fyrirlestur námskeiðsins. Níundi fyrirlesturinn um "sköpun úr tóminu" er væntanleg hér á síðuna sem framhald þessarar umræðu.
Jacques Lacan:
Siðfræði sálgreiningarinnar
Hluturinn og hin listræna göfgun
Eldspýtustokkurinn og das Ding
Seminar VII; Seinni hluti 8. fyrirlesturs: „Hluturinn og þingið“
(Endursögn úr enskri þýðingu Dennis Porter The Ethics of Psychoanalysis 1959-1960, Routledge útgáfan 2008, ritstj. Jacques-Allain Miller)
…
Hafið í huga að ekkert rétt gildismat á göfgun í listum er mögulegt ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að öll listræn framleiðsla, en einkum þó myndlistin, er sögulega skilyrt. Við málum ekki málverk á tíma Picasso með sama hætti og málað var á tímum Velazquez, við skrifum ekki skáldsögu á fjórða tug 20. aldar eins og gert var á tíma Stendhal. Þetta er grundvallar atriði sem við þurfum ekki að setja undir mælistiku hins félagslega eða einstaklingsbundna, allavega ekki í bili. Við getum þá sett það á menningarbásinn. Hvað er það sem samfélagið sér jákvætt í þessu mati? Það er spurningin sem við leitum svars við.
Vandamál göfgunar (sublimation) er til staðar, þeirrar göfgunar er getur af sér tiltekinn fjölda forma, sem heyra ekki bara undir listirnar, en við munum hins vegar einbeita okkur sérstaklega að einni listgrein, bókmenntunum, sem standa svo nærri sviði hins siðferðilega. Þegar allt kemur til alls, þá er það virkni siðferðisins sem setur okkur mælikvarða gildisdóma á göfgunina: það skapar gildi sem eru viðurkennd af samfélaginu.
Hversu þversagnarkennt sem það kann að virðast, þá held ég að við verðum að taka mið af þeim hugsunum sem ollu straumskiptum í þessu gildismati, en það eru sjónarmið Kants á þessu sviði.
Ásamt með hugmyndinni um das Ding (Hlutinn, þingið), sem við vonum sannarlega að leggist á jákvæðu vogarskálina, þá mætum við á hinn bóginn hugmyndum Kants um skylduna. Það er önnur leið til að leggja á vogarskálarnar. Kant boðar setningu algildra siðareglna sem eru með öðrum orðum þyngdarafl rökhugsunarinnar. Auðvitað situr þá eftir að meta hvernig þetta þyngdarafl leggst á mannfólkið.
Það hefur alltaf augljósan kost í för með sér að lesa höfunda á frummálinu. Um daginn vakti ég athygli ykkar á hugtakinu Schmerz, sársauka, sem fylginaut siðferðilegrar breytni. Ég tók eftir því að jafnvel sum ykkar sem þekktu þessa texta fyrir, náðu ekki að skilja ábendingu mína. En ef við opnum núna Kritik der reine Vernuft (Gagnrýni hreinnar skynsemi), þá getum við séð að Kant hefur dregið fram kennslufræðileg dæmi sem eiga að auka skilning okkar á þungavigt skynseminnar. Og þessi dæmi eru stórbrotin í skýrleika sínum. Um er að ræða tvöfalda dæmisögu sem á að fá okkur til að finna þungann af siðferðislögmálinu með hreinum og einföldum hætti, hina voldugu yfirdrottnun skyldunnar gagnvart öllu því sem menn kunna að upplifa sem lífsnauðsynlega löngun.
Lykilinn að sönnuninni liggur í samanburði tveggja aðstæðna. Hugsum okkur, segir Kant, að til þess að öðlast stjórn á öfgum skynfíkilsins (sensualist) séu settar upp tvær sviðsmyndir: Við höfum svefnherbergi þar sem konan sem hann girnist dvelur. Honum er veitt leyfi til að fara í þetta herbergi og fullnægja löngun sinni eða þörf, en handan við útgöngudyrnar sem hann þarf að fara í gegnum að athöfninni lokinni, býður hans gálgi sem hann verður hengdur í. Þetta er þó smáatriði, og ekki kjarninn í siðaboðskap Kants. Við erum rétt ókomin að lyklinum að sönnuninni. Hvað Kant varðar, þá fer ekki á milli mála að gálginn sé fullnægjandi hemill á lönguninni: engum dettur í hug að fara að ríða konu þegar hann veit að hans býður henging að afloknu verki.
Næst kemur hins vegar sviðsmynd þar sem útkoman er sambærileg í hryllingi sínum, en þar varðar málið harðstjóra sem býður einhverjum að velja á milli gálgans og þess greiða að bera fram falsvitni gegn vini sínum. Kant leggur hér réttilega áherslu á að vel megi skilja þann sem kýs eigið líf fram yfir það að bera falsvitni, sérstaklega ef fyrirfram er vitað að hinn falsi vitnisburður muni ekki hafa hörmulegar afleiðingar fyrir vininn.
Það sem hér skiptir meginmáli er að vald sönnunargagnsins er hér sett í hendur veruleikans – til raunverulegrar hegðunar einstaklingsins. Kant biður okkur að hugleiða hér áhrifamátt þunga raunveruleikans, en sá þungi er að mati Kants jafngildur þunga skyldunnar.
Með því að fylgja þessari frásögn uppgötvum við að eitthvað hefur farið úrskeiðis. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ekki hægt að útiloka þær aðstæður að viðkomandi persóna í fyrra dæminu myndi kannski ekki bjóða sig fram til að verða hengdur, en að minnsta kosti hugleiða þann valkost.
Heimspekingurinn okkar frá Köningsberg var sómamaður, og ég myndi ekki gefa í skyn að hann væri að einhverju leyti lítilmótlegur eða ástríðulaus, en hann virðist ekki hafa hugleitt vissar aðstæður sem Freud hefði kallað Űberschätzung eða ofmat viðfangsins – og ég myndi hér eftir kalla göfgun hlutarins. En það eru aðstæður þar sem ástarástríðan öðlast sérstaka þýðingu (og eins og þið munið sjá, þá stefnir sú díalektík sem ég ætla nú að leggja fyrir ykkur í þessa átt, þar sem ég hugsa mér að kenna ykkur hvernig hægt er að samsama sig við það sem göfgunin felur í raun í sér). Þetta á sérstaklega við um göfgun (sublimation) hins kvenlega viðfangs, upphafningu þess sem við köllum ást – ein tegund upphafningar sem á sér sögulegar rætur.
Í stuttu innslagi sem ég átti með ykkur um daginn gaf Freud okkur innsýn í þetta mál, þar sem hann segir að í nútímanum beinist libido (lífshvötin) að viðfanginu eða hlutnum, frekar en að eðliávísuninni (nokkuð sem vekur mikilvæga spurningu sem ég mun með ykkar leyfi kynna ykkur fyrir. En það er viðfangsefni sem kallar á nokkrar kennslustundir um fyrirbæri í þýskri sögu sem ég tengdi um daginn við söguna af Hamlet, nefnilega Minne (ást eða mansöngvar á miðaldaþýsku), með öðrum orðum kenningasmíð og iðkun hofmannaásta (courtly love) – og hvers vegna skyldum við ekki eyða völdum tíma í það miðað við allan þann tíma sem við eyðum í þjóðháttarannsóknir almennt? Sérstaklega ef mér tekst að sannfæra ykkur um að þetta varði sérstaklega viss tengsl okkar við hlutina, sem eru óhugsandi án þessara sögulegu forsendna). Þannig er það hugsanlegt við sérstakar aðstæður göfgunar (sublimation) að slík skref séu stigin, eitt af öðru. Hér er að öllu sögðu um heilan flokk sagna að ræða er byggja á hugarórum, ef ekki á sérstökum sögulegum aðstæðum. Einnig höfum við margar hliðstæðar og gildar sögusagnir í dagblöðunum. Allt leiðir þetta að þeirri niðurstöðu að það sé ekki óhugsandi fyrir karlmann að sofa hjá konu vitandi að hann verði sleginn af á útleiðinni, í gálganum eða hvernig sem er (augljóslega flokkast þetta allt undir ástríðuöfgar, fyrirsögn sem vekur margar spurningar). Það er ekki óhugsandi að þessi maður gangist undir slíkan möguleika með köldu blóði – allt fyrir ánægjuna af því að brytja viðkomandi hefðarmey í marga parta, svo dæmi sé tekið.
Hitt dæmið sem við getum séð fyrir okkur á sér ótal fyrirmyndir í annálum afbrotafræðanna. Það er auðvitað dæmi sem breytir aðstæðunum og ekki síst gildi fordæmis Kants.
Ég hef þá dregið fram tvö atriði sem Kant hafði ekki séð fyrir, tvö form yfirgangs (transgression) sem er handan þeirra marka sem venjulega eru eignuð nautnalögmálinu, og eru andstæð því raunveruleikalögmáli sem við höfum til viðmiðs. Um er að ræða yfirgengilega göfgun viðfangsins, sem yfirleitt gengur undir nafninu afvegaleidd siðspilling eða öfuguggaháttur (perversion). Göfgun og perversion eru bæði spunnin úr löngun sem beinir athygli okkar að mögulegri skilgreiningu (hugsanlega í formi spurningar) á öðrum mælikvarða annars eða sama siðferðis, andstætt raunveruleikalögmálinu. Því til er önnur siðferðisregla sem gengur út frá því sem tilheyrir sviði das Ding (hluturinn, þingið). Það er siðferðið sem fær einstaklinginn til að hika þegar hann er kominn á fremsta hlunn með að bera fram falskan vitnisburð gegn das Ding, það er að segja kominn á stað löngunarinnar, hvort sem um er að ræða göfgun eða spillingu.
Við erum hér á hálfgerðu ráfi, fylgjandi slóðum greinandi skynsemi, sem er í raun ekki það sama og annars konar almenn skynsemi hversdagsins. Þegar við komumst á svið das Ding opnast fyrir okkur svið Triebe, hvatanna. En með hvötunum á ég við, rétt eins og Freud kenndi okkur, nokkuð sem ekki er hægt að fullnægja með málamiðlun og hófstillingu (moderation); með þessari hófstillingu sem samstillir af yfirvegun samskipti manneskjunnar við meðbræður sína á hinum ýmsu þrepum stigveldisins í samræmdri reglu, allt frá hjónabandinu til Ríkisins með stóru R.
Við þurfum nú að hverfa aftur til göfgunarinnar eins og Freud skilgreinir hana fyrir okkur.
Hann tengir göfgunina við Triebe, (hvatirnar) sem slíkar, og það er einmitt þessi tenging sem gerir kenningarsmíðina erfiða fyrir sálgreininguna.
Þið verðið að fyrirgefa að ég skuli ekki lesa fyrir ykkur í dag vissa kafla úr Freud, sem ykkur myndi hugsanlega leiðast, og ég mun taka fyrir við rétt tækifæri, þegar þið hafið skilið gildi þess að taka eina stefnu frekar en aðra varðandi afstöðuna til hinnar freudísku kenningar.
Ég held hins vegar að ég geti ekki viðhaldið áhuga ykkar hér án þess að skýra hvert markmið mitt er, eða hvert ég vildi leiða ykkur.
Freud segir okkur að göfgun (sublimation) feli í sér sérstakt form fullnægju hvatanna (Triebe), orð sem hefur ranglega verið þýtt sem instinct (eðlisávísun) en ætti að þýðast nákvæmlega sem pulsions (franska) eða „drifts“ (enska) til að leggja áherslu á þá staðreynd að Trieb er í óbeinum tengslum við það sem Freud kallar Ziel þess, það er að segja markmið.
Við skilgreinum göfgun sem nokkuð sem er aðgreint frá hagfræði hinna gagnkvæmu skipta sem hinar bældu hvatir eru venjulega friðaðar með. Markmið hvatarinnar í hinni merkingarlegu staðgegnd (substitution) er symptom (sjúkdómseinkenni). Það er hérna sem virkni nefnarans segir endanlega til sín, því án vísunar í þessa virkni hans getum við ekki greint á milli staðgöngu hins bælda og göfgunarinnar sem hugsanlegra forma á fullnægju hvatarinnar.
Það er þverstæðukennd staðreynd, að hvatirnar geta fundið markmið sín annars staðar en þar sem þau eru, án þess að um sé að ræða þennan nefnda staðgengil sem felur í sér þá ofmetnu byggingu og þá tvíræðni og það tvöfalda orsakasamhengi sem felst í sjúkdómseinkenninu (symptom) sem málamiðlun.
Seinni skilningurinn hefur valdið jafnt kenningasmiðum og sálgreinum endalausum vandræðum. Hvað getur falist í þessum umskiptum á markmiðum? Það snýst um markmið, en ekki bara um einfalt viðfang, og eins og ég lagði áherslu á síðast, enda þótt hið síðarnefnda (viðfangið) komi fljótt í hugann. Við megum ekki gleyma því sem Freud sagði áður, að ekki má rugla skilningi markmiðsins saman við viðfangið eða hlutinn. Hjá Freud finnum við sérstakan kafla um þetta, sem ég mun lesa fyrir ykkur við rétt tækifæri, en ég bendi ykkur á hann hér og nú. Ef ég man rétt, þá er það í Einfűhrung des Narzissmus sem Freud leggur áherslu á muninn sem er til staðar á milli göfgunar (sublimation) og hugsjónar (idealization) hvað varðar viðfangið. Staðreyndin er sú að hugsjónin felur í sér samsemd sjálfsins (subject) og viðfangsins (object), á meðan allt annað á sér stað með göfguninni.
Ég ráðlegg þeim sem lesa þýsku að lesa stutta grein eftir Richard Serba sem birtist í Internazionale Zeitschrift árið 1930 „Zur Problematik der Sublimierungslehre“: hún dregur saman erfiðleikana sem sálgreiningin fann í þessu hugtaki á sínum tíma, – það er að segja eftir afgerandi grein Bernfelds um efnið, og aðra eftir Glover í International Journal of Psychoanalysis, frá 1931: „Sublimation, Substitution and Social Anxiety“. Þessi enska grein mun setja ykkur í enn meiri vanda. Hún er mjög löng og erfið, því hún skautar bókstaflega yfir allar þekktar skilgreiningar sálgreiningarinnar á þessum tíma til þess að sjá hvernig hægt væri að heimfæra þær upp á ólík stig hinnar fræðilegu kenningar. Niðurstaða þessa yfirlits er undravert, það býður upp á endurskoðun allra kenninga sálgreiningarinnar frá upphafi til enda, en þetta sýnir um leið þá miklu erfiðleika sem felast í því að nota göfgunarhugtakið í reynd, án þess að bjóða upp á mótsagnir, sem þessi texti er einnig fullur af.
Ég vildi nú reyna að sýna ykkur, hvernig við ætlum að setja göfgunarhugtakið fyrir okkur, þó ekki væri nema til að gera ykkur kleift að meta virkni þess og gildi.
Fullnæging hvatanna er þannig þversagnakennd, því hún virðist eiga sér stað annars staðar en í áfangastað sínum. Eigum við til dæmis að sættast á það sem Serba sagði, að markmiðið hafi í raun og veru breyst, að það hafi verið kynferðislegt áður, en sé það ekki lengur? Þannig er það reyndar sem Freud lýsir því. Þess vegna ættum við að draga þá ályktun að hið kynferðislega libido hafi afkynjast (desexualised). Þess vegna er dóttir þín mállaus.
Eigum við kannski að sættast á reglu Klein , sem mér virðist reyndar hafa að geyma visst brot af sannleikanum, nefnilega að tala um ímyndaða lausn á staðgengisþörf, á viðgerð er hafi með líkama móðurinnar að gera?
Þessar formúlur munu virka sem ögrun á alla þá sem ekki sætta sig við orðaskýringar, – það er að segja lausnir án eiginlegrar merkingar – í stað þess að spyrja nánar, hvað felist eiginlega í göfguninni.
Þið ættuð strax að finna á ykkur hvert ég stefni. Göfgunin sem færir hvötunum (Trieb) fullnægju sem er ólík markmiði þeirra – markmiði sem enn er skilgreint sem hið náttúrlega markmið – er einmitt það sem einkennir hið sanna eðli hvatanna, að því marki að það er ekki bara eðlisávísun (instinct), heldur er það í venslum við das Ding sem slíkt, (við hlutinn / þingið) að því marki sem það er ólíkt hlutnum /viðfanginu (object).
Við þurfum að horfa til hinnar freudísku kenningar um narsissískan grundvöll viðfangsins og heimfærslu þess í reglu ímyndunarinnar (imaginary register). Hlutur eða viðfang sem hefur póla eða áttir aðdráttarafls gagnvart manninum í hans opna heimi, hlutur sem vekur áhuga hans vegna þess að hann sér í honum meira eða minna af eigin spegilmynd, – einmitt slíkur hlutur er ekki das Ding, að því marki sem þetta síðastnefnda býr í hjarta hagkerfis lífshvatarinnar (libidinal economy). Því hljóðar almennasta skilgreiningin sem ég get gefið ykkur á sublimation svona: hún reisir viðfang – og ég set mig ekki upp á móti tilgátu um orðaleik í orðanotkun minni – upp í virðingarsæti das Ding.
Þetta skiptir meginmáli, til dæmis, varðandi nokkuð sem ég ympraði á í lok samtals okkar, nokkuð sem ég mun fjalla um í næsta tíma, sem er göfgun hins kvenlega viðfangs. Öll kenningasmíðin um Minne (þýsku mansöngvana frá miðöldum) eða um hofmannaástirnar (courtly love), hafa í raun skipt sköpum. Þó þessi fyrirbæri séu nú algerlega horfin af hinu félagsfræðilega sviði, þá hafa hofmannaástirnar engu að síður skilið eftir sig spor í dulvitund sem við þurfum ekki einu sinni að kalla „sammannlega“, í hefðbundinni dulvitund sem byggir á bókmenntahefð og myndasmíð sem heldur áfram að búa í okkur þegar kemur að samskiptum við kvenkynið.
Þetta viðmót var skapað á meðvitaðan hátt. Það var engan veginn sköpun vinsællar sálar, þessarar frægu og miklu sálar hinna blessuðu Miðalda, eins og Gustave Cohen var vanur að segja. Reglur kurteisrar hegðunar voru mótaðar á meðvitaðan hátt í fámennum bókmenntahópum, og árangurinn varð sá að dýrkun viðfangsins var gerð möguleg, – en fáránleika hennar mun ég sýna ykkur í smáatriðum. Þýskur rithöfundur, sem er sérmenntaður í þessum þýsku miðaldabókmenntum, hefur talað um „absurd Minne“ (fáránlegar ástir) í þessu sambandi. Þessi siðaregla stofnsetti tiltekið viðfang í hjarta tiltekins samfélags, viðfang sem er engu að síður fullkomlega náttúrlegt. Þið skulið ekki ímynda ykkur að fólk hafi elskast minna á þessum tímum en við gerum.
Viðfangið er hafið upp í virðingarsæti das Ding eins og við skilgreinum það í okkar freudisku staðfræði – að því marki að það sé ekki innritað eða flækt í vef markmiðanna (Ziele). Forsenda þess að við höfum getað útskýrt fyrirbæri sem frá félagsfræðilegu sjónarhorni hafa alltaf birst okkur sem hrein þverstæða, byggist á því hvort þetta nýja viðfang hafi á vissu tímabili hlotið virðingarstöðu das Ding í virkni sinni.
Við munum vissulega ekki geta tæmt það forðabúr ummerkja, helgisiða, þjóðhátta og siðaskipta, ekki síst á bókmenntasviðinu, sem hafa falið í sér efnislegan kjarna þessa áhrifavalds í mannlegri breytni, sem við köllum hofmannaástir eða Minne, en hafa reyndar átt sér ólíkar nafngiftir í tímans rás eftir stað og stund. Munið bara að þeir karla- og kvennaklúbbar í upphafi sautjándu aldar sem kenndir voru við La littérature precieuse (gersemdabókmenntir) eru aðeins síðasta birtingarmynd þessa fyrirbæris á okkar sviði.
Þar með hefur síðasta orðið alls ekki verið sagt um efnið, því ekki dugar að afgreiða málið með því að segja bara „þetta aðhöfðust þeir“ eða „svona var þetta“, þar sem þessi háttsemi blómstraði og gegndi sínu hlutverki. Mér er ekki bara umhugað um að færa ykkur lykil að þessu sögulega skeiði; það sem endanlega vakir fyrir mér er bæði að ná betri tökum á vissu atriði sem varðar das Ding, nokkuð sem við höfum orðið fyrir í gegnum samfélagslegt uppeldi okkar allra og kallar á frekari skilgreiningu, en gengur nú undir hugtakinu list. Um er að ræða skilning á atferli okkar á sviði göfgunarinnar.
Skilgreiningin sem ég gaf ykkur lokar ekki umræðunni, í fyrsta lagi vegna þess að ég verð að staðfesta málavextina og lýsa þeim fyrir ykkur, og í öðru lagi vegna þess að ég þarf að sýna ykkur að ef tiltekið viðfang af þessu tagi rekst á fjörur okkar, þá hlýtur eitthvað að hafa gerst er varðar samband viðfangs og löngunar. Þetta verður ekki réttilega skýrt án vísunar í það sem ég sagði í fyrra um langanirnar og atferli þeirra.
Ég ætla að ljúka þessu í dag með lítilli dæmisögu sem ég vildi að opnaði ykkur sýn á það sem gerist við göfgunina, en það er dæmi sem er reyndar bæði krefjandi og þversagnakennt. Þar sem við höfum haldið okkur í dag á sviði viðfangsins og das Ding, þá langar mig til að sýna ykkur hvað felst í því að uppgötva hlut hugsaðan fyrir sérstakan tilgang sem samfélagið gæti metið að verðleikum og látið sér vel lynda.
Ég leitaði í minningabanka minn í þessum tilgangi, í nokkuð sem þið getið, ef ykkur þóknast, sett undir hina sálfræðilegu kví söfnunaráráttunnar. Maður nokkur sem nýverið gaf út bók um safnara og það uppboðshald sem sagt er að geti gert safnara ríka, hefur oft farið þess á leit við mig að fræða hann um hver væri merkingin á bak við söfnunaráráttuna. Nokkuð sem ég gerði ekki, því ég hefði þurft að segja honum að sækja námskeið mín í fimm eða sex ár.
Sálfræði söfnunaráráttunnar er gríðarstórt sálfræðilegt verkefni. Í mér sjálfum býr líka brot af safnara. Og látum það vera ef sum ykkar fáið þá hugmynd að hér sé verið að herma eftir Freud. Ég held hins vegar að mínar ástæður séu gjörólíkar hans. Ég hef séð það sem varðveist hefur af safni Freud í hillunum hjá Önnu dóttur hans. Mér sýndist það benda til þeirrar hrifningar á sambýli […] og egypskrar siðmenningar sem verkaði á hann á sviði nefnarans (signifier), mun frekar en að um væri að ræða upplýstan smekk á því sem er kallað viðfang (object, hlutur, safngripur).
Það sem við köllum object (safngrip) á sviði söfnunarinnar ætti að vera kyrfilega aðgreint frá því sem við köllum object í sálgreiningu. Í sálgreiningunni er object dæmi um áráttubundna festingu (fixation) imyndunaraflsins við tiltekinn hlut, sem veitir ánægju eða fróun tiltekinnar hvatar á hvaða sviði sem verða vill. Safngripurinn er hins vegar eitthvað gjörólíkt, eins og ég mun sýna ykkur með eftirfarandi dæmisögu, þar sem söfnunin er sýnd í sinni frumstæðustu mynd. Yfirleitt hugsa menn sem svo að safn feli í sér fjölbreytileika hlutanna, en svo þarf alls ekki að vera.
Á þeim mikla tíma yfirbótar og iðrunar sem þjóð okkar gekk í gegnum á dögum Pétains, á tímum „Vinnunnar, Fjölskyldunnar og Föðurlandsins“ og hinnar aðhertu beltisólar fór ég eitt sinn í heimsókn til vinar míns Jacques Prévert í Saint-Paul-de-Vence. Þar sá ég safn af eldspýtustokkum. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna þessi endurminning hefur skyndilega skotið upp kollinum í huga mínum.
Þetta var sú tegund söfnunar sem kallaði ekki á fjárútlát á þessum tímum, kannski var þetta eina mögulega söfnunin þá. En eldspýtustokkarnir voru sýndir með eftirfarandi hætti: þeir voru allir sömu tegundar, og var raðað upp á einstaklega þokkafullan hátt, sem fól í sér að sérhver stokkur var svo nálægur þeim næsta að litla skúffan var örlítið útstæð. Þetta gerði það að verkum að allir stokkarnir féllu saman og mynduðu samfellda röð sem lá eftir arinhyllunni og skreið upp eftir veggnum, upp að vegglistanum og síðan niður aftur, niður að hurðinni. Ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið endalaus runa, en hún tók sig afar vel út sem heimilisprýði (ornament).
Ég held engu að síður að þetta hafi ekki verið allt og sumt sem gerði þessa „söfnunaráráttu“ undraverða, né heldur sú uppspretta af hugarfró sem safnarinn fann í henni. Ég held að það nýbreytni-áfall sem stafaði frá þessu safni tómra eldspýtustokka – og þarna komum við að kjarna málsins – hafi leitt í ljós nokkuð sem við veitum kannski ekki nægilega athygli, nefnilega að eldspýtustokkur er ekki bara einfaldur eldspýtustokkur, heldur hafi hann í formi Erscheinung (birtingar) opinberað sinn áhrifamikla margbreytileika sem gæti falist í das Ding.
Með öðrum orðum þá sýndi þessi uppsetning að eldspýtustokkur er ekki bara eitthvað sem gegnir tilteknu þjónustuhlutverki sem áhald, að hann er ekki einu sinni tegund í platonskum skilningi, abstrakt eldspýtustokkur, að eldspýtustokkurinn er að öllu leyti í sjálfum sér hlutur sem hefur að geyma allt sem tilheyrir verunni. Fullkomlega óumbeðinn æxlast hann í ofgnótt sinni í nánast fáránlegri gerð þessa safns sem vísar til hlutareðlis síns sem eldspýtustokkur. Safnarinn fann þannig markmið sitt í þessu formi skilnings er varðar ekki eldspýtustokkinn sem slíkan, heldur öllu frekar das Ding (hlutinn) sem býr í eldspýtustokknum.
Það skiptir ekki máli hvað við tökum okkur fyrir hendur, við finnum það aldrei af handahófi í einhverjum hlut. Ef grannt er hugsað, þá virðist eldspýtustokkurinn vera stökkbreytt form einhvers sem skiptir okkur svo miklu máli að það getur jafnvel tekið á sig siðferðilega merkingu; það sem við köllum skúffu. Í þessu tilfelli var skúffan frelsuð og ekki lengur fest í allt umlykjandi umbúðum kistu sinnar, þannig kynnir hún sig til sögunnar sem sá samfarakraftur sem þessi mynd Préverts átti að koma til skila.
Nú hefur þessi litla dæmisaga um opinberun das Ding handan hlutarins sýnt ykkur eitthvert einfaldasta form göfgunar sem völ er á. Ef til vill getið þið jafnvel fundið eitthvað birtast í henni sem samfélagið megnar að finna sér fróun í.
Ef um fróun er að ræða, þá er hún í þessu tilfelli nokkuð sem krefst einskis af engum.
______________
Forsíðumyndin er fengin að láni frá Byggðasafni Skagfirðinga.
LÍNUDANSINN Á MILLI SKYNJUNAR OG SKILNINGS
Þegar ég hafði í nokkra daga legið yfir ritgerð Heideggers um das Ding, og yfir hinni snjöllu greiningu hans á krúsinni í anda hreinnar fyrirbærafræði (sjá https://wp.me/p7Ursx-1cy), þá fór ekki framhjá mér að á bak við þessa atlögu var að finna ágreining hans við Imanuel Kant og hina forskilvitlegu heimspeki hans, þar sem tekist er á um forsendur frumspekinnar og þekkingarinnar. Þá varð mér hugsað til þessarar ritgerðar Giorgio Agamben sem ég hafði nýverið lesið, þar sem hann teflir hugmyndum þessara risa í evrópskri hugmyndasögu saman á frumlegan hátt og með óvæntri niðurstöðu. Þessi ritsmíð Agambens er að forminu til fyrirlestur frá árinu 1987, sem hann flutti fyrir akademíu vegna starfsumsóknar sem háskólakennari. Fyrirlesturinn var hins vegar fyrst birtur sem viðauki í splunkunýju ritgerðarsafni sem kom út snemma á þessu ári undir titlinum „Hið ógerlega – framlag til pólitískrar verufræði“. Þegar betur er gáð þá eru settar fram í þessari stuttu ritgerð hugmyndir sem Agamben er að þróa áfram í meginefni þessa nýja ritgerðasafns.
Hin djúphugsaða greining Kants á venslum skynjunar og skilnings, á þessum landamærum sem hann glímdi við að tengja saman í því óleysanlega verkefni að leggja grunninn að „vísindalegri frumspeki“, hefur verið skotspónn hvassyrtrar gagnrýni og stundum háðs hjá sumum fulltrúum fyrirbærafræðinnar og arftaka formgerðarstefnunnar í heimspeki 20. aldarinnar, og þá ekki síst frá forvera þeirra, Friedrich Nietzsche, eins og Agamben greinir reyndar frá í fyrstu ritgerð bókarinnar „Maðurinn án innihalds“ frá 1994, og finna má hér á vefsíðunni í íslenskri þýðingu: https://wp.me/p7Ursx-3E. Þar vitnar Agamben í hvassyrta gagnrýni Nietzsche á þá „hlutlausu fullnægju“ sem hann las út úr skilningi Kants á fagurfræðilegri reynslu. Þessi „hlutlausa fullnægja“ var trúlega línudansinn á milli fortakslausrar sjálfsprottinnar skynhæfni og hinnar forskilvitlegu rökhugsunar sem Kant virðist hafa glímt við í öllum meginverkum sínum. Agamben tók undir þessa gagnrýni Nietzsche, og það virðist Heidegger hafa gert líka. En þá kemur þessi síðútkomni viðauki eins og skrattinn úr sauðaleggnum, þar sem Agamben færir rök fyrir því að hyldýpið sem Nietzsche og Heidegger horfðust báðir í augu við sem endalok formlegrar heimspeki (eða fumspekinnar sem slíkrar): það er sama hyldýpið og Kant glímdi við og olli honum æ meira hugarangri á efri árum, eins og fram kemur í eftirlátnum handritum sem hafa verið gefin út sem „Opus postumum“.
Þessi ritsmíð Agambens, sem hann segir sniðna að þeim mörkum sem hefðbundin kennslustund í háskóla setur, hefur væntanlega dugað honum sem aðgangur að þeirri „akademíu“ sem hann hefur löngu sagt skilið við. En þetta er frjó og vekjandi greining á þeim vandamálum sem Kant glímdi við fyrir 250 árum síðan og enn eru í brennideplinum. Það má sjá af öðrum ritgerðum í þessu nýja ritgerðarsafni Agambens, þar sem hann rekur vanda þessa línudans heimspekinnar á landamærum skynjunar og skilnings allt aftur til Timeusar Platons og skilning hans á hugtakinu „chora“, sem hann segir einmitt að hafi falið í sér þessa eftirsóttu samtengingu tveggj aðskildra heima. En ég hef leikið mér í þessari glímu við að klæða þessi hugmyndatengsl höfuðrisanna í íslenskan búning undanfarna daga og sendi niðurstöður hennar nú hér á vefinn með þakklæti til Agambens fyrir að greina leynda þræði hugmyndasögu okkar um uppspretturnar. Þá naut ég þess einnig í leiðinni að lesa frábærar þýðingar Skúla Pálssonar og Viðars Þorsteinssona á bók Kants, „Forspjall að frumspeki“, þar sem erfið hugtök Kants hafa fengið að því er virðist nokkuð varanlegan íslenskan búning.
Giorgio Agamben:
Kennslustund fyrir umsókn um kennarastöðu
(Fyrirlestur sem próf um prófessorsstöðu 1987)
Titill: Lezione per concorso di professore associciato
Viðauki í ritgerðarsafninu „L‘irrealisabile“ – per una politica dell‘ontologia“, útgefin af Einaudi , Torino 2022.
Þema þessarar kennslustundar er: Kant, Heidegger og vandamál fagurfræðinnar. Ég mun þó ekki einskorða mig við sögulegt yfirlit um samband þessara tveggja höfunda, en með því að fara yfir eitt grundvallar svið fagurfræðinnar – það sem varðar birtingarmyndina/ yfirbragðið/ ásýndina (apparenza) – þá mun ég leitast við að setja fram það heimspekilega vandamál sem mér virðist vera þungamiðjan í þessu sambandi. Ásetningurinn er því að gera grein fyrir raunverulegu heimspekilegu vandamáli innan þess takmarkandi ramma sem felst í einni háskólakennslustund.
Aðalatriðið í fræðiriti Heideggers, Kant og vandamál frumspekinnar, sem hann gaf út 1929, en skrifaði á sama tíma og hann vann að Veru og Tíma, er áherslan á sjálfstæði – og í vissum skilningi forgangsstöðu – hins forskilvitlega (transcendentale) ímyndunarafls sem „frum-uppsprettu“ þekkingarinnar, ásamt með tveim öðrum Grundquellen (frumuppsprettum), skynhæfni / skynnæmi og vitsmunum (intelletto). Heidegger beitir hér því túlkunarfræðilega ofbeldi sem hann hefur oft verið gagnrýndur fyrir, með greiningu sem takmarkast við nokkrar setningar úr fyrstu útgáfu Kritik [der reinen Vernuft], setninga sem Kant hafð síðan þurrkað út eða breytt í annarri útgáfu verksins. Heidegger heldur því fram að í lokaútgáfunni hafi Kant hörfað til baka í umfjöllun sinni um þessar óþekktu uppsprettur sérhverrar þekkingar, sem opnuðust með hinu forskilvitlega ímyndunarafli. Þannig er það ekki lengur sjálfstæður þáttur, og glatar þar með sínu frumlæga eðli, er hopar fyrir rökhugsuninni eða skilningnum (intelletto) sem öðlast þar með eiginleikann að virka sem frumforsenda sérhverrar niðurstöðu (sintesi). Þessir þrír frumþættir þekkingarinnar smættast þannig í tvo: skynnæmi og skilning (sensibilità e intelletto), skynhæfnina og hið sjálfsprottna. Það hyldýpi sem hið forskilvitlega ímyndunarafl hafði opnað gagnvart rökhugsuninni lokaðist án þess að skilja eftir sig nein spor í textanum. Heidegger skrifar:
„Með hinu róttæka rannsóknarferli sínu leiddi Kant möguleika frumspekinnar fram á brún þessa hengiflugs. Hann sá hið óþekkta og varð frá að hverfa.“
Ég ætla hins vegar að reyna að sýna fram á að Kant hafi í raun og veru aldrei hætt að horfa í þessa heljargjá, að hann hafi þvert á móti tekið málið fyrir á ný í Kritik der Urteilskraft og að lokum í hinu ófullgerða verki síðustu æviáranna, þar sem hann tókst aftur á við vandann með enn skilmerkilegri og róttækari hætti.
Ég vildi hefja þessa greiningu mína með umfjöllun um þýska hugtakið Schein, yfirbragð, ásýnd (apparenza). Þið munið að í lok Analitica trascendentale, rétt áður Kant lýsir yfir að allir hlutir skiptist í fyrirbæri (fenomeni) og það hugsaða (skilningshugtök, noumeni), þá lýsir hann „jörð sannleikans“ eins og eyju sem er afgirt innan lokaðra landamæra og umflotin úthafi yfirbragðsins eða sýndarinnar (apparenza) á alla vegu.
„Þessi jörð“, segir hann, „er eyja innilokuð af náttúrinni innan óyfirstíganlegra landamæra. Það er jörð sannleikans, heillandi nafn umlukt óravíðu stormasömu hafi, sem er konungsríki yfirskynsins og sýndarinnar (apparenza) þar sem þokubakkar og bráðnandi ísjakar gefa sífellt til kynna hillingar nýrra landa, og blekkja linnulaust villuráfandi sæfarann með fölskum vonum um nýja landafundi, leiða hann í ævintýri sem hann fær ekki staðist og mun aldrei leiða til lykta.“
Skömmu síðar, þar sem munurinn á fyrirbærum og ímynduðum (hugsuðum) veruleika (fenomeni e noumeni) er skilgreindur, kallar Kant aftur fram „blekkingu sem illt er að varast“ (eine schwer zu vermeidende Tauschung) er ýti undir óleyfilega útvíkkun á notkun þeirra hugkvía skilningsins (intelletto) sem geta eingöngu reitt sig á skynjanlegar hugljómanir (dati dell‘intuizione sensibile), handan allra viðfanga reynslunnar.
Þetta hugtak „ásýndarinnar“ (apparenza, yfirskynsins, þess sem sýnist) og frænka þess, „blekkingin“, (illusione) koma víða fyrir, einnig í þeim „athugasemdum um tvíræðni hugtaka umhugsunarinnar (riflessione)“ sem fylgja í kjölfarið. Það er hins vegar í „Hinni forskilvitlegu Díalektík“ sem Kant skilgreinir með afgerandi hætti hvernig viss Rökfræði ásýndarinnar (Logik der Schein) er leidd til sinna endanlegu lykta með öllum sínum ýtrustu þversögnum. Hér verður yfirskynið, sem Kant kallar forskilvitlegt, ekki bara það sem „erfitt er að varast“, heldur nákvæmlega „óhjákvæmilegt“ (unvermeidlich). Hér skrifar Kant að hin forskilvitlega ásýnd – ólíkt hinni rökrænu ásýnd – hætti ekki að birtast okkur þótt búið sé að bera kennsl á blekkinguna. Um leið og menn hafa áttað sig á hinu rökræna yfirskyni er það horfið, en Kant skrifar:
„hið forskilvitlega yfirskyn lætur sig ekki hverfa, jafnvel þó einhver hafi afhjúpað það og sýnt fram á ógildi (nullità) þess í gegnum hina forskilvitlegu gagnrýni […] hin forskilvitlega (trascendentale) díalektík (þrætubók) gerir sér hins vegar að góðu að uppgötva yfirborðsmennsku yfirskilvitlegra (trascendenti) gildisdóma, og koma þannig í veg fyrir að þeir afvegaleiði fólk; en það þýðir aldrei að einmitt þessar birtingarmyndir (Schein) láti sig einnig hverfa og hætti að vera ásýndir, slíkt getir aldrei gerst […] Hér erum við einfaldlega að fjalla um náttúrlega og óhjákvæmilega blekkingu.“ (Hér er Agamben að vísa í muninn á hinu forskilvitlega (transzendental) og yfirskilvitlega (transzendent) hjá Kant. Innsk. Þýð.)
Þó við séum vön að hugsa sem svo, að með afhjúpun og brotthvarfi sýndarinnar (apparenza, Schein) komi sannleikurinn í ljós, þá stöndum við hér frammi fyrir þversögn þeirrar sýndar (Schein) sem situr sem fastast, þrátt fyrir afhjúpunina, og er þannig ódrepandi. Frá þessum sjónarhóli sýnir Gagnrýnin (Kritik) sig sem vegslóði er leiði okkur stöðugt lengra inn í óleysanleg flækjustig sýndarinnar. Þar með lendir heimspekingurinn sem hinn skipreka sæfari í reynslu eigin blekkinga, sem virðist ómótstæðileg. En í hverju felst þessi sýndarreynsla? Hvernig verður sýndin til? Hvernig stendur á að hún hverfur ekki þegar hún hefur verið afhjúpuð?
Þetta er eitt af þeim atriðum sem Kant kemur oftar en einu sinni að í köflunum Transzendentale Analytik og Transzendentale Dialektik í Kritik der reinen Vernuft, þar sem hann gefur í skyn að það sem hér gerist sé, að við notum hugtakakvíar hins forskilvitlega eins og þær væru raunvísindalegar (empirico) og meðtökum þannig hið hreina viðfang skilningsins (intelletto), eitthvað almennt = X, rétt eins og það sé skilgreint viðfang. Við notfærum okkur því hugtakakvíar er hafi eingöngu hreina forskilvitlega merkingu en engin not (hafa engin merkingarmið, enga Bedeutung, eins og sagt er í dag), rétt eins og þau vísuðu í viðföng reynslunnar.
Skilningurinn (vitsmunirnir, l‘intelletto) vísa því til viðfangs eða hlutar sem ekki vísar til neins. Eina lögmæta aðferðin til að hugsa skilningshugtökin (noumeno) felst þess vegna í því að hugsa þau sem Grenzbegriff, -hugtök sem eru á mörkunum, þar sem ekkert er hugsað nema hið hreina form hugtaksins almennt. Þetta hugtak á mörkunum er líka óhjákvæmilegt, en því fylgir ekkert viðfang, nema ef vera kynni tómarými. Þá spyrjum við enn og aftur, hvers vegna ásýnd eða yfirbragð geti verið til staðar í þessu tómarými, hvers vegna óhjákvæmilegt en tómt hugtak geti framkallað jafn óhjákvæmilega sýnd? Er ekki eitthvað í þessu tómarými sem hefur farið fram hjá okkur og á sín ummerki í sýndinni?
Andspænis þessari spurningu lætur Kant sér nægja að endurtaka að „þetta gerist vegna þess að hugsunin komi á undan sérhverri mögulegri reglu er ákvarðist af framsetningunni (rappresentazione). Við hugsum hér eitthvað almenns eðlis, hins vegar greinum við það út frá skynjuninni, jafnvel þó við gerum engu að síður með þessum hætti greinarmun á þessu almenna hugtaki í sértækri (astratto) framsetningu sinni og aðferðinni við að skynja það (intuirlo). Þannig höldum við einungis einni aðferð eftir til að skilgreina viðfangið, það er að segja með hugsuninni. Okkur virðist (scheint) þetta engu að síður vera aðferð þar sem viðfangið sé til í sjálfu sér, án tillits til innsæisins sem takmarkast af skynjunum okkar.“
Það sem Kant skýrir ekki fyrir okkur er, hvernig þetta „hreina rökfræðilega form án innihalds“ (blosse logische Form ohne Inhalt) geti átt sér ásýnd (scheinen), birst í fullum ljóma sínum (ljóminn er einnig ein merking þýska orðsins Schein). Hvers vegna höfum við hér viðvarandi ásetning, vísun í eitthvað, þar sem ekki er um neinn hlut að ræða sem við er átt? Hvernig geta vitsmunirnir búið yfir skynhæfni (ricettività) sem virðist koma á undan þeirri sem býr í skynnæminu (sensibilità)? Ef hugsunin er ekki mötuð á neinu í þessu tilfelli, hvernig getur þá eitthvað ekkert „birst“ okkur (apparire), eitthvað rými sem er tómt? Er það sem hér birtist ekki eitthvað í líkingu við spor eða ummerki grundvallarreglu hins forskilvitlega ímyndunarafls (immaginazione trascendentale) sem uppsprettu þekkingarinnar. Þeirrar uppsprettu er búi handan klofningsins á milli skilnings og skynjunar, á milli skynhæfni og hins sjálfsprottna (spontaneità), Er þetta ekki það sem Heidegger ásakar Kant um að hafa breitt yfir í skyndingu í annarri útgáfunni af Kritik? Hvernig stendur á því að hafísinn sem er í þann mund að bráðna, og Kant hafði séð fyrir sér í staðfræðilegum upprætti sínum af jörð sannleikans, getur ekki horfið?
Ég vildi reyna að svara þessari spurningu fyrst með því að vísa í flokkunartöflu hinna tómu hugtaka, sem Kant birtir í lok Transzendentale Analytik -kaflans. Þessi tafla er sett upp eins og ein af þessum gömlu skólabókaræfingum sem virðast ekki kalla fram neinn umhugsunarvanda. Kannski er þetta einmitt ástæða þess að Heidegger staðnæmist við þessa töflu, en hugtakið um tómið (ekkert /nulla) er mikilvægt í allri hugsun hans. Engu að síður er það svo, að í birtingarleysi sínu (inapparenza) sinni felur þessi tafla í sér afgerandi vandamál. Kant gerir greinarmun á fjórum skilgreiningum tómsins, tveim sem kalla mætti jákvæðar og tveim neikvæðum.
Númer 2 og 4 fela ekki í sér nein vandamál: Nihil privativum er einfaldlega neikvæðið, eða „hugtak skortsins á viðfangi, eins og skugginn eða kuldinn“. Nihil negativum er viðfang tiltekins hugtaks sem er í mótsögn við sjálft sig, eins og „bein lína tveggja hliða“. Við þurfum hins vegar að staðnæmast við 1 og 3, þessi Ens rationis (hugsaðir hlutir) og Ens imaginarium (ímyndaðir hlutir), sem skipta Kant greinilega miklu máli. Það fyrra er hugtak sem á sér ekkert sambærilegt viðfang, en það á við um hlutinn í sjálfum sér og hið huglæga viðfang eða hugtak (noumeno). Dæmi um ens imaginarium eru hins vegar hið hreina rými og hinn hreini tími, einföld form innsæis (intuizione) án efnis (sostanza). Kant segir að hin fyrri séu leere Begriffe, tóm hugtök þar sem ekkert er í raun og veru hugsað, hin seinni eru leere Data zu Begriffen. Þessi síðasta yrðing „innantóm gögn handa hugtökunum“ er svo einstök, að hinir ítölsku þýðendur ritsins frá 1910, Giovanni Gentile og Giuseppe Lombardo Radice, lentu í þýðingarvillu sem hefur af mikilli þrjósku hlotið framhaldslíf í öllum nýrri og endurskoðuðum útgáfum. Þeir hafa sem sagt þýtt svona: „vuoti dati di concetti“ (tóm gögn af hugtökum). Andspænis þversögninni að færa hugtökunum og hugsuninni tóm – eins og þýski textinn segir óumdeilanlega – þá hafa þýðendurnir stigið skrefið til baka og hörfað frá heljarbrún hins forskilvitlega ímyndunarafls eins og Heidegger kemst að orði.
Hér blasir við óleystur vandi þessara tveggja ímynda tómsins (nulla). Hvernig getum við hugsað þessa gjöf tómsins, að færa tómið til ens imaginarium (veru ímyndanna)? Og þegar kemur að ens rationis, (veru rökhugsunarinnar), hvað hugsar sú hugsun sem hugsar ekkert? Hér höfum við annars vegar móttökuskilyrði, innsæi, sem færir okkur einungis tómið, hins vegar sjálfsprottna hugsun (spontaneità) þar sem ekkert er hugsað.
Hin nauðsynlega eining tveggja Grundquellen (frumuppsprettna), þessara tveggja upprunastaða þekkingarinnar, skyngeta (ricettività) og sjálfsprottið fyrirvaraleysi (spontaneità), sem mynda grunnþátt Kritik, virðast hér bresta í tvennt. Engu er líkara en að í þessu broti opnist neikvæð mynd þriðja upprunastaðar þekkingarinnar: þess forskilvitlega ímyndunarafls (immaginazione tranzscendentale), sem var þurrkuð út í seinni útgáfu Kritik. Þannig fengist enn ein staðfesting á túlkun Heideggers á Kant: á undan skyngetunni og rökhugsuninni finnum við skyngetu sem stendur ekki fyrir neitt, rétt eins og við höfum hugsun sem hugsar ekkert. Það er í þessu tómi sem hin óslökkvanlega sýnd eða yfirbragð hinnar forskilvitlegu díalektíkur hangir.
Ég hefði viljað sýna fram á að Kant hafi í raun og veru aldrei hætt að spyrja sjálfan sig um stöðu þessara tveggja ímynda tómsins, og hvernig hugsun hans síðustu árin hafi þvert á móti snúist æ meir um þennan vanda og orðið að ástríðufullri áráttu. Áður en við könnum endurupptöku málsins í Opus postumum (Eftirlátin skrif), vildi ég staldra stuttlega við nokkrar setningar í kafla Kritik der Urteils sem ber titilinn Analytik des Erhabene (Greining hins háleita). Ég kýs þennan kafla því vandinn birtist þar í sérstaklega afgerandi setningum, en ég held að allt þriðja Kritik -ritið (Kritik der Urteils) bjóði upp á lestur í þessa átt.
Kant skilgreinir hið háleita (Þýska: Erhabene, ítalska: sublime) sem framsetningu
„sem fær hugann eða skaphöfnina (animo) til að hugsa, eins og í hugmyndasýningu, ómöguleika þess að höndla náttúruna“
og hann gætir þess að taka fram, að allt frá þeirri stund þegar hugmyndirnar verða með engu móti sýndar, verði átökin við myndasmíðina óhjákvæmilega unnin fyrir gýg. En svo bætir hann við:
„Þessi áreynsla og tilfinningin fyrir getuleysi hugmyndarinnar andspænis því verkefni að höndla náttúruna […] knýr okkur til að hugsa sjálfa náttúruna í heild sinni með huglægum hætti (soggettivamente) eins og sýningu einhvers yfirskynvitlegs (soprasensibile), án þess þó að þessari sýningu verði komið til skila með raunvirkum hætti“.
Við upplifun hins háleita – að því gefnu að hér sé hægt að tala um reynslu – getum við sagt að ímyndunaraflið hafi verið leitt út fyrir eigin mörk, en í þessu átaki „finnur það engu að síður ekkert handan hins skynjanlega sem það getur hengt sig á“. Kant leggur ítrekað áherslu á að „hér hafi skynfærin ekkert á milli handanna“. Hin háleita sýning er þannig að öllu leyti neikvæð: hún sýnir í raun og veru ekkert. Í tiltölulega nýlegri umfjöllun um Greiningu hins háleita hitti Jean-Luc Nancy naglann á höfuðið þar sem hann skrifaði:
„hér á tiltekin framsetning (presentazione) sér stað, en hún sýnir ekkert. Hin hreina framsetning er, sem sýning (presentazione) á sjálfri sýningunni, framsetning einskis.“
(Nánari útlistun þessarar hugsunar er að finna í hinni snjöllu grein Nancy Vegsummerki listarinnar í ísl. Þýðingu á hugrunir: https://wp.me/p7Ursx-eh)
Ég held að þessi athugasemd, sem kallar á skáletrun, geri okkur kleift að afhjúpa hliðstæðuna sem er á milli hins háleita og þess að „darsi di un vuoto“ (að gefa sér tiltekið tóm) í ens imaginarium. En hér gerist það enn einu sinni, að Kant skýrir ekki til fulls hvernig hægt sé að hugsa sýningu (esibizione) sem er fullkomlega neikvæð.
Í Opus postumum er þetta vandamál, sem skilið er eftir óleyst í Kritik, tekið fyrir á ný, og ef vandinn er ekki leystur þar, þá er í það minnsta boðið upp á hina ýtrustu og meðvituðustu framsetningu hans. Hér þarf að hafa nokkur orð um þetta ófullgerða verk, sem Kant talar stundum um sem sitt mikilvægasta verk. Það hefur hins vegar fengið eins konar Öskubuskuhlutverk meðal höfuðverka hans. Þó verkið hafi fengið vandaða heimildaskrá, þá er hún ekki tæmandi. Við eigum eina ítalska þýðingu undir umsjón Vittorio Mathieu í XXI og XXII bindum af Academie Ausgabe, sem hefur þann stóra kost að hafa sett kerfisbundið saman hið ruglingslega efni handritanna. Með því að beina túlkun sinni fyrst og fremst að vandamálinu sem varðar skrefið frá frumspekinni til raunspekinnar (dalla metafisica alla fisica) kom Mathieu hins vegar í veg fyrir að hann gæti náð utan um allar hliðar þessa ýtrasta átakaverks Kants.
Hér gengur Kant einmitt út frá þeim leere Data (tómu gögnum), þessari tómu áfyllingu hugtakanna, sem er til umræðu í ens imaginarium (veru ímyndananna), það er að segja út frá þessu hreina rými og þessum hreina tíma og þeim hugtökum sem virðast tóm, út frá því sem við köllum noumeno og eru áhersluhugtök sem tilheyra eternum og efninu og verða ekki sannreynd, jafnvel þótt eðlisfræði hans samtíma hafi gengið út frá tilvist þeirra. Kant hugsar þannig þessa uppskiptingu þekkingarinnar aftur út frá tveim grundvallar uppsprettum sem voru mikilvægustu meginforsendur Kritik-verkanna. Í fyrri uppsprettunni er viðfangið gefið, í þeirri seinni er það hugsað út frá framsetningunni (rappresentazione). Kjarni gagnrýninnar fólst í því að þekkingin gæti ekki sprottið nema af einingu þessara tveggja frumlægu uppsprettna. En nú spyr Kant sjálfan sig: hvernig getur þessi „tóma ágjöf“ (vuoto darsi) átt sér stað í ens imaginarium, í hinu hreina rými og hinum hreina tíma? Hvernig getur tóm hugsun verið til? Hvað á sér stað í móttöku (ricettività) án viðfangs og í hinu sjálfsprottna tómi? Hreint rými og hreinn tími, noumeno (hið hugsaða), efnið og aðdráttaraflið, fá hann til að horfast í augu við tilkall til þeirrar veru (pretesa di cosnsistenza) sem ekki verður lengur útilokuð með hugmyndinni um Schein, um hina forskilvitlegu birtingu. Þessi hugmynd er reyndar algjörlega afskrifuð í Opus postumum, nema í einu atriði, þar sem hún víkur fyrir nýju hugtaki, sem að okkar mati skiptir meginmáli í allri túlkun á síðustu verkum Kants: hugtakið „Erscheinung einer Erscheinung“ eða fyrirbæri fyrirbærisins, birting sjálfrar birtingarinnar.
Með nánast áráttukenndri ákefð fer Kant að setja spurningarmerki við reglu hins hreina rýmis og hreina tíma, sem virtist endanlega fastbundin í Kritik-bókunum. Eitt dæmi af fjölmörgum nánast samhljóma í bindunum VII og XI:
„Tími og rými eru ekki viðföng innsæisins (intuizione). Ef svo væri, væru þau reyndar raunverulegir hlutir og kölluðu hvort um sig á annað innsæi, þar til við gætum sett þau fram sem viðföng (oggetti), og þannig áfram í hið óendanlega. Innsæið er ekki skynjun þegar það er HREINT, því það kallar á öfl sem skilgreina merkinguna. Hvernig getur það annars gerst, að innsæið setji sér samtímis reglur fyrir skynjunina, til dæmis hvað varðar aðdráttarafl himintunglanna? [Rými og tími eru ekki viðföng innsæis], heldur huglæg (soggettive) form sjálfs innsæisins, þar sem þau hafa að geyma reglu fyrir fram samantekinna fullyrðinga (proposizioni sintetiche a priori) og möguleika forskilvitlegrar heimspeki (filosofia trascendentale): fyrirbæri á undan öllum skynjunum (Erscheinungen vor allen Wahrnemungen)“.
Ég vildi vekja athygli ykkar á þessari þverstæðufullu fullyrðingu, sem væri merkingarlaus á forsendum Kritik-bókanna: „fyrirbæri á undan öllum skynjunum“. Hér er um að ræða fyrirbærafræðilega vídd er kemur á undan allri hlutlægri reynslu, rétt eins og eitthvað í líkingu fyrirbæris gæti gefið sig fram á undan hinni skynjanlegu reynslu, á undan sjálfum fyrirbærunum. Það er ekkert lát á ábendingum sem þessum, að rýmið og tíminn séu ekki bara form innsæisins, heldur séu þau sjálf innsæi, jafnvel þó ekki sé ljóst hvað það sé í þeim sem tilheyri innsæinu. Sem hreint innsæi eru þau samkvæmt skilgreiningunni án viðfangs, jafnvel þó við lítum á þau sem eins konar efni. Þannig getur Kant skrifað eftirfarandi um hið tóma rými: „Ekki getur verið um að ræða neina reynslu varðandi hið tóma rými, né heldur neitt innsæi gagnvart viðfangi þess. Ég þarf á innflæði (influsso) einhvers efnis á skilningarvit mín að halda til að geta meðtekið upplýsingar um tiltekið efni. Af þessu leiðir að setningin „það er tómt rými“ getur aldrei verið fullyrðing sprottin af reynslunni, hvorki beinni né óbeinni, heldur er hún eingöngu rökhugsuð (raziocinato).
Vandamálið sem Kant er hér að takast á við er reglan um þessa upprunalegu uppsprettulind þekkingarinnar, sem virtist ekki skapa neinn vanda í Kritik-bókunum. Hvernig er hægt að gefa sér eitthvað sem „uppsprettu“ og hvernig er hægt að hugsa hreina móttöku, það er að segja fyrirbæri er kemur á undan öllum fyrirbærum? Ef tíminn og rýmið sem ímyndaðar verur (enti) eru hreint tóm (nulla), einfalt rökfærslutóm (vacuo raziocinico), hvernig stendur þá á því að þau eru ekki lengur tóm, en bjóða hins vegar upp á skynjunarreglur sambærilegar við efnið og aðdráttaröflin?
Sem svar við þessu heldur Kant fram tilvist etersins með miklum sannfæringarkrafti í Opus postumum, það er að segja tilvist fulls og skynjanlegs rýmis, eins konar efnis er sé forveri sérhvers skynjanlegs hlutar og liggi til grundvallar allri mögulegri reynslu. Tilvist etersins er með engu móti reynsluskilyrt staðreynd, en þrátt fyrir það ekki heldur einföld tilgáta. Eterinn er með einhverjum hætti birting sem er óhjákvæmileg, algjörlega nauðsynleg ens rationis (rökhugsuð vera) þar sem eitthvað er ekki bara einfaldlega hugsað, heldur gefur sig hugsuninni á vald án þess að upplifun komi til. Með orðalagi, sem frá sjónarhóli Kritik-verkanna væri hrein fásinna, skrifar Kant að eterinn sé „rými gert skynjanlegt en ekki gefið skynfærunum heldur hugsuninni.“
Þannig er eitthvað sem gefur sig með tómri gjöf hins hreina rýmis og tíma sem entia imaginaria (vera ímyndunarinnar), rétt eins og þær entia rationis (verur rökhugsunarinnar) sem eru hlutir í sjálfum sér, eter og efni. Hvað er hér á seyði?
Það er hér sem Kant tekst á við hugmyndina um „fyrirbæri fyrirbærisins“ (fenomeno del fenomeno / Erscheinung einer Erscheinung), sem mig langar til að skýra betur innan mögulegra marka.
Þegar við tölum um rýmið eða tímann sem hreint innsæi, um eterinn sem hreint rými gert skynjanlegt, eða þegar við tölum um hlutinn í sjálfum sér, þá erum við ekki að tala um fyrirbæri (fenomeni) heldur um þann hátt sem sjálfsveran (soggetto) er snortin með, ekki af hlutnum, heldur af sjálfri sér, af sínum eigin móttökuskilyrðum. Kant skrifar:
„fyrirbæri fyrirbærisins er framsetning (sýning / rappresentazione) aðferðarinnar (formale) sem einstaklingurinn (soggetto) beitir á sjálfan sig þar sem hann verður sjálfur sitt eigið viðfang“.
Á annari örk getum við lesið að „fyrirbæri fyrirbærisins er fyrirbæri einstaklingsins (soggetto) límt við (afficiente) hann sjálfan“.
Það sama er endurtekið varðandi hlutinn í sjálfum sér, sem Kant gefur skilgreiningu sem hljóðar undarlega í ætt við Nietzsche:
„Hluturinn í sjálfum sér er ekki annað viðfang, heldur önnur tengsl framsetningarinnar við sama hlutinn […] Ens rationis = X er staða sjálfsins samkvæmt reglu samsemdarinnar (identità), þar sem sjálfsveran er hugsuð sem áfest (afficiente) sjálfri sér, og er því að forminu til einungis fyrirbæri.“
Grunnforsenda þess að gefa sér hrein móttökuskilyrði (ricettività) er sjálfselska (autoaffezione). Hin frumlæga uppspretta þekkingarinnar er fyrirfram gefin og óumdeilanleg – og þetta er nýmælið í Opus postumum – hún hefur í grunni sínum form sjálfselsku sem kemur heim og saman við sjálfan möguleika þekkingarinnar.
Kannski getum við nú reynt að svara þeirri spurningu sem hefur verið margítrekuð hér í þessari kennslustund, og varðar hina tómu gjöf ens imaginarium (veru ímyndunarinnar) og hina tómu hugsun ens rationis (veru rökhugsunarinnar). Það sem er gefið í þessari tómu gjöf, það sem er hugsað í þessari tómu hugsun, er hrein sjálfselska (autoaffezione). Með henni er sjálfsveran fangin (affetto) af sjálfri sér, má þola eigin móttækileika (ricettività) og „fangar“ (appassiona) sjálfa sig í málsögulegum skilningi ítalska hugtaksins, hún finnur til sín, gefur sjálfri sér og opnar sig um leið gagnvart umheiminum. Ein setning í Opus postumum tjáir eðli þessarar frumlægu gjafar með orðalagi þar sem merking hinnar kantísku kennisetningar um tvær uppsprettur þekkingarinnar er fullkomlega ummynduð (trasfigurato):
„Þekkingin felur í sér innsæi og hugtak: að ég sé sjálfum mér gefinn og hugsaður af mér sjálfum sem viðfang. Eitthvað er til, ég er ekki einfaldlega rökfræðilegt viðfang og umsögn, heldur líka viðfang skynjunar, dabile, non solum cogitabile. (gefanlegt, ekki bara hugsanlegt).“
Í hinni hreinu sjálfshrifningu, í þessari gjöf sjálfsins til sín sjálfs, falla þessar tvær upprunalegu uppsprettur þekkingarinnar saman eins og hönd í hanska. Hið hreina afskiptaleysi (passività) og hið hreina sjálfsprottna fyrirvaraleysi (spontaneità) falla saman í ástríðu á eigin sjálfi. Ein tilvitnunin staðfestir þetta svo ekki verður um villst: Afstaða og skynjun, sjálfsprottið fyrirvaraleysi (spontaneità) og skynfærni (ricettività), hlutlæg og huglæg tengsl eru eins (zugleich), vegna þess að þau eru eitt og hið sama (identici) sem fyrirbæri þess hvernig sjálfsveran (soggetto) verður fangin (affetto), og eru þannig fyrir fram gefnir þættir sama gjörningsins“. Það er þessi sjálfshrifning (autoaffezione), þessi tilkoma sömu birtingarinnar sem er hyldýpið sem þessar tvær uppsprettur þekkingarinnar hrapa saman ofaní í einingu sinni.
Ef við hugum nú að hugtakinu um þá óslökkvandi birtingu sem við gengum út frá í upphafi, þá sjáum við að það sem fyrsta Kritik-verkið kynnti til sögunnar sem blekkingu verður hér að þeirri sjálfshrifningu sem er frumlægari en sjálfsprottið fyrirvaraleysið og skynhæfnin og verður því undirstaða sérhverrar þekkingar. „Fyrirbæri fyrirbærisins“ endurómar aðra tilvitnun svo ekki verður um villst: „birtingin, það er yfirbragðið (die Apparenz, das ist der Schein)“
Birtingin var þannig raunverulega óslökkvandi: sæfarinn getur aldrei náð endastöð hennar, því í henni er fólginn sjálf uppspretta þekkingarinnar, hin hreina gjöf sjálfsverunnar til sjálfs sín. Staðfræði eyju sannleikans er virkilega flóknari en virtist í fyrstu. Túlkun Heideggers, sem leitaði í hinu forskilvitlega ímyndunarafli að frumlægari opnun, hitti þannig í mark; en það var augliti til auglitis við hyldýpi þessarar uppsprettu. Kant hefur alls ekki snúið sér undan, þvert á móti sneri hann aftur síðustu árin til þess að horfast í augu við þetta hyldýpi í allri sinni þversagnakenndu mynd (aporeticità). Og ég held að aðeins þetta mótsagnakennda hugtak hinnar upprunalegu sjálfsástríðu, þar sem ekkert er afhent sem gjöf annað en sjálf afhendingin, gæti fært okkur á hinn rétta stað þeirrar fagurfræði sem vildi hugsa Kant og Heidegger saman með róttækum hætti.
Spazio (Raum, rými, Það form innsæisins sem maðurinn notar til að staðsetja og skipuleggja „ytri“ skynjanir. Rýmið er ekki tilkomið af „ytri skynjun“, heldur er það fyrir fram tilkomin framsetning sem forsenda allrar ytri skynjunar mannsins samkvæmt K.
Spontaneità (Spontaneität, fortakslaus sjálfsprottin virkni sem býr í þekkingu mannsins samkvæmt K.)
Sublime (Hið háleita, das Erhabene, lýsing á getuleysi og vanmætti mannsins andspænis yfirgnæfandi ógnarvaldi náttúrunnar sakmvæmt K.)
Trascendentale (transzendental): Forskilvitlegur. Forskilvitlegt er það sem vísar til forgjafar tiltekinnar forsendu sem býr handan mögulegrar reynslu eða skynjunar.
„Ég kalla alla þá þekkingu forskilvitlega sem snýr ekki að hlutunum, heldur að þeirri aðferð þekkingaröflunar sem við beitum gagnvart hlutunum þar sem þessi aðferð þarf að vera fyrir fram möguleg.“
„Hin forskilvitlega heimspeki tekur nafn sitt af mörkum hins yfirskilvitlega og af þeirri hættu sem vofir yfir henni að falla ekki bara í hið yfirskilvitlega (űbersinnlich), heldur í það sem enga merkingu hefur.“
Yfirskilvitlegt ar það sem býr handan allrar mögulegrar reynslu. Þetta orð hefur ekki sömu merkingu og transcendentale… sú regla sem afnemur mörk mögulegrar reynslu og hvetur til að yfirstíga þau. Andstæða þessa hugtaks er „immanente“, sem notað er um beina og milliliðalausa reynslu.
KRÚSIN OG MYNDIN AF HEIMINUM
Þessi þýðing á tímamótaritgerð Martins Heideggers frá 1950 er tilraun til að gera hið ómögulega. Það er ávallt stærsta freisting þýðandans að takast á við mikilvægan texta sem er óþýðanlegur. Þetta á við um ljóðlistina og þann skáldskap sem nær að rífa tungumálið upp úr hjólförum sínum. Þessi tilraun Heideggers til að kynna fyrir okkur eðli hlutarins er um leið tilraun með tungumálið, þar sem það er sveigt og togað á ýmsa lund til að ná að segja þann sannleika sem hin hversdagslega og fátæka málnotkun samtímans er ekki til vitnis um. Það var Edmund Husserl kennari Heideggers, sem setti fram þá kröfu að heimspekin og tungumálið tækju á veruleikanum og hlutunum eins og þeir eru í raun og veru, en ekki í þeim myndum og forskriftum sem tungumálið og myndmálið hafa mótað í samtíma okkar. Þetta var krafa fyrirbærafræðinnar. Segja má að Heidegger hafi tekið lærimeistara sinn á orðinu með því að gera þessa fyrirbærafræðilegu atlögu að krúsinni, þessu einfalda drykkjaríláti sem allir telja sig þekkja, en opnast hér fyrir okkur í dýpkaðri veru sem mynd af heiminum og okkur sjálfum.
Rétt er að taka það fram að þessi íslenski texti er frekar tilraun til endursagnar en „þýðing“ í hefðbundnum skilningi, og margt við textann að athuga þó ég birti hann hér forvitnum lesendum hugruna til skemmtunar. Allar leiðréttingar á „þýðingunni“ væru vel þegnar.
Þessi ljósmynd af Martin Heidegger er eftir Francois Fediér
Martin Heidegger:
Das Ding;
Hluturinn og þingið
Ritgerð úr ritgerðasafninu Vorträge und Aufsätze frá 1950
Þýtt og endursagt úr útgáfu Vittorio Klostermann og Friedrich-Wilhelm von Herrman, Frankfurt am Main 2000.
Hliðsjón höfð af útgáfu Ugo Murzia editore, Milano 1976, í umsjá Gianni Vattimo: Saggi e discorsi, bls. 109-124.
Allar fjarlægðir í tíma og rúmi skreppa saman. Staðir sem aðeins var hægt að nálgast eftir viku- eða mánaðarlöng ferðalög geta menn nú heimsótt eftir næturlangt flug. Fréttir sem áður bárust okkur fyrst ári seinna eða aldrei, berast okkur nú nánast í beinni útsendingu með útvarpinu. Brum og vöxtur jurtanna, sem voru okkur hulin innan tímamarka árstíðanna, getum við nú skoðað á einnar mínútu kvikmynd. Fornar og fjarlægar miðstöðvar siðmenningarinnar eru nú til sýnis á kvikmyndatjaldinu eins og þær væru hluti af umferðaræðum okkar. Kvikmyndin staðfestir samtímis það sem hún sýnir með því að sýna okkur um leið upptökutækið og myndatökufólkið að baki þess. Hátindi útilokunar fjarlægðanna er náð með sjónvarpinu, sem brátt mun fylla og drottna yfir öllu hinu flókna fjarskipta- og samskiptaneti okkar.
Maðurinn leggur æ lengri vegalengdir undir sig á æ skemmri tíma. Hann leggur langleiðirnar að baki sér og hefur þannig allt innan handar.
En þessi ákafa eyðing allra fjarlægða færir manninum enga nærveru. Nándin felst reyndar ekki í styttingu fjarlægðanna. Það sem stendur okkur næst hvað vegalengd snertir í gegnum myndirnar, kvikmyndirnar eða hljóðin í útvarpinu, getur verið okkur fjarlægt. Það sem er okkur í órafjarlægð landfræðilega séð getur verið okkur nákomið. Löng vegalengd felur ekki enn í sér fjarveru.
Hvað er nærveran ef hún næst ekki með styttingu hinna lengstu vegalengda? Hvað er nándin ef endalaus stytting hinna lengstu vegalengda hefur jafnvel þau áhrif að útiloka hana? Hvað er nærveran ef fjarvera hennar þurrkar líka út fjarlægðirnar?
Hvað á sér stað þegar afnám hinna löngu vegalengda gerir allt jafn nákomið eða fjarlægt? Hvað felst í þessari útjöfnun, þar sem hlutirnir eru okkur hvorki fjarlægir né nákomnir?
Allt flæðir saman í eina einsleita bendu án fjarlægðar. Hvernig? Er þessi samþjöppun alls með afnámi vegalengdanna ekki meira ógnvekjandi en allsherjar sundrung alls?
Maðurinn er heltekinn af tilhugsuninni um að til kjarnorkusprenginga komi. Maðurinn sér ekki það sem er löngu ljóst og hefur þegar gerst, þar sem síðasta afsprengið er framleiðsla og sprenging atómsprengjunnar, svo ekki sé minnst á vetnissprengjuna, en fyrsta notkun hennar gæti í versta falli nægt til að eyða öllu lífi á jörðinni. Eftir hverju bíður þessi ráðalausa angist, ef þessir skelfingaratburðir hafa þegar átt sér stað?
Það ógnvænlega felst í því að allt sem er, verði svipt fyrri veru sinni. Hvað er þetta ógnvænlega? Það sýnir sig og felur sig með þeim hætti sem allt birtist, þótt fjarlægðirnar hafi verið yfirunnar, þá er nálægð þess sem er enn ekki til staðar.
Hvað felur nálægðin í sér? Hvernig getum við upplifað eðli hennar? Svo virðist sem hún láti sig ekki sjálfkrafa í ljós. Við getum kannski höndlað hana ef við leitum eftir því sem er okkur næst. Í námunda okkar er að finna það sem við erum vön að kalla hlutina. En hvað er hlutur?
Fram til þessa hefur maðurinn ekki hugleitt hlutinn sem hlut frekar en nálægðina. Krúsin er hlutur. En hvað er krúsin? Við segjum: hún er ílát, eitthvað sem getur geymt annað í sér. Það sem myndar krúsina er botninn og hliðarveggurinn. Þetta umfang má líka höndla með handfanginu. Sem ílát er krúsin eitthvað sem stendur sjálft (in sich steht). Þetta að standa í sjálfu sér einkennir krúsina sem eitthvað sjálfstætt (Selbständiges). Sem sjálfstæði sjálfstæðs hlutar er krúsin frábrugðin venjulegu viðfangi (Gegenstand). Það sem er sjálfstætt getur orðið viðfang ef við framköllum það (vorstellen), annað hvort í seilingarfjarlægð eða í minningu sem framkallar ímyndun (Vergegenwärtigung). Það sem myndar hlutareðli hlutarins (das Dinghafte des Dinges) er þó hvorki háð því að hann sé framkallað eða ímyndað viðfang (vorgestellter Gegenstand), né heldur að hægt sé að skilgreina hann á grundvelli við-móts við-fangsins (Gegenständlichkeit des Gegenstandes).
Krúsin er ílát, hvort sem við höfum fyrir fram gefna hugmynd (Vorstellung) um hana eða ekki (hugtakið „Vorstellung“ getur merkt bæði hugmynd og sýningu). Sem ílát stendur krúsin í sjálfri sér. Hvað merkir það annars, að ílát standi í sér sjálfu (stehe in sich)? Er það ákvarðandi um krúsina sem hlut að hún standi í sjálfri sér? Krúsin stendur aðeins sem ílát ef henni hefur verið stillt upp sem slíkri. Þetta hefur hins vegar átt sér stað og það gerist í gegn um uppstillingu (Stellen), nefnilega með fram-leiðslu (Herstellen). Leirkerasmiðurinn fullgerir hina jarðbundnu krús úr sér völdu og meðhöndluðu jarðefni. Það er efni krúsarinnar. Í krafti efnis síns getur krúsin einnig staðið á jörðinni, hvort sem það er beint eða með milligöngu borðs eða bekks. Það sem felst í slíkri uppstillingu (Herstellen) krúsarinnar er að standa í sjálfri sér (das Insichstehende). Þegar við tökum krúsinni sem tilbúnu íláti þá meðtökum við hana að því er virðist sem hlut (Ding), en alls ekki sem einfalt viðfang (Gegenstand).
Eða höldum við áfram að líta á krúsina sem viðfang? Vissulega. Reyndar er hún ekki lengur bara viðfang hreinnar framsetningar /ímyndunar (Vorstellens), heldur er hún vegna framsetningarinnar viðfang framleiðslu sem stillir sér upp fyrir framan okkur og andspænis okkur. Að standa í sjálfri sér (Insichstehen) virðist vera einkenni krúsarinnar sem hlutur. Í rauninni hugsum við engu að síður það að standa í sjálfu sér út frá framleiðslunni. Að standa í sjálfu sér er það sem framleiðslan hefur séð fyrir sér. En það að standa í sjálfu sér er engu að síður líka hugsað út frá viðfangseðlinu, þar sem viðfang hins framleidda byggir ekki lengur á hreinni hugmynd (Vorstellen). En frá viðfangseðli viðfangsins og sjálfstæðisins (Gegenständlichkeit des Gegenstandes und Selbstandes) liggur engin bein leið til hlutareðlis hlutarins (Dinghaften des Dinges).
Hvað felst í hlutlægni hlutarins? Hvað er hluturinn í sjálfum sér? Við getum eingöngu nálgast hlutinn í sjálfum sér þegar hugsun okkar hefur loksins höndlað hlutinn sem hlut.
Krúsin er hlutur sem ílát. Þetta ílát kallar á framleiðslu. En það að vera framleidd af leirkerasmið segir engan veginn til um hvað tilheyri krúsinni sem krús. Krúsin er ekki ílát af því að hún hefur verið framleidd, þvert á móti hefur krúsin kallað á þessa framleiðslu af því að hún er þetta ílát.
Framleiðslan leiðir krúsina engu að síður inn í það sem er hennar eigin. En það sem er eiginleiki kjarna krúsarinnar er aldrei búið til í framleiðslunni. Þegar krúsin hefur losnað fullgerð úr framleiðslunni og er orðin sjálfstæð þarf hún að halda utan um sjálfa sig. Á framleiðsluferlinu verður krúsin allavega fyrst að sýna framleiðandanum útlit sitt. En þessi sjálfssýning (Sichzeigende), þetta útlit (das εϊδος (eidos), die ίδέα (idea)) einkennir krúsina einungis út frá því sjónarhorni sem hún -sem ílát á leið í framleiðslu – hefur gagnvart framleiðandanum.
Engu að síður er það svo að ásjóna íláts eins og þessarar krúsar, hvað og hvernig krúsin sem þessi krúsar-hlutur er, ásjónan lætur okkur aldrei upplifa hugmyndina (die ίδέα ) með tilliti til útlitsins, hvað þá frekar hugsa hana. Þetta hefur Platon hugsað þannig að nærvera þess sem er til staðar í útliti sínu varði kjarna hlutarins næsta lítið, og sama má segja um Aristóteles og aðra hugsuði sem á eftir komu. Platon hefur hins vegar skilið alla sýnilega hluti sem við-fang framleiðslunnar og markað þar með sjónarmið komandi kynslóða. Við notum ekki hugtakið við-fang (Gegen-stand) heldur frekar orðið Herstand (af-urð). Í fullum kjarna af-urðarinnar býr tvöfaldur uppruni (Her-stehen), fyrst og fremst upprunastaðurinn, hvort sem um er að ræða að hluturinn sé sjálfsprottinn eða tilbúinn. Í öðru lagi uppruni í þeim skilningi að koma frá og felast í (Hereinstehen) því sem er framleitt með afhjúpun þess sem er þegar til staðar.
Sérhver framsetning /ímyndun (Vorstellen) þess sem er til staðar (Anwesenden) í skilningi af-urðarinnar (Herständigen) og við-fangsins (Gegenständigen) nær þó aldrei að fanga hlutinn sem hlut. Hlutareðli krúsarinnar felst í því að hún er ílát. Við skynjum umfang ílátsins þegar við fyllum krúsina. Botn og hliðarveggir krúsarinnar mynda augljóslega ílátið. En gáum nú að! Þegar við hellum víninu í krúsina hellum við því þá í hliðarveggina og botninn? Við hellum víninu fyrst og fremst á milli barmanna sem standa á botninum. Hliðarveggirnir og botninn eru hið gegnheila í ílátinu. Það gegnheila er þó ekki ígildi ílátsins eitt og sér. Þegar við fyllum krúsina flæðir bunan í fyllingu hinnar tómu krúsar. Tómið er það sem tekur á móti í ílátinu. Tómið, þetta ekkert í krúsinni, er það sem gerir krúsina að íláti. Ein og sér er krúsin gerð úr botni og hliðarveggjum. Það er þetta sem krúsin er gerð úr og það er á þessu sem hún stendur. Hvað væri krús sem ekki gæti staðið? Í besta falli misheppnuð krús. Alltaf krús, en þó þannig að þó hún væri fyllt, þá myndi hún stöðugt velta um koll og tæmast. En tæming getur einungis gerst hjá íláti.
Hliðarveggir og botn sem krúsin er gerð úr og gera henni kleift að standa eru ekki hið eiginlega ílát. Þar sem ílátið byggir á tómi krúsarinnar þá er leirkerasmiðurinn í raun ekki að ljúka við gerð hennar Þegar hann mótar hliðarveggina og botninn á snúningsskífu sinni. Hann mótar bara leirinn. Nei – hann byggir tómið. Það er fyrir tómið, með tóminu og úr tóminu sem hann mótar leirinn í myndinni. Leirkerasmiðurinn handfjatlar (fasst) fyrst og fremst óhöndlanleika tómsins og festir það sem ílátsgildið í byggingu ílátsins. Tóm krúsarinnar ákvarðar sérhvert handtak handverksmannsins. Hlutareðli ílátsins er alls ekki fólgið í efni þess, heldur í tóminu sem það hefur að geyma (fasst).
Ein og sér, er krúsin í raun og veru tóm?
Eðlisfræðin kennir okkur með fullri vissu að krúsin sé full af lofti og allri þeirri efnablöndu sem andrúmsloftinu fylgir. Þegar kom að því að skilja tóm krúsarinnar sem forsendu fyllingarinnar létum við blekkjast af skáldagrillum.
Um leið og við gefum okkur hins vegar að því að rannsaka hina raunverulegu krús á vísindalegan hátt blasir við annar veruleiki. Þegar við hellum víninu í krúsina gerist það einfaldlega að loftið sem fyllti krúsina víkur fyrir vökvanum. Frá vísindalegu sjónarhorni felst fylling krúsarinnar í því að skipta frá einni fyllingu yfir í aðra.
Þessi ábending eðlisfræðinnar er hárrétt. Vísindin snúast um eitthvað raunverulegt og beita þannig hlutlægum aðferðum. En er þessi raunveruleiki krúsin? Nei. Vísindin takmarka athuganir sínar ávallt fyrir fram við það sem framsetningaraðferð þeirra gerir aðgengilegt sem mögulegt viðfang (Gegenstand).
Menn segja að þekking vísindanna sé þvingandi (zwingend). Vissulega er það svo. En í hverju er þessi afgerandi þvingun fólgin? Í okkar tilfelli felst hún í þeirri þvingun að taka hina fylltu vínkrús okkar út úr myndinni, og setja í hennar stað holrými þar sem vökvafylling á sér stað. Vísindin gera krúsar-hlutinn að einhverju engu, þar sem bannað er að skoða hlutina eins og þeir eru.
Þessi þvingandi þekking vísindanna, sem er skuldbindandi innan þessara marka viðfangsins, hafði þurrkað út hlutina sem slíka, löngu áður en atómsprengjan sprakk. Þessi sprenging þeirra er einungis það grófasta af öllum þeim grófu staðfestingum á þessari löngu tilkomnu eyðingu hlutarins; þeirri staðreynd að hluturinn sem hlutur sé og verði ekkert. Hlutareðli hlutarins er þannig falið og gleymt. Eðli hlutarins er hulið, kemur hvergi í ljós, það er hvergi til umræðu. Við segjum þetta þegar hér er talað um um eyðingu hlutarins sem hlutur. Þessi eyðing er ógnvekjandi vegna þess að hún er falin á bak við tvöfalda grímu. Í fyrsta lagi á bak við þá skoðun, að vísindin standi allri annarri reynslu framar hvað varðar að greina veruleikann í öllum sínum veruleika. Í öðru lagi vegna þeirrar blekkingar, að hlutirnir geti áfram verið hlutir, óháð fordómum hinnar vísindalegu rannsóknar á veruleikanum, en þar er gengið út frá því að hlutirnir hafi alltaf verið til staðar almennt og fyrir fram, sem hlutvera (wesende Dinge). Ef hlutirnir hefðu hins vegar þegar og fyrir fram sýnt sig sem hlutir í hlutareðli sínu, þá hefði hlutareðli hlutanna verið opinbert. Þá hefði þetta hlutareðli hlutanna orðið viðfangsefni hugsunarinnar. Raunin er hins vegar sú að hluturinn sem hlutur er útilokaður, sem tóm, og í þeim skilningi er honum útrýmt. Þetta hefur gerst og gerist enn með svo afgerandi hætti að hlutirnir fá ekki lengur að birtast sem hlutir, heldur gerist það líka að hlutirnir yfirleitt megna ekki lengur að birtast hugsuninni sem hlutir.
Hvað veldur ekki-birtingu hlutarins sem hlutur? Er orsökin eingöngu sú að maðurinn hefur vanrækt að láta hlutinn birtast sér sem hlutur? Maðurinn getur einungis vanrækt það sem honum hefur áður verið ráðlagt. Maðurinn getur einungis séð það fyrir með margvíslegum hætti, sem áður hafði látið sig í ljós, og sýnt sig í þannig tilkomnum ljóma sínum.
En hvað er hann eiginlega, þessi hlutur sem hlutur er hefur glatað birtingarmætti sínum?
Kom hluturinn aldrei nægilega nálægt manninum þannig að hann hefur enn ekki lært að huga fullnægjandi að hlutnum sem hlut? Hvað er nánd? Við vorum búin að spyrja þessarar spurningar. Við höfum spurt krúsina í nálægð hennar til þess að uppgötva þetta.
Hvað felst í krúsareðli krúsarinnar? Við misstum fyrirvaralaust sjónar á henni, einmitt á því augnabliki þegar sú birting kom í ljós, þar sem vísindin gátu upplýst okkur um raunveruleika hinnar raunverulegu krúsar. Við sáum fyrir okkur virkni ílátsins, fyllingu þess, tómið eins og það væri holrými fyllt með lofti. Þar er tómið hugsað í eðlisfræðilegum veruleika sínum. En það er ekki tóm krúsarinnar. Við létum tóm krúsarinnar ekki vera hennar tóm. Þess vegna áttuðum við okkur ekki á því hvað felst í inntaki (Fassende) ílátsins. Við huguðum ekki að því hvað felst í umfanginu (Fassen). Þess vegna hlaut það einnig að fara fram hjá okkur, hvað krúsin hafði að geyma. Hin vísindalega framsetning á víninu umbreytti því í einskært flæði einhvers sem gat verið staðgengill allra hugsanlegra efna. Við létum hjá líða að hugleiða hvað krúsin hafði að geyma og hvernig hún geymdi það.
Hvernig geymir (fasst) tóm krúsarinnar? Það geymir með því að taka við því sem er hellt. Tómið inniheldur með tvennum hætti: taka á móti og geyma. Orðið „fassen“ (halda utan um) er þannig tvírætt. Að taka á móti uppáhellingi og varðveita uppáhellinginn eru þannig samtengd. Eining þeirra ákvarðast hins vegar af losuninni, sem aftur ákvarðar krúsina sem krús. Hið tvöfalda innihald hins tóma felst í losun. Sem slíkt er innihaldið einmitt það sem það er. Að hella úr krúsinni er að skenkja (schenken). Innihald ílátsins verður (west) boð um bunu (Guss). Innihaldið hefur þörf fyrir tómið eins og ílátið. Með því að skenkja sameinast eðli hins fyllta tóms. Að skenkja er hins vegar innihaldsríkara en einföld útlát. Skenkunin sem gerir krúsina að krús leiðir til tvöfeldni þess að innihalda og úthella. Við köllum samsafn fjalla fjalllendi (Gebirge). Við köllum sambland hins tvöfalda innihalds í úthellingunni (Ausgiessen) sem í sameiningu myndar hið fulla eðli skenkunarinnar: das Geschenk (gjöf, fórnargjöf. Forskeytið Ge- myndar samlegð í þýsku). Krúsareðli krúsarinnar felst í fórnargjöf bununnar. Hin tóma krús viðheldur eðli sínu með fórnargjöfinni, jafnvel þegar hún býður ekki fram neina úthellingu. En þessi útlátshöfnun tilheyrir krúsinni og einungis krúsinni. Sigð eða hamar megna ekki að banna þessa veitingu.
Fórnargjöf bununnar getur verið drykkur. Hún býður fram vatn, hún býður fram vín til drykkjar.
Í vatni fórnargjafarinnar dvelur (weilt) uppsprettan. Í uppsprettunni er kletturinn og í honum svefndrungi jarðarinnar sem meðtekur regn og dögg himinsins. Í vatni uppsprettunnar lúrir brúðkaup Himins og Jarðar. Þetta brúðkaup dvelur í víninu sem ávextir vínviðarins hafa fært okkur; þar sem næringarmáttur jarðar og sólar himinsins sameinast. Í framboði vatnsins og í framboði vínsins finnum við ávallt Himinn og Jörð. Dreypifórnin er hins vegar krús-vera krúsarinnar. Í kjarna krúsarinnar búa Himinn og Jörð.
Framboð dreypifórnarinnar færir hinum dauðlegu drykkinn. Það slekkur þorsta þeirra. Það lífgar hvíld þeirra. Það kætir samfundi þeirra. En dreypifórn krúsarinnar er einnig færð hinum ódauðlegu Guðum í helgiathöfninni. Gjöf dreypifórnarinnar sem drykkur er hin eiginlega gjöf (Geschenk). Með dreypifórn hins vígða drykkjar birtist vera hinnar gjöfulu krúsar sem skenkjandi Gjöf. Hinn vígði drykkur er það sem orðið „Guss“ (úrhelli, buna) nefnir í raun og veru. Fórnarskál og framlag. „Guss,“, „giessen“ eru orð sem samsvara gríska orðinu χέείγ (keein)og hinu indógermanska gbu. Merking þeirra er að færa fórn. Úthelling framkvæmd með sinni dýpstu merkingu og úthugsun og sinni réttu framsögn jafngildir því að færa helga dreypifórn, fórna og þar með gefa (schenken). Þannig getur merking veitingar úr krúsinni dofnað niður í einfalda tæmingu og fyllingu þar til hún breytist í einfalt úrhelli. Að hella er ekki einskær tæming og áfylling.
Þegar drykkur er boðinn fram með bunuágjöf taka hinir dauðlegu á móti með sínum hætti. Þegar drykkur er boðinn fram með bunuágjöf taka hinir guðdómlegu við henni með sínum hætti, þar sem þeir taka á móti gjöf veitingarinnar sem endurgjöf. Hinir dauðlegu og hinir guðdómlegu bregðast með ólíkum hætti við gjöf bununnar. Við gjöf bununnar mætast Himinn og Jörð, Dauðlegir og Guðdómlegir. Þessir fjórir heyra hér saman, sameinaðir í sjálfum sér. Tilkomnir á undan öllu öðru sameinast þeir í einni Fernu (Geviert).
Í gjöf bununnar felst einfeldni Fernunnar.
Gjöf bununnar er veiting að því tilskyldu að hún feli í sér (verweilt) Jörð og Himinn, hið Guðdómlega og hið Dauðlega. Að fela í sér er hér ekki það sama og ríghalda í það sem er til staðar. Að fela í sér er að tileinka sér (Verweilen ereignet). Það leiðir fjóra í þeirra eiginlega ljós. Úr þessum einfaldleika er gagnkvæm trúmennska þeirra ofin. Með þessari gagnkvæmu einingu eru þeir afhjúpaðir. Gjöf bununnar framkallar (verweilt) einfaldleika Fernu fjögurra. Með gjöfinni verður (west) krúsin hins vegar varanlega að krús. Gjöfin sameinar það sem tilheyrir veitingunni: hið tvöfalda innihald (Fassen), geymdina (das Fassende), tómið og úthellinguna (das Ausgiessen) sem veitingu. Það sem sameinast í gjöfinni tekur sig saman með því að virkja Fernuna. Þetta margfalt einfalda samkvæmi er eðli (Wesende) krúsarinnar. Okkar tunga á sér gamalt orð um samkomuna (Versammlung). Þetta orð er „þing“ (Ding, hlutur). Eðli krúsarinnar er hin hreina örláta samkoma hinnar einföldu Fernu í einni viðveru (weile). Krúsin verður (west) eins og Þing (Ding, hlutur). Krúsin er krúsin eins og „þing“ (hlutur). Hvernig virkar (west) Þingið? Þingið þingar (Das Ding dingt). Þinghaldið (das Dingen) sameinar. Það sameinar með því að framkalla Fernuna og veru hennar í einni samfelldri samveru: í þessu, í sérhverju Þingi (Ding, hlut).
Þegar við höfum upplifað og hugleitt eðli krúsarinnar með þessum hætti gefum við henni nafnið Þing (Ding). Við hugsum þetta nafn nú út frá úthugsuðu eðli Þingsins, út frá þinghaldinu (das Dingen) sem samveru og sameign Fernunnar. Við höfum þá jafnframt í huga þetta forna orð háþýskunnar. „thing“. Þessi málsögulega tilvísun leiðir okkur auðveldlega til misskilnings á því, hvernig við hugsum veru kjarna hlutarins (das Ding). Það gæti gefið til kynna að sá skilningur sem við leggjum nú í eðli hlutarins hafi fyrir tilviljun verið dreginn af merkingu þessa orðs úr fornri háþýsku. Sá grunur fær vængi, að sú hugsun um reynsluna af eðli hlutarins sé tilkomin fyrir tilverknað málsögulegra fimleika. Sú skoðun festir rætur og verður brátt landlæg, að í stað þess að huga að eðlisþáttunum hafi verið gripið til orðabókarinnar.
Hið gagnstæða við slíkar áhyggjur er hins vegar tilfellið. Vissulega þýðir þetta forna orð úr háþýsku samkoma, meira að segja samkoma til umfjöllunar um málefni líðandi stundar, um deilumál. Þess vegna eru þessi fornu orð „thing“ og „dinc“ notuð um meðferð málefna; þau nefna jafnframt það sem mönnum liggur á hjarta, hvað snertir þá og hvað sé á dagskrá (in Rede steht). Það sem er á dagskrá kalla Rómverjar „res“; á grísku: εϊρω (eiro) (ρητς, ρητρα, ρήμα / retks, retra, rema). Að fjalla um eitthvað og semja um það. Res publica merkir ekki ríkið, heldur það sem varðar sérhvern einstakling innan þjóðarinnar, hvað veldur honum áhyggjum (ihn „hat“) og kallar á opinbera umræðu.
Einungis þessi merking orðsins res sem hagsmunamál gefur tilefni til orðasambandanna „res adversae“ og „res secundae“, það fyrra sem ólán og það seinna sem hvað verður manni til happs. Orðabækurnar þýða res adversae réttilega sem ógæfu og res secundae sem gæfu. Hins vegar segja orðabækurnar okkur fátt um hvað orðin segja sem hugsað talmál. Raunin er sú, að bæði hér og í öðrum tilfellum er því ekki þannig varið, að hugsun okkar lifi á orðsifjafræðinni, heldur beinist orðsifjafræðin fyrst og fremst að því að hugleiða þau grundvallar tengsl sem orðin hafa við það sem þau nefna beinlínis.
Rómverska orðið res vísar í það sem varðar manninn, málefnið, þrætuefnið, tilfellið. Í þeim tilgangi nota Rómverjar líka orðið „causa“. Það merkir eiginlega ekki, og alls ekki fyrst og fremst „orsök“ (Ursache). Causa merkir tilfellið og einnig það sem birtist í tilfellinu og felst í því. Þar sem causa merkir tilfellið (Fall), næstum það sama og res, þá getum við sagt að causa tengist orsökinni í tengslum við orsakasamhengi tiltekinnar virkni. Hið fornþýska orð thing og dinc eru með tengslum sínum við samkomu, og þar með málsmeðferð, betur en nokkuð annað til þess fallin að þýða rómverska orðið res, málefnið (das Angehende). En orðið sem fellur best að orðinu res í því sama rómverska tungumáli er orðið causa í merkingunni tilfelli og málefni, sem verður aftur í rómönskum málum la cosa og á frönsku la chose. Við segjum hins vegar á þýsku das Ding, og enska myndin thing hefur ennþá varðveitt með fullum styrk merkingu rómverska orðsins res. Menn geta þannig sagt: he knows his things, hann kann skil á sínum „hlutum“, það er að segja á þeim málum sem hann varða, he knows how to handle things, hann kann að bregðast við hlutunum, það er að segja við því sem upp á kemur, that is a great thing: það er góður (fallegur, máttugur, stórbrotinn) hlutur, það er að segja hlutur sem kemur fólki við.
Þessi saga merkingar orðanna res, Ding, causa, cosa, chose og thing, sem hér hefur verið drepið á, skiptir þó ekki mestu máli í þessu sambandi, heldur eitthvað allt annars eðlis, sem hingað til hefur ekki verið hugleitt. Rómverska orðið res nefnir það sem mannfólkið varðar með einum eða öðrum hætti. Það sem kemur manninum við (das Angehende) er raunveruleiki res. Raunveruleiki res er samkvæmt reynslu Rómverja falinn í því sem mann varðar (Angang). En: Rómverjar hafa aldrei hugleitt slíka reynslu í eðli sínu. Þar við bætist að með innleiðingu síðgrískrar heimspeki verður raunveruleiki res meðtekinn í skilningi hins gríska όγ (on), sem á latínu er ens, og merkir það sem er til staðar (Anwesende) í merkingu upprunans (Herstand). Hugtakið res verður ens, sá hlutur sem er til staðarað að því marki sem hann er fram-leiddur og fram-settur (das Her- und Vorgestellten). Hið undarlega realitas (raunveruleiki) hinnar upprunalegu rómversku reynslu af því sem mann varðar (Angang) verður grafið og gleymt sem eðli þess hlutar sem er til staðar (des Anwesenden). Á næstu öldum, einkum á miðöldum, fékk hugtakið res þá merkingu að vísa til sérhvers ens sem ens, það er að segja til alls þess sem með einhverjum hætti er til staðar, einnig þegar það á uppruna sinn í ímynduninni (Vorstellen) og er einungis til staðar sem ens rationis (hugsaður hlutur). (Ath.: latneska hugtakið ens eða res á sér ekki fullkomlega sambærilega mynd á íslensku: það getur merkt „hlut“ sem er hlutlægur, en einnig fyrirbæri sem er huglægt. Samkvæmt MH hafa þessi hugtök haft misvísandi merkingarmið í gegnum aldirnar. olg.) Það sama og gerðist með res hefur einnig gerst með orðið dinc (þing), þar sem dinc merkir allt sem er með einhverjum hætti. Þannig notar Meister Eckhardt orðið dinc jöfnum höndum fyrir Guð og sálina. Fyrir honum er Guð das „hoechste und oberste dinc“ (hiðnn hæsti og göfugasti hlutur). Og sálin er ein „groz dinc“ (stórbrotinn hlutur). Þessi meistari hugsunarinnar er þar með engan veginn að halda því fram að Guð og sálin séu sambærileg við grjóthnullung, það er að segja efnislegir hlutir. Dinc er hér notað með hófsömum og varfærnum hætti um eitthvað sem yfirleitt er. Þannig hefur Meister Eckhart á einum stað þessi orð eftir Dionigi di Areopagita: „diu minne ist der natur -, daz si den menschen wandelt in die dinc, die minnet. (ástin er þeirrar náttúru að hún umbreytir mannfólkinu í þá hluti sem það elskar. olg.).
Þar sem orðið Ding (hlutur/ Þing) stendur fyrir það sem almennt og með einhverjum hætti er eitthvað í málnotkun vesturlenskrar frumspeki, þá hefur merking orðsins „Ding“ tekið breytingum til samræmis við ólíkar túlkanir sem menn hafa haft á því sem er, það er að segja sem verundinni í heild sinni (das Seienden). Kant talar um hlutina með sama hætti og Meister Eckhart, og á þá við eitthvað sem er. En hjá Kant verður það sem er að viðfangi (Gegenstand) framsetningarinnar / ímyndarinnar (Vorstellen) sem á sér stað í sjálfsvitund hins mannlega Égs. „Hluturinn í sjálfum sér“ merkir hjá Kant viðfangið í sér sjálfu. Þetta „í sjálfu sér“ merkir hjá Kant að viðfangið sé sitt eigið viðfang án aðkomu hinnar mannlegu ímyndar (Vorstellen), það er að segja án þess „Gegen-„ forskeytis (sbr. Gegen-stand; við-fang) sem þessi ímyndun (Vorstellung) stendur fyrst og fremst fyrir. „Ding an sich“ merkir samkvæmt strangri kantískri hugsun viðfang sem er ekki neitt andspænis okkur, þar sem það stendur án þessa „Gegen“ („andspæni“) sem það hefur gagnvart ímynduninni (Vorstellen).
Hvorki hin almenna og löngu ofnotaða merking orðsins „Ding“ í heimspekinni, né merking hins háþýska thing (ísl. þing) koma okkur að minnstu notum í þeim erfiðleikum sem við mætum hér, ef við ætlum okkur að upplifa og hugsa beinlínis það sem við segjum nú um eðli krúsarinnar. Þó vill það til að eitt merkingartilvik hinnar gömlu málnotkunar á orðinu thing, nefnilega „samkoman“ hefur eitthvað að segja um það sem áður var sagt um eðli krúsarinnar.
Krúsin er hvorki hlutur í skilningi hins rómverska res, né í miðaldaskilningi orðsins ens, og allra síst í merkingu hins nútímalega viðfangs (Gegenstand). Krúsin er „þing“ (hlutur) að því marki sem hún „þingar“ (íhlutar /þingar). Með „íhlutun hlutarins“ (Dingen des Dinges) verður fyrst sú tilkoma þess sem er til staðar (Anwesen des Anwesenden) í veruhætti (Art) krúsarinnar.
Á okkar tímum eru allir tilfallandi (Anwesende) hlutir jafn nálægir og fjarlægir. Fjarvera fjarlægðarinnar er ríkjandi. Öll þessi smækkun og útilokun fjarlægðanna skapar þó enga nánd. Hvað er nándin? Til þess að finna nándina hugleiddum við krúsina í nánd sinni. Við leituðum að eðli nándarinnar og fundum eðli krúsarinnar sem hlutur. En með þessum fundi skynjuðum við um leið eðli nándarinnar. Hluturinn íhlutar (Das Ding dingt). Íhlutunin felur í sér viðveru (verweilen) Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og Dauðlegu. Með sköpun viðveru (verweilend) færir hluturinn fjarlæga fjórðunga nær hvor öðrum úr fjarlægðinni. Þessi nálgun er nærvera. Nærveran lætur hið fjarlæga nálgast einmitt sem hið fjarlæga. Nándin varðveitir fjarskann (Nähe wahrt die Ferne). Með því að varðveita fjarlægðina dvelur nándin í nálgun sinni. Nándin felur sjálfa sig með slíkri nálgun og verður með sínum hætti innan handar.
Hluturinn er ekki „í“ nándinni eins og hún væri ílát. Nándin stýrir nálguninni eins og íhlutun hlutarins.
Íhlutunin færir hlutnum viðdvöl (verweilt) í einingu Fernunnar, Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og Dauðlegu, í einfaldleika þeirra eigin Fernu.
Jörðin er undirstaða hins byggða (die bauend Tragende), næringargjafi hins frjósama, hirðir vatnsins og klettanna, jurtanna og dýranna.
Þegar við segjum Jörð, þá hugsum við um leið um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.
Himininn er vegslóð sólarinnar, tunglhvarfanna, stjörnubliksins, árstíðanna, dagsljóssins og ljósaskiptanna, dimmu og birtu næturinnar, góðærisins og ótíðarinnar, skýjafarsins og dýptar himinblámans.
Þegar við segjum Himinn, þá hugsum við líka um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.
Hinir Guðdómlegu eru sendiboðar Guðdómsins sem vinka til okkar. Úr huldum valdastól þeirra birtist okkur Guð í kjarna sínum, sem er frábrugðinn allri annarri veru.
Þegar við segjum hinir Guðdómlegu, þá hugsum við líka um hina þrjá í ljósi einfeldni Fernunnar.
Hinir Dauðlegu eru mannfólkið. Það heitir hinir Dauðlegu vegna þess að það megnar að deyja. Að deyja merkir: að hafa vald á dauðanum sem dauða. Einungis maðurinn deyr. Dýrið fellur. Það á sér engan dauða fyrir höndum eða sér að baki. Dauðinn er vörsluskrín tómsins, eða þess sem frá öllum sjónarhólum felur ekki í sér neina verund (seiendes) þó það sé (west), rétt eins og leyndardómur sjálfrar verunnar. Sem vörsluskrín tómsins er dauðinn skjól (Gebirg) verunnar. Við köllum hina dauðlegu nú dauðlega – ekki vegna þess að jarðnesku lífi þeirra lýkur, heldur vegna þess að þeir hafa dauðann á valdi sínu sem dauða (Tod als Tod vermögen). Hinir dauðlegu eru það sem þeir eru, sem hinir dauðlegu er dvelja í birgi verunnar. Þeir eru hin eðlisbundnu tengsl við veruna sem veru ( Sie sind das wesende Verhältnis zum Sein als Sein.)
Frumspekin sýnir okkur hins vegar manninn sem dýr, eins og lífveru. Einnig þegar rökhugsunin (die ratio) yfirskyggir hið dýrslega (animalitas) er maðurinn skilgreindur á grundvelli lífsins og á þeirri staðreynd að hann sé lifandi. Hinar skynsömu lífverur þurfa fyrst að verða dauðlegar.
Þegar við segjum: hinir Dauðlegu, þá hugsum við þegar um þá ásamt með hinum þrem í ljósi einfeldni Fernunnar.
Jörð og Himinn, hinir Guðdómlegu og hinir Dauðlegu tilheyra í einingu sinni einfaldleika Fernunnar . Sérhver þessara fjögurra endurspeglar með sínum hætti eðli allra hinna . Þannig speglar sérhver sig með eigin hætti í sinni eigind (Eigenes) innan einfeldni Fernunnar. Þessi speglun er engin framsetning á mynd. Þessi speglun gerir að verkum (ereignet) að eigin eðli sérhvers skýrist (lichtend) í hinni einföldu sameiningu þeirra.
Hin frjálsa bindandi speglun er leikurinn þar sem sérhver þessara fjögurra binst hinum í gagnkvæmum stuðningi sameiningarinnar. Enginn hinna fjóru festir sig í sinni sérstöðu. Sérhver hinna fjögurra er innan einingarinnar, miklu frekar en að tilheyra hverjum fyrir sig. Þessi áunna sameining er speglaleikur Fernunnar. Í honum verður einfaldleiki Fernunnar tryggður.
Við nefnum þennan virka speglaleik einfaldleikans með Jörð og Himni, hinu Guðdómlega og Dauðlega, sem Heiminn. Heimurinn varir að því marki sem hann er heimsvera (Welt west indem sie weltet). Þetta merkir: heimsvera heimsins (das Welten von Welt) verður hvorki skilgreind né til hennar stofnað með öðru. Þessi ómöguleiki stafar ekki af því að okkar mannlega hugsun sé ófær um slíka skilgreiningu eða stofnun. Miklu frekar stafar þessi óskigreinanleiki og óstofnanleiki heimsins af því, að hlutir eins og orsakir og forsendur heimsveru heimsins eru áfram ómælanlegar. Um leið og mannleg þekking kallar á skýringu á þessu sviði, þá hefur hún sig ekki upp yfir kjarna heimsins, heldur hrapar hún út af honum. Hinn mannlegi vilji til útskýringar nær hreint ekki til hins einfalda í einfeldni heimsverunnar (das Einfache der Einfalt des Weltens). Þessir Fjóru sameinuðu eru þegar fastmótaðir í kjarna sínum þegar þeir eru framsettir sem aðskildir veruleikar er kalli á tilstofnun og skilgreiningu hvers fyrir sig.
Eining Fernunnar er fjórskiptingin. En fjórskiptingin er engan veginn þannig gerð að hún innihaldi fjóra og að þetta innihald (Umfassende) sé tilkomið eftir á. Fjórbindingin gerir sig ennþá síður í því að þegar þessir fjórir komi í hús, þá standi þeir þar hlið við hlið.
Fjórskiptingin verður eins og þessi virki speglaleikur einfaldrar einingar þeirra trúföstu (zugetrauten). Fjórskiptingin varir (west) eins og heimsvera heimsins (das Welten von Welt). Speglaleikur heimsins er hringdans virkninnar (Reigen des Ereignens). Vegna þessa umlykur hringdansinn ekki þessa fjóra eins og armband. Dansinn er hringurinn sem umkringir og sameinar þar sem þar sem hann leikur speglaleikinn. Með vikni sinni upplýsir hann þessa fjóra í ljóma einfaldleika síns. Með uppljómuninni virkjar (vereignet) hringurinn Fernuna og opnar fyrir ráðgátuna um eðli hennar. Heildareðli hringferlis speglaleiks Heimsins er hringmyndunin (das Gering, sem getur líka þýtt „lítilræði“ en MH virðist hér nota forskeytið ge- til að leggja áherslu á hringmyndun fleiri aðila). Með snúningi hringsins sem er leikur speglanna sameinast þessir fjórir í sitt eina og samt sérstæða eðli. Í speglaleik hringmyndunar hringsins gerist íhlutun hlutarins. (Aus dem Spiegel-Spiel des Gerings des Ringen ereignet sich das Dingen des Dinges.)
Hluturinn framkallar dvöl Fernunnar. Hluturinn íhlutar Heim (Das Ding dingt Welt). Sérhver hlutur framlengir dvöl Fernunnar út í endalausa dvöl úr einfeldni Heimsins. Þegar við látum hlutinn dvelja í íhlutun sinni í heimsveru Heimsins hugsum við um hlutinn sem hlut. Þegar við hugsum þannig um hlutinn látum við okkur varða heimssækinn kjarna hlutarins (weltenden Wesen des Dinges). Þannig hugsandi erum við tilkölluð af hlutnum sem hlut. Við erum, í ströngustu merkingu orðsins, hin hlutgerðu (die Be-dingten, hin skilyrtu). Við höfum lagt hroka alls hins óskilyrta (óhlutbundna) að baki okkar.
Hugsandi um hlutinn sem hlut sýnum við eðli hlutarins umhirðu á því sviði sem hann dvelur í (west). Að íhlutast (Dingen) er að nálgast Heiminn. Nálgun er eðli nándarinnar. Að því marki sem við sýnum hlutnum umhirðu dveljum við í nándinni. Nálgun nándarinnar er hin eina og eiginlega vídd speglaleiks heimsins.
Fjarvera nándarinnar hefur þrátt fyrir afnám allra fjarlægða skapað yfirdrottnun þess sem er án fjarlægðar. Með fjarveru nándarinnar verður hlutnum í skilningi hins tilnefnda hlutar tortímt. En hvenær og hvernig eru hlutir eins og hlutir? Þannig spyrjum við undir ofríki þess sem á sér enga fjarlægð.
Hvenær og hvernig koma hlutirnir sem hlutir? Þeir koma ekki í krafti afkasta mannsins. Þeir koma heldur ekki án umhyggju hinna Dauðlegu. Fyrsta skrefið til slíkrar umhyggju er skrefið til baka; út úr þessari hugsun ímyndananna (vorstellen) og yfirlýsinganna yfir í hugsun umhyggjunnar.
Skrefið til baka frá einni hugsun yfir í aðra er sannarlega engin einföld umskipti á skoðunum. Þannig getur það aldrei orðið, þar sem allar skoðanir og eðli umskipta þeirra eru innilokuð innan marka forskrifaðrar hugsunar (vorstellenden Denkens). Skrefið til baka felur óhjákvæmilega í sér að svið hinnar hreinu skoðanamyndunar verði yfirgefið. Skrefið til baka kallar á þátttöku í samtali sem á rætur sínar í veru Heimsins og það kallar á andsvör út frá verunni í Heiminum. Einskær umskipti á skoðunum duga engan veginn til að mæta komu hlutarins sem hlutar. Sama á einnig við um viðföngin (Gegenstände) sem hafa verið svipt fjarlægð sinni, við getum einfaldlega ekki umbreytt þeim í hluti. Hlutirnir geta heldur ekki mætt okkur sem hlutir með því einu að við sniðgöngum viðföngin og köllum fram minninguna um gömul fyrrverandi viðföng, sem huganlega hafa einhvern tíma orðið á vegi okkar. Þau verða ekki að hlutum og alls ekki sem nærverandi hlutir.
Þegar hluturinn kemur til, á það rætur sínar í hringrás speglaleiks Heimsins. Væntanlega fyrst þá, þegar Heimurinn í heimsverunni (Welt als Welt weltet) varpar óvænt ljóma sínum á hringinn þar sem hringdans Jarðar og Himins, hinna Guðdómlegu og hinna Dauðlegu hringsnýst í einfeldni sinni.
Í samræmi við þennan hringsnúning (Geringen) er sjálf íhlutunin (dasDingen) lítilvæg (gering) og þessi endalausi hlutur lítill, ósýnilegur og látlaus í eðli sínu. Hluturinn er lítillátur (Ring ist das Ding): Krúsin og bekkurinn, göngubrúin og plógurinn. Með sínum hætti eru einnig tréð og mýrin, lækurinn og fjallið hlutir. Þó þau íhlutist (dingen) hvort með sínum hætti, hegrinn og hjörturinn, hesturinn og nautið, þá eru þau einnig hlutir. Þar sem þeir íhlutast hver með sínum hætti þá eru spegillinn og spöngin, bókin og málverkið, kórónan og krossinn einnig hlutir.
Hlutirnir eru líka smáir og lítilvægir (Ring und gering) í fjölda sínum ef borið er saman við óteljanleika hinna einsleitu og hlutlausu viðfanga sem aftur eru ósambærileg við þungavigt mannsfólksins sem lifandi verur.
Einungis sem hinir Dauðlegu getur mannfólkið byggt Heiminn sem Heim. Einungis það sem er Heiminum lítilvægt getur orðið að hlut (Nur was aus Welt gering, wird einmal Ding).
EFTIRMÁLI
Sendibréf til ungs nemanda
Freiburg i. Br. 18. Júní 1950
Kæri herra Buchner!
Ég þakka yður fyrir bréfið. Spurningarnar eru mikilvægar og röksemdafærslan rétt. Hins vegar þurfum við að huga að því hvort þær ná að kjarna málsins.
Vissulega eigið þér hér ekki við að „veran“ sé einskært viðfang og hugsunin einföld iðja tiltekinnar sjálfsveru (Subjekt). Eins og fram kom í þessum fyrirlestri (Das Ding) þá er hugsunin engin einföld framsetning (Vorstellen) hins fyrirliggjandi (Vorhandenen). „Veran“ (Sein) er heldur ekki það sama og virkileikinn (Wirklichkeit) eða það sem fyrir fram er skilið sem hið virkilega (Wirklichen). Veran er heldur engan veginn eitthvað sem setur sig upp á móti ekki-lengur-veru og ekki ennþá-veru; þetta hvort tveggja tilheyrir eðli verunnar. Sjálf frumspekin hafði jafnvel áttað sig á þessu vandamáli í hinni lítt þekktu kennisetningu hennar um formsatriðin (Modalitäten) þar sem sagt er um veruna (sein) að „möguleikinn“ (Möglichkeit) heyri undir hana, ekki síður en virkileikinn (Wirklichkeit) og nauðsynin (Notwendigkeit).
Hugsun verunnar takmarkast aldrei við hinn fyrirfram gefna (vor-gestellt) virkileika sem hið sanna. Að hugsa „veruna“ felur í sér að svara tilkalli kjarna hennar. Svarið stafar frá ákallinu og helgar sig því. Svarið felur í sér afturhvarf aftur fyrir ákallið og þar með inngöngu í tungmál þess. En ákalli verunnar tilheyrir einnig hið löngu afhjúpaða áður orðna (Gewesene) (Άλήθεια, Λόϓος, Φνσις / aletheia, logos, fysis), rétt eins og hin hulda tilkoma þess sem gæti falist í mögulegum umsnúningi (Kehre) gleymsku verunnar (í umhirðu eðlis hennar). Svarið verður að huga náið að öllu þessu í heild sinni, um leið og það hugar að getu sinni til hlustunar, ef heyra á ákall verunnar. En einmitt þar getur því misheyrst (verhören). Möguleikar þess að lenda í villu eru á hástigi í þessari tegund hugsunar. Þessi hugsun getur aldrei réttlætt sig eða sannað í líkingu við hina stærðfræðilegu þekkingu. Það þýðir ekki að hún byggi á sjálfdæmi, heldur er hún bundin af grundvallar örlögum verunnar. Þessi hugsun er þó aldrei bundin sem yfirlýsing, heldur miklu frekar af mögulegri tilhneigingu þess að fylgja leið svarsins, það er að segja þessari slóð þeirrar uppsöfnuðu umhyggju sem þegar hefur ratað inn í tungumálið.
Missir Guðs og hinna Guðdómlegu er fjarvera. En fjarveran er ekki bara eitthvert tóm, heldur er hún sú nærvera þeirrar földu fyllingar þess sem hefur þegar verið, og þannig samantekin er hún í þeim Guðdómlegu í hinum gríska heimi, í hinum gyðinglegu spámönnum og í fagnaðarerindi Jesú. Þetta ekki-lengur er í sjálfu sér eitthvað ekki-ennþá í hulinni framtíð. Vörsluerindi verunnar markast af því að þar sem veran er aldrei einungis hið virkilega, þá verður henni aldrei jafnað við hlutverk varðstövarinnar sem stendur vörð um falda fjársjóði gegn innbrotsþjófum í tiltekinni byggingu. Vörsluhlutverk verunnar er ekki bundið við það sem er einfaldlega til staðar. Ákall verunnar getur aldrei bundist því sem er einfaldlega til staðar. Vörslustaða er umhyggjan um þessa þegar orðnu tilkomu örlaga verunnar í langri sívakandi umhyggju sem gætir að stefnunni sem veran tekur í ákalli sínu. Í örlögum verunnar er aldrei um hreina framvindu að ræða: núna burðarverk (Gestell), síðan kemur Heimur og hlutur, heldur sífelld framvinda og samtími þess sem kemur á undan og eftir. Í Fyrirbærafræði andans hjá Hegel er kemur Άλήθεια (aleteia) fram í umbreyttri mynd.
Hugsun verunnar er eins og samsvörun mjög villuráfandi og fátæklegs hlutar. Hugsunin er ef til vill ófrávíkjanleg leið sem gefur sig ekki út fyrir að leiða til neinna heilla eða færa nýja visku. Þessi leið er í besta falli sveitavegur (Feldweg), stígur gegnum akrana, sem talar ekki bara um afsal, heldur hefur þegar afsalað sér kröfunni um tilkallið til bindandi kennisetningar og til sköpunar gildra menningarafurða eða til andlegra stórvirkja. Allt er komið undir þessu áhættusama skrefi aftur á bak í hugsuninni, sem hugar að umsnúningi (Kehre) þeirrar gleymsku verunnar sem er innrituð í örlög hennar. Skrefið aftur á bak sem skilur sig frá hinni forskrifuðu (vorstellenden) hugsun frumspekinnar hafnar ekki þessari hugsun, en það opnar fjarlægðina á tilkallið til sann-leika (Wahr-heit) verunnar þar sem svarið er að finna á hreyfingu.
Oft hefur það hent mig, einkum hjá nákomnum persónum, að hlustað væri með athygli á framsetningu mína á kjarna krúsarinnar, en að þessar persónur hafi samstundis misst heyrnina þegar umræðan fór að snúast um hlutlægnina (Gegenständlichkeit), tilkomu (Herstand) og uppruna (Herkunft) fram-leiðslunnar (Hergestellheit), eða um burðarvirkið (Gestell). En allt tilheyrir þetta óhjákvæmilega hugsuninni um hlutinn, en sú hugsun fjallar um mögulega tilkomu (Ankunft) Heimsins, og gæti ef til vill, ef að er gáð, hjálpað til þess með smávægilegum og vart sjáanlegum hætti að slík tilkoma gæti orðið inn á hið opna svið kjarna hins mannlega.
Meðal þeirra undarlegu upplifana sem ég hef orðið fyrir í tengslum við þennan fyrirlestur minn er þessa að finna: sú spurning hefur verið lögð fyrir hugsun mína hvert hún sæki leiðsögn sína, rétt eins og þessi spurning væri hugsuninni nauðsynleg. Hins vegar hefur engum dottið í hug að spyrja: hvaðan sækir Platon leiðsögn sína til þess að hugsa veruna sem ιδέα (idea), hvaðan sækir Kant leiðsögn til þess að hugsa veruna sem handanveru hlutlægninnar (Tranzendentale der Gegenständlichkeit), sem framsetningu (Position, Gesetztheit)?
Kannski mun sá dagur koma að svarið við þessum spurningum komi einmitt frá hugsanatilraunum sem birtast sem eitthvað óreiðufullt og tilfallandi, rétt eins og mínar.
Ég get ekki fært yður – og reyndar er ekki um það beðið – neitt það vottorð er staðfesti að það sem ég segi megi hvenær sem er og auðveldlega sanna sem samkvæmi við „veruleikann“.
Allt hér er vegferð rannsakandi, hlustandi svörunar. Allar vegslóðir bjóða þeirri hættu heim að vera villuslóðir. Að troða slíka vegi kallar á gönguþjálfun. Æfingin kallar á handverk. Þér skuluð halda yður áfram í sannri þörf (Not) á slóðinni og læra án afvegaleiðingar, en samt í villunni, handverk hugsunarinnar.
Með vinsamlegri kveðju.
____________________________________________
ORÐSKÝRINGAR
Ding
Hugtakið Ding merkir hlutur, og er hvorugkyns. Við lestur þessarar ritgerðar komumst við að því að þessi orðskýring er ekki einhlít. MH rekur sögu þessa hugtaks til fornrar háþýsku (dinc og thing) og hvernig það á sér hliðstæður bæði í grísku (on) og latínu (res, ens) og í germönskum/engilsaxneskum málum (þing, thing). Í gegnum aldirnar hafa þessar skyldu orðmyndir haft mismunandi merkingarviðmið, en áhersla MH hér er ekki fyrst og fremst á orðsifjafræðina, heldur verufræðina, viðmót hlutarins og veru hans í tímanum. Fyrst má benda á að í þýsku eru tvö orð um hlut: Ding og Sache, þar sem hið síðarnefnda á nú frekar við um huglæg málefni en Ding um áþreifanlega hluti. En eins og ritgerðin segir okkur, þá getur Ding í raun verið hvort tveggja á okkar tímum, annars vegar áþreifanlegur hlutur (Gegenstand) og hins vegar tímatengt og huglægt ástand (ens cogitans). Í þessari ritgerð fjallar MH meðal annars um greiningu Kants á „das Ding an sich“ og „das Ding an mich“, þar sem greint er á milli skynveru og hlutveru „viðfangsins“ (Gegenstand). Takmörk rökhugsunar tungumáls okkar eru bundin hlutnum sem skynjanlegt áþreifanlegt viðfang sem við getum hugsað, en samkvæmt „sjálfsveru“ hlutarins er hann sitt eigið viðfang sem er handan mannlegrar skynveru. Gagnrýni MH á Kant beinist að þessari tvíhyggju sem er angi þeirrar frumspekihefðar sem Heidegger reynir að yfirvinna í þessum texta með innlifun sinni í eðli krúsarinnar í gegnum tungumálið. Sem afleidd mynd af Ding notar MH meða annars sagnorðið dingen, sem hér hefur verið þýtt sem „íhlutun“. Sú þýðing er nánast skáldaleyfi, en hefur með þau tengsl að gera sem hluturinn hefur við heiminn með veru sinni, en „hlutlægni“ vísindanna hefur gleymt. Þá er atviksorðið „bedingt“ einnig notað og býður m.a. upp á þýðingarnar „hlutbundinn“ seða „skuldbundinn“, Sama á við um mörg hliðstæð dæmi (t.d. ring, Gering og Geringen sem hann notar í tvíræðri merkingu sem rímorð við Ding og Dingen), orðaleikir um hringi og lítillæti þar sem báðar merkingarnar kallast á. Í þessum átriðum og mörgum öðrum virðist „rétt“ þýðing á textanum ekki möguleg.
Gegenstand og Vorstellung
Orðið Gegenstand þýðir bókstaflega það sem „stendur fyrir framan“. Við þýðum það á íslensku sem viðfang, „object“ á engilsaxnesku. Það hefur merkingarleg tengsl við þýska orðið Vorstellen (beint: fyrir-stilla) sem merkir að ímynda sér eitthvað eða sjá eitthvað fyrir sér eða sýna. En orðið merkir líka „präsentieren“, sem á engilsaxnesku er „re-present“ (endur-kynna) sem er jú það að „sýna“ eitthvað sem ekki er til staðar og hefur verið notað sem „framsetning“ á íslensku. Orðið „stendur fyrir“ viðfang sitt, hið nefnda, en er það ekki. Orðið „Vorstellen“ er oft þýtt á íslensku sem framsetning. Þar er nokkur merkingarmunur engu að síður. Í allri heimspeki MH er greinarmunur á orði eða mynd og viðfangi þeirra eða táknmiði mikilvægur.
Vorstellen og Herstellen
Eins og „vorstellen“ merkir að sjá fyrir sér, þá merkir „herstellen“ að framleiða. Forskeytið her- hefur með uppruna að gera og finnst í fleiri orðmyndum: „herstehen“ (að vera frá tilteknum stað eða uppruna), „herstand“ (upprunastaður), „herständig“ (upprunninn frá…) o.s.frv. Stellen hefur með staðsetningu að gera og er dregið af nafnorðinu Stelle sem merkir staður. Með Ge- forskeyti kemur þetta orð fyrir í nokkrum mikilvægum hugtökum MH, til dæmis „Gestell“, sem merkir yfirleitt burðargrind eða grunnstoðir. MH notar orðið hins vegar við skilgreiningu sína á eðli tækninnar, þar sem forskeytið Ge- hefur þá merkingu á þýsku að vísa til hins sameiginlega. Þannig má skilja Gestell sem samheiti um ólíkar aðferðir við framleiðslu, en MH skilgreinir orðið sem lýsingu á „kjarna tækninnar“.
Geviert
Þetta orð er mikilvægt nýyrði í orðasafni Heideggers sem hann notar um sameiningu fjögurra grunnþátta er mynda Heiminn: Himinn og Jörð, Hina Guðdómlegu og hina Dauðlegu. Þetta hugtak skipti miklu máli á síðari hluta ferils Heideggers og hefur með samband hlutarins og umheimsins að gera. Hugtakið gegnir m.a. mikilvægu hlutverki í ritgerð hans „Um uppruna listaverksins“. Með „hlutlægri“ skilgreiningu viðfangsins er hluturinn slitinn úr tengslum við umhverfi sitt, manninn og alheiminn. Geviert felur í sér endurlífgaða og endursameinaða heimsmynd handan frumspekinnar og hefur hún nánast trúarlega merkingu.
Sein
Þetta mikilvæga orð í heimspeki MH merkir í sagnorðsmynd sinni sögnina að vera, en í nafnorðsmyndinni merkir Sein nafnorðin vera eða tilvera. Segja má að þetta hugtak sé meginviðfangsefnið í höfuðriti hans, „Sein und Zeit“ (Vera og Tími). Það tekur á sig margar afleiddar myndir í skrifum MH í skilgreiningum sem oft verða torskildar, t.d. þegar hann hefur orðið yfirstrikað til að leggja áherslu á þá „gleymsku verunnar“ sem hann segir megineinkenni frumspekinnar og tæknisamfélags samtímans; eða þá þegar hann breytir stafsetningunni í „seyn“. Þegar við segjum að eitthvað sé eða sé til staðar, þá er sagan ekki öll sögð, eins og fram kemur í greiningu Heideggers á eðli og kjarna krúsarinnar. Samkvæmt greiningu Heideggers verður krúsin í gegnum hringrás speglaleiksins óaðskiljanlegur hluti Heimsins, rétt eins og hin sanna vera mannsins. Hér er það meginverkefni Heideggers að sýna fram á þetta. Afleiddar myndir af „sein“ eru t.d. „Dasein“ þar sem da-forskeytið hefur með stað að gera. Íslenska þýðingin til-vera nær merkingunni vel, þar sem mannleg tilvera er skýrð sem vera til einhvers annars, og hefur þannig með handanveru að gera. Stundum notar MH sagnorðið „wesen“ um veruna og á þá við veru sem býr í varanleika. Þannig leitast hann við að greina á milli veru og hlutar með því að nota „wesen“ um veruna og „sein“ um hlutinn.
Ereignis
Þetta orð er yfirleitt þýtt sem atburður, viðburður eða tilfelli. En hjá MH fær orðið dýpri merkingu sem hann tengir upprunasögu orðsins í lýsingarorðinu „eigen“ sem merkir atviksorðið „eiginn“ á íslensku. Ereignis er þannig ekki bara einhver atburður, heldur „eignaður“ atburður sem einhver hefur tileinkað sér og upplifað. Forskeytið Er- er áhersluforskeyti og hefur með innlifun í atburðinn að gera. Á seinni hluta ferlis MH fær þetta hugtak aukna þýðingu, til dæmis í ritgerðinni um krúsina, þar sem atburðurinn er tengdur lifandi þátttöku og innlifun viðkomandi. Ég hef ekki fundið íslenskt orð er nær þessum áherslumun í málnotkun MH fyllilega.
___________________________________________
Forsíðumyndin er eftirlíking af „könnu Vermeers“ eftir óþekktan höfund „The New Craftsman verkstæðisins í Bretlandi.
„Á ítalska þinginu hafa gerst atburðir sem eiga sér ekki hliðstæðu í 100 ára sögu lýðræðis í Evrópu“.
Þannig komst heimspekingurinn Massimo Cacciari að orði í viðtali við ítalska fréttastofu í kjölfar afsagnar Mario Draghi forsætisráðherra nýverið. Hið einstaka við þessa stjórnarkreppu er að mati Cacciari sú staðreynd að „einingarstjórnin“, eins og Draghi kallaði hana, hafði starfað í 18 mánuði og „unnið stórvirki“ að mati forsætisráðherrans, stjórnin hafði vænan meirihluta á þingi og hafði ekki fengið vantrauststillögu, hvað þá vantraust. Engu að síður tók Mattarella forseti afsögn Draghi gilda og leysti upp þingið, að því er virðist í andstöðu við vilja þess: enginn stjórnarflokkanna fjögurra sem mynduðu þessa ríkisstjórn vill kannast við að hafa lýst vantrausti á stjórn sína og í kjölfarið hófst mikið hnútukast á milli þingmanna og flokka um hver bæri ábyrgð á stjórnarslitum við aðstæður sem kalla einmitt á festu, samstöðu og traust viðbrögð við pestinni, verðbólgunni, viðskiptastríðinu og hernaðinum í Evrópu þar sem Ítalía hefur þá sérstöðu að vera skuldugasta ríki álfunnar á eftir Grikklandi miðað við þjóðarframleiðslu og æpandi vandamál blasa við á öllum vígstöðum: stríðsástand í álfunni, heilbrigðiskerfi í lamasessi, skólakerfi í uppnámi eftir lokun í heilt skólaár, óðaverðbólga, atvinnuleysi 25% meðal ungs fólks, methalli á rekstri ríkissjóðs, stighækkandi vaxtakröfur á ríkisskuldum og vaxandi flóttamannastraumur svo nokkur vandamál séu talin upp. Ofan á þetta er þjóðinni nú boðið upp á kosningaslag um hásumar og þingkosningar 25. september næstkomandi.
Enginn virðist skilja þá stöðu sem upp er komin á Ítalíu, og jafnvel stjórnmálaskýrendurnir standa eftir með opinn munninn án þess að geta gefið lesendum fjölmiðla nokkra heildstæða og vitræna skýringu á því sem þarna er að gerast. Hér skal reynt að skýra myndina af veikum mætti, en undirritaður hefur fylgst með mörgum ævintýralegum kollsteypum ítalskra stjórnmála í hálfa öld og man þó ekki eftir neinu sambærilegu við það sem nú blasir við.
Ríkisstjórn Mario Draghi var mynduð 13. Febrúar 2021 að frumkvæði Sergio Mattarella forseta, sem veitti þessum fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu umboð til myndunar þriðju ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili í miðju stríði við Covid19-pestina, sem hafði valdið meiri skaða á Ítalíu en í öðrum Evrópuríkjum. Hinar ríkisstjórnirnar tvær voru samsteypustjórnir tveggja flokka, 5*-hreyfingarinnar og Lega Salvini (LS) annars vegar og 5*-hreyfingarinnar og Demókrataflokksins (PD) hins vegar. Forsætisráðherra þessara tveggja stjórna var einnig utan flokka: lögfræðingurinn Giuseppe Conte. Mario Draghi myndaði samsteypustjórn þessara þriggja flokka og flokks Silvio Berlusconi (FI), og var stjórnin kölluð „stjórn þjóðareiningar“ og hafði meginmarkmið að berjast við veirupestina og mæta þeim félagslega og efnahagslega vanda sem hún hafði valdið.
Erfitt er fyrir Íslendinga að skilja ítölsk stjórnmál vegna þess að flokkakerfið er framandlegt og tók stakkaskiptum í kjölfar réttarhalda yfir gömlu flokkunum 1991, herferð sem kennd var við hreinar hendur. Þessi réttarhöld leiddu til þess að stærstu flokkarnir voru lagðir niður eða skiptu um nöfn og nýir flokkar fylltu í skörðin. Meðal annars Forza Italia, flokkur Silvio Berlusconi, sem kalla má „miðjuflokk“ og tók við stórum hluta hefðbundinna kjósenda Kristilega Demókrataflokksins, á meðan hinn helmingurinn fluttist yfir á Demókrataflokkinn, sem í raun er arftaki gamla kommúnistaflokksins. Lega-Salvini (LS) og 5*-hreyfingin (5*) eru einnig afsprengi þessara umbrota og hafa báðir verið kenndir við „popúlisma“ af andstæðingum sínum: LS (kennd við foringjann, Matteo Salvini) byggir á fylgi millistéttar og minni atvinnurekenda, hefur alið á tortryggni í garð útlendinga og ESB og haft „fullveldi“ sem leiðarstef. 5*-hreyfingin hefur skilgreint sig sem grasrótarhreyfingu án „flokksformanns“ en skipulögð undir verndarvæng uppistandarans og grínleikarans Beppe Grillo. Hún hefur lagt áherslu á umhverfismál, jafnréttismál og baráttu gegn spillingu. Það voru þessi ólíku öfl sem stóðu að stjórn Mario Draghi, en stjórnarandstaðan var nánast eingöngu í höndum „Fratelli d‘Italia“, þjóðernissinnaðs hægriflokks sem á rætur í gamla fasistaflokknum og nýtur nú forystu kvenskörungsins Giorgiu Meloni.
Áður en við stiklum á ferli ríkisstjórnar Mario Draghi er rétt að draga fram nokkur atriði um feril hans á undan þessari stuttu innkomu hans í ítölsk stjórnmál. Hann er hagfræðingur að mennt, fæddur 1944, og stundaði háskólakennslu og fræðistörf áður en hann réðst til Alþjóðabankans á 9. áratugnum og gerðist síðan ráðuneytisstjóri í ítalska fjármálaráðuneytinu 1991. Það var á hinum örlagaríku tímum Maastricht-samkomulagsins og myntsamstarfs ESB-ríkjanna. Á þessum tíma átti Draghi m.a. ríkan þátt í framkvæmd einkavæðingar á ítölskum ríkisfyrirtækjum í samræmi við reglur ESB. Draghi tók við stjórnunarstöðu í Goldman Sachs bankanum í BNA í kringum aldamótin, um svipað leyti og Ítalía innleiddi evruna og afnam þannig sjálfstæða peningastefnu Ítalska Seðlabankans, sem nú var færð í umsjá Evrópska Seðlabankans. Draghi var bankastjóri Ítalíubankans 2006 til 2011, en þá skipaði Evrópuráðið hann í stöðu yfirmanns Seðlabanka Evrópu. Á þeim tíma glímdu ríki og fjármálastofnanir Vesturlanda við afleiðingarnar af gjaldþroti Leaman-brothers bankans í BNA. Draghi vakti mikla athygli þegar hann tók þá afdrifaríku ákvörðun að bankinn myndi hefja ótakmörkuð innkaup á ítölskum ríkisskuldabréfum, „whatever it takes“, en þessi aðgerð var talin hafa bjargað Ítalíu frá gjaldþrotaskiptum sambærilegum við þau er urðu á Grikklandi. Aðgerðin var um leið talin hafa bjargað fjármálastofnunum Evrópu frá gjaldþrotahrynu og þar með evrunni sem gjaldmiðli. Önnur verkefni Draghi á þessum tíma fólust m.a. í skuldauppgjöri bankans og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins við Grikkland 2015, þar sem gripið var fyrir hendur þarlendra lýðræðislega kjörinna stjórnvalda til að verja evrópska lánardrottna fyrir gjaldþroti vegna greiðsluþrots Grikkja. Draghi lauk störfum hjá ESB 2019, og hafði þá hlotið mikla alþjóðlega viðurkenningu fyrir starfsframa sinn, þar sem, hann var m.a. talinn í röð valdamestu manna heims af tímaritunum Times, Fortune og Politico Europe.
Það var því söguleg ákvörðun þegar Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, kallaði Draghi til Rómar að mynda nýja kreppustjórn til að takast á við veirufaraldurinn. Hann virtist njóta takmarkalítils trausts, og þessir fjóru ólíku flokkar sem höfðu alið á fjandskap sín á milli skutust nú óðfúsir undir verndarvæng mannsins sem var kallaður „Super Mario“ og allir töldu að væri rétti maðurinn til að stýra ítölsku þjóðarskútunni í gegnum veirufaraldurinn. Segja má að Draghi hafi tekið þessa baráttu með trompi, hann réð háttsettan herforingja til að stjórna baráttunni við Covid19 og náði fljótt undraverðum árangri í bólusetningarherferðinni, þar sem 85% þjóðarinnar var fljótlega bólusett. Segja má að Draghi hafi tekist á við þetta verkefni með offorsi, þar sem hræðsla við veiruna varð skæðasta vopn stjórnvalda eins og lesa má úr eftirfarandi orðum, sem Draghi lét falla á blaðamannafundi 22. Júlí 2021:
„Hvatning til að láta ekki bólusetja sig er hvatning til dauða, efnislega er það svo að ef þú lætur ekki bólusetja þig þá veikist þú og deyrð, þú lætur ekki bólusetja þig og smitar þannig aðra og deyðir“.
Þessum hræðsluáróðri var síðan fylgt eftir með útgáfu veiruvegabréfs eða „græna passans“ þann 1. ágúst 2021, sem síðan var uppfærður í „super green pass“ frá 6. desember. Þessi veiruvegabréf voru bólusetningarvottorð og urðu skilyrði fyrir aðgengi að opinberum stöðum, samgöngum, þjónustu og vinnustöðum jafnt sem skólum og sjúkrahúsum og fylgdu þeim flóknar reglugerðir sem stöðugt voru í endurskoðun. Með hinu eflda veiruvegabréfi var enn hert á ákvæðum, m.a. var öllum starfsmönnum heilsugæslu og skóla og öllum yfir 50 ára aldri gert að hafa og sýna slíkt bréf, einnig á vinnustöðum, og þeir sem ekki höfðu slík vegabréf voru sviptir vinnu og launum. Þannig var í raun komið á þvingaðri bólusetningu m.a. fyrir heilbrigðisstarfsfólk, kennara og alla yfir 50 ára aldri. Reglugerðir um þessi vegabréf voru í stöðugri endurskoðun, og eru enn að einhverju leyti, en meginregla var sú að þau giltu fyrst í 9 og svo í 6 mánuði, þegar í ljós kom að bóluefni komu hvorki í veg fyrir smitun né smitburð. Samfara þessu voru gefnar út tilskipanir um grímunotkun, m.a. í grunnskólum eftir að þeir voru opnaðir aftur 2022, og má segja að allar þessar reglur og tilskipanir hafi lagst á þjóðina og breytt andrúmsloftinu í landinu öllu. Stjórnvöld töldu auðvelt að finna rök fyrir þessum aðgerðum sem eðlilega voru umdeildar, en við blasti að veirusmit ollu miklum dauðsföllum, einkum í Lombardíu-héraði, í upphafi ferilsins, og efnahagslegar afleiðingar lokana í skólum og á vinnustöðum höfðu m.a. í för með sér að verg þjóðarframleiðsla dróst saman um 7% á árinu 2021, sem var hærra hlutfall en í flestum Evrópulöndum.
Ekki er tilefni umræðu um gagnsemi eða árangur þessara aðgerða hér á þessum vettvangi, en segja má að þjóðin hafi sýnt mikla samstöðu og þolgæði í upphafi og fram eftir ári 2021, en sú samstaða hafi dvínað eftir að ljóst varð að bóluefni komu ekki í veg fyrir smit, höfðu óvæntar aukaverkanir og ekki varð marktækur munur á árangri milli ólíkra aðferða við beitingu veiruvarna er á faraldurinn leið. Hins vegar er óhætt að segja að þær hörðu reglur og sú stífa eftirfylgni sem ríkisstjórn Draghi sýndi hafi skilað tölfræðilegum árangri í fjölda bólusetninga, um leið og aðferðafræðin við sóttvarnirnar varð jafnframt lýsandi fyrir stjórnarhætti hans á öðrum sviðum stjórnmálanna. Þá er ástæða til að benda á að skoðanaskipti eða gagnrýni á ýmsa þætti veiruvarnanna voru nánast bannaðar í fjölmiðlum og þeir stimplaðir sem „afneitunarsinnar“ er höfðu aðrar skoðanir en stjórnvöld á þessum málum. Veirufaraldurinn varð þannig valdur að nánast trúarlegu ofstæki, sem oft reynist grunnt á þegar maðurinn stendur frammi fyrir vanda eða hættu sem hann hefur ekki fullan skilning og vald á. Slík afstaða var í raun grunnurinn að ofangreindri yfirlýsingu Draghi á blaðamannafundinum í júlí 2021. Þannig máttu þeir sem höfðu meira eða minna rökstuddar efasemdir um ólíka þætti veiruvarnanna þola að vera stimplaðir sem „utangarðsmenn“ er væru hættulegir „smitberar“ og ættu ekki rétt til málfrelsis eða jafnvel vinnu eins og aðrir. Í tiltölulega þröngum hópi andstæðinga bólusetninga var þessari reynslu líkt við harðstjórn er fæli í sér brot á mannréttindum og lýðræðislegum rétti. Því er ekki að leyna að svörnustu andstæðingar Draghi bera hann þessum þungu sökum.
Samhliða heilsuvörnunum greip stjórn Draghi til fjölþættra efnahagslegra ráðstafana til að jafna þá efnahagslegu byrði sem veirufaraldurinn olli. Þar var 5* hreyfingin virk og stóð fast við fyrri löggjöf um borgaralaun og um afsláttarbónusa er áttu að létta byrði hinna verst settu. Allar slíkar aðgerðir voru augljóslega umdeilanlegar þegar kom að útfærslu þeirra og var það einmitt eitt af þeim deiluefnum sem komu upp á endaspretti stjórnarinnar. Slíkar ráðstafanir tengdust líka framkvæmd umbóta í stjórnsýslulögum sem ESB gerði kröfu um í tengslum við endurreisnarráðstafanirnar sem efnt var til vegna veirufaraldursins. Um var að ræða endurreisnarsjóð upp á 750 milljarða evra sem áttu að vera lán til langs tíma og að hluta til styrkir. Af þessum sjóði átti Ítalía að fá nærri 200 milljarða vegna þess að faraldurinn var talinn hafa valdið mestum skaða þar. Mario Draghi átti virkan þátt í ákvörðunum ESB um endurreisnarsjóðinn.
Annað atriði sem skipti máli á stjórnarferli Draghi voru kosningar til forseta Ítalíu sem fóru fram í lok janúar 2022, mánuði fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Sjö ára kjörtímabili Sergio Mattarella (f. 1941) var lokið og hann hafði lýst því yfir að samkvæmt hefð og reglum myndi hann vilja hætta. Miklar deilur spunnust um eftirmanninn, en forsetinn er kosinn af þinginu. Engin sátt náðist um eftirmanninn, en sú hugmynd lá í loftinu að enginn væri betur hæfur til þessa embættis en Mario Draghi. Sú laumufrétt var líka á kreiki að hann hefði áhuga á starfinu. Niðurstaðan í þessu valdatafli varð hins vegar sú að Mattarella gaf kost á sér til endurkjörs, og var það túlkað af fréttaskýrendum sem svik við Draghi, sem hafði einmitt þegið stjórnarmyndunarleyfið úr hendi forsetans. Segja má að óþol hafi gert vart við sig í starfsháttum forsætisráðherrans eftir þessar niðurstöður.
Slagurinn um forsetaembættið var þó eins og lognið á undan þeim stormi sem skall á mánuði síðar með innrás Rússa í Úkraínu, sem þarlend stjórnvöld kalla „sérstakar aðgerðir“. Viðbrögð Bandaríkjanna, NATO og ESB við þessum atburðum eru alkunn, en kannski ekki þáttur Mario Draghi í útfærslu tæknilegra atriða á viðskiptabanninu, einkum gagnvart Seðlabanka Rússlands og öðrum rússneskum fjármálastofnunum. Nýlega lýsti Joe Biden því yfir, að Draghi hefði verið nánasti og tryggasti samstarfsmaður Bandaríkjanna í Evrópu við framkvæmd viðskiptabannsins og virkjun ESB og NATO í aðstoð við Úkraínu. Það framlag ítalska forsætisráðherrans hefur hins vegar ekki verið gert opinbert að öðru leyti. En ljóst er að Mario Draghi beitti sér fyrir nánu samstarfi Evrópu við Bandaríkin í þessari deilu, og taldi Biden ástæðu til að nefna framlag hans til þessara mála sérstaklega í tilefni stjórnarslitanna. Sem kunnugt er lýstu bandarísk stjórnvöld, NATO og ESB, því yfir í upphafi stríðsins að viðskiptabannið myndi á skömmum tíma rústa rússnesku efnahagslífi, gera rúbluna verðlausa og gera eftirleik Úkraínumanna auðveldan: að sigra Rússa hernaðarlega. Nú, fimm mánuðum síðar, blasir annar veruleiki við: viðskiptabannið er orðin versta ógn gegn efnahag Evrópu frá stríðslokum, rússneski gjaldmiðillinn hefur aldrei verið hærri og landhernaður Rússa er í stöðugri framrás. Jafnframt glímir Ítalía -eins og aðrar Evrópuþjóðir – við orkuskort, stórhækkað verð á olíu, gasi og matvælum og ófyrirsjáanlegar þrengingar þegar eldsneytisskortur gerir vart við sig í vetur. ESB hefur þegar sett fram reglur um 15% niðurskurð á gasneyslu ESB landa í vetur, en Portúgal, Spánn og Ítalía hafa þegar mótmælt þessum tilmælum. Ofan á þetta bætast kröfur um aukinn stuðning við úkraínsk stjórnvöld með vopnum og fjármunum.
Hvernig tengjast þessi vandamál stjórnarslitunum á Ítalíu?
Ljóst er að rétt eins og almenningur tók tiltölulega fljótt við sér og sýndi samstöðu í bólusetningaherferðinni gegn veirunni, þá voru Ítalir eins og flestir Evrópubúar tilbúnir að sýna Úkraínu stuðning gegn grimmilegri innrás. Ítalía hefur þegar tekið á móti yfir 100.000 flóttamönnum frá Úkraínu og ríkisstjórn Mario Draghi hefur lagt áherslu á skilyrðislausan stuðning Ítalíu við stefnu NATO í þessari deilu, bæði hvað varðar fjármuni og hergögn. Andspænis þessum vanda eru hins vegar ýmis álitamál sem ekki hafa fengist rædd á þinginu, ekki frekar en álitamál um veiruvandann, og er það mikilvægur þáttur í þeim ágreiningi sem upp hefur komið í stjórnmálaumræðunni og Giuseppe Conte, leiðtogi 5* hreyfingarinnar, hefur lagt áherslu á að þurfi þinglega meðferð og umræður.
Segja má að stjórnarflokkarnir hafi að mestu leyti þagað um ágreiningsmál sín lengst af, en 5*-hreyfingin hafi átt frumkvæði að því að gera þau opinber. Sá ágreiningur komst þó ekki í hámæli fyrr en sá óvænti atburður átti sér stað að Luigi di Maio, einn af stofnendum 5*, sem hreppti utanríkisráðuneytið í stjórn Draghi, sagði sig úr hreyfingunni og með honum um 60 þingmenn hennar þann 21. Júní síðastliðinn. Di Maio lýsti því yfir að hreyfingin ynni gegn stjórninni og að hinar gömlu hugsjónir hreyfingarinnar um grasrótarlýðræði og andstöðu við ESB og Atlantshafssamstarfið, umhverfismál og friðarboðskap væru úrelt. Sagðist di Maio hyggja á stofnun nýs stjórnmálaafls „fyrir framtíðina“. Samfara þessu komst sá orðrómur á kreik að Draghi hefði farið þess á leit við Beppe Grillo, „verndara“ og stofnanda hreyfingarinnar, að hún losaði sig við lögfræðinginn Giuseppe Conte. Þessir atburðir gerðu hið nána samstarf di Maio og Draghi opinbert og sameiginlega óvild þeirra gagnvart Giuseppe Conte.
Þessi atburðarás bregður ljósi á það sem eftir fylgdi. Draghi fylgdi áfram þeim starfsháttum sínum gagnvart þinginu að bera þingmál undir atkvæðagreiðslu án málefnalegra umræðna, og virti að vettugi m.a. kröfu Conte um að vopnasendingar Ítalíu til Úkraínu yrðu teknar til umræðu. Innan hreyfingarinnar voru þær skoðanir áberandi að vopnasendingar bæru olíu á eldana í Úkraínu og væru ekki vænlegar til vopnahlés- eða friðarsamninga. Conte setti ekki fram aðrar kröfur en umræður um þessi álitamál og ýmis önnur. Þegar umleitunum hans var hafnað og stjórnin setti fram málefni sín í formi traustsyfirlýsingar á stjórnina ákváðu stuðningsmenn Conte í efri deild þingsins að sniðganga atkvæðagreiðsluna. Draghi brást við með því að fara á fund forseta og biðjast lausnar. Stjórn um „þjóðareiningu“ væri ekki starfhæf án virkrar þátttöku 5*. Mattarella forseti sagði lausn ekki í boði nema stjórnin hefði tapað meirihluta á þingi. Draghi yrði að fá traustyfirlýsingu þingsins. Þar með var sviðið sett fyrir þann fáheyrða atburð sem átti sér stað 20. júlí s.l., viku eftir fyrri afsagnarbeiðni Draghi.
Þingfundur var settur í efri deild þingsins, þar sem afgreiða átti traust á ríkisstjórnina. Enginn af flokkunum 4 hafði lýst vantrausti á stjórnina, þingmenn 5* höfðu aðeins sniðgengið eina atkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Mario Draghi talaði í um 30 mínútur og byrjaði á að þakka samstarfsmönnum sínum í stjórnarflokkunum fyrir drengilegt samstarf við úrlausn margra erfiðra þjóðþrifamála, stjórnarsamstarfi sem hann væri stoltur af. Lýsti hann síðan einstökum málefnum sem stjórnin hefði hrint í framkvæmd. Ræða hans fékk glimrandi undirtektir þingmanna, jafnvel svo að Draghi komst við og sagði að jafnvel bankastjórahjörtu kynnu að hrærast. En síðan breytti hann skyndilega um tón og fór að tala um „óleyfilegar“ athugasemdir sem ótilgreindir aðilar hefðu haft í frammi við afgreiðslu einstakra mála, og nefndi þar bæði málefni er snerti 5* og LS flokkinn sérstaklega. Á endanum varð ræðan að reiðilestri sem greinilega fór fyrir brjóstið á mörgum stjórnarliðum. Ráðherrann lauk máli sínu með því að segja að hann myndi fara á fund forseta næsta morgun til að tilkynna honum ákvörðun sína.
Síðan urðu líflegar umræður, sem óþarfi er að rekja hér, nema hvað LS setti fram kröfu um myndun nýrrar „sáttastjórnar“ þar sem 5* hreyfingin yrði útilokuð, en LS fengi fleiri ráðherrastóla. Síðan kom ein tillaga til atkvæðagreiðslu. Hún var eins og sniðin fyrir Mattarella forseta og hljóðaði svona:
„Efri deild þingsins,
Eftir að hafa hlustað á orð forsætisráðherrans
Veitir þeim samþykki sitt.“
Undirskrift: Ferdinando Casini
Óútfyllt ávísun Mario Draghi til ítalskra þingmanna
Ljóst var að hér var um hreina ögrun að ræða frá forsætisráðherra til samstarfsflokka sinna: hér er auð ávísun sem þið eigið að skrifa undir, það sem ég segi eru lög.
Skyndilega höfðu veður skipast í lofti. Í upphafi þessa þingfundar bjuggust allir við sáttum og áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Skyndilega var það ekki bara 5* hreyfingin sem hundsaði þessa atkvæðagreiðslu, heldur líka LS og FI, flokkur Silvio Berlusconi. Tveir ráðherrar úr flokki Berlusconi sögðu sig úr flokknum eftir atkvæðagreiðsluna. Ljóst var að Draghi myndi ítreka afsögn sína við forsetann daginn eftir. Það gekk eftir og Draghi fékk því framgengt að þingið var leyst upp, þingmenn voru sviptir rétti sínum til þingsetu og boðað var til kosninga 25. september. Hér hafði það gerst í fyrsta skipti í sögu evrópsks þingræðis að efnt var til stjórnarslita án vantrausts, forsætisráðherra veitt lausn að eigin kröfu og þingmenn sviptir þinghelgi gegn eigin vilja.
Hér hefur þessari atburðarás verið lýst í nokkrum smáatriðum vegna þess að hún er, eins og heimspekingurinn Cacciari sagði, einstök í sögu evrópsks þingræðis. Hann bætti því reyndar við að þessi atburðarás væri „óskiljanleg rökleysa“. En þegar betur er að gáð má kannski sjá í þessum vef forboða og endurtekningu þess sem er að gerast bæði vestan og austan Atlantshafsins: Stjórnmálin eru orðin innihaldslaus, lýðræðið er orðið að leiksýningu, leiðtogarnir sem hafa spunnið vefinn í kringum Hrunadansinn í Úkraínu hafa misst tökin á veruleikanum og dansa í lausu lofti. Um svipað leyti og þingkosningar verða á Ítalíu verða svokallaðar „Midterm“-kosningar í Bandaríkjunum þar sem Joe Biden á von á miklum hrakförum. Bresk stjórnmál eru í uppnámi í kjölfar Brexit- og Úkraínuævintyra Johnsons, götubardagar eru háðir í Amsterdam vegna hækkana á orku, áburði og matvælum, Macron Frakklandsforseti hefur misst meirihluta á þingi og þar með ímyndað forystuhlutverk sitt í Evrópu, Þjóðverjar búa sig undir frostavetur, Spánverjar og Portúgalar mótmæla orkustefnu ESB, og síðast en ekki síst: Mario Draghi, „Super Mario“, skilur þjóð sína eftir ráðalausa andspænis óyfirstíganlegu skuldafjalli, orkuskorti, atvinnuleysi og verðbólgu. Það er skiljanlegt að hann vilji stökkva frá borði áður en skipið sekkur, rétt eins og kapteinn Schettino gerði, skipstjórinn á skemmtiferðaskipinu Costa Concordia sem sigldi skipi sínu í strand við Isola del Giglio fyrir réttum 10 árum síðan.
Forsíðumyndin er af skemmtiferðaskipinu Costa Concordia, sem strandaði við Isola del Giglio 2012
AÐ LESA LUCE IRIGARAY
Þegar harmleikurinn í Úkraínu varð til þess í vetrarlok að ég fór að rifja upp harmleik Sófóklesar um Antigónu, til þess að skrifa um það dálitla ritgerð hér á vefnum, þá fann ég m.a. á intenetinu enska útgáfu á þessari ritgerð fransk-belgíska heimspekingsins Luce Irigaray um harmleik Antigónu sem ég hafði ekki áður lesið. Þessi ritgerð, sem var meðal allmargra annarra sem ég rifjaði upp í tilefni þessarar rannsóknar minnar, varð mér minnisstæð, vegna þess að túlkun hennar var afar persónuleg og gekk þvert á umfjöllun flestra annarra fræðimanna sem höfðu gefið sig að túlkun þessa harmleiks. Kannski var það vegna þess að ég var ekki fullsáttur við hvernig ég hafði kynnt umfjöllun Irigaray í rigerð minni sem hún sat í undirvitund minni, einnig eftir að ég var lagstur í ferðalög. Kannski var það vegna þess að mér fannst ég ef til vill ekki hafa skilið texta hennar til fulls, en hugsanlega var það heldur ekki tilviljun að í fyrstu bókabúðinni sem ég heimsótti eftir komuna til Ítalíu varð ritgerðasafn Irigaray "Í uppafi var hún" fljótlega á vegi mínum, þar sem einmitt þessi rigerð myndar fjórða kaflann. Ég hafði áður reynt að lesa eina bók eftir Irigaray án þess að hún næði tökum á mér, en nú gerðist annað og ég gleypti í mig þessar ritgerðir sem í heild sinni setja ritgerðina um Antigónu í víðara samhengi þess kynbundna mismunar sem er grundvallar atriði í feminískri hugsun höfundarins. Og ég sá að ég yrði að bæta fyrir yfirborðskennda kynningu mína á túlkun hennar á Antigónu með því að klæða hana í íslenskan búning. Mér er ekki kunnugt um aðrar þýðingar á henni á íslensku, sem þó kunna að vera til, en ég held að þessi einstaka ritsmíð sé mikilvægt innlegg um feminískar bókmenntir í samtímanum og varpi nýju og óvæntu ljósi á þá fjölskrúðugu umfjöllun sem við sjáum í samtímanum um svokallaðan "kynusla", óvissu og leit margra að sinni kynferðislegu sjálfsímynd. Það sem gerir texta Irigaray ágengan er meðal annars hversu persónulegur hann er, þar sem hún gengur út frá eigin reynslu í túlkun sinni á Antigónu. Þar á Irigaray meðal annars við útilokun og einangrun hennar frá fræðasamfélaginu, sem hún heimfærir beinlínis upp á reynslu Antigónu. Í þessum texta minnist hún lítillega á kynni sín af Yogaiðkun, en hún tók að iðka Yoga í kjölfar umferðarslyss sem hún lenti í. Sú reynsla varð til að dýpka skilning hennar á þróun forngrískrar menningar frá goðsögunni til harmleiksins og heimspekinnar. Glíma sem hún hafði háð undir áhrifum frá Nietzsche, heimspeking sem ekki hefur verið orðaður við feminisma nema síður sé. En rannsókn Nietzsche á rótum og tilkomu grískrar heimspeki og síðan kynni hennar af austurlenskri menningu í gegnum Yogaiðkun urðu meginviðfangsefnin á heimspekiferli hennar.
Ég birti hér lauslega þýðingu mína á þessum texta úr ítölsku í þeirri vissu að hann eigi brýnt erindi inn í þá óreiðuumræðu sem við finnum nú í samtíma okkar um þessa óljósu kynbundnu sjálfsveru sem við vitum ekki hvernig við eigum að höndla.
Textinn á að vera tiltölulega auðlesinn. Hann kallar þó á að lesandinn þekki goðsöguna um Ödipus og ættarsögu hans. Þá er nauðsynlegt að hafa lesið harmleik Sófóklesar um Antigónu sem er til í íslenskri þýðingu Helga Hálfdánarsonar. Þá er þessi þýðing einnig hugsuð sem eins konar framhald á grein minni "Að lesa Antigónu á tímum stríðsins", sem birt var hér á vefnum í vor. Irigaray notar lítið tilvitnanir í textum sínum, en er ekki að leyna því hér, að hún er að andæfa vissum hugmyndum Hegels. Hún minnist hvergi á Nietzsche, þó finna megi anda hans á milli línanna. Sama má segja um Sigmund Freud og Jacques Lacan, sem hún hefur í skotmáli án þess að nefna þá á nafn. Irigaray er heimspekingur með vítt sjónarhorn, með djúpa þekkingu á goðafræði, sálgreinimngu og fornfræði og beitir þekkingu sinni á afar persónulegan hátt. Góða skemmtun!
Luce Irigaray:
Harmleikur Antigónu: á milli goðsagnar og Sögu
Fjórði kafli bókarinnar Au commencement, elle était (Í upphafi var hún) frá 2012.
Þýtt úr ítalskri útgáfu Bollati Boringhieri forlagsins frá 2013 (All-inizio, lei era) í þýðingu Antonellu Lo Sardo.
Hin harmsögulega reynsla Antigónu á sér stað á milli goðsagnarinnar og mögulegrar holdgervingar hennar í Sögunni. Sá vandi sem felst í afhjúpun merkingarinnar á bak við vilja og gjörðir Antigónu, skýrir, ásamt andófi Sögu okkar gagnvart framvindu þeirra, hvers vegna Antigóna hefur svo lengi verið lifandi goðsögn í okkar menningarheimi. Ég ætla mér ekki að telja hér upp nafnalista þeirra mikilhæfu hugvitsmanna og kvenna er hafa sýnt Antigónu áhuga, en hún er persóna sem yfirleitt vekur samkennd þeirra, en stundum líka óvild. Túlkanir þeirra eru yfirleitt of sálfræðilegar, of sjálfhverfar og jafnvel narkissistískar, til þess að samsvara því tímaskeiði sem Antigóna tilheyrir í menningu okkar. Á þessum grísku upphafstímum var hin speglandi íhugun ekki orðin til, varla var um að ræða einstakling (soggetto) sem slíkan, er gæti sýnt slíkum vangaveltum áhuga. Sú hefðbundna aðferð sem okkur er nú orðin töm við að nálgast Antigónu, umbreytir henni í kvenlæga hugveru, í eins konar eilífa kvenlægni, sem á sinn stað í síðari tíma hefðum, þar sem sálfræðin og félagsfræðin setja reglurnar og móta túlkunaraðferðirnar. En Antigóna hefur lítið eða ekkert með þessar tiltölulega nýtilkomnu túlkanir að gera, sem oft og tíðum jafngilda yfirfærslu karlmanna á þann leyndardóm sem konan er fyrir þeim, leyndardóm sem þeir vilja ekki hugleiða og virða sem slíkan, það er að segja sem vitnisburð þess að tilheyra annarri sjálfsímynd (identità), öðrum heimi og annarri menningu en þeirra sjálfra, heimi sem okkar vestræna hefð hefur bælt niður eða jafnvel gleymt.
Þrálát nærvera myndarinnar af Antigónu hefur ríkari tengsl við Sögu okkar en þessar hefðbundnu túlkanir segja okkur, jafnvel þótt hún hafi ekki enn hlotið sinn sess í Sögunni, heldur feli enn í sér spurningu um vestræna söguhefð og þróun hennar frá og með tilteknu tímaskeiði.
Að deila hinu harmsögulega hlutskipti með Antigónu.
Áhugi minn á Antigónu hefur haldist allt frá útgáfu Speculum[i]eða jafnvel fyrr. Ég hef átt því láni að fagna – sem vissulega var ekki léttbær reynsla – að verða fórnarlamb útilokunar vegna þess að ég reyndi að fletta ofan af sannleika sem snerti Antigónu sérstaklega. Það segir reyndar sína sögu, að þær fjölmörgu ritsmíðar sem hafa komið út um Antigónu frá því Speculum kom út, sérstaklega þær sem eru skrifaðar af karlmönnum, hafa ekki vitnað í mína túlkun, né heldur í aðrar þær túlkanir sem með einum eða öðrum hætti fylgja sambærilegum málflutningi, eins og til dæmis túlkun Clémence Ramnoux á þróun grískrar menningar frá upphafi, eða að hluta til túlkun Johanns Jakobs Bachofen á mæðraveldinu – en Bachofen átti að hafa haft áhrif á Hegel, auk þess sem sagt var að þeir hefðu verið skyldir. Allt er þetta til merkis um andófið gegn viðurkenningu þess sannleika sem Antigóna er til vitnis um, og jafnframt til vitnis um höfnun á mögulegum inngangi slíks sannleika í Söguna.
Harmleikurinn hefur haldið áfram alla tíð síðan, það er áframhald þessara örlaga – eins og Grikkir kölluðu það – örlaga þeirra sem hafa staðið fyrir sambærilegan sannleika. Ég hef deilt þessum harmsögulegu örlögum með Antigónu: útilokun frá hinu samfélagslega-menningarlega umhverfi vegna opinberrar staðfestu minnar gagnvart sannleika sem hefur verið kæfður eða í það minnsta ekki hlotið viðurkenningu sem slíkur, og hefur þess vegna truflandi áhrif á okkar hefðbundnu samskiptareglur. En þótt ég hafi verið útilokuð af samfélaginu, frá háskólasamfélaginu, frá stofnunum sálgreiningarinnar og samkundum fræðasamfélagsins og jafnvel vinanna, og þá sérstaklega frá bókaforlögunum, og nýverið einnig frá mínu eigin heimili – þá hef ég ekki verið slitin frá tengslum mínum við náttúruna. Þótt ég hafi verið svipt aðgangi að þessum opinberu stofnunum, lokuð inni eða greftruð í þögn sem ég hef oft upplifað sem órjúfanlega grafarmúra, þá hef ég ekki verið svipt sambandi mínu við andrúmsloftið, við sólina og ríki jurtanna og dýranna. Ég hef verið gerð brottræk úr polis, úr borginni og því mannlega samfélagi sem ég tilheyrði, en um leið hefur mér verið vísað til þess náttúrlega heims sem samferðarmenn mínir kunna ekki lengur að meta eða telja til verðmæta, og töldu því ekki þörf að þeirri útilokun.
Með slíkri útvistun til hins náttúrlega heims hefur mér tekist að lifa af, eða öllu heldur að enduruppgötva hvað felst í lífinu sjálfu. Auk þessa hefur þetta hjálpað mér til að opna þann gríska heim þar sem Antigóna birtist okkur, og skynja harmsögulega merkingu örlaga hennar.
Í fullri andstöðu við skilning Hegels og flestra þeirra sem hafa fjallað um harmleik Antigónu, og um leið í fullri andstöðu við mikinn fjölda femínista, þá hef ég ekki hugsað þannig – frekar en Antigóna sjálf – að lausn minna harmsögulegu örlaga gæti falist í því að efna til átaka við karlmennina. Mér varð að minnsta kosti fljótt ljóst, að slík átök væru til lítils. Vandinn fólst þá, og er hinn sami enn í dag, í því að ganga inn í annað tímabil Sögunnar, fylgja fordæmi Antigónu og fylgja eftir holdtekningu hennar inn í okkar menningarheim. En til að ná þessu markmiði þurfum við fyrst að gera okkur grein fyrir að þau tvö tímaskeið sem takast á í harmleik Sófóklesar, þessar tvær orðræður sem þar kallast á án þess að mæta hinum minnsta gagnkvæma skilningi, þær tilheyra tveim ólíkum heimum og þann mismun ber að virða án þess að freista þess að flytja þær yfir í æðri einingu annars og einslitaðs heims. En þetta kallar á að við holdgerum neikvæðið með öðrum hætti en hefðir okkar bjóða upp á.
Í kerfi Hegels þjónar hið neikvæða því hlutverki að yfirvinna klofning – hlutlægan jafnt sem huglægan – þar sem tvennan nær að öðlast einingu. Samkvæmt minni hugsun er hið neikvæða hins vegar óyfirstíganlegt og þjónar því hlutverki að viðhalda tilvist tvenndarinnar milli einstaklinganna og heima þeirra. Á milli þeirra þurfi að skapa menningu án þess að yfirstíga og bæla hvorugan aðilann. Þetta felur í sér að við segjum skilið við þá rökhugsun er fylgir þeirri tvenndarhyggju andstæðanna er stefni að einingu, en meðtökum þvert á móti þá rökhugsun er byggir á sambýli og samræðu tveggja ólíkra einstaklinga og tveggja ólíkra heima. Ég gæti hér bætt því við að þetta kallar á að við finnum upp nýjan dramatískan leik er geri okkur kleift að grundvalla sambandið hvort við annað á forsendu þess sem greinir okkur að.
Það er því á forsendum minnar persónulegu reynslu – minna örlaga – sem jafnvel sálgreinirinn minn hefur bent mér á – en þó fyrst og fremst með hjálp harmsögulegrar einsemdar, sem ég grundvalla túlkun mína á myndinni af Antigónu. Ég hef þegar fjallað um ólíkar hliðar þessarar túlkunar í ýmsum tilskrifum, en hér ætla ég að taka saman hugleiðingar mínar um persónu Antigónu, og þá sérstaklega út frá minni eigin reynslu í lífi og starfi. Þannig mun ég draga fram nokkra þætti þessarar persónu sem ég hef ekki ennþá fullmótað og mér finnast nauðsynlegir til að skilja viðbrögð Antigónu og þaulsæta goðsögu hennar eins og þrálátan sannleika sem er okkur hulinn.
Í núverandi túlkun minni á valkostum og gjörðum Antigónu mun ég halda mig enn lengra frá Hegel en ég gerði kaflanum í Speculum sem ber titilinn „Hin eilífa kaldhæðni samfélagsins“. Ástæðan er sú að mér hefur verið úthýst úr því samfélagi sem Hegel gengur út frá í túlkun sinni á harmleik Sófóklesar. Þannig hef ég í vissum skilningi verið jarðsett lifandi í heimi náttúrunnar, og þar sem sannleikurinn sem ég hef reynt að afhjúpa með lofsamlegum móttökum og hrifningu til þess eins að vera enn á ný falin og gleymd af hinu blinda sjálfdæmi okkar siðmenningar, þannig hefur leyndardómurinn sem umlykur Antigónu orðið mér æ kunnuglegri og nærkomnari. Þessi leyndardómur hefur líka hjálpað mér til að dýpka greiningu mína á hefðum feðraveldisins, og um leið til að spinna kvenlæga rökhugsun eða samræðulist er gæti gert konum kleift að mynda samband við karlkynið á lífsleiðinni, án þess að þurfa að afneita sjálfsmynd sinni og heimi sínum.
Það er engum vafa undirorpið að reynsla mín af yogaiðkun og kynnin við austurlenskar hefðir hafa hjálpað mér til að skilja og meta þá rökhugsun og visku sem Antigóna beitir í átökum sínum við Kreon. Harmleikur Sófóklesar á sér stað á vegferðinni frá þeirri hugsun sem lýsir trúnaði við lífið, ástina og löngunina til þeirrar rökhugsunar sem leiðir eingöngu til eyðingar, haturs og dauða. Við sjáum mörg ummerki þessara umskipta í harmleik Sófóklesar, til dæmis í vísunum og áköllum til tiltekinna guða, í orðum kórsins og í orðum spámannsins.
Rétt eins og Antigóna, þá hef ég verið ásökuð um að raska tiltekinni jafnvægisreglu í nafni persónulegra ástríðna. Þar vildi ég benda á, að ég hef talað og brugðist við í nafni reglu sem hefðir okkar hafa bælt niður, reglu sem nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar í ljósi framtíðar og fullnustu mannkynsins. Svo vikið sé aftur að Antigónu: henni er alls ekki í mun að trufla reglur borgarinnar, heldur að hlýða æðri reglu, óskráðum lögum sem hin nýja regla – í hlutverki Kreons í harmleik Sófóklesar – vildi afnema.
Lögin eða skyldan sem Antigóna er reiðubúin að fórna lífi sínu fyrir, felur í sér þrjá samtengda þætti: virðinguna fyrir lögmáli hins lifandi alheims og lífveranna. Virðingu fyrir meðgöngu og fæðingu (generation) en ekki bara ættfræðinni (genealogia). Virðingu fyrir reglu hins kynbundna mismunar. Hér er mikilvægt að hafa í huga hugtakið „kynbundinn“ en ekki „kynferðislegur“, því skuldbinding Antigónu varðar hvorki kynferðið sem slíkt, né viðhald þess, eins og Hegel hugsar það. Ef svo væri hefði hún átt að taka samband sitt við Hemon, ástmann sinn, fram yfir tengslin við bróður sinn. Antigóna reynir að búa bróður sínum greftrun, því hann stendur fyrir einstaka kynbundna sjálfsímynd sem ber að virða sem slíka: „eins og sonur móður sinnar“. Antigóna hefur ekki enn öðlast þann skilning að hin mannlega sjálfsmynd sé orðin ein og hvorugkyns, algild eins og hún er í huga Kreons. Mannkynið er ennþá tvennt: maður og kona, og þessa tvennu sem þegar er fyrir hendi í reglu náttúrunnar ber að virða sem eins konar frumgerð er kemur á undan kynferðislegu aðdráttarafli og löngun. Antigóna heldur fast við nauðsyn þess að virða bróður sinn sem bróður, áður en hún getur gifst Hemon. Hún skýrir hvers vegna hún geti ekki gifst öðrum manni fyrr en hún hafi tengst bróður sínum í gegnum sjálfsmynd sem felst í kynbundnum mismun. Hún getur ekki látið nokkurn annan koma í stað bróður síns, vegna þess að þessi bróðir er henni einstakur. Því getur hún ekki gifst öðrum manni. Þess vegna þarf hún að verja látinn bróður sinn gegn háði og gegn grotnun, gegn því að verða skepnuskapnum og duftinu að bráð, bráð hræfuglanna og rándýranna, vernda hann gegn endalausu villuráfi vofunnar sem á sér enga gröf. Hún þarf að tryggja bróður sínum minningu um gilda kynbundna sjálfsímynd en ekki sem nafnlaust og kynlaust líkamlegt efni.
Virðingin fyrir lífinu og lögmáli alheimsins (kosmos)
Fyrsta reglan sem Antigóna virðir og fylgir eftir er þannig virðingin fyrir hinni kosmísku reglu. Það er mikilvægt fyrir okkur að skilja, að fyrir Grikkjum fól hugtakið kosmos í sér heildarreglu er náði til náttúrunnar og allra lifandi vera, guða og manna. Ekki var um að ræða óskilgreindan heim náttúrunnar eins og hann er hugsaður í vesturlenskri menningarhefð eftir að hún hafði afskrifað þá kosmísku reglu sem áður ríkti.
Harmleikur Sófóklesar fjallar um umskiptin frá þessari samstilltu kosmísku reglu yfir í hinn tilbúna mannlega heim, yfir í heim sem gengur ekki lengur út frá fyrir fram gefinni, samhljóma reglu, er tengi saman hina lifandi náttúru, guðina og mennina. Verkefnið sem Antigóna glímir við felst í því að varðveita jafnvægið í þessari kosmísku reglu, einkum með tilliti til hinna erfiðu samskipta á milli Seifs og Hadesar, guðs ljóssins og guðs myrkursins eða skugganna, sem seinna voru kallaðir guð himinsins og guð undirheimanna. Sú athöfn að veita Polineikosi greftrun felur í sér viðleitni til að viðhalda hinu viðkvæma jafnvægi á milli þessara guða, þessara tveggja heima. Þar er ekki um að ræða að veita guði undirheimanna forgang, eins og allt of oft hefur verið haldið fram í umfjöllun um skapgerð Antigónu, einnig af sjálfum Kreon. Heldur er hér um að ræða viðleitni til að loka ekki fyrir samgang á milli þessara tveggja heima, samgang sem ekki bara hinn látni bróðir þarf að leggja á sig, heldur samgang er verður í víðara samhengi forsenda samhljómsins í gjörvöllum alheimi (kosmos). Verknaður Antigónu felur í sér að virða og heiðra bæði Seif og Hades og viðhalda brothættum samhljómi þeirra á milli og á milli aðskildra heima þeirra beggja.
Þegar Antigóna segir að hún deili örlögum sínum með örlögum Persefónu, þá er það einungis vegna þess að henni er aftrað frá því að veita Polineikosi bróður sínum tilskylda greftrun samkvæmt helgisiðnum um umganginn frá hinum jarðnesku heimkynnum til heimkynna hinna dauðu. Persefóna er nafnið sem Kore hlaut, eftir að guð undirheimanna hafði rænt henni frá móður sinni, Demeter, þessari miklu jarðargyðju. Sjálfur Seifur hafði sætt sig við Þetta fórnarrán hinnar hreinu meyjar, í því skyni að endurreisa mögulega kosmíska reglu, ekki síst vegna tengslanna við Hades bróður sinn.
Líta má á dauðadóm Kreons yfir Antigónu sem eins konar endurtekningu á fórnarathöfn ungmeyjarránsins úr hennar jarðnesku tilvist, þar sem henni er vísað inn í einskins manns land er tilheyri hvorki jörðinni né undirheimunum, hvorki samfélagi lifenda né dauðra. En, eins og Antigóna ítrekar, þá er sjálfur Seifur ekki einn um ábyrgðina á brottvísun hennar úr heimi jarðarinnar og lífsins. Hér er það Kreon sem ber ábyrgðina og ákallar Seif með þeim hætti að það ógnar samhljómi alheimsins. Þetta ákall til almættis Seifs á kostnað umhyggjunnar um hinn kosmíska samhljóm á milli guðanna, mannanna og allrar lifandi skepnu, á héðan í frá eftir að móta vestræna menningu og leiða hana á vit mögulegrar óreiðu og tortímingar.
Þessi hætta er undirstrikuð af kórnum, sem talar um löngun mannsins til yfirdrottnunar, löngun er ógni hinum kosmíska samhljómi er geti brotist út í hreinum ógöngum eða í tóminu eða kannski í hugrökkum dáðum. Kórinn segir að þorsti mannsins eftir því að drottna yfir úthafinu, að hemja hin grimmu villidýr og temja hrossin og nautin, vilji hans til að skilja allt í gegnum orðin, geta hans til að skapa sér skjól fyrir illveðrum með húsbyggingum og stjórna borgunum, allt þetta sýni hroka er ógni guðunum og gæti reitt þá til reiði. Kórinn skýrir hvernig maðurinn vilji leggja undir sig jörðina, hina göfugustu meðal guðanna, til þess eins að blóðmjólka hana. Kórinn talar um manninn sem hinn hugvitssama en reynslulausa smið, sem leitast við að ná öllu á sitt vald, einnig mætti guðanna, en er engu að síður ófær um að forðast dauðann. Kórinn lýsir því hvernig maðurinn hafi glatað möguleikanum á tilvist sinni vegna þess að hann horfi á dvalarstað sinn á jörðinni ofan frá úr fjarlægð, án þess að lifa hann. Kórinn sem á að vera málsvari fólksins, segir í ákalli sínu: „megi slíkur maður aldrei gista heimili mitt og megi hugsun mín aldrei samlagast drambi þess er þannig breytir.“[ii]
Sumir túlkendur hafa spurt sjálfa sig hvort þessi orð séu ætluð Kreon eða Antigónu. Í mínum huga geta þau einungis átt við um Kreon og þá karllægu menningu sem hann vill innleiða. Öfugt við Kreon, þá er það Antigóna sem vill viðhalda hinni kosmísku reglu. Það að neita bróður hennar um greftrun felur í sér skemmdarverk gagnvart sjálfri náttúrinni, sérstaklega loftinu og sólinni. Vandinn snýst ekki einvörðungu um að tryggja Polineikosi persónulegan umgang frá sinni jarðnesku tilvist til undirheimanna, heldur snýst hann um að varðveita jafnvægið á milli þeirra kosmísku afla sem guðirnir standa vörð um.
Antigóna er heldur ekki eina persónan sem kallar á virðingu fyrir hinni kosmísku reglu. Spámaðurinn (Teiresías) talar í sama tón, rétt eins og kórinn. Spámaðurinn segist hafa orðið vitni að villimannslegu gargi áður óþekktra fugla og hann hafi horft á fuglana drepa hvern annan og bætir síðan við að engin fórn muni nægja til að endurreisa friðinn og samhljóminn, því loginn hafi ekki kviknað í fórnum hans.[iii] Allt þetta merkir að bæði himininn og undirheimarnir hafi verið vanhelgaðir vegna þess að hold Polineikosar hefur verið svipt tilskyldri helgiathöfn og gefið hræfuglum og villihundum að bráð.
Þessi sviptir á rétti Polineikosar til greftrunar er skemmdarverk gagnvart lífinu sjálfu og öllum lifandi skepnum og raskar viðskiptajafnvægi himins og jarðar, lofts og sólar. Á þessu tímaskeiði höfðu greftrunarsiðirnir fyrst og fremst með virðinguna fyrir samhljómi jarðarinnar og andrímsloftsins að gera. Umhyggja Antigónu fyrir greftrun Polineikosar er óumdeilanlega trúarlegs eðlis, en hugtakið „trúarlegur“ hefur hér aðra merkingu en við leggjum í þetta orð á okkar tímum. Hér er ekki um það að ræða að vera undirsettur lögmáli eins Guðs, sem finna má á himnum, heldur að sýna umhyggju fyrir hinni kosmísku reglu og þeim lífheimi sem umlykur okkur.
Því miður hættir okkur Vesturlandabúum til að gleyma að það er trúarleg athöfn að sýna hinni kosmísku reglu umhyggju. Við getum jafnvel unnið skemmdarverk á heiminum með sprengjum, jafnvel kjarnorkusprengjum: ef það er í þjónustu við Guð okkar öðlast slík athöfn trúarlegt gildi. Frá sjónarhóli Antigónu er slíkt framferði andstætt allri trúrækni, en það er það ekki frá sjónarhóli þeirra sem aðhyllast eingyðistrú og telja réttmætt að eyða lífheiminum, einnig mannfólkinu sem honum tilheyrir, í því skyni að tryggja trú þeirra á eilíft líf.
Hvar getum við þá staðsett rökleysuna? Er hana að finna hjá Antigónu eða hjá þeim sem iðka eingyðistrúna? Hvorum megin finnum við brjálæðið og hvorum megin viskuna? Er það hugsanlegt að maðurinn hafi skapað Guð sem líkist honum sjálfum, vegna þess að hann vilji allt strax og einungis fyrir sig sjálfan? Hverju er hægt að deila með manninum ef hann hefur einungis trú á sínum eigin Guði? Guði sjálfum? En þessi Guð er ódeilanlegur, honum verður ekki deilt með öllu fólki í öllum heiminum. Gengið er út frá því að hann sé algildur fyrir hvern og einn. Kannski hefur hann verið algildur fyrir þá sem tilheyra okkar menningarheimi. Það er hins vegar alls ekki tryggt að Guð eingyðistrúarinnar samsvari hinu algilda fyrir konu af þessum menningarheimi sem er sjálfri sér trú. Kannski stendur hennar algildi nær því sem tilheyrir Antigónu. Allavega kallar hún á virðingu fyrir þeim óskráðu lögum sem Antigóna stendur vörð um. Gæti algildur Guð af kvenlegum toga fundið sér forgangsstað fram yfir skyldur okkar gagnvart lífinu? Gæti slíkur kvenlegur Guð sett lög sín yfir lífið sjálft eða komið í stað þess? Hin guðdómlega kvenlega verðandi á sér stað handan hins einfalda lífs: hún felst í að færa lífið til fullnustu sinnar og láta það blómstra. Hún hefur ekkert með það að gera sem er lífinu skaðvænlegt, gengur jafnvel gegn því, eins og of oft hefur gerst með þann Guð sem tilheyrir okkar hefðum.
Antigóna getur ekki nálgast þessa guðdómlegu fullnustu nema lögmálið sem varðar lífið sé virt: það sem varðar hina kosmísku reglu, það sem varðar meðgöngu og fæðingu, það sem varðar hina kynbundnu reglu. Antigóna á í vændum blómgun eigin lífs, eigin ástar. Þessi blómgun gat hins vegar einungis átt sér stað í kjölfar umhyggju og ræktarsemi gagnvart lífríki hennar, eftir að hafa greitt þakkarskuld til þeirra sem létu hana fæðast í þennan heim, eftir að hafa tryggt réttláta minningu bróður síns. Fyrst þarf að fylgja eftir þeim óskrifuðu lögum sem varða þessar víddir tilveru okkar, áður en hún nær öðru þrepi í hinni guðdómlegu verðandi.
Antigóna veit þetta, og hún getur ekki fullnægt löngun sinni gagnvart Hemon, ástmanni sínum, fyrr en hún hefur veitt Polineikosi grafarþjónustu. Hér er því ekki um neina blinda ungæðis-ástríðu að ræða, heldur djúpt meðvitaða virðingu fyrir óskráðum lögum er varða lífið sjálft. Það að giftast ástmanni sínum, áður en hún hefði leyst skyldu sína gagnvart lífinu, hefði hins vegar falið í sér blinda ástríðu. Virðing hennar fyrir slíkum lögum varðveitir um leið sjálfstæði hennar og hennar kvenlega heim, og ver hana gegn því að verða einfalt verkfæri eða hlutverk í þeim heimi feðraveldisins sem þarna byrjar að festa reglu sína í sessi, alla vega hvað Kreon varðar.
Antigóna getur ekki undirgengist það sjálfdæmi í lagasetningu sem Kreon byggir vald sitt á, sjálfdæmi sem byggir í kjarna sínum á tómhyggju – því hún stendur vörð um lífið og gildi þess. Sagt hefur verið um Antigónu að hún hafi verið haldin dauðahvöt, en í raun berst hún fyrir varðveislu lifendanna og lífheimi þeirra. Hún getur ekki þegið að lifa af á kostnað lífsins sjálfs. Hún elskar lífið og allan lífheiminn, allar lifandi verur. Jafnvel (leikskáldið) Jean Anouilh, sem hafði lítinn skilning á Antigónu, talar um ást hennar á garðinum rétt fyrir sólarupprásina, þegar enginn annar hefur borið hann augum, og um áhyggjur hennar af hundinum eftir dauða sinn. Ást hennar á sólinni sem uppsprettu ljóss og hita fyrir lifendur knýr hana til að búa bróður sínum gröf í fullri vitund þess að slíkur gjörningur geti kostað hana dauðadóm frá hendi Kreons konungs. Sólin, rétt eins og andrúmsloftið, eru hluti af umhverfi allra lifandi vera á jörðinni, og Antigóna þarf að sinna þeim öllum.
Það sem konungurinn tekur frá henni eru einmitt andrúmsloftið og sólin, það er að segja sá lífheimur sem er forsenda lífsins. Kreon reynir að afsaka sig frá gjörningi sem lögmálið bannar, hann reynir að drepa án þess að drepa með því að svipta Antigónu þeim umheimi sem gerir lífið mögulegt, án þess að drepa hana bókstaflega og án þess að afneita því að líkami hennar fái greftrun.
Í vissum skilningi getum við sagt að allt skipulag feðraveldis okkar snúist um þetta: að drepa án þess að fremja opinberan glæp, það er að segja að svipta okkur smám saman því umhverfi sem gerir lífið mögulegt, allt í gegnum umhverfismengun, röskun hins umhverfislega jafnvægis, í gegnum eyðingu jurtaríkisins og dýraríkisins og að lokum eyðingu lífríkis mannsins. Þannig getur það gerst að vissir einstaklingar kjósi frekar að taka eigið líf en að bíða algjörs jafnvægisleysis á plánetu okkar, jafnvægisleysis er komi í veg fyrir framhald lífsins. Þetta getur gerst, og gerist í raun og veru, eins og við vitum. Þessir einstaklingar flýta þannig með vissum hætti fyrir þeim dauða sem hagstjórn feðraveldisins hefur lagt grundvöllinn að, hagstjórn sem býður okkur einungis upp á að lifa af, en ekki upp á lífið sjálft.
Antigóna afþakkar slíkan afslátt á lífinu. Eigum við þá að tala um dauðahvöt eða ást til lífsins? Er viljinn til að lifa af, hvað sem það kostar, ekki merki um dauðahvöt, frekar en að vilja lifa í raun og veru? Þessi valkostur er Antigónu óbærilegur. Æðsta gildi hennar er fólgið í lífinu sjálfu. Ekkert annað gildi getur komið í stað þess. Engin abstrakt hugsjón, enginn sannleikur, ekkert algildi. Hún bíður heldur ekki annars lífs í öðrum heimi, handan sinnar eigin jarðnesku tilvistar. Hún vill lifa hér og nú og deila lífi sínu með öðrum, ekki seinna, handan þeirrar vistarveru sem er hér og nú. Ef Antigónu er umhugað um dáinn bróður sinn, þá er það ekki vegna sérstaks áhuga hennar á dauðanum eins og oft hefur verið sagt. Hún vill þvert á móti varðveita lífið.
Antigóna biður ekki um hitt eða þetta, hún biður einungis þess að lifa, að vera. Það sem menn hafa lýst og jafnvel fordæmt hjá Antigónu sem ástríðu hennar gagnvart hinu algilda, er hins vegar skýrt merki um löngun hennar til lífsins, til verunnar. Hún berst ekki í nafni einhvers utanaðkomandi og framandi algildis, heldur fyrir lífinu og verunni.
Sérhver lífvera er algildi á meðan hún er trúföst lífinu. Lífið kallar á að sérhver varðveiti sig sem ein heild og verði ekki að hlut eða fyrirbæri sem menn yfirfæra ástríður sínar á. Það er ekki rétt að Antigóna vilji allt hér og nú, eitthvað utanaðkomandi allt, en að deyja ella. Hún vill vera þetta allt sem felst í því að vera lifandi vera. Hún vill lifa en ekki deyja. Að vera og verða áfram lifandi vera kallar ekki á eignarhald tiltekinna hluta, heldur að vera einhver.
Virðingin fyrir reglu frjóseminnar
Að vera lifandi vera kallar á lífvænlegt umhverfi: það er ekki hægt án lofts, án vatns, og heldur ekki án ljóss og hita sólarinnar og frjósemi jarðarinnar. Að vera einstaklingur sem lifir í raun og veru kallar einnig á takmörk. Takmörkin eru okkur sett af nauðsyn sjálfs lífsins, meðal annars af umhverfi þess, en einnig af sambandinu við aðrar lífverur, sérstaklega þær sem eru af sömu tegund. Takmörkin í samböndum mannfólksins eru sett af ættfærslunni og hinum kynbundna mismun.
Ættfærsla hefur í þessu sambandi aðra merkingu en þá sem við höfum alist upp við. Yfirleitt skiljum við ættfærsluna út frá sjónarhóli hins hefðbundna feðraveldis. Það á sérstaklega við um skipulagningu fjölskyldunnar, en ekki bara það. Ein höfuðorsök harmleiks Antigónu og um leið einn lærdómurinn sem hún færir okkur, er sú staðreynd að feðraveldið hefur verið staðfest með bælandi sjálfdæmi. Í stað þess að vinna að sáttargjörð á milli ættfærslu til móður og föður hefur annar aðilinn reynt að keyra yfir hinn. Hins vegar hefur hvor aðilinn um sig sín sérstöku gildi fram að færa til menningarinnar.
Hin móðurlega ættfærsla er lífinu hliðholl, viðkomunni og uppvextinum. Hún byggir á óskráðum lögum er gera ekki skýran greinarmun á hinni borgaralegu og trúarlegu reglu. Fjölskyldan sem slík er henni ekki algild forsenda með sama hætti og hjá feðraveldinu. Hún veitir dætrunum forgang, og síðan yngsta syninum sem erfingjum. Þessi forgangsatriði byggja á viðgangi sjálfrar viðkomunnar, en ekki á erfðagildi efnislegra hluta, hlutverka eða nafna.
Augljóst er að Antigóna reynir að vera trú þeirri móðurlegu reglu og menningu sem Kreon eyðileggur þegar hann beitir fyrir sig þóttafullu valdi, sjálfskipuðum lögum og orðræðum. Auk skuldbindinga sinna gagnvart lífinu, þá er Antigónu umhugað um yngri bróður sinn, þann sem ekki nýtur arfsins samkvæmt hinni föðurlegu ættfærslu, heldur er „sonur mömmu sinnar“. Aðrir hlutir í harmleiknum eru til vitnis um hina móðurlegu ættfærslu: við sjáum þá í orðræðu kórsins og málflutningi spámannsins, en einnig í upphafi leiksins, í samræðu tveggja systra sem með áberandi hætti eru holdgervingar vandans sem skapast gagnvart trúmennskunni við hin móðurlegu gildi annars vegar og undirgefni undir vald Kreons hins vegar. Áhugavert er að sjá hvernig málfarsleg samskipti þeirra hefjast í miðmynd (medio-passivo)[iv] – grískri setningaskipan er sýnir að tveir sameinast um gjörninginn, jafnvel með ólíkum hætti í sömu heildinni, en þessi mynd sagnorðsins hverfur síðan í textanum, eftir að til aðskilnaðar hefur komið á milli systranna út frá tveim hefðum ættfærslunnar.
Sú röksemd sem notuð er til að réttlæta bælingu hinnar móðurlegu reglu byggir á þeirri skoðun að blóðskömm hafi verið algeng innan hennar. Hvað mig varðar, þá hef ég enga trú á því. Almenn iðkun blóðskammar kemur frekar til sögunnar eftir bælingu hinna óskrifuðu laga mæðrareglunnar, reglu sem er orðlögð fyrir siðvendni sína, þar sem enginn vafi leikur heldur á því hvert móðernið sé. Það sem þá getur gerst er samkomulagið um ástina, utan ramma fjölskyldu sem lýtur stjórn feðraveldisins. Gyðjan sem er dýrkuð í slíku tilfelli er Afródíta frekar en Hera, en Hera er gyðjan sem hefur yfirumsjón með þeirri fjölskyldu feðraveldisins sem illa sættir sig við Afródítu, gyðju sem andæfir gegn einangrun ástarinnar innan ramma hinnar nýju fjölskyldustofnunar.
Í harmleiknum Antigóna ákallar kórinn Afródítu sem gyðjuna er fer með stjórnvald ásamt með valdhöfum heimsins og hefur vald til að setja spurningu við fjölskyldu feðraveldisins í nafni löngunarinnar og ástarinnar. Þessi lofgjörð til Afródítu á sér stað eftir uppreisn Hemons gegn Kreon föður sínum vegna ástarinnar, ástar sem er að springa af löngun til hinnar óspjölluðu Antigónu. Samkvæmt kórnum er Antigóna sú sem fer með sigur af hólmi í banvænum átökum þessa harmleiks, þrátt fyrir dauða hennar og Hemons, þar sem löngunin vinnur sigur á því valdi sem reynir að undiroka báða aðila innan ramma hinna nýju fjölskyldutengsla.
Raunin er sú að það er Afródíta sem virðir hina siðferðilegu reglu samkvæmt hinni móðurlegu hefð, að minnsta kosti í byrjun. Löngun og ást, löngunin undir merki ástarinnar, lúta þá vissum lögum sem ásamt öðrum mikilvægari lögum eiga hlutdeild í stjórn heimsins. Blóðskömmin, sem væri þá orsök þess harmleiks sem Antigóna upplifir, reynist ekki eiga rætur sínar í mæðrareglunni eða reglu Afródítu. Hana má frekar rekja til afturhvarfsins til þess afnáms hins kynbundna mismunar sem umdeilanleg stofnun feðraveldisins hefur valdið. Þar gerist það að móðirin glatar sinni eiginlegu sjálfsímynd og ástmennirnir mismun sínum.
Samkvæmt minni vitneskju, þá er blóðskömm Ödipusar hvorki einstök né einsdæmi. Hann stendur fyrir ímynd eða skapgerð sem birtist samfara þeirri menningu sem þarna verður til. Maðurinn dettur niður í óreiðu og skort á aðgreiningu varðandi uppruna sinn og hneigðir, einmitt vegna þess að þessi nýja menning vill þurrka út hina kvenlægu og móðurlegu sjálfsímynd og gildi hennar.
Heimurinn sem maðurinn býr til með rökhugsun sinni er hliðstæða við þann náttúrlega og upprunalega heim sem hann vill ná valdi yfir. En þessi aðskilnaður á milli meintrar náttúru og valdsins yfir henni í gegnum hina karllægu menningu leiðir til tveggja tilbúinna heima, sem eru í vissum skilningi hvorugkyns, sem samsvara ekki lengur hinni lifandi veru og umhirðu hennar, þar sem fyrst er horft út frá veru karlmannsins. Þannig má skilja blóðskömmina sem tilfinningaþrungna eftirsjá og afturhvarf til upphafsins, og menninguna sem tilraun til að vaxa út úr því ástandi með allri þeirri tvíræðni sem fylgir slíkum tilburðum. Karlmaðurinn hefur engan möguleika á að höndla eigin sjálfsímynd og hann heldur áfram að leita hennar í tveim heimum sem skortir aðgreininguna því þessir heimar hafa verið búnir til með eyðingu hins móðurlega og kvenlega mismunar. Leit karlmannsins leiðir frá hnignandi afturhvarfi blóðskammarinnar til eins konar hvorugkyns í óskilgreindri mynd eða til þeirrar „maður er“-hugsunar, sem aðgreinir sig frá hinum einungis í gegnum eignarhaldið eða völdin; nokkuð sem með einhverjum hætti jafngildir hegðun óbeinnar blóðskammar.
Útlegðin frá fyrstu sjálfsímyndinni, og frá upprunalega íverustaðnum, skilur manninn eftir blindan og ráðvilltan í þeim tilbúna heimi sem hann hefur skapað. Og þessi blinda virðist henta manninum vel. Þegar Ödipus komst að því að hann hefði átt ástarsamband með móður sinni stakk hann úr sér augun í stað þess að læra að virða þá persónu sem hann hafði girnst. Mistök hans kenna honum ekki að horfast í augu við og leiðrétta skort sinn á skilningi gagnvart náunganum. Þvert á móti velur hann að auka hættuna á nýjum mistökum með því að stinga úr sér augun. Hann tvöfaldar blindu sína í stað þess að reyna að verða sá sem er þess megnugur að sjá. Hann ætlar ekki að afneita því að hann hafi látið laðast að móður sinni með aðdáun og löngun sem samsvarar því að eiga með henni blinda snertitengingu hins móðurlega heims, þar sem mismunurinn er ekki enn kominn til sögunnar og hin hlutlausa skynjun verður ráðandi í nautninni.
Það er ekki hrein tilviljun að Antigóna varð leiðsögukona Ödipusar eftir að hann hafði misst sjónina. Antigóna gerir sér grein fyrir muninum á föður sínum og ást hans, því hún virðir lögmálið sem varðar lífið, tímgun þess og viðkomu. Hún veit að hún verður að huga að reglu lifendanna áður en hún gengur að eiga Hemon. Friðþæging eigin löngunar án þess að hafa sýnt lífinu virðingu sína, lífheiminum og skilyrðum tímgunar og viðkomu, er hugsun sem á sér engan stað í hinum siðferðilega heimi Antigónu.
Virðingin fyrir kynbundnum mismun
Náttúran sem slík lætur margvíslegan mismun viðgangast og blómstra. Það er enginn skortur á mismun í náttúrunni eins og hin vesturlenska karllæga hefð, sem reynir að temja hana, hefur haldið fram. Þvert á móti þá er náttúran margskiptari en sá tilbúni heimur sem maðurinn hefur skapað, og hún kallar á reglu sem hin upprunalega gríska menning reyndi að hafa í heiðri. Hin náttúrlegu misræmi byggja líka minna á stigveldisreglu, því sérhver er trúr eigin uppruna, uppvexti sínum og blómgun, en er ekki staðlaður út frá undirokun þess einvíddarheims sem viðurkennir einungis mismun í magni.
Á meðan mennirnir sýna náttúrlegu umhverfi sínu virðingu lifa þeir meðal ólíkra. Tegundin maður hefur að geyma mismunun sína, því hún er mynduð af tveim. Það er ekki sérlega mannlegt að nota þessa skiptingu einungis til viðkomu og fjölgunar tegundarinnar. Að nota mismuninn sem stað handanverunnar[v], þeirrar handanveru sem er innrituð í sjálfa náttúruna, virðist hins vegar hið eiginlega einkenni mannsins.
Staðurinn þar sem hinn mannlegi mismunur birtist er á milli bróður og systur. Í okkar hefð greinir maðurinn sem slíkur sig ekki nægilega vel frá heimi móðurinnar eða frá hvorugkyns-einstaklingi polis (borgarinnar) og ríkisins. Með þversagnarfullum hætti eru eiginmaður og eiginkona ekki aðgreind út frá ólíkum sjálfsímyndum þeirra, heldur út frá ólíkum hlutverkaskiptum þeirra hvað varðar viðkomu og foreldraábyrgð. Þau eru í þjónustu náttúrunnar, en eingöngu hvað varðar lífsbaráttuna og viðkomu mannkynsins. Það sem einkennir hjónin í okkar hefðbundna fjölskyldumynstri er ekki hin kynbundna sjálfsmynd. Og kannski urðu Hegel á mistök hvað þetta varðar, að minnsta kosti að hluta til. Hann er áfram í hlutverki sonarins út frá sjónarhóli sinnar upprunalegu fjölskyldu í stað þess að staðsetja sig sem faðir innan þeirrar fjölskyldu sem hann hafði sjálfur myndað. Í raunveruleikanum hafði þessi fjölskylda ekki enn litið dagsins ljós, og kannski er hún enn ekki til.
Rétt eins og Sófókles gerir í harmleik sínum, þá ruglar Hegel saman manninum og Kreon eða Ödipusi, og konunni ruglar hann saman við Antigónu eða Ismenu þar sem eingöngu er horft til kynbundinna hlutverka eða verksviða þeirra, en ekki í ljósi hinnar kynbundnu sjálfsmyndar sem slíkrar. Hann staðsetur manninn í tilteknu pólitísku hlutverki án raunverulegrar kynbundinnar sjálfsmyndar. Þannig ítrekar Kreon karlmennsku-sjálfsímynd sína í gegnum sjálfdæmis-dómsvald en ekki út frá eiginlegri sjálfsmynd er feli í sér sérstakt samband innan íverunnar (immanenza) og handanverunnar (transcendenza). Í vissum skilningi er Kreon kynleysingi (eunuco) með sama hætti og Ödipus, þó með öðrum hætti sé. Þeir hafa báðir kastað kynbundinni sjálfsímynd sinni á glæ vegna skorts á aðgreiningu frá heimi móðurinnar. Þetta gerist við það að bindast þessum heimi móðurinnar eða gera uppreisn gegn honum, einkum í gegnum kvenhatrið. En þetta dugir engan veginn til þess að ná að fullmóta og þroska eiginlega sjálfsímynd.
Antigóna er sú sem staðfestir að kynbundin sjálfsímynd sé til, og að hana beri að virða. Ef hún stendur vörð um reglu kynslóðanna, þá er það einnig vegna þess að hún leiðir hina kynbundnu sjálfsmynd í ljós. Ekki þó í gegnum eiginmanninn og eiginkonuna, sem eiga sér það framtíðarhlutverk að verða móðir og faðir, heldur í gegnum bönd systur og bróður, í þeim stað þar sem ljóst verður að hvorki móðirin né faðirinn gætu staðið fyrir einn og óskiptan kynlausan uppruna er væri niðurstaða náttúrlegs eða tilbúins afnáms mismunarins. Á milli bróður og systur verður ættfærslan að getnaði tveggja ólíkra og láréttra sjálfsmynda. Birtingarmynd handanveru kynbundinnar sjálfsímyndar í tengslum við líkamann.
Okkar náttúrlegi uppruni og rætur færa okkur þannig handanveru og hreina efnislega ættfærslu eða aðgreiningu gagnvart öllum lifandi verum að mannfólkinu meðtöldu. Það er ekki lengur nauðsynlegt að fela náttúrlegan uppruna okkar til þess að höndla menninguna. Uppruninn færir okkur menningarlegan sjónarhól: handanveru hinnar kynbundnu sjálfsmyndar okkar er svarar ekki aðeins til líkamlegrar sjálfsmyndar okkar, heldur einnig til menningarlegrar sjálfsmyndar, því hún er uppspretta annars konar heims fyrir konuna jafnt sem manninn.
Merking þess að veita Polineikosi greftrun felur fyrir Antigónu í sér varðveislu heims handanveru sem tilheyrir ekki bara hinum dauðu, heldur fyrst og fremst heimi bróður hennar, sem er sjálfsímynd af annarri gerð en hennar eigin. Þessi annar heimur er reyndar ósýnilegur: hann takmarkar sjóndeildarhring sem við getum ekki séð. Það þýðir hins vegar ekki að hann tilheyri einfaldlega næturmyrkrinu eða undirheimunum, heldur að hann verði áfram óyfirstíganleg hindrun getu okkar til að sjá, skilja eða gerast staðgengill þess sem ekki tilheyrir sömu kynbundnu sjálfsmynd. Vissulega getum við skynjað einhver efnisleg merki mismunarins: til dæmis kynfærin, en ekki merkingu þeirra fyrir einstaklinginn eða mótun sjálfsveru hans. Mótun og skipulagning heims tiltekinnar kynbundinnar sjálfsveru er ósamræmanleg því hvernig sjálfsvera af öðru kyni mótar sinn heim. Hvorugt þeirra getur skynjað til botns þann heim sem hinn aðilinn mótar raunverulega og dvelur í. Þar er óhjákvæmilega um handanveru að ræða. Með því að viðurkenna þessa handanveru verður mannkyninu kleift að komast út úr heimi hins óaðskilda og ganga inn í menningarheim tengslanna. Sú vídd handanveru sem er til staðar eða ætti að vera til staðar á milli tveggja ólíkra kynbundinna sjálfsvera getur tryggt mannkyninu menningarlega reglu sem er þess megnug að verja okkur gegn því að falla ofan í óskilgreinanleikann, sérstaklega hvað varðar heim móðurinnar og hvers kyns blóðskammar er á rætur sínar í óleystum tengslum við hinn móðernislega uppruna.
Sambærileg handanvera verður fyrst til á milli systur og bróður. Skilningur á henni og virðing fyrir henni opnar fyrir nýtt menningarlegt tímaskeið sem er samstíga viðbrögðum Antigónu, tímaskeið er gæti leitt til þess að goðsögn hennar öðlaðist sinn sess í Sögunni. Skynjunin á handanveru heims hinna, þar sem fyrsta skrefið er skynjun handanveru þess sem hefur aðra kynbundna sjálfsveru. Hún samsvarar grundvallar hinseginveru sem er algild og óyfirstíganleg og skilgreinir takmörk eigin heims um leið og hún gerir okkur kleift að stíga út úr skynjun og byggingu heims einsemdarinnar yfir í ræktun og menningu samskiptanna. Heimur einsemdarinnar verður ávallt með vissum hætti náttúrlegur og sjálfsprottinn. Og okkar vestræna menning verður sjálf að hluta til á náttúrlega sjálfsprottnu sviði, því hún byggir á skynjun og byggingu sjálfsverunnar – alltaf það sama – þar sem hinir kynbundnu þættir og áhrif þeirra verða ekki sóttir til saka af sjálfsveru af öðru kyni.
Sambærileg tilhneiging hefur gert vart við sig á síðari tímum, og hvetur okkur til að ganga inn í nýtt tímaskeið sem hefst með þeirri náttúrlegu sjálfsprottnu hvatvísi sem enn er virk í okkar samfélagi, bæði frá hendi karla og kvenna. Augljóslega er ekki um það að ræða að hverfa aftur til hreins náttúrlegs uppruna og að stefna í átök hvert gegn öðru í nafni okkar ólíku og sjálfsprottnu skynjana og tilfinninga. Slíkt leiðir okkur til persónulegs og félagslegs afturhvarfs. En einnig til styrjalda , meðal annars á milli kynjanna, styrjalda sem enda í tóminu því hinar kvenlægu og karllægu sjálfsmyndir mynda ekki tvo hluta einnar sjálfsmyndar, sem hægt væri að höndla í gegnum andóf og átök. Hin kvenlæga sjálfsmynd og hin karllæga tilheyra tveim ólíkum heimum – en ekki tveim hlutverkum, tvenns konar verkefnum eða skapgerðum – sem eru ósamræmanlegir. Þessir tveir heimar verða að búa til þriðja heiminn í gegnum samskipti sín á grundvelli mismunarins, þriðja heiminn sem tilheyrir hvorugum aðila, heldur er skapaður af báðum í gegnum virðingu fyrir gagnkvæmum mismun.
Öfugt við það sem Hegel sagði, þá felst vandinn ekki í að smætta tvo niður í einn, heldur að geta af sér þann þriðja út frá þeim tveim sem hafa lagt rækt við sinn náttúrlega hóp en ekki afskrifað hann eða afvopnað. Þessir tveir ólíku heimar eiga ekki að mætast í þeim tilgangi að leysa, afmá eða yfirstíga mismun sinn, heldur eiga þeir í sinni siðferðilegu viðleitni að samþætta það verkefni að skapa nýjan heim á forsendu þeirrar frjósemi sem falin er í þeim ólíku hópum sem þeir tilheyra. Með öðrum orðum þá þurfa hinar kynbundnu sjálfsímyndir að vera teknar alvarlega við mótun menningar er byggir á tengslamyndun og þar sem ekki má horfa framhjá sérleika þeirra, þannig að hann verði virkur í undirvitund okkar við úrvinnslu sannleikans og viðbragða okkar í daglegu lífi.
Óyfirstíganlegur harmleikur
Að sýna kynbundinni hlutdeild okkar virðingu felur að hluta til alltaf í sér harmleik. Sérhvert okkar verður að holdgera sannleika eigin sjálfsmyndar og ekkert annað; að leiða hann inn í Söguna verður óhjákvæmilega harmsögulegur gjörningur, því hin kynbundna löngun okkar leitar allaf hins óendanlega og algilda, á meðan Sagan á sín mannlegu takmörk. Við það bætist að hinn kynbundni sannleikur er og verður að vera tveggja, og hver og einn þarf að ráða sínum kynbundnu örlögum í einsemd, með virðingu fyrir hinum, þessum örlögum sem leita lengra en að fæðast í heiminn sem nafnlaus líkami.
Aðgreining kynbundinnar sjálfsmyndar frá kynferðislegu aðdráttarafli felur einnig í sér harmsögulega nauðsyn sem siðferði Antigónu er til vitnis um. Hún þarf að horfast í augu við kynbundna handanveru bróður síns áður en hún getur gifst sínum heittelskaða. Greftrun Polineikosar felur í sér að kynbundinni stöðu bróður hennar sé veitt varanleg trygging, nánast ódauðleg trygging eftir dauðann. Þetta er nauðsynlegt til að vernda hann gegn því að vera til einungis sem líkami, sá sami og hún sjálf og sérhver annar. Að hann sé smættaður niður í einfalt hlutlaust hlutverk eða verkefni: örlög sem hin nýja vestræna menning hefur tileinkað Kreon og Ismenu áður en hún var yfirfærð á okkur öll. En það jafngildir afmáun mismunar okkar í nafni opinberrar virkni er hindrar okkur stöðugt í að mætast eða giftast með virðingu fyrir mismun okkar.
Sem betur fer veitir Antigóna viðnám gegn hrörnun okkar mannlegu sjálfsmyndar sem þarna upphefst. Í ólíkum textabrotum úr Fyrirbærafræði andans spyr Hegel sjálfan sig þeirra spurningar hvort leiðangur Antigónu sé ekki hafinn yfir píslarsögu sjálfs Krists. Slík spurning er ekki ógrunduð. Það er sama hversu margar þær athugasemdirnar eru um Antigónu, þar sem hið mannlega er aðskilið frá hinu guðdómlega, þá fer það ekki milli mála að hún stendur vörð um lög sem gera ekki greinarmun á borgaralegum og trúarlegum skyldum. Vissulega felur þetta ekki í sér neina bókstafstrú, því bókstafstrúin er eðli sínu samkvæmt félagsfræðilegt fyrirbæri. Borgaraleg og trúarleg skylda sameinast í þeirri virðingu sem Antigóna ber fyrir náunganum sem handanvera gagnvart henni sjálfri, þar sem gengið er út frá bróður hennar, syni móður hennar.
Þegar leið okkar liggur frá hinu einstaka yfir í hið samfélagslega felur það oftar en ekki í sér að við horfum framhjá eða gleymum mikilvægi hins kynbundna mismunar okkar á milli. Upphaflega og í sérhverju tilfelli á þessi mismunur sér stað á mikli tveggja ólíkra aðila, mismunur sem myndar takmörk og kallar fram eins konar dauða þegar vikið er frá stundlegum náttúrlegum viðbrögðum yfir í menningarlega handanveru við samskiptamyndun hér og nú.
Slík handanvera er algild og á við um alla og allar í gjörvöllum heiminum. Það nægir að hafa hugann við hin óskráðu lög sem eru innrituð í sjálfa náttúruna: virðingin fyrir lífinu, fyrir viðkomu þess, fyrir vexti þess og blómgun, og svo virðingin fyrir hinni kynbundnu handanveru okkar á milli. Þessa virðingu þarf fyrst að vekja á milli barna sömu móður, en í víðari skilningi á milli allra barna mannkynsins, barna þeirrar móður náttúru sem við erum öll komin af, hvar sem við annars stöndum innan þeirra meira og minna tilbúnu félagsfræðilegu flokkunarkerfa sem skilja okkur að.
[i]Speculum, l‘autre femme, var fyrsta bók Irigaray frá 1975, og jafnframt það verk sem hvað mesta athygli hefur vakið.
[ii] Ekki er nákvæm tilvísun hér í versið í harmleiknum , en um er að ræða hin frægu varnaðarorð kórsins um dyggðir og hroka mannsins (vers 332-383). Hér er um endursögn eða þýðingu Irigaray að ræða, en í þýðingu Helga Hálfdánarsonar gætu þessar línur átt við: „Hinn sem veður í hroka og lygð,/ hatur magnar og glepur þjóð, / finnur seint með sín afbrot ill / athvarf í mínum griðarstað“ (vers 369-374).
[iii] Hér er vitnað í eftirfarandi vers í íslenskri þýðingu Helga Hálfdánarsonar: „Ég sat á mínum stað við fugla-spá, / og lagði hlust við hverju því sem bærði væng. / Þá barst mér gnýr til marks um ókennt fugla flug; / þeir brýndu ramma raust og hófu heiftar-org, / og slitu loks hver annars hold með hvassri kló; / það eitt réð ég af vængjataktsins villta þyt. / Þá kveikti ég með kvíða sárum fórnar-bál, / svo risi brátt af blóðgum stalli loga-teikn. / En eldsins guð gaf engan funa; mergur rann / úr beina-knosi gegnum ösku-glóð með fnyk / og snarki, gallið blés upp, þar til blaðran sprakk / og öllu spjó, en onaf bógnum mörinn rann / í fitu-brák, unz berum hnútum krofið skaut…“ (vers 999-1011)
[iv] Miðmynd er setningarfræðilegt hugtak um form sagnorða: germynd, miðmynd, þolmynd. Til dæmis að gera e-ð (germynd), gerast (miðmynd)og vera gerður (þolmynd). Miðmyndin er kynlaus hvað varðar gerandann, getur vísað til beggja kynja eða ólíkra gerenda.
[v] Hugtakið „handanvera“ hefur í lúterskum sið verið nær eingöngu notað um þá veru sem er handan þessa jarðneska heims. En í þessu samhengi merkir handanvera þann hæfileika að ná út fyrir manninn sjálfan sem einstaklingur til hins, sem er náunginn. Handanvera í þessum skilningi lýsir þannig gagnkvæmu sambandi mannsins við náunga hans og umhverfi í heild sinni, en hefur ekki með þá handanveru að gera sem býr „handan dauðans“.
________________________________
Forsíðumyndin er vatnslitamynd eftir Jules-Eugène Lenepveu frá seinni hluta 19. aldar og sýnir Antigónu færa bróður sínum dreypifórn
Í tilefni Jónsmessunnar varð mér hugsað til eftirminnilegrar Jónsmessuhátíðar sem ég átti með fjölskyldunni í sjavarþorpinu Acitrezza undir hlíðum Etnu á Sikiley fyrir 3 árum síðan. Þetta var heitur júnímánuður, sólin brennandi hátt á lofti og það fór ekki framhjá neinum að það var mikið í vændum: Jóhannes skírari er verndardýrlingur þessa töfraslungna fiskimannaþorps sem hefur tekist að varðveita hefðir sínar og umhverfi í ólgu samtímans, og það voru uppi götuskreytingar um allan bæ, en þó einkum á dómkirkjutröppunum fyrir ofan höfnina.
Hvarvetna voru rauðir borðar og dúkar til að minna á komu Jóhannesar í bæinn, og ljósadýrðin var mikil um allan bæ eftir sólsetur um níu-leytið þegar efnt var til tónleika fyrir neðan dómkirkjuna.
Það var þó einkum þar sem hátíðahöldin fóru fram og hófust með lúðrablæstri á torginu um miðjan dag. Ég vissi ekkert um þær hefðir sem lágu á bak við þessa hátíð, en þegar lúðrasveitin var búin að þeyta lúðra sína og sælgætissalarnir að bjóða litríka sykurmola til barnanna og lögreglan mætt til að stjórna umferðinni, þá kom að því að kardínálinn með bleiku kollhúfuna, biskupinn og presturinn og borgarstjórinn mættu á torgið og þegar ég fylgdi í humátt á eftir þeim sá ég að kirkjan var þegar troðfull af fólki. Flestar konur í Acitrezza voru í appelsínurauðum skyrtum þennan dag, en margir karlmenn höfðu líka appalsínurauðan hálsklút. Ég tók upp símann minn og myndaði það sem fyrir bar í þessari messu, án þess að vita hvað var í vændum.
Nú þegar ég ryfja þetta upp reyni ég að finna myndskot af því sem gerðist, en í upphafi var mikið skrafað og talað í kirkjunni, allt þar til presturinn steig í stólinn og bað um þögn, því þessi stund væri hugsuð til hugleiðslu um píslarvottinn og skírarann Jóhannes, sem héldi verndarvæng sínum yfir sjómannafjölskyldunum og öllum íbúm Acitrezza. Þetta var löng athöfn sem söfnuðurinn virtist þekkja fyrirfram, presturinn talaði lengi í bundnu máli og söfnuðurinn svaraði með taktföstum hætti, auk þess sem orgelspil og söngur kom á milli ljóðalesturs og predikunar. Athöfnin var löng og það kom í ljós að hún var markviss undirbúningur hámarks athafnarinnar, sem fólst í því að eins konar skápur yfir altari opnaðist hægt og þar birtist við mikinn fögnuð safnaðarins helgimynd dýrlingsins, málað og uppljómað líkneski í fullri líkamsstærð sem var fagnað með dynjandi lófataki, hrópum og köllum áhorfenda. Líkneskið var síðan borið út á kirkjutorgið og í gegnum götur bæjarins með viðeigandi stoppum og helgiathöfnum og fórnargjöfum til góðgerða.
Ég verð að játa að sem nokkuð reyndur fagmaður í listasögu og listheimspeki kom mér eitt mest á óvart: aldrei hafði ég séð myndlistarverk fá slíkar viðtökur með lófaklappi, hrópum og áköllun. Þetta var greinilega frelsandi atburður fyrir söfnuðinn og megintilefni messuhaldsins. Atburðurinn vakti þannig upp ögrandi spurningar um samband listar og trúar.
Ég fann einhverjar slitrur af myndbandsupptökum mínum frá þessari Jónsmessu í síma mínum í dag og setti saman í þetta myndband sem ég set hér inn á vefin í tilefni dagsins sem hefur misst sitt trúarlega hlutverk í heimi mótmælenda en lifir enn góðu lífi meðal kaþólskra Sikileyinga.