Á þessari vefsíðu vildi ég opna aðgang að einhverju úrvali af textum mínum um listir, menningu og mannlíf fyrir þá sem hafa áhuga á slíku efni. Síðan þjónar ekki síst þeim tilgangi að geta vísað nemendum mínum í Listaháskólanum og öðru áhugafólki um listir á tilteknar greinar eða texta sem hafa oft birst í fátæklegum sýningarskrám eða fágætum og sjáldséðum bókum, sem erfitt er að nálgast. Um leið þjónar síðan þeim tilgangi að koma reiðu á textasafn mitt sem enn er í minni eigu, en stór hluti skrifa minna er dreifður um víðan völl og ekki í minni umsjá lengur. Ég er búinn að setja nokkra texta hér á þessa vefsíðu og mun halda því áfram eftir efnum og ástæðum. Í mínum fórum er líka talsvert af þýðingum á efni eftir erlenda höfunda, einkum um myndlist og heimspeki. Þá á ég talsvert safn af eigin textum á erlendum málum. Vonandi tekst mér að setja eitthvað af því efni hér inn. Lesendum er velkomið að gera athugasemdir við skrif mín á þessari heimasíðu, sem hugsanlega gæti líka orðið vettvangur einhverra umræðna. Þetta er nýr vettvangur fyrir mig, og ég geri mér ekki enn grein fyrir hvað úr þessu verður, né hvernig þetta muni virka. En væntanlegum lesendum óska ég góðrar skemmtunar með von um að vettvangurinn geti opnað fyrir ný skoðanaskipti.

Athugið: hægt er að nota leitarvél á þessa vefsíðu fyrir efnisorð eins og höfunda, listamenn, hugtök o.fl. Leitarboxið er merkt „SEARCH“.