STEFNUMÓT VIÐ HEIDEGGER OG NIETZSCHE III.

Martin Heidegger:

Friedrich Nietzsche

Seinna bindi
Evrópsk tómhyggja
1940

Siðferðileg túlkun Nietzsche á frumspekinni

Þýðing út Martin Heidegger: Nietzsche, nuova edizione ampliata, a cura di Franco Volpi. Útg. Gli Adelphi, Milano 1994. Bls. 632 – 646

 

 Ef sannleikurinn, eða það að segja hið sanna og raunverulega, er yfirfært á hið ytra og upphafið í annan heim, þá birtist hið raunverulega eins og það sem sérhvert mannlegt líf verður að beygja sig undir. Hið sanna er það sem er í sjálfu sér tilskilið og æskilegt. Mannlífið dugar vel til einhvers og stýrist að hinum réttu dyggðum, einungis ef þær beinast ótvírætt að hinu tilskilda og æskilega og skapa þannig skilyrði fyrir framkvæmd þess sem tilheyrir skyldunni og  „hugsjóninni“ (ideale).

Sá sem beygir sig undir hugsjónirnar og leitast markvisst eftir að koma þeim í framkvæmd er hinn dyggðum prýddi maður, hið nytsama (tauglich) „góðmenni“.

Maðurinn sem beygir sig fyrir hugsjónum (ideali) og leggur sig fram við að uppfylla þær er hinn dyggðum prýddi maður, vinnusama góðmennið. Ef við hugsum þetta út frá skilningi Nietzsche, þá merkir þetta: maðurinn sem vill vera hann sjálfur, þetta „góðmenni“, reisir sér yfirskilvitleg hugsjónamörk er gera honum kleift að undirgangast þau í því skyni að tryggja sjálfum sér markmið í lífinu með þessari uppfyllingu hugsjónanna.

Sá vilji sem vill þetta „góðmenni“ er viljinn til að gangast undir hugsjónirnar og undir eitthvað sem stendur á eigin fótum og maðurinn á ekki lengur að hafa vald yfir. Viljinn sem vill „góðmennið“ og hugsjónir þess er vilji þessara hugsjóna til valds, og þar með viljinn til valdaleysis mannsins. Viljinn sem vill góðmennið er vissulega líka vilji til valds, en í formi getuleysis mannsins til valds. Hin æðstu gildi til þessa eiga þessu getuleysi mannsins það að þakka að þau hafa getað varpað hugsjónum sínum á hið yfirskilvitlega og upphafið sig í heim sem stendur „í sjálfum sér“ sem hinn eini sanni heimur. Viljinn sem vill „góða manninn“ og hið „góða“ í þessum skilningi er hinn „siðferðilegi“ vilji.

Þegar Nietzsche fjallar um siðferði á hann oftast við kerfi siðferðismats þar sem hinn yfirskilvitlegi heimur skipar afgerandi og eftirsóknarverðan sess. Nietzsche skilur „siðferðið“ alltaf á „frumspekilegum“ forsendum, það er að segja í ljósi þeirrar staðreyndar að með því eru heildarskilyrði verunnar ákvörðuð. Þetta gerist með platonismanum, þar sem veran er klofin í tvo heima, hinn yfirskilvitlega heim hugsjónanna, hins tilskilda og sanna í sjálfu sér – og þennan skynjanlega heim hinnar skylduræknu eftirsóknar eftir undirgefninni undir það vald sem hefur gildi í sjálfu sér og skilyrðir alla hluti vegna þess að það sjálft er skilyrðislaust.

Þannig getur Nietzsche sagt:

„Í sögu siðferðisins er tiltekinn vilji til valds sem tjáir sig með þeim hætti að ýmist þrælarnir eða hinir kúguðu, hinir misheppnuðu og þeir sem þjást af sjálfum sér eða meðalmennin, leitast við að fella gildisdóma yfir þeim sem vegnar betur (a loro piú favorevoli)“ [VIII, i, 319].

Sambærilega staðhæfingu má finna í n. 356:

„Lítillátur, samviskusamur, velviljaður, hógvær: viljið þið að maðurinn sé þannig gerður? Góðmennið? Mér virðist þetta vera lýsing hins fullkomna þræls, þræls framtíðarinnar.“ [VIII, iii, 275]

Og í n. 358:

Hinn fullkomni þræll (góðmennið). Sá sem ekki getur sett sjálfan sig sem „markmið“ getur heldur ekki boðað öðrum markmið, hann hyllir -af eðlisávísun- siðferði  sjálfsafneitunarinnar. Allt leiðir hann til þessa: forsjálni hans, reynsla og hégómi. Einnig trúin felur í sér sjálfsafneitun.“ [VIII, iii, 276]

Í stað þess að tala um sjálfsafneitun getum við einnig sagt: afneitun þess að setja sjálfan sig í sæti þess sem stjórnar, það er getuleysið gagnvart valdinu, „fráhvarf frá viljanum til að vera til“. Getuleysið gagnvart valdinu er hins vegar einungis „sérstakt afbrigði“ viljans til valds, og það felur í sér að: „þau gildi sem til þessa hafa setið í fyrirrúmi eru sérstakt afbrigði af viljanum til valds“. Boðun þessara gilda og yfirfærsla þeirra á hinn yfirskilvitlega heim sem manninum ber að undirgangast leiðir af sér „lítillækkun mannsins“. Öll sú frumspeki sem einkennist af því að boða yfirskilvitlegan heim sem sannan heim, heim er sé hafinn yfir hinn skynjanlega heim sem yfirskyn, er sprottin af siðferðinu  (siðalögmálinu /morale). Því höfum við þessa staðhæfingu:

„Að sannleikurinn sé yfirskyninu æðri er ekkert annað en siðferðislegur fordómur“. (Handan góðs og ills, n. 34, VII, 55 [VI, ii, 42]).

Í sama riti skilgreinir Nietzsche kjarna siðalögmálsins (morale) með þessum hætti:

„siðferði, skilið sem kenningin um valdaafstæði, en innan þessa afstæðis verður fyrirbærið „líf“ til.“ (Handan góðs og ills, n. 19; VII, 31 [VI, ii, 24]).

Og í Viljanum til valds finnum við þetta (n. 256):

„Ég skil „siðferði“ (siðalögmál) sem kerfi gildisdóma er falli að lífskjörum tiltekinnar veru.“

Það er rétt að einnig hér leggur Nietzsche skilning í siðferðið / siðalögmálin út frá „frumspekilegum“ hugtökum með vísun í veruna í heild sinni og almenna möguleika lífsins, en ekki út frá „siðfræðilegum“ hugtökum með tilliti til „lífsbreytninnar“, en hann hugsar ekki lengur um þau „siðalögmál“ (morale) sem skilyrða platonismann.

Í frumspekilegum skilningi  finnum við þannig einnig hjá Nietzsche „siðalögmál“ og „siðalögmál“. Annars vegar í víðari formlegum skilningi þar sem siðferðið (morale) merkir sérhvert kerfi gildisdóma og valdastöðu. Þar er siðferðislögmálið skilið svo víðum skilningi að einnig hin nýju gildisviðmið og hinar nýju valdastöður geta fallið undir „siðferði“ (morale), þó ekki væri nema fyrir þá staðreynd að þau setja lífsskilyrðin á oddinn. Hins vegar er hefur „siðalögmálið“ oftast þá merkingu hjá Nietzsche  að ná yfir kerfi gildisdóma er feli í sér þá boðun þeirra æðstu gilda í sjálfum sér, er séu skilyrðislaus bæði í skilningi platonismans og kristindómsins. Siðferðið er siðferði „góða mannsins“ er lifir á grundvelli andstöðunnar við hið „illa“ en ekki „handan góðs og ills“. Að því marki sem frumspeki Nietzsche stendur handan „góðs og ills“ og leitast umfram allt við að viðhalda þeirri stöðu sem frumforsendu, þá getum við sagt að Nietzsche sé „siðleysingi“.

Þessi nafngift felur þó ekki í sér að hugsun og sannfæring Nietzsche séu siðlausar í þeim skilningi að um sé að ræða afstöðu gegn hinu „góða“ og með hinu „vonda“. „Siðleysi“ merkir í þessu samhengi: handan góðs og ills. Enn og aftur: þetta felur ekki í sér afstöðu handan allra laga og allrar reglu, heldur afstöðu er kalli á nauðsyn nýrrar sýnar og annar reglu andspænis óreiðunni (Kaos).

Siðferði „góðmennisins“ á rætur sínar í þeim æðstu gildum sem svo hafa verið skilin til þessa. Góðmennið setur fram þessi gildi sem skilyrðislaus og ófrávíkjanleg. Þannig eru þessi gildi grundvöllur „lífs“ þess. En þar sem þetta líf er getulaust gagnvart valdinu kallar það á þann möguleika að geta horft upp til móts við hinn yfirskilvitlega heim. Út frá þessu getum við skilið hvað Nietzsche á við í lokaorðum orðskviðs nr. 12 um „yfirgengilega einfeldni“ (ingenuità iperbolica) mannsins.

Ef við hugsum „góðmenni“ siðaboðanna út frá frumspekilegum hugtökum, þá er þessi manngerð sá sem ekkert veit um uppruna þeirra gilda sem hann undirgengst sem skilyrðislausar hugsjónir. Þessi vanþekking á uppruna gildanna heldur manninum hins vegar í öruggri fjarlægð frá allri skilmerkilegri hugleiðslu um uppruna gildanna og þar með vitund um að þau eru skilmálar viljans til valds, fram sett af þessum sama vilja til valds.

Þannig reynist hinn sálfræðilega saklausi (einfeldingslegi) maður ómeðvitaður um uppruna mannlegra gildisdóma út frá valdinu. Þessi einfaldi maður sem býr við sálfræðilegt sakleysi (einfeldni) er þannig ómeðvitaður um uppruna mannlegra gildisdóma út frá valdinu. Því bregst hann við gildunum (tilgangi, einingu, heild) eins og þau væru honum utanaðkomandi, eins og þau væru himnasending og væru í sjálfu sér yfir hann hafin og því ekki til annars en að lúta þeim. Einfeldnin, rétt eins og vanþekkingin á að gildin, eigi uppruna sinn í mannlegum vilja til valds, og er í sjálfri sér „yfirdrifin“ (iperbolica – ύπεϱ βάλλειυ). Án þess að vera sér þess meðvitað varpar góðmennið gildunum út fyrir sjálft sig og upphefur þau til að vera það sem er í sjálfu sér. Maðurinn telur að það sem einungis er skilyrt af honum sjálfum sé þvert á móti  skilyrðislaust, nokkuð sem kallar hann til sýndarmennsku. Þetta er ástæða þess að Nietzsche lýkur endursögn sinni á uppruna átrúnaðarins á hin æðstu gildi í kaflanum um rökvísina í grein nr, 12 með eftirfarandi yfirlýsingu:

„Hin yfirdrifna einfeldni mannsins felst enn og ávallt í að boða sjálfan sig sem mælikvarða og merkingu gildis hlutanna.“

Þrátt fyrir þá skýru mynd sem hér hefur verið dregin upp af hinni „yfirdrifinu einfeldni“,  er enn til staðar hætta á djúpum misskilningi á þessari mikilvægu lokaniðurstöðu málsgreinar nr. 12 hjá Nietzsche. Í henni er falin of mikil samþjöppun stórrar hugsunar í stuttu máli, sem þar af leiðandi er auðvelt að misskilja.  Með vísun í þessa staðhæfingu Nietzsche mætti benda á að með bókstaflegum skilningi væri hægt að lesa úr henni hið þveröfuga við það sem okkar túlkun segir að sé kjarninn í hinni yfirdrifnu einfeldni. Ef barnaskapurinn fælist í vanþekkingu á uppruna gildanna út frá stöðu þeirra frá sjónarhóli mannsins í samræmi við getu hans, hvernig væri þá hægt að tala aftur um að það væri „yfirdrifin einfeldni“ að „boða sjálfan sig sem mælikvarða og merkingu hlutanna“? Þessi síðasta fullyrðing lýsir öllu öðru en einfeldni. Það er hin æðsta vitund mannsins sem gerir sjálfan sig sjálfbæran, hinn óskorni vilji til valds og hreint ekkert getuleysi gagnvart valdinu. Ef við ættum að skilja fullyrðinguna með þessum hætti væri kenning Nietzsche þessi:

„Hin yfirdrifna einfeldni“ felst í því að vera einmitt ekki einfaldur. En við getum ekki haldið því fram að Nietzsche væri fær um að orða svo heimskulega hugsun. Hvað felst þá í þessari fullyrðingu? Samkvæmt skilgreiningu Nietzsche á kjarna gildanna, þá á þetta einnig við um þau gildi sem haldið er fram án vitundar um uppruna þeirra og eiga sér mannlegar rætur, þannig að maðurinn setji sjálfan sig sem mælikvarða og merkingu gildisins: einfeldnin felst ekki í þeirri staðreynd að maðurinn setji gildin og telji sig vera merkingu og mælikvarða  þeirra. Maðurinn er einfeldningur að því marki sem hann telur gildin vera „kjarna hlutanna“ sem verða á vegi hans, án þess að gera sér grein fyrir að það er hann sjálfur sem hefur sett þau og að sá sem það gerir er tiltekinn vilji til valds.

Maðurinn er áfram fangi einfeldninnar þar sem hann lætur sem hann taki vitundina um að það sé hann og enginn annar sem setur gildin ekki alvarlega, og að þau geti einungis verið skilyrði sem hann sjálfur setur til varðveislu, tryggingar og eflingar eigin lífs. Við yfirborðskenndan lestur getur fullyrðingin fengið okkur til að trúa því að Nietzsche  kalli á þá upplifun og þá skilgreiningu hlutanna er útiloki alla manngervingu þeirra – í mótsögn við þá afstöðu einfeldninnar til gildanna sem færir mannleg gildi yfir á hlutina eftir hentugleikum og manngerir þannig allt sem er. En einmitt þessi túlkun fullyrðingarinnar væri röng. Það er ekki í manngervingu hlutanna sem villa einfeldninnar er fólgin, heldur í þeirri staðreynd að manngervingin sé ekki framkvæmd á meðvitaðan hátt.

Einfeldnin er í sjálfri sér vængbrotinn vilji til valds, því hann skortir vitundina um að eina sanna leiðin til að túlka heiminn er fengin með framsetningu heimsins í mynd mannsins og í gegnum manninn. Þetta er vandi sem frumspekin þarf endanlega að horfast í augu við af fullkomnu hispursleysi. Þau æðstu gildi sem fram til þessa hafa viðhaldið stöðu sinni og virðingu, hafa gert það vegna þess að maðurinn setti sjálfan sig sem merkingu og mælikvarða á gildi hlutanna. Þetta gerði hann án þess að vera sér þess meðvitaður, en hélt sig hins vegar við þá skoðun að það sem hann sjálfur setti fram, væri gjöf hlutanna sem þeir sjálfir hefðu fært honum.

Í hinni einfeldningslegu afstöðu til gildanna ríkir fyrst og fremst viljinn til valds, eins og í öllu öðru gildismati. En hér er viljinn til valds ennþá fólginn í getuleysi valdsins. Valdið er ekki ennþá virkjað hér með sama hætti og það vald sem er meðvitað um sjálft sig og er þar með eigin herra.

Það eru ástæður fyrir því að boðun hinna æðstu gilda yfirfærist á mannlega mælikvarða hjá Nietzsche. En manngerving (antropomorfizzazione) hlutanna er hér enn saklaus og því ekki skilyrðislaus. Því fyrst er hinn sanni uppruni gildanna -frá sjónarhóli valdsins – á huldu, en með vaknandi og rísandi sjálfsvitund mannsins getur slíkt ástand ekki varað til lengdar. Því gerist það að vaxandi vitund um uppruna gildanna grefur óhjákvæmilega undan tiltrúnni á þau.  Því gerist það að vitundin um uppruna gildanna og manngervingu hlutanna getur ekki lengur numið staðar við þá staðreynd að eftir afhjúpun á uppruna gildanna, og þar með eftir fall þeirra, muni heimurinn birtast okkur án gilda.

Þannig verður til skortur á öllum gildum og þar með á skilyrðum til lífs sem þannig yrði óbærilegt. Það sem óhjákvæmilega mun gerast andspænis yfirvofandi heimsmynd án gilda, heimsmynd þar sem hugsa þarf frá grunni endurmat þeirra gilda sem ríkt hafa til þessa, mun einnig ákvarðast og mótast fyrir fram af vitundinni um uppruna gildanna. Nietzsche hefur dregið saman þetta nýja verkefni í athugasemd frá árinu 1888, sem vottar um algjöra og ósættanlega andstöðu við  hina „yfirdrifnu einfeldni“. Þar segir:

„Ég vil halda því fram að öll sú fegurð og göfgi sem við höfum ljáð hinum raunverulegu og ímynduðu hlutum sé bæði eign og afurð mannsins: sem hin fegursta sjálfsvörn hans. Maðurinn sem skáld, sem hugsuður, sem Guð, sem ást, sem vald: ó, ég gleymi því konunglega örlæti sem hann hefur sýnt hlutunum. Allt til þess að lítillækka sjálfan sig og finna til smæðar sinnar og eymdar! Til þessa hefur þetta verið hin stærsta ósérplægni hans, að hafa dýrkað og dáð og kunnað að breiða yfir þá staðreynd að það var hann sjálfur sem skapaði viðföng aðdáunarinnar.“ (Viljinn til valds, XV, 241 [VIII, ii, 251-52]).

Það sem sagt er í þessari athugasemd er deginum ljósara. Manninum ber ekki lengur að ausa af örlæti sínu (elargire) eða lána eða jafnvel undirgangast þegnskyldu gagnvart því sem hann hefur einungis úthlutað einhverju utanaðkomandi eins og það væri honum lífsnauðsyn í eymd sinni. Honum ber hins vegar að gera eignakröfu á allt sem sína eigin eign, og það getur hann einungis gert ef hann frá upphafi er sér meðvitaður um að standa andspænis verunni í heild sinni, ekki sem vesalingur eða þræll, heldur rísandi upp allt til hinna skilyrðislausu yfirráða. Það felur hins vegar í sér að hann sjálfur sé hið skilyrðislausa vald, vald er sé sér meðvitað um herradóm sinn, og ákveði í vitund þessa að sérhver valdsgjörningur feli í sér eflingu þessa sama valds. Viljinn til valds er „lögmálið um nýja stöðu gildanna“. Viljinn til valds felur ekki bara í sér aðferðina og meðalið sem notuð eru til að framkalla gildin, heldur er þessi vilji sem kjarni valdsins hið eina grundvallargildi og mælikvarði allra hluta sem gera tilkall til gildis eða geta ekki gert kröfu til þeirra. „Sérhvert tilfelli, sérhver hreyfing, öll verðandi sem staðfestir afstöðu virðingar og valds, rétt eins og slagur…“ (n. 552 [VIII, ii. 43], vor – haust 1887). Sá sem lýtur í lægra haldi í slíkum slag hefur sem tapari rangan málstað og er ekki með sannleikann sín megin. Það sem lendir ofan á í slíkum slag er sem sigurvegari á bandi hins rétta og á bandi sannleikans.

Spurningin um út á hvað slagurinn gangi – væntingar um æskilegar niðurstöður – skiptir sífellt minna máli. Öll markmið slagsins, allar hvatningarnar og herópin tilheyra vopnum og verjum. Það sem um er slegist er þegar fyrir fram ákveðið: það er valdið sjálft, sem hefur enga þörf fyrir markmið. Það er án markmiðs, rétt eins og heild verunnar er án allra gilda. Þessi skortur á markmiðum er hluti af hinum frumspekilega kjarna valdsins. Ef hægt væri að tala um markmið í þessu samhengi, þá fælu þessi markmið í sér tilefnisleysi skilyrðislausrar yfirdrottnunar mannsins yfir jörðinni.

Maður þessarar yfirdrottnunar er Yfir-Mennið (Über-Mensch). Nietzsche er oft ásakaður um að hugmynd hans um Yfir-Mennið sé óskilgreind, að mynd þessarar manngerðar sé óhöndlanleg. Menn komast einungis að þessari niðurstöðu ef þeir hafa ekki skilið að kjarni Yfir-Mennisins felst í að yfirvinna þá mannsmynd sem hefur lifað af fram til þessa. Slíkir menn hafa þörf fyrir fyrirmyndir af ætt óskhyggjunnar, og þeir leita þeirra fyrir ofan sjálfa sig, þarna uppi. Yfir-Mennið hefur hins vegar ekki þörf fyrir þetta „efra“, þessa „handanveru“, því það sækist einungis eftir manninum sjálfum, og alls ekki út frá neinu sérstöku sjónarhorni, heldur einfaldlega eftir skilyrðislausum herra virkjunar valdsins – með þeim tækjum sem þessi jörð býður upp á og hafa reynst brúkleg í heildarvirkni sinni.

Sú skilyrðislausa staðfesta sem felst í hugsun Nietzsche um Yfir-Mennið byggir einmitt á þeirri staðreynd að Nietzsche hefur viðurkennt markleysu hins skilyrðislausa valds, jafnvel þó hann hafi aldrei komist beinlínis þannig að orði. Hið skilyrðislausa vald er hin hreina sjálfsefling  sem slík, skilyrðislaus yfirtaka, að vera ofan á og kunna að stjórna, hinn eini og æðsti tilgangur.

Þær ófullnægjandi útlistanir á kenningu Nietzsche um Yfir-Mennið sem við þekkjum hafa allar þá einu skýringu að hingað til hafa menn ekki getað tekið alvarlega heimspekina um viljann til valds sem frumspeki, og skilið hana á frumspekilegum forsendum  sem óhjákvæmilega grundvallar forsendu. Það felur í sér að hugsa kenningarnar um tómhyggjuna, Yfir-Mennið og umfram allt kenninguna um eilífa endurkomu hins sama út frá sögu kjarnans í vestrænni frumspeki.

Áðurnefnd tilvísun í Nietzsche  (um manngervinguna, innsk. þýð.) XV, 241 [VIII, ii, 251-521]) er ein sú skýrasta og fegursta þessarar gerðar frá hans hendi.  Nietzsche talar hér undir hádegisbirtu hins gjöfula anda sem sýnir okkur nútímamanninn sem hina skilyrðislausu miðju og hinn eina mælikvarða verunnar í heild sinni. Vissulega er þessi stutti kafli settur inn í útgáfu hins ófullgerða verks Nietzsche (Viljinn til valds) á fáranlega  staði og þannig tekinn út úr númerakerfi kaflanna svo að erfitt er að finna hann. Hann er að finna sem inngangsorð að fyrsta kaflanum (Gagnrýni á trúarbrögðin) í seinni bókinni (Gagnrýni hinna æðstu gilda til þessa). Innsetning þessa textabrots á þennan tiltekna stað sýnir kannski best hin vafasömu gæði útgáfunnar á Viljanum til valds. Þessar tilvísuðu setningar rekja með öruggum og einföldum hætti grunnatriðin í frumspeki Nietzsche.

Ef ætti að setja þessar setningar inn sem formála ætti hann að standa sem inngangur að öllu verkinu í heild sinni.

Um leið og við höfum enn einu sinni skýrt leið okkar að grundvallar spurningunum verður augljóst hvers vegna við höfum valið að vitna í þessar setningar einmitt hér.  Andspænis þeirri mynd sem Nietzsche sýnir okkur sem sögu frumspekinnar erum við knúin til að beita enn dýpra áhorfi er beinist að sögu frumspekinnar sjálfrar. Þetta knýr okkur jafnframt til að skýra enn betur þá mynd og þann skilning sem Nietzsche leggur í frumspekina. Fyrir honum er frumspekin „siðferðileg“.  Hér merkir hugtakið „siðferði“ kerfi gildisdóma. Sérhver túlkun á heiminum, hvort sem hún er framkvæmd með útreikningi eða einföldu innsæi felur í sér framsetningu gilda og þess vegna viðleitni til að móta heiminn í samræmi við mynd mannsins. Umfram allt er það setning gildanna sem gengur í fullri alvöru út frá hinni mannlegu forsendu gildanna sem aftur leiðir til fullnustu tómhyggjunnar. Þessi setning gildanna felur með ótvíræðum hætti í sér að bæði skilja og vilja manninn sem löggjafa. Hún þarf að leita hins sanna og raunverulega í skilyrðislausri manngervingu alls sem er.

Frumspekin er manngerving (antropomorfismo), þ.e. að sjá og túlka heiminn út frá ímynd mannsins. Eins og Nietzsche túlkar frumspekina, og umfram allt boðar hana sem heimspeki komandi tíma, skiptir meginmáli hvaða afstöðu maðurinn hafi til verunnar í heild sinni. Handan hugsunarinnar um gildin finnum við þar tengsl sem verða nánast óhjákvæmileg út frá frumspekinni um viljann til valds. Þessi frumspeki þvingar manninn af meiri festu en nokkur eldri frumspeki til  að setja sjálfan sig sem hinn eina og skilyrðislausa mælikvarða allra hluta.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: